2004-04-29 11:06:29# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Enn ræðum við stöðu mála varðandi viðræður eða viðræðuleysi milli stjórnvalda á Íslandi og í Bandaríkjunum um framtíð varnarstöðvarinnar á Miðnesheiði. Enn heyrum við sömu svörin, eða skort á þeim, frá hæstv. utanrrh. þegar eftir er leitað. Á sama tíma virðist eins og Bandaríkjamenn hafi ákveðið að draga skipulega úr umsvifum á Keflavíkurflugvelli, ekki með því að ræða við íslensk stjórnvöld um þann niðurskurð, heldur með því að framkvæma hann einhliða án nokkurs samráðs með því að skera niður fjármagn til reksturs stöðvarinnar. Þannig minnka þeir umsvifin verulega án þess að þurfa að hafa fyrir því að ræða við eða útskýra fyrir íslenskum stjórnvöldum hvað gangi á eða hver framtíðarstefna þeirra í málefnum stöðvarinnar sé.

Vilji bandarískra stjórnvalda til að draga úr umsvifum á Keflavíkurflugvelli liggur fyrir en þeir hunsa með öllu að því er virðist allt samráð við íslensk stjórnvöld og valda með því mikilli óvissu um framtíðina. Þetta þýðir um leið að íbúar á Suðurnesjum, sveitarstjórnarmenn, starfsmenn varnarliðsins og allir sem á nokkurn hátt koma að málinu eru einnig í algjörri óvissu og á engan hátt í stakk búnir til að vega og meta umfang þeirra breytinga sem til standa. Þetta er algjörlega óásættanleg staða og raunverulegar og formlegar umræður um framtíðarfyrirkomulag mála á Keflavíkurflugvelli mega ekki dragast umfram það sem þegar er orðið.

Þann 15. apríl sl. spurði hv. þm. Össur Skarphéðinsson hæstv. utanrrh. hvort hæstv. forsrh. sem þá var staddur í Bandaríkjunum mundi reyna að hreyfa þessu máli við bandarísk stjórnvöld meðan á heimsókn hans stæði. Fyrtist hæstv. utanrrh. við eins og hann gerir gjarnan þegar spurt er um þetta málefni og sagði að formlegir fundir um málefni eins og þetta væru skipulagðir með löngum fyrirvara, lagði áherslu á ,,löngum``.

Ég spyr því hæstv. utanrrh. hve langur slíkur fyrirvari þurfi að vera og hvort búið sé að setja niður fund eða hvort enn sé eingöngu verið að bíða viðbragða.