Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:13:44 (7425)

2004-05-03 19:13:44# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég mun koma upp í þessari umræðu síðar í kvöld og fara aðeins nánar í saumana á þessum málum. En hér er hv. þm. að staðfesta að með breyttu lagaumhverfi fjölmiðlanna þurfi að koma til móts við einkarekna fjölmiðla með því að draga úr auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins.

Árið 1989 var ég formaður nefndar sem samdi drög að frumvarpi um ný útvarpslög. Við fórum mikið í saumana á þessum málum, hvernig ætti að fjármagna Ríkisútvarpið. Niðurstaðan varð sú að ef dregið yrði úr auglýsingatekjum mundi það óhjákvæmilega hafa samdrátt í för með sér því að það væri mjög ólíklegt að samþykki fengist fyrir því á löggjafarsamkundunni að styrkja Ríkisútvarpið á annan hátt, með þá fjárveitingu úr ríkissjóði eða með því að hækka afnotagjöldin sem þessu nemur.

En nú er sem sagt verið að tala um að skerða tekjur Ríkisútvarpsins og þar með umfang þess. Það er þetta sem er meginhugsunin í mínu máli eða ég sé fyrir mér tvenns konar fyrirkomulag, annars vegar Ríkisútvarpið sem mótvægi einkarekinna fjölmiðla, og þess vegna mjög öflugra, og hins vegar lagaramma af því tagi sem við erum að ræða núna. En þá óttast ég að einmitt það muni gerast sem hv. þm. Jónína Bjartmarz er að boða. Þetta þurfum við að ræða miklu, miklu nánar.