Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:22:33 (7489)

2004-05-03 23:22:33# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:22]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að skoða megi þá leið að binda greiðslur við fasteignir. Það er eitt af því sem hefur verið í umræðunni og þarf að fara yfir. Ég ítreka að mér finnst alls ekki óeðlilegt og ekkert frumhlaup af hálfu hæstvirtra ráðherra að nefna að það kunni að vera rétt að afnema afnotagjöldin.

Af hálfu formanns Framsfl. er a.m.k. ekki hægt að halda því fram að þar sé um frumhlaup að ræða. Flokkurinn hefur markað sér stefnu í málefnum Ríkisútvarpsins og samþykkti hana á miðstjórnarfundi fyrir einum tveimur árum. Þar er einmitt fjallað um að það kunni að vera heppilegt að breyta um aðferð við fjármögnun Ríkisútvarpsins og afnema afnotagjöldin. Þó er tekið skýrt fram að sú breyting verði að taka mið af því að viðhalda sjálfstæði Ríkisútvarpsins, þannig að það verði einmitt ekki bundið pólitísku valdi við úthlutun fjármuna eins og hætt er við að verði ef stofnunin fer á fjárlög. Útvarpsstjóri hefur m.a. minnt á það í opinberri umræðu síðustu daga.