Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:19:31 (7655)

2004-05-05 14:19:31# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Þessar tölur sem hæstv. utanrrh. nefndi varðandi hversu margar sprengjur hefðu fundist á þessum æfingasvæðum hersins á undanförnum örfáum árum komu mér nokkuð á óvart. Ég held að talan sé eitthvað hátt í 2 þús. sprengjur. Það er alveg rétt sem hv. þm. Björgvin Sigurðsson benti á, það mætti halda að þarna hefði geisað stórstyrjöld. Svo er sem betur fer ekki.

Ég held að það sé einmitt mjög þarft og brýnt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, við ættum að leggja miklu meiri áherslu á að hreinsa til heima hjá okkur áður en við förum til annarra landa að leita þar að sprengjum. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því starfi. Ég tel mjög þarft og gott starf að við sendum sérfræðinga okkar einmitt til að hreinsa upp sprengjur á vígvöllum erlendis. Við mættum gjarnan gera meira af því. Írak, Afganistan, Kambódía, það eru ótal ófriðarsvæði, m.a. líka í Afríku, þar sem mikið er af jarðsprengjum sem þyrfti að hreinsa. Ég styð það starf fyllilega og af heilum hug. Fyrst að tækjabúnaður er fyrir hendi í landinu held ég að hreinsa ætti til á Reykjanesskaga sem fyrst.