Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:58:33 (7821)

2004-05-11 14:58:33# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að frv. til grundvallar liggur skýrsla sem unnin var af sérfræðingum og höfðu þeir verið við störf í marga mánuði áður en sérfræðigreinargerð þeirra kom fram. (Gripið fram í: Hve marga?) (Gripið fram í.)

Hér á þinginu hefur gefist tækifæri til að ræða niðurstöðu nefndarinnar en það er meginniðurstaða nefndarinnar að hér á landi sé komin upp afar óæskileg staða í fjölmiðlun, þ.e. að hér hafi átt sér stað meiri eignasamþjöppun en menn þekkja annars staðar og það er mat nefndarinnar að við þessu þurfi að bregðast. Nú þurfa menn að fara að taka pólitíska afstöðu í þessu máli og hætta að tala um málsmeðferðina. Það er kominn tími til að menn fari að taka afstöðu til þess hvort þeir ætli að bregðast við þessari stöðu eða ekki. (Gripið fram í: Er ekki allt í lagi ...?)