Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:40:33 (8111)

2004-05-13 20:40:33# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Strax eftir að ég heyrði hin makalausu ummæli meginforseta þingsins, hv. þm. Halldórs Blöndals, færði ég mig neðar á mælendaskrá, alveg neðst til að skapa svigrúm fyrir stjórnarliða þannig að við gætum haft eðlileg skoðanaskipti við þá um þessi mál.

Ég hygg að allir stjórnarandstæðingar á mælendaskrá séu tilbúnir að gera hið sama og ég, að færa sig aftar á mælendaskrá til þess að skapa svigrúm fyrir stjórnarliða í umræðunni.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þeim athugasemdum verði komið á framfæri við forseta þingsins Halldór Blöndal, 2. þm. Norðaust., vegna ummæla hans. Stjórnarandstæðingar eru reiðubúnir til samráðs við hann um að færa sig aftar til að skapa svigrúm fyrir alla þá stjórnarliða sem óska eftir að taka til máls. Það er makalaust að fylgjast með því hvernig tveir þeirra stjórnarliða sem hér hafa verið nefndir, Jónína Bjartmarz og Guðlaugur Þór Þórðarson, hafa sífellt fært sig neðar á dagskrána. Guðlaugur Þ. Þórðarson átti að vera á undan mér í fyrrinótt í þessari umræðu en hann færði sig neðar á mælendaskrá og er greinilega að færa sig enn neðar núna, eftir því sem mér sýnist.

Það er alveg óþolandi, herra forseti, að þurfa að hlusta á formann þingflokks framsóknarmanna fara með rangfærslur í sjónvarpi um að hér tali hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum í þrjá til fjóra tíma án þess að fjalla um frv. málefnalega.

(Forseti (BÁ): Forseti vill undirstrika að hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta en ekki fréttatíma sjónvarpsstöðvanna.)

Þetta er vissulega um fundarstjórn forseta þar sem forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, heldur því fram að við teppum ræðustólinn til að stjórnarliðar komist ekki að. Við viljum auðvitað leiðrétta þessar rangfærslur. Það er eðlilegt að við gerum það undir liðnum um fundarstjórn forseta. Við viljum koma því áleiðis til forseta að við séum reiðubúin að víkja, færa okkur neðar á listann til að allir þeir stjórnarliðar sem vilja tala í þessu máli komist að á þessu kvöldi og þessari nóttu.

(Forseti (BÁ): Þetta hefur komist að þrisvar í þessari umræðu um fundarstjórn forseta.)

Við óskum eftir því að þetta komist áleiðis til forseta og allra þeirra stjórnarliða sem tala vilja við þessa umræðu.