Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 18:56:30 (9442)

2004-05-28 18:56:30# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru útúrsnúningar hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og mér finnst það ekki vera honum sæmandi því að hann veit miklu betur. Við höfum ekki tekið neina U-beygju. Við höfum alltaf verið trúir málstað okkar og erum það enn og ætlum að vera það áfram. Þegar sá dagur rennur upp að við komumst til valda munum við hrinda þessum ólögum. Við munum hrinda þeim og færa sóknarmark, vel útfært sóknarmark yfir á strandveiðiflotann og afnema kvótana. Það er okkar yfirlýsta stefna. Þeirri stefnu ætlum við að halda til þrautar. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum.

Við mundum að sjálfsögðu takmarka sóknargetu bátanna með reglum, skýrum reglum um veiðarfæranotkun, t.d. með svæðalokunum og öðrum breytum sem hægt er að nota til að stjórna sókn veiðiflotans. Það er hægt að gera með alls kyns útfærslum og er gert með mjög góðum árangri, m.a. í Færeyjum. Á meðan við ætlum að fara að setja síðustu trillurnar í kvóta vinna Færeyingar, færeyska landstjórnin, að því að gefa veiðar smábáta alfarið frjálsar. Færeyska landstjórnin vinnur að því núna, vegna þess að Færeyingar eru löngu búnir að átta sig á því, eins og sífellt fleiri eru að gera á Íslandi, að þessir smábátar eru ekki ógn við eitt eða neitt. Þeir munu aldrei ofveiða neinn fiskstofn, en þeir eru hins vegar vistvænir og þeir eru mannvænir. Þeir skapa líf og fjör í byggðum landsins.