Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:45:00 (9452)

2004-05-28 19:45:00# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:45]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það gætti ónákvæmni í ræðu hv. þm. Í fyrsta lagi sagði hann þrisvar sinnum að ég hefði skipt um skoðun. Það er ekki rétt. Ég hef ekki skipt um skoðun. Mitt mat á því hvað skynsamlegast væri að gera er enn þá óbreytt. Hins vegar er mér ljóst að það nær ekki fram að ganga. Þá reynir maður að stýra málinu til þeirrar niðurstöðu sem best er af þeim kostum sem í stöðunni eru. Það verða stjórnmálamenn ævinlega að gera. Það er þeirra hlutverk að vinna að því sem mögulegt er, þeir geta ekki verið fastir í því sem þeir vilja. Menn ná ekki að koma málum sínum langt með því móti og bregðast umbjóðendum sínum ef þeir leggja sig ekki fram um að færa mál til þess vegar sem þeir telja betri en það sem í stefnir.