Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:44:46 (9557)

2004-07-21 16:44:46# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fitjaði upp á þeirri athyglisverðu nýbreytni að nota jarðfræðileg hugtök til að útskýra stjórnmálabaráttuna og ég skal játa að hann er mér miklu fremri á því sviði. Ég tók eftir því að hann talaði um í þessu sambandi að jarðskjálfti hefði orðið 2. júní sl. Eitt veit ég, að í kjölfar jarðskjálfta myndast stundum sprungur. Það skyldi ekki vera að hin umrædda gjá hefði einmitt orðið til 2. júní þegar tiltekinn atburður varð. Ég geri ráð fyrir að hv. þm., jarðfræðingurinn Steingrímur J. Sigfússon, sé þá þar með með dulúðlegum hætti að vísa til þess að þarna hafi gjáin mikla orðið til.

Ég ætla samt sem áður ekki að tala um þetta atriði. Hv. þm. nefndi það í ræðu sinni, fór mjög hratt yfir sögu, að eitt af því sem menn þyrftu að skoða núna í framhaldinu væri það sem hann kallaði ,,að fara yfir þetta með eignarhaldið``. Nú skal ég ekki særa hv. þingmann til þess að segja nákvæmlega með hvaða hætti hann telji að þetta eigi að vera en þó held ég að það sé alveg óhjákvæmilegt að hv. þingmaður svari þeirri einföldu spurningu hvort hann telji að setja eigi reglur sem takmarka eignaraðild markaðsráðandi fyrirtækis í fjölmiðlum. Það er grundvallaratriði.