Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:46:44 (9559)

2004-07-21 16:46:44# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum þannig að þögnin er ákaflega lærdómsrík. Ég spurði bara einnar spurningar. Ég vitnaði að vísu til hinnar pólitísku jarðfræði sem hv. þm. var með og það var það sem hv. þm. svaraði, hann fór í hina pólitísku jarðfræði og reyndi að kenna mér einhverja lexíu í þeim efnum. Hv. þm. svaraði hins vegar ekki einfaldri spurningu. Hún var þessi: Telur hv. þm. ástæðu til þess að setja reglur um eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja varðandi fjölmiðlastarfsemi?

Þetta er grundvallarspurning. Ég var ekkert að biðja hv. þingmann um að telja upp neinar prósentur, ég spurði hann einfaldlega hvort hann t.d. færi þannig nestaður inn í þessa vinnu sem hv. þm. vonandi tekur þátt í núna á komandi vikum og mánuðum, að setja reglur varðandi fjölmiðlaumhverfið. Ég var einfaldlega að spyrja hv. þingmann mjög einfaldrar spurningar: Telur hv. þm. að það eigi að setja þessar reglur varðandi eignarhlutinn hjá markaðsráðandi fyrirtækjum í fjölmiðlastarfsemi? Það er mjög mikilvæg spurning. Það er auðvitað það sem þessi umræða hefur fyrst og fremst snúist um, að menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort ekki þyrfti að reyna að takmarka áhrif þessara stóru fyrirtækja, líkt og menn eru að tala um núna úti í heimi, m.a. í Frakklandi og víðar. Menn eru farnir að sjá hætturnar sem geta verið því samfara að markaðsráðandi fyrirtæki ráði öllu varðandi fjölmiðlastarfsemi í einu landi.