Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:47:23 (46)

2003-10-03 11:47:23# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:47]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Já, þá hefur væntanlega markmið hæstv. ráðherra verið það að meiri hluti launafólks nýtti sér þetta. En ég er ekki viss um að það sé nóg. Ég held að það þurfi að vera mikill meiri hluti launamanna sem fer þessa leið. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að lífeyrissparnaðurinn er sparnaður sem á að hvetja til og reyna að auka sem mest má vera.

En það sem vakti helst athygli mína í svari hæstv. ráðherra var það að við eigum auðvitað ekki að vera svo föst að við getum ekki tekið til baka eitthvað sem við höfum ákveðið að væri til bráðabirgða, eða til skamms tíma. Ég vona að hæstv. ráðherra horfi í eigin barm vegna þess að ég veit ekki annað en að það séu ýmis gjöld, og jafnvel skattar, sem sett voru á tímabundið, eins og það var orðað í upphafi. Ég vona að hæstv. ráðherra verði samkvæmur sjálfum sér og fari nú vel yfir listann og kanni hvaða gjöld og skattar voru ákveðin tímabundið, og kanni það nú hvort ekki sé búið að ná þeim markmiðum með þeim gjöldum og sköttum sem upphaflega var lagt af stað með.