Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:52:32 (50)

2003-10-03 11:52:32# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er gert ráð fyrir að lyfjaútgjöldin aukist um 800 millj. en á móti verði dregið úr þeirri tölu sem ég nefndi hér áðan, ef ég man rétt, um 600 millj. (EOK: 450 millj.) 450 millj., já.

En það sem kemur hér fram er, eins og ég las hér áðan:

,,Til þess að ná fram þeirri lækkun verða reglur um greiðsluþátttöku notenda í lyfjakostnaði endurskoðaðar.``

Herra forseti, áfram er haldið:

,,Lyf sem talin eru hafa sambærilega virkni og ódýrari lyf verða felld af greiðslulista eða færð á milli greiðsluflokka.``

Það sem ég átti við, hv. þingmaður, var að það er engin nánari útfærsla á þessu eða hvernig þetta skiptist á milli flokkanna. Hins vegar er það auðvitað skemmtileg umræða sem við hv. þingmaður höfum oft átt, og hv. þm. hefur lagt í vana sinn að koma hér upp í fjárlagaumræðu og velta fyrir sér hvort jöfnuður hefur aukist eða minnkað. Það sem við eigum auðvitað við er það að góðæri í okkar huga á að nota til þess að auka jöfnuð í samfélaginu en ekki auka mismun. Og ég held, því miður, hv. þingmaður, að síðasta góðæri hafi ekki verið nýtt nægjanlega í þeim efnum. Það er mín bjargfasta skoðun. Og ég vona að ég fái liðsinni hjá hv. þingmanni í því að við reynum að nýta það góðæri sem vonandi er fram undan hjá okkur núna, til þess að nýta það betur, þannig að við megum þá ná efsta sæti á listanum sem vonandi verður þá útbúinn með öðrum formerkjum en sá sem hv. þm. vitnaði til. Við höfum auðvitað af nægu að taka, næg eru verkefnin, og ef okkur tekst að tryggja hagvaxtarskeiðið eins og við viljum sjá það trúi ég því að við fáum fjármuni til þess að auka jöfnuð til muna í samfélagi okkar.