Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:47:45 (123)

2003-10-03 17:47:45# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það undrar mig ekki að hv. þm. var ekkert að fara hringinn í kringum þessa umræðu, kom beint að henni og sagði einfaldlega: Við höfum einfaldlega ekki fundið leiðir til að takast á við þetta vandamál. Það er hárrétt hjá hv. þm. að þetta er eitt af stærstu vandamálum sem allar þjóðir í Evrópu eiga við að etja.

En veruleikinn er sá, og það er kannski kjarni málsins, að við höfum ekki séð örla á neinum hugmyndum sem eru líklegar til að taka á þessu. Það eru allar þjóðir að reyna að taka á þessu, en maður sér ekki þegar maður skoðar fjárlagafrumvarpið að það sé á nokkurn hátt reynt að taka á málinu. Það finnst mér vera sá veruleiki sem stendur upp úr í þessari umræðu. En það breytir ekki hinu og hefur komið fram að að sjálfsögðu er stjórnarandstaðan tilbúin að leggja stjórninni lið í þessum málum eins og fleiri öðrum góðum málum hér á þinginu í vetur.