Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:51:17 (125)

2003-10-03 17:51:17# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast bara alls ekki við að hafa nokkurn tíma flutt nokkra heimsendaræðu um íslenska heilbrigðiskerfið. Það hafa einhverjir aðrir flutt hana. Ég veit ekki hvenær það hefur átt að vera eða hvenær ekki. Ég hef aldrei gert það. Mér hefur alltaf verið ljóst, og veit það, að íslenska heilbrigðiskerfið er mjög fullkomið og hefur verið það lengi.

Ef menn vilja þræta við mig um þessar tölur þá er mönnum það náttúrlega alveg fullkomlega leyfilegt. Þær eru í ríkisreikningnum og þær eru í fjárlögunum. Menn geta svo keppst um það hver deilir rétt og margfaldar rétt. Ég nenni ekki að standa hér í stappi um það. Samanburðurinn liggur líka fyrir í skýrslum OECD. Það liggur allt saman fyrir. Við eyðum svona miklum peningum. Og það sannast alltaf að þau vandræði sem vissulega eru í kerfinu geta ekki stafað af peningaskorti vegna þess að við erum með meiri peninga en aðrir, yngri þjóð en aðrir. Það hlýtur að vera, og ég hef aðeins verið að ítreka það aftur og aftur, það hlýtur að vera skipulagið eða stjórnunin í þessu kerfi sem verður að endurskoða og verður að fara í gegnum. Okkur ber öllum að taka þátt í því. Okkur ber öllum að leita allra þeirra leiða sem til greina geta komið. Ég er bara að krefja menn um það. Ekkert annað. Ég hef aldrei haldið því fram að ég kynni einhverja patentlausn á því eða einhver annar kynni einhverja patentlausn á því. Aldrei.

Þetta er bara verkefni sem allir verða að taka þátt í vegna þess að við getum ekki horft á þennan kostnað aukast áfram eins og hann hefur gert á undanförnum árum. Þá erum við að eyðileggja fyrir öllum öðrum markmiðum sem menn vilja standa að og allir eru sammála um það að við verðum að halda áfram að leggja gríðarlega peninga í menntamálin. En við gerum það ekki ef peningarnir fara allir í heilbrigðismálin. Þetta er sameiginlegt verkefni sem við þurfum ekkert að deila neitt um, en ég trúi því að það skorist enginn undan því.