Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:29:50 (691)

2003-10-16 14:29:50# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hennar mál og afstöðu hennar til þessa máls. Ég skil vel að hún tjái ekki beinan stuðning flokks síns við nákvæmlega þessa útfærslu að svo komnu máli. Reyndar má segja að ekki sé gefin nákvæm forskrift að því hver útfærslan á að vera heldur séum við í raun að leggja inn til umfjöllunar í þinginu hvað gera megi til að bæta hag barnafjölskyldna í landinu.

Hv. þm. spurði hvers vegna við gerðum ráð fyrir afslætti til til 16 ára aldurs. Það er vegna þess að fólk fær skattkort sín og persónuafslátt við 16 ára aldur og fer þá yfirleitt að nýta skattafslátt sinn sjálft. Við vildum ekki blanda því saman eða flækja með því að fara upp fyrir 16 árin þó að einhver rök kunni að vera fyrir því. Við greindum þar á milli í þessari tillögu okkar.