Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 15:23:05 (916)

2003-10-29 15:23:05# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að sýna frv. okkar úr þingflokki Frjálsl. svo jákvæðan hug. Ég vil einmitt árétta dæmið sem hann tók af Eyjafirði og fólkinu sem býr á því atvinnusvæði og benda á þá staðreynd, sem mér finnst í raun mergurinn málsins í frv. og ég bið hv. þingmenn um að missa ekki sjónar á því, að það hafa orðið miklar breytingar í atvinnuháttum landsmanna og eiga eftir að verða töluverðar breytingar áfram í atvinnuháttum landsmanna. Fólk er farið að sækja vinnu á fjarlægari svæði í meiri mæli en þekktist áður.

Við getum tekið Austfirði sem dæmi. Þar standa menn í mikilli uppbyggingu sem við skulum vona að verði til hagsbóta fyrir þjóð okkar, að þær fórnir og sá kostnaður sem lagt hefur verið út í þar muni sannarlega skila sér. Margt bendir til þess að fólk, alls staðar að af Austfjörðum, af öllum Austfjörðum, muni í stórauknum mæli sækja sér vinnu inn á ákveðna þyngdarpunkta, ef svo má að orði komast.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum en það er ekki ætlast til þess að þeir taki undir það sem fyrri ræðumaður hefur sagt. Ef hv. þm. óskar að veita andsvar við ræðu hv. 3. þm. Norðaust. þá er það heimilt. Hv. þm. kvaddi sér hljóðs til þess að veita andsvar við ræðu hans.)

Já, hæstv. forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu enn en ég vildi sem sagt árétta og nefna þessi dæmi.

(Forseti (HBl): Ég vakti athygli hv. þm. á að hann hefur orðið til að veita andsvar. Ég bið hann þá að snúa sér að andsvörum en ekki halda áfram í þeim dúr sem hann gerði, og hlýða þingsköpum.)

Það er greinilega túlkunaratriði á milli mín og hæstv. forseta hvað er andsvar í þessum ræðustól. Við getum farið yfir það síðar.