Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:19:16 (1752)

2003-11-17 18:19:16# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margoft komið fram í máli mínu að ég er hlynntur jafnvægi í byggð landsins (Gripið fram í: Nú?) og ég er á móti þeirri þróun sem hefur verið í gangi undanfarið, að fólk flytur sífellt hraðar og hraðar til Reykjavíkur eftir því sem það er styrkt meira. Það skyldi nú ekki vera að samhengi sé á milli þeirra byggðastyrkja sem menn eru að veita og þess að fólkið flytur burt? Að minnsta kosti hafa styrkirnir ekki gefið þá niðurstöðu sem maður skyldi ætla. Ég held að menn þurfi að endurskoða allt þetta kerfi.

Það sem hæstv. ráðherra sagði um hagkvæmni virkjana og borun eftir heitu vatni, það er alveg hárrétt. En það er búið að gera það óhagkvæmt með styrkjunum. Þessar framkvæmdir geta ekki keppt við niðurgreidda raforku, þannig að það sem er skynsamlegt þjóðhagslega, skynsamlegt fyrir skynsamt fólk er búið að gera óskynsamlegt með styrkjum.

Þess vegna held ég að menn þurfi virkilega að fara að skoða í grunninn hvort öll þessi styrkjapólitík, öll þessi viðleitni að viðhalda byggð í landinu, hvort hún sé ekki á röngum forsendum, hvort menn hafi ekki tekið rangar ákvarðanir, hvort það geti ekki verið að til séu aðrar lausnir á þessu en endalausir styrkir.