Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:37:50 (1881)

2003-11-18 20:37:50# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:37]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. á ekki að óttast stéttarfélögin né samtök opinberra starfsmanna, hann á að vinna með þessum samtökum. Hvað varðar launakröfur get ég auðvitað ekki talað fyrir hönd opinberra starfsmanna. Þetta er allt ein heild, réttindin, skyldur, launin og lífeyrissjóðurinn, það er ekki hægt að taka einn ríkan þátt út úr án þess að skoða málið í heild. Þess vegna tel ég að það liggi í augum uppi að launakröfurnar hljóti að taka mið af því að atvinnuöryggið er farið. Þar af leiðandi eru opinberir starfsmenn komnir að þessu leyti nær hinum almenna markaði, fyrir utan ákvæði stjórnsýslulaga sem þeir eiga að vera undanþegnir, þannig að enn er verið að minnka réttindi þeirra. Ég get ekkert svarað fyrir hönd samtakanna hvað þetta er í prósentum og hvað aukinn lífeyrisréttur sem opinberir starfsmenn hafa er mikils virði í þessari heild. Sem betur fer er ekki í þessu frv. verið að skerða lífeyrisréttindin, þau eru alveg óbreytt. Þetta eru mínar hugleiðingar og ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að gera sér grein fyrir því að andinn í næstu samningum verði annar ef frv. verður að lögum, en ef þetta er látið kyrrt liggja.