Lýsing við Gullfoss

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:55:10 (1987)

2003-11-19 18:55:10# 130. lþ. 31.10 fundur 224. mál: #A lýsing við Gullfoss# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og hve jákvætt hún tekur í þessa hugmynd. Hún er, eins og hæstv. ráðherra sagði, ekki alveg ný vegna þess að þetta hefur komið upp áður. Reyndar er búið að undirbyggja þetta býsna vel að mínu mati miðað við þær skýrslur sem ég hef lesið. Mér finnst það góð hugmynd hjá hæstv. ráðherra að fara í tilraunaverkefni í tiltölulega stuttan tíma.

Ég veit til þess að sveitarstjórnir í uppsveitum Árnessýslu hafa lagt mikla áherslu á þetta. Hvort þær hafa sent formleg erindi er mér ekki kunnugt um en þó var í umræðunni að sækja um fjárveitingu til að fara í þetta verkefni. Það var einmitt undirbúið með þeim sem vann skýrsluna á sínum tíma. Þá var þetta erindi undirbúið. Þetta hefur verið í umræðunni býsna lengi.

Fjöldi ferðamanna hefur komið að Gullfossi á haustin og eftir að fer að skyggja til að njóta fossins. Útlendingar hafa sumir reiknað með því að þessi náttúruperla væri upplýst, það væri allt í lagi að fara þangað að kvöldi vegna þess að svona einstakt náttúrufyrirbrigði hlyti að vera lýst upp þannig að ferðamenn gætu notið þess á hvaða tíma sólarhrings sem er.

Ég fagna hins vegar þessari afstöðu ráðherra og beini því til hæstv. ráðherra að hún beiti sér fyrir því að í þetta tilraunaverkefni verði farið.