Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:18:26 (2026)

2003-11-25 15:18:26# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir fróðleikinn. Ég verð samt að segja að ég er ekki miklu nær um það af hverju þessar 10 millj. eru færðar til utanrrn. miðað við útskýringar hæstv. ráðherra. Ef þetta ágæta verkefni, Áform, skilar svona miklum árangri í Bandaríkjunum eins og ég gat um í ræðu minni að ég hefði heyrt sögur af, og fréttir sem hæstv. ráðherra vitnaði til gefa til kynna, hefði ég haldið að það væri kannski ástæða til að styrkja verkefnið enn frekar. Hæstv. ráðherra sagði réttilega að það væri hlutverk viðskiptaskrifstofu utanrrn. að sinna öllum atvinnugreinum. Ég velti þá fyrir mér við hverju við megum búast í framhaldinu úr því að sérstaklega er eyrnamerkt að viðskiptaskrifstofan sinni landbúnaðinum. Af hverju er það? Megum við þá búast við því að á næsta ári komi einhver upphæð vegna iðnaðar og svo verði áfram haldið? Þetta er, vægt til orða tekið, afar sérkennilegt. Og mér þætti ánægjulegt ef hæstv. ráðherra gæti skýrt örlítið betur fyrir okkur af hverju þessi upphæð lendir nákvæmlega þarna. Ég held að það sé hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það er hlutverk viðskiptaskrifstofu utanrrn. að sinna öllum atvinnuvegum. Ég get ekki ímyndað mér að það þurfi að eyrnamerkja og búta niður eftir atvinnugreinum fjármunina sem renna til skrifstofunnar.

Ég bið hæstv. ráðherra að reyna að gera aðra tilraun til að útskýra fyrir þingheimi hvernig á því stendur að þessar 10 millj. kr. fara þessa undarlegu leið til að selja íslenskt dilkakjöt.