Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:21:53 (2028)

2003-11-25 15:21:53# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra fer að tala um eitthvað allt annað en það sem við vorum að ræða. Ég held að því miður hafi hæstv. ráðherra ekki náð að útskýra þessar krókaleiðir fjármagnsins. Ég skildi hins vegar verkefnið afskaplega vel og ég held að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að hann lyfti þeim útskýringum öllum á hærra plan miðað við það sem við höfum áður heyrt, eins og hæstv. ráðherra er einum lagið.

Ég verð að segja, hæstv. ráðherra, varðandi þessar 25 millj. kr., fyrst hæstv. ráðherra nefnir þær þó að ekki sé búið að mæla fyrir tillögunum, að mér heyrist að þarna séu einhver mistök í texta. Það var ekki ætlunin að þessar 25 millj. færu þarna af en það verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir því þegar mælt verður fyrir tillögunum. 25 millj. voru ætlaðar í annað og það mun skýrast þegar þar að kemur, hæstv. ráðherra. Væntanlega er ástæðan sú, miðað við þær upplýsingar sem ég hafði þegar ég hóf ræðu mína áðan, að þá var vandfundinn sá liður sem við vorum að leita að og var nær allt kerfið að leita að honum. Hugsanlega miðað við þetta hafa milljónirnar lent á vitlausum stað. En hvar hæstv. ráðherra geymir þann lið sem verið var að leita að vona ég að hann geti upplýst. Það er ansi dýrt spaug að láta allt kerfið leita að lið sem ráðherra hefur falið einhvers staðar sem enginn veit. Spurning er hvort hann hafi farið svo langan útreiðartúr (Landbrh.: Klókur maður.) að enginn hefur getað elt hann --- klókur maður, hæstv. ráðherra, það efa ég ekki.