Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:00:38 (2039)

2003-11-25 17:00:38# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. meiri hluta MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi um málefni Byrgisins og vildi, ef ég skildi hann rétt, meina að ekki hefði verið staðið við gefin fyrirheit. Það kom einnig fram í máli hv. þm. að gerður hefði verið samningur við Byrgið fyrr á þessu ári. Það er þannig. Ég átti fund með ágætum mönnum frá Byrginu fyrr í haust þar sem þeir fóru yfir sín mál. Ég vil bara að komi hér skýrt fram að ég gaf þeim engin fyrirheit um neinar auknar fjárheimildir til þeirra í fjárlögum fyrir næsta ár. Niðurstaðan af þessu öllu saman birtist í niðurstöðu meiri hlutans. Ég vildi bara nefna þetta í andsvari.

Að öðru leyti nefndi hv. þm. málefni SÍBS. Þar er á ferðinni stórt mál sem er óleyst á þeirra borði. Ég tel að það mál sé þess eðlis og af þeirri stærðargráðu að rétt sé að SÍBS nái samkomulagi við stjórnvöld um lausn á því til einhvers tíma. Þetta er stórt mál og ég geri alveg ráð fyrir því að hv. þm. geti verið sammála mér um að það þurfi að gerast með þeim hætti.