Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:25:12 (2256)

2003-11-27 16:25:12# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hver er hænan og hvert er eggið í þessu máli en (Gripið fram í: Ha?) auðvitað er fjarri því að hér sé verið að efna til einhvers stríðs eða stórátaka eins og hv. þm. gefur í skyn. Vefrit fjmrn. sem kemur út vikulega og er nú stundum fyrst með fréttirnar, eins og sagt er, birtir í dag upprifjun á því sem Ríkisendurskoðun hefur sjálf sagt í fyrri skýrslum sínum um hina svokölluðu rammafjárlagagerð. Við það er ekkert að athuga. Og það er sett í samhengi við ummæli ríkisendurskoðanda í nýlegu bréfi sem hv. þm. vitnaði til. Hvað er athugavert við það? Ekki nokkur skapaður hlutur þannig að vefritið stendur við það sem þar er sagt.