Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:33:59 (2296)

2003-11-28 12:33:59# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gæta allrar sanngirni í þessu sambandi og staðfesta það að ég hef hvergi heyrt hv. þm. Steingrím J. Sigfússon tala öðruvísi en svo að hann hafi fagnað falli kommúnismans. Það voru ekki mín orð.

En ég vil hins vegar rifja það upp að hér erum við að fjalla um afskaplega einfalda tillögu. Hún snýst um það hvort Ísland ætli að staðfesta vilja þeirra þjóða sem hér um ræðir, sjö talsins, í þá veruna að þeim verði veitt aðild að Atlantshafsbandalaginu. Spurningin er bara þessi. Og ég segi já. Ég vil virða vilja þessara þjóða, vilja sem er fundinn með lýðræðislegum hætti heimamanna, Hv. þm. vill það ekki. Þar skilur á milli.