Starfsumgjörð fjölmiðla

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 18:57:00 (2392)

2003-12-02 18:57:00# 130. lþ. 39.24 fundur 366. mál: #A starfsumgjörð fjölmiðla# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek af heilum hug undir orð hv. þingmanns varðandi Ríkisútvarpið og stöðuna þar sem sýnir auðvitað hversu mikil hætta er fólgin í því að hafa sömu stjórnmálaflokkana við völd svo lengi. Ég held að við getum þá verið sammála um það, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það sé veruleg þörf á því, þótt ekki væri nema til að tryggja að ríkisfjölmiðillinn okkar geti sinnt sínu lýðræðislega hlutverki óháður ríkjandi valdi, að fara að skipta hér um fólk í brúnni. Ég held að við deilum algjörlega þeirri skoðun að Ríkisútvarpið hafi sérstöðu í flóru fjölmiðlanna og ég tel að nefnd af þessu tagi, sem tillagan fjallar um, gæti auðveldlega komið inn á málefni Ríkisútvarpsins án þess að hún sé beinlínis hugsuð sem slík. Ég tel að hér gæti farið af stað undir forsvari þessarar nefndar umræða sem tæki á ríkisfjölmiðlinum að einhverju marki þó að henni sé ekki ætlað það eins og hv. þm. hefur bent á þegar hann rýnt er í orðalagið.

Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft sé veruleg þörf á því að þessi mál séu rædd, bæði hvað varðar Ríkisútvarpið og einkafjölmiðlana. Ég held að það skipti máli að skoða ofan í kjölinn hvernig ríkisstjórnarmeirihluti hefur beitt valdi sínu til að koma sínu fólki að á ríkisfjölmiðlinum. Ég tel að okkur hafi verið ákveðin hætta búin og sé ákveðin hætta búin í þessum efnum. Það eina sem við getum gert, held ég, til að sporna við slíku er að hafa umræðuna í gangi á öllum tímum, hafa hana opna og hafa hana í formlegum farvegi með þátttöku ólíkra aðila, eins og þessi þáltill. hér gerir ráð fyrir.