Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:16:03 (2646)

2003-12-04 15:16:03# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddur um að ólundin sé hjá hv. þm. Ekki er hún hjá mér. Það er alveg rétt að ólund innan stjórnarliðsins virðist hafa komið í veg fyrir það að milljarðurinn yrði a.m.k. rúmur milljarður, eins og sagði í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Það var þó áður en Tryggingastofnun reiknaði nokkuð út. Ég heyri að hv. þm. hefur verið mataður býsna vel á þessu, að rúmlega milljarður væri bara einn milljarður og ekkert annað.

Ég skil vel ólund hv. þm. Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr því skrefi sem verið er að stíga. Það er vissulega stórt skref og mjög mikilvægt skref. En hins vegar er það þannig, hv. þm., að þegar gert er samkomulag þá á að halda það. Hæstv. heilbrrh. hefur sjálfur sagt að hann hefði viljað fá meiri peninga til að framfylgja samkomulaginu til fulls. Þess vegna vænti ég, þó að við höfum ekki fengið að sjá pappíra sem hv. þm. hefur séð, að í frv. sem vonandi verður dreift í dag komi fram að endurskoða þurfi málið einhvern tímann fljótlega vegna þess að ekki sé búið að ganga frá öllum endum í málinu.