Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:06:44 (2723)

2003-12-04 22:06:44# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:06]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og svara spurningu minni eins og hún gerði.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það eru miklir fjármunir bundnir í fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er stórt, öflugt og sterkt fyrirtæki. Ríkið hefur þó ekki lagt til mikla fjármuni í fyrirtækið í gegnum tíðina heldur hefur ríkið frekar ábyrgst lán. Það eigið fé sem í fyrirtækinu er hefur verið að byggjast upp vegna viðskipta fyrirtækisins á svæðinu í gegnum tíðina, en ekki vegna þess að ríkið hafi þurft að leggja því til fé ár eftir ár, jafnvel ekki miklu í upphafi.

Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að framsóknarmenn í Suðurk. hafi ályktað um að selja beri hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og verja fjármununum til eða í Suðurk. Þeim gefst þá kostur á því í atkvæðagreiðslu á morgun að standa við og staðfesta þessa ætlun sína og greiða þessari tillögu atkvæði.

Hvaða fyrirtæki eru það sem þurfa á milljarði kr. að halda? spyr hæstv. ráðherra. Ég held að við þurfum ekkert annað en benda á þá milljarða sem t.d. skipta um hendur við kaup og sölu aflaheimilda. Við værum t.d. ekki lengi að nýta þessa peninga í þeim tilgangi. Það er þó ekki tillaga mín að nota þá til þess, heldur veit ég að ef frumkvöðlar á Suðurnesjum vissu af því að slíkir fjármunir væru til í sjóði til uppbyggingar atvinnu, stæði ekki á þeim að koma með hugmyndir sem hægt væri að hrinda í framkvæmd með slíka fjármuni.