Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 14:11:14 (2779)

2003-12-05 14:11:14# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KLM (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Hér gefst stjórnarliðum og þá alveg sérstaklega framsóknarmönnum einstakt tækifæri til að greiða eina af mörgum kosningaskuldum sínum, þ.e. við öryrkja. Tímasetning undirritunar á nefndu samkomulagi var þrauthugsuð kosningabrella sem hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði með bros á vör. Þetta var undanfari brosstefnu framsóknarmanna sem skilaði tilsettum árangri þar sem stjórnarflokkunum tókst að kaupa sér atkvæði og þar á meðal atkvæði til valdasetu áfram.

Herra forseti. Framsóknarmenn hafa orðið sér til stórskammar í þessu máli og ekki bætti úr skák eftir ræðu hæstv. landbrh., varaformanns Framsfl., hér áðan. Hér gefst framsóknarmönnum einstakt tækifæri til að greiða eina af mörgum kosningaskuldum sínum eins og áður sagði, þ.e. við öryrkja.

Herra forseti. Ég segi já við þeirri tillögu sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln. og tveir fulltrúar Frjálslynda flokksins bera hér fram.