Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 14:44:09 (2805)

2003-12-05 14:44:09# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég man eftir tveim dæmum sem eru svipuð. Það var þegar kísilgúrverksmiðjan á Mývatni var seld og eins þegar steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki var seld. Þá var andvirðið notað til framkvæmda í héraði, þar sem viðkomandi fyrirtæki voru staðsett. Það ætti að gleðja mig sem þingmann Reykjavíkur að hugsa til þess að bankarnir voru seldir hérna. Það væri kannski eðlilegt að svo sem eins og 30 milljarðar af því færu til framkvæmda í Reykjavík. (Gripið fram í.) Það á eftir að selja Landssímann. Ég mætti þá reikna með að við fengjum einhverja tugi milljarða. (Gripið fram í.)

Ég greiddi atkvæði gegn báðum þessum fyrri tillögum og ég mun greiða atkvæði gegn þessari líka. Ég segi nei. (Gripið fram í: Ertu á móti öllu?)