Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:06:43 (3071)

2003-12-10 19:06:43# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:06]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. er nánast vorkunn að standa hér og tala fyrir línuívilnun eins og hann þarf að gera.

Hann sagði að Sjálfstfl. stæði allur að því að samþykkja línuívilnun og þá veltir maður fyrir sér spurningunni: Hvaða línuívilnun? Nú á þetta frv. eftir að fara til sjútvn. Ég heyrði ekki betur en starfandi formaður sjútvn. boðaði að hann mundi koma með talsvert viðamiklar brtt. við þetta frv. í nefndinni. Sem dæmi má nefna að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að menn hlytu að ræða í nefndinni hvort við færum að velta fyrir okkur dagabátunum og hvort gólf yrði sett í þetta, með 23 daga. Það er ekki í frv. ráðherrans.

Það eru fleiri atriði sem hv. starfandi formaður sjútvn. nefndi í ræðu sinni, t.d. trektarbátana. Hann taldi, ef ég man rétt, að það væri nánast víst að í frv. væri bæði gert ráð fyrir bátum sem beittu í landi og eins smábátunum með trektirnar.

Nú hefur hæstv. ráðherra svarað því hreint út að um það sé ekki að ræða. Textinn, eins og hann stendur í frv., nær eingöngu til báta sem beita í landi. Munu sjálfstæðismenn styðja það þegar fram kemur brtt. í sjútvn. að þetta gildi um trektarbátana líka?

Svona gætum við haldið áfram talsvert lengur vegna þess að línuívilnun framsóknarmanna og línuívilnun sjálfstæðismannanna er hvor sín línuívilnunin. Þegar spurt er hvort menn styðji þetta eða styðji þetta ekki þá fer það alveg eftir því hvort spurt er um línuívilnun framsóknarmanna eða línuívilnun sjálfstæðismanna.