Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:57:21 (3097)

2003-12-10 20:57:21# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:57]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður mjög ánægjulegt fyrir forustu LÍÚ að fylgjast með þessum umræðum seinna í nótt eða fyrramálið og komast að því að hún hafi kokkað þetta allt saman og sett þetta á svið. Þetta er hennar eigið frumvarp og þannig vill hún hafa þetta. Nú veit hún það að hún hefur búið þetta til. Það hlýtur að vera niðurstaðan, virðulegur forseti, því að þeir taka eflaust mark á hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Þá vita þeir að þetta er svona, allt frá LÍÚ, og mótmæli þeirra eru bara hluti af leikriti.

En, virðulegur forseti, ég er náttúrlega áfram jafnnær um það hvort þingflokkur Vinstri grænna styður línuívilnun eða ekki. Þeir hafa lýst því yfir á prenti að þeir væru mjög fylgjandi línuívilnun og vistvænum veiðum. Ég bíð spenntur eftir að sjá atkvæðagreiðsluna og hvort þeir styðja þetta mál eða ekki.