Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:59:37 (3099)

2003-12-10 20:59:37# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:59]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er trúlegt að það verði eins og fyrri daginn, að ég eigi eftir að valda vinstri grænum miklum vonbrigðum. (JBjarn: Nei, það kemur ekki þannig út.) Ég mun í þessu máli ekki styðja þá frekar en í neinu öðru enda vita þeir ekki sjálfir hvað þeir vilja.

Það er ekki svo að ég hafi þetta jafnskýrt og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem sagði áðan að hann yrði á móti þessu máli ef það yrði til þess að aflaheimildir færu til Vestfjarða. Hins vegar gæti þetta allt snúist við, (Gripið fram í.) ef þetta færi ekki til Vestfjarða þá gæti vel verið að hann styddi það. Þetta verður eflaust prentað í jólablaði Skutuls, blaðs kratanna á Vestfjörðum. Þetta verður jólaglaðningurinn þeirra og ég þarf ekki að útskýra það frekar.

Ég spyr enn einu sinni: Ætli nokkur á Íslandi viti enn hvaða stefnu eða meiningar hv. þm. Jón Bjarnason hefur í þessu máli?