Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:23:55 (3102)

2003-12-10 21:23:55# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er verið að skapa möguleika, en það eru ýmsar tölur samt sem áður ljósar í þessu og við skulum ekki ímynda okkur að þessi smuga sem hæstv. ráðherra leggur til verði ekki nýtt í botn. Það er spurning hverjir muni gera það því það eru ýmsir möguleikar. Við höfum séð það að þegar svona er gert kallar það á ýmsar tækninýjungar og ekki ólíklegt að menn muni leita ýmissa tækninýjunga til þess að reyna að komast í þann afla sem þarna er verið að opna kapphlaup í á þriggja mánaða fresti.

Herra forseti. Það er eiginlega nauðsynlegt að spyrja hæstv. sjútvrh. aftur varðandi störfin og hvaða áhrif tillögurnar geta væntanlega haft á það hvernig atvinna eða atvinnumöguleikar muni færast til á landinu. Ráðuneytið hlýtur, eftir látlausa fjögurra mánaða vinnu eins og hægt var að skilja á orðum hæstv. ráðherra, að hafa velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta geti haft á byggðarlögin. Það hefur auðvitað legið í loftinu, það er verið að færa störf til Vestfjarða. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaðan verða þessi störf flutt? Hversu mikla atvinnu er verið að færa á milli landshluta eða sjávarbyggða? Hvaða hug hefur hæstv. ráðherra á því að bæta þeim sjávarbyggðum, sem misjafnlega standa, þau störf sem væntanlega er verið að flytja á milli með þessari tillögu?

Þannig mætti halda áfram. En, herra forseti, ég held áfram í seinna andsvari.