Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:26:44 (3104)

2003-12-10 21:26:44# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:26]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Já, tækninýjungar gætu auðvitað átt sér stað, m.a. með því að ýmsir ágætir frumkvöðlar og hönnuðir færu að hanna beitningarvél í landi, því það kemur ekki fram í frumvarpinu að það muni hafa nein áhrif. Ef menn gætu hannað beitningarvél í landi gætu þeir trúlega aukið afköst sín mjög mikið og þyrftu kannski ekki að standa í kapphlaupinu jafnlengi, því það væri búið að ná þeim afla sem sóst var eftir á miklum mun skemmri tíma en menn gera ráð fyrir.

Hæstv. ráðherra virtist jafnvel vera að ýja að því að það gæti verið rangt hjá hv. þm. Vestfirðinga sem hafa talið sig vera að vinna hér mikla sigra, því hæstv. ráðherra lét þá von í ljós, ef ég heyrði rétt, að þetta mundi dreifast miklum mun jafnar um landið en hv. þm. Vestfirðinga vonast eftir.

Herra forseti. Alvarleikinn í þessu máli er auðvitað sá að hæstv. sjútvrh. hefur á undanförnum árum verið að tala fyrir því að hann væri að berjast fyrir því að gera sjávarútveginn að alvörumatvælaframleiðslugrein. Með tillögum eins og hér liggja fyrir er verið að fara í þveröfuga átt. Það er verið að bæta við útgerðarflokk, sem er hvað frumstæðastur og þróunin hefur verið hvað minnst í, á kostnað hinna sem hafa verið að skapa stöðugleika í atvinnugreininni. Ég vona, herra forseti, að hæstv. ráðherra sjái að sér og komi með frv. fljótlega eftir áramótin sem vinni gegn þeim ósköpum sem hér eru, eða við getum slegist í lið saman og komið í veg fyrir það að þessi ósköp verði þjóðinni gefin í jólagjöf. (Sjútvrh.: Hv. þm. talar svo skýrt.)