Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:57:36 (3315)

2003-12-12 17:57:36# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram undir lok ræðu hv. þm. að þetta mál er ekki af þeirri stærðargráðu að það steypi undan stórútgerðinni eins og hv. þm. orðaði það. Ég lagði einmitt áherslu á umfang málsins í framsögu minni, að draga það fram svo að mönnum mætti vera ljóst að hér er ekki um stórvægilega hluti að ræða í heildina tekið sem verið er að fjalla um í þessu frv. þó svo að menn séu meðvitaðir um að það munar um það hjá þeim sem þess njóta.

Ég vil aðeins bregðast við því sem fram kom áður í ræðunni að verið væri að skera dagabátana niður við trog. Til þess að taka af allan vafa svo ekki verði misskilið, þá er í þessu frv. ekki verið að grípa til neinna aðgerða gagnvart dagabátum. Í því felast engar aðgerðir sem skaða hagsmuni þess flota. Þvert á móti tekur meiri hluti sjútvn. fram að það sé ekki komin niðurstaða um tillögur um framtíðarskipulag veiða hjá þessum flota og hvetur til þess að málinu verði hraðað. Í því felst einmitt sú afstaða að menn gera sér ljóst að það fyrirkomulag sem er getur ekki verið til frambúðar og að verið er að leita að samkomulagi um breytingar sem geta skapað stöðugleika fyrir þennan flokk útgerðarinnar því hann er mjög mikilvægur sem hluti af viðbragðskerfi sem við setjum í lög til að bregðast við slæmum afleiðingum af kvótakerfinu.