Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:37:34 (3333)

2003-12-13 10:37:34# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hálfspaugilegt að hv. þm. ætlist til þess (Gripið fram í: Ertu ekki formaður?) að ég fari að leggja mat á þær tölur sem aðrir hv. þm. hafa komið fram með í umræðunni. Ég held að það væri eðlilegast og réttast fyrir þingmanninn að beina fyrirspurnum um þær tölur til þeirra sem komu með þær fram. Það er algerlega fráleitt að ætlast til þess að ég sem hef ekki tekið þátt í umræðum um þær tölur leggi mat á það hvernig þær hafa verið.

Hins vegar vil ég koma því að í þessari umræðu að það er í sjálfu sér ágætt ef menn vilja í umræðu um áhrif þessa frv. á útgreiðslur úr ríkissjóði eða áhrif þeirra á eftirlaunaskuldbindingar ríkisins fara að reikna það út hvað gerist á næstu árum hvað varðar útstreymi úr ríkissjóði. (Gripið fram í.) Hins vegar tel ég langeðlilegast að við það að meta þessi áhrif taki menn frekar til skoðunar hver áhrifin verða á eftirlaunaskuldbindingar ríkisins til lengri tíma litið. Ef um er að ræða auknar álögur á ríkissjóð vegna frv. væri það eins og að horfa einungis á afborganirnar sem falla til á næsta ári að skoða mál einungis eitt til tvö ár fram í tímann í stað þess að skoða hver heildarskuldbindingin er. Það er það sem ég hef óskað eftir að verði reiknað út fyrir mig. (Gripið fram í: Hvenær kemur það?) Það verður í dag.