Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:03:52 (3373)

2003-12-13 12:03:52# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það er orðið afar dapurlegt að hlýða á fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna koma hér upp á harðahlaupum frá því máli sem þeir tóku þátt í að undirbúa, máli sem er lagt fram með samþykki formanna allra flokkanna og með flutningsmönnum úr öllum þingflokkum að fengnu samþykki allra þingflokka.

Varðandi það helsta efnisatriði sem hv. þm. gerði athugasemd við, greiðslur til formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi, ganga þau rök ekki upp sem bent er á, að það eigi að vísa því yfir til stjórnmálaflokkanna að ákveða að greiða álag. Þeir hafa ákveðið að gera það ekki og þrátt fyrir auknar fjárveitingar í nýsamþykktum fjárlögum hafa þeir ákveðið að gera það ekki, heldur þvert á móti ákveðið að leggja þetta fram svona eins og það er. Brtt. sem gerðar eru á frv. gera það að verkum að frv. gengur skemur en lagt var til. Hvernig geta menn sagt hér úr ræðustól, ekki bara hv. þm. Þuríður Backman heldur fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar: Ég ætla ekki að styðja frv. sem gengur skemur en frv. sem ég lagði til? Ætla menn virkilega að halda því fram að nokkur maður trúi þessu?

Ég tel mig alveg átta mig á því í hvaða stöðu hv. þm. Þuríður Backman er. Hún er í þeirri einkennilegu stöðu að vera flm. að máli sem formaður hennar samþykkir, sem þingflokkur hennar samþykkir en hleypur síðan frá og skilur hana eftir með ábyrgðina. (ÖJ: Er þetta línuívilnunarmaðurinn?) Hún á alla mína samúð, að sitja í þingflokki með slíkum mönnum.