Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 4  —  4. mál.
Tillaga til þingsályktunarum samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin skal skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipar án tilnefningar.

Greinargerð.


    Nokkuð er um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsheitið leikskólakennari var tekið upp. Þegar af þeirri ástæðu leiðir að fá haldbær rök eru til þess að foreldrar greiði dýrum dómum fyrir skólahaldið sjálft, þ.e. leikskólamenntun, á fyrsta skólastiginu en hætti því svo skyndilega þegar börnin hafa náð grunnskólaaldri. Í leikskólastefnu Félags leikskólakennara er tiltekið að „leikskólinn eigi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og því skuli sveitarfélög vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á 6 tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds“. Að baki liggur það mat leikskólakennara að til þurfi að lágmarki sex klukkustundir á dag til að unnt sé að framfylgja ákvæðum aðalnámskrár leikskóla og sinna öllum námssviðum (hreyfing, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag), þannig að þetta skarist og sé samofið leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikniþjálfun eins og vera ber.
    Niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir ungbarnafjölskyldur. Sú kjarabót skilar sér beint til fjölskyldna sem eru í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað. Um leið yrði tekið stórt skref í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er um að ræða yngstu foreldrana sem jafnframt eru að koma sér fyrir í lífinu og margir að koma út úr skólum með námslán á bakinu, eru að leysa sín húsnæðismál o.s.frv. Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar upp undir 30 þús. kr. fyrir níu tíma dvöl. Fjölskyldur með tvö börn á leikskóla borga yfirleitt um 50 þús. kr. á mánuði því að ekki er óalgengt að systkinaafsláttur sé 30–35% með öðru systkini. Dæmi eru um fjölskyldur sem borga upp undir 60 þús. kr. í leikskólagjöld á mánuði fyrir þrjú börn (systkinaafsláttur með þriðja barni 75%) og þarf slík fjölskylda um 100 þús. kr. viðbótartekjur á mánuði til að standa straum af útgjöldunum að teknu tilliti til skatta. Þess ber að geta að sérstakur afsláttur er yfirleitt veittur fyrir börn einstæðra foreldra og öryrkja og námsmenn greiða a.m.k. sums staðar nokkru lægra gjald. Í þessum efnum er þó að finna talsverðan mun milli sveitarfélaganna og þess eru jafnvel dæmi að lítill eða alls enginn greinarmunur sé gerður á gjöldum foreldra með tilliti til félagslegra aðstæðna. Til glöggvunar er birt sem fylgiskjal með tillögu þessari gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur, en rétt er að hafa í huga það sem áður sagði um mismun milli sveitarfélaga.
    Ekki verður um það deilt að það er mikið jafnaðar- og jafnréttismál í nútímasamfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags. Flutningsmenn tillögunnar líta á breytingar í þessa átt sem lið í því að gera samfélagið fjölskylduvænna og styrkja undirstöður velferðar í landinu. Sérstök ástæða er til að huga að stöðu fjölskyldna nýrra Íslendinga í þessu sambandi.
    Nefnd sú sem tillagan gerir ráð fyrir að verði skipuð þarf í starfi sínu að móta stefnu um hvernig réttindi foreldra til leikskóladvalar barna sinna, eða eftir atvikum ef um aðra sambærilega og viðurkennda dagvistun er að ræða, verða látin haldast í hendur við skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn. Ljóst er að það mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma að gera leikskólastigið í heild sinni gjaldfrjálst og gera ráðstafanir til að fullnægja eftirspurn í takt við réttindi foreldra og skyldur sveitarfélaga samkvæmt hinni nýju skipan. Því er eðlilegt að verkefnið verði unnið í áföngum, t.d. með því að gera síðasta árið fyrir grunnskóla gjaldfrítt fyrst. Einnig er eðlilegt að veita sveitarfélögunum ákveðinn aðlögunartíma, þeim sem þess þurfa með, þar til þeim er skylt að anna eftirspurn að fullu. Síðan koll af kolli uns því takmarki er náð að allt leikskólastigið og eftir atvikum önnur sambærileg og viðurkennd dagvistun sé gjaldfrjáls.

Tekjustofnar og kostnaður.
    Ljóst er að niðurfelling leikskólagjalda kallar á endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður sveitarfélaganna vegna dagvistunar var um 8,4 milljarðar króna á árinu 2001 og á móti komu tekjur upp á 2,4 milljarða eða tæp 30%, en algengt er að sveitarfélögin miði við að leikskólagjöld standi undir a.m.k. því hlutfalli kostnaðarins. Innan skamms munu liggja fyrir tölur um kostnað sveitarfélaganna af þessum málaflokki byggðar á ársreikningum þeirra fyrir árið 2002.
    Ljóst er að sveitarfélögin í landinu eru ekki aflögufær eins og afkomu þeirra er háttað heldur þvert á móti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið talsmenn þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna og bæta fjárhag þeirra, t.d. með hlutdeild í fleiri og breiðari tekjustofnum en nú er. Með auknu hlutverki á sviði velferðarmála og umhverfismála og sökum allrar þeirrar mikilvægu nærþjónustu sem sveitarfélögum er ætlað að inna af hendi er ljóst að barátta fyrir öflugu samábyrgu velferðarsamfélagi er um leið barátta fyrir því að sveitarfélögin hafi fjárhagslegt bolmagn og aðstöðu til að leysa hlutverk sitt vel af hendi. Af þeim sökum er gengið út frá því að tekjustofnar komi á móti þeim kostnaði sem sveitarfélögin bæta smátt og smátt á sig með niðurfellingu leikskólagjalda. Einnig gæti ríkið létt einhverjum verkefnum af sveitarfélögunum eins og t.d. greiðslu húsaleigubóta, en það er einmitt stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þær verði færðar til ríkisins og inn í skattkerfið. Því fylgir sá kostur að hægt er að taka upp samræmd húsnæðisframlög þar sem samræma má á einum stað innan skattkerfisins vaxtabætur annars vegar og stuðning við leigjendur eða húsaleigubætur hins vegar. Útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubóta voru áætluð einar 870 millj. kr. á árinu 2002, þannig að ef ríkið tæki þann kostnað yfir stæðu eftir rúmar 1.500 millj. kr. sem bæta þyrfti sveitarfélögunum þegar leikskólagjöld hefðu verið felld niður í heild sinni. Hver áfangi á leið til fulls gjaldfrelsis gæti þannig kostað einar 500–700 millj. kr. ef miðað er við að tekið yrði eitt ár í einu. Hvað sem áformum um gjaldfrjálsan leikskóla líður hljóta tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að verða til skoðunar á næstunni þó ekki væri nema vegna þess að skuldasöfnun og bág afkoma allt of margra sveitarfélaga er vandamál sem taka verður á.
    Þess ber að lokum að geta að bæði hérlendis og erlendis má finna dæmi um hreyfingu í þá átt að draga úr eða fella niður gjaldtöku í leikskólum. Þannig er kveðið á um breytingar í þá veru í málefnasamningi Reykjavíkurlistans, núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Í Svíþjóð var ókeypis leikskóladvöl a.m.k. fyrir eldri leikskólabörn eitt af baráttumálum vinstri flokkanna í síðustu kosningum og eru fyrstu áfangar breytinga í þá átt nú að koma til framkvæmda þar í landi.Fylgiskjal.


Leikskólar Reykjavíkur:

Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur – leikskólagjöld.

    Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur tekur mið annars vegar af tímalengd vistunar barns og hins vegar af félagslegri stöðu foreldra.
    Gjaldskráin skiptist í 3 gjaldflokka og gilda um þá eftirfarandi reglur:
     I.      Almennt gjald, giftir foreldrar og sambúðarfólk.
     II.      Samkvæmt þessum flokki greiða foreldrar þar sem annað foreldrið er í námi og ef annað foreldri er öryrki. Miðað er við að námið sé lánshæft skv. viðmiðunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Skrifstofa LÍN veitir upplýsingar um þá skóla og það nám sem metið er lánshæft. Námsmaður skal vera í a.m.k. 75% námi á háskólastigi en í 100% námi sé hann í sérnámi.
                  Námsmenn við Háskóla Íslands skulu taka a.m.k. 11 einingar á önn.
                  Þessi gjaldflokkur á einnig við ef stundað er fullt nám í framhalds-, mennta-, fjölbrauta- og iðnskóla. Kvöldnám er ekki tekið gilt.
                  Skólavottorð berist skrifstofu Leikskóla Reykjavíkur í janúar og september ár hvert. Námssamningar berist skrifstofu L.R. í byrjun samningstímans.
     III.      Samkvæmt III. flokki greiða einstæðir foreldrar, foreldrar þar sem báðir eru í námi, sbr. skilgreiningu LÍN á lánshæfu námi, og foreldrar ef báðir eru öryrkjar. Starfsmenn Leikskóla Reykjavíkur falla einnig undir þennan flokk.


Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur – leikskólagjöld

Klukkustundir Gjald I Gjald II Gjald III
4 12.000 –9.900 –9.700
5 15.000 11.800 10.900
6 21.200 14.000 12.000
8 27.000 20.400 13.900
9 29.900 21.500 15.300


Gjaldskráin gildir frá 1. janúar 2003


    Í gjaldflokki I er hádegisverður innifalinn í 6 klst. vistun og lengri. Sé óskað eftir hádegisverði fyrir börn í 4–5 klst. vistun skal greitt sérstaklega fyrir matinn. Verð fyrir hádegisverð er kr. 3.300 á mánuði.
    Hressing er innifalin í öllum gjaldflokkum og hádegisverður í gjaldflokki II og III.
    Systkinaafsláttur er 33% með 2. barni og 75% með 3. barni.
    Einnig reiknast afsláttur ef börn á leikskóla eiga systkini hjá dagforeldri eða á einkareknum leikskóla, sjá gjaldskrá vegna niðurgreiðslu á daggæslugjöldum.