Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 7  —  7. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon.



1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki getur einungis fengið eina tegund starfsleyfis skv. 1. mgr.

2. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna orðast svo: Auk þjónustu skv. 20. gr. er viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins í þágu viðskiptaaðila sinna og samrýmist reglum sem viðskiptaráðherra setur þar um að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins.


3. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:

    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er því aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í þessum kafla að hún sé tímabundin og í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum.
    Lánafyrirtækjum er því aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í þessum kafla að hún sé tímabundin og í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila. Tilkynning hér að lútandi skal send Fjármálaeftirlitinu.
    Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og hagkvæmt er.
    Ef viðskiptabankar, sparisjóðir eða lánafyrirtæki stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í þessum kafla, sbr. 1. og 2. mgr., eða yfirtaka eignir, sbr. 3. mgr., er þeim skylt að tryggja að aðkoma þeirra að viðkomandi rekstri eða eignaumsýslu skekki ekki samkeppni á viðkomandi sviði.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að þrengri skorður verði settar svokallaðri hliðarstarfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja sbr. 21. gr. laganna.
    Veigamesta breyting frumvarpsins felst þó í því að takmarka starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða með þeim hætti að þeim verði óheimilt að kaupa verðbréf eða hlutabréf í fyrirtækjum í því skyni að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila, sameina hana annarri starfsemi, skrá viðkomandi verðbréf og selja þau almenningi. Slík starfsemi hefur verið flokkuð sem fjárfestingarbankastarfsemi og gerir frumvarpið ráð fyrir því að einungis lánafyrirtækjum eins og þau eru skilgreind í lögunum verði heimil slík starfsemi. Með þessu er framkallaður skýr aðskilnaður milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Þá er í frumvarpinu lögð sú skylda á herðar fjármálafyrirtækja sem stunda tímabundið aðra starfsemi skv. 22. gr. að tryggja að aðkoma þeirra skekki ekki samkeppni á viðkomandi sviði. Í þessu felst t.d. að banka yrði með öllu óheimilt að fjármagna taprekstur fyrirtækis á samkeppnismarkaði og gera því kleift að keppa með ósanngjörnum hætti við samkeppnisaðila með undirboðum eða öðrum slíkum aðferðum í skjóli hins öfluga fjármálalega bakhjarls.
    Þótt ekki sé beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum að fyrirtæki hafi fleiri en eitt starfsleyfi er að því er virðist heldur ekkert sem bannar það. Af þeim sökum er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að fjármálafyrirtæki geti einungis starfað á grundvelli einnar tegundar af starfsleyfi á hverjum tíma. Þetta er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að sama fjármálafyrirtækið fái starfsleyfi bæði sem viðskiptabanki og lánafyrirtæki og haldi þar með óbreyttum starfsheimildum.
    Á undanförnum missirum hefur komið í ljós að sá lagarammi og þær takmarkanir sem fjármálafyrirtækjum eru settar duga engan veginn til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Raddir eru uppi um að svokallaðir „kínamúrar“ innan fjármálafyrirtækja haldi ekki og þar með efasemdir um að hagsmunum allra viðskiptavina sé gert jafnhátt undir höfði. Það er hverju fjármálafyrirtæki afar mikilvægt að forðast hvers konar hagsmunaárekstra. Í þessu sambandi er til að mynda augljóst að fjármálafyrirtæki getur enn síður en ella þjónað tveimur samkeppnisfyrirtækjum með trúverðugum hætti ef bankinn er stór eigandi í öðru þeirra. Svipað má segja um þær aðstæður sem koma upp ef fjármálafyrirtæki er annars vegar viðskiptabanki fyrirtækis en hins vegar að versla með eignarhluti í því hinu sama fyrirtæki fyrir eigin reikning. Á undanförnum missirum hafa fjármálafyrirtæki gerst umsvifamikil í kaupum og sölu á fyrirtækjum og beinir gerendur í ýmiss konar sviptingum þar sem tekist er á um hagnaðarvonir, völd og áhrif í viðskiptalífinu. Það er skoðun flutningsmanna að þessi mál séu komin úr böndunum og að óhjákvæmilegt sé að setja umsvifum fjármálafyrirtækjanna ákveðnari skorður í þessum efnum en núgildandi lög gera ráð fyrir og eins og þau hafa verið túlkuð og framkvæmd. Við kringumstæður sem þessar er það skylda löggjafans að skerast í leikinn til að vernda hagsmuni almennra viðskiptavina bankanna og til að takmarka líkur á því að hagsmunaárekstrar verði.