Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 11  —  11. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Magnús Þór Hafsteinsson, Helgi Hjörvar, Kolbrún Halldórsdóttir.



1. gr.

    6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, þ.m.t. hljóðbóka. Með hljóðbók er átt við lesið efni sem gefið er út á miðli sem nýtist til hlustunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Árið 1988 var farið að framleiða hljóðbækur hér á landi til sölu fyrir almenning. Hljóðbækur eru lesið efni, sem gefið er út á diskum, tónsnældum eða öðrum þeim miðli sem nýtist til hlustunar. Þeir sem nota hljóðbækur eru einkum aldraðir, sjóndaprir og blindir, sem og lesblindir. Almenningur nýtir sér hljóðbækur í auknum mæli við hvers kyns störf og afþreyingu, þar á meðal sífellt fleiri nemendur í skólum landsins. Ætla má að 12–15 hundruð manns noti eða mundu nota hljóðbækur hér á landi ef verðlagning væri í lagi, sé tekið mið af notkun slíkra bóka t.d. í Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum. Frá upphafi hafa hljóðbækur verið í efra þrepi virðisaukaskatts en ritaðar bækur hafa fallið í lægra skattþrep virðisaukaskattsins. Ekki er að sjá nein rök til þess að skattleggja hljóðbækur öðruvísi en aðrar bækur, enda um nákvæmlega sama efnið að ræða þótt miðlunaraðferðin sé ólík.
    Ríkisútvarpið hafði þá stefnu um árabil að hljóðrita upplestur rithöfunda á eigin verkum. Nú hefur það breytt um stefnu þannig að upplesið efni skipar æ minna rými í dagskrá þess. Þess vegna er nauðsynlegt að ýta undir hljóðbókaútgáfu hér á landi, en slík útgáfa hefur án efa mikið menningargildi.
    Nú á Evrópuári fatlaðra væri samþykkt þessa frumvarps gott framfaraspor því að með því væri dregið úr mismunun milli fatlaðra og ófatlaðra auk þess sem um augljóst sanngirnismál er að ræða.