Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 34  —  34. mál.




Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí 2003.

Frá Steingrími J. Sigfússyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Jóni Bjarnasyni,
Kolbrúnu Halldórsdóttur, Magnúsi Þór Hafsteinssyni, Sigurjóni Þórðarsyni,
Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninganna 10. maí sl. Í skýrslunni verði sérstaklega farið yfir þau atriði sem ástæða er til að ætla að betur hefðu mátt fara við framkvæmd kosninganna, bæði undirbúning þeirra, kynningu, kosningar utan kjörfundar, bæði heima og erlendis, og loks kosningarnar á sjálfan kjördaginn, þ.e. framkvæmd þeirra, úrskurð vafaatriða, talningu atkvæða og úrvinnslu alla. Sérstaklega er óskað eftir því að reynt verði að svara eftirfarandi spurningum:
     1.      Er rétt að huga að breytingum á því fyrirkomulagi að Alþingi sjálft hafi það hlutverk með höndum að staðfesta lögmæti sitt og gildi kosninga, sbr. einkum 46. gr. stjórnarskrárinnar og 1., 4. og 5. gr. laga um þingsköp Alþingis?
     2.      Er ekki brýnt að setja í lög um kosningar til Alþingis ákvæði um hvenær endurtelja skuli atkvæði, bæði í einstökum kjördæmum sem og á landinu í heild, þegar mjótt er á munum?
     3.      Er reynt með einhverjum hætti að tryggja samræmda framkvæmd alþingiskosninga hvað varðar úrskurð vafaatkvæða, talningaraðferðir og ákvarðanir um hvort endurtelja skuli og önnur hliðstæð atriði í öllum kjördæmum landsins?
     4.      Hverju sætir að einstakar yfirkjörstjórnir ljúka endanlega störfum og loka úrvinnslu kosningaúrslita áður en heildarúrslit í landinu liggja fyrir og þar með hversu mjótt kann að reynast á munum við úthlutun jöfnunarsæta og hvort ástæða sé til að endurtelja atkvæði af þeim sökum?
     5.      Kemur til álita að færa landskjörstjórn það vald í hendur að geta úrskurðað endurtalningu á landinu öllu?
     6.      Kemur til álita að landskjörstjórn fái það hlutverk að kveða upp leiðbeinandi forúrskurði um álitamál sem upp kunna að koma í aðdraganda kosninga sem yfirkjörstjórnir einstakra kjördæma hafi til að styðjast við?
     7.      Hvernig er utankjörfundaratkvæðagreiðsla undirbúin, kynnt og framkvæmd:
                  a.      í sendiráðum og hjá ræðismönnum erlendis,
                  b.      hjá sýslumönnum,
                  c.      annars staðar, svo sem á sjúkrahúsum eða í heimahúsum?
     8.      Hvaða upplýsingar liggja frammi þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram og hvernig er tryggt að þær séu réttar, t.d. um listabókstafi framboða í viðkomandi kosningum?
     9.      Hvernig er háttað eftirliti með því að rétt kjörgögn og stimplar séu notuð við kosningar utan kjörfundar, en ekki t.d. úrelt gögn frá eldri kosningum?
     10.      Er undirbúningi, kynningu og framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu hagað með tilliti til þess að auðvelda einstökum hópum, svo sem sjómönnum, námsmönnum, Íslendingum búsettum erlendis o.s.frv., að kjósa?
     11.      Fer fram einhver kynning gagnvart íslenskum ríkisborgurum búsettum erlendis á þeim reglum sem gilda um kosningarrétt þeirra og veru á kjörskrá og er yfir höfuð reynt að greiða fyrir því að þeir geti neytt kosningarréttar síns?
     12.      Hefur sá möguleiki verið skoðaður að opna kjörstaði á kjördag í stærstu Íslendingabyggðum erlendis, svo sem í Kaupmannahöfn?
     13.      Hafa kostir þess að taka upp rafræna kjörskrá og/eða opna rafræna kjörstaði verið skoðaðir, sérstaklega með hliðsjón af því að auðvelda íslenskum ríkisborgurum búsettum erlendis eða öðrum hópum manna að neyta kosningarréttar síns?

Greinargerð.


    Eins og umræður á Alþingi í lok maímánaðar sl. og ýmis gögn sem þá voru lögð fram leiddu berlega í ljós hefði margt mátt betur fara við undirbúning og framkvæmd síðustu alþingiskosninga. Fjölmörgum álitamálum var velt upp í umræðunum en fátt var um svör. Sum þessi álitamál eru lagalegs eðlis en önnur snúa beint að undirbúningi og framkvæmd kosninga. Allar þær spurningar sem fólgnar eru í skýrslubeiðninni eru að gefnu tilefni og nauðsynlegt er að fá við þeim ítarleg svör áður en lengra er haldið.