Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 45. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 45  —  45. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir.



     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi áætlun um aðgerðir til að draga úr fyrirsjáanlegu ójafnvægi í byggðamálum.

Greinargerð.


    Á síðustu missirum hafa horfur í byggðamálum breyst verulega. Ástæða er til að gera ráð fyrir að fyrirætlanir um mestu framkvæmdir Íslandssögunnar í orku- og iðnaðarmálum verði að veruleika á Austfjörðum. Gangi það eftir verða þar gífurlegar framkvæmdir sem standa í mörg ár. Þær munu hafa í för með sér aðra uppbyggingu í tengslum við búsetu og þjónustu við atvinnustarfsemina sem þar verður.
    Jafnframt þessu liggja fyrir ákvarðanir stjórnvalda um að gerð þrennra jarðganga á Norðausturlandi verði boðin út í einu lagi. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í byggðaáætlun sem samþykkt var á liðnu vori var aðaláhersla lögð á að styrkja Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
    Það yrði fagnaðarefni ef hillti undir betri tíma í þessum hlutum landsins. Hins vegar hlýtur það að vera umhugsunarefni hversu þær fyrirætlanir og áætlanir sem hér um ræðir, og allar eru frá stjórnvöldum komnar, deilast ójafnt niður á landið. Það er veruleg hætta á því, ef fram fer sem horfir, að næstu ár verði öðrum dreifbýlissvæðum mjög erfið nema gripið verði til aðgerða til að draga úr því ójafnvægi sem í stefnir. Stjórnvöld bera alla ábyrgð í þessu efni vegna þess að hinar miklu framkvæmdir sem standa fyrir dyrum eru fyrir atbeina þeirra. Þörf fyrir byggðaaðgerðir myndast vegna ójafnvægis milli byggðarlaga og landsvæða. Stjórnvöld þurfa því að hafa heildaráhrif aðgerða í huga þegar þær eru ákveðnar. Það hefur augljóslega ekki verið gert nú. Þess vegna er þörf á að endurskoða tímasetningu framkvæmda og aðrar fyrirætlanir sem geta haft jákvæð áhrif á búsetu og atvinnulíf annars staðar en á vaxtarsvæðunum sem njóta munu þessara umfangsmiklu fyrirætlana. Í ljósi breyttra aðstæðna þarf að bregðast við og taka ákvarðanir sem koma öðrum landsvæðum til góða. Þar væri nærtækast að skoða hvort unnt sé og rétt að flýta framkvæmdum í samgöngumálum, sérstaklega þeim sem hafnar eru eða mögulegt er að hefja án mikils fyrirvara.
    Sérstakt átak til að auka möguleika til framhaldsmenntunar og að styrkja menntun í dreifbýli væri sjálfsagður hluti slíkra fyrirbyggjandi aðgerða.
     Það er ekki sjálfsagt mál að allir þeir gríðarlegu fjármunir sem nú stefnir í að fáist fyrir sölu ríkiseigna fari í samgöngumannvirki á einu landsvæði. Þá má líka nota annars staðar og þá má ekki síður nota í menntamál en samgöngumál.
    Aflétta þarf höftum á atvinnufrelsi manna í sjávarbyggðum sem byggja atvinnulíf sitt nánast alfarið á útgerð og fiskvinnslu þannig að þær geti aftur farið að njóta nálægðarinnar við gjöful fiskimið.
    
    Nú þarf að bregðast við af myndugleik og verulegum krafti til að ójafnvægi milli landsvæða í dreifbýli skapi ekki nýjan vanda í byggðarlögum sem hafa hann nógan fyrir. Mótvægisaðgerðir eru þess vegna bráðnauðsynlegar og ákvarðanir um þær þarf að taka strax á þessu hausti.