Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 88  —  88. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað orðanna „hagnaður af sölu“ í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: kaupverð.

2. gr.

    Orðin „þó ekki af félögum sem hafa starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags“ í 1. málsl. 9. tölul. 31. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað „91.049“ í 2. mgr. kemur: 93.325.
     b.      3. málsl. 3. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
     a.      Í stað „321.900“ í 1. mgr. A-liðar kemur: 329.948.
     b.      Í stað „728“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar kemur: 746.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað „35.422“ í 3. mgr. A-liðar kemur: 36.308.
     b.      Í stað „120.248“, „143.135“, „200.282“, „205.448“, „1.408.916“ og „704.459“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 123.254, 146.713, 205.288, 210.584, 1.444.139, og: 722.070.
     c.      1. málsl. 7. mgr. A-liðar orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessa stafliðar má ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda séu framfærandi og barnið tryggð á grundvelli 9. gr. b eða 9. gr. c laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum.
     d.      Í stað „7%“ í 1. málsl. 3. mgr. B-liðar kemur: 5,5%.
     e.      Í stað „468.655“, „615.244“ og „761.832“ í 3. málsl. 3. mgr. B-liðar kemur: 480.371, 630.626, og: 780.878.
     f.      Í stað „3.525.022“, „5.843.331“, „160.588“, „206.528“, „265.567“ og „593“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 3.613.148, 5.989.414, 164.603, 211.691, 272.206, og: 600.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Tekjuskattur lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. skal vera 18% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr.
     b.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Tekjuskattur annarra lögaðila, sbr. 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr., skal vera 26% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr.

7. gr.
    Í stað „1.401.117“ og „2.802.235“ í 77. gr. laganna kemur: 1.436.145, og: 2.872.290.

8. gr.

    Í stað „4.720.000“ í 1. og 2. málsl. 82. gr. laganna kemur: 4.838.000.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. laganna:
     a.      Í stað „4.720.000“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: 4.838.000.
     b.      4. mgr. fellur brott.

10. gr.

    5. mgr. 89. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum 1.–4. mgr. um framtals- og skattlagningarstað og ákveða annan framtals- eða skattlagningarstað þegar skattaðilar hafa flust á milli skattumdæma, eða þegar skattskyldir aðilar skv. I. kafla laga þessara hafa með höndum sameiginlegan rekstur, eða ákvörðun launa er með þeim hætti sem um getur í 58. gr.

11. gr.

    Á eftir 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Sé að öllu leyti fallist á kröfur kæranda er skattstjóra heimilt að senda úrskurð í almennri póstsendingu eða rafrænt í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna á árunum 2004 og 2005 skal á árunum 2005 og 2006 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 4.191.686 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 8.383.372 kr. skal reikna sérstakan tekjuskatt. Sérstakur tekjuskattur vegna tekna ársins 2004 skal vera 4% en vegna tekna ársins 2005 skal sérstakur tekjuskattur vera 2%.
    Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 4.191.686 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 4.191.686 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts árin 2005 og 2006 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember árin 2004 og 2005. Fyrirframgreiðslan árið 2004 skal vera 4% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2004 vegna tekna á árinu 2003 umfram 4.191.686 kr. hjá einstaklingi og umfram 8.383.372 kr. hjá hjónum. Fyrirframgreiðslan árið 2005 skal vera 2% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2005 vegna tekna á árinu 2004 umfram 4.191.686 kr. hjá einstaklingi og umfram 8.383.372 kr. hjá hjónum.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 5. mgr. skulu vera fyrstu dagar mánaðanna ágúst til og með desember hvert ár. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 5. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Ákvörðun skattstjóra er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar skattstjóra. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra barst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
    Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal þá bæta 2,5% álagi við mismuninn.
    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2004 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2005 vegna tekna og eigna á árinu 2004. Þó skal ákvæði d-liðar 5. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta við álagningu á árinu 2004 vegna vaxtagjalda á árinu 2003. Ákvæði 2. gr., b-liðar 3. gr., b-liðar 6. gr. og b-liðar 9. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til fjórar meginbreytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir laganna, þ.e. fjárhæðir vegna tekjuskatts, eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta, hækki í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004 eða um 2,5%. Í öðru lagi er lögð til breyting á útreikningi vaxtabóta með það að markmiði að draga úr hvata til frekari skuldsetningar hjá heimilunum. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði laganna um alþjóðleg viðskiptafélög verði felld brott, en viðskiptaráðherra mun hlutast til um að fella úr gildi þau lög. Í fjórða lagi að kveðið verði á um framlengingu á sérstökum tekjuskatti um tvö ár, jafnframt því sem hann verði lækkaður í áföngum uns hann fellur niður í árslok 2005. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar minni háttar breytingar er varða framkvæmd laganna. Nánar er fjallað um framangreindar breytingar í skýringum við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þeim breytingum sem samþykktar voru á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt (nú lög nr. 90/2003), í lok árs 2001 vegna afnáms verðbólgureikningsskila virðast hafa orðið mistök við textagerð ákvæðisins. Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins verði lagfært þannig aðákvæðið nái upphaflegum tilgangi sínum þ.e. að kaupverðið verði lagt til grundvallar útreikningi á hagnaði.

Um 2. gr.


    Vorið 1999 voru samþykkt á Alþingi sérstök lög um alþjóðleg viðskiptafélög, nr. 31/1999, en þau lög eru á ábyrgðarsviði viðskiptaráðherra. Jafnhliða var einstökum ákvæðum í tekju- og eignarskattslögunum breytt í samræmi við ákvæði fyrrgreindra laga. Þannig greiða alþjóðleg viðskiptafélög aðeins 5% tekjuskatt, auk þess að vera undanþegin eignarsköttum. Á móti vegur að skattlagning arðs sem greiddur er til innlendra aðila er þyngri en almennt gerist. Yfirlýstur tilgangur umræddra laga var að efla erlenda fjárfestingu hér á landi.
    Frá því að lögin voru sett hafa aðeins 14 fyrirtæki fengið leyfi til að starfa sem alþjóðleg viðskiptafélög. Þar af eru einungis 6 með einhverja starfsemi í dag. Af þessu sést að þær vonir sem bundnar voru við umrædd lög og áhrif þeirra á íslenskt atvinnulíf hafa ekki gengið eftir. Þá hefur skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja verið gjörbylt frá árinu 1999. Með þeirri miklu lækkun sem samþykkt var árið 2001 á tekju- og eignarsköttum fyrirtækja má segja að stigið hafi verið stórt skref í þá átt að gera lögin um alþjóðlegu viðskiptafélögin óþörf.
    Í frumvarpi þessu er því mælt fyrir um brottfall þeirra ákvæða sem sett voru í tengslum við setningu laga nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög. Viðskiptaráðherra mun jafnframt leggja fram frumvarp um afnám laganna um alþjóðleg viðskiptafélög þar sem lagt er til að nýjum fyrirtækjum verði ekki veitt leyfi til að starfa sem alþjóðleg viðskiptafélög frá og með næstu áramótum. Nauðsynlegt þykir þó að veita þeim fyrirtækjum sem þegar eru starfandi sem alþjóðleg viðskiptafélög ákveðinn aðlögunartíma til að breyta rekstri sínum. Því er lagt til að sú breyting sem hér um ræðir komi ekki til framkvæmda fyrr en í ársbyrjun 2008, sbr. 13. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lögð til hækkun á skattleysismörkum tekna hjá börnum undir 16 ára aldri um 2,5% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004.
    Í b-lið er fellt brott ákvæði sem varðar alþjóðleg viðskiptafélög. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 2. gr. í frumvarpi þessu.

Um 4. gr.

    Hér eru lagðar til hækkanir á persónuafslætti og sjómannaafslætti um 2,5% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004.

Um 5. gr.

    Í a-, b-, e- og f-lið eru lagðar til hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum bóta og skerðingarmarka um 2,5% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004.
    Í c-lið er lögð til breyting sem lýtur að ákvörðun barnabóta. Er breytingin lögð til vegna þess ósamræmis sem gætir í skilyrðum til greiðslu barnabóta samkvæmt íslenskum lögum og ákvæðum reglugerðar EBE nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra, sem flytjast á milli aðildarríkja. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er ekki lengur skilyrði að framfærandi barns sé skattskyldur hér á landi skv. 1. gr. laganna eins og verið hefur, heldur er meginskilyrðið að framfærandi og barnið séu tryggð á grundvelli 9. gr. b eða 9. gr. c laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Í d-lið er lögð til lækkun á hlutfalli vaxtagjalda af skuldum til útreiknings á vaxtabótum úr 7% í 5,5%. Rökin fyrir breytingunni eru þau að frá því að núverandi viðmiðunarmörk voru sett hafa raunvextir langtímalána lækkað umtalsvert. Þegar ákveðið var að taka viðmiðunina upp árið 1993 voru raunvextir af húsbréfum 6% og af lánum lífeyrissjóða 7%. Frá þeim tíma hafa vextir lækkað umtalsvert og nú eru húsbréfavextir 5% og vextir af lánum lífeyrissjóða um 5,5- 6%. Í ljósi þessarar þróunar er eðlilegt að ofangreint hlutfall breytist í samræmi við langtímavexti af íbúðalánum og þar með verði dregið úr hvata til frekari skuldsetningar hjá þeim sem eru að fjárfesta í eigin húsnæði.

Um 6. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í a- og c-lið greinarinnar tengjast þeim breytingum sem samþykktar voru á 127. löggjafarþingi með lögum nr. 133/2001 þegar ákveðið var að lækka skatthlutfall félaga með takmarkaðri ábyrgð úr 30% í 18% og sameignarfélaga og samlagsfélaga úr 38% í 26%. Við þá breytingu hafa átt sér stað mistök varðandi tilvísanir í 1. mgr. 2. gr. í gildandi lögum. Það leiðir til þess að ekki er samræmi í heildarskattlagningu, þ.e. skattlagningu félags og einstaklinga, að því er varðar samlagsfélög og sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila skv. 3. tölul. 2. gr. annars vegar og samlaga, samtaka og annarra lögaðila skv. 4. og 5. tölul. 2. gr. hins vegar, eins og stefnt var að með lagabreytingunni. Hér er lagt til að umræddar tilvísanir verði lagfærðar þannig að 1. mgr. 71. gr. taki til lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. en 2. mgr. sömu greinar taki til annarra lögaðila.
    Ákvæði b-liðar tengist afnámi laga um alþjóðleg viðskiptafélög. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 2. gr. í frumvarpi þessu.

Um 7. og 8. gr.

    Í 7. og 8. gr. er lögð til 2,5% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004. Í 7. gr. er um að ræða frádrátt vegna hlutabréfaeignar og stofnsjóðsinnstæða, en í 8. gr. hækkun á viðmiðunarfjárhæðum sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á eignarskatti manna.

Um 9. gr.

    Í a-lið er lögð til 2,5% hækkun á viðmiðunarfjárhæð þeirri sem lögð er til grundvallar útreikningi á eignarskatti dánarbúa, sbr. 8. gr. frumvarps þessa.
    Breyting undir b-lið lýtur að alþjóðlegum viðskiptafélögum. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 2. gr. í frumvarpi þessu.

Um 10. gr.

    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar skattaðilar skv. I. kafla laganna eru búsettir í öðru umdæmi en samrekstraraðilar eða lögaðilar sem þeir eru í fyrirsvari fyrir sé heimilt að víkja frá meginreglunni um framtals- og skattlagningarstað. Tilgangur þessa er að draga úr þeim örðugleikum sem kunna að skapast við álagningu, skattendurskoðun og skatteftirlit þegar tveir skattstjórar í sínu hvoru skattumdæminu koma að sama málinu.

Um 11. gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að senda úrskurði skattstjóra í almennum pósti eða rafrænt í þeim tilvikum þar sem alfarið hefur verið fallist á kröfur kæranda. Meginreglan verður hins vegar áfram sú að senda úrskurði skattstjóra í ábyrgðarpósti þegar um er að ræða hækkanir á skattstofnum. Tilgangur þessarar breytingar er að draga úr þeim kostnaði sem leiðir af ábyrgðarsendingum skattyfirvalda. Þá verður einnig heimilt að senda kærendum úrskurði rafrænt.


Um 12. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum verður sérstakur tekjuskattur 5% við álagningu á árinu 2004 vegna tekna ársins 2003. Hér er lagt til að sérstakur tekjuskattur verði framlengdur um tvö ár, en jafnframt lækkaður í tveimur áföngum. Lagt er til að við álagningu á árinu 2005 verði skatturinn 4% vegna tekna ársins 2004 og lækki síðan í 2% við álagningu á árinu 2006 vegna tekna ársins 2005. Þá eru viðmiðunarfjárhæðir skattsins hækkaðar um 2,5% frá gildandi lögum.


Um 13. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku. Miðað er við að lögin öðlist gildi 1. janúar 2004 og komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2004 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2005 vegna tekna og eigna á árinu 2004. Þó skal ákvæði d-liðar 5. gr. sem fjallar um vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta við álagningu á árinu 2004. Þá skulu ákvæði 2. gr., b-liðar 3. gr., b-liðar 6. gr. og b-liðar 9. gr. sem varða afnám laga nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, öðlast gildi 1. janúar 2008. Það þýðir að síðasta álagning tekjuskatts á grundvelli laga nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, fer fram á árinu 2008.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi eru hækkanir á ýmsum fjárhæðum í lögunum, svo sem tekjumörkum, afsláttum og bótum, sem eru 2,5% og þessar fjárhæðir uppfærðar með tilliti til verðlags. Í öðru lagi er lagt til að hámark vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta lækki úr 7% af skuldum vegna húsnæðiskaupa í 5,5% af skuldum. Frá því núverandi hámark var sett árið 1993 hafa raunvextir langtímalána lækkað umtalsvert og er talið eðlilegt að hámarkið taki mið af þeirri þróun og að þar með verði dregið úr hvata til skuldsetningar. Árið 1993 voru raunvextir af fasteignaveðlánum Íbúðalánasjóðs í kringum 6% og 7% af lánum lífeyrissjóða. Á yfirstandandi ári eru vextir af lánum Íbúðalánasjóðs um 5% og um 5,5–6% af lánum lífeyrissjóða. Áætlað er að þessi breyting lækki útgjöld ríkissjóðs um 600 m.kr. frá því sem annars hefði orðið. Í þriðja lagi er lagt til að sérstakur tekjuskattur falli ekki niður á næsta ári heldur lækki hann í áföngum úr 5% á tekjuárinu 2003 í 4% árið 2004 og síðan í 2% árið 2005. Áætlað er að 4% skattur skili um 1,4 milljörðum króna í tekjum til ríkissjóðs á næsta ári. Loks kveður frumvarpið á um nokkrar aðrar breytingar, sem aðallega snúa að skattframkvæmdinni, svo sem um birtingu á úrskurðum skattstjóra, barnabætur vegna barna sem ekki eru heimilisföst hér á landi o.fl.