Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 90  —  90. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar,
með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað fjárhæðanna „94.273 kr.“, „113.163 kr.“, „136.675 kr.“ og „7.819 kr.“ í 2. mgr. A- liðar 4. gr. laganna kemur: 101.815 kr.; 122.216 kr.; 147.609 kr.; og: 8.445 kr.

2. gr.

    2. mgr. B-liðar 4. gr. laganna orðast svo:
    Kílómetragjald ökutækja skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:

Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr. Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald, kr.
4.000–4.999 6,91 18.000–18.999 16,61
5.000–5.999 7,34 19.000–19.999 17,89
6.000–6.999 7,94 20.000–20.999 18,84
7.000–7.999 8,34 21.000–21.999 19,93
8.000–8.999 8,71 22.000–22.999 21,18
9.000–9.999 9,09 23.000–23.999 22,19
10.000–10.999 9,66 24.000–24.999 23,19
11.000–11.999 10,01 25.000–25.999 24,32
12.000–12.999 10,89 26.000–26.999 25,40
13.000–13.999 11,66 27.000–27.999 26,54
14.000–14.999 12,57 28.000–28.999 27,66
15.000–15.999 13,53 29.000–29.999 28,79
16.000–16.999 14,61 30.000–30.999 29,92
17.000–17.999 15,67 31.000 og yfir 31,05


3. gr.

    2. mgr. C-liðar 4. gr. laganna orðast svo:
    Af ökutækjum skráðum erlendis skal greiða þungaskatt fyrir hverja byrjaða viku sem ökutækið er hér á landi sem hér segir:

Eigin þyngd bifreiðar, kg Þungaskattur fyrir hverja byrjaða viku, kr. Eigin þyngd bifreiðar, kg Þungaskattur fyrir hverja byrjaða viku, kr.
Allt að 1.000 1.958 2.800–2.999 3.650
1.000–1.499 2.350 3.000–3.199 3.813
1.500–1.999 2.838 3.200–3.399 3.975
2.000–2.199 3.001 3.400–3.599 4.137
2.200–2.399 3.163 3.600–3.799 4.301
2.400–2.599 3.325 3.800–3.999 4.463
2.600–2.799 3.488


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.
4. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „10,50 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 11,34 kr.

5. gr.

    Í stað fjárhæðanna „28,60 kr.“ og „30,43 kr.“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 30,89 kr., og: 32,86 kr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. og 3. gr. laganna öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2004 og 2. gr. laganna 11. febrúar 2004.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði II. kafla laga þessara skulu gilda um allar vörur er ekki hafa verið teknar til tollafgreiðslu við gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Um er að ræða hækkun á gjaldskrá þungaskatts með tilliti til forsendna í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004. Lagt er til að fast árgjald og kílómetragjald þungaskatts hækki um 8%.
    Föstu gjaldi þungaskatts var síðast breytt með lögum nr. 151/1998 þar sem kveðið var á um 3,5% hækkun á gjaldskrá fasts gjalds þungaskatts frá 1. janúar 1999 og 2% hækkun frá 1. júlí 1999 með tilliti til forsendna í vegáætlun 1998–2002. Hækkun þessi kom að fullu til framkvæmda 1. júlí 1999 og var vísitala neysluverðs þá 189,5 stig. Vísitala neysluverðs í september 2003 er 227,9 stig. Vísitala neysluverðs hefur því hækkað um 20,3% á þessu tímabili en gjaldið haldist óbreytt.
    Kílómetragjaldi þungaskatts var einnig breytt með lögum nr. 151/1998 þar sem kveðið var á um 3,5% hækkun kílómetragjalds frá 11. febrúar 1999 og 2% hækkun frá 11. júní 1999 með tilliti til forsendna í vegáætlun 1998–2002. Hækkunin kom að fullu til framkvæmda 11. júní 1999 og var vísitala neysluverðs þá 188,8 stig. Kílómetragjaldi þungaskatts var síðast breytt með lögum nr. 165/2000 en þar var kveðið á um 10% lækkun á kílómetragjaldi þungaskatts vegna hækkunar á útsöluverð á dísilolíu í tengslum við hækkun á heimsmarkaðsverði. Lækkunin kom til framkvæmda 11. febrúar 2001 og var vísitala neysluverðs þá 202,8 stig. Eins og áður segir er vísitala neysluverðs í september 2003 227,9 stig og hefur vísitala neysluverðs því hækkað um 12,4% á tímabilinu frá 11. febrúar 2001 en gjaldið haldist óbreytt. Til hliðsjónar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 20,7% á tímabilinu frá 11. júní 1999 til september 2003.
    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Um er að ræða 8% hækkun á almennu og sérstöku vörugjaldi af eldsneyti í takt við forsendur tekjuáætlunar sem fyrr segir. Með lögum nr. 86/1999 var gerð breyting á lögum nr. 29/1993 og tekið upp fast gjald í krónum á bensín í stað hlutfallsgjalds. Fyrir breytinguna 1999 var vörugjald af bensíni 97% af tollverði, en eftir breytinguna varð gjaldið föst krónutala, 10,50 kr. af hverjum lítra af bensíni. Með lögum nr. 86/1999 var auk þess lagt á bensín sérstakt vörugjald, bensíngjald, sem rennur til vegagerðar, þ.e. 28,60 kr. af hverjum lítra af blýlausu bensíni og 30,43 kr. af hverjum lítra af öðru bensíni. Með því að taka upp fast gjald í krónum á bensín í stað hlutfallsgjalds var dregið úr þeim sveiflum sem breytingar á heimsmarkaðsverði á bensíni höfðu valdið á útsöluverði innan lands. Vörugjöld af bensíni hafa ekki hækkað frá því að lög nr. 86/1999 tóku gildi 21. október 1999 en þá var vísitala neysluverðs 193,3 stig. Vísitala neysluverðs í september 2003 er sem fyrr segir 227,9 stig og hefur vísitala neysluverðs því hækkað um 17,9% á tímabilinu. Með ákvæði til bráðabirgða, sbr. lög nr. 22/2002, um breytingu á lögum nr. 29/1993, var almennt vörugjald af bensíni tímabundið lækkað um 1,55 kr. á tímabilinu frá 4. apríl til loka júní 2002.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun sem frumvarp þetta kveður á um eru áætlaðar samtals um einn milljarður króna á ársgrundvelli. Þar af nema tekjur af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar, þ.e. sérstöku vörugjaldi af bensíni og þungaskatti, samtals 850 millj.kr.
    Hækkun á almennu og sérstöku vörugjaldi af eldsneyti kemur strax til framkvæmda við gildistöku laganna. Hvað þungaskattinn varðar kemur hækkunin til framkvæmda 1. janúar 2004 varðandi fast árgjald, en 11. febrúar 2004 varðandi kílómetragjald í þungaskatti.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar,
og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fast árgjald og kílómetragjald þungaskatts og vörugjöld af eldsneyti hækki um 8% í samræmi við forsendur fyrir tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004. Þessi gjöld eru tiltekin sem krónutölur í lögum og hefur þeim ekki verið breytt um nokkurra ára skeið, t.d. hafa vörugjöld á bensín verið óbreytt frá árinu 1999 á sama tíma og almennt verðlag hefur hækkað um 18%. Áætlað er að þessi hækkun á gjaldskrá þungaskatts auki tekjur ríkissjóðs um 400 m.kr. á ársgrundvelli en að hækkun á vörugjöldum á bensín auki tekjurnar um 600 m.kr. Frumvarpið snýr að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld svo að nokkru nemi verði það að lögum.