Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 125. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 125  —  125. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um erlendar starfsmannaleigur.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Jóhann Ársælsson, Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir,
Mörður Árnason, Guðrún Ögmundsdóttir,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um starfsemi erlendra starfsmannaleigufyrirtækja. Markmið frumvarpsins skal vera tvíþætt: Í fyrsta lagi að tryggja að erlendir starfsmenn sem koma á vegum starfsmannaleigna til starfa á Íslandi njóti í hvívetna sambærilegra réttinda og Íslendingar á vinnumarkaði. Í öðru lagi að koma í veg fyrir dulin undirboð á vinnumarkaði og tryggja þannig samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum sem leigja vinnuafl gegnum starfsmannaleigur.
    Félagsmálaráðherra hafi við samningu frumvarpsins náið samráð við verkalýðshreyfinguna. Hann skal leggja frumvarpið fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er.

Greinargerð.


    Rökstuddur grunur leikur á að erlend starfsmannaleiga með höfuðstöðvar í Lissabon, Portúgal, hafi ráðið erlenda starfsmenn til starfa á vinnusvæði ítalska verktakans Impregilo við Kárahnjúka á kjörum sem eru lakari en lögmætt er samkvæmt virkjanasamningi sem er í gildi milli aðila íslenska vinnumarkaðarins um starfsemi við virkjanir á hálendinu. Þetta er staðfest m.a. af ljósritum sem flutningsmenn tillögu þessarar hafa undir höndum af einstaklingsbundnum ráðningarsamningum milli einstakra starfsmanna á svæðinu og framkvæmdastjóra viðskiptasviðs starfsmannaleigunnar Select, Gualdino Diniz.
    Samkvæmt þeim voru portúgalskir iðnaðarmenn ráðnir á töxtum sem eru langt undir því sem samningar kveða á um hér á landi. Samningar af þeim toga eru skýlaust brot á íslenskum lögum og EES-rétti. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa með aðstoð túlks rætt við erlendu verkamennina á vinnusvæðinu við Kárahnjúka og tekið við yfirlýsingum sem innihalda upplýsingar sem þeir meta trúverðugar (sjá fylgiskjöl). Þar kemur fram að fram undir lok september voru meira að segja hinir ólögmætu einstaklingsbundnu samningar brotnir. Starfsmenn fengu ekki þá frídaga sem samningurinn kvað á um og voru látnir vinna alla daga vikunnar fram á hádegi á sunnudegi án aukaálags.
    Starfsmennirnir kveðast jafnframt hafa þurft að undirrita ódagsett uppsagnarbréf. Það þýðir í reynd að starfsmannaleigan getur án fyrirvara látið þá hætta störfum. Hér er því verið að brjóta grundvallarreglur á vinnumarkaði og beita vinnubrögðum sem undir öllum kringumstæðum eru siðferðilega óverjandi. Jafnvel á tímum hörðustu stéttaátaka eru vinnubrögð af þessu tagi vandfundin í verkalýðssögu hér á landi. Háttsemi erlendu starfsmannaleigunnar ber að skoða í ljósi þess að umtalsvert atvinnuleysi er Portúgal. Laun eru þar almennt lægri en hér á landi og flestir mannanna sem um ræðir eru fjölskyldufeður. Starfsmannaleigan, og þau fyrirtæki sem njóta þjónustu hennar, eru því að misnota sér erfiða stöðu, á stundum mannlega neyð, með ljótum hætti.
    Í samningnum sem áður er nefndur er jafnframt að finna ákvæði sem er í algerri andstöðu við leikreglur íslenska vinnumarkaðarins. Þar er kveðið á um að hægt sé að senda heim starfsmenn m.a. ef upp kemur það sem samningurinn kallar „vanhæfni“ eða „hegðunar- og agavandamál“. Samkvæmt samningnum skal þá starfsmaðurinn ekki aðeins greiða kostnað við sitt eigið ferðalag heim heldur líka vegna starfsmanns sem kemur í hans stað. Þetta ákvæði hefur verið framkvæmt með þeim hætti að starfsmenn sem hafa barist fyrir rétti sínum og bættum aðbúnaði hafa verið sendir úr landi og heim, þar sem slíkt fellur bersýnilega undir „hegðunar- og agavandamál“ að mati Impregilo og starfsmannaleigunnar. Fulltrúar starfsmannaleigunnar á vinnusvæðinu við Kárahnjúka hafa jafnframt túlkað smávægileg heilbrigðisvandamál, sem sum má rekja til slæms aðbúnaðar af hálfu Impregilo, sem „vanhæfni“ og sent þá heim.
    Lýsingu á þessari grófu háttsemi er að finna í ferðasögu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar á vinnusvæðið við Kárahnjúka, sem birt er á vef Starfsgreinasambandsins, www.sgs.is, sjá fylgiskjal II. Í henni segir af starfsmanninum Serafim Jesus Silva Heitor: „Hann hafi verið ráðinn af starfsmannaleigunni Select í júní sl. til Kárahnjúka. Ekki hafi honum verið ráðlagt að taka með sér vinnuföt miðað við íslenskar aðstæður, slíkt fengi hann á staðnum, en sú varð ekki raunin. Hann hafi veikst. Vegna neikvæðrar afstöðu yfirmanna við veikindunum hafi hann að eigin frumkvæði leitað til heilsugæslunnar á Neskaupsstað. Þar hafi hann verið lagður inn í viku, til aðhlynningar og meðferðar, en verið útskrifaður vinnufær í síðustu viku. Sjúkrahúslæknirinn hafi haft samband við Vladimir, lækni Impregilo, sín vegna og tjáð honum um niðurstöður af rannsóknunum og um vinnufærnina. Engu að síður hafi hann verið þvingaður, af hálfu Impregilo, til þess að gera samkomulag um að „hann þyrfti af heilsufarsástæðum að leita sér lækninga í Portúgal“. Serafim taldi að verið væri að bola sér úr vinnu vegna þess að hann leitaði til íslenskrar heilsugæslu með veikindi sín og lét okkur hafa afrit af samkomulaginu sem hann taldi sig þvingaðan til að skrifa undir, dags. 30. september 2003. Fram kom að Vladimir hafi ekki skoðað Serafim, og því væri fyrirtækið engu nær um raunverulegt heilbrigðisástand hans. Serafim var sagt upp og sendur heim 3. október.“
    Ljóst er því að allar hefðbundnar vinnureglur á íslenskum vinnumarkaði hafa verið þverbrotnar af starfsmannaleigunni og ítalska verktakanum Impregilo. Alþýðusamband Íslands greip inn í gang mála með vasklegum hætti. Það var ekki fyrr en æðsta forysta þess hafði látið málið til sín taka, og glitta tók í verkfallsvopnið, sem atburðarrásin tók að breytast. Þegar þessi þingsályktunartillaga er lögð fram liggur fyrir ígildi yfirlýsingar af hálfu Impregilo um að allir starfsmenn, erlendir jafnt sem innlendir, muni njóta virkjanasamningsins sem fyrr er nefndur.
    Deilan við Kárahnjúka hefur snúist um grundvallaratriði. Í reynd er þar í gangi tilraun til að brjóta á bak aftur áunnin réttindi íslenskra launamanna og skrúfa réttindabaráttu þeirra áratugi aftur í tímann. Takist sú tilraun mun samspil samkeppnislögmála og arðsvonar fyrr en seinna ryðja sömu vinnubrögðum til rúms hjá öðrum verktökum og að lokum öðrum atvinnugreinum. Þess vegna snýst þetta mál ekki aðeins um atburðarásina við Kárahnjúka heldur um leið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
    Það hefur verið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að fylgja því eftir að réttindi séu ekki brotin á umbjóðendum hennar. Í tímans rás hefur hún einnig í gegnum pólitískt afl á vettvangi stjórnmálanna beitt sér fyrir samþykkt laga sem hafa fest í sessi áunnin réttindi. Alþjóðavæðingin hefur hins vegar skapað nýjar aðstæður. Nýr hreyfanleiki vinnuafls hefur skapað glufur fyrir fyrirtæki einsog starfsmannaleigur til að flytja vinnuafl yfir landamæri frá láglaunasvæðum yfir á hálaunasvæði. Einstaklingsbundnir ráðningarsamningar gerðir í öðru landi en því sem verkið er unnið í gera verkalýðshreyfingunni mjög erfitt um vik með að fylgjast með því að ófyrirleitin fyrirtæki, eins og umrædd starfsmannaleiga, misnoti ekki neyð fátækra launamanna til að undirbjóða verð á vinnuafli í framkvæmdalandinu. Þetta er í vaxandi mæli að birtast á EES-svæðinu. Jafnaðarmenn allra landa líta að sjálfsögðu á það sem heilaga skyldu að vinna gegn þessari þróun. Það má gera með alþjóðlegu samstarfi verkalýðsfélaga en jafnframt með því að setja lög sem fortakslaust girða fyrir alla möguleika á misnotkun eins og þeirri sem starfsmannaleigan, sem Impregilo notar, hefur orðið uppvís að.
    Engin lög gilda í dag um starfsmannaleigur á Íslandi. Orðið starfsmannaleiga kemur hvergi fyrir en brýnt er að lög sem reisa viðunandi skorður við starfsemi slíkra fyrirtækja verði sett hið fyrsta. Þau verða í senn að banna alla misbeitingu og skerðingar miðað við gildandi kjarasamninga í framkvæmdalandi og um leið að tryggja að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og ríkið hafi óheftan aðgang að upplýsingum sem þarf til að ganga úr skugga um að misneyting eigi sér ekki stað, réttindi séu virt, og samningar haldnir í heiðri. Það yrði tilgangur laganna sem þessi þingsályktunartillaga er vonandi upphafið að.



Fylgiskjal I.


Samþykkt miðstjórnar ASÍ.
(1. október 2003.)

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega framferði ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo í samskiptum þess við launafólk. Lýst er fullri ábyrgð á hendur fyrirtækinu. Það er enn fremur ljóst að ábyrgð Landsvirkjunar í þessu máli er ótvíræð. Ábyrgð stjórnvalda er jafnframt mikil.
    Miðstjórnin telur mikilvægt að samstaða náist milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um að tryggja að farið verði að þeim samningum og lögum sem í gildi eru.
    Það er mikilvægt að allir þessir aðilar snúi bökum saman til að þessi mál verði færð til betri vegar. Samskipti og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði eru í húfi.


Fylgiskjal II.



Skúli Thoroddsen:

Minnispunktar frá ferð fulltrúa Starfsgreinasambands Íslands,
2. október 2003, um virkjanasvæðið við Kárahnjúka.

(Birt í vefriti Starfsgreinasambands Íslands.)


    Kynnisferð á vegum Starfsgreinasambands Íslands, SGS, var farin að vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar 2. október 2003. Markmið ferðarinar var að kynna sér aðstæður verkfólks á vinnusvæðinu og eftir atvikum ræða við verkafólk um kaup þess og kjör, aðbúnað, hollustuhætti og vinnuöryggi.
    Þátttakendur í ferðinni voru Halldór Björnsson, Snær Karlsson, Kristján Bragason, Skúli Thoroddsen, Kristján Gunnarsson, Már Guðnason og Guðmundur Þ. Jónsson. Auk þess voru fulltrúar landsambanda og miðstjórnar ASÍ með í för. Fulltrúi Afls SA, starfsgreinafélags Austurlands, Aðalbörn Sigurðsson, tók á móti hópnum á Egilsstöðum og aðaltrúnaðarmaður við Kárahnjúka, Oddur Friðriksson, fylgdi okkur um vinnusvæðið.
    Með aðstoð túlks, Stefáns Unnsteinssonar, gafst gott tækifæri til að ræða við portúgalska verkamenn á svæðinu, en þeir eru fjölmennasti erlendi hópur starfsmanna á svæðinu og koma einkum frá starfsmannaleigunni Select í Portúgal. Þá eru starfsmenn frá Ítalíu og Rúmeníu áberandi í hópi um 700 erlendra starfsmanna. Einungis um 100 starfsmenn eru íslenskir.
    Forseti ASÍ, Grétar Þorsteinsson, hélt túlkaða ræðu fyrir um 300 starfsmenn í mötuneyti á svæðinu þar sem hann kynnti m.a. bókun varðandi launagreiðslur erlendra starfsmanna frá 1. október og hét því um leið að íslenska verkalýðshreyfingin mundi standa vörð um kjara- og réttindabaráttu starfsmanna við Kárahnjúka og krefjast þess að aðbúnaður, kjör og öryggismál væru samkvæmt íslenskum lögum og vinnurétti. Var ákaflega góður rómur gerður að máli Grétars með lófataki. Starfmenn í mötuneytinu, þar sem fundurinn var haldinn, töldu að um 100 fleiri máltíðir hafi verið afgreiddar en venjulega vegna fundarins.
    Fréttamenn RÚV fylgust með fundinum og áttu m.a. viðtal við Halldór Björnsson, formann SGS og varaforseta ASÍ, sem sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að vinnuaðstaða við Kárahnjúka sé ekki mönnum bjóðandi og vanbúnaður sé á öllum sviðum. Sagðist hann hissa á að yfirvöld væru ekki búin að loka vinnubúðunum.

Kjaramál.
    Í viðræðum við einstaka starfsmenn, bæði frá Portúgal og Rúmeníu, kom fram að starfsmönnum höfðu verið boðnar 10,3 evrur í jafnaðarkaup, en greitt kaup væri 8–9 evrur. Mikil óánægja var með alla aðstöðu, svo sem kaffiskúra í gámum, skort á hreinlætisaðstöðu og salernum við vinnusvæði, útikamra við mötuneyti og lélega heilbrigðisþjónustu. Því var margoft haldið fram af starfsmönnum í viðræðum við þá að raunveruleikinn við Kárahnjúka færi mjög í bága við gefin loforð við ráðningu. Portúgölsku starfsmennirnir telja að þeir geti ekki farið heim um jólin eins og þeim hafi verið lofað.

Heilbrigðismál.
    Einn verkamaður, Mario Fernando Bastos Santos, kvartaði um að sér hafi verið neitað í þrígang um að fara til íslensks læknis vegna þess að ekki væri ferð. Mario taldi sig fingurbrotinn, en staðarlæknirinn, hinn rússneski Vladimir, hefði ekki enn viljað skoða sig svo honum hefði verið skipað að vinna áfram. Oddur, trúnaðarmaður kvaðst mundi taka upp málið við Impregilo.
    Annar starfsmaður, Serafim Jesus Silva Heitor, sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafi verið ráðinn af starfsmannaleigunni Select í júní sl. til Kárahnjúka. Ekki hafi honum verið ráðlagt að taka með sér vinnuföt miðað við íslenskar aðstæður, slíkt fengi hann á staðnum, en sú varð ekki raunin. Hann hafi veikst. Vegna neikvæðrar afstöðu yfirmanna við veikindunum hafi hann að eigin frumkvæði leitað til heilsugæslunnar á Neskaupsstað. Þar hafi hann verið lagður inn í viku, til aðhlynningar og meðferðar, en verið útskrifaður vinnufær í síðustu viku. Sjúkrahúslæknirinn hafi haft samband við Vladimir, lækni Impregilo, sín vegna og tjáð honum um niðurstöður af rannsóknunum og um vinnufærnina. Engu að síður hafi hann verið þvingaður, að hálfu Impregilo, til þess að gera samkomulag um að „hann þyrfti af heilsufarsástæðum að leita sér lækninga í Portúgal“. Serafim taldi að verið væri að bola sér úr vinnu vegna þess að hann leitaði til íslenskrar heilsugæslu með veikindi sín og lét okkur hafa afrit af samkomulaginu sem hann taldi sig þvingaðan til að skrifa undir dags. 30. september 2003. Fram kom að Vladimir hafi ekki skoðað Serafim, og því væri fyrirtækið engu nær um raunverulegt heilbrigðisástand hans. Serafim var sagt upp og sendur heim 3. október. Athygli vakti að íslensk heilbrigðisþjónusta er ekki virk á Kárahnjúkasvæðinu.

Aðbúnaður í mötuneyti.
    Verkamenn mötuðust í útigöllum, aðstaða til handlauga og hreinlætis var ekki sýnileg, útikamar fyrir einn var sýnilegur. Algengt var að menn gengju arna sinna utan dyra. Mötuneytið var ætlað u.þ.b. 200 manns. Ætla má að mötuneytið standist ekki kröfur íslenskra heilbrigðisyfirvalda um hreinlæti og hollustuhætti.

Starfsmannabúðir.
    Undirritaður skoðaði skála Íslendinga við Aðgöng 1. Tekið skal fram að vindur var töluverður af norðri og hiti um 5°. 17 herbergi voru í skálanum sem ætlaður var bæði fyrir menn og konur. Mjög hljóðbært var milli herbergja, einagrun afar léleg, gólfkuldi mikill og gustur með milliveggjum og samskeytum. Sturtu-, vaska- og salernisherbergi voru sameiginleg fyrir bæði kynin. Setustofa engin. Gert er ráð fyrir 12 tíma vöktum þeirra starfsmanna sem bjuggu í skálanum og 28 daga úthaldi með viku hléi á milli. Starfsmannabúðirnar sem skoðaðar voru, voru eins og þær búðir sem verið var að reisa og reistar vor víða á svæðinu. Sú spurning vaknaði hvort starfsmannabúðirnar sem skoðaðar voru séu til þess fallnar að leiða af sér andlega og líkamlega vanlíðan þegar dvalið er í þeim í jafn löngu úthaldi og raun ber vitni, einkum um vetur þegar veður eru válynd og skammdegi.

Félagsleg aðstaða.
    Félagsleg aðstaða til tómstunda eða annarra samvista var ekki sýnileg.

Almennt um vinnusvæðið.
    Það var áberandi hvað vinnusvæðið og umhverfi búðanna virkaði óaðlaðandi og illa skipulagt. Tæki og búnaður var oft á víðavangi og hvers kyns rusl var áberandi, m.a. mætti okkur fjúkandi bárujárn og annað lauslegt. Sú tilfinning fór um marga að íslenskar haust- og vetraraðstæður væru ekki virtar sem skyldi, en það á sennilega eftir að koma í ljós.

Niðurstöður.
    Þátttakendur í ferðinni fengu tækifæri til að kynna sér framgang verkþátta við Kárahnjúka, þ.e. undirbúning jarðvegsstíflu og jarðgangnagerð. Þannig fékkst gott yfirlit yfir vinnusvæðið í heild. Ekki var annað séð en unnið væri að kappi þrátt fyrir norðan rok þann daginn Vinnusvæðið er í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem veður eru válynd. Við slíkar aðstæður mun reyna mjög á starfsmenn á virkjanasvæðinu, einkum starfsmenn frá útlöndum sem ekki eru vanir að glíma við íslenskt veður. Þessar veðurfarslegu aðstæður, þar sem aðbúnaður virðist heldur ekki tilkomumikill, munu krefjast sérstakrar nærgætni í öllum samskiptum á vinnustaðnum eigi ekki að koma til vandræða. Þessar aðstæður krefjast m.a. öflugra talsmanna starfsmanna á svæðinu gagnvart stjórnendum og vinnuveitendum þar sem skilningur fyrir mannlegum þörfum og mannlegri reisn er viðurkenndur í samskiptum manna á milli. Á því máli þarf að taka strax.



Fylgiskjal III.



Vinnuaðstæður við Kárahnjúka.


(Úr fréttum Ríkisútvarpsins 7. október.)



    Þorbjörn Guðmundsson, talsmaður verkalýðshreyfingarinnar í samráðsnefnd um virkjanaframkvæmdir, segir að ummæli Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra, um að Impregilo brjóti hvorki lög né kjarasamninga, valdi sér miklum vonbrigðum. Árni sagði á Alþingi að vissulega hefðu komið upp hnökrar varðandi aðbúnað og launakjör en hins vegar sjá hvorki Vinnueftirlitið né Vinnumálastofnun ástæðu til þess að grípa til harðari aðgerða en þegar hefur verið gripið til á virkjanasvæðinu. Þorbjörn Guðmundsson, talsmaður verkalýðshreyfingarinnar í samráðsnefnd um virkjanaframkvæmdir: Árni tekur engar sannanir nema bara þá einhvern dómsúrskurð. Þá auðvitað getur hann haldið sig við þessa túlkun. En við höfum náttúrulega í höndunum bæði vitnisburð einstaklings, við höfum launaseðla sem að sýna fram á að það eru ekki greidd lágmarkslaun. Við erum með yfirlýsingar frá fjölda mönnum að launaseðlarnir sem séu gefnir út séu ekki réttir. Arnar Páll Hauksson: Þannig að þú segir að þessi fullyrðing félagsmálaráðherra, hún valdi vonbrigðum og vísar henni bara algjörlega á bug. Þorbjörn Guðmundsson: Já, hún veldur mér miklum vonbrigðum og mér finnst að hann þurfi að útskýra það hvað eru sannanir sem að hann tekur þá mark á. Hann talar alltaf um að það verði að sanna og sanna. Ég vil fá útskýringar hjá honum hvers konar sannanir vill hann fá. Trúir hann því að fátækur maður í Rúmeníu sem ráðinn er til starfa á Íslandi að honum hafi verið greidd þrenn árslaun bara án þess að hann kvittaði upp á áður en hann fór til Íslands. Þetta er spurningin um þetta, trúir hann þessu og hvers konar sannanir vill hann fá.


Fylgiskjal IV.



Össur Skarphéðinsson:

Verkalýðshreyfing sem stendur í lappirnar.
(Birt í vefritinu Samfylking.is)

    Það er hægt að vera stoltur af verkalýðshreyfingunni þessa dagana. Grétar Þorsteinsson og félagar hafa staðið sig einmuna vel í slagnum um grundvallarrétt verkafólks við Kárahnjúka. Munurinn á þeim og félagsmálaráðherra gæti ekki verið meiri. Þeir standa í lappirnar meðan Árni kiknaði í hnjánum við fyrstu raun. Ég átti á dauða mínum von fremur en því að hinn nýi félagsmálaráðherra léti hafa sig í það að gefa ítalska verkatakanum, Impregilo, siðferðisvottorð í bak og fyrir.
    ASÍ lét sig ekki muna um að fara fylktu liði upp á hálendið og halda 300 manna fund með túlki þar sem erlendu farandverkamennirnir gátu milliliðalaust borið upp við þá rangindin, sem þeir eru beittir. Svona eiga menn að vinna. Á meðan svitnaði félagsmálaráðherrann við skrifborðið og lét ekki í sér heyra. Afhverju í ósköpunum fór hann ekki og skoðaði aðstæður á vinnusvæðinu við Kárahnjúka?
    Framsóknarmenn og Vinstri – grænir eru haldnir sömu meinlokunni varðandi vinnudeiluna við Kárahnjúka. Forystumenn beggja flokka tala einsog þeir sem studdu virkjunina hljóti að styðja Impregilo líka í ranglæti þeirra við verkamenn á hálendinu. Halldór Ásgrímsson féll í þann fúla pytt á fundi fyrir austan að taka andköf yfir gagnrýni á Impregilo og sagði efnislega að án þeirra væri ekki víst að menn hefðu virkjað. Steingrímur Joð er jafn áttavilltur í málinu. Hann talar eins og menn geti ekki verið á móti fautaskap Impregilo nema þeir séu líka á móti virkjun. Þetta er mikill eintrjáningsháttur Steingríms og Halldórs.
    Vitanlega geta menn stutt ákvörðun um virkjun, án þess að samþykkja ofríkið sem verktakinn ítalski hefur beitt starfsmenn sína. Þingmenn Samfylkingarinnar studdu langflestir virkjun, en enginn þeirra myndi nokkru sinni verja fráleita framkomu Impregilo. Það er þess vegna sem Samfylkingin hefur verið fremst í flokki þeirra sem gagnrýna athæfi Ítalanna, og er þó hvergi hætt einsog menn eiga eftir að finna.
    Félagar okkar í ASÍ hafa sýnt og sannað síðustu vikur hvað öflug verkalýðshreyfing er mikilvæg. Við getum verið stolt af þeim. Málið snýst heldur ekki aðeins um velferð nokkurra hundruða innlendra og erlendra verkamanna. Það snýst ekki síst um hvernig vinnurmarkaðurinn þróast hér á landi á næstu misserum. Það sem erlendu starfsmannaleigurnar komast upp með við Kárahnjúka mun óhjákvæmilega ryðja sér til rúms annars staðar. Sameiginleg lögmál samkeppni og arðsvonar munu sjá um það. Þess vegna þarf að stoppa þær í framferði sínu. Hér er hins vegar um tiltölulega nýjan vanda að ræða. Jafnaðarmenn á alþjóðavísu þurfa því að samræma aðgerðir, og lagasetningar, til að stemma stigu við ófögnuði eins og þeim sem við höfum kynnst síðustu vikur. Það getum við gert gegnum ítök okkar í ríkisstjórnum, og alþjóðlegum bandalögum einsog Evrópusambandinu. En við þurfum að byrja heima.