Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 139. máls.
127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 139  —  139. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna.


Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort rétt sé að breyta ákvæðum laga um rafræn viðskipti sem fjalla um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar gagna með það að markmiði að ábyrgð þjónustuveitanda verði aukin og hann beri skilyrðislausa ábyrgð á að gera allt barnaklám sem kann að vera hýst á netþjóni hans óaðgengilegt eða fjarlægja það.
    Nauðsynlegar lagabreytingar skulu lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram samhliða frumvarpi sem flutningsmenn flytja um breytingu á 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, þess efnis að það verði refsivert að senda börnum kynferðislegt og klámfengið efni með atbeina hvers konar tölvu- og fjarskiptatækni. Við vinnslu frumvarpsins veltu flutningsmenn sérstaklega fyrir sér ábyrgð þeirra sem reka netþjóna. Í 14. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, segir í 3. tölul. 1. mgr. að þjónustuveitandi sem hýsir gögn sem látin eru í té af þjónustuþega ber ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim án tafar eftir að hann hefur fengið vitneskju um gögn sem innihalda barnaklám. Flutningsmenn telja að rétt sé að ganga lengra í þessum efnum. Flutningsmenn taka því undir með nefnd sem dómsmálaráðherra skipaði og skilaði skýrslu með tillögum um úrbætur vegna kláms og vændis. Í skýrslunni segir m.a. að nefndin telji að á sviði lagasetningar sem tekur til kláms á veraldarvefnum megi gera betur og að lög sem gerðu rekendur netþjóna ábyrga fyrir því efni sem þar væri að finna væri til bóta. Síðan segir í skýrslunni: „Fyrirmynd að slíkum lögum er til í sænskri löggjöf en þar gilda lög nr. 112 frá 1998 um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna. Í 5. gr. laganna er kveðið á um skyldu þess sem rekur netþjón að eyða eða stöðva frekari útbreiðslu efnis af ákveðnu tagi, þ. á m. barnakláms. Geta brot gegn ákvæðinu varðað sektum eða fangelsi allt að 6 árum.“ Í sænsku lögunum er því lögð bein skylda á þann sem rekur slíka þjónustu að fjarlægja skilaboð sem hafa að geyma barnaklám eða gera þau óaðgengileg á einhvern annan hátt. Áhöld eru um það hvort sænska ákvæðið gangi í bága við tilskipun Evrópusambandsins um rafræn viðskipti, nr. 31/2000. Flutningsmenn telja ástæðu til að kanna hvort svo sé og þá hvort rétt sé að taka strangari reglu upp í íslenskan rétt þess efnis að sé barnaklám hýst á netþjóni beri sá sem rekur netþjóninn skilyrðislausa ábyrgð á því. Af því tilefni flytja flutningsmenn þessa tillögu samhliða fyrrgreindu frumvarpi.