Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 141. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 141  —  141. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um talnagetraunir, nr. 26 2. maí 1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)1. gr.

    Í stað orðanna „Íþróttasambandi Íslands“ í 1. mgr. 1. gr. laganna og sömu orða hvarvetna í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.

2. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Heimild þessi gildir til 1. janúar 2019.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 26 2. maí 1986, var Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) veitt leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtökin myndu stofna, talna- eða bókstafagetraunir. Starfsemin er rekin í nafni félagsins Íslensk getspá. Heimildin var veitt til tæplega 20 ára og gildir til ársloka 2005.
    Ágóða af getraunastarfseminni skal varið til eflingar íþrótta- og ungmennastarfi í landinu og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja eða til að standa undir annarri starfsemi Öryrkjabandalagsins í þágu öryrkja. Reksturinn hefur haft mikla fjárhagslega þýðingu fyrir eigendurna.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild dómsmálaráðherra til að veita félaginu leyfi til að reka getraunastarfsemi verði framlengd til 1. janúar 2019. Brýnt er að frumvarpið nái fram að ganga nú þar sem endurnýja þarf tækjabúnað og því nauðsynlegt að framtíðarhorfur félagsins séu skýrar þegar gengið verður til samninga um það.
    Jafnframt er rétt að benda á að hugsanlega getur þurft að stytta leyfistímann ef breyta þarf skipan happdrættismála hér á landi, svo sem ef alþjóðlegar reglur kalla á slíkar breytingar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um talnagetraunir,
nr. 26 2. maí 1986.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að leyfi sem félagið Íslensk getspá hefur haft til reksturs getraunastarfsemi hér á landi frá árinu 1986 verði endurnýjað og framlengt til 1. janúar 2019. Rekstur félagsins fellur ekki undir starfsemi ríkisins og hefur lögfesting frumvarpsins ekki áhrif á fjárreiður ríkissjóðs.