Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 168  —  166. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.

Greinargerð.


    Óþarfi að fjölyrða um þann vanda sem blasir við íslenskum landbúnaði og þá erfiðleika sem við er að glíma í byggðamálum í strjálbýlinu. Hæst hefur borið að undanförnu vanda sauðfjárræktarinnar en ljóst er að margar fleiri greinar landbúnaðar búa við mikla erfiðleika. Þannig er afkoma loðdýrabænda mjög slæm og framleiðendur nautakjöts hafa ekki farið varhluta af ástandinu á kjötmarkaði frekar en aðrir þar sem mikil upplausn ríkir. Einna best stendur mjólkurframleiðslan og málefni garðyrkjunnar hafa einnig verið að komast í heldur skárra horf að undanförnu. Sem betur fer hefur að sjálfsögðu ýmislegt jákvætt gerst í atvinnu- og byggðamálum til sveita. Má þar nefna uppbyggingu í ferðaþjónustu og ýmiss konar afþreyingu, handverk og framleiðslu sem þeirri uppbyggingu tengist. Einnig aukna kornrækt, hrossarækt, skógrækt, bleikjueldi og aukinn hlut sveitanna í margs konar umönnunarstörfum svo að eitthvað sé nefnt.
    Ný störf af ýmsum toga sem skapast hafa í nokkrum mæli í sveitum landsins að undanförnu breyta ekki því að hin hefðbundna búvöruframleiðsla, ekki síst sauðfjárræktin, er undirstaða hinnar dreifðu búsetu. Fjöldi nýrra starfa dugar tæpast til að vega upp á móti samdrætti og fækkun í hinum hefðbundna landbúnaði. Félagslega mega sveitir landsins yfirleitt ekki við frekari fækkun sem að óbreyttu leiðir til byggðahruns í heilum héruðum og landshlutum innan ekki langs tíma haldi svo fram sem horfir.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur undanfarin ár haft málefni landbúnaðarins og sveitanna stanslaust til umræðu og á dagskrá. Flokkurinn hefur lagt áherslu á sjálfbæra þróun greinarinnar, stuðning við hefðbundnar fjölskyldueiningar í rekstri og hefur varað við tilhneigingum til óhóflegrar samþjöppunar og verksmiðjubúskapar. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur flutt tillögur um stuðning við lífrænan landbúnað og mörg önnur þingmál sem varða hagsmuni landbúnaðarins og hinna dreifðu byggða. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mótað stefnu um að taka beri upp svonefndan búsetutengdan grunnstuðning við landbúnaðinn og búsetu í sveitum. Fyrstu hugmyndir í þessa veru komu fram í umræðum og ályktunum á vettvangi kjördæmisráða á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum og síðan hafa slíkar hugmyndir mótast og verið festar í sessi í ályktunum landsfunda og í síðustu kosningastefnuskrá flokksins. Um nánari útfærslu vísast í fylgiskjöl með tillögu þessari.
    Tillagan gerir ráð fyrir að kosin verði nefnd fulltrúa allra þingflokka til að vinna að málinu með stjórnvöldum og bændasamtökunum og að sjálfsögðu eftir atvikum einnig öðrum helstu hagsmuna- og málsaðilum svo sem neytendum og aðilum vinnumarkaðarins, aðilum á sviði byggðamála o.s.frv.


Fylgiskjal I.

Fréttatilkynning / ályktun.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(Þriðjudaginn 9. september 2003.)

Fylgiskjal II.

Steingrímur J. Sigfússon:

Nýsköpun í atvinnulífi til sveita.

(Bændablaðið 28. janúar 2003.)


    Ef skoðaðar eru aðstæður til nýsköpunar í atvinnumálum til sveita, skjóta kunnuglegir hlutir fljótt upp kollinum. Vandamálin sem við er að glíma eru mörg þau sömu og verða á vegi allra er spreyta sig við nýja hluti í atvinnumálum. Önnur eru sérstaklega tengd þeim aðstæðum sem ríkja í dreifbýlinu. Þannig má sem dæmi taka að víða vantar enn þriggja fasa rafmagn, samgöngur eru erfiðar og ótryggar, fjarskiptum ábótavant o.s.frv. En um leið og glímt er við erfiðar aðstæður skapar sérstæða sveitanna jafnframt margvísleg tækifæri. Þar geta verið til staðar hráefni, vinnuafl, orka og náttúra sem í sjálfu sér býður upp á mikla möguleika.

Fjölbreytni er lykilorðið.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur á undanförnum misserum lagt vinnu í að móta framsækna atvinnustefnu með fjölbreytni að leiðarljósi, sem miðar sérstaklega að því að hlúa að nýsköpun, auðvelda fólki að stofna til atvinnurekstrar og stuðla að vexti lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Slíkar áherslur, samfara því að fjárfest sé ríkulega í innviðum atvinnulífs og mannlífs, rannsóknar- og þróunarstarfi og menntun, eru víðast hvar flokkaðar undir framsækna atvinnustefnu. Það verður tæpast sagt um þá blindu stóriðjustefnu sem stjórnvöld hér á landi hafa rekið. Okkar stefna hentar að sjálfsögðu vel aðstæðum í sveitunum. Seint verður þörfum fyrir ný störf mætt og vaxtarmöguleikar tryggðir í sveitum landsins með byggingu eintómra álvera. Að sjálfsögðu er sama keppikefli fyrir sveitirnar, eins og þéttbýlið, að geta boðið ungu fólki upp á tækifæri og starfsmöguleika í heimabyggð að loknu námi.
    Hér verður tæpt á nokkrum atriðum sem máli skipta að mati höfundar þegar rætt er um nýsköpun í atvinnulífi til sveita. Einnig taldar upp álitlegar vaxtargreinar og nefndir ýmsir möguleikar og þá frekar sem dæmi en að um tilraun til tæmandi upptalningar sé að ræða. Boðskapurinn er sá að það er ekki skortur á tækifærum sem stendur mönnum mest fyrir þrifum heldur skilningsleysi stjórnvalda og skortur á stuðningi við erfiðar aðstæður.

Frumkvæði kvenna.
    Áður en lengra er haldið er rétt að nefna sérstaklega til sögunnar einn þátt og það er mikilvægi þess að virkja hugvit og sköpunarkraft kvenna í atvinnumálum sveitanna ekki síður en í landinu í heild. Margt af því jákvæða sem þrátt fyrir allt hefur verið að gerast í atvinnumálum á landsbyggðinni er einmitt þannig til komið. Konur hafa, svo dæmi sé tekið, stofnað mörg af þeim fyrirtækjum á sviði smáiðnaðar, ferðaþjónustu, handverks og lista sem víða eru tekin að skila talsverðum viðbótartekjum til samfélagsins. Mikilvægi þessa ber ekki aðeins að skoða í ljósi verðmætasköpunar heldur einnig og ekki síður þeirrar nauðsynjar að störf fyrir konur haldist í hendur við atvinnumöguleika karla í byggðum landsins. Gerist það ekki má búast við að hlutföll kvenna og karla skekkist og til sögunnar komi svonefndur kynjahalli sem orðið er vel þekkt fyrirbæri á ákveðnum landsvæðum. Nær undantekningalaust er það á þá leiðina að konur eru orðnar færri en karlar í strjálbýlinu, sums staðar svo miklu munar.

Þingsályktunartillaga VG.
    Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur tillaga frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um sérstakar aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í tillögunni er tekið á helstu þáttum sem skoða þarf sérstaklega út frá aðstæðum smáatvinnurekstrar og rakið hvar skórinn kreppir í þeim efnum. Er það auðvitað ekki síst fjármögnunarþátturinn sem er erfiður nýsköpun í atvinnulífinu, og reyndar atvinnuumsvifum á landsbyggðinni yfirleitt. Gætir þar m.a. sívaxandi áhugaleysis einkavæddra eða hlutafélagavæddra fjármálastofnana á því að deila kjörum með íbúum landsbyggðarinnar og taka áhættu með þeim. Er nú svo komið að margar fjármálastofnanir neita nánast sjálfkrafa að líta á erindi um fyrirgreiðslu ef póstnúmer umsækjanda vísar á dreifbýlið. Skylt er að geta þess að fyrir þingi liggur einnig stjórnarfrumvarp um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, þar sem að hluta til er tekið á sömu þáttum og í tillögu okkar.


Búsetutengdur grunnstuðningur.
(Bændablaðið 11. febrúar 2003.)


    Hugmyndir um að taka upp einhvers konar búsetutengdan grunnstuðning sem lið í stuðningi hins opinbera við landbúnað og byggð í sveitum hafa talsvert verið ræddar á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hluti af samningsbundnum eða pólitískt ákvörðuðum stuðningi hins opinbera við landbúnað og búsetu í sveitum yrði þá slíkur grunnstuðningur tengdur við heilsársbúsetu í sveitum og eftir atvikum tiltekin búskapar- eða atvinnuumsvif. Til sögunnar kæmi sem sagt ákveðinn grunnstuðningur sem væri óháður framleiðslumagni á hefðbundnum búvörum og jafnvel óháður því hvaða tegund búskapar, eða önnur skilgreind atvinnuumsvif, menn hefðu með höndum.
    Í nálægum löndum eru dæmi um ýmiss konar stuðning við landbúnað eða búsetu í strjálbýli sem ekki er beint tengdur framleiðslu. Þar má m.a. nefna svæðisbundinn stuðning þegar stutt er sérstaklega við búskapinn þar sem aðstæður eru erfiðar, t.d. í norðurhéruðum Skandinavíu og Finnlands. Einnig stuðning sem tengdur er stærð býla eða stærð ræktaðs lands, þá gjarnan þannig að greidd er viss upphæð á hvern hektara sem fer lækkandi eða deyr út eftir því sem býlin stækka. Með slíku fyrirkomulagi er hver eining í búrekstrinum studd með vissum hætti. Sama fyrirkomulag er þekkt eða innbyggt í framleiðslutengdan stuðning þar sem greiddur er fullur stuðningur á eitthvert tiltekið magn mjólkur eða kjöts sem fer síðan lækkandi með auknu framleiðslumagni og deyr jafnvel alveg út við viss mörk. Enn eitt form slíks grunnstuðnings er sérstakur stuðningur við unga bændur eða við kynslóðaskipti í landbúnaði en slíkt er þekkt m.a. í Finnlandi. Hér á landi er stuðningi hins opinbera við búvöruframleiðslu öðruvísi fyrir komið eins og kunnugt er og óþarfi að tíunda fyrir lesendum Bændablaðsins. Látum hér liggja milli hluta hvort beinn stuðningur við búvöruframleiðslu af því tagi sem beingreiðslur gildandi búvörusamnings eru skuli teljast stuðningur við neytendur gegn um lægra vöruverð og/eða bændur og landbúnaðinn.

Óútfyllt ávísun?
    Óttist einhverjir að tilkoma búsetutengds grunnstuðnings yrði ávísun á stjórnlaus útgjöld hins opinbera er auðvelt að róa þá hina sömu. Útgjöldin myndu að sjálfsögðu takmarkast bæði af upphæð, og fjölda bújarða og heimila sem til greina kæmu. Gleymum ekki að sú búseturöskun og grisjun byggðar sem enn er í gangi er þjóðfélaginu afar dýr. Ríki, sveitarfélög og síðast en ekki síst einstaklingarnir sjálfir sem í hlut eiga bera mikinn herkostnað af óbreyttu ástandi. Fátt, ef nokkuð, væri því betri fjárfesting en öflugar og markvissar aðgerðir sem dygðu til að koma byggðaþróun hér á landi í sæmilegt jafnvægi. Að sjálfsögðu mætti svo skoða að tengja slíkan stuðning við afkomu eða veltu með einhverjum hætti. Þegar tekjur ykjust af búskap eða annarri atvinnustarfsemi sem byggst hefði upp á jörðum á grunni þessa stuðnings drægi úr greiðslum eða þær takmörkuðust á einhvern hátt tengt tíma eða aðstæðum.

Samhengi við núgildandi búvörusamning.
    Hvað varðar þá sem njóta nú þegar stuðnings í gegnum búvörusamninga í formi beingreiðslna gæti búsetutengdur grunnstuðningur orðið hluti af slíkum samningum í framtíðinni. Að sjálfsögðu munu þeir sem njóta beingreiðslna í dag ekki telja sig ofhaldna af þeim upphæðum sem þar eru á ferðinni og vilja að slíkur grunnstuðningur bættist þar ofan á og kæmi til viðbótar því sem fyrir er. Um slíkt yrði að sjálfsögðu að semja. Til hliðar yrði tekinn upp sambærilegur stuðningur við aðra til að jafnræðis og sanngirni væri gætt. Þessi búsetutengdi grunnstuðningur væri óframseljanlegur. Hann fylgdi jörðunum og yrði ekki frá þeim seldur; sofnaði ef búseta legðist af en gæti vaknað til lífsins á nýjan leik ef einhver vildi koma og setjast að. Sá grundvallarmunur yrði á þessu fyrirkomulagi og því núverandi að réttinn þyrfti ekki að kaupa út í hverjum kynslóðaskiptum þar sem rétturinn væri ekki framseljanlegur heldur fylgdi jörðinni og hefði ekki verðgildi nema þar væri búseta.
    Að sjálfsögðu vakna ýmsar spurningar um ágæti slíks fyrirkomulags og útfærsla þess er á engan hátt vandalaus. En núverandi fyrirkomulag á stuðningi við búvöruframleiðsluna er svo sannarlega ekki fullkomið heldur. Ríkið styrkir framleiðslu í hefðbundnum búgreinum í gegnum búvörusamninga en tilraunir sveitafólks til að koma fótum undir rekstur á grundvelli nýbúgreina, í ferðaþjónustu eða öðru slíku njóta einskis sambærilegs stuðnings.
    Þess má að lokum geta að niðurstaða í yfirstandandi samningaviðræðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem fjalla ekki síst um landbúnaðarmál, er líkleg til að kalla hvort sem er á grundvallarbreytingar á opinberum stuðningi við landbúnað hér á landi. Í Noregi er nú mikil umræða um hvernig landbúnaði þar muni reiða af ef niðurstaðan verður á þeim nótum sem allt teiknar nú til í Doha-samningaferlinu. Sjónarmið Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa verið að nálgast hvað það varðar að draga úr beinum stuðningi við landbúnaðarframleiðslu, ekki síst að skera verulega niður eða jafnvel afnema útflutningsbætur. Breytingarnar sem í vændum eru tengjast ekki aðeins upphæðum eða umfangi stuðningsins heldur einnig formi. Líklegasta niðurstaðan er sú að ríki skuldbindi sig einmitt til að draga verulega úr framleiðslutengdum eða markaðsbjagandi stuðningi (gula og bláa boxið). Ýmiss konar stuðningur á öðru formi (græna boxið) verður áfram mögulegur og leyfilegur bæði samkvæmt evrópskum og alþjóða- eða WTO reglum.
    Allt ber að sama brunni. Ástand mála hér hjá okkur sem og það sem í vændum er í alþjóðasamningum vísar í þá átt að taka núverandi fyrirkomulag á stuðningi við búvöruframleiðslu til endurskoðunar. Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um búsetutengdan grunnstuðning til stuðnings landbúnaði og búsetu í sveitum eru innlegg í það mál. Þeim er varpað fram til umræðu og væri fróðlegt að fá viðbrögð, til dæmis hér í blaðinu, um málið. Fylgiskjal III.

Steingrímur J. Sigfússon:

Nýsköpun í atvinnumálum – hlutverk lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
(Morgunblaðið 8. desember 2002.)


    Nokkuð er um liðið síðan menn tóku að gera sér grein fyrir mikilvægi nýrra fyrirtækja annars vegar og hins vegar vaxtar lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að skapa ný störf. Þar tala staðreyndirnar sínu máli.
    Á áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina var ríkjandi sá hugsunarháttur að hagvöxtur þjóða væri drifinn áfram af umsvifum stórfyrirtækja og aðrir aðilar nytu góðs af molunum sem hrytu af því borði (spin off). Stórfyrirtækin væru vélarnar sem drifu áfram hagvöxtinn en aðrir fylgdu í kjölfarið og nytu góðs af.
    Fyrir nokkrum áratugum tóku þessi viðhorf að breytast þar sem kannanir sýndu að þessu væri öfugt farið. Það var þvert á móti starfsemi nýrra smáfyrirtækja sem lagði til obbann af nýjum störfum, fyrirtækja sem urðu til fyrir frumkvæði einstaklinga, frumkvöðla, uppfinningamanna eða annarra slíkra í atvinnulífinu. Vöxtur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur einnig mikla þýðingu fyrir atvinnusköpun. Þar er í raun hrygglengju atvinnulífsins að finna og drifkraft framfara í efnahags- og atvinnumálum hvers lands.
    Þannig liggja fyrir kannanir sem sýna að ríflega helmingur af samanlagðri þjóðarframleiðslu Evrópulanda kemur frá fyrrgreindum aðilum. Allt að 70% nýrra starfa í hinu almenna atvinnulífi verða til í nýjum smáfyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti. Mikilvægi atvinnurekstrar í smáum stíl er orðið tiltölulega óumdeilt hvað varðar störf og hagvöxt þótt hér á landi gæti enn þá tilhneigingar til að trúa á stórar og einfaldar lausnir.

Smáfyrirtæki og nýsköpun.
    Eftir að tekið var að veita athygli atvinnurekstri í smáum stíl og starfsemi einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna þá hefur komið í ljós að stór hluti nýrra hugmynda, uppfinninga og nýrra lausna í atvinnumálum á sér uppsprettu í þessum jarðvegi, í grasrót hinnar smáu, dreifðu og fjölbreyttu starfsemi. Sú staðreynd að stórfyrirtæki kaupa iðulega upp slíkar hugmyndir eða jafnvel fyrirtækin í heilu lagi breytir ekki því að veruleg þróun í atvinnumálum á sér stað með þessum hætti.
    Með þessu er þó ekki verið að kasta rýrð á þá fjölþættu og öflugu rannsóknarstarfsemi sem stórfyrirtæki reka á sínum vegum og minni aðilar hefðu enga möguleika á að sinna. En kannanir tala sínu máli í þessum efnum og það gerir einnig sú mikla áhersla sem framsæknar þjóðir leggja nú á stuðning við hvers kyns nýsköpun í atvinnulífi af hálfu uppfinningamanna og frumkvöðla og úti á akri smáfyrirtækjanna.

Smáfyrirtækin: styrkleikar og veikleikar.
    Spyrja má hvers vegna smáfyrirtækin reynast jafn frjó og mikilvæg uppspretta nýsköpunar í atvinnumálum og raun ber vitni. Þar kemur auðvitað margt til.
    Í fyrsta lagi má líta á meginástæður þess að einstaklingar eða litlir hópar taka sig saman og stofna til atvinnurekstrar. Nýjum fyrirtækjum af því tagi er gjarnan skipt í tvennt. Annars vegar eru fyrirtæki eða atvinnurekstur sem fer af stað vegna þess að menn eygja tækifæri í viðskiptum. M.ö.o. er stofnun fyrirtækisins drifin áfram af þeim tækifærum eða möguleikum í viðskiptalífinu sem viðkomandi aðilar hafa komið auga á (opportunity driven).
    Hinn meginflokkurinn er fyrirtæki eða atvinnustarfsemi sem viðkomandi ræðst í í þeim megintilgangi að skapa sjálfum sér atvinnu vegna þess að atvinnu er ekki að hafa þar sem viðkomandi aðili býr. Atvinnan sem fyrirtækið veitir stofnanda sínum er þá megintilgangurinn, það sem drífur uppbygginguna áfram (necessity driven). Hvort heldur sem er snýst allt um að finna eða nýta ný tækifæri, koma auga á nýja möguleika sem öðrum hefur yfirsést eða enginn hefur hagnýtt sér fram að þessu. Það liggur í eðli nýrra fyrirtækja að þau snúast um eitthvað nýtt, að nýta tækifæri sem til staðar eru í viðskiptum. Og vel að merkja: Að gera hluti með nýjum og árangursríkari aðferðum en áður hafa verið viðhafðar er einnig nýsköpun.
    Fleira kemur í ljós þegar betur er að gáð. Þannig sýnir sig að atvinnurekstur í smáum stíl hefur tilhneigingu til að vera viðbragðsfljótur, snöggur að laga sig að breyttum aðstæðum, mæta nýjum markaðsþörfum, skynja tækifæri o.s.frv. Smáatvinnurekstur á vissulega líka við sína erfiðleika að stríða. Oft er aðgangur að fjármagni erfiður. Fyrirtækin þurfa að sanna sig áður en nokkur þorir að veðja á þau. Þau hafa litlar sem engar eignir til að veðsetja eða tefla fram sem tryggingum gegn fyrirgreiðslu. Nýstofnað eða lítið fyrirtæki hefur einnig minna úthald eða þol til að standast sveiflur og ganga í gegnum erfiðleikatímabil.

Smáfyrirtæki og byggðaþróun.
    Mikilvægi atvinnurekstrar í smáum stíl, nýsköpunar, þróunar og stofnunar slíkra fyrirtækja er ótvírætt í byggðalegu tilliti. Í afskekktum byggðarlögum er tilurð nýrra fyrirtækja oft af þeim toga sem áður var um rætt og skapast af þörf viðkomandi aðila til að útvega sér atvinnu, ná sér í tekjur og skapa sér og sinni fjölskyldu afkomu. Þau eru í mjög mörgum tilfellum fjölskyldufyrirtæki og þess eru mörg dæmi að nánast hafi orðið kraftaverk í atvinnumálum vegna þess að útsjónarsamir aðilar vildu skapa sér og sínum atvinnu og tekjur þar sem slíkt var ekki að hafa með öðru móti.

Frumkvæði kvenna.
    Í seinni tíð er áberandi að konur koma inn á vinnumarkaðinn og inn í atvinnulífið í gegnum stofnun nýrra fyrirtækja, smáfyrirtækja þar sem þær með útsjónarsemi sinni eygja tækifæri í viðskiptum sem aðrir hafa ekki komið auga á eða nýtt. Viðurkennt er að konur standa oft öðruvísi að málum en karlar þegar þær taka fyrstu skrefin og eru að fóta sig í uppbyggingu atvinnufyrirtækja. Þannig eru þær oft varkárar í skuldsetningu og byggja fyrirtækin upp af meiri þolinmæði, elju og útsjónarsemi. Mjög oft er um að ræða að gera verðmæti úr hráefnum, vörum eða viðskiptahugmynd sem áður hefur verið hent eða alls ekki nýtt. Ísland er hér engin undantekning og nefna má fjölmörg glæsileg dæmi sem konur hafa haft frumkvæði að. Það gildir t.d. í ferðaþjónustu, menningu og listum, ýmiss konar handverki og smáiðnaði. Einnig í þjónustugreinum, í framleiðslu á snyrti- og heilsuvörum, lyfjum o.s.frv. Það er ekki síst ánægjulegt að konur hafa verið í fararbroddi þeirra sem skapa verðmæti úr hráefnum íslenskrar náttúru, s.s. grösum, jarðefnum, fiskroði, skinnum og steinum svo eitthvað sé nefnt.

Stuðningur erlendis.
    Á erlendum vettvangi hefur á undanförnum árum verið lögð sífellt meiri áhersla á stuðning við uppbyggingu atvinnustarfsemi í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og við starf einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna. Hjá Evrópusambandinu gildir sérstök stefna eða sáttmáli um smáfyrirtæki (European charter for small enterprises). Málið hefur einnig verið á dagskrá norrænnar samvinnu. Efnahags- og atvinnumálanefnd Norðurlandaráðs hefur fjallað um málið og gert tillögur um aðgerðir á þessu sviði. Þær hafa síðan leitt til þess að ráðherraráðið, þ.e.a.s. atvinnumálaráðherrar Norðurlanda, samþykktu á fundi 7. október sl. sérstakan norrænan sáttmála fyrir smá þróunarfyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn (Nordisk Charter for små innovative virksomheter, entreprenører og selvstendige oppfindere).
    Í Danmörku og Svíþjóð hefur þessum málið verið vel sinnt og Svíar reka m.a.s. sérstaka rannsóknarstofnun sem sérhæfir sig í rannsóknum á stuðningi við smáfyrirtæki. Einnig er alþekkt að Finnar hafa lagt mikið af mörkum til rannsóknar- og þróunarstarfs á undanförnum árum og stóraukið það hlutfall sem til slíkra málefna fer af landsframleiðslu. Hérlendis er vissulega margt vel gert í þessum efnum þótt af veikum mætti sé. Þannig er ljóst að stór hluti þess atvinnuþróunarstarfs sem unninn er, t.d. í atvinnuþróunarfélögum landshlutanna, beinist að uppbyggingu nýrra fyrirtækja og atvinnurekstri í smáum stíl. Sama má segja um starfsemi aðila eins og Byggðastofnunar og Iðntæknistofnunar þar sem talsvert er gert til þess að reyna að standa við bakið á frumkvöðlastarfsemi. Engu að síður má færa fyrir því traust rök að brýna nauðsyn beri til að taka þessi mál fastari tökum hér á landi og snýr það ekki síst að Alþingi og ríkisstjórn, löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi og allri stjórnsýslu að móta rammann.

Tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur flutt þingsályktunartillögu um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Megintilgangur tillögunnar er að ýta undir að málin verði tekin hér föstum tökum og þá m.a. höfð hliðsjón af því hvernig staðið er að málum í nágrannalöndunum. Í ályktuninni felst að ríkisstjórnin skuli vinna að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og skal meginmarkmið aðgerðanna vera að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin skal fela í sér tillögur til úrbóta og sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum sem afla þarf betri upplýsinga um:
          kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
          aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
          kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
          aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
          kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
          kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
          skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
          stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
          stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
          stöðu frumkvöðla og uppfinningamanna.
    Fyrst og síðast snýst þetta þó um að búa til verðmæti úr hugviti og þekkingu og virkja mannauðinn sem er verðmætasta auðlind allra þjóða.

    Á ráðstefnu í Noregi fyrir nokkru tók Gabrielsen, iðnaðarráðherra Noregs, svo djúpt í árinni að segja að mannauður Noregs væri líklega um 15 sinnum meiri en allur olíuauður Norðmanna samanlagt, jafnt sá sem enn er óunninn í jörðu sem og það sem Norðmenn hafa lagt fyrir í sjóði.
    Flest bendir til að auðlegð þjóðanna og velsæld í efnahagslegu og atvinnulegu tilliti á komandi árum og áratugum ráðist fyrst og síðast af því hversu vel mönnum gengur að byggja upp og efla og virkja hugvit, þekkingu og mannauð. Flestir framsýnir menn og þjóðir hafa nú breytt um forgangsröð og horfa á þekkinguna (intellectual capital) og mannauðinn (social capital) sem miklu mikilvægari uppsprettu verðmæta heldur en fjármagnið sjálft (financial capital).
    Á áðurnefndri ráðstefnu í Osló var merkilegt að verða vitni að því hversu litlu máli framtíðarspekúlantar, t.d. bæði norrænir, breskir og kanadískir, virtust telja hefðbundna iðnaðar- eða framleiðslustarfsemi skipta. Þar væri fyrst og fremst um að ræða praktískt, tæknivætt úrlausnarefni sem leysa yrði eins og hagkvæmast væri hverju sinni. Hin raunverulegu verðmæti væru fólgin í þekkingu. Virðisaukinn yrði til á því stigi í gegnum uppfinningu, vöruþróun, markaðssetningu, nýjar hugmyndir og tækni. Vélræn, tæknivædd útfærsla og framleiðsla vöru þokaðist niður á við í verðmætapýramídanum.
    Á ráðstefnunni var erfitt að verjast þeirri hugsun að þeir stóriðjupostular íslenskir sem telja þungaiðnvæðingu landsins mikilvægustu forsendu velmegunar og framfara hefðu haft gott af því að sitja og hlusta. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur höfuðáherslu á fjölbreytni og vill hafa traustar undirstöður undir fjölbreyttu og sjálfbæru atvinnulífi og sjálfbærri þróun í atvinnumálum í landinu. Þetta verður best gert með því að efla rannsóknir og menntun og hlúa að fjölbreyttu frumkvöðla- og þróunarstarfi í atvinnumálum, styðja við bakið á uppbyggingu atvinnurekstrar í smáum stíl og á fjölbreyttu sviði, nýta og virkja frumkvæði kvenna í atvinnumálum, nýta náttúru og gæði landsins á sjálfbæran hátt og með virðingu fyrir lífríki og náttúru að leiðarljósi.
    Síðast en ekki síst verður að hlúa að því atvinnulífi sem fyrir er og nýta vaxtarmöguleikana innan og í kringum þær atvinnugreinar sem til staðar eru í landinu. Þar sem slíkt tekst vel er um farsæla samfélagslega þróun að ræða. Má sem dæmi nefna uppbyggingu ferðaþjónustu bænda í sveitum landsins þar sem mannvirki, aðstaða og þekking sem til staðar er er nýtt og byggt er á þeim grunni sem fyrir er.
    Íslensk stjórnvöld og íslenska stjórnmálamenn má ekki daga uppi í trú á stórar og einhæfar og oftast miðstýrðar lausnir í atvinnumálum. Það eru viðhorf gærdagsins og hin einu sönnu nátttröll íslenskrar stjórnmálaumræðu eru þeir sem halda þeim á lofti.