Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 215  —  204. mál.




Frumvarp til laga



um vátryggingarsamninga.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



I. HLUTI


Skaðatryggingar.
I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.
Gildissvið I. hluta laganna.

    Þessi hluti laganna gildir um samninga um skaðatryggingar.
    Með skaðatryggingu er átt við vátryggingu gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð eða kostnaði og aðra vátryggingu sem ekki er persónutrygging.
    Ákvæði I. hluta laganna gilda ekki um endurtryggingar. Viðskiptaráðherra er heimilt að undanskilja með reglugerð greiðsluvátryggingar, efndavátryggingar og aðrar sambærilegar vátryggingar gildissviði laganna.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessum hluta laganna hafa eftirtalin hugtök eftirfarandi merkingu:
     a.      félagið, sá sem með samningi skuldbindur sig til að veita vátryggingu,
     b.      vátryggingartaki, sá sem gerir einstaklingsbundinn samning eða hópvátryggingarsamning við félagið,
     c.      vátryggður, sá sem samkvæmt vátryggingarsamningi á rétt á að krefja um bætur; í ábyrgðartryggingum er hinn vátryggði sá sem nýtur vátryggingarverndar á skaðabótaskyldri háttsemi sinni,
     d.      hópvátrygging, vátrygging þar sem réttindi og skyldur fyrir hópinn sem vátryggingin tekur til eru ákvörðuð með samningi sem vátryggingartaki gerir vegna eða til hagsbóta fyrir þá sem teljast til hópsins,
     e.      varúðarreglur, fyrirmæli í vátryggingarsamningi um:
                  1.      að vátryggður eða aðrir skuli gera tilteknar ráðstafanir sem fallnar eru til þess að fyrirbyggja eða takmarka tjón eða sjá til þess að þær verði gerðar,
                  2.      að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar uppfylla tiltekin skilyrði um hæfni eða hafa tilgreind réttindi,
                  3.      að vátryggður eða aðrir skuli við notkun, geymslu eða viðhald vátryggðs hlutar, framkvæma það með tilteknum hætti,
     f.      vátryggingaratburður, atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið,
     g.      vátryggingaráhætta,
                  1.      þeir hagsmunir sem njóta vátryggingarverndar samkvæmt vátryggingarsamningi ef vátryggingaratburður verður og
                  2.      þeir þættir eða aðstæður sem leitt geta til þess að vátryggingaratburður verður,
     h.      vátryggingarfjárhæð, sú fjárhæð sem tilgreind er í vátryggingarsamningi og hagsmunir eru að hámarki vátryggðir fyrir,
     i.      vátryggingarverðmæti, verðmæti vátryggðra muna eða annarra hagsmuna þegar vátryggingaratburður verður,
     j.      bundið vátryggingarverð, fjárhæð sú er samið er um sem fullnaðarbætur fyrir vátryggðan mun, óháð raunverulegu verðmæti hans,
     k.      vátryggingarskírteini, staðfesting vátryggingafélags á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvaða vátryggingu sé um að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan, svo og þær upplýsingar sem greinir í 10. gr.

3. gr.
Ófrávíkjanlegar reglur.

    Óheimilt er, nema annað sé tekið fram, að víkja frá ákvæðum I. hluta laga þessara með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er í öðrum tegundum vátrygginga en ábyrgðartryggingum skv. 46. gr. heimilt að víkja frá ákvæðum þessa hluta þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar:
     a.      ef rekstraraðilinn hefur við gerð vátryggingarsamnings eða við endurnýjun hans fullnægt að minnsta kosti tveimur af eftirtöldum skilyrðum:
                  1.      hefur fleiri en 10 ársverk á reikningsári,
                  2.      hefur heildarveltu að fjárhæð meira en 500.000.000 kr. samkvæmt síðasta ársreikningi,
                  3.      að niðurstöðutala efnahagsreiknings nái 200.000.000 kr. samkvæmt síðasta ársreikningi,
     b.      starfsemin fer að mestu leyti fram erlendis,
     c.      vátrygging er tekin vegna skráðs loftfars,
     d.      vátryggðar eru vörur í flutningi milli landa.
    Fjárhæðir þær sem tilgreindar eru í 2. mgr. skulu breytast 1. janúar ár hvert til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu eins og hún var 1. janúar 2002 og skulu fjárhæðirnar svo breyttar gilda í eitt ár.

II. KAFLI
Upplýsingaskylda félagsins.
4. gr.
Upplýsingar við töku vátryggingar.

    Við töku vátryggingar skal félagið, eða sá sem kemur fram fyrir hönd þess, veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að vátryggingartaki geti metið tilboð þess. Sérstaklega skal það gera grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir séu á gildissviði vátryggingarinnar eða þeirri vernd er hún veitir.
    Þá skal félagið upplýsa um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála er tengjast vátryggingarsamningum, svo og rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.

5. gr.
Tungumál vátryggingarskilmála.

    Vátryggingarskilmálar, sem boðnir eru vegna vátryggingaráhættu sem er hérlendis, skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og gerir honum kleift, áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, að tileinka sér þau ákvæði skilmálanna sem skipta máli um efni þeirra, vátryggingarvernd og þau kjör sem í boði eru.

6. gr.
Upplýsingaskylda um efni löggjafar.

    Þegar þörf krefur og áður en gengið er frá vátryggingarsamningi skal félagið, eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd, gefa vátryggingartaka upplýsingar um meginatriði þeirra laga sem um hann gilda. Í þeim tilvikum sem samið er um að lög annars lands gildi um samninginn skal veita vátryggingartaka upplýsingar um efni þeirrar löggjafar.
    Val á löggjöf um vátryggingarsamning ásamt staðfestingu á að vátryggingartaki hafi fengið upplýsingar skv. 1. mgr. skal koma fram í samningnum sjálfum eða í fylgigögnum með honum.

7. gr.
Upplýsingaskylda um félagið sjálft.

    Vátryggingartaki skal ávallt upplýstur um heiti og aðsetur þess félags sem vátrygginguna býður og ber vátryggingaráhættuna áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi. Upplýsingarnar skulu ávallt koma fram á bréfum og öðrum tilkynningum til vátryggingartaka, svo og heiti og aðsetur aðalstöðva félagsins þegar um útibú er að ræða.
    Öll bindandi tilboð, vátryggingarsamningar og ígildi þeirra skulu hafa að geyma upplýsingar um heiti og aðsetur þess félags sem ber vátryggingaráhættuna og aðalstöðvar þess. Þegar um ábyrgðartryggingu ökutækja er að ræða og veitt er þjónusta án starfsstöðvar skal nafn og heimilisfang þess fulltrúa félagsins sem annast tjónsuppgjör einnig koma fram.

8. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal við störf sín framvísa fullnægjandi skilríkjum sem útgefin eru af því félagi eða félögum sem hann starfar fyrir.

9. gr.
Skyldur félags við sölu vátrygginga og við tjón.

    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að starfsemi aðila skv. 8. gr. sé þannig háttað að við öflun vátrygginga sé gætt hags vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að tjónþolar fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til þeirra eru ákveðnar.

10. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Þegar er samningur hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar gildi um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans. Auk skírteinisins skal félagið afhenda vátryggingartaka skilmálana.
    Í vátryggingarskírteini skal koma fram:
     a.      heiti vátryggingar,
     b.      gildistími vátryggingarsamnings,
     c.      hverjir séu aðilar að vátryggingarsamningnum,
     d.      iðgjald vegna vátryggingarinnar og fyrirvarar sem tengjast greiðslu iðgjalds, ef einhverjir eru,
     e.      fyrirvarar, ef einhverjir eru, um takmörkun á ábyrgð í tengslum við breytingu á áhættu, sbr. 24. og 25. gr.,
     f.      hvaða varúðarreglur félagið hefur sett, en í því efni getur það vísað til varúðarreglna í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða hliðstæðum fyrirmælum eða reglum, ef sanngjarnt er að ætlast til að vátryggingartaki þekki efni þeirra; þá skal það upplýsa að vátryggður geti fengið eintak varúðarreglna hjá því,
     g.      hvaða frestur er til þess að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 51. gr.
    Hafi félagið vanrækt skyldur sínar um að veita upplýsingar í samræmi við 2. mgr. getur það aðeins borið fyrir sig hin tilteknu ákvæði ef vátryggingartaka eða vátryggðum var þrátt fyrir það kunnugt um skilmálann.

11. gr.
Upplýsingar við endurnýjun vátryggingar.

    Við endurnýjun vátryggingar skal félagið upplýsa um nýja valkosti í vátryggingum þeim sem um ræðir eða viðbótarvernd sem það getur veitt og er tilkomin eftir að vátrygging var tekin eða endurnýjuð síðast.
    Ef félagið hefur mælt fyrir um sérstakar takmarkanir á notkun vátryggðs hlutar eða mælt fyrir um varúðarreglur eða önnur sérstök samningsákvæði skal einnig minna á þau.

12. gr.
Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins. Reglugerðarheimild.

    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að upplýsingaskyldu samkvæmt þessum hluta laganna sé fullnægt.
    Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð með nánari reglum um upplýsingaskylduna.

III. KAFLI
Vátryggingarsamningurinn o.fl.
13. gr.
Ábyrgðartíminn.

    Nú er annað ekki ákveðið í lögum eða samningi og hefst þá ábyrgð félagsins þegar það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð hins.
    Hafi félagið sent skriflegt samþykki til vátryggingartaka hefst ábyrgð þess kl. 0.00 þann dag sem samþykkið var sent, að því tilskildu að beiðni um vátryggingu hafi komið til félagsins í síðasta lagi deginum áður.
    Hafi vátryggingartaki sent skriflega beiðni um tiltekna vátryggingu og ljóst er að félagið hefði þegar samþykkt beiðnina ber það ábyrgð við móttöku hennar.
    Ef ábyrgð félagsins á að hefjast á tilteknum degi, án þess að það sé tilgreint nánar, hefst ábyrgðin kl. 0.00 þann dag. Eigi vátrygging að gilda til ákveðins dags en ekki er tiltekið hvenær dags henni lýkur skal litið svo á að henni ljúki kl. 24.00.

14. gr.
Heimild vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi.

    Nú vill vátryggingartaki segja upp vátryggingarsamningi þegar komið er að endurnýjun hans og verður hann þá að tilkynna félaginu um það innan mánaðar frá því að það sendi venjulega tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils. Honum er þó ekki skylt að tilkynna félaginu um uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins.
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi sem endurnýjast sjálfkrafa ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna eða fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæði 2. mgr. í vátryggingarsamningi.

15. gr.
Heimild félagsins til að slíta vátryggingarsamningi á vátryggingartímabilinu.

    Félagið getur sagt upp vátryggingarsamningi samkvæmt reglum 21. gr. og 3. mgr. 47. gr. Í öðrum tilvikum getur félagið því aðeins sagt upp vátryggingarsamningi að fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna.
    Uppsögnin verður að fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veittu því rétt til uppsagnarinnar. Uppsögnin skal vera skrifleg og rökstudd. Sé ekki ákveðinn skemmri frestur í lögum þessum skal uppsagnarfrestur vera tveir mánuðir hið minnsta.
    Félagið skal í tilkynningu um uppsögn skýra frá möguleikum á því að leggja ágreining um hana fyrir úrskurðarnefnd til úrlausnar skv. 141. gr.
    Það sem segir um uppsögn í 2. málsl. 1. mgr. gildir einnig um fyrirvara um að vátryggingin skuli falla úr gildi ef tiltekin atvik koma upp.

16. gr.
Breyting á vátryggingarskilmálum á vátryggingartíma.

    Félagið getur ekki áskilið sér rétt til að breyta vátryggingarskilmálum á vátryggingartímabilinu.

17. gr.
Uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímabili.

    Nú er vátryggingarsamningi slitið á vátryggingartímabilinu og skal vátryggingartaki þá fá endurgreitt iðgjald fyrir þann tíma sem hann hefur greitt og vátryggingin er ekki í gildi. Þetta gildir þótt félagið sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta. Í skilmálum vátryggingarinnar skulu vera reglur um útreikning iðgjalds fyrir slík tilvik eða vísað til slíkra reglna.

18. gr.
Endurnýjun og breyting á vátryggingarskilmálum við endurnýjun vátryggingar.

    Nú á vátrygging að gilda í tiltekinn tíma, eitt ár eða lengur, og félagið hyggst ekki framlengja hana fram yfir þann tíma og skal það þá tilkynna vátryggingartaka það í síðasta lagi tveimur mánuðum áður en vátryggingartímabilið er á enda. Að öðrum kosti framlengist vátryggingartímabilið í eitt ár.
    Félagið getur einungis neitað að endurnýja vátryggingu skv. 1. mgr. þegar fyrir liggja sérstakar ástæður sem leiða til þess að sanngjarnt er að segja henni upp. Þegar synjað er um endurnýjun gilda ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. og 3. mgr. sömu greinar. Það sem segir í þessari málsgrein á ekki við ef ótvírætt er af vátryggingarsamningi að vátryggingin skuli falla úr gildi þegar vátryggingartímabilinu lýkur.
    Vilji félagið breyta skilmálum vátryggingarinnar við endurnýjun hennar skal það, um leið og krafið er um iðgjöld fyrir næsta vátryggingartímabil, afhenda vátryggingartaka hina nýju skilmála og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri skilmálum. Séu settar nýjar varúðarreglur skal félagið afhenda vátryggingartaka eintak af nýju reglunum og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri reglum. Heimilt er að vísa til varúðarreglna ef sanngjarnt er að ætlast til að vátryggingartaki þekki til efnis þeirra. Í þeim tilvikum skal upplýst að félagið muni afhenda vátryggingartaka eintak varúðarreglnanna, sem vísað er til, sé þess óskað. Félagið getur ekki borið fyrir sig skilmálabreytingu ef reglum þessarar málsgreinar er ekki fylgt.

IV. KAFLI
Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
19. gr.
Skylda vátryggingartaka til að veita upplýsingar um áhættuna.

    Við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamnings getur félagið óskað eftir upplýsingum um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat þess á áhættu. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal skriflegt, upplýst samþykki viðkomandi liggja fyrir áður en upplýsinganna er aflað. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal einnig að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Verði vátryggingartaka ljóst að hann hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um áhættuna skal hann án ástæðulauss dráttar skýra félaginu frá því.

20. gr.
Takmörkun á ábyrgð félagsins vegna vanrækslu á upplýsingaskyldu.

    Hafi vátryggingartaki sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 19. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð gagnvart honum.
    Hafi vátryggingartaki með öðrum hætti vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta.
    Við mat á ábyrgð félagsins skv. 2. mgr. skal litið til þess hvaða þýðingu vanræksla vátryggingartaka hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sök hans var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti.

21. gr.

    Réttur félagsins til að segja upp vátryggingunni
þegar rangar upplýsingar hafa verið veittar.

    Nú verður félaginu ljóst að þær upplýsingar sem það hefur fengið um áhættuna eru rangar eða ófullnægjandi svo verulegu nemi og getur það þá sagt vátryggingunni upp með 14 daga fyrirvara. Regla 2. mgr. 15. gr. gildir um uppsögnina. Hafi vátryggingartaki viðhaft sviksamlega háttsemi getur félagið slitið vátryggingunni, svo og öðrum vátryggingarsamningum sem það hefur gert við vátryggingartaka, án fyrirvara.

22. gr.
Takmarkanir á heimildum félagsins til þess
að bera fyrir sig ófullnægjandi upplýsingar.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig að það hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar ef það vissi, eða mátti vita, að svo var þegar það fékk þær. Sama gildir ef atvik þau er upplýsingarnar varða skiptu ekki máli fyrir félagið eða gera það ekki lengur. Ef háttsemi vátryggingartaka er sviksamleg á framangreind takmörkun 1. málsl. því aðeins við að félagið hafi vitað að upplýsingarnar sem það fékk voru rangar eða ófullnægjandi.

23. gr.
Takmörkun á ábyrgð vegna atvika sem eru óljós og ekki er hægt að upplýsa.

    Ef félagið á af sérstökum ástæðum ekki kost á því að afla upplýsinga um tiltekin atvik getur það gert fyrirvara um að bera ekki ábyrgð á þeim atvikum eða takmarkað ábyrgð sína á þeim. Sé unnt að afla upplýsinganna að ákveðnum tíma liðnum gildir ábyrgðartakmörkunin aðeins þann tíma.

24. gr.
Takmörkun á ábyrgð vegna breytinga á vátryggðri áhættu.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef tiltekin atvik, sem hafa verulega þýðingu fyrir hina vátryggðu áhættu, breytast. Slíkan fyrirvara má þó ekki gera ef vátryggður hvorki vissi né mátti vita að atvik breyttust eða ef það að vátryggingaratburður verður er vegna annarra ástæðna en hinna breyttu atvika.

25. gr.
Fyrirvari um lækkun bóta vegna breytinga á vátryggðri áhættu.

    Félagið getur gert fyrirvara um að ábyrgð þess á vátryggingaratburði skuli lækka að tiltölu ef ákvörðun iðgjalds er skýrlega háð því hvernig hinn vátryggði hlutur er notaður og að fylgt sé ákveðnum varúðarreglum.
    Fyrirvara, sem greinir í 1. mgr., verður ekki beitt ef breytingar á vátryggðri áhættu eru ekki orsök vátryggingaratburðar. Honum verður heldur ekki beitt ef þær eru hvorki af völdum vátryggðs né með samþykki hans og hann hefur gert þær ráðstafanir sem sanngjarnar má telja til að upplýsa félagið um þær án ástæðulauss dráttar frá því að hann vissi um þær.

26. gr.
Brot á varúðarreglum.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það skuli laust úr ábyrgð í heild eða að hluta ef varúðarreglum er ekki fylgt. Slíkan fyrirvara getur félagið þó ekki borið fyrir sig ef ekki er við vátryggðan að sakast eða sök hans er óveruleg eða það að vátryggingaratburður hefur orðið verður ekki rakið til brota hans. Þótt félagið geti samkvæmt þessari grein borið fyrir sig að varúðarreglum hafi ekki verið fylgt má samt leggja á það ábyrgð að hluta með hliðsjón af því hvers konar varúðarreglu var ekki sinnt, sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvikum að öðru leyti.

27. gr.
Vátryggður veldur vátryggingaratburði.

    Ef vátryggður hefur af ásetningi valdið því að vátryggingaratburður varð ber félagið ekki ábyrgð. Ef vátryggður hefur ekki viðhaft sviksamlega háttsemi má þó leggja ábyrgð að hluta á félagið.
    Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig að vátryggður hafi valdið vátryggingaratburði ef háttsemi hans telst ekki ásetningur eða stórkostlegt gáleysi.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig reglurnar í þessari grein ef vátryggður, eða sá sem skv. 29. gr. er samsamaður honum, gat vegna aldurs eða andlegs ástands ekki gert sér grein fyrir afleiðingum háttsemi sinnar.

28. gr.
Skylda vátryggðs til að hindra vátryggingaratburð og tilkynna um hann.

    Sé yfirvofandi hætta á að vátryggingaratburður verði, eða ef hann er orðinn, skal vátryggður gera það sem með sanngirni er unnt að ætlast til af honum til að hindra eða takmarka tjón.
    Megi vátryggðum vera ljóst að félagið gæti öðlast endurkröfu á hendur þriðja manni skal hann gera það sem nauðsyn krefur og með sanngirni má ætlast til af honum til að tryggja kröfuna þar til félagið getur sjálft gætt hagsmuna sinna.
    Hafi vátryggingaratburður orðið skal vátryggður skýra félaginu frá því án ástæðulauss dráttar.
    Hafi orðið tjón vegna þess að vátryggður hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vanrækt skyldur sínar skv. 1.–3. mgr. má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta. Við mat á því skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvika að öðru leyti.

29. gr.
Háttsemi ættingja vátryggðs, aðstoðarmanna hans og
annarra sem tengjast honum með svipuðum hætti.

    Í vátryggingum, sem tengjast ekki atvinnustarfsemi, er óheimilt að semja með þeim hætti að vátryggður glati rétti sínum til bóta vegna háttsemi ættingja hans, aðstoðarmanna og annarra sem hafa við hann sambærileg tengsl.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má semja svo um að:
     a.      við vátryggingu ökutækja, annarra farartækja eða loftfara og húsdýra megi félagið bera fyrir sig háttsemi manns sem með samþykki vátryggðs er ábyrgur fyrir hinu vátryggða,
     b.      við vátryggingu íbúðarhúsnæðis, orlofshúsnæðis og innbús megi félagið bera fyrir sig háttsemi maka hins vátryggða sem býr með honum og manns sem hinn vátryggði býr með í föstu varanlegu sambandi.
    Í vátryggingum sem tengjast atvinnustarfsemi má, með þeim takmörkunum sem leiðir af 1. mgr. 41. gr., semja um að vátryggður geti glatað rétti sínum til bóta í heild eða að hluta vegna háttsemi nánar tilgreindra manna eða hópa.

30. gr.

Ráðstafanir sem gerðar eru til að forðast tjón á mönnum eða munum.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig ákvæði 26.–29. gr., ef sú háttsemi sem um ræðir fól í sér viðleitni til þess að koma í veg fyrir tjón á mönnum eða munum og telja má hana hafa verið réttlætanlega miðað við aðstæður.

31. gr.

Tilkynningarskylda félagsins ef það hyggst bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð.

    Nú hyggst félagið bera fyrir sig að það sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum þessa kafla, eða það hafi rétt til þess að segja upp vátryggingunni, og skal það þá tilkynna vátryggingartaka eða vátryggðum þá afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem leyst gátu það undan ábyrgð. Í þessu sambandi skal félagið einnig upplýsa um möguleika til þess að bera álitaefni undir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Vanræki félagið upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. glatar það rétti til að bera ábyrgðartakmörkun fyrir sig.

V. KAFLI
Iðgjaldið.
32. gr.
Gjalddagi, fyrsta tilkynning.

    Þegar greiðsla iðgjalds er ekki skilyrði þess að ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefjist fellur það í gjalddaga þegar greiðslu þess er krafist samkvæmt samningnum. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendi tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Hafi ábyrgð félagsins hafist helst hún áfram þótt greiðsla sé ekki innt af hendi innan hins tilgreinda frests.

33. gr.
Greiðsludráttur á iðgjaldi, síðari tilkynningar.

    Sé iðgjald ekki greitt þegar greiðslufresti lýkur skv. 32. gr. og félagið ber ábyrgð getur það losnað undan henni með því að senda nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Tilkynningin skal skýrlega bera með sér að vátryggingin falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan hins tilskilda frests.
    Nú er sýnt fram á að vátryggingartaki hafi ekki getað greitt fyrir lok frests skv. 1. mgr. vegna ófyrirséðra hindrana sem honum verður ekki um kennt og helst þá ábyrgð félagsins í þrjá mánuði til viðbótar eftir lok frestsins.
    Ef iðgjaldið er greitt eftir lok greiðslufrestsins í 1. mgr. ber að líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Regla 3. mgr. 13. gr. gildir þá með sama hætti, en ábyrgð félagsins hefst þó fyrst daginn eftir að iðgjaldið er greitt.

34. gr.
Hvenær telja ber greiðslu innta af hendi.

    Þótt félagið hafi ekki móttekið greiðslu skal líta svo á að hún hafi verið innt af hendi þegar:
     a.      peningar, tékki eða önnur sambærileg ávísun er send til félagsins í pósti eða með skeyti,
     b.      fjárhæðin er greidd til pósthúss, banka eða sparisjóðs eða
     c.      fyrirmæli um greiðslu eru send til banka eða sparisjóðs eða send með öðrum óafturkallanlegum hætti.

VI. KAFLI
Almennar reglur um ábyrgð félagsins.
35. gr.
Útreikningur bóta. Vátryggingarverðmæti.

    Sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt.
    Ef ákveða á bætur í samræmi við viðgerðarkostnað eða endurkaupsverð getur vátryggður krafist bóta fyrir slíkan kostnað þótt viðgerð eða endurkaup hafi ekki átt sér stað. Þetta gildir þó ekki ef annað leiðir af vátryggingarskilmálum eða lögum.
    Vátryggður getur krafist greiðslu bóta í peningum þegar annað leiðir ekki af vátryggingarskilmálum eða lögum.

36. gr.
Bundið vátryggingarverð.

    Samningi um að tiltekið tjón skuli bætt með ákveðnu verði má víkja til hliðar samkvæmt kröfu félagsins ef vátryggingartaki hefur gefið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem höfðu þýðingu fyrir verðákvörðunina. Ákvæði 19.–23. gr. og 31. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

37. gr.
Tvítrygging.

    Ef sama tjón fellur undir fleiri en eina vátryggingu getur vátryggður valið hvaða vátryggingu hann vill nota, þar til hann hefur fengið þær bætur sem hann á kröfu til.
    Ef fleiri en eitt vátryggingafélag bera ábyrgð á tjóni skv. 1. mgr. skulu þau, sé ekki um annað samið, greiða vátryggingu hlutfallslega eftir ábyrgð hvers þeirra um sig á tjóninu.

38. gr.
Ábyrgð félagsins á björgunarkostnaði.

    Félagið ber ábyrgð á tjóni og kostnaði sem vátryggður verður fyrir við þær aðstæður er greinir í 28. gr. þegar markmið með ráðstöfunum var að forðast tjón sem fellur undir vátrygginguna eða takmarka það og ráðstafanirnar teljast sérstakar og réttlætanlegar. Hið sama á við um tjón og kostnað er maður, sem skv. 29. gr. var skylt að gera björgunarráðstafanir, verður fyrir.
     Sé vátryggður skyldur til að bæta tjón sem valdið er þriðja manni vegna ráðstafana er greinir í 1. mgr. gilda ákvæði 44. gr. um það tjón.

VII. KAFLI
Réttur þriðja manns samkvæmt vátryggingarsamningi.
39. gr.
Hverjum vátrygging er til hagsbóta.

    Í vátryggingum sem ekki eru teknar vegna atvinnustarfsemi er vátryggingin til hagsbóta fyrir vátryggingartakann, maka hans og aðra sem teljast til heimilisfólks hans.
    Vátrygging á fasteign er til hagsbóta fyrir vátryggingartakann og fyrir rétthafa að þinglýstum eignarrétti, veðrétti eða öðrum þinglýstum tryggingarréttindum í eigninni.
    Um vátryggingu lausafjár, sem hægt er að skrá sérstaklega í lausafjárbók, skipabók og bifreiðabók, sbr. 2.–4. tölul. 1. mgr. 8. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, rekstrartækja, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, og vörubirgða, sbr. 2. mgr. 33. gr. sömu laga, gilda ákvæði 2. mgr. einnig ef réttindum er þinglýst eða þau skráð í viðkomandi skrá.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði 1.–3. mgr. með samningi.

40. gr.
Eigendaskipti.

    Ef eigendaskipti verða að vátryggðum hlut og ekki er um annað samið gildir vátrygging einnig til hagsbóta fyrir hinn nýja eiganda. Um vátryggingar þær sem greinir í 2. og 3. mgr. 39. gr. gildir þetta einnig þótt réttindum hins nýja eiganda sé ekki þinglýst eða þau skráð. Ef samið er um að vátrygging skuli falla brott við eigendaskipti að vátryggðum hlut er félagið samt ábyrgt ef vátryggingaratburður verður innan 14 daga frá eigendaskiptum.
    Regla 1. mgr. gildir ekki ef hinn nýi eigandi hefur sjálfur tekið vátryggingu og heldur ekki við búfjártryggingar.

41. gr.
Vernd meðvátryggðs gegn mótbárum félagsins.

    Sá sem á vátryggða hagsmuni skv. 39. og 40. gr. þarf ekki að sæta því að félagið beri fyrir sig háttsemi vátryggingartaka eða annars vátryggðs sem greinir í reglum IV. kafla eða 47. gr.
    Félagið getur þó borið fyrir sig atvik sem greinir í 2. mgr. 29. gr. gagnvart maka og öðru heimilisfólki vátryggðs, sbr. 1. mgr. 39. gr.
    Gagnvart rétthafa í lausafé, sem nýtur vátryggingarverndar skv. 3. mgr. 39. gr., sbr. 40. gr., er þó heimilt að víkja frá reglum þessarar greinar með samningum.

42. gr.
Staða meðvátryggðs að öðru leyti.

    Sé vátryggingarsamningi breytt, honum sagt upp eða slitið, hefur það ekki réttaráhrif gagnvart meðvátryggðum skv. 2. og 3. mgr. 39. gr. ef félagið hefur ekki tilkynnt það sérstaklega til hans með mánaðar fyrirvara.
    Sé rétti veðhafa raskað getur félagið ekki með bindandi hætti fyrir meðvátryggðan skv. 2. og 3. mgr. 39. gr. samið við vátryggingartaka um uppgjör vátryggingabóta né greitt bætur til vátryggingartaka. Meðvátryggðir geta ekki andmælt því að öll vátryggingarfjárhæðin sé greidd til vátryggingartaka þegar endurbætur hafa farið fram eða sett er fullnægjandi trygging fyrir því að vátryggingarbætur verði notaðar til endurbóta. Meðvátryggðir geta heldur ekki andmælt því að bætur séu lagðar inn á reikning í banka sem vátryggingartaki og meðvátryggður geta einungis farið með sameiginlega.
    Ákvæði 2. mgr. gildir gagnvart meðvátryggðum skv. 1. mgr. 39. gr. og 40. gr. ef hann hefur tilkynnt félaginu um rétt sinn.

43. gr.
Samið um stöðu meðvátryggðs.

    Ef vátrygging er einnig til hagsbóta fyrir annan en vátryggingartakann gilda ákvæði 1. mgr. 41. gr. og 42. gr. eftir því sem við á, sé ekki um annað samið.

44. gr.
Staða tjónþola við ábyrgðartryggingu.

    Ef vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar sem hann ber getur tjónþoli krafist bóta beint frá félaginu. Félaginu og vátryggðum er skylt að upplýsa tjónþola um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi.
    Ef fram kemur krafa um bætur á hendur félaginu skal tilkynna það vátryggðum án ástæðulauss dráttar og veita honum upplýsingar um meðferð kröfunnar. Viðurkenning félagsins á atriðum sem lúta að ábyrgð er ekki bindandi fyrir vátryggðan.
    Sé höfðað mál á hendur félaginu getur það krafist þess að tjónþoli beini málshöfðuninni einnig gegn vátryggðum.
    Félagið getur haft uppi sömu mótbárur gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði. Félagið getur einnig haft uppi aðrar mótbárur gegn tjónþola, svo fremi þær eigi ekki rót sína að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð.
    Mál á hendur félaginu skal höfða á Íslandi ef annað leiðir ekki af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.
    Ákvæði þessarar greinar standa því ekki í vegi að sá sem stundar atvinnustarfsemi falli frá rétti sínum til þess að krefjast skaðabóta beint frá félaginu. Slíkur samningur hefur þó ekki réttaráhrif við gjaldþrot vátryggðs.

45. gr.
Staða tjónþola við lögboðna ábyrgðartryggingu.

    Ef vátryggingartaki hefur tekið ábyrgðartryggingu til þess að fullnægja lagaskyldu gilda ákvæði 44. gr. að því leyti sem um stöðu tjónþola gilda ekki sérstakar reglur.
    Félagið getur þó ekki haft uppi mótbárur, sem það gat haft uppi gagnvart tjónþola eða vátryggðum, ef það vissi eða mátti vita að um er að ræða lögboðna ábyrgðartryggingu.
    Sé lögboðinni ábyrgðartryggingu sagt upp, eða ef hún fellur niður af öðrum ástæðum, hefur það áhrif gagnvart tjónþola að liðnum mánuði frá því að viðkomandi stjórnvald fékk tilkynningu félagsins um brottfall hennar, enda gildi ekki um það sérstakar reglur.

46. gr.
Staða tjónþola við ábyrgðartryggingar teknar
í tengslum við viðamikla atvinnustarfsemi.

    Ef vátrygging, sem fellur undir 2. mgr. 3. gr. laga þessara, tekur til skaðabótaábyrgðar vátryggðs er félagið ábyrgt gagnvart tjónþola með sama hætti og greinir í 44. gr. Krafa vátryggðs á hendur félaginu getur ekki orðið grundvöllur fullnustu á öðrum kröfum en skaðabótakröfunni.
    Nú hefur bú vátryggðs verið tekið til gjaldþrotaskipta og gilda þá ákvæði 44. og 45. gr., sbr. og 2. og 3. mgr. 49. gr.
    Óheimilt er að víkja frá ákvæðum þessarar greinar ef það leiðir til lakari stöðu tjónþola.

VIII. KAFLI
Uppgjör vátryggingabóta, fyrning o.fl.
47. gr.
Upplýsingaskylda vátryggðs við uppgjör bóta.

    Við uppgjör bóta skal vátryggður veita félaginu þær upplýsingar og þau gögn sem hann hefur undir höndum og félagið þarf til þess að meta ábyrgð sína og greiða bætur.
    Ef vátryggður veitir af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit eða má vita að leiða til þess að hann fær greiddar bætur sem hann á ekki rétt til fellur niður allur réttur hans samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna hins tiltekna vátryggingaratburðar. Sé háttsemi vátryggðs ekki alvarleg, hún varði aðeins lítinn hluta kröfunnar eða sérstakar ástæður mæla með getur hann þó fengið bætur að hluta. Ákvæði 31. gr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Í þeim tilvikum sem greinir í 2. mgr. getur félagið sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við vátryggðan með einnar viku fyrirvara. Ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

48. gr.
Greiðsla bóta.

    Krefja má um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða fjárhæð bótanna. Ef augljóst verður áður en endanlegt uppgjör bóta getur farið fram að félagið skuli að minnsta kosti greiða hluta þeirra skal það inna af hendi hlutagreiðslu sem því nemur.

49. gr.
Heimild félagsins til að skuldajafna.

    Þegar vátryggingartaki öðlast rétt til bóta hefur félagið aðeins rétt til að skuldajafna vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrar vátryggingar sem um ræðir eða annarra sem hann hefur hjá félaginu gegn bótum sem því ber að greiða.
    Þegar bætur eiga að greiðast meðvátryggðum þriðja manni eða tjónþola við ábyrgðartryggingu getur félagið aðeins skuldajafnað iðgjaldi vegna sama vátryggingarsamnings. Skuldajöfnuður getur aðeins átt sér stað vegna þeirra fjárhæða sem ekki er unnt að fá greiddar skv. 1. mgr. Sé um fleiri meðvátryggða eða tjónþola að ræða sem eiga rétt á bótum skal skipta skuldajöfnuðinum hlutfallslega á þær fjárhæðir sem þeir fá greiddar.
    Við lögboðna ábyrgðartryggingu gildir regla 2. mgr. 45. gr. með sama hætti um skuldajafnaðarrétt félagsins gagnvart tjónþola.

50. gr.
Vextir.

    Vátryggður á rétt á almennum vöxtum af kröfu sinni þegar liðnir eru tveir mánuðir frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send félaginu.
    Eigi félagið að bæta útlagðan kostnað vátryggðs stofnast skylda til greiðslu almennra vaxta fyrst tveimur mánuðum eftir að hann hefur innt greiðslu af hendi. Sem útgjöld skv. 1. málsl. þessarar greinar teljast einnig bætur vegna endurbyggingar við brunatryggingar. Fyrir þann hluta bótanna sem greiða á óháð endurbyggingu gildir regla 1. mgr.
    Eigi félagið að bæta tjón vegna rekstrarstöðvunar eða afnotamissis stofnast skylda til greiðslu vaxta mánuði eftir lok þess tímabils sem félaginu ber að bæta.
    Vanræki vátryggður að veita félaginu upplýsingar eða afhenda gögn sem tilgreind eru í 1. mgr. 47. gr. getur hann ekki krafist vaxta fyrir þann tíma sem líður af þessum ástæðum. Hið sama á við ef vátryggður hafnar uppgjöri í heild eða að hluta með óréttmætum hætti. Skyldan til að greiða vextina fellur einnig niður þegar félagið leggur bæturnar á bankareikning í samræmi við lokaákvæði 2. mgr. 42. gr.
    Nú er krafa um bætur miðuð við verðlag síðar en vátryggingaratburður átti sér stað og skal þá krafan bera vexti samkvæmt framansögðu sem miðast við það tímamark.
    Almennir vextir samkvæmt þessari grein skulu vera hinir sömu og greiða ber skv. II. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um dráttarvexti gilda reglur III. kafla þeirra laga.
    Vexti skal greiða þótt greiðsla félagsins í heild verði með því hærri en vátryggingarfjárhæðin. Í vátryggingarskilmálum skal vakin athygli á rétti til vaxta samkvæmt þessari grein.

51. gr.
Frestur til að tilkynna um vátryggingaratburð og til lögfræðilegra aðgerða.

    Vátryggður glatar rétti til bóta ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á.
    Ef félagið hafnar kröfu vátryggðs í heild eða að hluta glatar hann rétti til bótanna ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað. Í slíkri tilkynningu er skylt að geta framangreinds frests, með hvaða hætti unnt er að rjúfa hann og afleiðinga þess að ekki er aðhafst fyrir lok hans.

52. gr.
Fyrning.

    Krafa um bætur fyrnist á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggingaratburður varð. Hafi félagið sent vátryggðum tilkynningu sem greinir í 2. mgr. 51. gr. fyrnist krafan fyrst þegar sá frestur líður sem þar er tilgreindur.
    Í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð félagsins samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrningu skaðabótaábyrgðar.
    Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Fresturinn skv. 3. málsl. 1. mgr. framlengist þó ekki í samræmi við 15. gr. síðastgreindra laga.

IX. KAFLI
Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
53. gr.
Tengsl við önnur ákvæði laganna.

    Ef ekki leiðir annað af ákvæðum þessa kafla gilda aðrar reglur þessa hluta laganna einnig um hópvátryggingar að því leyti sem við getur átt.

54. gr.
Efni hópvátryggingarsamnings.

    Samningur um hópvátryggingu skal hafa að geyma skilmála vátryggingarinnar eða reglur um hvernig ákvarða skuli þá.
    Auk þess skal í samningi um hópvátryggingu kveðið á um:
     a.      hverjir séu og geti orðið hluti af hópi þeim sem vátryggingin tekur til,
     b.      hvort heimilt sé að gera fyrirvara um þátttöku,
     c.      hvernig þátttakendur verði áfram hluti af hópnum, geri fyrirvara við að verða hluti af honum og hætti í honum,
     d.      hvort haldin skuli skrá yfir þátttakendurna og ef svo er, hvort skráin skuli haldin af vátryggingartaka eða félaginu,
     e.      hvort iðgjaldið skuli greiðast félaginu af vátryggingartakanum eða af hverjum einstökum þátttakanda í hópnum,
     f.      skyldur vátryggingartaka við tilkynningar til eða frá þátttakendum í hópnum og
     g.      hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að ábyrgð félagsins hefjist eða hægt sé að halda henni við.

55. gr.
Upplýsingar um vátrygginguna.

    Félagið og vátryggingartaki skulu tryggja með fullnægjandi hætti að þeir sem eru, eða geta orðið, þátttakendur í hópnum fái upplýsingar um atriði sem nefnd eru í 54. gr. og um viðbótarvátryggingar sem gæti verið heppilegt fyrir þá að afla sér. Upplýsingar þessar skal gefa þegar hópvátryggingu hefur verið komið á og síðar er efni standa til. Ef skilmálarnir koma ekki fram í vátryggingarsamningnum skal einnig upplýsa viðkomandi um þá. Takmarkanir á notkun, varúðarreglur og fresti til að tilkynna um vátryggingaratburð, sbr. 10. gr., skal tilgreina sérstaklega.

56. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Sé haldin skrá yfir þátttakendur í hópi sem hópvátrygging tekur til skal sá sem heldur skrána án ástæðulauss dráttar sjá til þess að hver sá sem telst þátttakandi fái vátryggingarskírteini og þá skilmála sem um vátrygginguna gilda.
    Nú hefur maður fengið vátryggingarskírteini skv. 1. mgr. og er þá hvorki unnt að bera fyrir sig að hann fullnægi ekki skilyrðum til þess að vera þátttakandi í hópnum sem vátryggingin tekur til né að hann eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem fram koma í vátryggingarskírteininu. Þetta gildir þó ekki ef það leiðir skýrlega af skírteininu að hann uppfylli ekki skilyrðin eða eigi ekki þær kröfur um greiðslu sem hann gerir. Þetta á heldur ekki við ef félagið losnar úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum 20. gr., eða hefur sent aðvörun um slit eða breytingu á skilmálum vátryggingarinnar skv. 58. eða 59. gr.

57. gr.
Upphaf ábyrgðar félagsins.

    Sé ekki um annað samið eða það leiði af atvikum hefst ábyrgð félagsins þegar samningurinn er gerður.
    Fyrir þátttakanda í hópnum sem síðar kemur til telst upphaf ábyrgðar félagsins þegar send er tilkynning um aðild hans samkvæmt samningnum eða greitt iðgjald fyrir hann eða, sé tilkynningar ekki krafist, þegar hann hefur uppfyllt skilyrði til þess að vera þátttakandi.
    Ákvæði 4. mgr. 13. gr. gildir um upphaf ábyrgðar samkvæmt þessari grein.

58. gr.
Lok vátryggingarinnar.

    Þegar þátttakandi í hópi sem nýtur hópvátryggingar, og skrá er haldin um, hættir í hópnum fellur vátrygging niður að því er hann varðar í fyrsta lagi 14 dögum eftir að félagið eða vátryggingartaki senda honum skriflega tilkynningu. Í hópvátryggingu þar sem ekki er haldin skrá yfir þátttakendur í hópnum eða þegar skrifleg tilkynning er ekki send fellur vátrygging fyrst niður tveimur mánuðum eftir að þátttakandinn hætti í hópnum. Ákvæði 1. og 2. málsl. gilda ekki ef þátttakandinn hefur tekið aðra vátryggingu eða gengið inn í aðra sambærilega hópvátryggingu.
    Ef vátryggingartaki eða félagið segja upp eða endurnýja ekki vátryggingu, eða ef ábyrgð félagsins fellur niður vegna vangreiðslu vátryggingartaka á iðgjaldi, skal senda skriflega tilkynningu til þeirra þátttakenda sem eru á skrá, sé hún færð, en ella með öðrum fullnægjandi hætti. Fyrir hvern einstakan þátttakanda fellur vátryggingin fyrst niður mánuði eftir að tilkynning er send samkvæmt framansögðu eða hann fékk með öðrum hætti vitneskju um atvik. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. gildir samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um vátryggingu sem samkvæmt efni sínu er einungis tímabundin.

59. gr.
Breyting á skilmálum.

    Ef skilmálum hópvátryggingar er breytt þannig að það rýri stöðu þátttakendanna gilda ákvæði 2. mgr. 58. gr., eftir því sem við getur átt.

60. gr.

Tilkynningar til eða frá einstökum þátttakendum í hópi sem nýtur hópvátryggingar.

    Nú er tilkynning vegna vátryggingar send vátryggingartaka og er þá ekki hægt að bera það fyrir sig að hún hafi ekki komið til félagsins. Þetta á þó ekki við ef þátttakandinn hafði ástæðu til að ætla að tilkynningin hefði ekki komið til félagsins og hann átti þess kost að tilkynna því um það.
    Hafi vátryggingartaka verið skylt samkvæmt lögum þessum eða samningi að senda tilkynningu til þátttakenda í hópi sem nýtur hópvátryggingar, en gerir það ekki, hefur athafnaleysi hans sömu réttaráhrif gagnvart þeim og ef félagið hefði sýnt það af sér. Þetta gildir þó ekki ef þátttakandinn þekkti af öðrum ástæðum til efnis tilkynningarinnar og sanngjarnt má telja að hann hafi átt þess kost að fara eftir því.

II. HLUTI
Persónutryggingar.
X. KAFLI
Inngangur.
61. gr.
Gildissvið II. hluta laganna.

    Þessi hluti laganna gildir um samninga um persónutryggingar.
    Með persónutryggingu er í lögum þessum átt við líftryggingu, slysatryggingu og sjúkratryggingu. Vátryggingu má taka vegna lífs eða heilsu vátryggingartakans eða annarra.
    Þegar rætt er um líftryggingu í þessum hluta laganna er einnig átt við heilsutryggingu nema annað sé tekið fram.
    Ákvæði þessa hluta laganna gilda ekki um endurtryggingar og ekki heldur um tryggingar lífeyrissjóða, samkvæmt lögum sem um þá gilda, né tryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar.

62. gr.
Skilgreiningar.

    Í þessum hluta laganna hafa eftirtalin hugtök eftirfarandi merkingu:
     a.      félagið, sá sem með samningi skuldbindur sig til þess að veita vátryggingu,
     b.      vátryggingartaki, sá sem gerir einstaklingsbundinn samning eða hópvátryggingarsamning við félagið; sá telst einnig vátryggingartaki sem öðlast eignarrétt að vátryggingunni,
     c.      vátryggður, sá maður hvers lífs eða heilsu vátryggingin tekur til,
     d.      höfuðstólstrygging, vátrygging þar sem félagið skal greiða tiltekna fjárhæð sem þó getur verið skipt niður á fleiri en einn gjalddaga,
     e.      lífeyristrygging, vátrygging þar sem félagið á að greiða fjárhæð fyrir tiltekið tímabil svo lengi sem tilgreindur maður lifir eða þar til hann nær ákveðnum aldri,
     f.      hópvátrygging, vátrygging sem tekur til manna í nánar tilteknum hópi og eftir atvikum einnig maka þeirra, barna o.fl.
     g.      vátryggingaratburður, atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið,
     h.      vátryggingarskírteini, staðfesting félagsins á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvaða vátryggingu sé um að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan, svo og þær upplýsingar sem greinir í 70. gr.
     i.      rétthafi, sá sem vátryggingartaki tilgreinir í vátryggingarsamningi og á rétt til þess að fá vátryggingarfjárhæðina greidda eftir að vátryggingaratburður hefur orðið.

63. gr.
Ófrávíkjanlegar reglur.

    Óheimilt er, nema annað sé tekið fram, að víkja frá ákvæðum þessa hluta laganna með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi.

XI. KAFLI
Upplýsingaskylda félagsins.
64. gr.
Upplýsingar við töku vátryggingar.

    Við töku vátryggingar, sem fellur undir þennan hluta laganna, skal félagið, eða sá sem kemur fram fyrir þess hönd, sjá til þess að vátryggingartaki fái nauðsynlega ráðgjöf um hvernig þörfum hans um vátryggingarvernd er mætt með vátryggingunni.
    Félagið skal veita vátryggingartaka upplýsingar um mikilvæg atriði þeirra tegunda vátrygginga sem fullnægt geta þörf hans fyrir vátryggingarvernd. Félagið skal meðal annars veita upplýsingar um gildistíma vátryggingarsamnings, skilmála, iðgjöld, ágóðahlutdeild þegar við á og takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar miðað við það sem vátryggingartaki má með réttu ætla að hún taki til.
    Ef aðilarnir geta ekki valið lög hvers lands eigi að gilda um vátryggingarsamninginn skal félagið upplýsa þá um lögin.
    Þá skal félagið upplýsa um hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar- eða ágreiningsmála er tengjast vátryggingarsamningum, svo og um rétt hlutaðeigandi til að skjóta málum til dómstóla.

65. gr.
Sérstök upplýsingaskylda.

    Áður en vátryggingarsamningur er gerður í greinaflokkum líftrygginga og öðrum sem leyfi er veitt fyrir skv. 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi og á samningstímanum skal, þegar skuldbinding kemst á hér á landi, sbr. 8. gr. síðastgreindra laga, vátryggingartaki upplýstur á íslensku um eftirfarandi atriði:
     a.      allar tegundir bóta sem í samningnum felast og um rétt til breytinga á þeim á samningstímanum,
     b.      gildistíma líftryggingarinnar,
     c.      hvernig samningnum verði sagt upp,
     d.      hvernig iðgjöld skuli greidd, hve lengi og hvernig þeim verði breytt á samningstímanum,
     e.      hvernig ágóðahluti er reiknaður og hvernig og hvenær hann verði greiddur,
     f.      reglur um endurkaup og frítryggingu og að hvaða marki ábyrgst er að réttur til þess sé fyrir hendi,
     g.      sundurliðun iðgjalda á hverja grein líftrygginga (bótategunda) og vegna aukagreina þegar þær eru innifaldar,
     h.      um líftryggingar tengdar fjárfestingum, skilgreiningu á þeim hlutaeiningum sem tengdar eru bótum,
     i.      um líftryggingar tengdar fjárfestingum, hvers eðlis eignir að baki hlutaeiningum eru,
     j.      hvernig háttað er rétti vátryggingartaka til að hætta við að taka líftrygginguna,
     k.      um skatta sem ber að greiða vegna líftryggingarinnar.
    Auk líftryggingarskilmála, bæði almennra skilmála og sérskilmála, sem látnir skulu í té, skal vátryggingartaki á samningstíma líftryggingar upplýstur um eftirfarandi:
     a.      sérhverjar breytingar varðandi atriði er snerta heiti félagsins, félagsform, heimilisfang aðalstöðva þess og þegar við á þess útibús sem samningur er gerður við,
     b.      sérhverjar breytingar varðandi vátryggingarskilmála eða breytingar á lögum er snerta a–h-liði 1. mgr.,
     c.      árlega um stöðu inneignar vegna ágóðahluta.
    Heimilt er að veita upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. á öðru tungumáli en segir í 1. mgr. að fenginni beiðni vátryggingartaka eða þegar vátryggingartaki getur valið um þá löggjöf sem gildir um samninginn.
    Hafi samningur um líftryggingu til a.m.k. sex mánaða komist á og sé um einstaklingslíftryggingu að ræða skal félagið tilkynna vátryggingartaka um gildistöku samningsins. Vátryggingartaki skal hafa 30 daga frest til að segja vátryggingunni upp frá þeim tíma er honum barst tilkynningin. Skrifleg uppsögn leysir aðila undan öllum skyldum sem síðar hefði leitt af samningnum.
    Réttaráhrif og skilyrði uppsagnar fara að öðru leyti eftir þeim lögum sem um samninginn gilda.
    Almenningi skal heimill aðgangur að upplýsingum um þann grundvöll sem útreikningur líftryggingarskuldar og ágóðahlutar er reistur á.

66. gr.
Tungumál vátryggingarskilmála.

    Vátryggingarskilmálar, sem boðnir eru hér á landi og falla undir þennan hluta laganna, skulu vera á íslensku eða öðru tungumáli sem vátryggingartaki samþykkir og gerir honum kleift, áður en gengið er frá vátryggingarsamningi, að tileinka sér þau ákvæði skilmálanna sem skipta máli um efni þeirra, vátryggingarvernd og þau kjör sem í boði eru.

67. gr.
Upplýsingaskylda um félagið.

    Vátryggingartaki skal ávallt upplýstur um heiti, félagsform og aðsetur þess félags sem vátrygginguna býður og vátryggingaráhættuna ber áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi. Þegar við á skal vátryggingartaki upplýstur um aðsetur þess útibús sem vátryggingarsamningur er gerður við. Upplýsingarnar skulu ávallt koma fram á bréfum og öðrum tilkynningum til vátryggingartaka, svo og heiti og aðsetur aðalstöðva félagsins þegar um útibú er að ræða.
    Öll bindandi tilboð, vátryggingarsamningar og ígildi þeirra skulu hafa að geyma upplýsingar um heiti og aðsetur þess félags sem ber vátryggingaráhættuna og aðalstöðvar þess.

68. gr.
Skilríki.

    Hver sá sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélags skal framvísa fullnægjandi skilríkjum við störf sín, útgefnum af því félagi eða félögum sem hann starfar fyrir.

69. gr.
Skyldur félags við sölu vátrygginga og við tjón.

    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að starfsemi aðila skv. 68. gr. sé þannig háttað að við öflun vátrygginga sé gætt hags vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
    Vátryggingafélög skulu sjá til þess að tjónþolar fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til þeirra eru ákveðnar.

70. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Þegar er samningur um persónutryggingu hefur verið gerður og ákveðið er hvaða skilmálar gildi um vátrygginguna skal félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé á kominn og vísa til skilmála hans. Auk skírteinisins skal félagið afhenda vátryggingartaka skilmálana.
    Í vátryggingarskírteini skal koma fram:
     a.      heiti vátryggingar,
     b.      gildistími vátryggingarsamnings,
     c.      hverjir séu aðilar að vátryggingarsamningnum,
     d.      iðgjald vegna vátryggingarinnar og fyrirvarar sem tengjast greiðslu iðgjalds, ef einhverjir eru,
     e.      fyrirvarar, ef einhverjir eru, um takmörkun á ábyrgð vegna heilsu vátryggðs eða í tengslum við breytingu á áhættu, sbr. 86.–88. gr.,
     f.      hvaða varúðarreglur gilda, sbr. 90. gr.,
     g.      hvaða frestur er til þess að tilkynna um vátryggingaratburð þegar hann hefur orðið, sbr. 1. mgr. 124. gr.
    Ef rétthafi er tilnefndur við töku vátryggingarinnar skal hann tilgreindur í vátryggingarskírteini.
    Hafi félagið vanrækt skyldur sínar um að veita upplýsingar í samræmi við 2. mgr. getur það aðeins borið fyrir sig hin tilteknu ákvæði ef vátryggingartaka eða vátryggðum var þrátt fyrir það kunnugt um þau.

71. gr.
Upplýsingar á vátryggingartímanum.

    Á vátryggingartímanum skal félagið með fullnægjandi hætti sjá til þess að vátryggingartaki hafi upplýsingar um þá þætti vátryggingarsamnings sem mikilvægt er fyrir hann að þekkja, þ.m.t. greiðslu iðgjalds, vátryggingarfjárhæð, ágóðahlutdeild þegar við á og útborgun hennar og endurkaupsverð ásamt ráðstöfunum á vátryggingunni. Séu ákveðnar sérstakar takmarkanir á vátryggingunni, sbr. 87. gr., eða varúðarreglur, sbr. 90. gr., skal félagið einnig minna á þær. Félagið skal einnig gefa upplýsingar um aðra kosti við vátryggingar sem til greina koma eða nýja viðbótarvátryggingarvernd sem það hefur boðið fram eftir að vátryggingin var tekin eða endurnýjuð síðast.
    Ef vátrygging á að gilda í eitt ár eða skemur skulu upplýsingar skv. 1. mgr. veittar við endurnýjun hennar.

72. gr.
Eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins. Reglugerðarheimild.

    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að upplýsingaskyldu samkvæmt þessum hluta laganna sé fullnægt.
    Viðskiptaráðherra getur sett reglugerð með nánari reglum um upplýsingaskylduna.

XII. KAFLI
Vátryggingarsamningurinn o.fl.
73. gr.
Grundvöllur mats félagsins.

    Þegar félagið tekur ákvörðun um hvort það veitir vátryggingu og metur áhættu sína skal það leggja til grundvallar heilsu hins vátryggða á því tímamarki er vátryggingartaki afhenti fullbúna umsókn um tiltekna vátryggingu. Félagið getur einnig tekið tillit til þess að heilsu vátryggðs hefur hrakað eftir að umsókn var afhent ef það tengist aðstæðum sem voru fyrir hendi við afhendingu hennar og skýrt er frá við athuganir þess.

74. gr.
Ábyrgðartíminn.

    Nú er annað ekki ákveðið í lögum eða samningi og hefst þá ábyrgð félagsins þegar það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð hins.
    Hafi félagið sent skriflegt samþykki til vátryggingartaka hefst ábyrgð þess kl. 0.00 þann dag sem samþykkið var sent, að því tilskildu að beiðni um vátryggingu hafi komið til félagsins í síðasta lagi deginum áður.
    Hafi vátryggingartaki sent skriflega beiðni um tiltekna vátryggingu og ljóst er að félagið hefði þegar samþykkt beiðnina ber það ábyrgð við móttöku hennar. Þetta gildir þó ekki ef víst þykir að félagið hefði hafnað vátryggingunni. Félagið ber heldur ekki ábyrgð á afleiðingum atvika sem þegar höfðu átt sér stað á því tímamarki sem umsókn var send ef þessi atvik hefðu komið í ljós við athugun félagsins og leitt til þess að umsókn hefði verið hafnað.
    Ef ábyrgð félagsins á að hefjast á tilteknum degi, án þess að það sé tilgreint nánar, hefst ábyrgðin kl. 0.00 þann dag. Eigi vátrygging að gilda til ákveðins dags en ekki tiltekið hvenær dags henni lýkur skal litið svo á að henni ljúki kl. 24.00.

75. gr.
Heimild vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi.

    Vátryggingartaki getur, sé um líftryggingu að ræða, slitið samningnum hvenær sem er.
    Nú vill vátryggingartaki segja upp samningi um slysa- eða sjúkratryggingu þegar vátryggingartímabili lýkur og verður hann þá að tilkynna félaginu um það innan mánaðar frá því það sendi venjulega tilkynningu um gjalddaga hins nýja tímabils. Honum er þó ekki skylt að tilkynna félaginu um uppsögn fyrr en tvær vikur eru til loka tímabilsins.
    Vátryggingartaki getur á vátryggingartíma sagt upp gildandi samningi um slysa- eða sjúkratryggingu ef hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna eða fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður.
    Sé um hópvátryggingu að ræða er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 3. mgr. í vátryggingarsamningi.

76. gr.
Heimild félagsins til þess að slíta vátryggingarsamningi á vátryggingartímabili.

    Sé um líftryggingu að ræða getur félagið ekki slitið vátryggingarsamningi í öðrum tilvikum en greinir í 84. gr.
    Sé um að ræða slysa- eða sjúkratryggingu getur félagið slitið vátryggingarsamningi sem í gildi er samkvæmt reglum 84. gr. og 3. mgr. 120. gr. Í öðrum tilvikum getur félagið því aðeins sagt upp vátryggingarsamningi að fyrir hendi séu sérstök atvik sem skýrlega eru tilgreind í vátryggingarskilmálum, enda megi telja uppsögnina sanngjarna. Félagið getur þó ekki áskilið sér rétt til uppsagnar vegna þess að heilsu hins vátryggða hafi hrakað eftir að vátryggingin var tekin.
    Uppsögnin verður að fara fram án ástæðulauss dráttar eftir að félaginu varð kunnugt um atvik sem veittu því rétt til hennar. Uppsögnin skal vera skrifleg og rökstudd. Sé ekki ákveðinn styttri frestur í lögunum skal uppsagnarfrestur eigi vera skemmri en tveir mánuðir.
    Félagið skal í tilkynningu um uppsögn skýra frá möguleikum á því að leggja ágreining um hana fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Það sem segir um uppsögn í 2. málsl., sbr. 3. málsl., 2. mgr. gildir einnig um fyrirvara þess efnis að vátrygging falli úr gildi ef tiltekin atvik eiga sér stað.

77. gr.
Uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartíma.

    Nú er vátryggingarsamningi slitið á vátryggingartímabilinu og skal þá reikna vátryggingartaka til tekna verðmæti vátryggingarinnar, þ.m.t. iðgjald, fyrir þann tíma sem hann hefur greitt og vátrygging er ekki í gildi. Þetta á við þótt félagið sé laust úr ábyrgð í heild eða að hluta.
    Í skilmálum skulu vera reglur um útreikning á verðmæti vátryggingarinnar og iðgjalds fyrir þessi tilvik eða vísað til slíkra reglna.

78. gr.
Aðvörun um lok líftryggingar.

    Nú er um það samið að líftrygging skuli gilda í þrjú ár eða lengur, og skal þá félagið skemmst þremur mánuðum áður en vátryggingartímabilinu lýkur vara vátryggingartaka við að vátryggingunni muni ljúka og upplýsa hann um hugsanlegan rétt hans til að framlengja hana. Hafi vátryggingin verið framlengd er þriggja ára fresturinn reiknaður frá þeim tíma er hún var fyrst tekin.

79. gr.
Endurnýjun slysa- eða sjúkratryggingar og breyting á skilmálum.

    Nú á slysa- eða sjúkratrygging að gilda í tiltekinn tíma, eitt ár eða lengur, og félagið hyggst ekki framlengja vátrygginguna fram yfir þann tíma og skal það þá tilkynna vátryggingartaka það í síðasta lagi tveimur mánuðum áður en vátryggingartímabilið er á enda. Að öðrum kosti framlengist vátryggingartímabilið um eitt ár.
    Félagið getur einungis neitað að endurnýja vátryggingu, sem nefnd er í 1. mgr., þegar fyrir liggja sérstakar ástæður. Þegar synjað er um endurnýjun gilda ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 76. gr. og 4. mgr. sömu greinar. Það sem segir í þessari málsgrein á ekki við ef ótvírætt er af vátryggingarsamningi að vátrygging skuli falla úr gildi þegar vátryggingartímabilinu lýkur.
    Nú óskar félagið eftir nýjum upplýsingum um áhættuna í tengslum við endurnýjun, og verður það þá að senda skriflega fyrirspurn til vátryggingartaka. Ella endurnýjast vátryggingin á þeim grundvelli sem fyrir lá þegar vátryggingartakinn síðast gaf upplýsingar um áhættuna.
    Vilji félagið breyta skilmálum vátryggingarinnar við endurnýjun hennar skal það, um leið og krafið er um iðgjöld fyrir næsta vátryggingartímabil, afhenda vátryggingartaka hina nýju skilmála og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri skilmálum. Breytingar sem ekki er gerð grein fyrir með þessum hætti getur félagið ekki borið fyrir sig.
    Félagið getur ekki áskilið sér rétt til að breyta skilmálum í slysa- eða sjúkratryggingum á vátryggingartímabilinu.

80. gr.
Heimild til að halda áfram líftryggingu þegar endurkaupsverðið hefur verið greitt.

    Sé endurkaupsverð einstaklingsbundinnar líftryggingar greitt vátryggingartaka eða kröfuhafa, sbr. 107. og 111. gr., getur vátryggingartaki án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar krafist þess að vátryggingin gildi áfram það sem eftir er af upphaflega umsömdum vátryggingartíma sem hrein áhættutrygging að frádregnu endurkaupsverði.
    Félagið skal í síðasta lagi við greiðslu endurkaupsverðsins upplýsa vátryggingartaka um réttinn til að halda vátryggingunni áfram. Krafa um slíka vátryggingu skal sett fram minnst sex mánuðum eftir að tilkynning var send.

81. gr.
Bráðabirgðavernd í líftryggingum.

    Hafi félagið gert fyrirvara í líftryggingu um að ábyrgð þess hefjist ekki fyrr en fyrsta iðgjald er greitt skal það bjóða vátryggingartaka bráðabirgðavernd vegna andláts sem ekki tengist heilsufarsástandi vátryggðs á því tímamarki er bráðabirgðaverndin öðlast gildi.
    Leiði ekki annað af ákvæðum 4. mgr. eða samningi aðila hefst bráðabirgðaverndin strax og iðgjald fyrir hana er greitt. Verndin fellur niður ef fullnægjandi umsókn um ákveðnar vátryggingar er ekki send félaginu í síðasta lagi mánuði eftir að bráðabirgðaverndin öðlaðist gildi. Sé slík umsókn send fellur bráðabirgðaverndin niður þegar sú vátrygging sem sótt var um er samþykkt eða henni hafnað, þó í síðasta lagi einum mánuði eftir að vátryggingartaki hefur fengið tilkynningu um greiðslu iðgjalds fyrir þá vátryggingu sem sótt er um. Hafi félagið sent tilboð um vátryggingu með öðrum skilmálum fellur verndin niður þegar fresturinn til að samþykkja tilboðið er liðinn.
    Bráðabirgðaverndin skal vera hin sama og vernd þeirrar vátryggingar sem sótt er um ef ekki er gerður áskilnaður um lægri fjárhæð í skilmálum hennar.
    Hafi félagið ekki í síðasta lagi þegar umsókn um ákveðna vátryggingu er móttekin gert vátryggingartaka grein fyrir möguleikanum á því að fá bráðabirgðavernd ber félagið sömu ábyrgð og sú vernd hefði verið umsamin.

XIII. KAFLI
Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
82. gr.
Skylda vátryggingartaka og vátryggðs til þess að veita upplýsingar um áhættu. Takmarkanir á upplýsingagjöf.

    Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sé upplýsinganna aflað hjá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal skriflegt, upplýst samþykki viðkomandi liggja fyrir áður en upplýsinganna er aflað. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal einnig að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Félaginu er einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar. Framangreint bann gildir þó ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga.
    Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað.

83. gr.
Ábyrgð félagsins þegar upplýsingaskylda er vanrækt.

    Hafi vátryggingartaki eða vátryggður sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína skv. 1. mgr. 82. gr. og vátryggingaratburður hefur orðið ber félagið ekki ábyrgð.
    Hafi vátryggingartaki eða vátryggður ella vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta.
    Við mat á ábyrgð félagsins skv. 2. mgr. skal litið til þess hvaða þýðingu vanrækslan hefur haft fyrir mat þess á áhættu, til þess hve sökin var mikil, með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið og til atvika að öðru leyti.

84. gr.
Réttur félagsins til þess að segja upp vátryggingunni og til breytinga á vátryggingarsamningi þegar upplýsingaskylda er vanrækt.

    Nú verður félaginu ljóst á vátryggingartímanum að upplýsingaskylda hefur verið vanrækt og sú vanræksla vátryggingartaka eða vátryggðs telst ekki óveruleg og getur það þá sagt upp vátryggingunni með 14 daga fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. gilda með sama hætti. Hafi vátryggingartaki viðhaft sviksamlega háttsemi getur félagið þó slitið vátryggingunni, svo og öðrum vátryggingarsamningum sem það hefur við vátryggingartaka, án fyrirvara.
    Ef ætla má að félagið hefði, þótt það hefði haft réttar upplýsingar, veitt vátrygginguna gegn hærra iðgjaldi eða með öðrum kjörum getur vátryggingartaki innan uppsagnarfrests krafist þess að viðhalda vátryggingunni á slíkum skilmálum. Svo fremi sem ekki er samið um nýja skilmála gildir upphafleg vátrygging með þeim takmörkunum sem leiðir af 2. og 3. mgr. 83. gr., en þó ekki lengur en þrjá mánuði frá uppsögn. Rétturinn til þess að viðhalda vátryggingunni samkvæmt þessari málsgrein gildir ekki ef svikum hefur verið beitt.
    Félagið skal í uppsögn gera vátryggingartaka grein fyrir því að hann geti átt kost á áframhaldandi vátryggingu og með hvaða skilmálum. Krefjist vátryggingartaki áframhaldandi vátryggingar getur félagið óskað eftir nýjum upplýsingum sem því er þörf á við mat sitt.

85. gr.
Takmarkanir á heimildum félagsins til þess að bera fyrir sig upplýsingaskort.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig að það hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar ef það vissi eða mátti vita að svo var þegar það fékk þær. Sama gildir ef atvik þau er upplýsingarnar varða skiptu ekki máli fyrir félagið eða gera það ekki lengur. Ef háttsemi vátryggingartaka eða vátryggðs er sviksamleg á framangreind takmörkun í 1. málsl. því aðeins við að félagið hafi vitað að upplýsingarnar sem það fékk voru rangar eða ófullnægjandi.
    Í líftryggingum getur félagið aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt ef vátryggingaratburður hefur orðið eða félagið hefur veitt viðvörun skv. 94. gr. innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Þessi takmörkun gildir þó ekki ef svikum hefur verið beitt.

86. gr.
Ábyrgðartakmörkun vegna heilsufars vátryggðs.

    Taki vátrygging til afleiðinga sjúkdóms eða meins getur félagið ekki gert fyrirvara um að það sé laust úr ábyrgð vegna þeirra tilvika að sjúkdómurinn eða meinið hafi verið fyrir hendi þegar ábyrgð þess hófst. Slíkur fyrirvari er þó gildur:
     a.      ef hann byggist á upplýsingum sem félagið hefur fengið með lögmætum hætti um hinn vátryggða eða
     b.      félaginu er af sérstökum ástæðum, öðrum er greinir í 2. mgr. 82. gr., útilokað að afla upplýsinga frá vátryggðum. Í slíkum tilvikum er félagið samt ábyrgt vegna sjúkdóms eða meins sem hinn vátryggði vissi ekki um þegar ábyrgð þess hófst.
    Í sjúkratryggingum getur félagið í skilmálum gert fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi hafi einkenni hans komið fram eftir ákveðið tímamark. Hið sama á við um vátryggingu á örorku í tengslum við líftryggingu.
    Hafi tímabundin vátrygging verið endurnýjuð getur fyrirvarinn einungis átt við um sjúkdóm eða mein sem hinn vátryggði var með er vátryggingin var tekin í upphafi.

87. gr.
Ábyrgðartakmörkun vegna hættulegrar starfsemi.

    Nú hefur félagið gert þann fyrirvara um ábyrgð sína að vátryggður taki ekki þátt í tiltekinni starfsemi eða athöfnum eða setji sig ekki í tilgreinda hættu og er það samt ábyrgt fyrir vátryggingartilvikum ef vátryggingaratburður verður ekki vegna þessara ástæðna.

88. gr.
Fyrirvari um að samræma iðgjald aðstæðum vátryggðs.

    Hafi félagið áskilið að iðgjaldið skuli vera háð aðstæðum vátryggðs, svo sem starfi hans og þess háttar, getur það gert vátryggingartaka að tilkynna um breytingar á þeim aðstæðum. Verði slík tilkynning ekki gefin í síðasta lagi við greiðslu fyrsta iðgjalds eftir að breytingin varð, og leiði vanrækslan til þess að iðgjaldið verði ekki hækkað, getur félagið gert kröfu um að ábyrgð þess fyrir sérhvert vátryggingartilvik verði hlutfallslega lækkuð. Við mat á ábyrgðinni skal miðað við það iðgjald, sem félagið hefði krafið um ef það hefði vitað af breytingum á aðstæðum vátryggðs. Félagið skal í innheimtutilkynningum vegna iðgjalds minna vátryggingartakann á ákvöð þessa.

89. gr.
Vátryggingaratburði valdið af ásetningi.

    Nú veldur vátryggður því af ásetningi að vátryggingaratburður verður og ber félagið þá ekki ábyrgð. Félagið ber þó ábyrgð ef vátryggður vegna aldurs eða andlegs ástands gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Félagið getur við slysatryggingar gert fyrirvara um að það beri ekki ábyrgð á sjálfsvígi eða sjálfsvígstilraun sem rakin verður til geðveiki.
    Hafi vátryggður framið sjálfsvíg, eða gert tilraun til þess, ber félagið ábyrgð sé um líftryggingu að ræða ef meira en ár hefur liðið frá því að ábyrgð þess hófst eða ef telja má sannað að vátryggingin hafi verið tekin án þess að sjálfsvíg hafi verið haft í huga. Hafi líftrygging, sem ætlað er að gilda í skamman tíma og tekur aðeins til dánaráhættu, verið endurnýjuð reiknast ársfresturinn frá því að vátryggingin var fyrst tekin.

90. gr.
Vátryggingaratburði valdið af gáleysi.

    Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama á við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.
    Í öðrum tilvikum en þeim er greinir í 1. mgr. getur félagið ekki borið fyrir sig að hinn vátryggði hafi af gáleysi valdið vátryggingaratburði.
    Félagið getur ekki borið fyrir sig reglur 1. mgr. ef hinn vátryggði gat ekki vegna aldurs eða andlegs ástands síns gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

91. gr.
Ráðstafanir til að varna tjóni á mönnum eða munum.

    Félagið getur ekki borið fyrir sig ákvæði 87., 89. eða 90. gr. ef sú háttsemi sem um ræðir fól í sér viðleitni til að koma í veg fyrir tjón á mönnum eða munum og telja má hana hafa verið réttlætanlega miðað við aðstæður.

92. gr.
Tilkynning um vátryggingaratburð.

    Nú hefur vátryggingaratburður orðið og skal þá hver sá sem telur sig eiga kröfu á félagið skýra frá því án ástæðulauss dráttar.
    Geti félagið ekki rannsakað tildrög vátryggingaratburðar sem þýðingu hafa fyrir ábyrgð þess eða geti það ekki gert ráðstafanir er mundu hafa takmarkað umfang tjónsins vegna þess að einhver þeirra sem greinir í 1. mgr. hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vanrækt tilkynningarskyldu sína má lækka eða fella niður ábyrgðina gagnvart honum.

93. gr.
Ráðstafanir til að takmarka tjón.

    Félagið getur gefið hinum vátryggða fyrirmæli um að gera ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að takmarka umfang ábyrgðar þess, og skal það ábyrgjast kostnað við slíkar ráðstafanir. Vátryggður er ekki skyldur að hlíta slíkum fyrirmælum ef þau fela í sér ósanngjarna takmörkun á athafnafrelsi hans.
    Nú sinnir vátryggður af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi ekki fyrirmælum sem honum er skylt að hlíta skv. 1. mgr. og má þá lækka eða fella niður ábyrgð félagsins.

94. gr.
Tilkynningarskylda félagsins ef það hyggst
bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð.

    Nú hyggst félagið bera fyrir sig að það sé samkvæmt ákvæðum þessa kafla laust úr ábyrgð að öllu leyti eða að hluta, eða geti sagt upp vátryggingunni, og skal það þá tilkynna vátryggingartaka eða þeim sem rétt á til vátryggingabóta skriflega um afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félagið vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita rétti sínum samkvæmt ákvæðunum. Í því sambandi skal félagið einnig upplýsa um rétt til að leggja mál fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr.
    Vanræki félagið að senda slíka tilkynningu glatar það rétti til þess að bera fyrir sig atvikin.
    Í líftryggingum skal félagið samtímis því sem það sendir tilkynningu skv. 1. málsl. 1. mgr. skrá í líftryggingarskrá að það hafi borið fyrir sig atvikin.

XIV. KAFLI
Iðgjaldið.
95. gr.
Gjalddagi, fyrsta tilkynning.

    Þegar greiðsla iðgjalds er ekki skilyrði þess að ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefjist fellur það í gjalddaga þegar greiðslu þess er krafist samkvæmt samningnum. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendir tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Hafi ábyrgð félagsins hafist helst hún áfram þótt greiðsla sé ekki innt af hendi innan hins tilgreinda frests.

96. gr.
Greiðsludráttur á iðgjaldi, síðari tilkynningar.

    Sé iðgjald ekki greitt þegar greiðslufresti lýkur skv. 95. gr. og félagið ber ábyrgð getur það losnað undan henni með því að senda nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Tilkynningin skal bera skýrlega með sér að vátryggingin falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan hins tilskilda frests.
    Nú er sýnt fram á að vátryggingartaki hafi ekki getað greitt fyrir lok frests skv. 1. mgr. vegna ófyrirséðra hindrana sem honum verður ekki um kennt og helst þá ábyrgð félagsins í þrjá mánuði til viðbótar eftir lok frestsins.
    Ef iðgjaldið í slysa- eða sjúkratryggingum greiðist eftir lok greiðslufrestsins í 1. mgr. ber að líta á greiðsluna sem ósk um nýja vátryggingu. Ákvæði 3. mgr. 74. gr. gildir þá með sama hætti, en ábyrgð félagsins hefst þó fyrst daginn eftir að iðgjaldið er greitt.

97. gr.
Réttur til að endurvekja líftryggingu án nýrra heilsufarsupplýsinga.

    Nú hefur ábyrgð félagsins samkvæmt líftryggingarsamningi fallið niður eftir að iðgjald hefur verið greitt fyrir eitt ár hið skemmsta, og má þá endurvekja vátrygginguna án þess að nýjar heilsufarsupplýsingar komi til ef vangoldið iðgjald er greitt innan þriggja mánaða frá því að frestur skv. 1. mgr. 96. gr. rennur út. Hafi endurkaupsverð vátryggingarinnar verið greitt út er einnig heimilt að endurgreiða það til félagsins innan sama frests, sbr. þó 1. mgr. 80. gr. Félagið getur krafist dráttarvaxta af þeim fjárhæðum sem um ræðir. Ef vátryggingin er endurvakin hefst ábyrgð félagsins daginn eftir að fjárhæðin er greidd.

98. gr.
Sérstök tilkynningarskylda um iðgjald í líftryggingum.

    Í líftryggingum skal félagið einnig senda tilkynningu skv. 1. mgr. 96. gr. til þess sem samkvæmt líftryggingarskrá er veðhafi í vátryggingunni. Maki vátryggingartaka, vátryggður og sá sem að lokum teldist rétthafi samkvæmt líftryggingu geta einnig krafist þess að fá slíka tilkynningu. Vanræki félagið að senda tilkynningar þær sem hér um ræðir getur það ekki borið fyrir sig vanefnd á greiðslu iðgjaldsins gagnvart þeim sem ekki fengu tilkynningu.

99. gr.
Hvenær telja ber greiðslu innta af hendi.

    Þótt félagið hafi ekki móttekið greiðslu skal líta svo á að hún hafi verið innt af hendi þegar:
     a.      peningar, tékki eða önnur sambærileg ávísun er send til þess í pósti eða með skeyti,
     b.      fjárhæðin er greidd til pósthúss, banka eða sparisjóðs eða
     c.      fyrirmæli um greiðslu eru send til banka, sparisjóðs eða með öðrum óafturkallanlegum hætti.

XV. KAFLI
Ráðstafanir tengdar vátryggingu. Rétturinn til greiðslu frá félaginu.
100. gr.
Réttur til greiðslu frá félaginu þegar vátryggingartaki
hefur ekki ráðstafað vátryggingunni.

    Nú hefur vátryggingartaki ekki gert ráðstafanir í samræmi við ákvæði þessa kafla og gilda þá reglur 2.–6. mgr.
    Vátryggingarfjárhæð, sem fellur til við andlát vátryggingartaka, rennur til maka hans. Þetta gildir þó ekki hafi fyrir andlát hans verið veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, eða kveðinn upp dómur um það eða hjúskapurinn ógiltur, þótt slík úrlausn sé ekki endanleg eða hafi öðlast réttaráhrif. Vátryggingarfjárhæð, eða hluti hennar, sem fellur til maka, telst ekki til þeirra eigna sem skipta á að jöfnu eftir 93. gr., sbr. 103. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, ef eftirlifandi maki yfirtekur ekki búið óskipt í samræmi við II. kafla erfðalaga, nr. 8/1962.
    Vátryggingarfjárhæð, eða hluti hennar, sem fellur ekki til maka samkvæmt ákvæði 2. mgr., fellur til erfingja samkvæmt lögum eða erfðaskrá. Nú sat vátryggingartaki í óskiptu búi skv. II. kafla erfðalaga, og telst vátryggingarfjárhæðin þá til þeirra eigna sem skipta skal jafnt milli erfingja hins skammlífari og hins langlífari, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. erfðalaga.
    Sé greiðsla vátryggingarfjárhæðar í heild eða að hluta háð því að tilteknir menn séu á lífi fellur greiðslan til þeirra.
    Hafi fleiri en einn tekið vátryggingu sameiginlega og vátryggingarfjárhæðin kemur til greiðslu þegar sá fyrsti þeirra deyr fellur vátryggingarfjárhæðin til þess eða þeirra vátryggingartaka sem eru á lífi. Séu fleiri en einn á lífi, skiptist fjárhæðin jafnt á milli þeirra sé ekki um annað samið.
    Vátryggingarfjárhæð, sem kemur til greiðslu af öðru tilefni en við andlát vátryggingartakans, fellur til hans.

101. gr.
Tilnefning rétthafa.

    Vátryggingartaki getur tilnefnt einn eða fleiri rétthafa að vátryggingarfjárhæð ásamt ágóðahlutdeild, sem kann að verða, eða hluta af vátryggingarfjárhæðinni, þegar hún kemur til greiðslu. Sé vátryggingartaki í hjúskap ber að tilkynna maka hans um tilnefningu rétthafa, sbr. 105. gr.
    Tilnefningu rétthafa má afturkalla nema vátryggingartaki hafi lýst því yfir við hann að hún sé óafturkallanleg.

102. gr.
Aðferð við tilnefningu rétthafa.

    Tilnefningu rétthafa og afturköllun hennar verður að tilkynna félaginu skriflega. Við töku vátryggingar er þó hægt að upplýsa félagið um tilnefninguna með öðrum hætti.
    Nú er í erfðaskrá gerð ráðstöfun tengd vátryggingu og ber þá að líta á hana sem tilnefningu á rétthafa eða afturköllun tilnefningar.
    Tilnefning eða afturköllun á henni, sem ekki er gerð eins og mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr., er ógild.

103. gr.
Túlkunarreglur.

    Sé ekki annað ákveðið eða það leiði af atvikum gildir eftirfarandi:
     a.      Tilnefning á rétthafa tekur aðeins til þeirrar vátryggingarfjárhæðar sem fellur til við andlát.
     b.      Hafi vátryggingartaki tilnefnt fleiri en einn rétthafa gildir 53. gr. erfðalaga um það.
     c.      Ef rétthafi deyr á undan vátryggðum skal vátryggingarfjárhæðin renna til lögerfingja rétthafans.
     d.      Sé maki vátryggðs tilnefndur sem rétthafi gilda ákvæði 2. mgr. 100. gr. laga þessara.
     e.      Séu erfingjar vátryggðs tilnefndir tekur það einnig til bréferfingja.
     f.      Sé vátryggingin veðsett við andlát vátryggingartaka víkur rétthafi fyrir veðhafanum.

104. gr.
Réttur samkvæmt vátryggingarsamningi þegar rétthafi er tilnefndur.

    Tilnefning rétthafa felur ekki í sér takmörkun á ráðstöfunarrétti vátryggingartaka yfir vátryggingunni eða rétti samkvæmt vátryggingarsamningi. Sé vátrygging veðsett stendur rétthafinn að baki veðhafanum, sé ekki um annað samið.
    Sé tilnefning rétthafa óafturkallanleg hefur vátryggingartaki ekki heimild til þess að ráðstafa rétti samkvæmt vátryggingarsamningi þannig að það horfi til tjóns fyrir rétthafann.
    Nú hefur vátryggingaratburður ekki orðið og getur rétthafinn þá ekki ráðstafað rétti sínum samkvæmt vátryggingarsamningi. Sé vátryggingartakinn látinn og vátryggingarfjárhæðin á að greiðast síðar yfirfærast öll réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi til rétthafans nema annað leiði af atvikum.

105. gr.
Tilnefningu rétthafa hnekkt eftir kröfu þeirra
sem hafa verið á framfæri vátryggingartaka.

    Sé það bersýnilega ósanngjarnt gagnvart maka eða öðrum skylduerfingjum, sem voru á framfæri vátryggingartaka eða hann var skuldbundinn til að framfæra og hefðu ella átt kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr., að vátryggingarfjárhæðin renni til rétthafa getur sá er framfærslu naut eða átti að njóta krafist þess að vátryggingarfjárhæðin verði greidd sér í heild eða að hluta. Við úrlausn þessa skal einkum líta til ástæðna tilnefningarinnar, þarfa þess er framfærslu naut eða átti að njóta, þarfa rétthafans og hvort sá fyrrnefndi hafi fengið tilkynningu um tilnefninguna innan sanngjarns frests fyrir andlátið.
    Reglur 1. mgr. eiga einnig við um aðra skylduerfingja þegar makinn á kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 2. mgr. 100. gr.
    Kröfur skv. 1. og 2. mgr. verður að hafa uppi með málshöfðun gegn rétthafanum eða makanum innan árs frá andlátinu.
    Ef rétthafinn eða makinn hefur fengið vátryggingarfjárhæðina greidda er hann ekki skuldbundinn til að endurgreiða meira af henni en þá upphæð sem eftir var þegar viðkomandi fékk upplýsingar um kröfuna.

106. gr.
Framsal vátryggingarinnar.

    Ef vátrygging er framseld yfirfærast réttindin samkvæmt vátryggingarsamningi til framsalshafa, sé ekki um annað samið. Við framsalið falla fyrri tilnefningar á rétthöfum niður nema um annað sé samið eða það leiði af aðstæðum.

107. gr.
Veðsetning vátryggingarinnar.

    Höfuðstólstryggingu má veðsetja. Veðrétturinn felur í sér heimild til að fá vátryggingarfjárhæðina greidda þegar hún fellur til og réttinn til að fá endurkaupsverð vátryggingarinnar. Ágóðahlutdeild sem við kann að bætast telst ekki til hins veðsetta nema um það sé samið.
    Án samþykkis veðhafa getur félagið ekki greitt gjaldfallnar greiðslur samkvæmt vátryggingunni, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um samningsveð.
    Nú er veðkrafa fallin í gjalddaga og getur veðhafinn þá krafist þess að endurkaupsverð vátryggingarinnar verði greitt sér að því leyti sem þarf til fullnustu veðkröfunnar. Veðhafinn skal þó gefa veðþola tveggja mánaða frest til að greiða veðkröfuna eða greiða fjárhæð sem svarar til endurkaupsverðsins. Veðhafinn á ekki rétt á því að fá fullnustu veðkröfunnar með öðrum hætti.
    Sé vátrygging veðsett við andlát vátryggðs og ef dánarbúið greiðir veðkröfuna getur það krafist endurgreiðslu af vátryggingarfjárhæðinni nema annað leiði af aðstæðum.

108. gr.
Brottfall réttar til að krefjast vátryggingabóta.

    Ákvæði 23. gr. erfðalaga gilda um þann sem á rétt til vátryggingabóta samkvæmt þessum kafla. Hið sama á við um vátryggingarbætur sem greiddar eru vegna örorku sem er afleiðing háttsemi sem tilvitnað ákvæði erfðalaga tekur til. Við vátryggingu á lífi óvenslaðs manns falla greiðslur sem ekki renna til vátryggingartakans til vátryggðs eða til erfingja hans ef hinn vátryggði er látinn samkvæmt ákvæðum 2. og 3. mgr. 100. gr.

109. gr.
Lífeyristrygging.

    Reglur þessa kafla gilda um lífeyristryggingu sé annað ekki ákveðið í lögum eða vátryggingarskilmálum.

XVI. KAFLI
Réttarsambandið við skuldheimtumenn.
110. gr.
Almennar reglur um rétt skuldheimtumanna.

    Hafi vátrygging ekki verið framseld öðrum en maka vátryggingartaka eða hinum vátryggða getur réttur samkvæmt vátryggingarsamningi ekki orðið andlag fullnustu skuldheimtumanna fyrr en eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Ef skuldheimtumenn framsalshafa leita fullnustu í réttindum samkvæmt vátryggingunni gilda ákvæði 3. mgr. 107. gr.
    Vátryggingarfjárhæð sem greiðast skal við andlát verður ekki andlag fullnustu af hálfu skuldheimtumanna hins látna nema annað hafi verið ákveðið við tilnefningu rétthafa. Ákvæði 4. mgr. 107. gr. gilda um slík tilvik.
    Ef vátryggingarfjárhæð kemur til greiðslu af öðrum ástæðum en vegna andláts vátryggðs geta skuldheimtumenn hans ekki leitað fullnustu í kröfu hans gegn félaginu í eitt ár frá því að hún kom til greiðslu. Hið sama á við um skuldheimtumenn maka er maki vátryggðs öðlast rétt til fjárhæðarinnar þegar hún kemur til greiðslu.
    Við lífeyristryggingu geta skuldheimtumenn þess er lífeyris nýtur leitað fullnustu í lífeyrisgreiðslum til hans með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 47. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.

111. gr.
Riftun iðgjaldagreiðslu við gjaldþrotaskipti o.fl.

    Þrotabú vátryggingartaka, skuldari ef nauðasamningur kemst á og skuldafrágöngubú geta krafist endurgjalds af félaginu fyrir greiðslu iðgjalds sem innt er af hendi á síðustu þremur árum fyrir frestdag skv. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, að því leyti sem iðgjaldsgreiðslan, þegar hún fór fram, var bersýnilega ósanngjörn miðað við fjárhagsstöðu vátryggingartakans og atvik að öðru leyti. Endurgjaldið á að nema aukningu á verðmæti vátryggingarinnar sem á rætur að rekja til hinnar bersýnilega ósanngjörnu iðgjaldagreiðslu. Greiðsla iðgjalds í lífeyristryggingum, að því marki sem iðgjaldið var eða gat verið frádráttarbært við ákvörðun tekjuskattsstofns vátryggingartaka, skal ekki teljast ósanngjörn samkvæmt reglum þessarar málsgreinar.
    Nú vill þrotabú, skuldari eftir að nauðasamningur hefur komist á eða skuldafrágöngubú hafa uppi endurgreiðslukröfu gegn félaginu og skal það þá einnig tilkynna vátryggingartaka og þeim sem á kröfu á vátryggingarfjárhæðinni, þegar hún fellur til, um kröfuna.
    Ef vátryggingarfjárhæðin hefur verið greidd getur búið krafist fjárhæðarinnar sem nefnd er í 1. mgr. frá þeim sem fengið hefur vátryggingarfjárhæðina greidda. Ákvæði 4. mgr. 105. gr. gildir eftir því sem við getur átt um slíkar greiðslur.
    Sé vátrygging veðsett og ef veðsetningin er skráð í síðasta lagi daginn fyrir frestdag skv. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki unnt að hafa uppi endurgreiðslukröfu samkvæmt þessari grein í bága við hagsmuni veðhafa. Hafi vátryggingartaki framselt vátrygginguna eða tilnefnt með óafturkallanlegum hætti rétthafa gildir það sama að því leyti sem framsalshafi eða rétthafinn hafa greitt endurgjald fyrir réttinn.
    Hafi rétthafi eða annar sem nýtur verndar skv. 1. mgr. 110. gr. greitt iðgjald gilda ákvæði 1.–4. mgr. á sama hátt um samband þeirra við skuldheimtumenn.

XVII. KAFLI
Skráning líftrygginga.
112. gr.
Líftryggingarskrá.

    Líftryggingafélag skal halda skrá um þá líftryggingarsamninga sem það gerir. Í skránni skulu koma fram eftirfarandi atriði um hvern einstakan samning:
     a.      vátryggingarskilmálar sem gilda um samninginn,
     b.      réttindi sem ákveðin eru um greiðslur í framtíðinni,
     c.      iðgjaldagreiðslur og
     d.      hver sé vátryggingartaki og hver sé vátryggður.
    Hafi einhver öðlast rétt til vátryggingarinnar skal félagið samkvæmt kröfu skrá það. Ef rétturinn til vátryggingarinnar byggist á frjálsri ráðstöfun er það skilyrði skráningar að ráðstöfunin sé gerð af þeim sem samkvæmt skránni er vátryggingartaki. Félagið skal tilkynna um skráninguna til vátryggingartaka og til eiganda réttinda.
    Hafi áður verið skráður annar rétthafi má krefjast þess að sú skráning sé afmáð ef lagðar eru fram sannanir um að rétturinn hafi fallið brott eða að eigandi réttindanna samþykki það.
    Afturkallanlega tilnefningu rétthafa má skrá eða afmá, enda sé það gert að beiðni þess sem samkvæmt líftryggingarskrá er tilgreindur sem vátryggingartaki. Tilkynning vátryggingartaka skv. 1. mgr. 102. gr. telst beiðni um skráningu eða um að afmá hana.
    Sé bú vátryggingartaka tekið til opinberra skipta skal það skráð að kröfu skiptastjóra, sbr. 54. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Ef heimild til að leita nauðasamnings hefur verið veitt, eða ef bú vátryggingartaka hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, skal skrá búið að kröfu tilsjónarmanns eða skiptastjóra, sbr. 43. og 87. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hið sama á við ef vátryggingartaki er sviptur lögræði, sbr. 58. og 67. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.
    Krafa um skráninguna skal færð í dagbók sama dag og hún kemur til félagsins og í skrána eins fljótt og kostur er.

113. gr.
Endurrit.

    Vátryggingartaki, maki hans, vátryggður, rétthafi samkvæmt óafturkallanlegri tilnefningu, veðhafi í vátryggingu eða í framveðrétti í vátryggingu, skiptastjóri eða tilsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum getur krafist endurrits af því sem skráð er í líftryggingarskrá.
    Endurrit skv. 1. mgr. skal aðeins hafa að geyma upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir þann sem krefst þess. Að öðru leyti hefur félagið þagnarskyldu um efni líftryggingarskrár.
    Viðskiptaráðherra skal setja nánari reglur um efni endurrits samkvæmt þessari grein.

114. gr.
Ósamþýðanleg réttindi.

    Skráð réttindi yfir vátryggingu ganga framar réttindum sem ekki eru skráð í dagbók í síðasta lagi sama dag ef þau eru ósamþýðanleg. Séu fleiri réttindi skráð í dagbók sama dag eru þau jafnrétthá.
    Þrátt fyrir það sem segir í 1. mgr. ganga eldri réttindi framar yngri ef til hinna yngri er stofnað með frjálsri ráðstöfun og framsalshafi vissi eða mátti vita um hinn eldri rétt þegar réttur hans var skráður í dagbók.

115. gr.
Staða grandlauss eiganda réttinda gagnvart félaginu.

    Nú hefur maður í góðri trú fengið skráð réttindi sem reist eru á samningi. Getur þá félagið ekki haft uppi aðrar mótbárur gagnvart honum en þær sem reistar eru á upplýsingum þeim er koma fram í tilkynningu til rétthafa skv. 2. mgr. 112. gr. Félagið getur þó haft uppi mótbárur sem reistar eru á:
     a.      atvikum sem greinir í XIII. kafla og félagið vissi fyrst um eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send,
     b.      að iðgjaldagreiðsla sé vanefnd eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send, sbr. þó 98. gr., eða
     c.      að félagið hafi greitt gjaldfallna lífeyrisgreiðslu eða aðra greiðslu sem samkvæmt samningi átti að greiðast í tiltekinn fjölda ára þótt greiðslan hafi verið innt af hendi áður en tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send.

116. gr.
Greiðsla vátryggingarfjárhæðar til þess sem telst rétthafi.

    Hafi félagið í góðri trú greitt vátryggingarfjárhæðina eða endurkaupsverðið til þess sem skráður er rétthafi í líftryggingarskrá eða á rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr. verður því ekki borið við gagnvart félaginu að annar hafi átt betri rétt en sá er greiðsluna fékk.

117. gr.
Mótbárumissir þess sem kann að eiga rétt.

    Nú hefur maður í góðri trú skráð réttindi er stofnað hefur verið til með samningi við þann sem samkvæmt líftryggingarskrá er vátryggingartaki og er þá ekki unnt að bera því við að réttindi hans byggist á ógildu framsali. Þetta á þó ekki við ef ógildingarástæðan er fölsun, ólögræði, geðveiki eða meiri háttar nauðung sem tilgreind er í 28. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

118. gr.
Ráðstafanir vátryggingartaka.

    Það sem segir í þessum kafla um ráðstafanir vátryggingartaka gildir einnig um ráðstafanir sem gerðar eru af þeim er eiga takmörkuð réttindi í vátryggingunni.

119. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um líftryggingarskrá.

XVIII. KAFLI
Bótauppgjör, fyrning o.fl.
120. gr.
Upplýsingaskylda við uppgjör bóta.

    Sá sem hyggst hafa uppi kröfu gegn félaginu skal veita því upplýsingar og afhenda gögn sem hann á aðgang að og félagið þarf til þess að geta metið ábyrgð sína og greitt út vátryggingarfjárhæðina.
    Sá sem við tjónsuppgjör veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit eða má vita að geta leitt til þess að greiddar verði út bætur sem hann á ekki rétt til glatar öllum rétti til krafna á hendur félaginu samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna sömu atvika. Sé háttsemin ekki alvarleg, hún varði einungis lítinn hluta kröfunnar eða ef sérstakar ástæður mæla með því getur hann þó fengið bætur að hluta. Ákvæði 93. gr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Í þeim tilvikum sem greinir í 2. mgr. getur félagið sagt upp öllum vátryggingarsamningum við viðkomandi með viku fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 76. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

121. gr.
Greiðsla bóta eða vátryggingarfjárhæðar.

    Krafa um bætur eða vátryggingarfjárhæð fellur í gjalddaga 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra gagna sem þörf var á til þess að kanna ábyrgð sína og reikna út endanlega fjárhæð bóta. Eigi félagið að bæta örorku er heimilt í vátryggingarskilmálum að kveða nánar á um mat á örorkunni.
    Ef augljóst er áður en endanlegt uppgjör fer fram að félaginu ber að greiða að minnsta kosti hluta af bótum þeim sem gerð er krafa um skal það inna af hendi hlutagreiðslu sem því nemur.

122. gr.
Heimild félagsins til að skuldajafna.

    Félagið hefur einungis rétt til þess að skuldajafna við bótagreiðslur eða vátryggingarfjárhæðina vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrar vátryggingar sem um ræðir eða annarra sem vátryggingartaki hefur hjá félaginu.
    Þegar greiða á bætur eða vátryggingarfjárhæð til annars en vátryggingartaka er félaginu aðeins heimilt að skuldajafna iðgjaldi vegna sama vátryggingarsamnings. Ef greiða á fleirum en einum ber að beita skuldajöfnuði hlutfallslega gagnvart þeim öllum.

123. gr.
Vextir.

    Félagið skal greiða almenna vexti af bótum eða vátryggingarfjárhæð þegar liðnir eru tveir mánuðir frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send því.
    Eigi félagið að bæta útlagðan kostnað stofnast skylda til greiðslu almennra vaxta fyrst tveimur mánuðum eftir að kostnaður hefur verið greiddur. Ef félagið á að greiða dagpeninga eða þess háttar skal greiða vexti að liðnum mánuði eftir að það tímabil er liðið sem félagið á að greiða dagpeninga fyrir. Ef félagið á að greiða tiltekna fjárhæð og gjalddagi er ákveðinn fyrir fram skal reikna vexti frá gjalddaga.
    Ef rétthafi bóta eða vátryggingarfjárhæðar vanrækir að veita upplýsingar eða afhenda gögn sem nefnd eru í 1. mgr. 120. gr. getur hann ekki krafist vaxta fyrir þann tíma sem líður vegna þess. Hið sama á við ef eigandi réttar gagnvart félaginu hafnar með óréttmætum hætti uppgjöri í heild eða að hluta.
    Nú er krafa um bætur miðuð við verðlag eftir að vátryggingaratburður varð og skal þá krafan bera vexti samkvæmt framansögðu sem miðast við það tímamark.
    Almennir vextir samkvæmt þessari grein skulu vera hinir sömu og greiða ber á skaðabætur samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um dráttarvexti gilda reglur III. kafla þeirra laga.
    Vexti skal greiða þótt greiðsla félagsins í heild verði með því hærri en vátryggingarfjárhæð. Í vátryggingarskilmálum skal vekja athygli á rétti til vaxta samkvæmt þessari grein.

124. gr.
Frestur til að tilkynna um vátryggingaratburð í slysa- eða sjúkratryggingum
og til lögfræðilegra aðgerða.

    Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysa- eða sjúkratryggingu glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.
    Hafni félagið kröfu um bætur í heild eða að hluta glatar sá sem rétt á til bóta þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina. Í tilkynningu félagsins verður að koma fram hver lengd frestsins sé og hvernig honum verði slitið og lögfylgjur þess að það verði ekki gert. Lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, gilda eftir því sem við getur átt um slit á frestum.

125. gr.
Fyrning.

    Krafa um vátryggingarfjárhæð samkvæmt höfuðstólstryggingum fyrnist á tíu árum og aðrar kröfur um bætur á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs þegar sá er kröfuna á fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem krafa hans er reist á. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi á 20 árum, en aðrar kröfur á 10 árum, eftir lok þess almanaksárs sem vátryggingaratburður varð. Hafi félagið í slysa- eða sjúkratryggingum sent tilkynningu skv. 2. mgr. 124. gr. fyrnist krafan fyrst þegar sá frestur líður sem þar er tilgreindur.
    Krafa samkvæmt lífeyristryggingu fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta lífeyrisgreiðsla var innt af hendi. Hafi ekki verið inntar af hendi neinar greiðslur hefst fresturinn á þeim degi er rétthafinn gat krafist fyrstu greiðslu. Krafa um gjaldfallnar greiðslur fyrnist auk þess að liðnum fjórum árum frá gjalddaga.
    Að öðru leyti gilda reglur laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Frestur sá sem tilgreindur er í 3. málsl. 1. mgr. framlengist þó ekki skv. 15. gr. þeirra laga.

XIX. KAFLI
Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
126. gr.
Tengsl við önnur ákvæði laganna.

    Ef ekki leiðir annað af reglum þessa kafla gilda aðrar reglur þessa hluta laganna einnig um hópvátryggingar, að því leyti sem við getur átt.

127. gr.
Efni hópvátryggingarsamnings.

    Í samningi um hópvátryggingu skal eftirfarandi koma fram:
     a.      greiðslur félagsins samkvæmt samningnum,
     b.      hvort heimilt sé að áskilja sér rétt til að vera ekki þátttakandi í hópnum,
     c.      hverjir séu eða geti orðið þátttakendur í hópnum,
     d.      hvernig bera eigi sig að til þess að verða þátttakandi í hópnum, áskilja sér rétt til þess að verða það ekki eða hætta þátttöku í hópnum,
     e.      hvort haldin skuli skrá yfir þátttakendur, og ef svo er, hvort skráin skuli haldin af vátryggingartaka eða félaginu,
     f.      hvort iðgjaldið skuli greiðast félaginu af vátryggingartaka eða hverjum einstökum þátttakanda,
     g.      skyldur vátryggingartaka í tengslum við tilkynningar til eða frá þátttakendum,
     h.      hver eigi kröfu á vátryggingarfjárhæðinni ef vikið er frá reglum 100. gr.,
     i.      hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi til þess að ábyrgð félagsins hefjist og henni verði haldið við og
     j.      heimildir þátttakenda til þess að ráðstafa rétti sínum samkvæmt vátryggingarsamningi, sbr. 137. og 138. gr.
    Samningur um hóplífeyristryggingu skal kveða á um hvort hagnaður af henni renni til vátryggingartaka eða þátttakendanna.

128. gr.
Upplýsingar um vátrygginguna.

    Félagið og vátryggingartaki skulu tryggja með fullnægjandi hætti að þeir sem eru eða geta orðið þátttakendur í hópnum fái upplýsingar um atvik sem nefnd eru í 127. gr. og um viðbótarvátryggingar sem gæti verið heppilegt fyrir þá að afla sér. Upplýsingar þessar skal gefa þegar hópvátryggingu hefur verið komið á og síðar er efni standa til. Ef skilmálarnir koma ekki fram í vátryggingarsamningnum skal einnig upplýsa viðkomandi um þá.

129. gr.
Vátryggingarskírteini.

    Sé haldin skrá skv. e-lið 1. mgr. 127. gr. um þátttakendur í hópnum skal sá sem heldur skrána án ástæðulauss dráttar sjá til þess að hver sá sem verður þátttakandi fái vátryggingarskírteini og þá skilmála sem um vátrygginguna gilda.
    Nú hefur maður fengið vátryggingarskírteini og er þá hvorki unnt að bera því við gegn honum að hann uppfylli ekki skilyrði til þess að vera þátttakandi í hópnum sem vátrygging tekur til, né að hann eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem fram koma í skírteininu. Þetta gildir þó ekki ef það leiðir skýrlega af vátryggingarskírteini að hann uppfylli ekki skilyrðin eða eigi ekki rétt á greiðslunum. Þetta á heldur ekki við ef félagið getur losnað úr ábyrgð í heild eða að hluta samkvæmt reglum 83. gr. eða ef það hefur sent aðvörun um slit vátryggingarinnar eða breytingu á skilmálum skv. 131. eða 133. gr.

130. gr.
Upphaf ábyrgðar félagsins.

    Sé ekki um annað samið eða leiði af atvikum hefst ábyrgð félagsins þegar samningurinn er gerður.
    Fyrir þann sem síðar verður þátttakandi í hópnum telst upphaf ábyrgðar félagsins vera þegar send er tilkynning um aðild hans samkvæmt samningnum eða greitt iðgjald fyrir hann eða, sé tilkynningar ekki krafist, þegar hann uppfyllir skilyrði þess að vera þátttakandi.
    Ákvæði 4. mgr. 74. gr. gildir eftir því sem við getur átt.

131. gr.
Lok vátryggingarinnar.

    Þegar þátttakandi í hópi sem nýtur hópvátryggingar, og skrá er haldin yfir, hættir í hópnum fellur vátrygging niður að því er hann varðar í fyrsta lagi 14 dögum eftir að félagið eða vátryggingartaki sendir honum skriflega tilkynningu. Í hópvátryggingu þar sem ekki er haldin skrá yfir þátttakendur í hópnum, eða þegar skrifleg tilkynning er ekki send, fellur vátryggingin fyrst niður tveimur mánuðum eftir að þátttakandinn hætti í hópnum. Verði vátryggingaratburður sem félagið ber ábyrgð á skv. 1. eða 2. málsl. getur það dregið frá bótum að því leyti sem hann nýtur sambærilegrar vátryggingar og fær bætur samkvæmt henni.
    Ef vátryggingartaki eða félagið segir upp eða endurnýjar ekki vátrygginguna eða ef ábyrgð félagsins fellur niður vegna vangreiðslu vátryggingartaka á iðgjaldi skal þátttakendum í hópnum tilkynnt það skriflega eða með öðrum fullnægjandi hætti. Fyrir hvern einstakan þátttakanda fellur vátryggingin niður í slíkum tilvikum í fyrsta lagi einum mánuði eftir að tilkynning er send eða hann fékk með öðrum hætti vitneskju um atvik. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. gildir eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um vátryggingu sem samkvæmt efni sínu er einungis tímabundin.

132. gr.
Réttur þátttakanda til að viðhalda líftryggingu.

    Þegar hóplíftryggingu lýkur hafa þátttakendur í hópnum, hver um sig, rétt til þess að halda áfram vátryggingunni með einstaklingsbundnum iðgjaldaútreikningi án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar. Sama rétt hefur þátttakandi sem af öðrum ástæðum en vegna aldurs hættir í hópi þeim sem vátrygging tekur til. Viðkomandi skal með skriflegum eða með öðrum fullnægjandi hætti tilkynnt um möguleika hans til þess að halda vátryggingunni áfram. Vilji þátttakandinn hagnýta sér réttinn skal hann gera það innan þriggja mánaða eftir að ábyrgð félagsins hefur fallið niður.

133. gr.
Breyting á skilmálum.

    Félagið getur gert fyrirvara um að það megi breyta skilmálum og iðgjaldi á vátryggingartímanum.
    Ef skilmálum vátryggingarinnar verður breytt með þeim hætti að það rýri stöðu þátttakendanna gilda reglur 2. mgr. 131. gr.

134. gr.
Tilkynningar til þátttakenda og frá þeim.

    Nú er tilkynning vegna vátryggingar send vátryggingartaka og er þá ekki unnt að bera fyrir sig að hún hafi ekki komið til félagsins. Þetta á þó ekki við ef þátttakandinn hafði ástæðu til að ætla að tilkynningin hefði ekki komið til félagsins og hann átti þess kost að tilkynna því um það.
    Hafi vátryggingartaka verið skylt samkvæmt þessum lögum eða samningi að tilkynna þátttakendum í hópnum eitthvað en gerir það ekki hefur athafnaleysi hans sömu réttaráhrif gagnvart þeim og ef félagið hefði sýnt það af sér. Þetta gildir þó ekki ef þátttakandinn þekkti af öðrum ástæðum til efnis tilkynningarinnar og sanngjarnt má telja að hann hafi átt þess kost að fara eftir því.

135. gr.
Líftrygging án upplýsinga um áhættuna.

    Í hóplíftryggingum er unnt, þrátt fyrir ákvæði 86. gr., að semja um að félagið beri ekki ábyrgð á óvinnufærni sem kemur til innan tveggja ára frá því að ábyrgð félagsins hófst og rakin verður til sjúkdóms eða meins sem þátttakandinn hafði á því tímamarki og ætla má að hann hafi vitað um. Hið sama á við um ábyrgð sem tengist meðvátryggðum er ekki hefur afhent heilsufarsyfirlýsingu. Ákvæði 1. málsl. skal einnig beita um sérstakar greiðslur sem falla til eftirlifandi vegna andláts þátttakandans, en þó með þeim hætti að ekki má semja um að félagið sé laust undan ábyrgð lengur en eitt ár frá upphafi ábyrgðarinnar.

136. gr.
Réttur til vátryggingarfjárhæðar sem fellur til við andlát þátttakanda.

    Í hópvátryggingu, sem ekki hefur framfærslu að markmiði, má semja um að vátryggingartaki öðlist rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar.
    Sé tekin hópvátrygging til þess að tryggja líf starfsmanna mega vinnuveitandi og starfsmaður eða stéttarfélag hans semja um hvaða ákvæði um rétt til vátryggingarfjárhæðar við andlát þátttakandans skuli taka inn í vátryggingarsamninginn. Hið sama á við þegar félag eða samtök hafa tekið hóplíftryggingu fyrir félagsmenn sína.
    Sé ekki samið um það sem greinir í 1. og 2. mgr. og þátttakandi í hópi hefur ekki tilnefnt rétthafa, sbr. 137. gr., gilda reglur 2.–4. mgr. 100. gr. með sama hætti um erfingja hans.

137. gr.
Tilnefning rétthafa.

    Í hópvátryggingu þar sem þátttakendurnir tilkynna sig sjálfir til félagsins með ósk um vátryggingu getur hver þeirra um sig tilnefnt rétthafa.
    Hið sama á við í öðrum hópvátryggingum ef ekki er annað ákveðið í vátryggingarsamningi.
    Við beitingu reglna 101.–105. gr. skulu ákvæði sem beinast að vátryggingartaka gilda með sama hætti um þátttakendur í hópvátryggingu.

138. gr.
Framsal og veðsetning.

    Nú er krafa þátttakanda á hendur félaginu ekki fallin í gjalddaga og getur hann þá ekki framselt rétt sinn. Rétt samkvæmt hóplíftryggingu (höfuðstólstryggingu) má veðsetja, enda sé ekki annað ákveðið í samningnum.

139. gr.
Riftun iðgjaldagreiðslu .

    Við beitingu reglna 1. mgr. 111. gr. skal greiðsla iðgjalds fyrir lífeyristryggingu ekki teljast ósanngjörn að því marki sem hún kom eða gat komið til lækkunar við útreikning á tekjuskattsstofni vátryggingartaka.

140. gr.
Skráning vátryggingar.

    Við hópvátryggingu er félaginu ekki skylt að skrá þá sem eru þátttakendur í hópnum í líftryggingarskrá nema um það sé samið.
    Nú sýnir maður fram á þátttöku í hópi sem nýtur hópvátryggingar þar sem þátttakendur eru ekki skráðir og getur hann þá krafist endurrits úr skránni.
    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð ákveðið að ákvæðum 113.–115. gr. skuli beitt um skrá yfir þátttakendur hópvátryggingar sem haldin er af vátryggingartakanum.

III. HLUTI
Almenn ákvæði.
XX. KAFLI
Ágreiningur o.fl.
141. gr.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

    Nú er í lögum þessum tekið fram að skjóta megi ágreiningi til úrskurðarnefndar og er með því átt við úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem starfar samkvæmt samningi milli viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga, svo og samþykktum fyrir hana. Formaður nefndarinnar skal fullnægja skilyrðum til þess að vera dómari skv. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998.
    Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skal kveða upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Viðskiptaráðherra skal annast birtingu samþykkta fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í B-deild Stjórnartíðinda.
    Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skal vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.

142. gr.
Útreikningur frests.

    Við útreikning á fresti, sem talinn er í dögum, skal ekki telja með þann dag er fresturinn byrjar að líða. Þó skal telja með þann dag sem ráðstöfun er fresturinn varðar fyrst verður gerð eða má síðast vera gerð.
    Frestur, sem reiknaður er í vikum, mánuðum eða árum, rennur út á þeim degi í síðustu viku, mánuði eða ári sem eftir nafni sínu eða tölu svarar til þess dags sem hann byrjaði að líða. Ef sá dagur er ekki í þeim mánuði sem um ræðir skal fresturinn renna út á síðasta degi mánaðarins.
    Ef frestur til aðgerða rennur út á laugardegi, helgidegi eða degi þegar samkvæmt lögum er frídagur framlengist hann til næsta virka dags þar á eftir.

XXI. KAFLI
Val á löggjöf.
143. gr.
Almenn ákvæði um val á löggjöf um vátryggingarsamninga.

    Þegar lög þessi eða lög um vátryggingastarfsemi kveða á um að löggjöf ríkis skuli beitt er átt við að réttarreglur þess ríkis gildi, að frátöldum reglum um val á löggjöf um vátryggingarsamninga.
    Ef ríki er meira en ein svæðisbundin eining, sem hver um sig hefur eigin réttarreglur um skuldbindingar samkvæmt samningum, skal litið á hverja svæðisbundna einingu sem eitt ríki þegar ákveðið er hvaða löggjöf skuli beitt.
    Ófrávíkjanlegum réttarreglum, sem gilda hér á landi, skal beitt enda þótt löggjöf annars ríkis sé að öðru leyti lögð til grundvallar vátryggingarsamningnum.
    Þegar vátrygging er lögboðin gilda um vátryggingarsamninginn ófrávíkjanlegar réttarreglur þess ríkis sem leggur á vátryggingarskylduna.
    Ólögfestum alþjóðlegum reglum um val á löggjöf, er eiga við um skuldbindingar samkvæmt samningum, skal því aðeins beitt að þær stríði ekki gegn ákvæðum þessara laga.

144. gr.
Val á löggjöf í líftryggingum.

    Lög þess ríkis þar sem skuldbindingin komst á gilda um vátryggingarsamning um líftryggingu. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingartaki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Þegar vátryggingartaki líftryggingar er einstaklingur og ekki ríkisborgari þess ríkis þar sem hann hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið lög þess ríkis þar sem ríkisborgararétturinn er.
    Þegar vátryggingartaki líftryggingar er lögaðili og skuldbindingin komst á hér á landi en hinn líftryggði hefur að jafnaði aðsetur í öðru ríki eða er ríkisborgari þess ríkis geta aðilar einnig valið löggjöf þess ríkis.
    Þegar skuldbindingin komst á annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en 1. og 2. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.

145. gr.
Val á löggjöf í öðrum vátryggingum.

    Í öðrum frumtryggingum en líftryggingum gildir um vátryggingarsamninginn löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaráhættan er þegar það er einnig ríkið þar sem vátryggingartakinn hefur að jafnaði aðsetur. Vátryggingafélag eða sá sem gerir samninginn fyrir þess hönd og vátryggingartaki geta þó samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélagsins gildi um skuldbindinguna, enda heimili löggjöf þess ríkis slíka samninga, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Þegar vátryggingaráhættan er annars staðar en þar sem vátryggingartaki hefur að jafnaði aðsetur geta aðilar valið hvort heldur er um vátryggingarsamninginn, löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingaráhættan er eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingartakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingartaki hefur með höndum atvinnustarfsemi og vátryggingaráhættan vegna hennar er í fleiri en einu ríki og vátryggingarsamningurinn nær til fleiri en einnar tegundar áhættu geta aðilar valið um löggjöf þessara ríkja eða löggjöf þess ríkis þar sem vátryggingartakinn hefur aðsetur að jafnaði.
    Þegar vátryggingaráhættan er annars staðar en á Íslandi og lög þess ríkis leyfa víðtækari samningsrétt en skv. 2. og 3. mgr. geta aðilar valið löggjöf að svo miklu leyti sem löggjöf þess ríkis leyfir.
    Þegar áhættan, sem samningurinn tekur til, takmarkast við tjónsatburði sem verða í öðru ríki en því þar sem vátryggingaráhættan er geta aðilar ávallt valið löggjöf þess ríkis þar sem tjónsatburðirnir verða.
    Þegar áhætta í vátryggingum er stóráhætta, sbr. 8. gr. laga um vátryggingastarfsemi, geta aðilar ávallt valið þá löggjöf sem beita skal um vátryggingarsamninginn, sbr. þó 3. og 4. mgr. 143. gr.
    Hafi aðilar samnings um aðra vátryggingu en líftryggingu ekki samið um val á löggjöf svo að gilt sé og val á löggjöf leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda réttarreglur þess ríkis sem best telst eiga við um samninginn samkvæmt þessari grein. Þegar ekkert annað er tekið fram skal lagt til grundvallar að ríkið þar sem vátryggingaráhættan er eigi best eigi við um samninginn.
    Þegar valið hefur verið skv. 7. mgr. en annað ríki meðal þeirra sem til greina geta komið telst eiga betur við um hluta samningsins má velja löggjöf þess ríkis um þann hluta samningsins þegar sérstakar ástæður mæla með því.

IV. HLUTI
XXII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
146. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005. Þau skulu gilda um alla nýja vátryggingarsamninga sem gerðir eru frá og með þeim degi, alla vátryggingarsamninga, sem eru endurnýjaðir eða framlengdir frá og með þeim degi svo og um alla aðra vátryggingarsamninga, sem eru í gildi á þeim degi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.

147. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Eftirtaldar greinar og málsgreinar í lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, falla úr gildi er lög þessi öðlast gildi: 56. gr., 1. og 2. mgr. 57. gr., 2. og 3. mgr. 58. gr. og 59.–63. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Aðdragandi að samningu frumvarps til nýrra laga um vátryggingarsamninga. Meginefni frumvarpsins.
    Viðskiptaráðherra skipaði 5. mars 1999 nefnd sem skyldi semja ný lög um vátryggingarsamninga er leystu af hólmi lög nr. 20/1954 um það efni. Í nefndina voru skipaðir Viðar Már Matthíasson prófessor, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga (SÍT), Rúnar Guðmundsson, yfirlögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Birgir Már Ragnarsson deildarsérfræðingur, sem jafnframt skyldi vera ritari og starfsmaður nefndarinnar.
    Birgir Már hætti svo störfum í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og tók Þóra Margrét Hjaltested deildarsérfræðingur við starfi hans sem ritari nefndarinnar í október 1999. Vegna leyfis hennar frá störfum tók Hrafnkell Óskarsson deildarsérfræðingur sæti í nefndinni 1. júlí 2001, en Þóra Margrét sat einnig fundi í nefndinni frá byrjun maí 2002 og þar til nefndin lauk störfum.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a.:
    ,,Þess er vænst að nefndin hagi störfum sínum þannig að unnt verði að leggja fram frumvarp til laga um vátryggingarsamninga á haustþingi árið 2000. Nefndin getur kallað eftir áliti eða umsögnum þeirra aðila er hún telur að kunni að hafa eitthvað það fram að færa er nýst getur í nefndarstarfinu.“
    Á fyrsta fundi nefndarinnar, 6. apríl 1999, var tekin ákvörðun um að senda tilkynningu um skipan nefndarinnar til þeirra sem helst voru taldir hafa hagsmuna að gæta og/eða kynnu að hafa hugmyndir eða tillögur um skipan nýrra laga um vátryggingarsamninga. Var þeim gefinn kostur á að koma með ábendingar og tillögur áður en nefndin tæki að fullu til starfa. Þeir sem fengu slíka tilkynningu voru: Alþýðusamband Íslands, Árni Gunnar Vigfússon vátryggingamiðlari, Arkitektafélag Íslands, Bandalag háskólamanna (BHM), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Félag fasteignasala, Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), Félag löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitið, Halldór Sigurðsson vátryggingamiðlari, Húseigendafélagið, Kaupmannasamtök Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Læknafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Neytendasamtökin, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra tryggingafélaga (SÍT), Samband íslenskra viðskiptabanka, Samband veitinga- og gistihúsa, Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök iðnaðarins, Samtök lífeyrissjóða, Samtök verðbréfafyrirtækja, Samtök verslunarinnar, Tæknifræðingafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, Verslunarráð Íslands, Vinnumálasambandið (Samtök atvinnulífsins) og Vinnuveitendasambandið (Samtök atvinnulífsins).
    Svör bárust frá Fjármálaeftirliti, LÍÚ og SÍT. Efnislegar ábendingar komu fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins, en þar var m.a. bent á að rétt væri að flytja að meginstefnu til ákvæði VI. kafla laga um vátryggingastarfsemi í hin nýju lög, en þau ákvæði lúta að upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og val á löggjöf um vátryggingarsamninga. Einnig var bent á nauðsyn þess að sett yrðu ákvæði um hópvátryggingarsamninga, fyllri ákvæði um uppgjör tjóna, ákvæði um heimildir til að skuldajafna vangoldnum iðgjöldum við vátryggingarbætur og fyllri ákvæði um samninga um líftryggingar. Þá var bent á að mikilvægt væri að hugleiða fyrirkomulag gildandi laga um iðgjaldið og hvort ástæða væri til breytinga á því. Í bréfum Fjármálaeftirlitsins og SÍT var bent á að þessir aðilar ættu fulltrúa í nefndinni og mundu þeir koma sjónarmiðum sínum að á vettvangi nefndarinnar.
    Nefndin komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að tveir meginvalkostir væru fyrir hendi við samningu frumvarps til nýrra laga um vátryggingarsamninga. Annars vegar væri endurskoðun gildandi laga um það efni, nr. 20/1954, sem fæli í sér breytingu á einstökum ákvæðum þeirra, eftir því sem talið væri nauðsynlegt, en heildarskipan þeirra að öðru leyti yrði látin óbreytt. Hins vegar væri samantekt frumvarps með nýrri uppbyggingu og öðrum áherslum með ný norsk lög um vátryggingarsamninga sem fyrirmynd. Um vorið og fyrri hluta sumars árið 2000 voru settar fram tvær grófar hugmyndir að frumvarpsgreinum þar sem farnar voru þær tvær leiðir sem getið hefur verið um. Voru iðnaðar- og viðskiptaráðherra sendar þessar hugmyndir með bréfi sem dagsett var 22. júní 2000. Af hálfu nefndarinnar var talið eðlilegt að viðskiptaráðherra tæki ákvörðun um hvor leiðin skyldi farin áður en frekari vinna yrði lögð í málið. Var það m.a. rökstutt svo að það væri pólitísk ákvörðun hvor leiðin yrði farin, einkum í ljósi þess að sú útfærsla sem sækti fyrirmynd til norsku laganna um vátryggingarsamninga byggðist mjög á neytendaverndarsjónarmiðum og hugmyndum um að nauðsynlegt væri að tryggja þeim lágmarksvernd í lögum, en hin miðaði fremur við frelsi til þess að semja um efni vátryggingarsamninga nema annað væri tekið fram.
    Af hálfu viðskiptaráðuneytis var nefndinni ritað bréf, dags. 7. maí 2001, eftir að starfsmenn ráðuneytisins höfðu átt fund með formanni nefndarinnar. Í því bréfi segir m.a.:
    ,,Það er ósk ráðuneytisins að starfi nefndarinnar verði hraðað þannig að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi nk. Vilji ráðuneytisins er að nefndin hafi til hliðsjónar í starfi sínu gildandi norsk lög um sama efni sem byggja mjög á neytendasjónarmiðum, þó þannig að tekið sé tillit til séríslenskra aðstæðna.“
    Nefndin vann að verkefninu á þessum nótum og skilaði af sér frumvarpi til nýrra laga um vátryggingarsamninga með bréfi til viðskiptaráðherra, dags. 17. júlí 2002.
    Þar sem ætla mátti að efni frumvarpsins kynni að vekja áhuga almennings og hagsmunaaðila ákvað ráðherra að setja það á heimasíðu ráðuneytisins til kynningar. Jafnframt var hagsmunaaðilum ritað bréf, athygli þeirra vakin á frumvarpinu og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir. Eftirtaldir aðilar fengu bréf af þessu tilefni: Alþýðusamband Íslands, Arkitektafélag Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtök Íslands, Dómarafélag Íslands, stéttarfélagið Efling, embætti landlæknis, Félag fasteignasala, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Félag löggiltra endurskoðenda, Félag vátryggingamiðlara, Fjármálaeftirlitið, Háskóli Íslands (lagadeild, viðskipta- og hagfræðideild), Háskólinn í Reykjavík (lagadeild), Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Húseigendafélagið, Kaupmannasamtök Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Læknafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Neytendasamtökin, Persónuvernd, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra tryggingafélaga, Samband veitinga- og gistihúsa, Samkeppnisstofnun, Samtök atvinnulífsins, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök iðnaðarins, Samtök lífeyrissjóða, Samtök verslunarinnar, Samtök verslunar og þjónustu, Tæknifræðingafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Verslunarráð Íslands, Vinnumálasambandið, Vinnuveitendasambandið.
    Eftirtaldir aðilar sendu ráðuneytinu athugasemdir: Félag löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitið, Halldór Bjarnason, Læknafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Neytendasamtökin, Persónuvernd, Samband íslenskra tryggingafélaga, Samlíf, Samtök atvinnulífsins, Sjóvá – Almennar tryggingar hf., Samtök verslunarinnar, Tryggingamiðstöðin hf., Vátryggingafélag Íslands hf.
    Farið var yfir innsendar athugasemdir í viðskiptaráðuneytinu og ýmsar breytingar gerðar á texta frumvarpsins. Frumvarpið var síðan búið í endanlega mynd af hálfu ráðuneytisins. Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram óbreytt.
    Frumvarpið er í fjórum hlutum. Í fyrsta hluta þess eru reglur um skaðatryggingar, en það eru þær vátryggingar sem einkum er ætlað að bæta raunverulegt fjárhagslegt tjón hins vátryggða í samræmi við þá grundvallarreglu í skaðatryggingum að enginn eigi að geta hagnast á vátryggingunni. Til skaðatrygginga teljast m.a. eignatryggingar, rekstrarstöðvunartryggingar og ábyrgðartryggingar. Skaðatryggingar eru venjulega skilgreindar neikvætt, þ.e. sem þær vátryggingar sem ekki teljast til persónutrygginga. Í öðrum hluta frumvarpsins eru reglur um persónutryggingar, en það eru vátryggingar sem vernda eiga hagsmuni sem felast í lífi manna eða heilsu. Til persónutrygginga teljast líftryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Í þriðja hluta frumvarpsins eru nokkrar almennar reglur og í fjórða hluta eru gildistökuákvæði og ákvæði um breytingar á öðrum lögum.
    Megineinkenni frumvarpsins er að það hefur að geyma reglur um almenn atriði sem varða skaðatryggingar og persónutryggingar. Í því eru ekki tillögur um reglur er varða einstakar tegundir skaðatrygginga nema að því marki sem nauðsynlegt þykir að mæla fyrir um réttarstöðuna í ábyrgðartryggingum og hópvátryggingum á þessu sviði, svo og einstök sérákvæði. Ekki eru gerðar tillögur um sérstakan kafla um sjóvátryggingar og aðrar flutningavátryggingar, sbr. 59.–78. gr. gildandi laga, brunatryggingar, sbr. 79.–88. gr. gildandi laga, eða búfjártryggingar, sbr. 89.–90. gr. þeirra. Reglur frumvarpsins gilda um þessar tegundir skaðatrygginga eins og aðrar og mæla þannig fyrir um lágmarksvernd vátryggingartaka við gerð og framkvæmd vátryggingarsamninga á þessum sviðum. Í einstökum tilvikum hefur þó verið talið nauðsynlegt að hafa sérreglur um tilteknar tegundir vátrygginga, sbr. t.d. 2. mgr. 40. gr. frumvarpsins þar sem er að finna sérreglu um búfjártryggingar.
    Uppbygging frumvarpsins er í meginatriðum eins og uppbygging norsku laganna um vátryggingarsamninga, nr. 69 frá 16. júní 1989, en þau tóku gildi 1. júlí 1990. Efnisskipan einstakra greina er einnig með svipuðum hætti, en um nokkur sérstök atriði er reglum þó skipað með öðrum hætti eða lagt til að lögfestar verði reglur sem ekki er að finna í norsku lögunum.

2. Stutt yfirlit um þróun íslensks vátryggingaréttar.
2.1 Inngangur.
    
Þótt flestum sé ljóst hvað felst í vátryggingum hafa menn ekki sammælst um eina skilgreiningu á þessu fyrirbæri. Kjarni vátrygginga er sá að vátryggingartakinn fær, gegn greiðslu iðgjaldsins, loforð um að vátryggjandinn greiði honum eða þriðja manni bætur ef tiltekin áhætta verður virk. Í þessu sambandi er það undirskilið að vátryggjandinn taki að sér fleiri áhættur og jafni þeim niður eftir lögmálum tölfræðinnar. Að því leyti sem vátryggingastarfsemi snýr að inntaki einstakra vátrygginga og ákvörðun iðgjalds byggist hún fyrst og fremst á lögmálum hinna stóru talna í þeim skilningi að áhættumatið byggist á reynslu, sem safnað hefur verið í tímans rás, af tjónatíðni í stóru safni sambærilegra vátryggingarsamninga.
    Löggjöf um vátryggingar og vátryggingastarfsemi er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar eru reglur um vátryggingarsamninga, þ.e. um réttarsambandið milli vátryggingartaka/vátryggðs og vátryggjandans/félagsins. Hins vegar eru reglur, opinbers réttar eðlis, um vátryggingafélög, stofnun þeirra og skilyrði fyrir því að þau hafi starfsleyfi og um eftirlitskerfi með þeirri starfsemi. Löggjöf um síðarnefnda þáttinn hefur nýlega verið endurskoðuð og breytt í ýmsum atriðum í takt við kröfur nýrra tíma. Nú gilda lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, og lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, um þennan þátt.
    Eitt megineinkenni vátrygginga er að þeirri áhættu sem einstaklingur eða lögaðili býr við er dreift milli fleiri aðila sem allir búa við sömu eða sams konar áhættu. Þörf fyrir að takmarka eða útiloka hættu á fjárhagslegu tjóni að því marki sem unnt er að fullnægja með vátryggingum hefur lengi verið fyrir hendi en hefur aukist með viðgangi umfangsmikils atvinnurekstrar, tæknivæðingar og hvers konar tækjavæðingar í atvinnurekstri og í lífi einstaklinga. Aukin hagsæld og eignasöfnun eykur einnig þörf fyrir þá fjárhagslegu vernd sem vátryggingar geta veitt.
    Ýmis afbrigði af vernd gegn áhættu, sem svipar til nútímavátrygginga, hafa lengi verið við lýði. Menn hafa á ýmsan hátt reynt að dreifa áhættu bæði af völdum náttúruafla og einnig af völdum manna. Dæmi um dreifingu áhættu af völdum náttúruafla eru svonefnd sjóveðlán sem tíðkuðust á dögum Hammúrabís Babýloníukonungs og síðar annars konar sjóveðlán sem Fönikíumenn notuðu og aðrir tóku síðar eftir þeim, t.d. Grikkir. Rómverjar notuðu einnig sjóveðlán. Sjóveðlán fólust almennt í því að eigandi skips fékk lán gegn mjög háum vöxtum, þó eftir áhættu, og setti að veði skip sitt og farm. Ef skipið fórst kom ekki til greiðslu lánsins, þ.e. skipseigandinn ábyrgðist lánið ekki persónulega eða með öðrum eignum sínum. Þannig gat skipseigandi fjármagnað siglingar sínar með vörur og fólst áhætta hans í því að skipið færist ekki eða lenti í sjótjóni. Sá sem veitti lánið fékk háa vexti en fékk ekki fullnustu á láninu ef skipið fórst. Var því áhætta hans mikil, einkum þegar siglt var um langan veg. Sjóveðlán eru ekki vátryggingar í nútímaskilningi.
    Gagnkvæmar tryggingar tóku að tíðkast með ýmsu móti á Norðurlöndum tiltölulega snemma. Talið hefur verið að reglur 51. kafla fjárleiguþáttar Grágásar (Staðarhólsbókar) um húsbruna séu eitt af fyrstu dæmunum um vátryggingar á Norðurlöndum. Þær fólu í sér gagnkvæma skyldutryggingu íbúa í sama hreppi gegn eldsvoða í tilteknum húseignum. Bæta skyldi helming af því verðmæti sem eyðilagðist, hinn helming mátti eigandi sjálfur bera og allt ef oftar brann en þrisvar hjá honum. Reglurnar eru af sumum fræðimönnum taldar geta átt rót sína að rekja til Skánsku laga, en þær munu vera elstu norrænu reglurnar sem skráðar eru um þetta efni. Svipaðar reglur um gagnkvæmar tryggingar eru í 50. kafla fjárleiguþáttar Grágásar (Staðarhólsbókar). Þar er mælt svo fyrir að ef fallsótt kæmi í fé manns, svo að félli fjórðungur nautfjár hans eða meira, skyldu hreppsmenn bæta honum hálfan skaðann eftir tilteknum reglum. Hreppurinn var því sjálfstæð eining að þessu leyti, þ.e. hin gagnkvæma trygging var bundin við bændur í sama hreppi. Þetta var eitt af þeim hlutverkum sem hrepparnir höfðu eftir stofnun þeirra á þjóðveldisöld. Ekki voru reglur um gagnkvæmar tryggingar í Jónsbók, sem lögtekin var 1281, og virðast þær hafa lagst niður er þjóðveldið leið undir lok.
    Hér skal einnig getið um reglur Grágásar um sameiginlegt sjótjón (d. groshavari, fælleshavari). Það fyrirbæri felur einnig í sér dreifingu áhættu. Sameiginlegt sjótjón er ekki tjón sem verður fyrir tilviljun, heldur tjón sem verður við það að verðmæti eru lögð í sölurnar eða lagt er í sérstakan kostnað af ráðnum hug í þágu sameiginlegs öryggis og í því skyni að forða eignum frá sameiginlegri hættu á sjó. Reglurnar um sameiginlegt sjótjón mæla fyrir um að tjóni eða kostnaði, sem verður við slíkar ráðstafanir, sé jafnað á eigendur þeirra hagsmuna sem í húfi voru, þ.e. á eigendur skipsins, eigendur farmgjaldsins og eigendur farmsins. Um sameiginlegt sjótjón var regla í 61. kafla festarþáttar Grágásar sem hljóðaði svo:
    ,,Ef menn eru svo staddir í hafi að meira hlut manna þykir ráð að kasta, þá skal því fyrst kasta er ofast er höfgavöru, en jafnt skal allra skaði verða það er kastað er, þótt fáir hafi átt. Alla aura skal jafnt skerða.“
    Reglur um sameiginlegt sjótjón fela ekki í sér vátryggingu í nútímaskilningi, en úrræðið er skylt vátryggingum að því leyti að áhættu er dreift milli þeirra sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Reglur um sameiginlegt sjótjón eru nú í VI. kafla siglingalaga, nr. 34/1985, en þar er m.a. vísað til York/Antwerpen-reglnanna frá 1974.
    Á miðöldum veittu gildin félagsmönnum sínum aðstoð í ríkum mæli ef þeir lentu í fjárhagslegum vandræðum, t.d. ef þeir urðu óvinnufærir vegna sjúkdóma, eða töpuðu eignum sínum vegna bruna, þjófnaðar eða sjótjóns.
    Eiginlegar vátryggingar í þeirri merkingu sem við leggjum í orðið nú eru ekki taldar hafa komið til sögunnar fyrr en á 14. öld. Talið er að fyrstu lögin um vátryggingaviðskipti hafi verið gefin út í Genúa á Ítalíu árið 1369, en þau munu fyrst og fremst hafa verið sett til þess að varna því að vátryggingar væru misnotaðar. Fyrstu vátryggingarnar gegn iðgjaldi voru sjóvátryggingar og breiddust þær fljótt út. Talið hefur verið að þær hafi sótt fyrirmynd í þá tegund sjóveðlána sem tíðkuðust meðal Rómverja (lat. foenus nauticus) þótt það væru ekki vátryggingar í nútímaskilningi eins og áður greinir. Aðrar tegundir vátrygginga breiddust síðar út, oft af sérstökum tilefnum. Bruninn mikli í Kaupmannahöfn í október 1728, þegar um 1.450 hús brunnu, 2/ 5hlutar borgarinnar, varð t.d. hvatinn að stofnun fyrsta danska brunatryggingafélagsins, ,,Københavns Brandforsikrings Societet for Huse og Gader“. Fyrstu líftryggingafélögin í Danmörku voru stofnuð um miðja 19. öld og höfðu þá ákveðin afbrigði slíkra trygginga, ,,tontiner“, þróast um tveggja alda skeið. Ábyrgðartryggingar komu síðar til. Þær tóku að breiðast út í Þýskalandi í lok 19. aldar, en nokkru áður hafði verið komið þar á lagareglum sem leiddu til mjög strangrar ábyrgðar fyrir þá sem ráku járnbrautir, járn- og steinvinnslu og verksmiðjur. Í Danmörku byrjuðu vátryggingafélög að bjóða ábyrgðartryggingar skömmu fyrir fyrri heimstyrjöld og í framhaldi af því var gert að skyldu að taka ábyrgðartryggingar á sumum sviðum, t.d. varð ábyrgðartrygging ökutækja lögbundin árið 1918.
    Hér á landi fara litlar sögur af vátryggingum fyrr en á síðari hluta 19. aldar, enda atvinnulíf fábrotið og verðmætasköpun afar takmörkuð fyrr en þá, er tekið var að nota stærri skip við fiskveiðar. Nokkur átök urðu um brunatryggingu húseigna í landinu á síðustu áratugum nítjándu aldar og upphafsárum þeirrar tuttugustu.
    Hinn 14. febrúar 1874 var samþykkt sem tilskipun frumvarp sem verið hafði til meðferðar á þingi um nokkurt skeið. Tilskipunin, um ábyrgð fyrir eldsvoða í Reykjavíkurkaupstað o.fl., og reglugerð sett samkvæmt henni, nr. 30/1874, um ábyrgð Reykjavíkurkaupstaðar fyrir eldsvoða á húsum bæjarins, mæltu fyrir um að öll timburhús og múrhús í Reykjavík skyldu vera brunatryggð samkvæmt mati. Skyldi þriðjungur áhættunnar vera á ábyrgð Reykjavíkurkaupstaðar, en tveir þriðju voru vátryggðir hjá ,,brunabótafélagi hinna dönsku kaupstaða“. Eigendum torfbæja í Reykjavík var ekki skylt að tryggja þá, en til þess var þó heimild ef eigandinn óskaði. Fyrir fyrsta Alþingi sem fór með löggjafarvald var lagt frumvarp til laga um brunamál í Reykjavík, en það hafði að geyma ýmis fyrirmæli um varúðarráðstafanir gegn eldsvoðum og brunamál. Með tilskipuninni komst á brunatrygging húseigna í Reykjavík, en ekki annars staðar á landinu. Margir urðu til að fjalla um nauðsyn þess að húseignir utan Reykjavíkur yrðu brunatryggðar. Var margsinnis á næstu árum hvatt til þess á opinberum vettvangi að menn í þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni skyldu bindast samtökum um að koma á skyldubundinni brunatryggingu húseigna, helst með Reykvíkingum. Ekki varð mönnum ágengt í þessari baráttu og virðist ein meginástæðan hafa verið sú að Reykvíkingar höfðu ekki áhuga á málinu, enda búið að ráða fram úr brunatryggingamálum að því er þá varðaði. Margir undu þeirri úrlausn þó illa, enda varð barátta fyrir brunatryggingum utan Reykjavíkur þáttur í hvatningu um að losna undan dönskum áhrifum og þannig hluti af baráttunni fyrir sjálfstæði landsmanna. Var það gagnrýnt að Reykvíkingar skyldu greiða háar fjárhæðir í iðgjöld til dansks brunatryggingafélags í stað þess að taka höndum saman við aðra þéttbýlisstaði á landinu og stofna innlendan ábyrgðarsjóð til að bæta brunatjón. Fyrsta frumvarp til laga um brunatryggingar í íslenskum kaupstöðum var flutt af Indriða Einarssyni á Alþingi árið 1891. Indriði var þingmaður Vestmannaeyinga, en þar hafði verið stofnað skipaábyrgðarfélag þegar árið 1862. Var það lengi elsta vátryggingafélag landsins en hætti formlega starfsemi 1. janúar 1995 er vátryggingastofnar þess voru yfirteknir af öðru starfandi vátryggingafélagi. Megininntak frumvarps Indriða Einarssonar var að skylda alla kaupstaði landsins (einnig Reykjavík) og verslunarstaði, þar sem samanlagt virðingarverð húseigna náði tiltekinni fjárhæð, til þess að mynda sameiginlegt brunabótafélag og átti eigendum húseigna að vera skylt að brunatryggja þær hjá félaginu. Skyldi landssjóður veita félaginu gagnábyrgð að tilgreindri fjárhæð. Frumvarpið hlaut góðar undirtektir í neðri deild Alþingis og var samþykkt þar eftir að hafa farið til meðferðar í nefnd sem gerði á því ýmsar breytingar. Frumvarpið var á hinn bóginn fellt í efri deild án þess að hafa verið til meðferðar í nefnd og án mikillar umræðu. Bentu þingmenn efri deildar einkum á að ekki væri rétt að þvinga Reykvíkinga til þátttöku í slíku félagi þar eð þeir nytu góðra kjara á sínum brunatryggingum, auk þess sem byrðar þær er landssjóður skyldi bera samkvæmt frumvarpinu uxu mörgum í augum. Landshöfðingi hafði frá upphafi lagst mjög gegn frumvarpinu. Nauðsyn brunatrygginga var til umfjöllunar á opinberum vettvangi, þar á meðal á Alþingi, annað slagið á næstu árum án þess að ráðið yrði fram úr vandanum sem fólst í því að aðrir kaupstaðir og verslunarstaðir en Reykjavík virtust ekki í stakk búnir til að stofna til félagsskapar um brunatryggingar húseigna. Á Alþingi voru lögð fram lagafrumvörp sem ekki náðu fram að ganga eða leiddu ekki til breytinga á ástandinu. Er dró að aldamótum urðu húsbrunar einnig tíðari og alvarlegri en áður og átti það rót sína að rekja til notkunar á nýjum eldunartækjum, án þess að gætt væri að því að hitaeinangra svonefndar reykpípur frá þeim.
    Greiðlegar gekk að koma í gegn á Alþingi lögum um vátryggingu fyrir sveitabæi og önnur hús utan kauptúna. Lög um það efni voru samþykkt á Alþingi árið 1905, sem lög nr. 26/1905. Var í þeim mælt fyrir um heimild sveitarfélaga til þess að stofna með skylduábyrgð brunabótasjóði fyrir bæi og hús í hreppum utan kauptúna. Skyldu brunabótasjóðirnir bæta 2/ 3 hluta brunatjóns á húsum vátryggðum í þeim eftir nánari reglum. Árið 1906 voru settar tvær reglugerðir með heimild í lögunum sem lutu að framkvæmd þeirra. Ekki gekk þó sem skyldi að koma á þeirri vátryggingu sem heimiluð var með lögunum. Með lögum nr. 58/1907, um stofnun brunabótafjelags Íslands, var ákveðið að landsstjórnin skyldi gangast fyrir því að sett yrði á stofn brunabótafélag með gagnkvæmri ábyrgð, sem tæki að sér brunatryggingar á húseignum á Íslandi, utan Reykjavíkur, sem ekki væru tryggingarskyldar í brunabótasjóði sem stofnaður væri eftir lögum nr. 26/1905 sem áður er getið. Með þessu var málinu þó ekki lokið. Tafir urðu á framkvæmdum, m.a. vegna þess að ekki tókst að afla endurtrygginga. Eftir breytingar á lögunum, sem gerðar voru árið 1915, var þó ráðist í stofnun Brunabótafélags Íslands árið 1917.
    Saga sjóvátrygginga hér á landi hefst líka um og eftir miðja 19. öld, en þó var eitthvað um að þilskip sem gerð voru út hér á landi væru vátryggð í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi eða öðrum löndum fyrir miðbik 19. aldar. Árið 1854 stofnuðu Ísfirðingar fyrsta íslenska vátryggingafélagið um 15 þilskip sem þá voru í eigu þeirra. Ábyrgðin var gagnkvæm, en á vátryggingunni voru ýmsar takmarkanir, t.d. gilti hún eingöngu á sumrin og aðeins var bætt algert tjón og þá 50% af matsverði skips. Árið 1862 var stofnað bátaábyrgðarfélag í Vestmannaeyjum, eins og fyrr greinir, og 1868 var stofnað Hið eyfirska ábyrgðarfélag sem vátryggja skyldi skip á svæðinu. Á fyrsta ári voru 17 skip í því félagi, en 54 á hinu næsta. Vátryggingin var einnig ýmsum takmörkunum háð, gilti t.d. aðeins á sumrin og tók einungis til hluta af matsverði skips, eftir því í hvaða flokk því var raðað. Fleiri slík félög voru stofnuð á 19. öld, en fá þeirra áttu sér langa lífdaga. Það var fyrst með tilkomu vélbátaútgerðar hér á landi um aldamótin 1900 sem bátaábyrgðarfélögin voru stofnuð hvert af öðru, fyrst Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga 1903. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum var stofnuð 1909. Togaraútgerð hófst hér um og eftir fyrri heimsstyrjöld og var Samtrygging íslenskra botnvörpunga stofnuð árið 1923.
    Sérstaklega ber hér að geta merkilegs framtaks kvenna á sviði vátrygginga, en árið 1885 voru stofnuð fyrstu samtökin til vátryggingar nautpenings, a.m.k. frá þjóðveldisöld, en þetta var Kýrábyrgðarfélag Keldhverfinga. Stofnendur félagsins voru konur og konur munu alla tíð hafa staðið að því félagi og stjórnað því, en ekkjumenn munu þó einnig hafa verið gjaldgengir félagsmenn og einhverjir slíkir verið í félaginu. Ekki var félaginu kosin stjórn fyrr en frá 1925, en fram til þess tíma var kjörin forstöðukona til eins árs í senn sem fór með alla stjórn félagsins. Iðgjaldið var fyrst í stað tvö pund af smjöri fyrir hverja kú félagsmanns, en árið 1906 var ákveðið að greitt skyldi iðgjald í peningum, 1,50 kr. fyrir hverja kú. Félagið bætti að hálfu það tjón sem eigandi varð fyrir er kýr drapst. Á starfstíma félagsins mun það hafa bætt um 60 kýr. Vegna búháttabreytinga og tæknivæðingar reyndist ekki grundvöllur fyrir starfsemi þess til frambúðar og mun það hafa hætt eiginlegri starfsemi fyrir lok áttunda áratugar síðustu aldar, en síðasta fundargerð þess mun vera frá árinu 1977. Félaginu hefur ekki verið slitið formlega.
    Fyrsta almenna vátryggingafélagið sem stofnað var á Íslandi var Sjóvátryggingafélag Íslands sem stofnað var 1918.
    Þess má einnig geta að ábyrgðartrygging bifreiða var fyrst lögboðin hér á landi á árinu 1926, þ.e. með lögum nr. 34/1926.

2.2 Aðdragandi að setningu laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga.
    
Lög um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954 (VSL), eru samin að norrænni fyrirmynd. Önnur Norðurlönd höfðu með sér samstarf um samningu laga um vátryggingarsamninga og voru lög, samin í því samstarfi, sett í Danmörku og Noregi árið 1930, en 1927 í Svíþjóð og 1933 í Finnlandi. Íslendingar tóku ekki þátt í þessu lagasamstarfi, en settu sér síðar lög sama efnis. Því verður ekki á móti mælt að þau lög um vátryggingarsamninga á Norðurlöndum sem síðast greinir voru mjög vel heppnuð lagasmíð. Einstaka fræðimenn taka svo djúpt í árinni að segja að þau séu frá lagatæknilegu sjónarmiði nálægt því að vera fullkomin. Einkenni VSL er að þau eru að meginstefnu til frávíkjanleg og standa þróun innan vátryggingargeirans því ekki fyrir þrifum. Einstök ákvæði laganna eru þó ófrávíkjanleg. Lögin eru ekki tæmandi og um mörg álitaefni er ekki fjallað í þeim. Þau eru almenn lög um vátryggingarsamninga, en við hlið þeirra hafa jafnan gilt sérlög um einstakar tegundir vátrygginga sem löggjafinn hefur talið sérstakt tilefni til að skipa í sérlögum, svo sem um brunatryggingar húseigna, ábyrgðartryggingar bifreiða o.fl.

2.3 Reynslan af VSL.
    
Telja má víst að menn séu almennt sammála um að VSL hafi reynst vel á Íslandi eins og sambærileg lög annars staðar á Norðurlöndum. Þótt mörg álitaefni hafi komið fram um túlkun á lögunum og nokkuð margir dómar gengið um skýringu á þeim felur það ekki í sér neinn áfellisdóm um lögin og jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að mikill fjöldi ágreiningsmála er leystur af nefnd sem starfað hefur á vegum vátryggingafélaganna og af úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem starfar á grundvelli samkomulags viðskiptaráðuneytis, Neytendasamtakanna og SÍT. Hafa verður í huga að útbreiðsla vátrygginga hefur verið mjög mikil, einkum á síðustu áratugum, og ýmsar tegundir vátrygginga komið fram sem ekki voru til þegar lögin voru sett. Má sem dæmi nefna hópvátryggingar, ábyrgðartryggingar, ekki síst starfsábyrgðartryggingar, og ýmsar aðrar tegundir vátrygginga sem nú eru mjög útbreiddar. Tekist hefur furðuvel að samræma þessar tryggingar ákvæðum laganna, en því verður ekki neitað að ýmis álitaefni hafa komið upp, einkum varðandi hópvátryggingar.

3. Endurskoðun laga um vátryggingarsamninga annars staðar á Norðurlöndum.
    
Í upphafi áttunda áratugarins var annars staðar á Norðurlöndum mikið rætt um að kominn væri tími til þess að endurskoða lögin um vátryggingarsamninga. Voru skipaðar nefndir í því skyni í Danmörku (1975), Finnlandi (1977), Noregi (1974) og í Svíþjóð (1974). Ætlunin var að koma á fót sambærilegu norrænu samstarfi og gefið hafði svo góðan ávöxt í kringum 1930. Ísland tók ekki þátt í þessu norræna samstarfi. Ástæður þess að talið var tímabært að endurskoða lögin um vátryggingarsamninga voru fyrst og fremst þær að mikill vöxtur hafði hlaupið í svonefndar hópvátryggingar sem engin ákvæði voru um í gildandi lögum svo sem fyrr greinir. Auk þess höfðu ýmsar nýjar tegundir vátrygginga komið til eftir gildistöku laganna, nauðsynlegt var talið að veita neytendum meiri vernd en þeim var veitt í gildandi lögum, ekki einasta veita þeim vernd gegn ósanngjörnum skilmálum í vátryggingarsamningum, heldur einnig veita þeim öruggan aðgang að upplýsingum og ráðgjöf um álitaefni tengd vátryggingum og setja ákvæði um einfalt og fljótvirkt uppgjör vátryggingabóta.
    Hugmyndin um norrænt lagasamstarf á þessu sviði gekk þó ekki eftir í þetta sinn. Lágu til þess ýmsar ástæður. Svíar höfðu þegar tekið ákvörðun um að láta vinnu við reglur um neytendavernd á sviði vátrygginga hafa forgang áður en hugað yrði sérstaklega að almennum reglum. Svíar settu sér sérstök lög um neytendavátryggingar (konsumentförsäkringslag, nr. 38/1980) sem tóku gildi 1. janúar 1981. Þeir hafa enn ekki sett sér ný almenn lög um vátryggingarsamninga. Danir tóku þátt í samstarfinu, en töldu þó hendur sínar bundnar af því að á sama tíma var uppi viðleitni til þess að samræma löggjöf landa Evrópusambandsins um vátryggingarsamninga. Danir sömdu því ekki sérstakt frumvarp til breytinga á gildandi lögum sínum um þetta efni. Danska nefndin var lögð niður árið 1983. Norðmenn töldu á hinn bóginn að rétt væri að endurskoða lögin í heild og að ekki væri brýn þörf á sérstökum lögum um neytendavátryggingar. Norska nefndin skilaði tveimur álitum, hinu fyrra á árinu 1983 um persónutryggingar (NOU 1983:56, Lov om avtaler om personforsikring) og hinu síðara á árinu 1987 (NOU 1987:24, Lov om aftaler om skadeforsikring). Þessi tvö nefndarálit voru fljótlega tekin til meðferðar af stjórnvöldum sem ákváðu að slá tillögum nefndarinnar saman í eitt lagafrumvarp. Var samið og lagt fram frumvarp 1988–89 og var það eftir greiða meðferð í Stórþinginu samþykkt 16. júní 1989 sem lög nr. 69/1989. Finnar settu sér ný lög um vátryggingarsamninga 28. júní 1994. Finnsku lögin um vátryggingarsamninga, ,,Lag om försäkringsavtal“, nr. 543/1994, taka til skaðatrygginga og persónutrygginga eins og norsku lögin. Skipan reglna í lögunum er þó með öðrum hætti en í norsku lögunum, þ.e. lögin eru ekki í tveimur meginhlutum þar sem settar eru fram reglur um hvorn flokk vátrygginga um sig, heldur eru finnsku lögin þannig fram sett að leitast er við að fjalla samtímis bæði um skaðatryggingar og persónutryggingar, en sérreglur hafðar um hvora tegund um sig þegar þörf er talin á.
    Í mars 1999 var á ný skipuð nefnd í Danmörku til þess að endurskoða lögin um vátryggingarsamninga. Nefndarskipunin var að frumkvæði Þjóðþingsins og var hlutverk hennar tvíþætt. Annars vegar skyldi hún endurskoða ákvæði um slysatryggingar og sjúkratryggingar, einkum með það að markmiði að vátryggingafélag yrði greiðsluskylt þótt sjúkdómseinkenna kynni að hafa orðið vart áður en vátrygging hefði verið tekin, ef endanleg sjúkdómsgreining ætti sér ekki stað fyrr en eftir að það hefði verið gert. Tilefni þessa var niðurstaða í dómi Hæstaréttar Danmerkur, sem birtur er í Ugeskrift for Retsvæsen (UfR) 1998, bls. 1380, þar sem greiðsluskyldu vátryggingafélags var hafnað þegar svo háttaði til sem áður greinir. Hins vegar skyldi nefndin yfirfara lögin um vátryggingarsamninga frá 1930 með tilliti til heildarendurskoðunar. Nefndin skilaði áliti um fyrra atriðið í janúar 2000 og var þegar gerð breyting á dönsku vátryggingarsamningalögunum að því leyti. Í nóvember 2002 skilaði nefndin af sér afar ítarlegri skýrslu um síðara atriðið, þ.e. endurskoðun laga um vátryggingarsamninga. Eru þar gerðar tillögur að breytingum á nokkrum ákvæðum laganna með það að markmiði að auka neytendavernd enn frekar. Nefndin leggur þó til að lögin verði óbreytt í flestum höfuðatriðum enn um sinn.

4. Þörf fyrir endurskoðun VSL.
    
Lög um vátryggingarsamninga hafa reynst vel á Íslandi, eins og lög á öðrum Norðurlöndum um sama efni, og þau hafa ekki staðið í vegi fyrir hinum mikla vexti og þeirri þróun sem orðið hefur í nær öllum tegundum vátrygginga. Lögin eru þó sniðin að öðrum veruleika en við blasir nú og þau hafa ekki að geyma reglur um mikilvæg atriði sem sérstök ástæða er til að setja almennar reglur um, t.d. um hópvátryggingar og um stöðu þriðja manns, er orðið hefur fyrir tjóni sem ábyrgðartryggður aðili ber skaðabótaábyrgð á, gagnvart vátryggjanda. Sömu röksemdir sem mæla með endurskoðun laganna, svo sem auknar kröfur um neytendavernd, eiga við hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndum. Þess ber einnig að geta að við endurskoðun laga nr. 50/1978, um vátryggingastarfsemi, sem lauk með setningu laga nr. 60/1994, um sama efni, voru kröfur til vátryggingafélaga auknar á mörgum sviðum. Flestar reglur þar að lútandi varða stofnun vátryggingafélaga og þær kröfur sem gerðar eru til þess að þau hafi starfsleyfi, svo og starfsemi þeirra, en í VI. kafla laganna eru þó ítarlegar reglur um upplýsingaskyldu félaganna við gerð vátryggingarsamninga. Þær reglur varða fremur réttarsamband vátryggingafélags og vátryggingartaka eða vátryggðs og ættu með réttu að vistast í lögum um vátryggingarsamninga. Mælir það einnig með endurskoðun VSL og er í frumvarpi þessu lagt til að flestar reglur VI. kafla laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, verði með nokkrum breytingum fluttar í VSL.

5. Tengsl við EES-samninginn og löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu.
    
Á vettvangi Evrópuréttar hafa verið settar ýmsar reglur um vátryggingar. Þessar reglur lúta fyrst og fremst að vátryggingafélögum og starfsemi þeirra, en síður að efni vátryggingarsamninga milli félaganna og vátryggingartaka eða hins vátryggða. Það er þó ekki einhlítt og hefur því m.a. verið slegið föstu af EB-dómstólnum í forúrskurði í svonefndu Ferreira-máli, C-348/98, sem kveðinn var upp 14. september 2000, að tilteknar reglur ökutækjatilskipananna þriggja (72/166/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE) sem allar varða ábyrgðartryggingar vegna vélknúinna ökutækja, hefðu að geyma lágmarksákvæði um efni vátryggingarverndar ábyrgðartrygginga ökutækja. Dómurinn taldi t.d. að það væri andstætt 3. gr. annarrar tilskipunarinnar að útiloka þriðja mann frá bótaábyrgð einungis vegna þess að hann væri í fjölskyldusambandi við vátryggingartaka eða ökumann, svo sem gert var að portúgölskum lögum. Dómstóllinn taldi einnig að það stæðist ekki reglur tilskipananna að lög aðildarríkis gætu ákvarðað lægri hámarksbætur en kveðið væri á um í 2. mgr. 1. gr. annarrar tilskipunarinnar þegar þannig háttaði til að bótaábyrgð væri reist á hlutlægri ábyrgðarreglu. Aðildarríki gætu að sönnu ákvarðað bótagrundvöllinn, en þegar það væri gert yrði að fara eftir tilgreindum ákvæðum tilskipananna. Í þessu felst að ákvæði tilskipananna hafa áhrif á hvernig heimilt er að skipa efni lagareglna um ábyrgðartryggingar ökutækja.
    Á vettvangi Evrópusambandsins, eða forvera þess, hafa verið settar tilskipanir um ýmis svið vátrygginga, svo sem um skaðatryggingar, ábyrgðartryggingar ökutækja, líftryggingar og endurtryggingar. Í almennum hluta greinargerðar, sem fylgdi frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, segir m.a.:
    ,,Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem samþykktur var 2. maí 1992 skuldbindur Ísland sig til þess að lögfesta að efni til sams konar reglur um vátryggingastarfsemi og í gildi eru innan Evrópubandalagsins.“
    Í framhaldi af þessu eru svo taldar upp þær tilskipanir og tilmæli sem um ræðir. Með setningu laga nr. 60/1994 var því tekið tillit til skuldbindinga sem fólust í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Vátryggingastarfsemi telst til fjármálaþjónustu og fellur undir 3. kafla EES-samningsins (sbr. 49. gr. Rómarsáttmálans), auk þess sem reglur 2. kafla samningsins um staðfesturétt eiga við um vátryggingastarfsemi (sbr. 43. gr. Rómarsáttmálans).
    Eins og áður greinir lýtur löggjöf á vettvangi Evrópuréttar á sviði vátrygginga mest að reglum um vátryggingafélög og starfsemi þeirra. Fyrstu tilskipanirnar miðuðu að því að tryggja frelsi til staðfestu á sviði vátrygginga í Evrópusambandslöndunum. Með samræmingu eftirlitskerfa aðildarlandanna og samræmi í skilyrðum til að stofna vátryggingafélög voru skapaðar forsendur til þess að félög, sem stofnuð voru í einu ríki, gætu sett á fót útibú í öðru. Í næstu tilskipunum var gengið skrefi lengra og leitast við að koma á frelsi til þess að vátryggingafélög gætu veitt vátryggingarþjónustu í öðrum aðildarríkjum en heimaríki, en þessi heimild var þó takmörkuð. Í skaðatryggingum tók heimildin aðeins til stærstu vátrygginga og í persónutryggingum var út frá því gengið að félögin rækju ekki markaðssókn annars staðar en í heimaríkinu þótt vátryggingartakinn gæti leitað þjónustu hjá félögum í öðrum ríkjum en heimaríkjum þeirra. Í þeim þriðju er gengið enn lengra í því að tryggja rétt til þess að vátryggingafélög geti veitt þjónustu án takmarkana í öðrum löndum en heimaríki sínu og séu eingöngu háð leyfisveitingu í því ríki og eftirliti þar.
    Af framangreindu leiðir að síður þarf að taka tillit til reglna um vátryggingastarfsemi, sem settar hafa verið á vettvangi Evrópusambandsins, þegar fjallað er um lög um vátryggingarsamninga, en þegar fjallað er um lög um vátryggingastarfsemi. Þetta er þó ekki einhlítt, svo sem getur að framan. Í ráðgefandi áliti dómstóls EFTA frá 17. nóvember 1999 í svonefndu Finanger-máli var það niðurstaða dómstólsins að tilteknar reglur norskra umferðarlaga um brottfall bótaréttar þess sem tók sér far með bifreið þótt hann vissi að ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eða deyfilyfja, væru ósamrýmanlegar tilteknum ákvæðum ökutækjatilskipana ESB sem áður er getið. Niðurstaðan hefur áhrif á skaðabótarétt tjónþola við þær aðstæður sem um ræðir og þar með á rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu ökutækja. Taka ber fram að fræðimenn eru ekki á einu máli um hvernig skýra beri álitið og bera sumir brigður á réttmæti niðurstöðunnar. Ágreiningur um þetta kom til kasta Hæstaréttar Íslands haustið 2001. Hæstiréttur lýsti, í dómi frá 25. október 2001 í máli nr. 129/2001, þeim skilningi að í tilskipunum felist fyrirmæli um skyldu ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að sjá svo um að fyrir hendi sé vátrygging, sem taki til skaðabótaskyldu, er stofnast vegna líkams- eða munatjóns við notkun ökutækis. Telur rétturinn að ljóst sé að þeim sé ætlað að tryggja að tjónþoli fái úr hendi vátryggjanda greiðslu á bótum sem hann á rétt til eftir skaðabótareglum og þurfi ekki að sæta mótbárum frá vátryggjanda um atriði sem falla undir tilskipanirnar. Engu að síður verður af þessum ástæðum að hafa hliðsjón af efni tilskipana, sem settar hafa verið á vettvangi Evrópuréttar, þegar efni reglna um vátryggingarsamninga er skipað. Hefur verið leitast við að gera það í frumvarpi þessu.
    Þess skal getið að í Noregi hefur reynslan sýnt að aðild Noregs að Evrópska efnahagssvæðinu og þær skuldbindingar sem því fylgdu hafa til þessa einungis leitt til minni háttar breytingar á norskum lögum um vátryggingarsamninga, nr. 69/1989. Í þessu sambandi þarf þó að hafa í huga að Norðmenn settu sérstök lög um val á löggjöf við gerð vátryggingarsamninga, þ.e. lög nr. 111/1992 frá 27. nóvember það ár. Að því er íslenskan rétt varðar eru þær efnisreglur nú í VI. kafla laga nr. 60/1994, en með frumvarpi þessu er lagt til að þær verði fluttar í lög um vátryggingarsamninga. Loks skal tekið fram að reglur um varnarþing, þ.e. hvaða dómstólar eiga úrlausnarvald í vátryggingamálum, er að finna í 3. kafla Luganosamningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum sem gerður var milli Evrópusambandslandanna og EFTA-landanna 16. september 1988 og byggist á svonefndum Brussel-sáttmála frá 1968 milli Evrópusambandslandanna um sama efni. Lugano-samningnum var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 68/1995, frá 10. mars það ár, um Lugano-samninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Í þessum kafla samningsins (3. kafla), þ.e. 7.–12. gr., er að finna tæmandi reglur um varnarþing í vátryggingamálum. Engin ástæða er til að leggja til að þær reglur verði fluttar í lög um vátryggingarsamninga.

6. Nánar um meginefni og helstu nýmæli í frumvarpinu.
6.1 Inngangur.
    
Frumvarp þetta hefur að geyma almennar reglur um vátryggingarsamninga. Þær lúta einkum að þeim hluta vátryggingastarfsemi sem tekur til réttarsambandsins milli vátryggingafélagsins og vátryggingartaka eða hins vátryggða. Reglur þess eru því einkaréttarlegs eðlis að meginstefnu til. Reglur frumvarpsins tengjast öðrum réttarreglum um stofnun, framkvæmd og slit samninga. Réttarsamband vátryggingafélags og vátryggingartaka eða hins vátryggða lýtur því almennum reglum samningaréttar og kröfuréttar að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um annað í frumvarpinu. Af þessu leiðir að reglur frumvarpsins tengjast reglum laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, og ýmsum öðrum sérlögum á þeim réttarsviðum sem nefnd voru. Auk þess eiga ýmsar almennar og óskráðar réttarreglur samninga- og kröfuréttar við t.d. um túlkun vátryggingarsamninga. Ber að hafa þetta hugfast við beitingu þeirra reglna sem lagt er til að lögfestar verði með frumvarpi þessu.

6.2 Ófrávíkjanlegar reglur.
    
Svo sem greinir í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að reglur þess verði ófrávíkjanlegar nema annað sé sérstaklega tekið fram. Af 3. gr. VSL leiðir á hinn bóginn að reglur þeirra eru frávíkjanlegar, nema annað sé áskilið berum orðum, svo sem gert er í nokkrum ákvæðum þeirra, sbr. t.d. 20. gr. Þetta felur í sér grundvallarbreytingu og helgast af því markmiði að treysta betur en VSL gera réttarstöðu neytenda, þ.e. með því að veita þeim lágmarksvernd.

6.3 Meginþættir frumvarpsins.
    
Frumvarpi þessu er skipt í fjóra hluta. Í fyrsta hluta eru reglur um skaðatryggingar, í öðrum hluta reglur um persónutryggingar, en í þriðja hluta eru nokkur almenn ákvæði sem eiga við um allar tegundir vátrygginga. Uppbygging frumvarpsins er ólík VSL, en lögin eru þannig uppsett að í I. kafla eru almenn ákvæði, í II. kafla reglur um skaðatryggingar sem skipt er þannig að í A-hluta eru almenn ákvæði en í B-hluta reglur um sjóvátryggingar og aðrar flutningavátryggingar, í C-hluta reglur um brunatryggingar, í D-hluta reglur um búfjártryggingar og í E-hluta reglur um ábyrgðartryggingar. Í III. kafla eru reglur um líftryggingar, í IV. kafla reglur um slysa- og sjúkratryggingar og í V. kafla gildistökuákvæði o.fl.
    Í frumvarpinu eru ekki sérstakir kaflar eða þættir um einstakar tegundir skaðatrygginga eða persónutrygginga, einungis almennar reglur um allar tegundir vátrygginga sem falla innan þessara tveggja tilgreindu meginþátta. Í einstökum greinum er þó að finna sérreglur um tilteknar tegundir vátrygginga og einstakir kaflar, einkum í persónutryggingahlutanum, taka nánast eingöngu til tiltekinna persónutrygginga. Einkum ber við að sérreglur séu um líftryggingar, sbr. XVII. kafla, um skráningu líftrygginga. Leitast er við að halda sem mestu samræmi í efnisskipan í fyrsta hluta um skaðatryggingar og öðrum hluta um persónutryggingar. Kaflaheiti eru sem hér segir:
    I. hluti.    Skaðatryggingar.
         I. kafli.    Inngangur.
         II. kafli.     Upplýsingaskylda félagsins.
         III. kafli.    Vátryggingarsamningurinn o.fl.
         IV. kafli.     Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
         V. kafli.     Iðgjaldið.
         VI. kafli.     Almennar reglur um ábyrgð félagsins.
         VII. kafli.     Réttur þriðja manns samkvæmt vátryggingarsamningi.
         VIII. kafli.    Uppgjör vátryggingabóta, fyrning o.fl.
         IX. kafli.    Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
    II. hluti.    Persónutryggingar.
         X. kafli.     Inngangur.
         XI. kafli.     Upplýsingaskylda félagsins.
         XII. kafli.     Vátryggingarsamningurinn o.fl.
         XIII. kafli.     Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins.
         XIV. kafli.     Iðgjaldið.
         XV. kafli.     Ráðstafanir tengdar vátryggingu. Rétturinn til greiðslu frá félaginu.
         XVI. kafli.     Réttarsambandið við skuldheimtumenn.
         XVII. kafli.    Skráning líftrygginga.
         XVIII. kafli.    Bótauppgjör, fyrning o.fl.
         XIX. kafli.    Sérstakar reglur um hópvátryggingar.
    III. hluti.    Almenn ákvæði.
         XX. kafli.    Ágreiningur o.fl.
         XXI. kafli.    Val á löggjöf.
    IV. hluti.    
         XXII. kafli.    Ýmis ákvæði.
    Þess er vænst að auðveldara verði að vinna með reglurnar, verði þær að lögum, með því að hafa slíkt samræmi milli fyrsta og annars hluta.

6.4 Frumvarpið hefur að geyma almennar reglur um tiltekna þætti vátryggingarsamninga.
    
Svo sem fyrr greinir eru reglur frumvarpsins almennar. Þótt þær séu ófrávíkjanlegar leiðir ekki af því að ekki sé svigrúm til samninga við gerð og framkvæmd vátryggingarsamninga. Í fyrsta lagi er beinlínis tekið fram í ýmsum ákvæðum frumvarpsins að semja megi um tiltekin atriði. Í öðru lagi taka reglur frumvarpsins einungis til takmarkaðra þátta vátryggingarsamninga. Ekki er t.d. leitast við að setja því mörk gegn hvaða áhættu er vátryggt og í sjálfu sér er ekki amast við samningum um skýrar hlutlægar takmarkanir á ábyrgð vátryggingafélaga. Í þriðja lagi eru engin ákvæði um takmarkanir á ákvörðun iðgjalds eða með hvaða hætti er samið um hækkun þess, eða lækkun ef því er að skipta. Svigrúm til samninga er því verulegt og í frumvarpinu er ekki að finna reglur sem takmarka ættu möguleika vátryggingafélaga til samkeppni um viðskiptavini.

6.5 Aukin neytendavernd.
    
Þess er áður getið að eitt af tilefnunum til þess að huga að endurskoðun VSL sé að það sé í takt við áherslu síðustu áratuga á aukna neytendavernd að tryggja betur en VSL gera lágmarksréttindi vátryggingartaka. Nefna má eftirfarandi atriði til stuðnings þeirri áherslu sem lögð er á vernd lágmarksréttinda vátryggingartaka og verður í því sambandi að hafa í huga þá meginreglu frumvarpsins að reglur þess eru ófrávíkjanlegar.
    Í fyrsta lagi eru ítarleg ákvæði í frumvarpinu um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og annarra sem koma fram fyrir þeirra hönd, einkum við gerð vátryggingarsamninga. Í VSL eru ekki ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga, einungis um upplýsingaskyldu vátryggingartaka. Lýtur upplýsingaskylda bæði að efni löggjafar, þegar við á, að atriðum sem varða vernd þá er vátrygging veitir og eftir atvikum ráðgjöf um viðbótarvernd. Upplýsingaskyldan er fyrst og fremst virk við gerð vátryggingarsamnings, en einnig er mælt fyrir um takmarkaðri upplýsingaskyldu við endurnýjun hans. Þess ber einnig að geta í þessu sambandi að upplýsingaskyldu er ekki létt af vátryggingartakanum miðað við reglur VSL. Hann verður að veita umbeðnar upplýsingar og á í sumum tilvikum að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, einkum um atriði er verulega þýðingu hafa fyrir mat félagsins á þeirri áhættu sem það undirgengst með vátryggingarsamningnum.
    Í öðru lagi er leitast við að ráða bót á einu mesta álitaefni sem tengst hefur framkvæmd VSL, þ.e. hvaða mörk eigi að setja hlutlægum ábyrgðartakmörkunum, einkum þegar þær tengjast háttsemi hins vátryggða eða manna sem verða samsamaðir honum. Það er gert með því að skilgreina hugtakið varúðarreglur víðtækar en gert er í VSL, sbr. e-lið 2. gr. frumvarpsins, en einnig með því að félögunum er gert að upplýsa skýrlega í vátryggingarskírteini um hvaða varúðarreglur séu í samningnum sem leitt geti til takmörkunar á ábyrgð þess, sbr. 10. gr., auk þess sem 26. gr. frumvarpsins bannar að félagið beri fyrir sig fyrirvara vegna brota á varúðarreglum ef ekki er við vátryggðan að sakast eða sök hans er óveruleg. Að auki má leggja ábyrgð á félagið að hluta þótt félagið geti samkvæmt framangreindu borið fyrir sig brot á varúðarreglum. Ætti það einnig að vera til verndar vátryggðum í takmarkatilvikum.
    Í þriðja lagi eru í frumvarpinu ýmsar reglur sem tryggja eiga lágmarksvernd vátryggingartaka eða hins vátryggða við framkvæmd vátryggingarsamnings. Margar þessara reglna eru í VSL, en til viðbótar koma ýmsar nýjar reglur. Í IV. kafla frumvarpsins eru t.d. ýmsar reglur þar sem skorður eru settar við rétti félags til þess að takmarka ábyrgð sína. Er það gert með því að slíkar skorður megi setja ef ,,atvik að öðru leyti“ réttlæta það, sbr. t.d. 3. mgr. 20. gr. og 26. gr.
    Í fjórða lagi eru í III. kafla frumvarpsins reglur um uppsögn vátryggingarsamninga, en efni þeirra er skipað með þeim hætti að vátryggingartaki hefur mikið svigrúm til þess að slíta samningnum, en miklar takmarkanir eru á heimildum félagsins til þess að slíta vátryggingarsamningi, ekki aðeins á vátryggingartímabilinu, heldur einnig við endurnýjun hans. Af þessum reglum leiðir að vátryggður á rétt á að halda vátryggingarvernd sinni, einnig við endurnýjun, nema sérstök rök réttlæti slit á samningnum. Um þetta vísast einkum til 15. og 18. gr. frumvarpsins.
    Í fimmta lagi eru ýmsar reglur í frumvarpinu um uppgjör vátryggingabóta, en í VSL skortir slíkar reglur að öðru leyti en því að þar er að finna nokkrar reglur um greiðslutíma vátryggingabóta. Þessar reglur frumvarpsins lúta að því innan hvaða marka félögin geti skuldajafnað vangoldnum iðgjöldum af tiltekinni vátryggingu eða vátryggingum við gjaldfallnar bætur. Eru settar takmarkanir við rétti til skuldajafnaðar sem eru þrengri en leiða mundi af almennum reglum. Einnig er að finna takmarkanir á heimildum félagsins til þess að skuldajafna bótagreiðslum til þriðja manns við kröfur sem það kann að eiga vegna vátryggingarinnar eða á hendur þeim sem greiðsluna á að fá.
    Í sjötta lagi eru ákvæði í frumvarpinu um mjög aukna vernd tjónþola þegar sá sem bótaskyldur er nýtur verndar ábyrgðartryggingar. Hin aukna vernd felst einkum í því að tjónþolinn á beinan rétt á hendur félaginu, þ.e. hann er ekki bundinn við það að beina kröfum sínum að hinum bótaskylda (ábyrgðartryggða) og leiða þær til lykta með samskiptum við hann. Leitast er við að tryggja einnig rétt þess sem er ábyrgðartryggður, þ.e. að því leyti að tjónþoli og félagið geti ekki gert tjón upp sín á milli án samráðs við hann þannig að bindandi sé fyrir hann.
    Í sjöunda lagi eru í frumvarpinu sérstakar reglur um hópvátryggingar, en engin ákvæði eru um slíkar vátryggingar í VSL. Réttarstaðan í hópvátryggingum getur verið flókin. Um er að ræða þrjá aðila, þ.e. félagið, vátryggingartakann og hina vátryggðu, þ.e. þá sem teljast til hópsins. Mikilvægt er að afmarkað sé hverjir teljist á hverjum tíma til hópsins, þ.e. til hinna vátryggðu, og hvaða skilyrðum þurfi að vera fullnægt til þess að einhver teljist hluti af hópnum, svo og hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til þess að sá sem telst til hópsins hætti að gera það. Þá er mikilvægt að tryggja að þátttakendur í hópnum fái nauðsynlegar upplýsingar um réttarstöðu sína, t.d. skilmála, breytingar á þeim o.fl. Þess vegna þarf að taka af skarið um það á hverjum sú skylda hvílir að miðla upplýsingum til hópsins. Þá þarf að slá því föstu á hverjum skyldan til að greiða iðgjaldið hvílir. Loks þarf að taka afstöðu til þess hvort heimila eigi þeim sem tilheyrir hópnum en hættir í honum af tilgreindum ástæðum að viðhalda vátryggingum, einkum líftryggingum, sem einstaklingur án þess að þurfa að veita á ný heilsufarsupplýsingar eins og hann þyrfti ef hann stofnaði til sambærilegrar nýrrar líftryggingar. Lagt er til í frumvarpinu að þetta verði heimilað.
    Í áttunda lagi er lagt til í frumvarpinu að settar verði skorður við því að vátryggingafélög geti krafið þann sem óskar eftir persónutryggingu, eða hefur óskað persónutryggingar, um nánar tilgreindar heilsufarsupplýsingar, þ.e. heilsufarsupplýsingar sem lúta að erfðafræðilegum þáttum. Eðlilegt er að slíkar takmarkanir séu settar. Ýmsir kostir eru tiltækir við skipan slíkra reglna, en í frumvarpinu er sett fram regla sem er sambærileg reglu um sams konar takmarkanir í dönskum rétti, en sú regla var sett þar í landi á árinu 1997. Vísast um þetta til 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins.
    Í níunda lagi eru í frumvarpinu reglur þar sem lagt er til að lögfest verði tilvist úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og hvaða reglur eigi að gilda um hana og starfsháttu hennar. Vátryggingafélög hafa haft með sér samstarf um úrlausn ágreiningsmála er varða vátryggingar. Þá hefur verið samkomulag milli stjórnvalda, neytendasamtaka og vátryggingafélaga um starfrækslu úrskurðarnefndar á sviði vátryggingamála. Neytendur hafa því átt þess kost að afla skjótrar úrlausnar með ódýrum hætti um ágreining í slíkum málum. Eðlilegt er að grundvöllur úrskurðarnefndar í vátryggingamálum verði treystur með því að fastsetja í lögum að slík nefnd skuli vera starfandi. Ekki þykir þó ástæða til að leggja til að grundvelli nefndarinnar verði breytt að öðru leyti. Var Neytendasamtökunum ritað sérstakt bréf þar sem leitað var álits samtakanna á því hvaða skipan þau kysu helst á slíkri nefnd, auk þess sem gerð var grein fyrir hugmyndum nefndarinnar um að auka starfssvið úrskurðarnefndarinnar með því að heimila málskot til hennar í ríkara mæli en tíðkast hefur til þessa. Neytendasamtökin lýstu því yfir að ástæðulaust væri að breyta grundvelli nefndarinnar, en rétt væri að rýmka starfssvið hennar. Tillögur um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem settar eru fram í 141. gr. frumvarpsins, eru í samræmi við þetta, þ.e. tilvist nefndarinnar er ákveðin með lögum, en um starfsemi hennar fer eftir samningi, eins og fyrr. Þá er verksvið hennar aukið verulega frá því sem nú er og réttur neytenda til að skjóta málum til úrlausnar með skjótum hætti því rýmkaður verulega.
    Ljóst má vera að mörg af þeim atriðum, sem talin hafa verið upp hér að framan, muni leiða til nokkurs kostnaðarauka fyrir vátryggingafélögin ef frumvarp þetta verður að lögum. Á móti kemur að gera má ráð fyrir að skýrari og ítarlegri reglur um ýmis atriði muni leiða til fækkunar ágreiningsmála og þar með til minni kostnaðar sem tengist þeim. Verður að telja að aukin neytendavernd sé samfélaginu til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið.

7. Rafræn viðskipti með vátryggingar.
    
Nefndin fjallaði ítarlega um það á nokkrum fundum hvort leggja ætti til í frumvarpi þessu reglur sem heimiluðu sérstaklega að vátryggingaviðskipti mættu fara fram að hluta eða í heild með rafrænum hætti. Nefndarmenn urðu sammála um að leggja ekki til að í frumvarpi þessu yrðu sérstök ákvæði um rafræn viðskipti við gerð eða framkvæmd vátryggingarsamninga. Nefndarmenn eru sammála um að rétt sé og heppilegt að slík viðskipti fari fram með rafrænum hætti sé þess kostur. Eðlilegt sé þá að um þau viðskipti gildi almennar reglur um rafræn viðskipti og þjónustu, sbr. lög nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, og lög nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Með því móti gildi almennar reglur um kröfur til öryggis búnaðar og hvenær sönnun um tilkynningar, samninga og annað sé fullnægt ef ekki er ástæða til að setja sérreglur um þessi atriði.
    Vátryggingar, einkum persónutryggingar, fela oft í sér persónuupplýsingar og í sumum tilvikum viðkvæmar persónuupplýsingar, eins og þessi hugtök eru skýrð í 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Söfnun og meðferð slíkra upplýsinga af hálfu vátryggingafélaga er háð eftirliti Persónuverndar samkvæmt téðum lögum. Því þarf ekki að gera tillögur um slíkar reglur í þessu frumvarpi. Nefndin gerir ráð fyrir þeirri meginreglu að vátryggingaviðskipti fari fram með munnlegum og eftir atvikum skriflegum samskiptum félagsins og vátryggingartaka eða hins vátryggða. Heimili almennar reglur rafræn samskipti í viðskiptum eða mæli fyrir um að þau séu jafngild munnlegum eða skriflegum samskiptum gildir það einnig um vátryggingaviðskipti, enda séu þau ekki sérstaklega undanþegin í lögum.
    Nefndin gerir samkvæmt framansögðu ráð fyrir því að vátryggingaviðskipti fari í vaxandi mæli fram með rafrænum hætti í framtíðinni og telur reglur frumvarpsins ekki eiga að standa slíkri þróun í vegi. Almennar reglur um rafræn viðskipti og um vernd persónuupplýsinga munu gilda um slík rafræn viðskipti í vátryggingum ásamt reglum frumvarpsins ef þau verða að lögum.

8. Tengsl við sérákvæði í öðrum lögum.
    
Frumvarp þetta hefur að geyma almennar reglur um gerð og framkvæmd vátryggingarsamninga. Í ýmsum öðrum lögum eru ákvæði sem varða vátryggingarsamninga. Má sem dæmi nefna ýmis ákvæði XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, um ábyrgðartryggingu ökutækja og reglugerðar nr. 392/2003 um sama efni og lög um brunatryggingar, nr. 48/1994, svo og ýmis ákvæði í lögum sem varða starfsábyrgðartryggingar einstakra starfsstétta, t.d. löggiltra fasteignasala, sbr. 5. gr. laga nr. 54/1997, um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, lögmanna, sbr. 25. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, og endurskoðenda, sbr. 10. gr. laga um endurskoðendur, nr. 18/1997. Í frumvarpi þessu er ekki lagt til að hreyft verði við ákvæðum í sérlögum um vátryggingar. Áréttað skal, sem þó leiðir einnig af lögskýringarreglum, að sérákvæði í öðrum lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim um einstakar tegundir vátrygginga ganga framar hinum almennu ákvæðum þessara laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. hluta.

    Í þessum hluta frumvarpsins eru reglur um skaðatryggingar. Skaðatryggingar eru skilgreindar með óbeinum hætti í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir að með skaðatryggingum sé átt við vátryggingu gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátryggingu gegn skaðabótaábyrgð eða kostnaði eða aðra vátryggingu sem ekki er persónutrygging. Persónutryggingar eru líftryggingar hvers konar, svo og slysa- og sjúkratryggingar. Um efni kaflanna skal vísað til þess sem greinir í 6. tölul. í almennum athugasemdum. Ekki er heldur ástæða til að fjalla um efni einstakra greina, heldur vísast um það til greinargerðar um hvern kafla fyrir sig, svo og sérstakra skýringa við einstök ákvæði. Er einungis ástæða til að árétta hér að haldið er fast við þá meginreglu VSL að skaðatryggingar eigi ekki að bæta meira en raunverulegt tjón hins vátryggða af vátryggingaratburði. Þótt ekki sé í frumvarpinu regla sem svarar til 39. gr. VSL er leitast við að halda meginreglunni með öðrum hætti, sbr. skýringar við 36. gr. frumvarpsins. Hinu er ekki að neita að í framkvæmd hafa vátryggingafélög í skilmálum sínum samið um að bæta tjón á tilteknum munum umfram raunverulegt verðmæti þeirra. Á þetta einkum við um heimilistæki og þess háttar sem bætt er með endurkaupsverði nýrra hluta, þ.e. ekki er tekið tillit til aldurs og rýrnunar vegna notkunar. Þykir því ekki rétt að halda sem sérstakri grein hinni fortakslausu reglu 39. gr. VSL. Öðrum ákvæðum frumvarpsins, t.d. 19. gr. og 36. gr., er ætlað að koma í veg fyrir misnotkun á vátryggingum í hagnaðarskyni. Má því fullyrða að meginregla skaðatrygginga sem lýst var að framan verði enn í gildi ef frumvarpið verður að lögum.

Um I. kafla.

    Í þessum kafla eru þrjár greinar og er yfirskrift þeirra sem hér segir:
     a.      1. gr. Gildissvið I. hluta laganna.
     b.      2. gr. Skilgreiningar.
     c.      3. gr. Ófrávíkjanlegar reglur.
    Áður hefur verið gerð grein fyrir þeirri skipan frumvarpsins að skipta reglum þess í tvo meginhluta, þ.e. annars vegar um skaðatryggingar og hins vegar um persónutryggingar. Í 1. gr. er gildissvið reglna um skaðatryggingar afmarkað. Nauðsynlegar skilgreiningar eru í 2. gr. og er það gert til þess að skýra merkingu nokkurra mikilvægra hugtaka í reglum frumvarpsins.
    Í 3. gr. er því lýst yfir að reglur frumvarpsins séu ófrávíkjanlegar. Frá því eru gerðar undantekningar þegar í hlut eiga þeir sem hafa með höndum viðamikinn atvinnurekstur.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að gildissvið I. kafla verði takmarkað við skaðatryggingar. Skaðatryggingar þarf að greina frá persónutryggingum, en einnig frá öðrum samningum sem geta ekki talist vátryggingarsamningar. Hér er átt við ýmiss konar ábyrgðir á framleiðslu- og söluvörum, ýmsa þjónustusamninga o.fl. Almennt á það ekki að valda vafa hvort þeir teljast til vátryggingarsamninga. Inntak slíks samnings ræður því hvort hann verður talinn vátryggingarsamningur eða ekki. Það ræður því ekki úrslitum hverjir eiga aðild að honum. Hin óbeina skilgreining á hugtakinu skaðatrygging, sem gerð er tillaga um í greininni, er fyrst og fremst til afmörkunar frá persónutryggingum. Henni er ekki ætlað að binda hendur yfirvalda eða dómstóla þegar metið er hvort einstaklingar eða lögaðilar stunda vátryggingastarfsemi sem kynni að fara í bága við lög nr. 60/1994 um það efni. Skilgreiningin er svo rúm að ætla má að hún muni einnig rúma nýjar tegundir vátrygginga er kunna að bætast við þær sem nú eru þekktar. Þessi skipan ætti að tryggja að slíkar nýjar tegundir vátrygginga féllu ekki sjálfkrafa utan gildissviðs laganna.
    Í skilgreiningu á hugtakinu skaðatrygging, sem sett er fram í 2. mgr., er með orðunum tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, fyrst og fremst átt við hefðbundnar eignatryggingar, eins og brunatryggingar, innbrots- og þjófnaðartryggingar, kaskótryggingar bifreiða og skipa o.fl. Hinir vátryggðu hagsmunir í þessum tilvikum eru fyrst og fremst verðmæti hlutarins sjálfs, en oft er vátryggingunni ætlað að vernda aðra hagsmuni sem bundnir eru við hlutinn, t.d. afnotarétt eða önnur óbein eignarréttindi þriðja manns. Í skilgreiningunni segir einnig að til skaðatrygginga heyri vátryggingar gegn skaðabótaábyrgð. Með því er átt við ábyrgðartryggingar, en það er sú tegund vátrygginga sem hvað hraðast hefur vaxið á síðustu árum. Þegar vafi leikur á um hvort tiltekin vátrygging telst til ábyrgðartrygginga eða ekki mundi það oftast skera úr um hvort fjárhæð bóta yrði ákveðin eftir reglum skaðabótaréttar. Ef svo er yrði vátryggingin almennt talin til ábyrgðartrygginga óháð því hver ábyrgðargrundvöllurinn væri. Þannig mundu sjúklingatryggingar samkvæmt lögum nr. 111/2000 um það efni teljast ábyrgðartryggingar en ekki persónutryggingar, því að bótafjárhæðir samkvæmt lögunum ráðast af reglum skaðabótaréttar, þó að tilteknu hámarki. Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt ekki þurfi að sýna fram á að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi til þess að eiga rétt til greiðslu úr sjúklingatryggingu, aðeins að tjón hafi orðið við tilteknar aðstæður. Loks er í skilgreiningunni miðað við að til skaðatrygginga teljist vátrygging gegn kostnaði, en með því er t.d. átt við svonefnda réttaraðstoðartryggingu sem oftast er t.d. hluti af þeim samsettu fjölskyldu- og heimilistryggingum sem boðnar eru á markaði hér á landi.
    Eins og fyrr greinir er upptalningunni í 2. mgr. ekki ætlað að vera tæmandi. Vátryggingar sem ekki féllu sjálfkrafa undir kennimerki skaðatrygginga mundu samt falla undir reglur I. hluta laganna, svo fremi sem þær teldust ekki til persónutrygginga.
    Í 3. mgr. er lagt til að endurtryggingar falli ekki undir gildissvið I. hluta og er gerð tillaga um sambærilegt ákvæði þegar gildissviði II. hluta er lýst. Þetta er í samræmi við reglur gildandi laga. Það hefur verið viðtekin skoðun að hið sérstaka eðli endurtrygginga, svo og sú staðreynd að aðilar að slíkum samningum eru venjulega vátryggjendur sjálfir, valdi því að þær eigi ekki að sæta að öllu leyti sömu reglum og frumtryggingar. Á það enn frekar við í því frumvarpi sem hér liggur fyrir þar sem leitast er við með sérstökum reglum að tryggja réttarstöðu neytenda og efni margra reglna skipað svo sem raun ber vitni til að tryggja að það markmið náist. Hentar það síður þegar jafnræði er með aðilum eins og oftast er í endurtryggingum.
    Til álita kom að mæla fyrir um að I. hluti laganna, og þar með lögin í heild, skyldi ekki gilda um tvo tiltekna greinaflokka vátrygginga, þ.e. greiðsluvátryggingar og efndavátryggingar, sem tilgreindir eru í 14. og 15. tölul. 22. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Ýmsar ástæður valda sérstöðu þessara tveggja greinaflokka vátrygginga. Þótt ótvírætt sé, miðað við skilgreiningu 2. mgr., að þeir teljist til skaðatrygginga eru mörg einkenni þeirra með þeim hætti að þeir greinast mjög frá hefðbundnum skaðatryggingum. Greiðsluvátrygging, einkum ábyrgðir, er meira í ætt við bankastarfsemi, enda hafa bankar og sparisjóðir lengi veitt ákveðin form ábyrgða. Skylda vátryggingafélags í slíkum tilvikum felst í því að veita tryggingu gegn tjóni sem verður vegna þess að skuldari vanrækir skyldur sínar. Þegar um ábyrgðir er að ræða verður að telja að réttarsamband vátryggingartaka, kröfuhafans og vátryggjanda eigi fremur að ráðast af reglum kröfuréttar en vátryggingaréttar. Réttur vátryggingafélags til þess að krefjast endurgreiðslu á vátryggingabótum úr hendi skuldarans sem ekki hefur efnt skyldu sína ætti í raun réttri ekki að ráðast af reglum vátryggingaréttar heldur kröfuréttar, sem mundi auka svigrúm félagsins til endurheimtu. Þótt efndavátrygging kunni að sumu leyti að líkjast meira hefðbundnum skaðatryggingum, t.d. er réttarsambandið þar eingöngu milli vátryggingartaka, kröfuhafa og félagsins, er sérstaða þeirra trygginga samt svo mikil að ýmis rök standa til þess að láta ákvæði frumvarpsins ekki taka til þeirra.
    Þrátt fyrir framanritað var ekki talin ástæða til þess að mæla beinlínis fyrir um að þessir tveir greinaflokkar vátrygginga féllu ekki undir lögin. Mikil þróun er í greiðsluvátryggingum og efndavátryggingum og ekki útséð um hver framvindan verður á því sviði. Þykir því rétt að leggja til að viðskiptaráðherra geti með reglugerð undanskilið þessar vátryggingagreinar, svo og aðrar sambærilegar vátryggingar, gildissviði laganna. Yrðu einkum rök til þess ef sýnt þætti af framkvæmdinni að reglur frumvarpsins, ef það verður að lögum, hentuðu ekki við gerð og framkvæmd vátryggingarsamninga um þessar vátryggingagreinar.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að nokkur lykilhugtök í I. hluta laganna verði skilgreind. Í 2. gr. gildandi VSL er einnig að finna skilgreiningar á mikilvægum hugtökum og fara þær um flest saman við skilgreiningar þær sem gerð er tillaga um í þessari grein, en vegna nýmæla eru þó skilgreiningarnar hér bæði fleiri og að sumu leyti öðruvísi en samkvæmt VSL.
    Félagið er algengt hugtak í frumvarpinu og í VSL. Skilgreining þess hér er að efni til óbreytt frá gildandi lögum en útfærslan er þó önnur. Félagið, þ.e. vátryggjandinn, í frumvarpinu mundi oftast vera hlutafélag, gagnkvæmt félag eða aðrir sem fengið hafa hér starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Einnig er hugsanlegt að aðrir aðilar geti talist félag í skilningi frumvarpsins, t.d. þeir sem kunna að bjóða vátryggingar samkvæmt sérstökum heimildum í öðrum lögum. Einnig yrði að telja þann sem býður vátryggingar án þess að hafa til þess heimild til félags samkvæmt frumvarpinu, ef álitaefni risu um slíkar vátryggingar sem rétt þætti að færu eftir ákvæðum þess.
    Vátryggingartaki er skilgreindur með sama hætti og í VSL, en sérstaklega er þó tekið fram hver teljist vátryggingartaki í hópvátryggingum, þ.e. sá sem gerir slíkan samning við félagið, en oftast yrði það vinnuveitandi, félag, t.d. stéttarfélag, eða annars konar hagsmunafélag.
    Skilgreining á orðinu vátryggður er einnig efnislega með sama hætti og í VSL. Þessi skilgreining er svo rúm að hún tekur einnig til þeirra sem eiga rétt til bóta á grundvelli hópvátryggingarsamnings. Rétt þykir þó að leggja til að sérstaklega verði tekið fram hver teljist vátryggður í ábyrgðartryggingum. Hér er þó ekki gerð tillaga um breytingar frá því sem vera mundi samkvæmt gildandi rétti. Þar sem reglur frumvarpsins miða að verulegum breytingum á stöðu þess sem verður fyrir tjóni og á rétt til bóta á hendur þeim sem hefur ábyrgðartryggingu, m.a. er gerð tillaga um að veita honum beinan rétt á hendur félaginu, þykir nauðsynlegt að taka af skarið um að hann teljist þó ekki hinn vátryggði.
    Hópvátrygging er orð sem ekki er notað í VSL og yrði því nýtt í löggjöf ef frumvarp þetta verður að lögum. Þykir því nauðsynlegt að skilgreina það. Hugtakið hópvátrygging er ekki skilgreint með nákvæmlega sama hætti í þessum hluta frumvarpsins og í II. hluta, en það breytir því ekki að helstu einkenni hópvátrygginga eru hin sömu í báðum tilvikum, þ.e. samningurinn er gerður af vátryggingartaka, sem oftast er vinnuveitandi eða félag, til hagsbóta fyrir nánar tiltekinn hóp, t.d. starfsmenn vinnuveitandans eða félagsmenn í félagi. Hópvátrygging getur einnig gilt fyrir þá sem teljast til fjölskyldna þeirra sem tilheyra hópnum. Nauðsynlegt er að skilgreina í hópvátryggingum hverjir teljist til hópsins, eða hvaða skilyrðum þeir þurfi að fullnægja svo vátrygging geti átt við. Ekki er skilyrði að um einhvern tiltekinn lágmarksfjölda einstaklinga sé að ræða svo unnt sé að tala um hópvátryggingu. Oft getur risið vafi um hvort tiltekin vátrygging er hópvátrygging eða ekki. Fjölskyldu- eða heimilistrygging telst ekki hópvátrygging þótt í skilmálum hennar sé tekið fram að hún sé einnig til hagsbóta fyrir fjölskyldu eða heimilisfólk vátryggingartaka. Þegar vafi rís um hvort vátrygging telst hópvátrygging verða dómstólar að skera úr um það að lokum.
    Um varúðarreglur er fjallað í 51. gr. VSL. Varúðarreglur og mörk milli þeirra og svonefndra hlutlægra ábyrgðartakmarkana eru eitt af helstu álitaefnunum sem verið hafa í vátryggingarétti. Með reglum frumvarps þessa er leitast við að eyða eða takmarka þá réttaróvissu sem verið hefur í þessum efnum. Er því sett fram sérstök skilgreining á hugtakinu varúðarreglur. Sú skilgreining sem hér er gerð tillaga um er nákvæmari og einnig víðtækari en leiða mundi af reglu 51. gr. VSL. Um varúðarreglur er nánar fjallað í skýringum við 26. gr. frumvarpsins, sem tekur til brota á þeim.
    Skilgreiningar á hugtökunum vátryggingaratburður, vátryggingaráhætta, vátryggingarfjárhæð, vátryggingarverðmæti og bundið vátryggingarverð eru í samræmi við það sem byggt hefur verið á í gildandi rétti. Hið sama má í meginatriðum segja um hugtakið vátryggingarskírteini. Sú skilgreining er þó víðtækari en í gildandi rétti, sem helgast af því að í 10. gr. frumvarpsins er lögð sú skylda á félagið að tilgreina ákveðnar upplýsingar í skírteininu sem almennt má telja að hafi verulega þýðingu fyrir mat hins vátryggða á réttarstöðu sinni samkvæmt vátryggingarsamningnum. Tekið skal fram að skilgreining á orðinu vátryggingaráhætta er tvíþætt vegna þess að orðið er notað í tvenns konar merkingu í frumvarpinu. Það er bæði notað um þá hagsmuni sem njóta vátryggingarverndar samkvæmt vátryggingarsamningi og líka um þá þætti eða aðstæður sem leitt geta til þess að vátryggingaratburður verður. Oft eru það einungis tilteknir þættir eða aðstæður sem leitt geta til þess að vátryggingaratburður verður. Verði tjón af öðrum ástæðum fellur það utan vátryggingarsamningsins. Í slíkum tilvikum getur verið nauðsynlegt að tilgreina þættina eða atburðina, þ.e. vátryggingaráhættuna (áhættuna) með beinum eða óbeinum hætti. Vegna skilgreiningar á orðinu vátryggingarfjárhæð skal tekið fram að þótt það sé ekki skilgreiningaratriði, þá er iðgjald að jafnaði reiknað af vátryggingarfjárhæð.

Um 3. gr.

    Meginregla gildandi VSL er, skv. 3. gr. þeirra, að reglur laganna séu frávíkjanlegar, þ.e. þær koma ekki til framkvæmda ef annað er áskilið berum orðum í vátryggingarsamningi eða verður talið í honum fólgið. Frá þessu eru undantekningar ef tekið er berum orðum fram í reglum laganna að þær séu ófrávíkjanlegar. Kemur það fram í ýmsum mikilvægum ákvæðum gildandi laga að ekki megi víkja frá þeim með samningi. Vafalaust hefur mátt telja það til kosta gildandi laga að þau væru frávíkjanleg, enda hefur það ekki staðið í vegi fyrir þeim vexti sem orðið hefur í vátryggingum síðan þau lög voru sett. Það er líka í samræmi við grundvallarreglu íslensks fjármunaréttar að mönnum sé frjálst að ráðstafa hagsmunum sínum, sem þeir hafa forræði á, með samningum.
    Fram hjá því verður þó ekki litið að aðild að vátryggingarsamningum er langoftast háttað þannig að annars vegar er einstaklingur eða minni rekstraraðili, sem ekki hefur sérþekkingu á lögum eða vátryggingastarfsemi, og hins vegar vátryggingafélag sem hefur atvinnu af því að vátryggja hagsmuni og hefur mikla sérfræðiþekkingu og reynslu á því sviði. Sérþjálfað starfsfólk annast starfsemina. Auk þessa er það félagið, þ.e. vátryggjandinn, sem sér um að semja vátryggingarskilmálana og hlýtur við það að líta fyrst og fremst til hagsmuna félagsins. Vátryggingarskilmálar íslenskra vátryggingafélaga hafa þó ekki verið gagnrýndir sérstaklega fyrir að vera almennt ósanngjarnir eða fjandsamlegir vátryggingartökum eða þeim sem njóta vátryggingarverndar. Ástæður þessa geta verið ýmsar, t.d. að félögin sýni ábyrgð í starfsemi sinni og að samkeppni milli félaganna tryggi að vátryggingarskilmálar þeirra verði neytendavænir.
    Sú áhersla sem í norrænni lögfræði hefur verið lögð á að tryggja hagsmuni neytenda á síðustu áratugum er sprottin af því að rík þörf hefur verið talin á að vernda þá sérstaklega, ekki síst á sviðum þar sem viðsemjendurnir eru stórir rekstaraðilar með mikla sérþekkingu, er sjá sjálfir um að semja öll ákvæði samninga sem gerðir eru við neytendur. Hin aukna áhersla á neytendavernd hefur leitt til þess að sett hafa verið ýmis lög á Íslandi til að tryggja réttarstöðu neytenda. Má sem dæmi nefna breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð ógilda löggerninga, fyrst með lögum nr. 11/1986 og síðar með lögum nr. 14/1995, lög nr. 96/1992, um húsgöngu og fjarsölu (síðar lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga), lög nr. 103/1992, um umboðssöluviðskipti, lög nr. 121/ 1994, um neytendalán, lög nr. 80/1994, um alferðir, og lög nr. 23/1997, um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis. Einnig má benda á að ný lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000, ný lög um fasteignakaup, nr. 40/2002, og ný lög um þjónustukaup, nr. 42/2000, bera þess merki að þar séu hagsmunir neytenda verndaðir í ríkara mæli en t.d. samkvæmt eldri lögum um lausafjárkaup, nr. 39/1922. Þörf fyrir neytendavernd er einnig fyrir hendi á sviði vátryggingastarfsemi. Eru aðstæður þar með slíkum hætti að neytandinn má sín oftast lítils gagnvart félaginu þegar til þess kemur að meta hvort hagsmunir hans séu nægilega verndaðir, hver staða hans verður ef vátryggingaratburður á sér stað og til að hafa áhrif á skilmála vátryggingarinnar. Þessar ástæður hafa m.a. valdið því að rétt þykir að gera tillögu um að lög um vátryggingarsamninga séu ófrávíkjanleg. Er gerð tillaga um það í 3. gr. frumvarpsins að vikið verði frá þeirri meginreglu sem gilt hefur að lög um vátryggingarsamninga verði frávíkjanleg og lagt til að því verði slegið föstu í 1. mgr. 3. gr. að þau verði að meginstefnu til ófrávíkjanleg. Sambærilegt ákvæði er í II. hluta laganna, sem tekur til persónutrygginga.
    Eitt af markmiðum frumvarpsins er að veita vátryggingartökum og þeim sem vátryggðir eru, eða njóta með öðrum hætti réttar til greiðslu vátryggingabóta, lágmarksvernd. Ef lagt yrði til að lögin verði frávíkjanleg yrði markmiði þessu stefnt í hættu.
    Eins og síðar greinir eru ýmsar undantekningar frá því að ekki megi víkja frá ákvæðum laganna með samningi og er það einkum í þeim tilvikum þegar ekki er talin þörf á þeirri vernd er að framan greinir. Þörfin fyrir lágmarksvernd er mismunandi eftir því hvort um skaðatryggingar er að ræða eða persónutryggingar. Hinar síðarnefndu eru nánast í öllum tilvikum neytendatryggingar, þ.e. það er neytandi sem er aðili að vátryggingarsamningnum. Þörfin fyrir ófrávíkjanlegar reglur er því meiri á því sviði en í skaðatryggingum, sem í mörgum tilvikum taka til hagsmuna rekstraraðila. Ekki þykir þó rétt að binda ófrávíkjanleika laganna eingöngu við neytendur, enda verður að telja að flestir minni rekstraraðilar hafi alveg jafnmikla þörf fyrir þá lágmarksvernd sem reglum frumvarpsins er ætlað að veita. Á hinn bóginn er ekki ástæða til að koma í veg fyrir að stærri rekstraraðilar semji á annan hátt en reglur frumvarpsins gera ráð fyrir, jafnvel þótt það leiði til lakari kjara en ef reglunum væri fylgt. Ástæða þessa er sú að stærri rekstraraðilar eiga sjálfir að geta gætt hagsmuna sinna við gerð vátryggingarsamninga sem og annarra samninga og keypt sér þá sérfræðiþjónustu sem þarf við samningsgerðina. Auk þess er eðlilegt að slíkir aðilar hafi frelsi til þess að taka þá upplýstu ákvörðun að bera sjálfir einhvern hluta af tjóni ef vátryggingaratburður verður, eða takmarka rétt sinn á hendur félaginu að einhverju öðru leyti og greiða í staðinn lægri iðgjöld.
    Þess ber að geta að frumvarpið miðast við að það séu reglur þess sem séu ófrávíkjanlegar, en í því felst að það eru einungis þau atriði sem reglurnar taka til sem ekki má víkja frá. Um önnur ólögmælt atriði mætti semja. Þannig er t.d. miðað við að almennt sé hægt að semja um umfang vátryggingarinnar, enda er það atriði almennt ekki til umfjöllunar í reglum frumvarpsins.
    Í þessu sambandi skal undirstrikað að einungis er óheimilt að víkja frá ákvæðum laganna, ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu. Vissulega má semja um betri rétt þessum aðilum til handa en leiða mundi af reglum frumvarpsins. Í 1. mgr. er talað um þann sem öðlast kröfu á hendur félaginu, þ.e. hann nýtur þeirrar lágmarksverndar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Orðalagi er háttað þannig til þess að það geti átt við um vátryggingartaka, vátryggðan, ef hann er ekki hinn sami, og þriðja mann sem öðlast getur beina kröfu á hendur félagi á grundvelli ábyrgðartryggingar þess sem ber skaðabótaábyrgð á tjóni hans. Full ástæða er til að þeir njóti sömu verndar og hinn vátryggði.
    Í 2. mgr. er gerð tillaga um að heimilt sé, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að víkja frá ákvæðum þessa hluta frumvarpsins við tilteknar aðstæður. Það er óhjákvæmilegt skilyrði þess að víkja megi frá ákvæðum frumvarpsins að vátrygging sé tekin vegna atvinnurekstrar. Þótt því skilyrði sé fullnægt þarf ýmislegt annað að koma til, þ.e. skilyrðum einhvers af stafliðum a–d þarf að vera fullnægt líka. Heimildin til að víkja frá reglum frumvarpsins með samningum tekur þó ekki til nokkurra þátta ábyrgðartrygginga, þ.e. þeirra sem reglur 46. gr. frumvarpsins taka til. Þær reglur miða að því að staða tjónþola, sem á skaðabótakröfu á þann sem ábyrgðartryggður er, verði betri en skv. 95. og 96. gr. VSL og að sú staða verði ekki rýrð. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 44. gr. frumvarpsins.
    Svo sem fyrr greinir þarf, til viðbótar því meginskilyrði að vátrygging sé tekin vegna atvinnurekstrar, einu af þeim skilyrðum sem talin eru upp í stafliðum a–d að vera fullnægt. Þau skilyrði eru mismunandi og fyrir þeim eru mismunandi rök.
    Skilyrði a-liðar lúta að stærð eða umfangi þess atvinnurekstrar sem í hlut á. Matsatriði er hvar setja á slík mörk. Sé tekið mið af stærðardreifingu íslenskra fyrirtækja eftir fjölda ársverka 1997 voru þau þá talin 33.949 (heimild: Þjóðhagsstofnun). Af þeim voru innan við 5% með fleiri starfsmenn en tíu. Það er því ljóst að meginþorri íslenskra atvinnufyrirtækja fellur undir þau stærðarmörk sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Fullnægja þarf tveimur af þeim þremur skilyrðum sem sett eru í a-lið. Fyrirtæki af þeirri stærð sem gert er ráð fyrir í a-lið hafa ekki þörf fyrir þá lágmarksvernd sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ætla má að þau hafi aðgang að sérþekkingu til þess að geta með vissu lagt mat á hvernig hagsmunum þeirra sé best borgið að því er lýtur að vátryggingum.
    Í b-lið er gerð tillaga um að heimilt sé að víkja frá reglum frumvarpsins ef vátryggingar lúta að atvinnustarfsemi sem að mestu leyti fer fram erlendis. Ástæður þess eru einkum þær að ekki er rétt að útiloka íslensk fyrirtæki frá því að vátryggja slíka hagsmuni hjá íslenskum vátryggingafélögum og ekki rétt að íslensk vátryggingafélög séu mögulega bundin af strangari reglum en keppinautar þeirra í því landi sem um ræðir. Skýra ber ákvæðið svo að það taki aðeins til rekstraraðila ef mestur hluti af heildarrekstri hans fer fram erlendis, en ekki ef aðeins mestur hluti tiltekins þáttar, t.d. tiltekinnar deildar, fer fram erlendis.
    Í c-lið er lagt til að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna ef vátrygging er tekin vegna skráðs loftfars sem nýtt er í atvinnurekstri. Rökin fyrir þessari reglu eru fyrst og fremst þau að rekstur loftfara í atvinnuskyni er sérstakur og sérhæfður rekstur. Í XI. kafla laga nr. 60/1998, um loftferðir, eru reglur um skyldu umráðanda loftfars, sem notað er til loftferða samkvæmt þeim lögum, til þess að taka og viðhalda tilteknum tryggingum og ber að leita viðurkenningar Flugmálastjórnar á vátryggingafélagi og vátryggingarskilmálum áður en vátrygging er tekin, sbr. 1. mgr. 131. gr. laganna. Þessar reglur loftferðalaga eru ófrávíkjanlegar. Þegar komið er út fyrir gildissvið þeirra er eðlilegt að umráðamenn loftfara hafi heimild til að semja um skilmála vátrygginga, enda verður að ætla að þeir hafi þá sérþekkingu sem þarf til að semja um skilmála slíkra vátrygginga.
    Til álita kom að hafa sambærilegt ákvæði um skráningarskyld skip sem notuð eru í atvinnuskyni. Með hliðsjón af því að mikill fjöldi smábáta er notaður í atvinnurekstri þar sem aðeins eigandinn eða umráðamaður starfar, e.t.v. með einn eða tvo starfsmenn, var þó ekki talið rétt að gera um það tillögu. Verður ekki séð að á þessu sviði sé síður þörf fyrir þá lágmarksvernd sem frumvarpið gerir ráð fyrir en á öðrum sviðum.
    Loks er í d-lið lagt til að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna þegar vátryggðar eru vörur í flutningi milli landa. Byggist það fyrst og fremst á því að rétt er að íslensk vátryggingafélög eigi þess kost að keppa um vátryggingar á vörum sem fluttar eru til landsins, án þess að vera bundin af reglum um lágmarksvernd í ríkari mæli en keppinautar þeirra.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem mælir fyrir um breytingar á fjárhæðum sem tilgreindar eru í a-lið 2. mgr. til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs. Löng hefð er fyrir slíkum sjálfvirkum hækkunarákvæðum í íslenskum lögum, þótt hitt þekkist einnig að stjórnvöld hafi heimild eða skyldu til þess að breyta fjárhæðum samkvæmt nánar tilgreindum mælikvörðum.

Um II. kafla.

    Í þessum kafla eru einkum reglur um upplýsingaskyldu félagsins til vátryggingartaka. Skylda til að veita upplýsingar á ekki aðeins við í aðdraganda þess að vátrygging er tekin, heldur einnig meðan vátryggingarsamningur er í gildi, þ.e. þegar kemur að endurnýjun hans, þótt ekki sé hún þá jafnvíðtæk og í upphafi.
    Ýmsar reglur sem lagt er til að verði í þessum kafla er nú að finna í VI. kafla laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Eðlilegt þykir að reglur um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga sem lúta að vátryggingarsamningum þeirra við vátryggingartaka séu í frumvarpinu. Þótt einhverjar reglur II. kafla frumvarpsins um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga kunni að hafa á sér opinbersréttarlegan blæ geta þær þó allar haft einkaréttarleg áhrif, sumar í ríkum mæli. Af þeim sökum er lagt til að þær verði vistaðar í lögum um vátryggingarsamninga með eftirfarandi hætti. Í samræmi við þetta er lagt til að reglur þær sem nú eru í 56. gr., 1. og 2. mgr. 57. gr., 2. og 3. mgr. 58. gr. og 59. gr. verði í þessum kafla. Reglur sem lúta sérstaklega að líftryggingum eða öðrum persónutryggingum, þ.e. 60. gr., verði í II. hluta frumvarpsins um persónutryggingar, en reglur um val á löggjöf eða ákvörðun um það atriði, hvort heldur er í skaðatryggingum eða persónutryggingum, verði í III. hluta sem hefur að geyma almenn ákvæði. Ekki er gerð tillaga um að hreyft verði við reglum sem nú eru í 3. mgr. 57. gr. og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 60/1994, enda lúta þær reglur ekki með beinum hætti að réttarsambandi vátryggingafélags og vátryggjanda, heldur varða fyrst og fremst skyldur vátryggingafélaga gagnvart yfirvöldum.
    Í VSL eru ekki sérstök ákvæði um upplýsingaskyldu félaga við vátryggingartaka. Ákvæði laganna um upplýsingar, sem félögum ber að senda til vátryggingartaka eða hins vátryggða, eru fremur tilkynningar og viðvaranir, sbr. t.d. 8. og 48. gr., sem ætlað er að varna brottfalli réttinda félagsins og eru í þess þágu. Ákvæðin eru ekki í þágu vátryggingartaka, vátryggðs eða þriðja manns, en það er hins vegar tilgangur þeirra reglna sem gerð er tillaga um í þessum kafla frumvarpsins.
    Vátryggingar og samningar um þær eru flókið mál og fáir hafa þekkingu á þessum málaflokki. Þótt vátryggingafélög hafi vissulega veitt margs konar upplýsingar í kynningargögnum til viðskiptamanna sinna eða í almennum auglýsingum hefur það ekki verið kerfisbundið. Sjónarmið um aukna neytendavernd kalla á reglur um slíka upplýsingaskyldu vátryggingafélaga í þágu viðskiptamanna þeirra, eins og tillaga er gerð um í reglum kaflans.
    Þegar gerð er tillaga um efni reglna um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga er nauðsynlegt að skipa reglum þannig að þær tryggi möguleika vátryggingartaka á nægilegum upplýsingum til þess að hann geti sjálfur metið efni vátryggingarsamningsins. Ekki má þó ganga svo langt að íþyngja félögunum með kvöðum um upplýsingaskyldu þegar vátryggingartakinn hefur eða á að hafa upplýsingarnar eða sýnilega er þarflaust af öðrum ástæðum að láta hann fá þær, t.d. vegna þess að engar breytingar hafa orðið á skilmálum samningsins. Ekki er lagt til að vátryggingafélögum verði gert skylt að leggja fyrir vátryggingartaka upplýsingar um kjör og skilmála annarra félaga áður en vátryggingarsamningur er gerður. Veiti félag á hinn bóginn slíkar upplýsingar verða þær að vera réttar, ella getur félagið bakað sér ábyrgð. Lagaákvæði um slíka upplýsingagjöf og almennt um upplýsingagjöf til neytenda er að finna í VI. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993, með síðari breytingum. Er því óþarfi að hafa ítarlegri reglur um það hér.
    Rétt er að taka af allan vafa um að ákvæði frumvarpsins takmarka ekki rétt vátryggingafélaga og vátryggingartaka til þess að nýta sér þá samskiptatækni sem almennt er á boðstólum. Þannig kemur ekkert í veg fyrir að samskipti vátryggingartaka og vátryggingafélags megi fara fram með rafrænum hætti, t.d. með sendingu á tölvupósti á milli aðila, enda gefi vátryggingartaki sérstakt samþykki sitt fyrir slíkum samskiptamáta. Af sjálfu sér leiðir að ákvæði laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, gilda um slík viðskipti, eftir því sem við á, sbr. og lög nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Sé þessi samskiptaháttur nýttur hvílir sú ábyrgð á vátryggingartaka að halda vátryggjanda ávallt upplýstum um þær breytingar sem kunna að verða á tölvupóstfangi hans. Á vátryggingafélagi hvílir sönnunarbyrði um að það hafi veitt tilskildar upplýsingar eða afhent rafrænt tilskilin gögn og skilmála komi til ágreinings um slíkt. Það verður því mikilvægt fyrir vátryggjanda að varðveita upplýsingar um þau samskipti sem hann hefur átt við vátryggingartaka. Ákvæði frumvarpsins, sem kveða á um afhendingu tiltekinna upplýsinga, vátryggingarskírteina, vátryggingarskilmála eða annarra gagna, ber þar af leiðandi ekki að túlka svo að þau komi í veg fyrir rafræna miðlun upplýsinga.

Um 4. gr.

    Í greininni er gerð tillaga að reglu um upplýsingaskyldu vátryggingafélags, eða þess sem kemur fram fyrir þess hönd, áður en vátryggingarsamningur er gerður. Reglan er mikilvæg vegna þess að á því stigi hefur vátryggingartaki mesta þörf fyrir upplýsingar og vandaða ráðgjöf.
    Markmið reglunnar um upplýsingaskyldu vátryggingafélags kemur fram í 1. mgr., þ.e. það á að veita vátryggingartaka þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að hann geti metið tilboð félagsins. Þörf vátryggingartaka fyrir upplýsingar er mismunandi. Flestir þurfa miklar upplýsingar og marga þarf að upplýsa um grundvallaratriði, en aðrir hafa þekkingu á vátryggingum og þurfa því ekki miklar upplýsingar. Upplýsingaskyldan er samkvæmt þessu afstæð, þ.e. háð því hve ríka þörf vátryggingartaki hefur fyrir upplýsingar. Félagið verður að leggja mat á það hve miklar upplýsingar vátryggingartaki þarf og haga upplýsingagjöf í samræmi við það. Í skaðatryggingum er ekki gert ráð fyrir því að félagið þurfi að rannsaka sjálft hverjar séu þarfir vátryggingartaka fyrir tryggingu, heldur geti það byggt ráðgjöf sína um það á þeim upplýsingum sem hann sjálfur veitir og liggja fyrir. Aðrar og ríkari skyldur hvíla á vátryggingafélögum þegar um persónutryggingar er að ræða. Einnig eru þar sérákvæði um takmarkanir á heimildum vátryggingafélaga til þess að afla sér tilgreindra upplýsinga, t.d. um arfgenga sjúkdóma.
    Sömu skyldur hvíla á vátryggingamiðlurum.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er sérstaklega hnykkt á því að félaginu beri að gera vátryggingartaka grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir séu á gildissviði vátryggingar eða þeirri vernd sem hún veitir. Einnig hér verður félagið að meta það hvaða væntingar vátryggingartakinn hefur og af því ræðst upplýsingaskylda þess, svo sem fyrr greinir.
    Í 2. mgr. er lögð sú skylda á félagið að upplýsa um, í vátryggingarskírteini eða vátryggingarskilmálum, hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar og ágreiningsmála sem varða vátryggingarsamninga og um rétt til þess að bera deilumál undir dómstóla. Sambærileg regla er nú í 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 60/1994. Sjá enn fremur athugasemdir við 141. gr. frumvarpsins.
    Sú skylda sem lögð er á félagið samkvæmt þessari grein til að veita viðsemjendum sínum upplýsingar er mjög þýðingarmikil fyrir þá. Því er mikilvægt að vel sé að henni staðið. Miðað við umfang vátryggingastarfsemi í nútímaþjóðfélagi er þó ljóst að upplýsingarnar hljóta a.m.k. að mestu að vera staðlaðar og kynntar þannig. Viðsemjandi vátryggingafélags hefur hér og nokkrar skyldur, einkum að því leyti að hann verður að bera sig eftir upplýsingum og leitast við að tileinka sér þær svo sem kostur er. Reglur um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga eru tilgangslausar ef ekki hvílir sú skylda á viðsemjendum félagsins að þeir leitist við, eftir því sem þeir hafa forsendur til, að biðja um upplýsingar og tileinka sér þær.
    Í greininni er ekki að finna reglur um réttaráhrif þess að félagið sinnir ekki þeirri upplýsingaskyldu sem á því hvílir. Þau hljóta því að ráðast af almennum reglum og er svigrúm dómstóla nokkurt við ákvörðun um það. Oft gæti það leitt til þess að félagið gæti ekki borið fyrir sig takmarkanir á gildissviði vátryggingar, en önnur réttaráhrif kæmu einnig til greina.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er regla um tungumál vátryggingarskilmála. Sambærileg regla er í 59. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, og er þetta ein af þeim reglum sem lagt er til að fluttar verði í lög um vátryggingarsamninga. Reglan þarfnast ekki sérstakra skýringa hér. Hún er í samræmi við meginreglur samkeppnislaga um að auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku, sbr. 1. mgr. 22. gr. þeirra laga, svo og almennir skilmálar þjónustuaðila sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi, sbr. 2. mgr. 23. gr., sbr. og 3. gr. laga nr. 24/1994, um breyting á samkeppnislögum.

Um 6. gr.

    Í greininni eru reglur um upplýsingaskyldu vátryggingafélags um efni löggjafar sem samningssambandið á að lúta. Ákvæði greinarinnar er miðað við að upplýsingaskylda félagsins sé misjafnlega rík eftir því hvort íslensk lög eiga að gilda um vátryggingarsamninginn eða erlend. Af sjálfu leiðir að oftast mundi vera um íslensk lög að ræða. Í þeim tilvikum hvílir ekki fyrirvaralaus skylda á vátryggingafélagi að upplýsa um efni löggjafar þeirrar sem gildir um samninginn. Upplýsingaskyldu er þá aðeins til að dreifa ef vátryggingartaki hefur þörf fyrir upplýsingar. Félagið verður að meta eftir aðstæðum hvort vátryggingartaki þurfi slíkar upplýsingar. Ljóst er að einstaklingar sem eru að vátryggja í fyrsta sinn, nýbúar og aðrir sem ekki er hægt að ætlast til að þekki til íslenskrar löggjafar hafa ríka þörf fyrir upplýsingar. Á hinn bóginn er ljóst að rekstraraðilar sem hafa langa reynslu af töku vátrygginga og einstaklingar með reynslu og þekkingu af vátryggingu hafa mun síður, eða jafnvel alls ekki, þörf fyrir slíkar upplýsingar. Í þeim tilvikum sem lög annars lands eiga að gilda um réttarsambandið hvílir fyrirvaralaus upplýsingaskylda á félaginu. Umfang upplýsingaskyldunnar hlýtur reyndar einnig hér að vera mismunandi eftir þörfum vátryggingartakans fyrir upplýsingar. Íslenskur aðili sem tekur vátryggingu sem erlendar réttarreglur eiga að gilda um þarf greinargóðar upplýsingar um efni þeirrar löggjafar til þess að geta metið réttarstöðu sína. Annað gæti átt við um borgara í því landi sem löggjöfin er frá.
    Ákvæði sambærileg 6. gr. eru nú í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 56. gr. laga nr. 60/1994, en reglur frumvarpsins eru þó ekki eins fyrirvaralausar, enda má ætla að of langt sé gengið í efni tilgreindra lagareglna í þeim tilvikum sem íslenskar réttarreglur eiga að gilda um réttarsambandið.
    Þess ber einnig að geta að stundum er þjónusta sú sem vátryggingafélagið veitir samsett, þ.e. annars vegar vátrygging en hins vegar annars konar fjármálaþjónusta, sem tengist vátryggingunni með einum eða öðrum hætti. Þetta er algengt í persónutryggingum og vísast til umfjöllunar í skýringum við ákvæði X. kafla frumvarpsins um það. Þegar skaðatryggingar eru boðnar sem hluti af samsettri þjónustu tekur upplýsingaskyldan einnig til efnis löggjafar um aðra þætti þjónustunnar, enda er slíkt nauðsynlegt til þess að vátryggingartakinn geti metið réttarstöðuna í heild sinni. Upplýsingaskyldan í þeim tilvikum er einnig afstæð í þeim skilningi sem rakinn er að framan.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er að finna reglur um skyldur félagsins til þess að veita upplýsingar um það sjálft. Reglur þessar eru nú í 1. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 60/1994, en lagt er til að þær verði fluttar í lög um vátryggingarsamninga, enda lúta þær að skyldum félagsins gagnvart viðsemjendum þess, vátryggingartökum. Ekki þarf að skýra reglurnar frekar hér.

Um 8. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um skyldur þeirra, sem hafa með höndum sölu vátrygginga á vegum vátryggingafélaga til þess að sanna á hvers vegum þeir starfa. Sama regla er nú í 1. málsl. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 60/1994. Regla 2. málsl. 2. mgr. 58. gr. er ekki tekin með hér, heldur er gerð tillaga um aðra reglu sem er í betra samræmi við meginregluna um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga í 4. gr. Sú regla mundi missa marks ef ekki yrðu gerðar sömu kröfur til þeirra sem koma fram fyrir hönd vátryggingafélaga, annast sölu vátrygginga eða koma af öðrum ástæðum fram fyrir hönd félaganna fyrir, við gerð eða endurnýjun vátryggingarsamninga. Þetta á einkum við um skaðatryggingar, þar sem ekki er viðtekin venja að fyrirvari sé á gildi vátrygginga. Öðru máli kann að gegna um persónutryggingar, en vísað er til sérstakra skýringa um þær.
    Tekið skal fram að ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um vátryggingamiðlara, enda gilda um þá og skyldur þeirra sérstakar reglur í IX. kafla laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Lagt er til að við þeim reglum verði ekki hreyft.

Um 9. gr.

    Reglan í þessari grein er nú í 3. mgr. 58. gr. laga nr. 60/1994, en lagt er til að hún verði í lögum um vátryggingarsamninga. Sú breyting á orðalagi reglunnar að vísa til annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta er til komin vegna hagsmuna þeirra sem bótarétt eiga á hendur þeim sem hefur ábyrgðartryggingu, enda gera aðrar reglur frumvarpsins ráð fyrir mun rýmri rétti þeirra gagnvart vátryggingafélagi, en núgildandi reglur VSL. Þótt regla 2. mgr. kveði á um upplýsingaskyldu um bótarétt og uppgjör er eðlilegt að skipa henni með reglum þessa kafla um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga. Oft getur verið rík þörf fyrir slíkar upplýsingar og rétt að taka af skarið um skyldu til þess að veita þær.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Í greininni er tillaga að reglum um upplýsingaskyldu vátryggingafélags eftir að vátryggingarsamningur er á kominn. Kveðið er á um skyldu félagsins til þess að senda vátryggingartaka vátryggingarskírteini sem er staðfesting á því að vátryggingarsamningur sé á kominn. Enn fremur er gert ráð fyrir að skilmálum vátryggingar sé komið á framfæri við vátryggingartaka.
    Vátryggingarskírteinið er sem fyrr greinir staðfesting um vátryggingu. Það á að hafa upplýsingar- og sönnunargildi um efni réttarsambandsins, en í því felst í sjálfu sér ekki samningur og upplýsingar sem í því eiga að vera eru ekki sjálfstæðir samningsskilmálar, heldur einungis upplýsingar um það sem áður hefur verið samið um.
    Tilgangur vátryggingarskírteinis er í raun þríþættur, þ.e.:
    Því er í fyrsta lagi ætlað að vera staðfesting á því að vátryggingarsamningur hafi komist á.
    Í öðru lagi á skírteinið að hafa að geyma tilvísun til þeirra skilmála sem eiga að gilda um vátryggingarsamninginn,
    Í þriðja lagi á að tilgreina í því þær reglur, þ.m.t. varúðarreglur, sem hafa sérstaka þýðingu fyrir vátryggingartaka.
    Nánar verður komið að þessu síðar.
    Tilgangurinn með því að hafa reglur um útgáfu vátryggingarskírteinis sem staðfestingu vátryggingarsamnings er að minna vátryggingartakann á helstu atriði samningsins, þannig að hann verði meðvitaðri um þá vernd sem vátryggingin veitir honum og þær sérstöku skyldur sem á honum kunna að hvíla til þess að hann njóti verndarinnar. Af þessu leiðir að efni vátryggingarskírteinis þarf að vera eins skýrt og kostur er og aðgengilegt fyrir vátryggingartakann.
    Vakin er sérstök athygli á því að orðalag 1. málsl. 1. mgr. mælir fyrir um að vátryggingarskírteini skuli senda þegar samningur hefur verið gerður og þegar ákveðið er hvaða skilmálar gilda um vátrygginguna. Þetta gefur til kynna að ekki þurfi alltaf að vera ljóst þegar vátryggingarsamningur er gerður hvaða skilmálar gildi um vátrygginguna. Nauðsynlegt er, þótt langoftast liggi þetta fyrir í stöðluðum skilmálum sem kynntir eru við gerð vátryggingarsamnings, að gefa færi á því að efni skilmála kunni að verða endanlega ákveðið síðar. Á þetta einkum við um vátryggingar rekstraraðila þar sem nauðsynlegt kann að vera fyrir félagið að áskilja sér rétt til að skoða fasteignir og lausafé til þess að geta samið endanlega um efni skilmála, t.d. um varúðarráðstafanir sem vátryggingartakinn eða hinn vátryggði þarf að gera. Slík tilvik yrðu þó væntanlega mjög fátíð og almennt bundin við vátryggingar hjá rekstraraðilum. Það er augljós ókostur við þessa skipan að frá því að vátryggingarsamningur er gerður og þar til vátryggingarskírteini og skilmálar eru send getur liðið nokkur tími þar sem óvissa er um réttarstöðu vátryggingartakans og félagsins. Við þetta verður að una, en fram úr slíkri óvissu verður, ef nauðsyn krefur, að ráða með túlkun þeirra gagna og upplýsinga sem fyrir lágu í aðdraganda samningsgerðarinnar.
    Í 2. mgr. er tillaga um þau atriði sem fram eiga að koma í vátryggingarskírteini.
    Í a-lið er kveðið á um að heiti vátryggingar skuli tilgreint í vátryggingarskírteini. Ætla má að heiti vátryggingarinnar sé lýsandi um gildissvið hennar og þá vátryggingarvernd sem vátryggingartaki má almennt ætla að hún veiti.
    Efni b- og c-liðar þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Í d-lið er kveðið á um að tilgreina skuli iðgjald vátryggingarinnar og jafnframt skuli það koma fram ef vátryggjandi hefur gert þann fyrirvara um ábyrgð að hún hefjist fyrst þegar fyrsta iðgjaldið er greitt. Meginreglan er sú skv. 13. gr. frumvarpsins að ábyrgð félagsins hefst strax og það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð hins, en þetta er þó eitt af þeim atriðum sem heimilt er að semja um, enda kemur það fram í 13. gr.
    Í e-lið er félaginu gert að tilgreina hvaða takmarkanir það hafi gert á ábyrgð sinni í tengslum við breytingar á áhættu. Hér er um að ræða takmarkanir á ábyrgð sem tengjast ráðstöfunum sem vátryggði eða annar gerir á meðan vátryggingarsamningur er í gildi, en ekki undanþegnar áhættur í venjulegum skilningi. Ákvæði eins og þau sem hér falla undir geta skipt vátryggingartaka miklu máli, m.a. falið í sér leiðbeiningar um hvernig hann þurfi að meðhöndla vátryggðan hlut til þess að njóta hámarksverndar hverju sinni. Þess vegna er eðlilegt að athygli hans sé vakin á þessu í vátryggingarskírteininu.
    Í f-lið skal koma fram hvaða varúðarreglur félagið hefur sett. Mælt er fyrir um að félagið geti um varúðarreglur vísað til tiltekinna reglna í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða hliðstæðum fyrirmælum, ef sanngjarnt er að ætla að vátryggingartaki þekki, eða geti þekkt, efni þeirra. Við mat á því hvað sanngjarnt skyldi telja í þessu sambandi yrði fyrst og fremst að líta til stöðu vátryggingartaka og sérþekkingar hans. Þó má almennt ætlast til að vátryggingartaka megi vera kunnugt um efni laga og stjórnvaldsreglna sem birt er með stjórnskipulega réttum hætti. Verður að hafa hér til hliðsjónar meginreglu 4. gr. um að félaginu sé skylt að haga upplýsingagjöf þannig að vátryggingartakinn sé í stakk búinn til þess að meta tilboð þess. Samkvæmt því ber félaginu að vekja athygli hans á efni þeirra varúðarreglna, sem gilda eiga þegar vátryggingarsamningur er gerður og í skírteininu á að rifja upp fyrir honum meginefni þessara reglna. Tilvísanir til varúðarreglna verða að vera skýrar og ótvíræðar þannig að ekki fari milli mála hvaða skyldur hvíla á vátryggingartaka eða vátryggðum vegna þeirra.
    Í g-lið er kveðið á um að félagið eigi að tilgreina í vátryggingarskírteini hvaða frest vátryggingartaki hefur til þess að tilkynna um vátryggingaratburð. Reglur um þetta eru í 51. gr. frumvarpsins, en þar er kveðið á um að vátryggingartaki/vátryggður eigi að tilkynna félaginu um kröfu sína innan árs frá því að honum varð kunnugt um þau atvik sem krafan grundvallast á. Nauðsynlegt þykir að athygli vátryggingartakans sé vakin á þessum fresti.
    Atriði þau sem tilgreind eru í a–g-lið eru lágmarkskröfur sem til vátryggingafélaga eru gerðar. Sjálfsagt er fyrir þau að tiltaka fleiri atriði ef þau hafa sambærilega þýðingu fyrir réttarstöðu vátryggingartakans eða hins vátryggða, svo sem ef honum er skylt að senda tilkynningar til félagsins af einhverjum tilteknum ástæðum. Varast ber þó að hafa vátryggingarskírteini of efnismikið, enda gæti það þá misst marks og ekki verið sú áminning sem því er ætlað. Vátryggingarskírteini er beint til vátryggingartaka og er ekki í reglum frumvarpsins um skaðatryggingar sérstaklega gert ráð fyrir því að aðrir fái það í hendur, jafnvel þótt þeir kunni að hafa af því brýna hagsmuni.
    Í 3. mgr. 10. gr. er ákvæði um réttaráhrif þess að félagið vanræki skyldur sínar um að senda vátryggingarskírteini eða efni þess er ófullnægjandi. Meginreglan um afleiðingar þess er sú að félagið getur ekki borið fyrir sig viðkomandi ákvæði og ber því hallann af vanrækslu sinni. Frá þessu er gerð sú undantekning að ef félagið sannar að vátryggingartaka eða hinum vátryggða, ef hann er ekki hinn sami, hafi samt sem áður verið kunnugt um það atriði, sem þó var ekki getið um í vátryggingarskírteini. Takist slík sönnun getur félagið borið fyrir sig ákvæðið.

Um 11. gr.

    Í greininni er að finna reglur um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga við endurnýjun vátryggingar. Svo sem greinir að framan er þörf vátryggingartaka fyrir upplýsingar mest þegar vátryggingarsamningur er gerður. Að jafnaði er því ekki ástæða til viðamikillar upplýsingagjafar við endurnýjun vátryggingar. Frá þessu eru þó tvær meginundantekningar.
    Annars vegar er lagt til að vátryggingafélagi verði skylt að upplýsa vátryggingartaka um nýja valkosti í vátryggingum sem skipt geta máli fyrir hann og um viðbótarvátryggingarvernd sem til er komin eftir að vátryggingarsamningur var gerður eða síðast endurnýjaður. Hér er um að ræða upplýsingar sem vátryggingartaki hefur ekki fengið áður frá félaginu en geta skipt máli fyrir hann þegar hann metur hvernig hann á að haga vátryggingarvernd á þeim hagsmunum sem hann hefur tekið vátryggingu á. Skýra verður þessa reglu svo að ekki hvíli skylda á félagi um að upplýsa vátryggingartaka um allar nýjungar sem til eru komnar eftir gerð vátryggingarsamnings eða síðustu endurnýjun hans, heldur aðeins nýjungar eða viðbótarvernd sem hafa þau tengsl við hina upphaflegu vátryggingu að eðlilegt kunni að vera að bæta henni við eða breyta um vátryggingar. Reglan gildir jafnframt aðeins um þær breytingar sem félagið getur ekki gert einhliða eftir þeim reglum sem er að finna í 18. gr. frumvarpsins, enda gilda samkvæmt þeirri grein sérstakar reglur um meðferð þeirra breytinga.
    Hins vegar er í 2. mgr. kveðið á um að félagið skuli minna vátryggingartaka á það við endurnýjun vátryggingar ef það hefur mælt fyrir um sérstakar takmarkanir á notkun vátryggðs hlutar eða mælt fyrir um varúðarreglur eða önnur sérstök samningsákvæði sem geta skipt miklu fyrir vátryggingartakann ef hann gætir ekki að skyldum sínum í því sambandi. Með sérstökum samningsákvæðum er t.d. vísað til óvenjulega hárrar eigin áhættu vátryggingartaka eða vátryggðs.
    Það mundi teljast fullnægjandi upplýsingagjöf samkvæmt þessari grein ef vátryggingafélag, í tilkynningu um fyrirhugaða endurnýjun vátryggingar, vísar til heimasíðu sinnar um frekari upplýsingar, sendir vátryggingartaka tölvupóst á uppgefið tölvupóstfang hans eða býður honum að hafa samband við félagið sem veitt getur frekari upplýsingar.

Um 12. gr.

    Samkvæmt V. kafla laga nr. 60/1994 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með þeim sem reka starfsemi samkvæmt þeim lögum. Sú stofnun mun því búa yfir sérþekkingu um vátryggingafélög og starfsemi þeirra. Eðlilegt er að stofnunin hafi einnig eftirlit með því að skilmálar vátryggingafélaga og önnur gögn sem þau nota í starfi sínu til þess að sinna upplýsingaskyldu séu í samræmi við reglur þær sem fram koma í þessum kafla frumvarpsins. Einnig er lagt til að mælt sé fyrir um sérstaka heimild viðskiptaráðherra til útgáfu reglugerðar um upplýsingaskylduna, þ.e. til þess að útfæra nánar reglur um hana og/eða til þess að lýsa því hvaða kröfur séu gerðar til þess að henni sé fullnægt.
    Ekki er þörf á efnislegum skýringum á þessari grein.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla eru gerðar tillögur um ýmsar grundvallarreglur sem lúta að vátryggingarsamningum. Um er að ræða reglur (fyllingarreglur) sem varða upphaf ábyrgðar félagsins (13. gr.), heimildir vátryggingartaka til þess að slíta vátryggingarsamningi með uppsögn (14. gr.) og heimildir félagsins til hins sama (15. gr.). Þá eru tillögur um reglur er varða heimildir félagsins til þess að breyta skilmálum vátryggingarsamnings (16. gr.) og um uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímanum (17. gr.). Loks er í 18. gr. tillaga um reglur er varða endurnýjun og breytingu á skilmálum vátryggingar við endurnýjun hennar.
    Í VSL eru ekki heildstæð ákvæði um þessi grundvallaratriði. Í þeim lögum eru ákvæði m.a. um upphaf ábyrgðar félagsins, ítarleg ákvæði um iðgjaldið og greiðslu þess, svo og um réttaráhrif vanskila. Auk þess er í 84. gr. laganna, sem er í kafla um brunatryggingar, ákvæði um framlengingu eða endurnýjun vátryggingarsamnings sem efnislega hefur verið farið eftir um aðrar tegundir vátrygginga.
    Með þeim ákvæðum sem eru í þessum kafla frumvarpsins er leitast við að setja fram heildstæðar reglur um nokkur grundvallaratriði vátryggingarsamninga. Þess er ekki að vænta að reglurnar leiði til verulegra breytinga á réttarástandinu í þessum efnum, þótt lögfestar verði. Reglur þessa kafla tengjast sérstaklega reglum V. kafla um iðgjaldið og greiðslu þess. Verða þær reglur skýrðar í umfjöllun um þann kafla.

Um 13. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um upphaf og lok ábyrgðar félagsins, en eins og fram kemur í upphafi greinarinnar kann að vera samið um annað en leiðir af ákvæðinu, eða það ákveðið í lögum. Þess ber að geta að reglur 13. gr. mundu, ef frumvarpið verður að lögum, víkja nokkuð frá almennum reglum samningaréttar um tímamark þess að loforð öðlist skuldbindingargildi. Ef þær yrðu látnar gilda mundi upphaf vátryggingartímabils hefjast þegar samþykki við tilboði kæmi til móttakandans, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Nauðsynlegt er að víkja frá hinum almennum reglum til þess að koma á samræmdri skipan, auk þess sem eðlilegt þykir að ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefjist í ýmsum tilvikum fyrr en leiða mundi af almennum reglum. Heimilt er að semja um upphaf vátryggingartímabils. Telji félagið að óeðlilegt sé að upphaf tímabilsins verði samkvæmt reglum þessarar greinar frumvarpsins yrði það að semja um annað tímamark.
    Í 1. mgr. er til samræmis við framanritað lagt til að ábyrgð félagsins hefjist þegar það eða vátryggingartakinn hefur samþykkt tilboð, eða eftir atvikum gagntilboð, hins. Hér getur bæði verið um að ræða tilvik þar sem skilmálar eru staðlaðir og sérstaklega umsamdir. Upphafstími ábyrgðar félagsins er færður fram með þeirri reglu sem hér er gerð tillaga um, þ.e. ábyrgðin mun hefjast þegar viðkomandi hefur samþykkt tilboð hins, en ekki þegar samþykkið er komið til viðsemjandans, eins og leiða mundi af almennum reglum, sbr. það sem sagt er að framan. Því þarf einungis að liggja fyrir ótvírætt samþykki, munnlegt eða skriflegt, til þess að vátryggingarsamningur öðlist gildi. Tilgangur ákvæðisins er að slá föstu að félagið beri ábyrgð á vátryggingaratburði sem verður frá því að samþykki liggur fyrir, þótt samþykkið sé ekki komið til þess eða vátryggingartaka. Reglan er ströng í garð vátryggingafélaga, en verður að teljast eðlileg, því við samþykki hafa báðir aðilar lagt mat á áhættuna og sammælst um skilmála og verð fyrir vátryggingu á henni. Á hinn bóginn er ljóst að það er sá sem heldur því fram að samþykki hafi legið fyrir sem hefur sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Samþykkið þarf að vera ótvírætt og sanna þarf að svo hafi verið.
    Í 2. mgr. er gerð tillaga um reglu sem einnig færir fram upphafstíma ábyrgðar félagsins miðað við það sem leiða mundi af almennum reglum. Ákvæðið getur einungis átt við þegar félagið hefur sent skriflegt samþykki til vátryggingartaka. Sé staðan sú hefst ábyrgð félagsins við upphaf þess dags þegar samþykkið er sent. Áskilið er að beiðni um vátryggingu hafi komið til félagsins a.m.k. daginn áður en samþykki er sent. Þessi áskilnaður er nauðsynlegur til verndar félaginu, svo staðan verði ekki sú að ábyrgð þess hefjist áður en beiðni er send. Slíkt gæti auðveldlega freistað til misnotkunar. Ákvæði 2. mgr. mundu gilda hvort sem vátryggingartaki hefur leitað eftir vátryggingu með munnlegu eða skriflegu erindi. Komi upp tilvik þar sem ákvæði 1. og 2. mgr. skarast að því leyti að tímamarkið á upphafi vátryggingartímabils yrði ekki hið sama verður að skýra ákvæðin svo að það sé tímamarkið er fyrr verður sem gildir. Í því felst að ef beiðni um vátryggingu berst t.d. til vátryggingafélags á mánudegi og það samþykkir beiðnina strax þann dag, t.d. í símtali, en sendir svo skriflegt samþykki daginn eftir, þ.e. á þriðjudegi, þá mundi upphaf vátryggingartímabils vera talið frá því tímamarki er samþykkið var gefið á mánudeginum, en ekki frá upphafi þriðjudagsins. Vátryggingaratburður sem yrði á mánudagskvöldi félli þannig undir vátryggingarsamninginn.
    Í 3. mgr. er regla sem flýtt getur enn upphafi vátryggingartímabils miðað við almennar reglur. Lagt er til að félagið skuli bera ábyrgð frá móttöku skriflegrar beiðni um tiltekna vátryggingu í þeim tilvikum sem ljóst er að það hefði þegar samþykkt beiðnina. Telja verður að mörg tilvik gætu fallið undir þessa reglu, enda miðast hún við beiðni um tilteknar vátryggingar þar sem skilmálar, þ.m.t. iðgjald, er staðlað eða fyrir fram um samið, svo sem er í flestum tilvikum. Mest gildi mundi reglan hafa í vátryggingum sem ætlaðar eru neytendum, eins og það hugtak er skilgreint í lögfræði, þ.e. einstaklingar sem óska eftir tryggingum á persónulegum hagsmunum sínum, sem ekki eru hluti af atvinnurekstri þeirra. Vart er unnt að ætla að reglunni verði beitt um tilvik þar sem félagið hefur ekki fyrir fram kynnt staðlaða skilmála og iðgjald eða um þetta hafi sérstaklega verið samið áður. Orðin ,,við móttöku hennar“ hafa sömu merkingu og orðin ,,komin til“ í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1936, en rík hefð er á skýringu þeirra orða í samningarétti. Þarf því ekki að fjalla um það nánar hér. Sönnunarbyrðin fyrir því að ljóst sé að félagið hefði þegar samþykkt beiðnina verður að hvíla á vátryggingartaka. Leiki vafi á um það hvort félagið hefði þegar samþykkt beiðnina yrði það laust undan ábyrgð. Eðli málsins samkvæmt getur félagið ekki samið sig undan þessu ákvæði.
    Í 4. mgr. er gerð tillaga að reglu sem tekur af skarið um það hvenær dags ábyrgð félagsins hefst og hvenær dags henni lýkur, þ.e. þegar um þetta er ekki samið sérstaklega, þótt dagurinn sjálfur sé tilgreindur. Reglan þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 14. gr.

    Í 14. og 15. gr. eru ákvæði um slit vátryggingarsamnings með uppsögn. VSL hafa ekki að geyma reglur um þessi mikilvægu atriði. Í vátryggingarskilmálum sem notaðir eru á íslenskum vátryggingarmarkaði eru yfirleitt ákvæði um uppsögn þess vátryggingarsamnings sem skilmálarnir varða. Oftast er báðum samningsaðilum veittur réttur til uppsagnar við tilteknar aðstæður, yfirleitt innan tiltekins frests frá því að vátryggingaratburður verður. Í sumum skilmálum er þó aðeins félaginu veittur þessi réttur og því ekki æskilegt jafnræði með aðilum. Mikilvægt er að settar séu reglur um það hvenær heimilt sé að segja upp vátryggingarsamningum, því meginreglur kröfuréttar fela það í sér að ekki er heimilt að slíta tímabundnum samningum, eins og vátryggingarsamningar eru almennt, með uppsögn. Ákvæði 14. og 15. gr. frumvarpsins fela í sér aðra stefnu, þ.e. lagt er til að réttur vátryggingartaka til að slíta vátryggingarsamningi með uppsögn verði nokkuð rýmri en réttur félagsins, sem í raun er afar takmarkaður.
    Þess skal einnig getið að sérreglur einstakra laga, t.d. um starfsábyrgðartryggingar ákveðinna starfsstétta, kunna að mæla fyrir um aðrar reglur um uppsagnir og mundu, eins og rakið er í almenna hluta greinargerðar þessarar, slík ákvæði ganga framar reglum þessarar greinar.
    Í 1. mgr. er byggt á því að meginreglan sé sú að vátryggingarsamningur, sem gerður er til ákveðins tíma, framlengist. Mælt er fyrir um heimild til þess að slíta samningnum með uppsögn við lok vátryggingartímabils. Í þessu felst í raun að vátryggingartaki getur komið í veg fyrir framlengingu samningsins, þannig að vart er hér um eiginlega uppsögn að ræða, þótt orðalag sé til einföldunar við það miðað. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að vátryggingartaki verði að bregðast við innan tiltekins frests ef hann vill koma í veg fyrir framlengingu vátryggingarsamnings. Fresturinn er að hámarki mánuður frá því að hann fékk tilkynningu. Frestur þessi er miðaður við að félögin sendi tilkynningar um sex vikum fyrir lok tímabilsins. Lagt er til að vátryggingartaki þurfi þó aldrei að segja upp vátryggingunni fyrr en tveimur vikum fyrir lok þess. Af því leiðir að ef félagið sendir tilkynningu með lengri fyrirvara en sex vikum getur vátryggingartakinn haft lengri frest en þann sem tilgreindur er í 1. málsl. þessarar málsgreinar.
    Í 2. mgr. er regla um raunverulegar uppsagnarheimildir vátryggingartaka, þ.e. utan þeirra tilvika sem greinir í 1. mgr. Á meðan vátryggingarsamningur er í gildi getur vátryggingartaki slitið honum með uppsögn í tveimur megintilvikum. Annars vegar þegar hann hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna og hins vegar ef fyrir hendi eru önnur sérstök tilvik.
    Fyrrnefnda tilvikið, þ.e. þegar vátryggingartaki hefur ekki lengur þörf fyrir vátrygginguna, mundi einkum eiga við þegar hann hefur selt hina vátryggðu hagsmuni eða losað sig við þá með öðrum hætti.
    Síðarnefndu tilvikin, þ.e. að fyrir hendi séu önnur sérstök tilvik, verða að vera þess eðlis að þau réttlæti uppsögn. Það verða því að vera fyrir hendi málefnalegar ástæður fyrir uppsögninni, ástæður sem segja má að feli í sér að forsendur fyrir samningssambandinu við félagið séu brostnar. Í þessum tilvikum yrði að leggja til grundvallar sanngirnismat. Sönnunarbyrði fyrir því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti uppsögn hvílir á vátryggingartakanum. Í ljósi meginreglunnar um að samningar séu skuldbindandi þann tíma sem þeir eiga að gilda verður að gera nokkrar kröfur til þeirra ástæðna sem vátryggingartaki byggir uppsögn á. Það teldust t.d. ekki sérstakar ástæður í þessum skilningi þótt vátryggingartaki fyndi út að annað félag byði betri vátryggingarvernd eða sömu vátryggingarvernd fyrir lægra iðgjald. Ýmis dæmi mætti nefna um tilvik þar sem telja má sanngjarnt að vátryggingartaki segi vátryggingunni upp. Það verður, svo sem fyrr greinir, að vera niðurstaða sanngirnismats að slíkt teljist heimilt. Ef vátryggingartaka verður ljóst að vátryggingarvernd sú sem hann nýtur sé allsendis ófullnægjandi og honum verður einnig ljóst að hann geti fengið þá vernd sem hann þarf hjá öðru félagi gæti verið að heimilt teldist að segja upp vátryggingunni. Við mat á því hvort sanngirnisskilyrðum teldist fullnægt skipti án efa máli hvort vátryggingartaki hefði gefið félagi því er veitti honum upphaflega vátryggingu kost á að breyta skilmálum í það horf sem hann taldi sig hafa þörf fyrir. Meginreglan er samt sem áður ótvírætt sú, er að framan greinir, að það réttlæti ekki uppsögn þótt vátryggingartaki hafi spurnir af betri kjörum, t.d. lægra iðgjaldi, annars staðar. Annað, sem réttlætt gæti uppsögn, er ef ágreiningsmál koma upp milli vátryggingartaka og félagsins vegna uppgjörs bóta eða þess háttar, þannig að eðlilegt sé að hann geti losnað úr viðskiptum við félagið.
    Þótt gera eigi nokkrar kröfur til þeirra ástæðna sem uppsögn byggist á verður að greina á milli uppsagnar og riftunar og verða því ekki gerðar neinar slíkar kröfur til ástæðna uppsagnar sem þurfa að vera fyrir hendi til að réttlæta riftun.
    Sérregla á skv. 3. mgr. að gilda um hópvátryggingar. Samkvæmt því er lagt til að í hópvátryggingum geti gilt aðrar reglur en mælt er fyrir um í 2. mgr. enda sé um það samið og er beinlínis tekið fram að í hópvátryggingum sé heimilt að víkja frá reglu 2. mgr. með samningum. Regla sú sem gerð er tillaga um í 3. mgr. er nauðsynleg vegna hinna sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi geta verið í hópvátryggingum. Geta slíkir samningar bæði leitt til rýmri eða eftir atvikum þrengri réttar vátryggingartaka til að segja upp vátryggingarsamningi en leiðir af 2. mgr.

Um 15. gr.

    Meginregla sú sem lögð er til um rétt vátryggingafélags til uppsagnar kemur fram í 1. mgr., en hún er á þann veg að almennt eigi félagið ekki að hafa rétt til að slíta vátryggingarsamningi með uppsögn á vátryggingartíma. Frá þessari meginreglu eru gerðar nokkrar undantekningar. Í fyrsta lagi er vátryggingafélagi heimilt að segja upp vátryggingarsamningi samkvæmt reglum 21. gr., þ.e. þegar vátryggingartaki hefur í verulegum efnum veitt rangar upplýsingar við gerð vátryggingarsamnings. Í öðru lagi ef vátryggingartaki hefur með ásetningi veitt rangar upplýsingar við uppgjör vátryggingabóta, sbr. 3. mgr. 47. gr., en það ákvæði felur í sér víðtækar uppsagnarheimildir fyrir félagið, sem hér gilda einnig. Um nánari útlistun þessara tveggja skilyrða vísast til skýringa við þær greinar sem vísað er til, enda hefur regla 1. málsl. vart sjálfstæða þýðingu, heldur er hún ítrekun á þeim reglum sem gilda samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum. Er nauðsynlegt samhengisins vegna og til að fá heildarmynd af uppsagnarheimildum félagsins að orða 1. mgr. með þeim hætti sem lagt er til. Utan þessara tveggja tilgreindu tilvika getur félagið því aðeins slitið vátryggingarsamningi með uppsögn að fyrir hendi séu sérstök atvik, sem að auki þarf að tilgreina skýrlega í vátryggingarskilmálum, enda sé það skilyrði líka uppfyllt að telja megi uppsögnina sanngjarna. Ljóst má vera að möguleikar félagsins til uppsagnar samkvæmt þessu eru takmarkaðir. Sem dæmi um sérstök atvik sem gætu fallið hér undir mætti nefna þegar trúnaðartraust milli félagsins og vátryggingartaka er ekki lengur fyrir hendi eða áhættumatið sem félagið lagði til grundvallar og miðaði iðgjaldið við hefur gerbreyst, án þess að félagið öðlist rétt til uppsagnar á grundvelli 21. gr. Í slíkum tilvikum má ætla að forsendur vátryggingarsamningsins séu brostnar og eðlilegt að félagið geti losnað við samningsskuldbindingar sínar með uppsögn, enda sé kröfunni um að sanngirnisrök leiði til hins sama fullnægt.
    Ef félagið segir upp vátryggingarsamningi með stoð í reglum þessarar málsgreinar verður það að rökstyðja uppsögnina og það hefur sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði hennar séu fyrir hendi. Áskilnaður sá sem vátryggingafélög gera í skilmálum sínum nú um heimild til uppsagnar innan tiltekins frests eftir að vátryggingaratburður hefur orðið yrði óheimill ef þessar reglur frumvarpsins yrðu að lögum. Hins vegar hefðu félögin, ef reglurnar yrðu lögfestar, traustan lagagrundvöll til þess að slíta vátryggingarsamningum við vátryggingartaka með uppsögn ef hann yrði uppvís að því að gefa af ásetningi rangar upplýsingar við uppgjör vátryggingabóta samkvæmt einum slíkum samningi.
    Í 2. mgr. er lagt til að vátryggingafélaginu sé gert að segja upp vátryggingarsamningi án ástæðulauss dráttar eftir að því varð kunnugt um atvik sem veittu því rétt til uppsagnar. Félagið þarf því ekki að grípa strax til uppsagnar, heldur hefur það sanngjarnan tíma til þess að meta, hvort það telur rétt að nýta uppsagnarrétt sinn. Viðskiptaleg sjónarmið geta leitt til þess að félag kýs ekki að nota heimildir sínar skv. 1. mgr. Eðlilegt er því að félagið hafi svigrúm til þess að meta afleiðingar uppsagnar, enda viðskiptaöryggi fyrir bestu að samningum sé ekki slitið án yfirvegunar. Í 2. og 3. málsl. 2. mgr. eru reglur um framkvæmd uppsagnar þegar félagið ákveður að neyta þess réttar síns. Þarfnast þær reglur ekki skýringa, en rétt er þó að geta þess að óhjákvæmilegt er að mæla fyrir um tveggja mánaða uppsagnarfrest, enda geta miklir hagsmunir verið í húfi fyrir vátryggingartaka og hann verður að hafa svigrúm til þess að vernda hagsmuni sína með öðrum hætti, t.d. með því að semja við önnur félög um vátryggingar. Vera má að tveir mánuðir séu langur frestur, einkum í ljósi þess að félagið ber fulla ábyrgð samkvæmt vátryggingarsamningi á meðan. Á hitt er þó einnig að líta að uppsögn á grundvelli 1. mgr. getur í sjálfu sér farið fram af ástæðum sem vátryggingartaka verður ekki um kennt. Því er eðlilegt að taka einnig tillit til hagsmuna hans þegar fresturinn er ákveðinn.
    Áréttað skal það sem fram hefur komið að sérákvæði í lögum kunna að mæla fyrir um annan uppsagnarfrest. Það kann t.d. að gilda um lögboðnar starfsábyrgðartryggingar.
    Í 3. mgr. er lagt til að félaginu sé skylt að upplýsa vátryggingartaka um málskotsleiðir þegar það segir upp samningnum. Tilkynningin skal vera rökstudd eins og segir í 2. mgr. og í henni verður að koma skýrlega fram hvaða málskotsleiðir séu fyrir hendi.
    Reglu 4. mgr. er ætlað að girða fyrir að félögin hafi í skilmálum vátrygginga ákvæði um að vátryggingarsamningurinn, eða ábyrgð félagsins falli niður við tilteknar aðstæður. Af 4. mgr. leiðir að þær ástæður geta ekki verið með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. og sömu skilyrðum verður að vera fullnægt.

Um 16. gr.

    Í 16. gr. er mikilvæg regla um breytingar á skilmálum vátryggingarsamninga á vátryggingartímabili. Félaginu er heimilt að breyta skilmálum til hagsbóta fyrir vátryggingartaka hvenær sem er á tímabilinu. Ákvæðið á því aðeins við þegar breytingar á skilmálum rýra stöðu vátryggingartakans. Meginregla ákvæðisins er ótvíræð. Vátryggingafélag getur ekki breytt vátryggingarskilmálum á vátryggingartímabilinu, og er sú niðurstaða í samræmi við almennar reglur samningaréttar. Í ákvæðinu felst jafnframt að áskilnaður félags þessa efnis í vátryggingarsamningi mundi vera að vettugi virðandi. Þótt regla þessi kunni að vera ströng í garð félaganna er á það að líta að almennt er vátryggingartímabilið eitt ár. Sjaldgæft verður að telja að félagið hafi hagsmuni af því að breyta skilmálum á þessu eina ári. Má því ætla að hagsmunum félagsins sé borgið annars vegar með þeim heimildum sem það hefur til breytinga við endurnýjun skv. 18. gr. og hins vegar með heimildum þess til að segja upp vátryggingarsamningi skv. 15. gr. Eins og síðar verður vikið að gilda sérstök sjónarmið um breytingar á skilmálum í sumum tegundum persónutrygginga og í hóptryggingum og eru gerðar tillögur að sérstökum reglum um þau tilvik.

Um 17. gr.

    Þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartímabilinu geta risið álitamál um hvernig uppgjör skuli vera, einkum vegna þess að iðgjaldið er oftast greitt fyrir fram að fullu eða fyrir hluta af vátryggingartímabilinu. Nauðsynlegt var því talið að gera tillögu að reglu um uppgjör í þessum tilvikum. Meginreglan er einföld og miðast við að vátryggingartaki greiði aðeins iðgjald fyrir þann tíma sem vátrygging var í gildi. Félaginu ber því að endurgreiða honum iðgjaldið vegna þess hluta tímabilsins sem hann hefur þegar greitt en vátrygging er ekki í gildi. Sérstaklega er tekið fram að þetta eigi við þótt félagið sé ella laust úr ábyrgð í heild eða að hluta. Með þessu er átt við tilvik þar sem félagið losnar úr ábyrgð, t.d. vegna þess að vátryggingartaki hefur af ásetningi valdið vátryggingaratburði. Í slíkum tilvikum verður uppgjör iðgjalds einnig að fara fram. Ljóst er þó að félagið getur skuldajafnað kröfum um skaðabætur, sem það á á hendur hinum vátryggða í slíkum tilvikum, við það iðgjald sem það þarf að endurgreiða. Regla þessi er sjálfsögð og þarf ekki að skipa henni í lagatextann. Um skuldajöfnuð við uppgjör er annars vísað til reglna VIII. kafla frumvarpsins. Það telst hins vegar ekki slit á vátryggingarsamningi þegar andvirði vátryggðs munar er greitt út við altjón og vátryggingin fellur niður af þeim orsökum. Þegar svo stendur á hefur vátryggjandi fullnægt ákvæðum samnings og skiptir þá engu hvenær á samningstímanum bætur eru greiddar. Sem dæmi um slíkt má nefna það tilvik er andvirði húftryggðs (kaskótryggðs) ökutækis er greitt út á miðju vátryggingartímabili.
    Í 3. málsl. greinarinnar er gerð tillaga að reglu sem kveður á um að í skilmálum vátryggingarinnar skuli vera reglur um útreikning iðgjalds fyrir slík tilvik eða vísað til slíkra reglna. Skýra ber þetta ákvæði svo að með þessu sé félögunum veitt færi á því að víkja frá reglunni um nákvæmt hlutfallsuppgjör iðgjalds miðað við gildistíma tryggingar og upphaflegt vátryggingartímabil, sem greitt hefur verið iðgjald fyrir. Ekki er óeðlilegt að félagið geti áskilið sér nokkru hærri iðgjaldshluta ef gildistími vátryggingar verður helmingi styttri en upphaflega var um samið. Félagið hefur haft kostnað af gerð vátryggingarsamnings, skilmála og við að sinna upplýsingaskyldu þeirri sem lögð er til í frumvarpi þessu. Eðlilegt er líka að félagið hafi rétt til þess að kveða í skilmálum, eða í reglum sem þar er skýrlega vísað til, á um lágmark þeirrar fjárhæðar sem endurgreiða þarf og einnig að það geti áskilið sér endurgjald fyrir sannanlegan kostnað, t.d. í þeim tilvikum sem uppsögn fer fram af ástæðum sem vátryggingartaka verður um kennt. Verður að telja að í þessum efnum sé vátryggingartaka næg vernd í ógildingarreglu 36. gr. laga nr. 7/1936, með síðari breytingum.

Um 18. gr.

    Í þessari grein eru ítarlegar reglur um framlengingu eða endurnýjun vátryggingarsamningsins og um heimildir til þess að breyta skilmálum hans í þeim tilvikum og hvernig farið skuli að í slíkum tilvikum.
    Í 1. mgr. er félaginu heimilað að koma í veg fyrir framlengingu vátryggingarsamnings fram yfir umsaminn gildistíma hans. Taki félagið slíka ákvörðun er mælt fyrir um fresti til að tilkynna um hana.
    Í 2. mgr. er lagt til að verulegar takmarkanir séu á heimildum vátryggingafélags til þess að nýta sér heimild 1. mgr. til að koma í veg fyrir framlengingu. Af reglu 2. mgr. leiðir að félagi er almennt skylt að framlengja vátryggingarsamning sem gerður er til ákveðins tíma, eins árs eða lengur, enda sé ekki skýrlega tekið fram í skilmálunum að vátrygging skuli falla úr gildi þegar vátryggingartímabilinu lýkur, sbr. lokamálslið málsgreinarinnar. Skilyrði þess að félagið geti komið sér hjá því að framlengja samninginn eru tilgreind í 2. mgr. Þau eru að sérstakar ástæður leiði til þess að sanngjarnt sé að framlengja ekki samninginn. Ekki ber aðeins að líta til hagsmuna félagsins við sanngirnismatið, heldur ekki síður til hagsmuna vátryggingartakans. Verður að telja fátítt að skilyrðum þessum yrði talið fullnægt, a.m.k. við venjulegar kringumstæður. Flestir vátryggingarsamningar gera ráð fyrir að vátryggingin gildi í eitt ár og framlengist síðan. Hið umsamda vátryggingartímabil hefur þá einkum þá þýðingu að það afmarkar þann tíma sem iðgjald er greitt fyrir hverju sinni. Undir ákvæði þessarar greinar falla því langflestir vátryggingarsamningar og hefur hún því mikið hagnýtt gildi. Tilvísun í 2. mgr. til tiltekinna reglna 15. gr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er svo að finna reglur um hvernig félagið skal fara að ef ætlunin er að breyta skilmálum vátryggingarinnar við endurnýjun hennar. Við endurnýjun vátryggingarinnar er meginreglan sú að skilmálar hennar, þ.m.t. fjárhæð iðgjalds, séu óbreyttir. Vilji félagið breyta skilmálunum verður það að hafa frumkvæði að því og tilkynna vátryggingartaka um fyrirhugaðar breytingar um leið og krafið er um iðgjöld fyrir næsta tímabil. Félagið verður að afhenda vátryggingartaka hina nýju skilmála og gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa frá gildandi skilmálum. Vátryggingartakinn verður að geta lagt mat á inntak þeirra breytinga sem um ræðir og meta hvort vátrygging með svo breyttum skilmálum fullnægir þeirri vernd sem hann óskar. Ef félagið vill breyta varúðarreglum, þannig að íþyngjandi sé fyrir vátryggingartakann, skal það afhenda honum eintak af hinum nýju varúðarreglum og gera honum grein fyrir breytingum sem ætlunin sé að gera. Víkja má frá þeirri skyldu félagsins að afhenda eintak af nýju varúðarreglunum innan þeirra marka sem tilgreind eru í 3. og 4. málsl.
    Ef vátryggingartakinn greiðir iðgjaldið eftir að hafa fengið á réttum tíma þær upplýsingar sem getið er að framan felst í því samþykki á breytingunum og þar með framlenging vátryggingarsamningsins með hinum nýju skilmálum.
    Félagið getur samkvæmt því sem mælt er fyrir um í lokamálslið 3. mgr. aðeins borið fyrir sig skilmálabreytingu ef hún er gerð eins og mælt er fyrir um í málsgreininni.
    Regla 3. mgr. á einungis við um breytingar á skilmálum. Félagið á þess ekki kost á grundvelli 3. mgr. að gera svo róttækar breytingar á skilmálum vátryggingarinnar að í raun sé um nýja vátryggingu að ræða í staðinn fyrir eða til viðbótar við hina eldri. Til slíks þyrfti félagið ótvírætt samþykki frá vátryggingartakanum. Ekki er alltaf víst að auðvelt sé að greina á milli þess hvenær vátryggingu er breytt og hvenær telja ber að um nýja vátryggingu sé að ræða eða viðbótarvátryggingu. Við mat á því væri ekki eingöngu hægt að líta til þess hvort félagið kallar tilfæringar sínar breytingar á vátryggingu eða ekki. Meta yrði hvort hinir nýju skilmálar breyttu eðli eða umfangi vátryggingar svo verulega að um nýja vátryggingu væri að ræða.
    Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 10. gr. frumvarpsins, sbr. og inngang að athugasemdum við II. kafla.

Um IV. kafla.

Almennt.
    Í þessum kafla eru tillögur að reglum um almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins. Leitast er við að setja þær fram með heildstæðum hætti og er þeim ætlað að taka til þess hvaða kosti félagið hefur til þess að takmarka ábyrgð sína eða losna að fullu undan ábyrgð, ef hinar almennu forsendur fyrir ábyrgð þess bresta eða reynast rangar. Reglur um þetta eru dreifðar í VSL, t.d. eru í 4.–10. gr. reglur um upplýsingaskyldu vátryggingartaka við samningsgerð, í 18.–20. gr. eru reglur um tilvik þar sem vátryggður veldur því af ásetningi eða ,,vangá“ að vátryggingaratburður verður. Í 21. gr. er mælt fyrir um tilkynningarskyldu vátryggðs þegar vátryggingaratburður verður og afleiðingar þess að sú skylda er vanrækt og í 45.–50. gr. eru ákvæði um aukna áhættu og réttaráhrif þess. Í 51. gr. eru ákvæði um varúðarreglur og afleiðingar þess að eftir þeim er ekki farið og í 52. gr. eru fyrirmæli um ráðstafanir til að varna tjóni og réttaráhrif þess að þeim er ekki sinnt. Þá eru ýmis önnur ákvæði dreifð í VSL sem varða efnið, t.d. í kafla um flutningatryggingar og um brunatryggingar, sbr. t.d. 85. gr. laganna.
    Svo sem fyrr greinir er í frumvarpi þessu leitast við að setja fram heildstæðar reglur um atriði sem lúta að almennum forsendum fyrir ábyrgð félagsins. Þótt frumvarpið feli því að formi til í sér miklar breytingar verður vart sagt að í því felist grundvallarbreytingar á þeim efnisreglum sem eru um sömu tilvik í VSL.
    Eðli vátryggingarsamninga er að félagið tekur á sig fjárhagslega ábyrgð á afleiðingum tiltekinna atvika, þ.e. vátryggingaratburði. Samningurinn þarf því að skilgreina hvaða atvik eiga að vera á ábyrgð félagsins og hver eigi að falla utan þess. Það sem hvað vandasamast er að setja reglur um og hefur valdið hvað mestri réttaróvissu í vátryggingarétti er sú aðstaða að vátryggingartaki hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á atriði sem varða áhættumat félagsins. Það er hann sem veitir félaginu þær upplýsingar við samningsgerð sem áhættumat þess byggist á. Eftir gerð vátryggingarsamningsins geta athafnir hans eða athafnaleysi orðið til þess að auka áhættu félagsins frá því sem ráð var fyrir gert við samningsgerðina og hann getur með háttsemi sinni haft mikil áhrif á umfang þess tjóns sem af vátryggingaratburði leiðir og þar með fjárhæð vátryggingabóta. Við skipan reglna um vátryggingarsamninga hefur því verið leitast við að leggja tilteknar skyldur á vátryggingartaka um upplýsingagjöf, svo og um að viðhafa tiltekna háttsemi, athafnir eða athafnaleysi. Til jafnvægis hefur verið leitast við að setja reglur sem takmarka heimildir félagsins til að mæla fyrir um það í vátryggingarskilmálum að háttsemi vátryggingartaka, sem hefur áhrif á áhættumatið eða það að vátryggingaratburður verður eða á umfang afleiðinga hans, leiði ævinlega til þess að ábyrgð félagsins falli niður í heild eða að hluta. Slíkt á samkvæmt reglum frumvarpsins aðeins að gerast við tilteknar aðstæður sem skilgreina ber sérstaklega. Hefur meginstefnan verið sú að háttsemi vátryggðs sem einungis telst almennt gáleysi eigi ekki að leiða til neinnar niðurfellingar á ábyrgð félagsins. Frá þessu hafa verið fáeinar undantekningar.
    Við nýskipan reglna um skaðatryggingar verður að taka tillit til þess að upplýsingar vátryggingartaka í venjulegum vátryggingum, þ.e. svonefndum neytendavátryggingum og vátryggingum sem minni og meðalstór fyrirtæki taka, hafa í fæstum tilvikum áhrif á fjárhæð iðgjaldsins fyrir vátrygginguna. Eftir því sem vátryggingar verða sérhæfðari, svo sem fyrir stærri atvinnurekstur, hafa upplýsingar vátryggingartaka meiri þýðingu við ákvörðun iðgjalds.

Meginatriði reglna frumvarpsins í þessum kafla.
    Eins og fyrr greinir er í meginatriðum byggt á sömu sjónarmiðum og í VSL, en reynt er að sníða af þá agnúa sem verið hafa á framkvæmdinni. Er það í sumum tilvikum gert með því að styrkja lágmarksvernd vátryggingartaka/vátryggðs.

     a. Um upplýsingaskyldu vátryggingartaka.
    Í 19.–23. gr. frumvarpsins eru reglur um upplýsingaskyldu vátryggingartaka. Stefna VSL að því er varðar upplýsingaskyldu vátryggingartaka er sú að félagið geti ekki krafist niðurfellingar ábyrgðar í heild eða að hluta þótt hann hafi gefið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar við gerð vátryggingarsamnings, ef það er ekki vátryggingartakanum að kenna (sök). Þessari stefnu er í meginatriðum haldið í frumvarpinu. Lögð er til sú breyting um upplýsingaskylduna að vátryggingartaka sé ekki skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, heldur miðist skyldur hans fyrst og fremst við það að svara fyrirspurnum félagsins með réttum og fullnægjandi hætti. Þá er einnig miðað við að minni háttar yfirsjónir af hans hálfu eigi ekki að hafa sérstök réttaráhrif. Tekið skal fram að þrátt fyrir framanritað um að skylda vátryggingartaka standi aðeins til að veita upplýsingar, sem beðið er um, eru frá því tvenns konar undantekningar. Annars vegar er beinlínis mælt fyrir um að vátryggingartaka sé skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf um sérstök atvik sem hann veit eða má vita að hafa verulega þýðingu fyrir félagið. Hins vegar gætu almennar reglur samningaréttar og kröfuréttar leitt til þess að hann hafi skyldu til þess að veita óumbeðnar upplýsingar. Af þessu er ljóst að vátryggingartaki hefur í sumum tilvikum jákvæða upplýsingaskyldu.

     b. Aukin áhætta.
    Í 24. og 25. gr. er mælt fyrir um heimildir félagsins til þess að losna undan skyldum sínum í heild eða að hluta ef áhætta þess eykst. Fylgt er sömu efnisreglum og í VSL. Reglur um aukna áhættu, sem verður vegna háttsemi vátryggðs er hann hefur stjórn á, tengjast einu mesta álitaefni vátryggingaréttar, þ.e. aðgreiningu ábyrgðartakmarkana, sem félagið hefur fullt frelsi til þess að bera fyrir sig annars vegar og slíkra takmarkana sem skýra ber með hliðsjón af ófrávíkjanlegum reglum VSL hins vegar. Með öðrum orðum er hér um að ræða álitaefni sem lúta annars vegar að óumdeildum heimildum félagsins til þess að ákveða umfang þess sviðs sem vátryggingin tekur til og setja hlutlægar takmarkanir á ábyrgð, svo sem eins og þær að slysatrygging gildi ekki er vátryggður er í bjargsigi eða í hnefaleikum. Hins vegar er svo viðleitni til þess að takmarka ábyrgð í tilvikum þar sem fremur er um að ræða tiltekna háttsemi en ekki svið vátryggingarinnar sem slíkrar. Nefnt hefur verið sem dæmi tilvik þar sem félag undanþiggur sig ábyrgð samkvæmt ökutækjatryggingu ef viðhald bifreiðar hefur verið vanrækt. Þetta gæti talist hlutlæg ábyrgðartakmörkun og þannig heimil. Hins vegar má segja að í þessu felist í raun fyrirmæli til vátryggðs um að haga viðhaldi bifreiðar með tilteknum hætti. Þessi nálgun leiðir til þess að álitaefnið beri að meta í ljósi 51. gr. VSL, sem mælir fyrir um varúðarreglur og er ófrávíkjanleg. Samkvæmt henni þarf a.m.k. almennt gáleysi vátryggðs til í þessum efnum svo ábyrgð félagsins falli niður í heild eða að hluta. Í frumvarpinu er leitast við að koma böndum á þessa óvissu, m.a. með því að flokka allar reglur sem þetta geta varðað undir varúðarreglur, sbr. skilgreiningu á þeim í e-lið 2. gr. þess. Þá er einnig lögð sú skylda á félagið að skilgreina skýrlega í vátryggingarskilmálum hvaða atriði það eru sem séu varúðarreglur. Í vátryggingarskírteini á að minna vátryggingartaka á þessar varúðarreglur. Með þessu er leitast við að halda reglu 24. gr. utan við þetta álitaefni.

     c. Reglur um takmörkun á ábyrgð og lækkun bóta.
    Í frumvarpinu eru ýmsar reglur um takmörkun á ábyrgð og lækkun bóta af ýmsum ástæðum, sem allar tengjast þó því er nefnt hefur verið almennar forsendur félagsins fyrir vátryggingarsamningnum. Reglur frumvarpsins um þetta miðast við að heimilt sé að lækka vátryggingarbætur að uppfylltum nánari skilyrðum, en að lækkunin sé háð mati og miðist við háttsemi vátryggðs og orsakatengsl.

     d. Varúðarreglur og brot á þeim.
    Varúðarreglur, sem félagið setur og gerir að skilyrði fyrir því að ábyrgð þess sé virk, geta verið þýðingarmikil tæki í höndum þess til að takmarka ábyrgð sína, ef þess er talin þörf. Í 51. gr. gildandi laga eru ákvæði um varúðarreglur. Samkvæmt þeim getur félagið losnað undan ábyrgð á tjóni ef varúðarreglur eru brotnar með vanrækslu af hálfu vátryggðs. Í frumvarpinu er lagt til, eins og fyrr segir, að fleiri tilvik verði talin til varúðarreglna en í VSL og að þeirri reglu gildandi laga að félagið geti að fullu losnað undan ábyrgð sinni verði breytt þannig að slíkt gerist ekki óhjákvæmilega, heldur sé þess kostur að leggja ábyrgð að hluta á félagið. Mat á því hver ábyrgð félagsins ætti að vera mundi þá ráðast af eðli varúðarreglunnar, sök vátryggðs, atvikum að vátryggingaratburði og atvikum að öðru leyti.
    Undir varúðarreglur heyra fyrirmæli um notkun vátryggðs munar, sbr. 2. og 3. tölul. e- liðar 2. gr. frumvarpsins. Mikil hætta er á að reglur um notkun séu settar fram sem hlutlægar ábyrgðartakmarkanir og er það ástæðan fyrir sérstökum fyrirmælum í 2. gr. um að slíkar reglur teljist til varúðarreglna en ekki hlutlægra ábyrgðartakmarkana.

     e. Vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður.
    Það er grundvallarregla í skaðatryggingum að einungis sé hægt að vátryggja gegn tjóni sem frá sjónarhóli hins vátryggða verður vegna tilviljunar. Stefna VSL er sú að vátryggður glati ekki rétti til bóta nema hann hafi valdið vátryggingaratburði af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Af þessu leiðir að ekki má skv. 20. gr. laganna semja um að ábyrgð félagsins falli niður þótt vátryggður valdi vátryggingaratburði af háttsemi sem telst almennt gáleysi. Þetta horfir við með öðrum hætti í persónutryggingum og verður vikið að því í II. hluta frumvarpsins. Reglur frumvarpsins miðast við að grundvallarreglan eigi að vera óbreytt, sbr. 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. þess. Gerð er tillaga um að mögulegt verði að víkja frá grundvallarreglunni í alveg sérstökum tilvikum, einkum þegar ekki er um vátryggingarsvik að ræða. Þessi tillaga tengist að hluta reglum frumvarpsins um samsömun.

     f. Ráðstafanir til að varna tjóni og tilkynna um vátryggingaratburð.
    Í 28. gr. frumvarpsins eru reglur um sama efni og nú er að finna í 21. gr. VSL. Reglur frumvarpsins eru í meginatriðum eins að efni til og tilvitnaðar reglur gildandi laga.

     g. Samsömun.
    Með samsömun er átt við að háttsemi tiltekinna manna sé lögð að jöfnu við háttsemi vátryggðs. Í þessu felst að ef tiltekinn maður, t.d. maki hins vátryggða, sem er samvistum við hann, veldur því af ásetningi að fasteign mannsins, sem notuð hefur verið sameiginlega, eyðileggst í eldi, þá veldur það því að félagið þarf ekki að inna af hendi bótagreiðslu til vátryggðs í meira mæli en þótt hann sjálfur hefði verið valdur að brunanum. Reglur um samsömun eru ekki heildstæðar í VSL. Leitast er við að bæta þar úr í frumvarpinu og er tillaga að reglu um það í 29. gr. Er þar lagt til að félaginu verði settar tilteknar skorður við að láta samsömun hafa réttaráhrif. Í ákvæðinu er tekið fram að það eigi einungis við um vátryggingar utan atvinnureksturs. Þetta atriði verður skýrt nánar síðar.

Um 19. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingartaka, en í 20. og 21. gr. eru reglur um afleiðingar þess að skyldunni er ekki fullnægt. Reglur um sama efni og 19. gr. frumvarpsins tekur til eru nú í 4. og 46. gr. VSL. Sérstök athygli er vakin á að upplýsingaskyldan skv. 19. gr. frumvarpsins hvílir á vátryggingartaka. Svo er einnig skv. 4. gr. VSL. Á hinn bóginn mælir 46. gr. VSL fyrir um að það sé vátryggður sem sé skyldur til að skýra félaginu frá því ef hann fær vitneskju um að áhætta þess aukist, án þess þó að það sé með vilja hans. Ef hann vanrækir þessa skyldu skal líta svo á að áhættuaukningin hafi orðið með hans vilja, en það leiðir til skerðingar eða niðurfellingar á rétti hans til vátryggingabóta. Svo sem fyrr greinir er lagt til að upplýsingaskyldan sé bundin við vátryggingartakann, sbr. orðalag greinarinnar. Spurningunni um það hvort skyldan hvíli samt á vátryggðum í einhverjum tilvikum, þannig að hann glati rétti til bóta samkvæmt vátryggingarsamningi ef hann sinnir ekki þeirri skyldu sem samkvæmt ákvæðinu hvílir á vátryggingartaka, verður að svara með tilvísun til almennu reglunnar um samsömun í 29. gr. frumvarpsins. Samkvæmt henni gæti sú orðið raunin, ef skilyrði þeirrar reglu til að beita samsömun yrðu talin fyrir hendi.
    Orðið vátryggingartaki í 19. gr. ber almennt að skýra samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að með því sé átt við hann einan. Almennar reglur samningaréttar um staðgöngu geta þó leitt til þess að þeir sem vátryggingartaki beinlínis felur að koma fram fyrir sína hönd og veita félaginu upplýsingar, eða þeir sem eru honum svo tengdir að ætla má að þeir veiti upplýsingar fyrir hans hönd, t.d. maki við gerð vátryggingarsamnings um heimilis- eða fjölskyldutryggingu, falli undir orðið vátryggingartaki. Er það vegna þess að þeir teljast þá staðgöngumenn hans. Það athugast að þessu verður ekki víxlað saman við reglur 29. gr. um samsömun.
    Kjósi vátryggingafélag að leita upplýsinga hjá þriðja manni, sem ekki kemur fram sem staðgöngumaður vátryggingartaka, skal það fyrst afla sér skriflegs, upplýsts samþykkis vátryggingartaka áður en það hefur samband við þriðja mann. Almennt skal við það miðað að um upplýsingaöflunina fari samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.
    Lagt er til að meginreglan verði sú að vátryggingartaki þurfi ekki að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, heldur standi skylda hans til þess að svara með réttum og tæmandi hætti spurningum félagsins. Spurningarnar verða að vera markvissar og lúta að tilteknum upplýsingum, þótt ekki sé við það miðað að vátryggingartaki geti með orðhengilshætti komið sér undan skyldum sínum um að svara. Félagið verður sjálft að meta hvaða upplýsinga það telur sig þurfa að afla, enda getur það best metið hvaða upplýsingar skipta máli fyrir áhættumat þess.
    Frá meginreglunni er gerð sú undantekning að vátryggingartaki skal hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit eða má vita að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Skylda vátryggingartaka skv. 1. mgr. þessarar greinar er hin sama við gerð og endurnýjun vátryggingarsamnings, þótt hún hljóti almennt að vera viðameiri við gerð samningsins.
    Í 2. mgr. er lögð sú skylda á vátryggingartaka að leiðrétta eða bæta úr án ástæðulauss dráttar upplýsingum sem hann hefur veitt og honum verður síðar ljóst að eru rangar eða ófullnægjandi.

Um 20. gr.

    Í þessari grein er að finna reglur um þau tilvik er í ljós kemur, eftir að vátryggingaratburður hefur átt sér stað, að veittar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Lagt er til að réttaráhrif þess geti orðið með tvennum hætti, háð því hver huglæg afstaða vátryggingartakans var þegar hinar röngu eða ófullnægjandi upplýsingar voru veittar.
    Á 1. mgr. við um tilvik þar sem upplýsingaskylda skv. 19. gr. er vanrækt með sviksamlegum hætti. Eru réttaráhrif þeirra tilvika ótvíræð og ganga lengst, þ.e. félagið ber ekki ábyrgð gagnvart vátryggingartaka. Um ábyrgð þess gagnvart öðrum sem kunna að vera meðvátryggðir gildir þessi regla ekki, nema reglur um samsömun eigi við.
    Í 2. mgr. er regla um tilvik þar sem vátryggingartaki hefur með öðrum hætti en svikum vanrækt þá upplýsingaskyldu sem á honum hvílir skv. 19. gr. Í þeim tilvikum gilda flóknari reglur um réttaráhrifin. Segir þar að upplýsingaskyldan þurfi að vera vanrækt í þeim mæli að það teljist ekki óverulegt. Í því felst að minni háttar yfirsjónir, sem litla eða enga þýðingu hafa, leiða ekki til skerðinga á kröfum vátryggðs á hendur félaginu. Gerð er tillaga um að orðalagið ,,ekki óverulegt“ sé notað, en ekki orðið ,,verulegt“ þar sem með því mundi gengið of langt í því að láta vanrækslu á upplýsingaskyldu ekki hafa nein áhrif. Á þessu er blæbrigðamunur, sem ástæða var talin til að gera, enda er svigrúm til þess að taka tillit til háttseminnar þegar metið er að hve miklu leyti eigi að fella ábyrgð félagsins niður. Með þessu eru útilokuð t.d. vægustu afbrigði almenns gáleysis. Ef þessu skilyrði um að vanræksla sé ekki óveruleg er fullnægt er heimilt að fella niður ábyrgð félagsins í heild eða að hluta. Við mat á því hve langt á að ganga í því að fella niður ábyrgð félagsins á grundvelli 2. mgr. gilda þær viðmiðunarreglur sem gerð er tillaga um í 3. mgr. greinarinnar.
    Samkvæmt 3. mgr. eru það fjórir þættir, sem líta ber til við matið.
    Í fyrsta lagi ber að líta til þess hvaða þýðingu vanrækslan hefur haft fyrir mat félagsins á áhættu þess. Í 2. mgr. 6. gr. VSL er ákvæði sem mælir fyrir um það í þeim tilvikum, sem 2. mgr. 20. gr. tekur til að ef félagið hefði veitt vátryggingu, en með öðrum kjörum, ætti það að ábyrgjast að þeim mun sem það hefði gert fyrir hið breytta iðgjald. Þetta er nokkurs konar hlutfallsregla, sem felur það t.d. í sér að ef réttar upplýsingar til grundvallar áhættumati hefðu verið veittar félaginu mundi það hafa veitt vátryggingu, en gegn tvöfalt hærra iðgjaldi. Af þessu leiðir að það væri bara skuldbundið til að greiða helming bóta. Ekki er gerð tillaga um að þessari reglu verði haldið í frumvarpinu. Á hinn bóginn ætti þessi þáttur, sem hér er til umfjöllunar, að opna leið fyrir svipað hlutfallslegt mat, en þó ekki eins bindandi, auk þess sem þessi þáttur er aðeins einn af fjórum sem líta þarf til. Ef vanrækslan lýtur á hinn bóginn að upplýsingum sem engu skipta fyrir áhættumatið ætti þetta atriði að leiða til þess að félagið bæri fulla ábyrgð.
    Í öðru lagi ber að líta til þess hve sök vátryggingartaka var mikil. Hér er átt við saknæma háttsemi hans, þó að frátöldum þeim svikatilvikum sem falla undir 1. mgr. Það er viðtekin regla, sem víða er að finna í íslenskri löggjöf, að láta sakarstig, sem svo er nefnt, með beinum eða óbeinum hætti hafa áhrif á rétt til bóta eða bótaskyldu. Sakarstig skiptir máli þegar metið er hvort ósanngjarnt er að bótaskyldur aðili greiði fullar bætur, eða hvort sá er bótakröfu á öðlist rétt til fullra bóta, sbr. t.d. 24. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Lagt er til í því tilviki sem hér er til umfjöllunar að beinlínis verði kveðið á um það að líta beri til sakarstigs vátryggingartaka þegar metið er hvort vanræksla á upplýsingaskyldu eigi að leiða til niðurfellingar á ábyrgð félagsins. Slíkt beint ákvæði gefur dómstólum betri fótfestu en ef eingöngu væri vísað til sanngirnismats.
    Í þriðja lagi ber að líta til þess með hvaða hætti vátryggingaratburður hefur orðið. Í þessu felst m.a. að meta þarf hve náið orsakasamband er milli þeirra upplýsinga um grundvöll áhættumats, sem vanrækt var að veita, og vátryggingaratburðar. Ef upplýsingarnar skipta engu máli fyrir það að vátryggingaratburður varð eiga þær ekki að skipta máli fyrir ábyrgð félagsins. Komi til ágreinings á milli vátryggingartaka og vátryggjanda um ábyrgð félagsins verða dómstólar að hafa svigrúm til þess að meta hvert sambandið er á milli vátryggingaratburðar og vanræktrar upplýsingaskyldu til þess að geta metið hvort eða í hve ríkum mæli ábyrgð félagsins yrði felld niður.
    Í fjórða lagi er kveðið á um það að líta beri til atvika að öðru leyti. Ekki er hér aðeins átt við atvik að vátryggingaratburðinum sem slíkum heldur öll atvik eða aðstæður sem máli geta skipt. Eru dómstólum ekki sett sérstök takmörk í þessu efni.

Um 21. gr.

    Í þessari grein er tillaga um reglu sem taka á til tilvika er félaginu verður ljóst að þær upplýsingar sem það hefur fengið um áhættuna séu rangar eða ófullnægjandi svo verulegu nemi. Við þær aðstæður getur félagið sagt upp vátryggingunni með 14 daga fyrirvara. Ekki er skilyrði til þess að uppsögn verði beitt samkvæmt þessu ákvæði að upplýsingaskylda hafi verið vanrækt með saknæmum hætti. Uppsögn yrði því heimil þó ekkert væri við vátryggingartaka að sakast. Réttur til uppsagnar gæti því verið fyrir hendi í tilvikum þar sem vátryggður ætti rétt til fullra bóta, ef vátryggingaratburður verður áður en uppsögn tekur gildi.
    Sök (þ.e. þegar hún er á því stigi að um svik sé að ræða) hefur þó þýðingu skv. 3. málsl. greinarinnar, en þar er mælt fyrir um heimildir félagsins þegar vátryggingartaki hefur vanrækt upplýsingaskyldu sína með sviksamlegum hætti. Í þeim tilvikum hefur félagið tvenns konar heimildir, þ.e. annars vegar getur það slitið vátryggingarsamningi þeim er svikin tengjast og hins vegar getur það slitið öðrum vátryggingarsamningum sem vátryggingartaki hefur gert við það. Samningsslit samkvæmt þessari grein lúta sömu formerkjum og riftun í kröfurétti. Þau eru fyrirvaralaus. Yfirlýsing um uppsögn eða samningsslit (riftun) samkvæmt þessari grein eru ákvaðir í skilningi samningaréttar. Yfirlýsingarnar öðlast því réttaráhrif þegar þær ,,koma til“ vátryggingartaka og taka gildi 14 dögum síðar sé ákvöðin reist á 1. málsl. en þegar í stað sé hún reist á 3. málsl. Til samræmis við 15. gr. frumvarpsins verður að gera þær kröfur til þeirra ákvaða sem hér um ræðir að þær séu skriflegar og rökstuddar, auk þess sem tilgreint sé hvaða möguleika vátryggingartaki hefur til þess að leggja hugsanlegan ágreining fyrir úrskurðarnefnd.

Um 22. gr.

    Regla þessarar greinar frumvarpsins tekur til sama efnis og 9. gr. VSL, þ.e. takmarkana á heimildum félagsins til þess að bera fyrir sig vanrækslu á upplýsingaskyldu.
    Um er að ræða tvö megintilvik:
    Annars vegar tekur reglan til þess þegar upplýsingaskylda hefur verið vanrækt, en félagið vitað eða mátt vita, þegar upplýsingar voru veittar, að þær voru rangar. Flokka má þessi tilvik í tvo undirflokka. Í fyrsta lagi tilvik þegar upplýsingaskylda er vanrækt, án þess að um sök sé að ræða, eða sök sé ekki svo mikil að það teljist til svika, en í þessum tilvikum getur félagið ekki borið fyrir sig að upplýsingar hafi verið rangar eða ófullnægjandi ef það vissi, eða mátti vita, að svo var. Í öðru lagi tilvik þegar vátryggingartaki hefur vanrækt upplýsingaskyldu sína með sviksamlegum hætti. Þá er félaginu heimilt að bera það fyrir sig, nema það hafi beinlínis vitað að upplýsingarnar voru rangar eða ófullnægjandi.
    Hins vegar tekur reglan til tilvika þegar hinar röngu upplýsingar eða skortur á upplýsingum skipti ekki máli fyrir félagið, þegar þær voru veittar, eða eru hættar að skipta máli fyrir það. Ef staðan er með þessum hætti getur félagið ekki borið fyrir sig vanrækslu á upplýsingaskyldu, af hvaða ástæðu sem er. Er vakin athygli á því að lagt er til að svik veiti ekki rýmri rétt samkvæmt þessari grein, þótt vera kunni að slík háttsemi vátryggingartaka gæti talist ,,sérstakt atvik“ og því heimilað félaginu uppsögn skv. 15. gr. Álitaefni um það hvort skilyrðum uppsagnar væri fullnægt yrði að meta á grundvelli skýringa á síðastnefndri grein frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Þessi grein frumvarpsins tekur til svipaðra tilvika og falla nú undir 3. mgr. 10. gr. VSL, þ.e. veita félaginu heimild til þess að takmarka ábyrgð sína ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi.
    Það er skilyrði þess að ábyrgðartakmörkun geti átt sér stað samkvæmt þessari grein að félagið geti af sérstökum ástæðum ekki aflað upplýsinga um tiltekin atvik. Ekki er t.d. nægilegt að vátryggingartaki hafi ekki þær upplýsingar sem máli skipta. Ef félagið getur aflað þeirra annars staðar getur það ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmörkun á grundvelli þessarar greinar, enda er því skylt að afla þeirra upplýsinga sem þarf og það getur aflað. Telja verður líklegast að ákvæðið taki einkum til tilvika þar sem vátryggingartaki óskar eftir að félagið vátryggi viðameiri hagsmuni strax án þess að ráðrúm gefist til að kanna öll þau atriði sem þýðingu hafa fyrir áhættumat félagsins.
    Það er líka skilyrði þess að ábyrgðartakmörkun geti átt sér stað samkvæmt þessari grein að um sé að ræða fyrirvara um tiltekin atvik. Félagið getur því ekki losnað undan ábyrgð á grundvelli þessarar greinar með því að gera almenna fyrirvara.
    Fyrirvari sem gerður er með réttum hætti samkvæmt þessari grein gildir aðeins til þess tíma er ætla má að félagið hefði getað aflað upplýsinganna. Vanræksla af þess hálfu að þessu leyti leiðir þannig til brottfalls fyrirvarans.

Um 24. gr.

    Reglu 24. gr. frumvarpsins er, ásamt 19. og 25. gr. þess, ætlað að koma í stað ákvæða 45.–50. gr. VSL sem fjalla um aukna áhættu. Í íslenskri dómaframkvæmd síðustu áratuga virðist ekki hafa reynt mikið á reglurnar um aukna áhættu og réttaráhrif þeirra. Á hinn bóginn er algengt að vátryggingafélög leitist við í skilmálum vátrygginga að taka af skarið um það hvaða áhrif tilgreind áhættuaukning hefur. Sem dæmi má nefna skilmála tiltekinnar húftryggingar fiskiskipa, en þar er svofellt ákvæði: ,,Félagið er laust úr ábyrgð samkvæmt reglum 68. gr. laga nr. 20/1954 ef skipið fer út fyrir fiskveiðilandhelgi Íslands nema um sé að ræða siglingu til hafna í Vestur-Evrópu.“ Réttaráhrif áhættuaukningar eru þó ekki alltaf þau að félagið sé laust úr ábyrgð.
    Stefnan sem valin er með frumvarpi þessu er að vátryggingafélög eigi þess áfram kost að takmarka ábyrgð sína ef áhættan eykst. Meginreglan um þetta er sett fram í 1. málsl. þessarar greinar. Ýmis skilyrði verður þó að setja þessum heimildum félaganna til þess að tryggja lágmarksvernd vátryggingartaka. Í fyrsta lagi verður að vera um að ræða tiltekin tilvik sem leitt geta til takmörkunar á ábyrgð. Þessi atvik verða að vera svonefnd ,,utanaðkomandi atvik“, þ.e. atvik sem vátryggður hefur ekki stjórn á. Atvik sem hann hefur stjórn á mundu falla undir varúðarreglur. Í öðru lagi verða hin tilteknu atvik að hafa haft verulega þýðingu fyrir áhættuna sem vátryggt er gegn. Atvik sem aðeins hafa minni háttar þýðingu mundu ekki hafa áhrif í þessu viðfangi.
    Í 2. málsl. greinarinnar eru einnig sett fram skilyrði, annars eðlis, til þess að félagi sé heimilt að takmarka ábyrgð sína vegna áhættuaukningar. Í fyrsta lagi getur félagið ekki borið fyrir sig slíkan fyrirvara ef hinn vátryggði var grandlaus um að atvik breyttust og í öðru lagi ef það er ekki orsakasamband milli þeirra breyttu atvika sem auka áhættuna og vátryggingaratburðar, þ.e. þegar áhættuaukningin skiptir ekki máli fyrir það að vátryggingaratburður átti sér stað.
    Það athugast einnig að þessi grein stendur því ekki í vegi að félögin setji í skilmála ákvæði um að áhættuaukning skuli ekki leiða til þess að ábyrgð þess falli niður þrátt fyrir breytt atvik, sem valda áhættuaukningu, heldur skuli iðgjald hækka að tilteknu marki.

Um 25. gr.

    Reglu 25. gr. er ætlað að taka til tilvika þar sem um er samið að iðgjald breytist til samræmis við þær aðstæður, áhættu, sem hinir vátryggðu hagsmunir eru í á hverjum tíma. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í VSL, þótt lesa megi svipaðar reglur út úr ákvæðum 45.–50. gr. þeirra. Í þessari grein er gerð tillaga um mikilvæg ákvæði sem falla undir varúðarreglur, sbr. skilgreiningu á þeim í e-lið 2. gr. frumvarpsins. Félaginu er því skylt að sinna þeirri sérstöku tilkynningarskyldu sem á það er lögð í f-lið 10. gr. frumvarpsins um þessa fyrirvara, þ.e. greina frá þeim í vátryggingarskírteini.
    Í 1. mgr. er tekið fram að félaginu sé heimilt að semja svo um í vátryggingarsamningi að iðgjald skuli ráðast af því með hvaða hætti hinn vátryggði hlutur er notaður. Slík samningsákvæði geta eðli málsins samkvæmt verið margs konar, en til þeirra eru gerðar þær kröfur í þessari málsgrein að ákvörðun iðgjaldsins verður að vera skýrlega háð því hvernig hluturinn er notaður og tilgreina þarf skýrlega hvers konar notkun leiðir til hækkunar á iðgjaldi. Ekki er því nægilegt að mæla í vátryggingarsamningi fyrir um það að iðgjald hækki t.d. ,,ef vátryggður hlutur er notaður við hættulega starfsemi“. Ef félagið hefur í vátryggingarsamningi, skilmálum, slíkt ákvæði sem fullnægir þeim skýrleikakröfum sem hér hefur verið lýst getur það gert fyrirvara um lækkun vátryggingabóta ef notkun hefur verið þannig að leitt hefði til hærra iðgjalds, ef það hefði verið tilkynnt réttilega til félagsins. Gert er ráð fyrir að félaginu sé heimilt að tiltaka að ábyrgð þess skuli lækka að tiltölu. Hin hlutfallslega lækkun getur hvort heldur sem er verið tengd því hvert iðgjaldið hefði verið ef áhættuaukning hefði verið ljós, eða tengd því um hvers konar notkun er að ræða.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að þýðing fyrirvara, sem félagi er heimilt að gera skv. 1. mgr., sé háð því að orsakatengsl séu milli áhættubreytingar og vátryggingaratburðar. Samkvæmt þessu verður ekki lengur heimilt fyrir vátryggingafélög að takmarka ábyrgð sína með hlutlægum hætti á grundvelli slíkra ákvæða. Þá er einnig girt fyrir að slíkir fyrirvarar hafi þýðingu ef vátryggðum verður ekki kennt um áhættubreytingarnar og hann hefur gert þær ráðstafanir sem sanngjarnar má telja til að upplýsa félagið um þær. Með orðinu samþykki í 2. mgr. er ekki aðeins átt við beint samþykki, heldur einnig tómlæti af hálfu vátryggingartaka, sem túlka má sem samþykki.

Um 26. gr.

    Ákvæði þessarar greinar svarar í grófum dráttum til efnis 51. gr. VSL. Mælt er fyrir um hvernig fara skuli með tilvik er vátryggður brýtur þær varúðarreglur sem settar eru í vátryggingarsamningi.
    Í e-lið 2. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á því hvað telja beri varúðarreglur. Sú skilgreining felur í sér þrjá möguleika, þ.e.:
    Í fyrsta lagi getur verið um að ræða tilteknar varanlegar ráðstafanir hins vátryggða sem viðhalda skal meðan vátryggingarsamningurinn er í gildi. T.d. getur verið um að ræða uppsetningu eldþolinna veggja eða eldvarnarhurða milli rýma í brunatryggðu húsnæði. Nauðsynlegt er að um sé að ræða tilteknar ráðstafanir, þótt þeim þurfi ekki að lýsa í smáatriðum.
    Í öðru lagi getur verið um að ræða hæfniskröfur sem félagið gerir til vátryggðs eða þeirra sem hafa með vátryggða muni að gera. Tryggast er félagið ef slíkar hæfniskröfur eru nákvæmlega tilgreindar, t.d. tekið fram að viðhald vátryggðs munar verði að vera framkvæmt af vélvirkja með sveinspróf. Oft mundi slíkt vera erfitt. Þegar það er ekki unnt, eða ekki gert, verður að leggja mat á það hvort slíkum kröfum um hæfni er fullnægt. Félagið hefur sönnunarbyrði fyrir því að viðkomandi uppfylli ekki þær hæfniskröfur sem það gerir og eftir því sem kröfurnar eru óljósari, þeim mun erfiðara verður það fyrir félagið að sanna að þeim sé ekki fullnægt. Krafa um að eftirlit sé unnið af þar til bærum mönnum er t.d. óljós og erfitt að sanna að þessum hæfniskröfum sé ekki fullnægt.
    Í þriðja lagi teljast til varúðarreglna öll tilvik þar sem mælt er fyrir um að vátryggður eða aðrir skuli nota, geyma eða viðhalda vátryggðum hlut með tilteknum hætti. Undir þetta mundu falla fyrirmæli um aðferðir við notkun vátryggðs hlutar, en sú mundi einnig vera raunin samkvæmt gildandi rétti. Á hinn bóginn féllu einnig undir þetta fyrirmæli í vátryggingarsamningi sem mæla fyrir um takmarkanir á ábyrgð félagsins ef vátryggður, með ráðstöfunum sínum á hinum vátryggðu hagsmunum, breytir áhættunni. Eftir núgildandi reglum féllu slík tilvik að líkindum flest undir reglur um áhættuaukningu, en samkvæmt frumvarpinu mundu þau teljast til brota á varúðarreglum. Undir varúðarreglur féllu einnig tilvik þar sem félagið leitast við í vátryggingarsamningi að afmarka svið þeirrar áhættu sem vátryggt er gegn, ef áhættan getur aðeins orðið virk vegna athafna eða athafnaleysis vátryggðs. Af þessu leiðir að ákvæði í vátryggingarsamningi um þjófnaðartryggingu sem mælti fyrir um að vátryggingin gilti aðeins um þjófnað vegna innbrots eða aðeins þjófnað úr læstum hirslum yrðu taldar varúðarreglur af því að þær fela í raun í sér fyrirmæli til vátryggðs um hvernig hann á að geyma vátryggðan hlut.
    Í 1. málsl. greinarinnar er sett fram sú meginregla að félagið geti gert fyrirvara um ábyrgð sína ef varúðarreglum er ekki fylgt. Það er skv. 2. málsl. þó skilyrði að vátryggður hafi brotið varúðarreglur með saknæmri háttsemi og að sökin verði ekki talin óveruleg. Þá er einnig gerð krafa um að orsakasamband sé milli brota vátryggðs á varúðarreglum og þess að vátryggingaratburður verður. Félagið hefði sönnunarbyrði fyrir því að vátryggður hafi brotið varúðarreglur með þeim hætti að huglægum skilyrðum sé fullnægt og fyrir því að orsakasamband sé milli þess brots og vátryggingaratburðar. Hér er því gerð tillaga um aðrar sönnunarreglur en í 51. gr. VSL og er þessi breyting mjög vátryggðum í hag. Regla 51. gr. VSL hefur verið skýrð svo að sönnunarbyrði um að varúðarreglur hafi verið brotnar og það hafi verið gert af ásetningi eða gáleysi hvíli á félaginu, en ef vátryggður geti samt fært sönnur að því að háttsemi hans hafi ekki haft þýðingu fyrir það að vátryggingaratburður varð geti hann þó krafist bóta. Þessari sönnunarbyrði er létt af vátryggðum.
    Þótt skilyrðum 1. og 2. málsl. sé fullnægt er samt unnt að leggja ábyrgð að hluta á félagið. Það er háð mati hver ábyrgð félagsins á að vera í slíkum tilvikum, en sérstaklega er tekið fram að við matið eigi að líta til þess hvers konar varúðarreglur hafi verið brotnar, hve mikil sök hins vátryggða var, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvika að öðru leyti. Vísast um skýringar á þessu til skýringa við 20. gr. frumvarpsins.

Um 27. gr.

    Í þessari grein eru reglur um þau tilvik er vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður. Að efni til eru nú sambærilegar reglur í 18. gr., 1. mgr. 19. gr. og 20. gr. VSL.
    Í 1. mgr. er kveðið á um þá meginreglu að ef vátryggður, eða sá sem verður samsamaður honum, veldur vátryggingaratburði af ásetningi beri félagið ekki ábyrgð. Frá þessari meginreglu eru undantekningar. Reyndar er haldið fast við meginregluna í öllum tilvikum ef vátryggður veldur því með sviksamlegri háttsemi að vátryggingaratburður verður og ætlun hans er að verða sér út um vátryggingarbætur frá félaginu. Það er þó hugsanlegt að vátryggingaratburði sé vissulega valdið af ásetningi, en ásetningurinn sé þó að valda öðrum tjóni, t.d. maka eða sambúðarmaka. Í slíkum tilvikum er hugsanlegt að lögð verði ábyrgð að hluta á félagið. Er til þess grundvöllur í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar.
    Með ásetningi í þessari málsgrein er átt við það þegar vátryggður viðhefur háttsemi sem hann veit eða með vissu mátti vita að ylli vátryggingaratburði. Yrði að styðjast við viðteknar skýringar á merkingu þessa hugtaks.
    Í 2. mgr. er regla um þau tilvik er vátryggður veldur vátryggingaratburði af stórkostlegu gáleysi. Með sama hætti og kveðið er á um í 2. mgr. 18. gr. VSL losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta í þessum tilvikum. Við mat á því að hvaða marki félagið losnar undan ábyrgð skal líta til nokkurra atriða. Er þar fyrst nefnd sök, þ.e. meta á hve mikil sökin er. Einnig skal líta til þess hvernig vátryggingaratburð bar að, en með þessu er átt við, eins og skýrt hefur verið fyrr í frumvarpinu, að líta á til orsakasamhengis milli háttsemi og þess að vátryggingaratburður verður. Þá ber að líta til þess hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Í 20. gr. VSL er félaginu heimilt að semja svo um að það skuli laust úr ábyrgð ef vátryggður hefur valdið vátryggingaratburðinum í ,,ölæði, er honum verður sjálfum gefin sök á“. Í því samhengi sem þessi regla er hefur hún verið skýrð svo að ölæði, sem vátryggður á sjálfur sök á, hafi sömu réttaráhrif og stórkostlegt gáleysi af hans hálfu. Ölæði hefur verið skýrt svo að alkóhólmagn í blóði þurfi að hafa verið meira en 1,20‰ og helst í námunda við 1,60‰ til þess að skilyrðinu væri örugglega fullnægt. Í frumvarpinu er gerð tillaga um sveigjanlega reglu að þessu leyti. Tillagan miðast við að eitt af því sem líta beri til er hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Ef sú er raunin getur það haft áhrif á rétt hans til bóta, en leiðir ekki sjálfkrafa til þess að félagið losnar úr ábyrgð í heild eða að hluta. Af þessu leiðir að ákvæðum í skilmálum sem mæla fyrir um að vátryggður megi ekki smakka áfengi á vátryggingartímabilinu, og ef hann geri það leiði það til þess að félagið losnar úr ábyrgð, yrði ekki beitt. Loks ber að líta til atvika að öðru leyti. Tilvísun til atvika að öðru leyti er í frumvarpinu hugsuð til þess að gefa dómstólum visst svigrúm þegar kemur að því að skilgreina undantekningar frá meginreglunni.
    Í þessari málsgrein segir að reglur hennar eigi ekki við í ábyrgðartryggingum. Þær eiga reyndar heldur ekki við í líftryggingum sem um verður fjallað í II. hluta frumvarpsins. Þegar sagt er að reglurnar eigi ekki við í ábyrgðartryggingum er átt við að það sé almenn regla í þeim vátryggingum að stórkostlegt gáleysi vátryggðs leiði ekki til þess að félagið losnar úr ábyrgð. Vera kann þó að háttsemi vátryggðs fari í bága við fyrirmæli í vátryggingarsamningi, sem félaginu er heimilt að semja um, t.d. varúðarreglur. Félaginu er heimilt að semja um slíkar reglur í ábyrgðartryggingum og ef þær eru brotnar af stórkostlegu gáleysi getur félagið almennt borið fyrir sig takmörkun eða niðurfellingu ábyrgðar, einnig gagnvart tjónþola, sbr. 44. gr. frumvarpsins. Í því sambandi ber að hafa í huga að við skyldubundnar ábyrgðartryggingar er vernd tjónþola þó meiri en í öðrum slíkum vátryggingum, sbr. 45. gr.
    Í 3. mgr. er regla sem er sama efnis og 1. málsl. 20. gr. VSL og þarfnast ekki skýringa.
    Loks er í 4. mgr. regla sem kveður á um að félagið geti aðeins borið fyrir sig reglurnar í þessari grein að vátryggður, eða sá sem hann er samsamaður, hafi vitað að það, að vátryggingaratburður yrði væri sennileg afleiðing þeirrar háttsemi sem um ræðir. Ákvæðið er að efni til sambærilegt 1. mgr. 19. gr. VSL, en er þó sveigjanlegra og gerir ráð fyrir að það verði metið í hverju tilviki hvort vátryggður, vegna aldurs eða andlegs ástands, gerði sér grein fyrir afleiðingum háttsemi sinnar.

Um 28. gr.

    Þessi grein er að efni til sambærileg 21. og 52. gr. VSL. Ekki er gerð tillaga um efnislegar breytingar á þeim reglum, þótt þær séu sameinaðar í þessa grein.
    Í 1. mgr. er regla um skyldu vátryggðs til þess að hindra eða takmarka tjón sem af vátryggingaratburði getur leitt. Reglan um skyldu til að hindra eða takmarka tjón er gamalgróin í skaðabótarétti og í vátryggingarétti. Í vátryggingarétti á skyldan rót sína að rekja til þeirrar trúnaðarskyldu sem samningsaðilar bera hvor gagnvart öðrum. Hún er útfærð í frumvarpinu með sama hætti og sams konar regla í skaðabótarétti, þ.e. að vátryggður verður að gera allt, sem með sanngirni má ætlast til af honum til þess að hindra eða takmarka tjón. Um afleiðingar þess að vátryggður vanrækir þessa skyldu er fjallað í 4. mgr.
    Regla 2. mgr. á einnig rætur að rekja til trúnaðarskyldu vátryggðs gagnvart viðsemjanda sínum, félaginu. Reglan er útfærð þannig í þessari málsgrein að honum beri að gæta hagsmuna félagsins í þeim mæli sem sanngjarnt er að ætlast til af honum til þess að tryggja hagsmuni þess gagnvart þriðja manni. Í þessu felst að hann kann að vera skyldur til þess að tilkynna vátryggingaratburð til lögreglu eða vinnueftirlits til þess að tryggja sönnun réttra málsatvika eða til þess að auka möguleika á að tjónvaldur finnist eða viðurkenni háttsemi sína. Í raun er þeim skyldum sem á vátryggðum hvíla samkvæmt þessari málsgrein og hinni fyrri ekki sett önnur mörk en þau sem leiða af sanngirniskröfunum. Skyldan getur því tekið til margs konar aðgerða af hans hálfu.
    Í 3. mgr. er lögð sú skylda á vátryggðan að tilkynna til félagsins án ástæðulauss dráttar að vátryggingaratburður hafi orðið. Ekki er unnt að krefjast þess að hann tilkynni það strax, heldur hlýtur það að ráðast af eðli atburðarins hvaða kröfur beri að gera í þessu efni.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um afleiðingar þess að vátryggður vanrækir þær skyldur sem á hann eru lagðar í 1.–3. mgr. Í samræmi við gildandi rétt er kveðið á um það að einungis vanræksla sem rakin verður til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis hans hafi réttaráhrif fyrir hann. Í þeim tilvikum má fella niður ábyrgð félagsins í heild eða að hluta. Í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í öðrum greinum frumvarpsins er gerð tillaga um að það sé háð mati hvort og þá að hvaða marki ábyrgð félagsins verði felld niður. Við matið ber samkvæmt þessari málsgrein að líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvika að öðru leyti. Allir þessir þættir hafa verið skýrðir áður í frumvarpinu og er ekki ástæða til að gera það aftur. Einungis er þörf að geta þess að taka verður tillit til þess við matið að vátryggður kann að hafa orðið fyrir þess konar tjóni að ekki sé eðlilegt að gera ríkar kröfur til þess að hann tilkynni strax um vátryggingaratburð, auk þess sem það kann að orka tvímælis hvort vátryggingin taki til þeirrar áhættu sem um ræðir. Vátryggður verður því að hafa ráðrúm til að kanna stöðu sína að því leyti, áður en hægt er að krefjast þess að hann tilkynni um atburðinn. Einnig þarf að benda á að óhæfilegur dráttur á tilkynningu, eða vanræksla á því að vátryggður geri sanngjarnar ráðstafanir til þess að hindra eða takmarka tjón, hefur oft í för með sér meira tjón eða aukinn kostnað fyrir félagið vegna björgunaraðgerða eða athugunar á atvikum. Eðlilegast er að það sé þessi aukakostnaður sem fyrst kemur til álita að létta af félaginu, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 21. gr. VSL. Ekki er þó talið rétt að hafa slíka reglu í frumvarpinu, vegna þess að réttara er talið að dómstólar hafi óbundnar hendur við mat sitt á þeim þremur þáttum sem tilgreindir eru og að hve miklu leyti ábyrgð félagsins verður felld niður.

Um 29. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um samsömun, þ.e. að hvaða leyti háttsemi annarra en vátryggðs hefur sömu réttaráhrif og hann hefði viðhaft hana sjálfur. Í VSL er ekki að finna sambærilega reglu en í ýmsum ákvæðum þeirra laga er komið inn á efnið, t.d. í 1. mgr. 51. gr. Ákvæðinu er ætlað að gilda í öllum tilvikum þar sem til álita kemur að takmarka eða fella niður ábyrgð félagsins samkvæmt reglum IV. kafla frumvarpsins. Það gildir einnig um vanrækslu á upplýsingaskyldu. Slík vanræksla gæti leitt til takmörkunar á ábyrgð gagnvart meðvátryggðum. Félagið verður að gera sérstakan fyrirvara ef það ætlar sér að bera fyrir sig vanrækslu á upplýsingaskyldu gagnvart öðrum en þeim sem gefur upplýsingarnar. Takmarkanir á heimildum þess í því efni koma fram í 41. gr.
    Lagt er til að reglan um samsömun verði tvíþætt, þ.e. annars vegar regla sem gildir um vátryggingar á hagsmunum tengdum atvinnurekstri og hins vegar í öðrum tryggingum, svonefndum neytendatryggingum. Í vátryggingum sem ekki tengjast atvinnustarfsemi (neytendatryggingum) hefur félagið þröngar heimildir til þess að takmarka ábyrgð sína með ákvæði í vátryggingarsamningi þess efnis að vátryggður glati rétti til bóta vegna háttsemi ættingja hans, aðstoðarmanna og annarra, sem hafa við hann sambærileg tengsl. Meginreglan á ótvírætt að vera sú að vátryggður á aðeins að þurfa að gjalda fyrir eigin háttsemi með því að réttur hans til vátryggingabóta skerðist. Hann á því ekki að gjalda fyrir að aðrir, án hans vitundar eða samþykkis, hegði sér andstætt þeim forsendum sem félagið lagði til grundvallar áhættumati sínu eða brjóti varúðarreglur. Hið sama á við að því er varðar upplýsingaskyldu vátryggingartaka. Eins og greinir í skýringum við 19. gr. frumvarpsins verður hann að sæta því að reglur samningaréttar leiði til þess að hann er samsamaður þeim sem telst staðgöngumaður hans. Félagið getur hins vegar ekki, vegna þessarar greinar, mælt fyrir um að hið sama skuli gilda um aðra sem það t.d. leitar til með upplýsingar vegna gerðar vátryggingarsamnings. Bannregla þessa ákvæðis um samsömun tekur aðeins til fólks sem er í nánum tengslum við vátryggðan, þ.e. ættingja hans, aðstoðarmanna og annarra sem hafa sambærileg tengsl við hann. Reglan á því ekki við um ákvæði þar sem félagið samsamar aðra vátryggðum, t.d. þjófa, eða þá sem fara með opinbert vald. Í þeim tilvikum er um að ræða takmörkun á áhættu og í því efni er frelsi til að semja.
    Í 2. mgr. er að finna undantekningar frá 1. mgr. Ákvæði 2. mgr. er ekki sjálfstæð regla um samsömun, heldur mælir hún fyrir um það hvaða heimildir félagið hefur til þess að semja um samsömun. Geri félagið ekki slíkan fyrirvara mundu þeir sem upp eru taldir í 1. mgr. ekki verða samsamaðir vátryggðum.
    Í a-lið þessarar málsgreinar er heimildin til að semja um samsömun látin ná til manns sem með samþykki vátryggðs er ábyrgur fyrir hinu vátryggða. Hér þarf að koma til að vátryggður hafi meðvitað afhent umráð og vörslur hins vátryggða með nokkuð varanlegum hætti. Ekki mundi nægjanlegt að hið vátryggða yrði lánað í skamman tíma með venjulegum hætti, og ekki yrði talið nægjanlegt þótt um varanlega heimild til afnota væri að ræða ef vátryggður annast um eða rekur hið vátryggða. Það skal einnig áréttað að tilgreining hinna vátryggðu hagsmuna sem reglan á við er tæmandi.
    Í b-lið er regla sem er svipuð 85. gr. VSL en þó víðtækari, enda gildir hin tilvitnaða grein eingöngu um brunatryggingar, en þetta ákvæði frumvarpsins er einkum miðað við tilgreinda eignatryggingarþætti hefðbundinna neytendatrygginga. Regla frumvarpsins tekur einnig til sambúðarmaka sem býr í föstu varanlegu sambandi við vátryggðan. Hér er um matskennda reglu að ræða, en markmið hennar er að leggja að jöfnu sambúð og hjúskap þegar slík samstaða hefur verið með sambúðaraðilum að eðlilegt er að jafna sambúðinni til hjúskapar. Hér þarf mikið til. Skráning dugir ekki ein og sér og verður ekki gerð að skilyrði, en á hinn bóginn er ljóst að gera verður kröfu um langan og samfelldan sambúðartíma. Eingöngu getur verið um sambúð gagnkynhneigðra að ræða og ekki er unnt að samsama börn foreldrum eða systkinum. Á hinn bóginn er eðlilegt að samkynhneigðir, eða tveir einstaklingar af sama kyni, sem hafa staðfest samvist sína í samræmi við reglur laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, geti verið samsamaðir í þessu sambandi, enda er staðfest samvist um flest fjárhagsleg atriði lögð að jöfnu við hjúskap, sbr. einkum 5. og 6. gr. tilvitnaðra laga. Ljóst er að gera verður þá kröfu til þeirra sem eru í staðfestri samvist að þeir séu í raun samvistum. Ekki verða gerðar vægari kröfur til þeirra að þessu leyti en til hjóna.
    Í 3. mgr. er regla sem tekur til heimilda félagsins til þess að semja um samsömun í vátryggingum tengdum atvinnurekstri. Meginreglan í þeim vátryggingum er sú að ekki skuli vera um samsömun að ræða nema um það sé sérstaklega samið í vátryggingarsamningi. Heimildum félagsins til slíkra samninga eru ekki sett önnur takmörk en þau sem leiða af kröfum um sanngirni. Það verður því að ætla að sá sem samsamaður er vátryggðum hafi þá stöðu í atvinnurekstrinum að sanngjarnt sé að beita samsömun. Við sanngirnismatið yrði m.a. að líta til umfangs atvinnustarfseminnar og sérstakrar þarfar félagsins fyrir að takmarka ábyrgð sína.

Um 30. gr.

    Greinin tekur til heimilda vátryggðs til athafna sem eru andstæðar skuldbindingum hans samkvæmt vátryggingarsamningi en eru viðhafðar í neyðartilvikum. Í 2. mgr. 19. gr. VSL er sambærileg regla, en gildissvið hennar er a.m.k. að formi til takmarkað við tilvik er vátryggður veldur því að vátryggingaratburður á sér stað. Slíka takmörkun er ekki að finna í þessari grein. Henni verður því beitt í öllum tilvikum sem félagið gæti takmarkað ábyrgð sína samkvæmt tilteknum greinum. Að öðru leyti yrði ekki um breytingar á gildandi rétti að ræða.

Um 31. gr.

    Í þessari grein eru reglur um tilkynningarskyldu félagsins ef það ætlar að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð samkvæmt reglum kaflans. Ákvæði um slíka tilkynningarskyldu eru nú í 8. og 48. gr. VSL, en gildissvið þeirra er þó takmarkað við brot á upplýsingaskyldu vátryggingartaka og áhættuaukningu. Í þessari grein er lagt til að reglan hafi mun almennara gildissvið, þ.e. taki til hvers konar ábyrgðartakmarkana sem byggjast á grundvelli reglna í þessum kafla frumvarpsins. Eðlilegt er að á félaginu hvíli skylda til þess að koma því á hreint gagnvart vátryggðum hvort það ætlar að bera fyrir sig takmarkanir á ábyrgð.
    Í 1. mgr. er því slegið föstu að tilkynningu félagsins skuli komið á framfæri við vátryggingartaka. Það gerir félagið með því að senda honum skriflega tilkynningu þar um, sbr. þó það er segir í inngangi athugasemda við II. kafla um möguleika vátryggingafélaga til þess að nýta sér rafræna samskiptahætti. Munnleg tilkynning nægir því ekki. Skal tilkynningin send án ástæðulauss dráttar. Mat á því hve mikið svigrúm félagsins er að þessu leyti verður að fara fram í hverju tilviki fyrir sig. Ekki verða gerðar þær kröfur til félagsins að það sendi strax tæmandi upplýsingar um hvernig það muni bregðast við. Nægilegt væri að það tilkynnti að til athugunar væri að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð, en nauðsynlegt væri þó í þeim tilvikum að strax og atvik væru ljós mundi send fullnaðartilkynning. Í tilkynningunni ber félaginu samkvæmt lokamálslið 1. mgr. að upplýsa vátryggðan um möguleika hans til þess að bera álitaefnið undir úrskurðarnefnd.
    Í 2. mgr. er ákvæði um afleiðingar þess að félagið sinnir ekki skyldum sínum skv. 1. mgr. Afleiðingarnar eru að félagið glatar rétti til þess að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð. Vanrækslan gæti falist í því að það dregur of lengi að senda tilkynningu, en einnig að form hennar eða efni sé ekki fullnægjandi, þ.e. að ekki sé bent á úrlausnaraðila svo sem mælt er fyrir um í lok 1. mgr.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru tillögur að reglum um greiðslu iðgjaldsins. Reglur um það efni eru nú í 12.–17. gr. VSL. Þær reglur eru flóknar og hefur framkvæmdin ekki verið í samræmi við þær, heldur hafa félögin mótað sér reglur um innheimtu iðgjaldsins og afleiðingar vanskila sem eru meira í samræmi við nútímaverklag en reglur gildandi laga. Þær reglur sem gerð er tillaga um í þessu frumvarpi eru fremur í samræmi við þær reglur sem notaðar eru í framkvæmdinni en reglur VSL.
    Þegar skipað er reglum um greiðslu iðgjalds af vátryggingum og um afleiðingar vanskila togast á ýmis sjónarmið. Í fyrsta lagi er iðgjaldið endurgjald vátryggingartaka fyrir það að félagið tekur á sig fyrir hann fjárhagslega áhættu af tilteknu tjóni. Óhjákvæmilegt er að félagið eigi þess kost að losna undan skuldbindingum sínum innan hæfilegs tíma ef í ljós kemur að vátryggingartakinn greiðir ekki iðgjaldið. Ekki er heppilegt að félagið verði bundið í svo langan tíma að það neyðist til að innheimta vangoldið iðgjald eftir að það hefur lýst yfir samningsslitum, heldur er fremur ástæða til að haga reglum svo að iðgjaldsskuldin verði ekki svo há að félagið telji hag sínum best borgið með því að afskrifa hana, þótt því sé það ekki skylt. Í öðru lagi koma til sjónarmið sem lúta að hagsmunum vátryggingartaka, þ.e. því að það stefnir almennt hagsmunum hans í mikla tvísýnu að hann sé sviptur þeirri fjárhagslegu vernd sem vátryggingarsamningurinn veitir honum. Í fæstum tilvikum hafa vátryggingartakar fjárhagslega burði til að taka afleiðingum áfalla, sem þeir hafa vátryggt sig fyrir, án þess að fjármál þeirra lendi í ógöngum um ófyrirsjáanlegan tíma. Í þriðja lagi er heppilegt að leitast við að samræma reglur um þessi efni í skaðatryggingum og persónutryggingum, bæði til að auðvelda vátryggingartökum að hafa yfirsýn yfir málið og vegna þess að oft eru vátryggingar samsettar þar sem bæði skaðatryggingar og persónutryggingar eru hluti af samsettum vátryggingum. Líftryggingar hafa þó sérstöðu að þessu leyti og um þær gilda sérstakar reglur.
    Með hliðsjón af framansögðu hefur verið talið eðlilegt að leggja til að reglum sé skipað þannig að félögin hafi heimildir til þess að slíta vátryggingarsamningi vegna vanskila á iðgjaldi tiltölulega snemma en hagsmunir vátryggingartaka séu tryggðir með því að áskilja honum rétt til aðvarana af hálfu félaganna. Félögunum yrði, ef þessar reglur frumvarpsins verða lögfestar, skylt að senda honum a.m.k. tvær aðvaranir áður en vátryggingin félli niður, auk þess sem frestur hans til að greiða yrði hæfilegur. Í kaflanum er að finna öryggisreglu ef vanskil vátryggingartaka verða vegna atvika sem hann verður ekki sakaður um, t.d. alvarlegra sjúkdóma eða slysa sem gera honum ekki kleift að sinna þeim erindum sem hann þarf að sinna. Loks yrðu félögin skyld til þess að senda vátryggingartaka upplýsingar um afleiðingar vanskila hans, þannig að honum sé ljóst hvaða fjárhagslegu áhættu hann tekur á sig ef hann sinnir ekki kröfum um greiðslu á iðgjaldinu, sem hann hefur skuldbundið sig til að greiða.
    Í kaflanum eru þrjár greinar. Efni þeirra er til samræmis við framanritað í stuttu máli það að fyrst er mælt fyrir um fyrstu tilkynningu um gjalddaga og greiðslufrest á iðgjaldi. Í þeirri næstu er kveðið á um skyldu til að senda aðra aðvörun og gerðar kröfur um efni hennar. Í þeirri þriðju eru fyllingarreglur um það hvenær telja beri greiðslu innta af hendi, þegar vátryggingartaki hefur greitt en félagið ekki móttekið greiðsluna.

Um 32. gr.

    Í þessari grein eru reglur um gjalddaga og venjubundna greiðslufresti iðgjalda. Eins og fram kemur í 1. málsl. gilda reglur greinarinnar eingöngu þegar það er ekki skilyrði þess að skyldur félagsins verði virkar samkvæmt vátryggingarsamningi að iðgjaldið sé greitt. Ef svo er ekki, þá er því slegið föstu að iðgjaldið gjaldfalli þegar þess er krafist. Í þessu felst að gera þarf kröfu um greiðslu iðgjaldsins til þess að gjalddagi verði talinn kominn. Skv. 2. málsl. skal greiðslufrestur vera einn mánuður hið skemmsta frá því tímamarki sem fram kemur í greininni, sendingu tilkynningarinnar. Skv. 3. málsl. hafa vanskil á kröfu um iðgjald að jafnaði engin réttaráhrif fyrir vátryggðan, að öðru leyti en því að hann kann að baka sér skyldu til að greiða dráttarvexti, enda segir þar að vátryggingin haldist þótt greiðsla sé ekki innt af hendi innan þess frests sem settur er fyrir greiðslu iðgjaldsins. Þetta á þó aðeins við ef ábyrgð félagsins er orðin virk en ekki í þeim tilvikum sem félagið hefur áskilið að greiðsla iðgjaldsins sé forsenda þess að vátryggingin verði virk.

Um 33. gr.

    Í þessari grein eru reglur um skyldu félagsins til þess að senda aðra aðvörun ef greiðsludráttur á iðgjaldi verður og ekki er um það samið að greiðsla þess sé forsenda fyrir því að ábyrgð félagsins verði virk. Í greininni er að finna reglur um skilyrði þess að vátrygging falli niður vegna vanskilanna.
    Í gildandi lögum, þ.e. 14. gr., er mælt fyrir um það að ef iðgjaldið er ekki greitt sé ábyrgð félagsins lokið. Í því felst þó ekki að vátryggingarsamningurinn sé ekki í gildi, það sem gerist er að ábyrgð félagsins fellur niður og verður virk ef vátryggingartaki greiðir iðgjaldið. Skylda vátryggingartaka til að greiða iðgjaldið stendur óbreytt. Þessi staða, að samningurinn sé í gildi, en þó ekki að því er varðar ábyrgð félagsins, sem eru meginskyldur þess samkvæmt vátryggingarsamningi, er sérstök og framandi. Hún á sér vart hliðstæðu í öðrum tegundum samninga. Lagt er til að þessi skipan verði lögð af ef frumvarpið verður að lögum. Skapar það hreinni línur og veitir vátryggingartaka betri vernd.
    Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins getur félagið, ef vanskil verða skv. 32. gr., aðeins losnað undan skyldum sínum með því að senda nýja tilkynningu með aðvörun um að vátrygging falli niður ef iðgjaldið er ekki greitt innan 14 daga. Félagið getur ákveðið að senda ekki slíka tilkynningu, en það felur þá í sér að ábyrgð þess er virk og með sama hætti að vátryggingartaki sé skyldur til að greiða iðgjaldið, enda er vátryggingarsamningurinn þá enn í fullu gildi. Ef greiðsla á sér ekki stað, þrátt fyrir tilkynningu með aðvörun skv. 1. mgr., fellur samningurinn niður og báðir aðilar losna frá því tímamarki undan skyldum sínum samkvæmt honum. Fram til þess tímamarks eru skyldur þeirra óbreyttar. Ef félagið tíðkar að senda fleiri tilkynningar með aðvörunum yrði við það miðað að það væri síðasta tilkynningin sem þyrfti að fullnægja skilyrðum þessarar málsgreinar, þ.e. fela skýrlega í sér að vátrygging félli niður ef iðgjaldið yrði ekki greitt innan frestsins.
    Í 2. mgr. er öryggisregla til verndar hagsmunum vátryggingartaka í þeim tilvikum er vanskil verða vegna ófyrirséðra hindrana sem honum er ekki um að kenna. Í þessum tilvikum framlengist fresturinn í þrjá mánuði frá því tímamarki sem talið er lokafrestur tilkynningar skv. 1. mgr. Það er forsenda þess að öryggisreglu þessarar málsgreinar verði beitt að hindrunin hafi komið til áður en fresturinn, sem tilgreindur er í tilkynningu skv. 1. mgr., rann út. Komi hún til síðar getur vátryggingartaki ekki borið ákvæði þessarar málsgreinar fyrir sig. Það er enn fremur skilyrði þess að ákvæðinu verði beitt að vátryggingartaki greiði strax og hindruninni er aflétt. Hann gæti því ekki beðið þar til í lok þriggja mánaða frestsins og greitt þá, ef hindruninni hefur í raun verið aflétt, t.d. eftir einn mánuð. Á umræddu þriggja mánaða tímabili helst ábyrgð félagsins óbreytt. Það eru aðeins hindranir, sem eru ófyrirséðar og vátryggingartaka verður ekki um kennt, sem veita honum rétt til að bera fyrir sig ákvæði þessarar málsgreinar, enda um öryggisreglu að ræða sem veitir honum sérstakan betri rétt en öðrum vátryggingartökum. Eins og áður greinir getur verið um að ræða alvarlega sjúkdóma eða slys sem koma í veg fyrir að vátryggingartaki geti sinnt nauðsynlegum erindum, svo sem að greiða reikninga eða taka flóknar ákvarðanir. Almennar reglur fjármunaréttar leiða til þess að peningaleysi telst ekki hindrun í þessum skilningi og ekki aðrar hindranir sem vátryggingartaki sá eða mátti sjá fyrir. Að öðru leyti verður um skýringar á því hvað telja beri ófyrirséða hindrun, sem vátryggingartaka verður ekki um kennt, að vísa til annarrar löggjafar á sviði fjármunaréttar, einkum kauparéttar. Í ýmsum ákvæðum laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, t.d. 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 57. gr., og í ýmsum ákvæðum laga um fasteignakaup, nr. 40/2002, t.d. 1. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 43. gr., er aðili kaupsamnings leystur undan vanefndaáhrifum, ef slíkar hindranir koma í veg fyrir efndir af hans hálfu. Ljóst er að mikið þarf til svo að efndahindrun leysi mann undan vanefndaáhrifum og hann hefur sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði þess séu fyrir hendi.
    Í 3. mgr. er regla sem samrýmist almennum reglum samningaréttar, þ.e. samþykki sem kemur of seint skal skoðast sem ósk um nýjan samning. Almennt yrði talið að líta bæri á síðbúna greiðslu sem ósk um sams konar vátryggingarsamning og áður gilti. Það felst í tilvísun til reglu 3. mgr. 13. gr. að slík beiðni veldur því að vátryggingarsamningur stofnast og þar með verður ábyrgð félagsins virk. Til þess að hamla gegn misnotkun verður það þó ekki fyrr en daginn eftir að iðgjaldið telst greitt.
    Í greininni er ekki að finna sérstaka reglu um hvernig með á að fara ef greiðsludráttur verður á viðbótariðgjaldi, en félagið getur þurft að innheimta viðbótariðgjald í ýmsum tilvikum, t.d. þegar vátryggingartaki óskar eftir því á vátryggingartímabilinu að vátryggingarfjárhæðir verði hækkaðar, t.d. vegna verðmætisaukningar innbús eða annarra vátryggðra hagsmuna. Viðbótariðgjald getur einnig orðið vegna áhættuaukningar ef félagið hefur með réttum hætti áskilið sér hærra iðgjald við þær aðstæður. Ekki þykir ástæða til sérstakra reglna um þessi tilvik. Miða verður við að reglur 32. og 33. gr. frumvarpsins eigi við um viðbótariðgjald að breyttu breytanda. Á hinn bóginn yrði meginreglan sú að vanskil á viðbótariðgjaldi ættu ekki að hafa áhrif á réttindi og skyldur aðilanna samkvæmt vátryggingarsamningi að öðru leyti. Þó gæti svo verið í ýmsum tilvikum, t.d. ef iðgjald hækkar vegna verðmætisaukningar vátryggðra hagsmuna. Ef það er ekki greitt yrðu hagsmunirnir undirvátryggðir og yrði þá að líkindum beitt reglum sem um þau tilvik gilda. Ef viðbótariðgjald yrði vegna áhættuaukningar yrði að leggja mat á það hvort og þá hvaða heimildir félagið hefði t.d. til að slíta samningi, ef vanskil verða á því.

Um 34. gr.

    Í þessari grein eru fyllingarreglur um það hvenær telja beri greiðslu iðgjalds innta af hendi í þeim tilvikum sem hún er farin frá vátryggingartaka en ekki komin til félagsins. Í 32. og 33. gr. eru mikilsverðir hagsmunir tengdir því að greiðsla sé innt af hendi innan tiltekins frests. Það þykir því nauðsynlegt að lögfestar séu fyllingarreglur til þess að taka af skarið um ýmis vafamál sem kunna að rísa um það hvenær telja beri greiðslu innta af hendi í skilningi tilgreindra lagagreina. Þær fyllingarreglur sem hér er gerð tillaga um eru að ýmsu leyti öðruvísi en leiða mundi af almennum reglum kröfuréttar. Þykir slíkt réttlætanlegt í því skyni að tryggja sem best hagsmuni vátryggingartaka, sem komið hefur frá sér greiðslu innan tilskilins frests, þótt hún hafi ekki borist félaginu. Í reglunum felst að vátryggingartaki er ekki látinn bera hallann af því að póstþjónustan, bankar, sparisjóðir eða aðrir slíkir aðilar eða tölvuþjónustur skili ekki af sér greiðslum réttilega, þannig að vátryggingin helst í gildi. Þess ber þó að geta að fyllingarreglurnar eru miðaðar við að taka af skarið um hvenær greiðsla telst innt af hendi og þar með hvort vátryggingin helst í gildi eða hvort hún fellur úr gildi. Reglunum er á hinn bóginn ekki ætlað að firra vátryggingartaka endanlega ábyrgð á greiðslu sem félagið fær alls ekki. Vátryggingartaki verður að bera endanlega ábyrgð á greiðslunni gagnvart félaginu, þ.e. greiða á nýjan leik, en það hefur ekki þau réttaráhrif að vanskil teljist hafa orðið á fyrri greiðslunni.
    Sé iðgjaldið greitt í reiðufé á starfsstöð félagsins getur vart risið vafi um hvenær það hafi verið innt af hendi. Slíkt er hins vegar afar fátítt nú orðið. Vátryggingafélög senda innheimtuseðla til vátryggingartaka, sem greiddir eru með ýmsum hætti. Fátítt er að peningar séu sendir með pósti sem greiðsla, þótt það kunni að vera eitthvað tíðkað. Flestir innheimtuseðlar eru greiddir gegnum banka, sparisjóði eða pósthús og þá þannig að greiðandinn kemur til þessara stofnana og borgar innheimtuseðlana eða óskar eftir því að seðilfjárhæðin verði tekin út af reikningi sínum og notuð til að greiða hann. Það verður æ algengara að einstaklingar og rekstraraðilar greiði reikninga sína rafrænt, þ.e. í gegnum einkatölvur á heimilum eða vinnustað. Einnig er algengt að bankar og sparisjóðir annist greiðslu reikninga fyrir einstaklinga samkvæmt almennum samningi um það. Þessar fjölbreyttu aðferðir við greiðslu geta í mörgum tilvikum valdið vafa um hvenær telja eigi hana hafa farið fram.
    Í a–c-lið er tekið af skarið um það hvenær telja beri greiðslu innta af hendi í þremur megintilvikum.
    Í a-lið er kveðið á um að greiðsla sem send er í pósti í formi peninga, tékka eða annarri sambærilegri ávísun á peninga, skuli teljast innt af hendi þegar hún hefur verið send. Ekki er áskilið að um ábyrgðarsendingu sé að ræða. Vátryggingartaki hefur sönnunarbyrði fyrir því hvort hann hafi sent greiðsluna og þá hvenær það gerðist. Póststimpill, eða kvittun, sé hún gefin, mundi oftast vera til sönnunar um sendingartíma. Í reglunni felst að vátryggingartaki ber ekki ábyrgð á hugsanlegri seinkun, sem verður hjá póstþjónustunni. Af sjálfu sér leiðir að það nægir ekki að sýna fram á að slík greiðsla eða ávísun á peninga hafi verið send, ef hún er ekki innleysanleg þegar félagið lætur á það reyna. Slík greiðslutilboð eru ekki lögmæt.
    Í b-lið er kveðið á um að greiðsla skuli teljast innt af hendi þegar hún hefur verið greidd til pósthúss, banka eða sparisjóðs í því skyni að þessar stofnanir komi henni áfram til félagsins. Oftast mundi unnt að sanna þetta, t.d. með því að sýna greiðslustimpil frá viðkomandi stofnun.
    Í c-lið er regla, sem líklega hefur mesta hagnýta þýðingu, því æ fleiri inna af hendi greiðslu með slíkum fyrirmælum, einkum eykst þýðing rafrænna greiðslufyrirmæla. Reglan kveður á um að greiðslan teljist innt af hendi, þegar fyrirmælin um greiðslu eru send. Vátryggingartaki hefur einnig hér sönnunarbyrði fyrir sendingartíma slíkra fyrirmæla. Slík sönnun á að jafnaði að vera honum léttbær.
    Gera verður tvíþættar kröfur til slíkra fyrirmæla. Annars vegar verður að vera um gild fyrirmæli að ræða, þ.e. fyrirmæli sem unnt er að verða við. Þessi krafa felur það í sér að ekki er nægjanlegt fyrir vátryggingartaka að gefa rafræn greiðslufyrirmæli í einkatölvu sinni þess efnis að bankareikningur hans skuli skuldfærður fyrir fjárhæð, sem tilgreind er sem iðgjald á greiðsluseðli vátryggingafélags, ef ekki er innstæða á reikningnum, eða heimild til að yfirdraga hann. Hins vegar verður að vera um að ræða sérstök fyrirmæli, þ.e. fyrirmæli sem lúta sérstaklega að greiðslu iðgjaldsins. Í þessu felst að samningur vátryggingartaka við banka eða sparisjóð um greiðsludreifingu, sem felur í sér fyrirmæli til bankans eða sparisjóðsins um að greiða alla reikninga hans, teljast ekki fullnægja fyrirmælum þeim, sem c-liður tekur til.

Um VI. kafla.

6.1 Inngangur.
    Í þessum kafla er að finna almennar reglur um ábyrgð félagsins þegar vátryggingaratburður á sér stað (35. og 36. gr.), um tvítryggingar (37. gr.) og um ábyrgð þess á björgunarkostnaði (38. gr.). Í VSL eru um þessi efni ítarleg ákvæði í 36.–43. gr., 52. og 53. gr. og 75. gr., auk þess sem í 35. gr. er ákvæði um tryggingarhagsmuni, þ.e. hvaða hagsmuni heimilt sé að vátryggja.
    Þótt frumvarpið hafi ekki að geyma reglur sem ætlað er að breyta í verulegum atriðum þeirri réttarframkvæmd sem verið hefur á grundvelli VSL eru reglur þess mun einfaldari en hin tilgreindu ákvæði gildandi laga og gengið er út frá því að reglur um útreikning bóta verði að finna í vátryggingarsamningunum sjálfum, en ekki í lögum, og eru því ekki gerðar tillögur um það. Þær tillögur sem eru gerðar að reglum um tvítryggingar og um björgunarkostnað eru efnislega í samræmi við gildandi rétt en leitast er við að haga orðalagi þannig að eytt sé a.m.k. einhverju af þeim túlkunarvafa sem verið hefur uppi um þau efni.

6.2 Um efni 35. gr. VSL.
    Í 35. gr. VSL segir að gegn skaða megi vátryggja sérhverja lögmæta hagsmuni er metnir verða til peningaverðs, hvort heldur eru hagsmunir vátryggingartaka sjálfs eða þriðja manns. Í ákvæðinu er að finna tvær takmarkanir á því að skaðatryggja megi hagsmuni, þ.e. hagsmunirnir verða að vera löglegir og þeir verða að vera þess eðlis að þá megi meta til peningaverðs. Ástæða er til að fjalla nánar um efni þessarar greinar, einkum þar sem ekki er gerð tillaga að sambærilegri grein í frumvarpinu.
    Hugtakanotkun greinarinnar miðast við að í eignatryggingum sé það í raun ekki hluturinn sjálfur sem sé vátryggður heldur þeir fjárhagslegu hagsmunir sem við hann eru tengdir. Eigandi hlutar, t.d. bifreiðar, getur haft margs konar fjárhagslega hagsmuni tengda honum, af því að eyðilegging eða tjón á hlutnum getur falið í sér margs konar fjárhagslegt tjón fyrir hann. Það má hugsa sér að hann noti bifreiðina til persónulegra þarfa sinna og fjölskyldu sinnar og að hann noti bifreiðina einnig í tengslum við atvinnurekstur sinn, en auk þess hafi hann veðsett bifreiðina til tryggingar láni sem hann hefur tekið. Hann getur líka hafa samið við ferðaskrifstofu um að leigja henni bifreiðina til aksturs ferðamanna í útsýnisferðum á háannatíma á sumrin þegar hann er sjálfur í sumarleyfi. Í þessu tilviki er staðan ekki eingöngu sú að bifreiðareigandinn, vátryggingartaki, eigi sjálfur fjölþætta hagsmuni af því að bifreiðin verði ekki fyrir skemmdum eða eyðileggingu, aðrir kunna að eiga hér beinna hagsmuna að gæta, t.d. veðhafinn.
    Skilyrði 35. gr. VSL um lögmæta hagsmuni virðist sjálfsagt og eðlilegt, en merking þess er þó fjarri því að vera ótvíræð í öllum tilvikum. Felst í þessari kröfu t.d. að heimilistæki í húsi, sem flutt hafa verið til landsins án þess að greiddir hafi verið af þeim lögboðnir tollar og gjöld, sem skemmast af eldi eða er stolið teljast ekki lögmætir hagsmunir og gætu þess vegna ekki verið grundvöllur bóta? Hvað með sumarhús, byggt úr timbri sem tekið hefur verið ranglega út í nafni annars aðila og byggt af mönnum sem ekki hafa lagt virðisaukaskatt á þóknanir sínar, og skemmist í eldi? Á ekki að bæta það, t.d. eftir að fimm eða tíu ár eru liðin frá byggingartíma þess? Hvað um starfsemi sem rekin er í blóra við opinbersréttarlegar reglur um mengunarvarnir eða án nægilegra öryggisráðstafana fyrir starfsfólk? Ef niðurstaðan væri sú að hagsmunir eiganda gætu ekki talist löglegir, hvað þá með hagsmuni annarra sem tengdir eru þessum eignum, t.d. veðhafa? Á hið sama að gilda um þá? Af framangreindu má ráða að áskilnaðurinn um lögmæta hagsmuni er óljós í mörgum tilvikum og það verður að ráðast af mati á atvikum hverju sinni hvort hagsmunir teljast lögmætir eða ekki. Af þessum ástæðum er hæpið að hafa slíkan áskilnað í lögum, enda merking óljós eins og fyrr greinir. Það eru auk þess önnur og heppilegri úrræði til þess að hindra að félögin verði skuldbundin til þess að greiða bætur vegna hagsmuna sem víst er að séu ólögmætir. Í fyrsta lagi er ráð fyrir því gert í 58. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, að Fjármálaeftirlitið fái til skoðunar vátryggingarskilmála áður en þeir eru boðnir vátryggingartökum hér á landi. Sambærileg krafa er í 55. gr. laganna og þar er einnig að finna heimildir fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að krefjast þess að vátryggingarskilmálar sem eru andstæðir lögum eða góðum viðskiptaháttum verði dregnir til baka eða þeim breytt. Í öðru lagi leiðir 36. gr. laga nr. 7/1936, með síðari breytingum, til þess að félagið getur neitað að greiða bætur ef í ljós kemur að hinir vátryggðu munir teljast fela í sér ólögmæta hagsmuni, eru t.d. fengnir með þjófnaði. Auk þess hefur það lengi verið óskráð regla í íslenskum rétti að ekki sé skylt að efna þá samninga sem fara í bága við lög og gott siðferði. Er þetta ein af grundvallarreglum samningaréttar og kennd í inngangsfræðum þeirrar greinar lögfræðinnar og gjarnan í því sambandi nefndar skuldir vegna fjárhættuspila, þóknanir vegna mútugreiðslna, vændis og þess háttar. Af framangreindu leiðir að það felur ekki í sér neina áhættu að hafa ekki lengur áskilnað um að aðeins megi vátryggja lögmæta hagsmuni, auk þess sem þeirri kröfu gildandi laga hefur aldrei verið hægt að fylgja eftir til hlítar.
    Skilyrði 35. gr. VSL um að einungis megi vátryggja hagsmuni sem metnir verði til peningaverðs felur það í raun í sér að einungis sé hægt að vátryggja gegn fjártjóni. Í flestum tilvikum er ekki vafi á því hvaða hagsmunir verða metnir til peningaverðs. Samt má nefna ýmis tilvik þar sem hlutir hafa minjagildi fyrir tiltekna menn og verða jafnvel metnir til peningaverðs í hugum þeirra en verða ekki metnir til fjár eftir almennum mælikvarða. Hlutir kunna að hafa mikið minjagildi en afar takmarkað peningagildi, a.m.k. á almennan mælikvarða, t.d. ættargripir og þess háttar. Skilyrðinu um að hlutir verði metnir til fjár er vart unnt að fullnægja að öllu leyti, a.m.k. ekki í þeim skilningi að þeir hafi almennt fjárhagslegt gildi. Í 35. gr. VSL er ekki kveðið á um það hve mikið fjártjónið getur verið eða hve hátt megi tryggja hluti (hagsmuni) sem uppfylla þau skilyrði að vera bæði lögmætir og metnir til peningaverðs. Um það er regla í 39. gr. VSL sem hefur náin tengsl við 35. gr. Samkvæmt fyrrnefndu greininni er félaginu óskylt að greiða hærri bætur en með þarf til þess að bæta það tjón sem orðið hefur, þótt samið sé um annað. Í 2. mgr. segir að sé kveðið á um ákveðið verð hinna vátryggðu muna í vátryggingarsamningum, eða samið um tiltekna aðferð við mat á tjóninu, þá séu þau ákvæði skuldbindandi fyrir félagið nema það sanni að bæturnar mundu þá nema meiru en upphæð tjónsins. Reglan felur í sér bann við því að vátryggður geti hagnast á vátryggingaratburði. Vátryggingar eiga að vera til þess að bæta tjón og veita vátryggðum fjárhagslegt öryggi en ekki til þess að menn geti hagnast á þeim. Ákvæði 39. gr. VSL hefur verið talið veita vátryggingum sem starfsgrein yfirbragð trausts. Menn hafa talið að hætta væri á misnotkun þess nauðsynlega úrræðis sem vátryggingar eru ef ekki nyti við þessa ákvæðis, enda gæti möguleiki á því að oftryggja leitt til fleiri tryggingarsvikamála. Hugmyndin með þeirri útfærslu sem felst í 35. og 39. gr. VSL er sú að menn fái í skaðatryggingum aðeins bætt raunverulegt fjártjón sitt. Þær röksemdir sem raktar hafa verið eru í sjálfu sér góðra gjalda verðar. Vandinn er á hinn bóginn sá að þessum meginreglum hefur alls ekki verið fylgt að öllu leyti í framkvæmd og má fullyrða að í sumum tilvikum mundu þær, ef þeim væri fylgt samkvæmt orðanna hljóðan, setja eðlilegri vátryggingastarfsemi óheppilegar skorður og leiða til þess að vátryggingartökum þætti sér ekki sýnd full sanngirni. Sem dæmi hefur það tíðkast mjög t.d. í heimilis- og fjölskylduvátryggingum, þ.e. innbúsþætti þeirra, að ákveðið sé í skilmálum að bætur greiðist á grundvelli verðs á nýjum sams konar hlutum og að frádráttur vegna aldurs og notkunar komi því aðeins til greina að notagildi hlutanna hafi minnkað verulega fyrir vátryggðan. Í þessu felst að þvottavél eða sjónvarpstæki sem eyðileggst bætist með andvirði nýs, enda sé skilyrðinu um að notagildi sé ekki verulega minnkað fullnægt. Tækin kunna að hafa verið margra ára gömul. Nývirðistrygging, en svo eru þessar tryggingar oft nefndar, leiðir í raun til þess að vátryggingartaki hagnast fjárhagslega og þarf ekki að taka á sig verðrýrnun vegna notkunar. Nývirðistrygging samræmist því ekki banni 39. gr. VSL. Heimild til að nota nývirðistryggingar hefur þó ekki verið dregin í efa í seinni tíð og víst er að þær eru til mikils hagræðis fyrir vátryggingartaka.
    Þá hafa mjög tíðkast vátryggingar þar sem vátryggingarverð er bundið, þ.e. fyrir fram er um það samið hvaða fjárhæð eigi að bæta tiltekinn vátryggðan hlut. Gert er ráð fyrir þeim t.d. í 2. mgr. 75. gr. VSL, auk þess sem 2. mgr. 39. gr. miðast við að slíkir samningar tíðkist. Ljóst er að samningar um bundið vátryggingarverð samrýmast oft illa banni 39. gr. um hagnað hins vátryggða af vátryggingum, því bætur kunna oft að vera hærri en sem nemur raunverulegu fjártjóni hans. Félögin bera afar sjaldan fyrir sig að bundið vátryggingarverð eigi ekki að leggja til grundvallar vegna 2. mgr. 39. gr. Er slíkt vitaskuld erfitt fyrir þau þar sem fyrir liggur samkomulag um verð. Fullyrða má að ekki hefur verið litið á þetta sem sérstakt vandamál í framkvæmd.
    Af framangreindu leiðir að reglum 35. og 39. gr. VSL, þótt þær hafi verið taldar mikilvægar grundvallarreglur, hefur ekki verið fylgt að fullu í framkvæmd og raunverulegt sjálfstætt gildi þeirra, miðað við hljóðan reglnanna, hefur því verið takmarkað. Í frumvarpi þessu er því lagt til að ekki verði haldið fast við þær, heldur verði leitast við að viðhalda þeim efnislegu grundvallarreglum sem í þeim felast með öðrum hætti. Í þessu felst að meiri ábyrgð verður lögð á félögin um að gæta þess í framkvæmd að vátryggingar verði ekki misnotaðar og á eftirlitsaðila um að fylgjast með að svo verði.
    Ákvæði þessa kafla frumvarpsins miðast við að löggjafinn láti sig minna varða útreikning bóta og samninga um vátryggingarfjárhæð en VSL gera ráð fyrir. Telja verður eðlilegt að félögunum gefist kostur á því að ráða þessum atriðum til lykta í vátryggingarskilmálum og að svigrúm verði til mismunandi útfærslna sem leiða ætti til frekari samkeppni þeirra á milli. Ítrekað skal þó að með frumvarpi þessu er ekki stefnt að róttækum breytingum á þeirri framkvæmd sem verið hefur undanfarin ár.

Um 35. gr.

    Í 1. mgr. þessarar greinar er við það miðað að það sé samningsatriði milli félagsins og vátryggingartaka hver vátryggingarfjárhæðin sé og hvernig vátryggingarverðmætið skuli ákveðið. Það getur verið gert með ýmsu móti, t.d. að það skuli miðað við nývirði vátryggðs munar, notagildi hans eða verðmæti á þeim degi er vátryggingaratburður varð. Þess vegna eru það fyrst og fremst ákvæði vátryggingarsamningsins sem ákvarða það hvaða vátryggingarbætur verða greiddar. Sé ekki um annað samið gerir ákvæðið ráð fyrir því að vátryggður eigi rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Enn er miðað við að aðeins fjártjón sé bætt. Orðið fjártjón er notað til samræmis við orðanotkun skaðabótalaga, nr. 50/1993, sem nota orðið um hvers konar fjárhagslegt tjón. Orðin ,,fullar bætur“ verður að skýra eftir samhengi þeirra. Ef samið er um vátryggingarverð mundi greiðsla þess teljast fullar bætur í skilningi ákvæðisins. Sé ekki um annað samið mundu fullar bætur teljast þær bætur sem samkvæmt reglum skaðabótaréttar bæri að greiða í því tilviki sem um ræðir. Þótt því mætti halda fram að reglur skaðabótaréttar mældu ekki fullar bætur, svo sem stundum hefur verið talið um bætur fyrir líkamstjón, þá mundi það ekki auka rétt hins vátryggða eða þriðja manns til bóta, hann yrði að lúta reglum skaðabótaréttar um ákvörðun þess hvað teldust fullar bætur. Séu hagsmunir einungis vátryggðir að hluta, eða ef hinn vátryggði ber hluta áhættunnar, er ljóst að fullar bætur felast í réttum efndum vátryggingarsamningsins, þótt það teldust ekki fullar bætur í skilningi skaðabótaréttar.
    Oftast leikur ekki vafi á því þegar eignir eru að fullu vátryggðar hverjar vátryggingarbæturnar eigi að vera. Slíkt getur þó komið fyrir, t.d. þegar um er að ræða rekstrarstöðvunartryggingar, réttaraðstoðartryggingar og ábyrgðartryggingar. Í þeim tilvikum verður að ætla að félögin sjái til þess að nánari ákvæði um ákvörðun bóta verði í vátryggingarsamningi. Aðferðir við útreikning bóta skipta einnig miklu máli í eignatryggingum. Á slíku verður að taka í vátryggingarsamningum svo sem fyrr greinir, t.d. kveða á um að draga eigi frá bótum fjárhæðir vegna rýrnunar sem leiðir af aldri og notkun eða hvort greiða eigi bætur sem samræmast nývirði hlutar. Sá tími sem mat á verðmæti muna miðast við á einnig að vera tilgreindur í vátryggingarskilmálum, ef hann skiptir þá máli.
    Sú staðreynd að í 1. mgr. er gert ráð fyrir að samið kunni að verða þannig að vátryggður eigi ekki rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt felur það í sér að félögin geta í skilmálum sínum samið um hver áhrif undirvátryggingar eiga að hafa, þ.e. þegar vátryggt er undir verði, en um það er nú ákvæði í 40. gr. VSL. Einnig er unnt að semja um eigin áhættu vátryggðs, auk þess sem hægt er að semja um nývirðistryggingar, bundið vátryggingarverð o.s.frv. Ef óvissa verður um hvernig skýra beri vátryggingarsamninga að þessu leyti kemur til kasta fyllingarreglunnar í 1. mgr. um að vátryggður eigi rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Orðið fjártjón tekur aðeins til útreiknings á tjóni en ekki til þess hvaða þættir eru bættir. Slíkt mundi ráðast af skilmálunum sjálfum. Ef um eignatryggingu væri að ræða og hlutur sem vátrygging tekur til eyðileggst felst reglan um bætur fyrir fjártjón í að meta á verðmæti hlutarins sjálfs. Hún felur á hinn bóginn ekki í sér að meta eigi allt fjártjón óháð því hvers konar tjón er um að ræða. Vátryggður ætti því ekki á grundvelli hennar einnar og sér rétt á bótum fyrir fjártjón sem fælist í afnotamissi af hlutnum. Stoð fyrir slíkri kröfu yrði að vera í vátryggingarsamningnum réttilega túlkuðum.
    Fyllingarreglan í 1. mgr. felur í sér að vátryggður á rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Það verður að skilja svo að hann þurfi ekki að sæta frádrætti á bótum vegna þess að vátryggt sé undir verði, nema um það sé sérstaklega samið í vátryggingarsamningi. Á hinn bóginn verður að skýra regluna svo að vátryggður verði að sætta sig við eðlilegar bætur, verði t.d. að sætta sig við enduröflunarverð vátryggðs hlutar en geti ekki krafist viðgerðarkostnaðar ef sá kostnaður fer langt umfram enduröflunarverðið. Um skýringu á orðunum fullar bætur vísast til þess sem segir hér að framan.
    Í 2. mgr. er lagt til að tekið verði af skarið um rétt vátryggðs til bóta sem ákveðnar eru sem viðgerðarkostnaður eða enduröflunarverð, án tillits til þess hvort hann hafi framkvæmt viðgerð eða aflað nýs hlutar. Þessi regla er í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar um að þegar staðreynt hefur verið að tjónþoli hefur orðið fyrir fjártjóni á hann rétt á skaðabótum úr hendi þess sem bótaskyldur er, óháð því hvort hann hefur eða ætlar að gera við skemmdan hlut eða afla nýs í stað þess sem eyðilagður hefur verið. Ekki þykir rétt að skylda vátryggðan til viðgerða eða enduröflunar ef hann kýs það ekki sjálfur. Frá þessu yrði þó vikið ef um það væri samið í vátryggingarsamningi eða um það væru fyrirmæli í sérlögum.
    Í 3. mgr. er tekið af skarið um að vátryggður eigi rétt á bótum í peningum, nema um annað sé samið, eða það leiði af lögum. Ákvæðið felur í sér að félögin geta áskilið sér að bæta t.d. eyðilögð eða horfin heimilistæki með nýjum, sem þau afla sjálf. Ekki er útilokað að félögin geti aflað slíkra muna á góðum kjörum vegna stöðu sinnar. Verður ekki séð að hagsmunir vátryggðs séu fyrir borð bornir þótt félögin leitist við að efna skyldur sínar með þessum hætti.

Um 36. gr.

    Í þessari grein er að finna heimild til þess að víkja til hliðar samningi um að tjón á tilteknum hagsmunum skuli bæta með ákveðinni fjárhæð, þ.e. þegar vátryggingarverðið er bundið. Meginreglan er ótvírætt sú að félagið sé bundið við slíkan samning, enda á félagið að hafa alla burði til að leggja mat á það hvort umsamið vátryggingarverð sé hæfilegt eða ekki. Eðlilegt þykir þó að taka það sérstaklega fram að svo þurfi ekki alltaf að vera. Miðast ákvæðið við að félagið geti vikið frá slíkri ákvörðun vátryggingarverðs ef hún byggist á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum vátryggingartaka um atvik sem höfðu þýðingu við ákvarðanatökuna. Í 2. málsl. er kveðið á um að reglur 19.–23. gr. og 31. gr. gildi eftir því sem við getur átt. Tilvísun þessi felur í sér að við svik fellur ábyrgð félagsins niður að fullu, sbr. 1. mgr. 20. gr. Í öðrum tilvikum yrði það metið með hliðsjón af þeim atriðum sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr. 20. gr. hvaða áhrif vanræksla á upplýsingaskyldu vátryggingartaka hefði. Miða verður við að sé um vanrækslu á upplýsingaskyldu að ræða (þ.m.t. að rangar upplýsingar hafi verið veittar) mundi það almennt leiða til þess að ábyrgð félagsins yrði lækkuð frá hinu bundna vátryggingarverði til raunverulegs verðmætis hins vátryggða. Sé sök mikil, án þess að um svik hafi verið að ræða, yrði e.t.v. gengið lengra í að lækka ábyrgð félagsins. Félaginu er heimilt að segja upp vátryggingarsamningi á grundvelli 21. gr. án þess að komi til sök af hálfu vátryggingartaka. Þá felur tilvísun til 22. gr. það í sér að ef félagið vissi eða mátti vita að upplýsingar voru ófullnægjandi eða rangar geti það ekki borið vanrækslu á upplýsingaskyldu fyrir sig. Tilvísun til 23. gr. getur t.d. haft þýðingu í þeim tilvikum sem ekki er ljóst hvort listmunur er ekta eða ekki. Getur þá félagið gert fyrirvara um að ábyrgð þess sé háð því að listmunurinn sé ósvikinn, en að það greiði lægri bætur ef svo reynist ekki vera.
    Þess ber að geta að heimild félagsins til að víkja frá bundnu vátryggingarverði samkvæmt þessari grein er háð því að upplýsingaskylda hafi verið vanrækt. Ekki kemur fram í greininni að þetta geti verið heimilt af öðrum ástæðum. Þess vegna hefði framvinda eftir að samningur var gerður venjulega ekki þessi réttaráhrif þótt aðstæður breyttust. Eðlilegt er að leggja á félögin að gera ráðstafanir til að gæta hagsmuna sinna við slíkar aðstæður. Ekki er þó útilokað að almennar reglur, t.d. 36. gr. laga nr. 7/1936, með síðari breytingum, heimilaði félaginu að losna úr ábyrgð að hluta ef skilyrði til beitingar hennar væru talin vera fyrir hendi. Regla 36. gr. síðastnefndra laga, eins og hún varð eftir breytingar þær sem gerðar voru með lögum nr. 11/1986, er fyrst og fremst sett til verndar neytendum eða öðrum þeim sem standa höllum fæti í samningssambandi. Gildissvið reglunnar er þó ekki bundið við slíka aðstöðu. Vátryggingafélag gæti reist rétt á því að vátryggður eigi ekki að geta borið fyrir sig ákvæði vátryggingarsamnings um bundið vátryggingarverð ef það yrði talið ósanngjarnt þegar litið væri til allra atvika, einnig atvika sem áttu sér stað eftir að vátryggingarsamningurinn var gerður. Ætti þetta einkum við ef raunverulegt verðmæti hins vátryggða hefði breyst verulega til lækkunar og vátryggðum væri um það kunnugt, en upplýsti félagið þó ekki um það. Við mat á því hvaða áhrif þetta ætti að hafa á ábyrgð félagsins yrði m.a. að líta til þess hve mikill munur væri á hinu bundna vátryggingarverði og raunverulegu verðmæti hins vátryggða, hve lengi vátryggður hefði greitt iðgjöld miðað við hið bundna vátryggingarverð og hversu mikið athafnaleysi félagsins hefði verið. Með þessu yrði komið í veg fyrir að hinn vátryggði hagnaðist stórlega með óréttmætum hætti á kostnað félagsins.

Um 37. gr.

    Í þessari grein eru reglur um tvítryggingu. Lagt er til að þær reglur verði óbreyttar að mestu frá gildandi lögum, en í VSL eru reglur um þetta efni í 41.–44. gr. Tillagan í þessari grein gerir ráð fyrir mun einfaldari framsetningu reglna um efnið, en ætti þó ekki að leiða til efnislegra breytinga sem sérstaka þýðingu hafa.
    Í 1. mgr. er lagt til að ef sama tjón fellur undir fleiri en eina vátryggingu geti vátryggður valið hvaða vátryggingu hann vill nota þar til hann hefur fengið þær bætur sem hann á kröfu til. Orðalagið er nægilega rúmt til þess að reglan verði sú að ekki á að skipta máli hvort tjónið fellur undir fleiri en eina vátryggingu hjá sama félagi eða fleiri en einu félagi, en 41. gr. VSL tekur eingöngu til síðarnefnda tilviksins. Valfrelsi vátryggðs í þessum efnum getur skipt hann miklu máli, t.d. getur verið að hann missi iðgjaldsafslátt á einum stað en ekki öðrum, eigináhætta hans getur verið mismunandi o.fl.
    Af reglu 1. mgr. leiðir líka að tvítrygging getur ekki leitt til þess að vátryggður fái tvöfaldar bætur. Hann getur aðeins fengið bætt fjártjón sitt en ekki meira. Réttur hans stendur til þess að fá tjónið bætt eftir reglum þess vátryggingarsamnings sem veitir honum hæstar bætur. Ef vátryggingarverð í tveimur vátryggingarsamningum er bundið, en á mismunandi hátt, getur hann því valið að fá bætur á grundvelli þess sem færir honum hæstar bætur. Ef þær eru samt lægri en verðmæti hins vátryggða á hann rétt á að krefja um bætur á grundvelli hins samningsins þar til hann fær fjártjón sitt að fullu bætt. Reglur þessar eru ófrávíkjanlegar þannig að í vátryggingarsamningi er ekki hægt að rýra þann rétt sem vátryggður á eftir 1. mgr.
    Í 2. mgr. er ákvæði um skiptingu ábyrgðar milli tveggja eða fleiri vátryggingafélaga sem ábyrgð bera á tjóni skv. 1. mgr. Mælt er fyrir um að ábyrgð þeirra skuli vera hlutfallsleg nema um annað sé samið. Ákvörðun vátryggðs um hvaða vátryggingarsamning hann kýs að leggja til grundvallar skiptir því ekki máli um ábyrgð félaganna innbyrðis og hugsanlegur ágreiningur félaga um innbyrðis uppgjör á ekki að skipta vátryggðan máli.

Um 38. gr.

    Þessi grein tekur til ábyrgðar félagsins á björgunarkostnaði en um það eru nú reglur í 53. gr. VSL. Ekki er stefnt að neinum verulegum breytingum á gildandi rétti en fullyrða má þó að réttarstaða þriðja manns sé styrkt verulega, svo sem síðar verður lýst.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um skilyrði þess að félagið beri ábyrgð á björgunarkostnaði og um það hverjir eigi rétt til bóta fyrir slíkt tjón.
    Í málsgreininni er vísað til 28. gr. frumvarpsins en í þeirri grein eru m.a. ákvæði um skyldu vátryggðs til að hindra að vátryggingaratburður verði og til að hindra eða takmarka tjón. Í tilvísuninni felst að það er einungis við aðstæður þar sem um er að ræða ,,yfirvofandi hættu“ á að vátryggingaratburður verði, eða hann er þegar orðinn, sem ákvæðinu verður beitt og félagið getur borið ábyrgð. Það er jafnframt skilyrði skv. 1. mgr. að um sé að ræða ráðstafanir sem hafa það markmið að forða tjóni sem fellur undir vátrygginguna. Skilja verður orðið ráðstafanir svo að það taki bæði til athafna og athafnaleysis. Ef markmið ráðstafana er annað en að forða tjóni eru þær félaginu óviðkomandi. Þá er gerð sú krafa að um verði að vera að ræða sérstakar ráðstafanir, en af þessari kröfu leiðir að ráðstafanir er hafa í för með sér kostnað, svo sem viðhald eða endurbætur sem fela almennt í sér ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón, mundu ekki verða á ábyrgð félagsins. Loks er það skilyrði að ráðstafanirnar séu réttlætanlegar en það verður að meta með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Við það mat yrði að líta á atvik frá sjónarhóli þess sem greip til ráðstafananna, á því tímamarki er það var gert.
    Í 1. mgr. eru því ekki sett sérstök takmörk hvers konar tjón og kostnað félagið getur þurft að bera samkvæmt reglunni, enda vart hægt að gera það.
    Það er heldur ekki áskilið að björgunarráðstafanir þurfi að hafa heppnast til þess að félagið beri kostnað af þeim. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í greininni verður að telja eðlilegt að félagið beri ábyrgð á kostnaði sem af ráðstöfunum leiðir óháð því hvort þær heppnast eða ekki.
    Í 1. mgr. er einnig ákvæði um hverjir geti átt rétt til greiðslna úr hendi félagsins, auk vátryggðs sem nefndur er í 1. málsl. Í 2. málsl. eiga einnig þeir sem getið er í 29. gr. frumvarpsins sama rétt, en þar eru nefndir ættingjar hans, aðstoðarmenn og aðrir sem hafa við hann sambærileg tengsl. Þeir sem þarna ræðir um öðlast beinan rétt á hendur félaginu um bætur vegna tjóns sem þeir verða fyrir við ráðstafanir sem ætlað er að hindra að vátryggingaratburður verði eða takmarka tjón. Öðrum skilyrðum, þ.e. um markmið o.fl., sem nefnd hafa verið þarf einnig að vera fullnægt.
    Ef þriðja manni er valdið tjóni með ráðstöfunum sem 1. mgr. tekur til og vátryggður verður ábyrgur fyrir því tjóni eftir reglum skaðabótaréttar getur vátryggður krafist þess að félagið bæti slíkt tjón með vísan til 1. mgr. Af 2. mgr., þ.e. tilvísun hennar til 44. gr., leiðir að þriðji maður getur sett kröfu sína um bætur í slíkum tilvikum fram beint gegn félaginu en þarf ekki að sæta því að hafa kröfuna fyrst uppi á hendur hinum vátryggða. Sama regla mundi gilda um þá sem vísað er til í 29. gr. er kunna að valda þriðja manni tjóni, þótt það segi ekki í 2. mgr., enda óþarft að taka það fram.
    Ákvörðun greiðslna fyrir björgunarkostnað skv. 1. og 2. mgr. ræðst af reglum skaðabótaréttar en ekki vátryggingaréttar. Hér er um að ræða skaðabætur en ekki bætur samkvæmt vátryggingarsamningi. Af því leiðir að félagið getur ekki borið fyrir sig að vátryggingarfjárhæð samkvæmt vátryggingarsamningi þeim er um ræðir eigi að takmarka greiðsluskyldu þess. Þessi staðreynd leiðir af aðstæðum og er ekki ástæða til að hafa um þetta sérstaka reglu í frumvarpinu, svo sem er í 2. mgr. 53. gr. VSL.

Um VII. kafla.

7.1 Almennur inngangur.
    Í þessum kafla frumvarpsins eru reglur um tvo mikilvæga þætti vátrygginga. Hinn fyrri snýst um að hvaða marki vátrygging á að vera til hagsbóta fyrir annan en vátryggingartaka og hvaða stöðu þriðji maður á að hafa gagnvart vátryggingafélaginu. Reglurnar í 39.–43. gr. frumvarpsins taka til þessa þáttar en um þetta eru nú reglur í 54.–58. gr. og 86.–88. gr. VSL. Reglur frumvarpsins um þennan þátt fela í meginatriðum í sér viðleitni til þess að einfalda reglur VSL og skýra atriði sem þótt hafa óljós í framkvæmd gildandi laga. Hinn síðari lýtur að stöðu tjónþola þegar hinn bótaskyldi er ábyrgðartryggður en um þetta eru reglur í 95. og 96. gr. VSL. Í 44.–46. gr. frumvarpsins eru gerðar tillögur að nýjum reglum um þennan þátt og fela þær í sér verulegar breytingar að því leyti að þeim er ætlað að styrkja verulega stöðu tjónþola gagnvart vátryggingafélagi í slíkum tilvikum. Má færa fyrir því rök að staða tjónþola í slíkum tilvikum hafi verið ótrygg eftir reglum VSL. Úr íslenskri dómaframkvæmd má nefna dæmi um tilvik þar sem reglur VSL hafa leitt til niðurstöðu sem efast má um að séu sanngjarnar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 14. desember 2000 í málinu nr. 289/2000. Er mikið misræmi milli réttarstöðu tjónþola sem á kröfu á hendur þeim sem er ábyrgðartryggður annars vegar samkvæmt reglum VSL og hins vegar samkvæmt reglum um ábyrgðartryggingar ökutækja í umferðarlögum, nr. 50/1987, sbr. einkum 95. og 97. gr. þeirra laga.
    Um er að ræða mikilvæg ákvæði, enda hefur orðið mikill vöxtur í ábyrgðartryggingum og fátt sem bendir til annars en svo verði áfram í fyrirsjáanlegri framtíð.

7.2 Hverjir eru tryggðir og staða meðvátryggðra.
    Álitaefni um til hverra vátrygging taki og stöðu meðvátryggðra eru meðal flóknari álitaefna vátryggingaréttarins. Eins og áður hefur verið rakið miðast hugtakanotkun VSL við að í eignatryggingum sé það ekki hluturinn sjálfur sem sé vátryggður, heldur þeir hagsmunir sem tengjast honum. Þótt hugtakanotkun VSL hafi verið með þessum hætti miðast lögin ekki við að hver og einn eigandi hagsmuna í hinum vátryggða hlut annist vátryggingu sinna hagsmuna, heldur er á því byggt að vátrygging hlutar taki sjálfkrafa til þeirra hagsmuna sem við hann eru tengdir og einhverja þýðingu hafa, sbr. 1. mgr. 54. gr. laganna. Lögin gera ráð fyrir því að vátryggingartaki hafi rúmar heimildir til að koma fram gagnvart félaginu, einnig að því er varðar hagsmuni meðvátryggðra, en þessu eru þó nokkur takmörk sett. Af þessu getur leitt að vátryggingartaki getur hafa tæmt þann rétt sem meðvátryggður kann að eiga, án þess að hinum síðarnefnda sé það ljóst. Hjá félögunum er því oft óvissa um hverjir eigi þá hagsmuni sem kunna að tengjast vátryggðum hlutum. Þótt þetta leiði e.t.v. ekki til þess að þær bætur sem félagið þarf að greiða hækki, því 39. gr. VSL kemur í veg fyrir að hærri bætur séu greiddar en sem nemur tjóni vátryggðs, er nauðsynlegt að koma í veg fyrir óvissu sem þessu fylgir. Tillögur frumvarpsins lúta einkum að því að það verði einungis takmarkaður hópur sem sjálfkrafa telst meðvátryggður í eignatryggingum og hann verði efnislega afmarkaður með þeim hætti sem reynslan sýnir að hefðu notið vátryggingar ef samið hefði verið um slíkt. Auk þess miða tillögurnar við að fjölga megi meðvátryggðum með samningum milli vátryggingartaka og félagsins. Verði tillögur þessar að lögum mundi það leiða til mun meiri vissu um það fyrir fram hverjir gætu átt hagsmuna að gæta sem meðvátryggðir, án þess að líklegt sé að hagsmunir einhverra sem hafa raunverulegra hagsmuna að gæta verði fyrir borð bornir. Einnig er leitast við að taka skýrlega og aðgreint á því hver sé hinn efnislegi réttur meðvátryggðra og hver sé hinn formlegi réttur, þ.e. hver sé sjálfstæður réttur þeirra til að hafa uppi kröfur t.d. á hendur félaginu og á hvaða tímamarki það geti orðið.

7.3 Staða tjónþola þegar hinn bótaskyldi er ábyrgðartryggður.
    Ábyrgðartrygging felst í því að félagið og vátryggingartaki semja svo um að félagið greiði hinum síðarnefnda, eða öðrum vátryggðum, bætur fyrir fjártjón sem hann verður fyrir ef þriðji maður gerir skaðabótakröfur á hendur honum á nánar tilteknu sviði. Það er eðli ábyrgðartrygginga að það er vátryggingartaki sem er hinn vátryggði en ekki sá þriðji maður sem bíður tjón, jafnvel þótt bætur frá félaginu kunni að renna beint til hans.
    Mikill vöxtur hefur verið í ábyrgðartryggingum. Á það bæði við um svonefndar frjálsar ábyrgðartryggingar og ekki síður um svonefndar lögboðnar ábyrgðartryggingar. Af lögboðnum ábyrgðartryggingum eru ábyrgðartryggingar ökutækja án efa þýðingarmestar en á síðari árum hefur það verið gert að skilyrði fyrir starfsleyfi í mörgum starfsstéttum sjálfstætt starfandi sérfræðinga að þeir hafi ábyrgðartryggingu vegna tjóns sem þeir valda í starfi sínu með bótaskyldum hætti. Má sem dæmi nefna löggilta fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala, sbr. lög nr. 54/1997, lögmenn, sbr. lög nr. 77/1998, endurskoðendur, sbr. lög nr. 18/1997, og verðbréfamiðlun, sbr. lög nr. 161/2002. Þótt ekki verði sagt að lögboðnar ábyrgðartryggingar breyti eðli þessarar tegundar vátrygginga verður ekki fram hjá því litið að lagareglur um skyldu tiltekinna manna eða lögaðila til þess að hafa ábyrgðartryggingu eru yfirleitt ekki settar til verndar hagsmunum vátryggingartaka, heldur fyrst og fremst til þess að tryggja öryggi í ákveðnum greinum og tryggja hagsmuni þeirra sem fyrir tjóni verða. Í þessu felst að þessar ábyrgðartryggingar eru til komnar vegna hagsmuna þeirra sem verða fyrir tjóni í ákveðnum greinum. Staða tjónþola sem kann að eiga skaðabótakröfu á hendur þeim sem er ábyrgðartryggður hefur að gildandi rétti almennt ekki endurspeglað þetta markmið með reglunum. Tillögur frumvarpsins miðast við að styrkja réttarstöðu tjónþola að því er varðar rétt hans til kröfugerðar á hendur félaginu. Leitast verður við að haga skipan reglna þannig að stöðu félagsins sé ekki stefnt í tvísýnu vegna mismunandi hagsmuna tjónþola og hins vátryggða og tryggja verður mótbárurétt félagsins bæði á grundvelli skaðabótaréttar gagnvart tjónþola og vátryggingaréttar gagnvart vátryggðum. Lúta nokkrar reglur frumvarpsins því að þeim atriðum.

Um 39. gr.

    Í þessari grein er tillaga að reglum um hvaða einstaklingar falla undir vátryggingu. Hana verður að lesa í samhengi við 40. gr. sem er rýmri að því er varðar þá sem teljast meðvátryggðir er eigendaskipti verða að hlut. Reglan svarar til 1. mgr. 54. gr. VSL en er þó þrengri og afmarkaðri að því er varðar fjölda meðvátryggðra. Á hinn bóginn er hún rýmri að því er varðar skilgreiningu á þeim sem teljast til ,,skylduliðs“ en 55. gr. VSL, því lagt er til að orðið heimilisfólk verði notað án þess að haldið sé þeim áskilnaði 55. gr. að það þurfi að vera í persónulegri þjónustu hans. Þeir sem upp eru taldir í 39. og 40. gr. eru sjálfkrafa meðvátryggðir, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en heimilt er þó í öðrum tilvikum en við eigendaskipti að semja með öðrum hætti.
    Í 1. mgr. er regla sem er sambærileg 1. mgr. 55. gr. VSL en er þó rýmri eins og áður segir, auk þess sem hún tekur ekki aðeins til búsmuna. Reglan á við utan atvinnustarfsemi. Reglan, og þar með sú sjálfvirka vátryggingarvernd sem hún veitir meðvátryggðum, er ekki takmörkuð við eignatryggingar þótt hún hafi fyrst og fremst þýðingu í þeim tegundum vátrygginga, einkum í fjölskyldu- og heimilistryggingum. Í samsettum vátryggingum njóta þess vegna maki og heimilisfólk vátryggingartaka einnig verndar t.d. í ábyrgðartryggingarhluta þeirra, réttaraðstoðarþættinum o.fl. Hið sama á við í hreinum ábyrgðartryggingum. Maki telst til meðvátryggðra og er ekki áskilnaður um að hann sé samvistum við vátryggingartaka. Við skilnað fellur á hinn bóginn niður meðvátrygging maka, en eins og fyrr segir helst hún þótt samvistarslit verði. Orðið heimilisfólk tekur til þeirra sem eru fastir heimilismenn vátryggingartaka. Í því felst að viðkomandi verður að hafa fasta búsetu hjá vátryggingartaka og sameiginlegt heimilishald með honum. Ekki er unnt að ganga svo langt að gera það að skilyrði að viðkomandi sé alltaf heimilisfastur hjá vátryggingartaka, t.d. mundi námsmaður sem fer að heiman til skóladvalar um vetrartíma teljast til heimilisfólks í þessum skilningi, skiptinemi sem dvelur um afmarkaðan tíma í útlöndum o.fl. Gestir vátryggingartaka falla ekki undir þetta. Þó kann að vera að langtímadvöl á heimili, t.d. ársdvöl erlends skiptinema, leiði til þess að telja beri hann til heimilisfólks vátryggingartaka í þessum skilningi.
    Í 2. og 3. mgr. eru ákvæði sem eru sambærileg 1. mgr. 54. gr. VSL en gerð er tillaga um nokkuð þrengri afmörkun þeirrar reglu. Fjallað er um meðvátryggingarvernd fyrir þá sem eiga (beinan) eignarrétt að hlut, svo og veðréttindi og önnur tryggingarréttindi í fasteign, og í vissum tegundum lausafjár að því tilskildu að hin tilteknu réttindi séu skráð í skrám sem tilgreindar eru. Reglur 2. og 3. mgr. koma til fyllingar 1. mgr. Utan atvinnustarfsemi munu því allir þeir sem taldir eru upp í 1.–3. mgr. teljast vátryggðir. Andstætt því sem 1. mgr. miðast við, sbr. að framan, taka reglur 2. og 3. mgr. einungis til eignatrygginga eins og regla 1. mgr. 54. gr. VSL. Miða verður við að orðið eignatryggingar sé hér ekki skýrt rúmt. Ef fjölga á þeim sem telja ber meðvátryggða yrði að gera það með samningi vátryggingartaka og félagsins. Þess skal sérstaklega getið að reglur 2. og 3. mgr. eru ekki takmarkaðar við tilvik utan atvinnustarfsemi eins og ákvæði 1. mgr.
    Hin sjálfvirka meðvátryggingarvernd tekur, að öðrum skilyrðum uppfylltum, í fyrsta lagi til þeirra sem eiga beinan eignarrétt að hlut. Í öðru lagi tekur hún til þeirra sem eiga tilgreind óbein eignarréttindi, þ.e. veðrétt eða annan tryggingarrétt. Séu skilyrðin (einkum um skráningu) uppfyllt mundi ekki skipta máli hvort veðrétturinn byggðist á samningsveði eða aðfararveði. Ákvæði 2. mgr. tekur eingöngu til fasteignar en í 3. mgr. eru tilgreindir sérstaklega þrenns konar lausafjármunir eða söfn slíkra muna, þ.e.:
          Lausafjármunir sem hægt er að skrá í lausafjárbók, skipabók og bifreiðabók, sbr. 2.–4. tölul. 1. mgr. 8. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978.
          Rekstrartæki eins og það orð er skilgreint í 2. mgr. 24. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997.
          Vörubirgðir eins og það orð er skilgreint í 2. mgr. 33. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997.
    Um annað lausafé gilda ekki reglur um sjálfkrafa meðvátryggingu og þarf því að semja sérstaklega svo um til þess að af því verði.
    Í 4. mgr. greinarinnar er því slegið föstu að greinin sé frávíkjanleg. Í því felst að félagið og vátryggingartaki geta samið svo að einhver sem teldist meðvátryggður samkvæmt greininni verði það ekki eða þá að einhverjum sé bætt við. Gera verður kröfu til þess að það komi skýrlega fram í samningi og skilmálum vátryggingar ef undanþiggja á einhvern sem ella nyti sjálfkrafa meðvátryggingarverndar.

Um 40. gr.

    Í þessari grein er tillaga að reglum um tilvik þegar vátryggður munur, lausafé eða fasteign, skiptir um eiganda á vátryggingartímabilinu. Ákvæði þessarar greinar er sambærilegt 2. mgr. 54. gr. VSL en snertir einnig atriði sem 1. mgr. 54. gr. tekur til.
    Meginreglan sem sett er fram í 1. mgr. er sú að við eigendaskipti að hlut gildi vátrygging til hagsbóta fyrir hinn nýja eiganda. Hinn nýi eigandi er því meðvátryggður í þeim skilningi sem það orð er notað í frumvarpinu. Staða hins nýja eiganda er nokkru betri en þess sem áður átti, að því leyti að ekki er gert að skilyrði þess að hann njóti vátryggingarverndar að hann hafi skráð réttindi sín, þau er greinir í 2. og 3. mgr. 39. gr., svo sem eldri rétthafi. Með skráningu réttinda öðlast hann þó sterkari stöðu gagnvart félaginu sjálfu, svo sem sjá má af 41. og 42. gr.
    Þótt ákvæðið taki til stöðu hins nýja eiganda við eigendaskipti er ekki tekið á því hvenær eigendaskipti teljast hafa átt sér stað. Ástæða þess er sú að hæpið er að reyna að setja um það reglur í lögum um vátryggingarsamninga. Eðlilegra er að láta það ráðast af skýringum á reglum samningaréttar eða kröfuréttar, þ.e. þegar samningsaðilar hafa ekki sjálfir samið um það sín á milli.
    Það orðalag 1. mgr. að vátryggingin gildi „einnig til hagsbóta fyrir hinn nýja eiganda“ felur það í sér að ef fyrri eigandi á einhverja hagsmuni í hlutnum, þá njóta þessir hagsmunir vátryggingar ásamt þeim hagsmunum sem hinn nýi eigandi kann að eiga.
    Orðalag 1. mgr. gefur ekki tilefni til að álykta öðruvísi en svo að það sé vátryggingin sem heild sem komi til hagsbóta hinum nýja eiganda. Í því felst að ef um samsettar vátryggingar er að ræða, t.d. ef bæði eignatryggingar- og ábyrgðartryggingarþáttur og e.t.v. aðrir þættir eru í henni, mundi hann njóta góðs af þeim líka en ekki bara eignatryggingunum.
    Sá 14 daga frestur sem líður þar til vátryggingin fellur niður, þ.e. þegar um það er samið að hún falli brott, er hugsaður til þess að hinn nýi eigandi hafi svigrúm til þess að vátryggja hagsmuni sína annars staðar. Þess ber að geta að ákvæði greinarinnar breyta ekki þeim takmörkunum sem eru á vátryggingarvernd samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar. Fari hinn nýi eigandi, eða vátryggður hlutur, út fyrir mörk lögmætrar ábyrgðartakmörkunar fellur vátryggingarverndin niður, svo sem vera mundi hjá upphaflegum eiganda.
    Ákvæði 1. mgr. er frávíkjanlegt með þeirri undantekningu sem leiðir af reglu 3. málsl. en það ákvæði takmarkar svigrúm félagsins og vátryggingartaka til þess að semja svo að hinn nýi eigandi skuli ekki njóta vátryggingarverndar. Reglan er eins og regla 2. mgr. 54. gr. VSL.

Um 41. gr.

    Í þessari grein og hinni næstu eru reglur um réttarstöðu þess sem er meðvátryggður samkvæmt öðrum reglum frumvarpsins. Nánar tiltekið er í þessari grein að finna reglur um vernd meðvátryggðs gegn hugsanlegum mótbárum félagsins. Í VSL eru ekki sérreglur um þessi atriði.
    Í 1. mgr. er sett fram meginregla sem er á þann veg að gagnvart þeim sem nýtur meðvátryggingar samkvæmt öðrum reglum frumvarpsins geti félagið ekki borið fyrir sig að það sé laust úr ábyrgð gagnvart honum vegna háttsemi sem vátryggingartaki eða annar meðvátryggður hefur viðhaft og fellur undir reglur IV. kafla frumvarpsins eða 47. gr. þess. Í þessu felst, með svipuðum hætti og samkvæmt VSL, að meðvátryggður nýtur sjálfstæðrar verndar. Hin sjálfstæða vernd gildir um alla sem eru meðvátryggðir samkvæmt reglum 39. og 40. gr. Í 2. mgr. er þó undantekning frá meginreglunni og í 3. mgr. er gert ráð fyrir heimild til þess að semja að nokkru marki um aðra lausn en af meginreglunni leiðir. Meginreglunni verður beitt um allar mótbárur þegar háttsemi annars manns hefur þýðingu, enda sé því skilyrði fullnægt að um sé að ræða tilvik sem fellur undir reglur IV. kafla eða 47. gr. Þannig getur verið um að ræða brot á upplýsingaskyldu, aukna áhættu, brot á varúðarreglum, tilvik þar sem vátryggingaratburður verður af völdum manns o.fl. Af meginreglunni leiðir að félagið getur ekki borið fyrir sig gagnvart meðvátryggðum að vátryggingartaki hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína, þ.m.t. veitt rangar upplýsingar, og mundi í því efni ekki skipta máli hve alvarleg vanrækslan væri. Að þessu leyti mundu reglur frumvarpsins, ef þær yrðu að lögum, styrkja réttarstöðu meðvátryggðs miðað við reglur VSL, sem fela í sér að félagið getur haldið fram mótbárum sínum, þegar um vanrækslu á upplýsingaskyldu vátryggingartaka er að ræða. Þó verður að gera þá undantekningu hér að ef félagið hefur með réttum hætti gert fyrirvara um ábyrgð sína, skv. 25. gr. frumvarpsins, þá mundi sá fyrirvari einnig gilda gagnvart meðvátryggðum.
    Af ákvæðinu leiðir einnig að félagið getur ekki borið fyrir sig að háttsemi vátryggðs eða annarra meðvátryggðra sem fellur undir 26., 28., 29. eða 30. gr. frumvarpsins eigi að hafa áhrif á rétt meðvátryggðs. Af þessu mundi t.d. leiða að ef félagið hefur gert fyrirvara um ábyrgð sína, ef til þess kemur að atvinnustarfsemi með eldfim efni hefst í húsnæði og vátryggður eða aðrir meðvátryggðir vita um slíka starfsemi í húsnæðinu, en sá meðvátryggður sem kröfuna gerir, t.d. veðhafi, veit það ekki mundi félagið, að öðrum skilyrðum uppfylltum, þurfa að greiða honum bætur.
    Eins og fyrr greinir á ákvæðið við í öllum tilvikum þegar háttsemi fellur undir IV. kafla frumvarpsins. Í þessu felst að ekki er aðeins um að ræða háttsemi vátryggingartaka eða annarra meðvátryggðra heldur einnig háttsemi manna sem verða samsamaðir þeim.
    Vert er að hafa í huga að félagið ber ekki ábyrgð umfram það svið sem vátryggingin tekur til. Réttur meðvátryggðs er háður því að tjónsatvik falli undir þá áhættu sem vátryggt er gegn og reglur þessa kafla hafa ekki áhrif á slíkar hlutlægar afmarkanir á áhættusviði vátryggingarinnar. Þess vegna mundi ákvæði vátryggingarsamnings um að vátryggingin gildi ekki ef stríð skellur á, eða ef galli reynist í efni sem hlutur er framleiddur úr eða notað er í hlut, gilda gagnvart meðvátryggðum. Þá er einnig vert að hafa í huga að félagið getur haft uppi mótbárur sem byggjast á því að meðvátryggður sjálfur eða einhver sem samsamaður er honum hafi viðhaft háttsemi sem valdi því að ábyrgð félagsins falli niður í heild eða að hluta.
    Í 2. mgr. er mikilvæg undantekning frá meginreglu 1. mgr. Ákvæðið á við þegar félagið hefur gert fyrirvara um samsömun samkvæmt reglum 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Í heimilis- og fjölskylduvátryggingum getur félagið því hafa áskilið að maki verði samsamaður vátryggðum. Þetta gæti félagið borið fyrir sig ef maki meðvátryggðs viðhefði háttsemi sem takmarka ætti ábyrgð félagsins. Hið sama ætti við ef félagið hefði áskilið að vátryggður skyldi samsamaður manni sem hann hefði falið vörslur og meðferð ökutækis síns.
    Í 3. mgr. er heimilað að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar um er að ræða rétthafa í lausafé sem njóta mundi meðvátryggingarverndar. Eðlilegt þykir að félögin eigi þess kost að víkja með samningi að einhverju marki frá hinni víðtæku reglu 1. mgr. Heimildin til að semja á annan hátt en leiðir af 1. mgr. er takmörkuð við þá sem nefndir eru í 3. mgr. 39. gr. en í því felst að maki eða heimilismaður sem er meðvátryggður í lausafé nýtur fullrar verndar samkvæmt reglum laganna í 1. og 2. mgr. 39. gr. Í 3. mgr. þessarar greinar (41.) eru því ekki sett takmörk hvernig heimilt er að semja sig undan meginreglunni. Líklegast er þó að það verði gert með þeim hætti að meðvátryggður njóti sömu réttarstöðu og hinn vátryggði en ekki betri réttar eins og hann mundi gera í mörgum tilvikum, svo sem rakið hefur verið.

Um 42. gr.

    Í þessari grein er leitast við að setja reglur um réttarstöðu meðvátryggðs að öðru leyti en gert er í þeirri síðustu. Ákvæðið samsvarar 56.–58. og 86. gr. VSL þótt framsetningin sé ólík.
    Í 1. mgr. er því slegið föstu að breytingar á vátryggingarsamningi eða slit hans hafi ekki réttaráhrif gagnvart meðvátryggðum nema hann hafi fengið tilkynningu um það með tilgreindum fyrirvara. Meðvátryggðir sem njóta þessarar verndar eru þeir sem 2. og 3. mgr. 39. gr. taka til. Þeir hafa mesta þörf fyrir slíka vernd og það ætti að vera einfalt fyrir félagið að afla upplýsinga um það og tilkynna þeim breytingarnar eða slitin, því þá ætti að vera að finna í opinberum skrám. Að auki verður að telja að félögin sæju sér sjaldan hag í því að senda slíkar tilkynningar og þess vegna ætti sú tilkynningarskylda sem í þessari grein getur falist ekki að íþyngja þeim um of.
    Í 2. og 3. mgr. eru reglur sem taka til þess að hvaða marki félaginu er heimilt, svo bindandi sé fyrir meðvátryggða, að semja við vátryggingartaka um uppgjör bóta og greiðslu þeirra til hans.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er því slegið föstu að félagið hafi ekki slíka uppgjörs- og greiðsluheimild svo bindandi sé gagnvart meðvátryggðum skv. 2. og 3. mgr. 39. gr. Af því leiðir að félagið verður að sjá til þess að þeir taki þátt í samningnum um uppgjör og greiðslu bóta og fái að koma þar að sjónarmiðum sínum. Félaginu er ekki heimilt að inna af hendi greiðslu bóta til vátryggingartaka eða hins vátryggða ef það fer í bága við rétt meðvátryggðra samkvæmt lögum eða samningi. Hér verður að líta til þess hvort hætta sé á að hagsmunum meðvátryggðs sé raskað með því að greiða bætur beint til vátryggingartaka. Ef augljóst er t.d. að verðmæti vátryggðs hlutar nægir til tryggingar veðkröfu þrátt fyrir tjón er ekki varhugavert þótt bætur renni beint til vátryggingartaka. Í 2. og 3. málsl. þessarar málsgreinar eru þó undantekningar sem ættu að fela í sér nokkurt hagræði fyrir félagið og forða því að það þurfi að annast ávöxtun fjármuna fyrir vátryggingartaka og/eða meðvátryggðan. Félaginu er þannig heimilt að greiða vátryggingartaka bætur þegar endurbætur á vátryggðum hlut hafa farið fram eða sett trygging fyrir því að það verði gert. Því er einnig heimilt að leggja bæturnar inn á reikning ef svo háttar til að einungis vátryggingartaki og meðvátryggðir geta ráðstafað innstæðunni sameiginlega. Ætti því félagið að geta haldið sér utan við hugsanlegan ágreining þeirra um skiptingu bótanna.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 2. mgr. gildi einnig gagnvart öðrum meðvátryggðum samkvæmt tilgreindum ákvæðum ef hann hefur tilkynnt félaginu um rétt sinn. Ekki er í 3. mgr. gerð krafa um að slík tilkynning hafi borist fyrir vátryggingaratburð, þannig að álykta verður svo að það geti einnig gerst eftir hann, en það verður þó að vera á ábyrgð meðvátryggðs ef tilkynning hans kemur svo seint að hann glati rétti sínum í heild eða að hluta. Gera verður þá kröfu til slíkra tilkynninga að þær séu skýrar og hefur sá meðvátryggði sem í hlut á sönnunarbyrði fyrir því að tilkynning hafi farið fram.

Um 43. gr.

    Þessi grein tekur til þeirra tilvika er aðilar vátryggingarsamnings hafa samið um að fleiri en þeir sem teljast meðvátryggðir samkvæmt lögunum eigi að njóta stöðu sem slíkir. Í þeim tilvikum mælir ákvæðið fyrir um að þessir meðvátryggðu hafi sömu stöðu og mælt er fyrir um í 41. og 42. gr. Er við það miðað að ákvæðin gildi að fullu og þykir það ekki varhugavert þegar samið hefur verið sérstaklega um að tilteknir menn njóti stöðu meðvátryggðs. Ef félagið eða vátryggingartaki vilja í einhverju takmarka þessa vernd girða reglur frumvarpsins ekki fyrir að þeir semji um það sín á milli.

Um 44. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um stöðu tjónþola þegar hinn bótaskyldi er ábyrgðartryggður. Greininni er ætlað að koma í stað 95. og 96. gr. VSL. Efni þeirra er í stuttu máli það að í fyrsta lagi heimilar 1. mgr. 95. gr. tjónþola að ganga inn í réttarstöðu vátryggðs að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum. Í öðru lagi er tjónþola veittur tiltekinn réttur til hlutagreiðslu úr hendi félagsins þegar samið hefur verið um skiptingu sakarefnis í bótamáli tjónþola gegn vátryggðum. Í þriðja lagi mæla gildandi reglur fyrir um hlutfallsskiptingu bóta þegar kröfur eru hærri en vátryggingarfjárhæð og í fjórða lagi er kveðið á um að félaginu sé bannað að rýra þann rétt sem tjónþola er veittur með 95. gr., með samningum við vátryggðan eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Staða tjónþola að því er varðar rétt hans til að hafa uppi kröfur á hendur félaginu er rýr eftir reglum 95. og 96. gr. VSL. Hefur það leitt til dómsúrlausna sem fela í sér niðurstöður er talist geta ósanngjarnar í hans garð svo sem dómur sá er vísað er til í almennum athugasemdum við þennan kafla sýnir.
    Tilgangurinn með reglum frumvarpsins er að auka vernd tjónþola og leitast við að setja fram skýrari reglur um hana en gilt hafa. Það er gert með tillögu að reglu um að tjónþoli eigi í öllum tilvikum beina kröfu á hendur félagi sem ábyrgðartryggt hefur hinn bótaskylda. Samtímis því er óhjákvæmilegt að setja fram tillögur að reglum sem tryggja hagsmuni félagsins gegn misnotkun á stöðu þess og tryggja stöðu hins bótaskylda gegn misnotkun á stöðu hans. Reglur frumvarpsins eru víðtækari en tilvitnaðar reglur VSL og er m.a. leitast við að setja reglur um atriði sem ólögfest hafa verið, t.d. um réttarsamband félagsins og tjónþola að því er varðar kröfugerð hans á hendur félaginu og meðferð hennar.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er sett fram meginregla sem felur í sér veigamiklar breytingar frá gildandi rétti en samkvæmt henni á tjónþoli beinan rétt gegn félagi í þeim tilvikum sem vátrygging bætir tjón vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar hans, þ.e. þegar hann er ábyrgðartryggður. Það er ekki gert að skilyrði að tjónþoli hafi áður haft uppi kröfu um skaðabætur á hendur hinum bótaskylda, þótt sú verði líklega oftast raunin. Það er heldur ekki skilyrði að tjónþoli tilkynni hinum bótaskylda að hann muni beina kröfum sínum gegn félaginu. Skyldan til að upplýsa hinn bótaskylda um þetta hvílir á félaginu. Tjónþola er ekki, samkvæmt reglum frumvarps þessa, skylt að beina kröfum gegn félaginu, heldur hefur hann val um það hvort hann gerir það eða heldur sig við hinn bótaskylda.
    Tjónþoli hefur samkvæmt tillögu þeirri sem gerð er í þessari málsgrein sjálfstæðan rétt gagnvart16. október 2003 félaginu. Félagið getur því ekki losnað undan skyldum sínum með því að greiða hinum vátryggða bætur. Þessi regla mun, ef frumvarpsgreinin verður lögfest, eiga við um allar ábyrgðartryggingar en hugsanlegt er þó að um um lögboðnar ábyrgðartryggingar gildi sérreglur og leiðir þá af lögskýringarreglum að þær sérreglur ganga framar. Að þessu verður vikið nánar síðar.
    Orðalag 1. mgr. miðast við að tjónþoli geti ,,krafist bóta“ beint úr hendi félagsins. Orðið bætur er notað í þeirri merkingu að um sé að ræða skaðabætur, enda hefur hann uppi skaðabótakröfu. Vert er þó að benda á, eins og síðar mun rakið, að í málinu getur það atvikast að félagið hafi bæði uppi mótbárur á grundvelli reglna skaðabótaréttar og einnig reglna vátryggingaréttar. Þannig getur félagið borið fyrir sig ákvæði í vátryggingarsamningi um eigin áhættu hins vátryggða. Á hinn bóginn á hinn sjálfstæði réttur tjónþola gegn félaginu frá því að vátryggingaratburður verður að koma í veg fyrir að hún verði rýrð með samningum félagsins og hins vátryggða eða framkomu hins síðarnefnda. Takmarkanir á þessari réttarstöðu tjónþola verða ekki gerðar með samningum, ef frumvarpið verður að lögum. Tjónþoli yrði heldur ekki bundinn af reglum vátryggingarsamnings um að skorið skuli úr ábyrgð hins vátryggða eða félagsins með gerðardómi. Vert er einnig að minna á að viðurkenning vátryggðs á bótaskyldu gagnvart tjónþola er ekki bindandi fyrir félagið frekar en samkvæmt gildandi réttarframkvæmd.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er tillaga um nýja reglu sem ekki er að finna í VSL. Tilgangurinn með reglunni er að styrkja stöðu tjónþola í framkvæmd með því að skylda vátryggðan og félagið til þess að tilkynna honum um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi. Skylda félagsins verður virk þegar því er kunnugt um vátryggingaratburð. Ekki er ætlunin að leggja sérstaka rannsóknarskyldu á félagið með reglunni, einungis að mæla fyrir um tilkynningarskyldu þess þegar því verður kunnugt um vátryggingaratburð. Ekki er lýst hvers efnis tilkynning félagsins á að vera að öðru leyti en því að það á að láta vita um tilvist ábyrgðartryggingar. Slík tilkynning mundi þó eðlilega fela í sér upplýsingar um hvers konar ábyrgðartryggingu væri um að ræða, vátryggingarfjárhæð og önnur atriði sem sérstaka þýðingu hafa fyrir tjónþolann, einkum ef þau takmarka rétt hans að einhverju leyti, svo sem vegna fyrri háttsemi hins vátryggða.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er mælt fyrir um tilkynningarskyldu félagsins til vátryggðs, enda hefur hann mikla hagsmuni af því hver framvinda málsins verður. Það kann að hafa þýðingu vegna eigin áhættu hans, vegna þess að tjón getur leitt til iðgjaldahækkunar o.fl. Í 2. málsl. þessarar mgr. er girt fyrir að félagið geti með yfirlýsingum um ábyrgð bundið vátryggðan. Telji félagið bótaskyldu vera fyrir hendi en vátryggður hafnar því hefur félagið tvo kosti. Það getur greitt bætur til tjónþola en sú greiðsla bindur ekki vátryggðan. Það getur neitað að greiða bætur en afleiðing þess yrði að líkindum sú að tjónþoli mundi höfða mál til heimtu bóta og þá verður hann, eins og síðar greinir, að beina málshöfðun gegn bæði félaginu og vátryggðum, ef félagið krefst þess, sem það mundi væntanlega oftast gera í slíkri stöðu.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um framangreindan rétt félagsins til að krefjast þess að tjónþoli beini einnig málshöfðun gegn vátryggðum. Ef félagið setur fram slíka kröfu verður að telja að um samaðild sé að ræða í skilningi réttarfars. Ef tjónþoli sinnir ekki kröfu félagsins yrði máli að líkindum vísað frá dómi skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
    Regla 4. mgr. á sér ekki hliðstæðu í VSL þótt líklegt verði að telja að sambærilegar efnisreglur eigi við í framkvæmd. Hún mælir fyrir um að tjónþoli öðlist ekki betri stöðu gegn félaginu á grundvelli reglna skaðabótaréttar en hann nýtur gegn vátryggðum. Félagið hefur allar sömu mótbárur gegn honum og hinn vátryggði hefur á þessu réttarsviði. Þá er mælt fyrir um að félagið geti haft uppi aðrar mótbárur gegn tjónþola, þ.m.t. mótbárur byggðar á reglum vátryggingaréttar, nema þær eigi rætur að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Í þessu felst að tjónþoli á ekki að geta öðlast betri réttarstöðu gegn félaginu en vátryggður hefði haft ef hann hefði kosið að greiða tjónþola skaðabætur og beina svo kröfu til félagsins. Félagið getur þannig borið fyrir sig að vátrygging hafi ekki verið í gildi þegar tjón varð, tjónið falli ekki undir þá áhættu sem vátryggt er gegn, því sé ekki skylt að greiða bætur því háttsemi vátryggðs fyrir vátryggingaratburð hafi leitt til þess að ábyrgð félagsins falli niður og að krafan sé ekki höfð uppi nægilega tímanlega eða í því horfi sem skylt er samkvæmt skilmálum vátryggingarsamningsins. Mörkin, sem sett eru, lúta að því að félagið getur ekki borið fyrir sig háttsemi vátryggðs eftir vátryggingaratburð. Hann og félagið geta því ekki rýrt rétt tjónþola eftir að tjónsatvik verður.
    Í 5. mgr. er sérstakt ákvæði sem þó verður að telja eðlilegt í ljósi þess hver staða tjónþola gegn félaginu verður ef frumvarpið verður að lögum. Með reglunni er leitast við að koma í veg fyrir að mál verði höfðað gegn íslenskum vátryggingafélögum í öðrum löndum. Slíkt getur verið mikilvægt þar sem aðrar reglur gilda t.d. um ákvörðun bótafjárhæða fyrir fjárhagslegt eða ófjárhagslegt tjón. Undantekning er gerð frá þessari reglu ef annað leiðir af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Er þar fyrst og fremst vísað til reglna sem Ísland hefur undirgengist með svonefndum Lugano-samningi sem fjallað er um í almennum hluta athugasemda þessara. Regla þessarar málsgreinar verður skýrð í samhengi við 11. tölul. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.
    Í 6. mgr. er sérregla um heimild þess sem stundar atvinnustarfsemi til þess að afsala sér rétti til þess að krefjast bóta vegna tjóns í atvinnustarfseminni beint frá félaginu. Slíkt gæti komið til í samningi milli vátryggðs og tjónþola en miða verður við að um slík frávik frá meginreglu greinarinnar yrði að semja með ótvíræðum hætti. Þörf fyrir slíka heimild yrði sjaldnast rík en heimildin er þó eðlileg því samningssamband vátryggðs og tjónþola getur verið með þeim hætti að eðlilegt sé að virða samninga þeirra um að ljúka sjálfir ágreiningsmálum sínum. Þessa getur verið þörf í samningssamböndum þar sem trúnaðarsamband er mikilvægt. Slíkum samningum eru þó sett takmörk í 2. málsl., þ.e. þau að samningurinn hefur ekki réttaráhrif við gjaldþrotaskipti á búi vátryggðs.

Um 45. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur sem lúta að stöðu tjónþola við það sem nefnt er í yfirskrift greinarinnar ,,lögboðnar ábyrgðartryggingar“. Með því er átt við þau tilvik er vátryggingartaki hefur tekið ábyrgðartryggingu til að fullnægja lagaskyldu um það efni. Miða verður við að með lögboðnum ábyrgðartryggingum og ábyrgðartryggingu sem tekin er til að fullnægja lagaskyldu sé átt við lög í rýmri merkingu, þ.e. þegar sett lög annaðhvort bjóða vátryggingartaka að hafa ábyrgðartryggingu, eða ótilgreinda tryggingu, eða hann fær um það fyrirmæli frá stjórnvaldshafa, sem byggjast á heimild í lögum. Ákvæðið á hins vegar ekki við ef skylda vátryggingartaka til að hafa ábyrgðartryggingu byggist á einkaréttarlegum samningi og er þá sama við hvern sá samningur er.
    Í 1. mgr. er sú meginregla að ákvæði 44. gr. eigi einnig við lögboðnar ábyrgðartryggingar, þ.e. þegar ekki gilda sérstakar reglur um stöðu tjónþola í viðkomandi laga- eða stjórnvaldsfyrirmælum. Regla 1. mgr. veit fyrst og fremst að stöðunni á grundvelli reglna skaðabótaréttar, enda er vísað til stöðu tjónþola og krafa hans er skaðabótakrafa.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem fremur veit að hinni vátryggingaréttarlegu hlið, þ.e. að möguleikum félagsins til þess að hafa uppi mótbárur gagnvart tjónþola og vátryggðum. Ákvæðið mælir fyrir um verulegar takmarkanir á heimildum félagsins til þess að hafa uppi mótbárur þegar um lögboðnar ábyrgðartryggingar er að ræða. Takmarkanirnar eru háðar því að félagið hafi vitað eða mátt vita að um lögboðna ábyrgðartryggingu sé að ræða. Almennt væri félagi um það kunnugt, enda yfirleitt um sérstakar tryggingar að ræða sem eru meira og minna lagaðar að þeim laga- eða stjórnvaldsfyrirmælum sem um vátryggingarskylduna gilda. Takmarkanir þessar leiða til þess að félagið getur t.d. ekki borið fyrir sig að ábyrgð þess hafi fallið niður vegna þess að einhver þau atvik hafi gerst að forsendur þess fyrir vátryggingarsamningi skv. IV. kafla frumvarpsins hafi brostið.
    Vert er þó að benda á að félagið getur haldið fast við að tjón hafi orðið vegna áhættu sem falli utan vátryggingarsamnings eða að það sé umfram vátryggingarfjárhæð.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að líða verði nokkur tími, þ.e. einn mánuður, frá tilkynningu félags til viðkomandi stjórnvalds um að lögboðinni vátryggingu hafi verið sagt upp eða hún hafi fallið niður af öðrum ástæðum og þar til það hefur réttaráhrif gagnvart tjónþola. Fyrirvari er þó gerður ef fyrirmæli eru um t.d. lengri frest eða önnur atriði í sérlögum eða öðrum sérreglum um hina tilteknu ábyrgðartryggingu.

Um 46. gr.

    Í þessari grein er leitast við að viðhalda einnig þeirri ófrávíkjanlegu lágmarksvernd sem þörf er á þegar um er að ræða svið er samningsfrelsi ríkir ella á. Tjónþoli nýtur þá þeirrar verndar að félagið getur ekki greitt bætur til vátryggðs nema hann samþykki að tjónþolinn fái greiðslu á kröfu sinni og að bannað er að krafa vátryggðs á hendur félaginu verði grundvöllur fullnustu á öðrum kröfum en skaðabótakröfunni. Í 2. mgr. er sérregla sem gildir ef bú vátryggðs hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en þá gilda hin tilgreindu ákvæði frumvarpsins að fullu.

Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru reglur um uppgjör vátryggingabóta og taka reglurnar til atvika sem eiga sér stað eftir að vátryggingaratburður verður. Í IV. kafla frumvarpsins eru ýmsar reglur sem lúta að skyldum vátryggðs þegar vátryggingaratburður verður og afleiðingar þess að hann vanrækir þær skyldur sínar, sbr. 28. og 29. gr. Í þessum kafla eru á hinn bóginn ákvæði sem lúta beinlínis að bótauppgjörinu sjálfu. Ákvæðin taka einkum til upplýsingaskyldu vátryggðs gagnvart félaginu um atriði sem varða uppgjör bóta, þ.m.t. afleiðingar þess að vátryggður veitir félaginu af ásetningi rangar upplýsingar til þess að fá bætur sem hann á ekki rétt á (svik). Jafnframt eru í kaflanum reglur um tímann er vátryggingarbætur falla í gjalddaga, hvenær eindagi er og einnig um heimildir félagsins til þess að skuldajafna við gjaldfallnar bætur, reglur um vexti og dráttarvexti og reglur um fyrningu bótakrafna.
    Í VSL eru reglur um flest þau atriði sem nú hafa verið nefnd. Reglurnar eru í 22.–24. gr. og 29.–30. gr. Þær tillögur sem gerðar eru í þessum kafla frumvarpsins víkja að nokkru frá reglum VSL um þessi efni, auk þess sem í frumvarpinu eru ákvæði um ýmsa þætti tengda framangreindum atriðum sem ekki eru í gildandi lögum. Í því sambandi má einkum nefna reglur um svik í tengslum við uppgjör skaðabóta og reglur um skuldajafnaðarrétt vátryggingafélaga.

Um 47. gr.

    Í þessari grein eru reglur um upplýsingaskyldu vátryggðs við uppgjör vátryggingabóta. Greinin kemur í stað 21. gr. VSL.
    Í 1. mgr. er lögð sú sjálfsagða skylda á vátryggðan að veita félaginu þær upplýsingar og afhenda því þau gögn sem hann hefur og félagið þarf til þess að meta ábyrgð sína og greiða bætur. Þessi skylda mundi væntanlega hvíla á vátryggðum, þótt ekki væri hún lögfest eins og hér er lagt til. Samt þykir rétt að hefja þennan kafla, um skyldu vátryggðs við uppgjör bóta, á því að undirstrika þessa skyldu hans. Er það einnig vegna þess að vanræksla hennar hefur sérstök réttaráhrif fyrir hann. Þau eru reyndar ekki tilgreind í þessari málsgrein en koma fram í 50. gr. frumvarpsins. Réttaráhrifin verða þau að vátryggður öðlast ekki sama rétt til vaxta og hann hefði ella átt, uppgjör bótanna dregst en af því ber hann sjálfur tjón og ef hann fengi greiddar bætur ranglega gæti félagið endurkrafið hann um ofgreiddar bætur.
    Í 2. og 3. mgr. er lagt til að lögfestar verði reglur um að félagið losni undan ábyrgð sinni við tilgreindar aðstæður og öðlist rétt til þess að segja upp öðrum vátryggingum.
    Í 2. mgr. er regla um það sem oft er nefnt vátryggingarsvik. Orðið ,,svik“ er þó ekki notað, heldur miðað við að vátryggður þurfi að hafa veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem hann veit, eða má vita, að leiði til þess að hann fái bætur sem hann á ekki rétt á. Ástæða þess að orðið svik er ekki notað er sú að dómstólar virðast oft veigra sér við að telja sannað að svikum hafi verið beitt. Má sem dæmi nefna að ákvæði 30. gr. samningalaga, sem heimilar að ógilda loforð sem fengin eru með svikum, hefur mjög sjaldan verið beitt í framkvæmd. Hið sama má segja um ýmis ákvæði áður gildandi laga um lausafjárkaup, nr. 39/1922, sem gera svik að skilyrði. Vátryggingarsvik eru alvarlegt vandamál sem stemma verður stigu við, einnig í lögum um vátryggingarsamninga, eftir því sem unnt er. Slík háttsemi verður að hafa alvarleg réttaráhrif fyrir þann sem beitir svikum. Miðað er við að auðveldara verði að beita ákvæðinu ef það er orðað með þeim hætti sem gert er, fremur en ef orðið svik væri notað. Orðalag ákvæðisins miðast við að tvennt þurfi að liggja fyrir til þess að því verði beitt. Annars vegar verður vátryggður að hafa veitt félaginu rangar eða ófullnægjandi upplýsingar og hins vegar verður því skilyrði að vera fullnægt að hann hafi gert þetta meðvitað í þeim tilgangi að fá bætur eða hærri bætur en hann á rétt til. Ljóst er að félagið hefur sönnunarbyrði fyrir því að báðum þessum skilyrðum sé fullnægt.
    Ef sú háttsemi vátryggðs sem lýst er að framan sannast er meginreglan samkvæmt þessum málslið sú að réttur hans samkvæmt þeim vátryggingarsamningi sem um ræðir fellur niður, þ.e. hann glatar öllum rétti sínum samkvæmt honum. Hið sama á við um rétt hans samkvæmt öðrum vátryggingarsamningum, því meginreglan kveður á um að hann glati öllum rétti til bóta á hendur félaginu vegna vátryggingaratburðarins. Það nægir t.d. að vátryggður reyni með þeirri háttsemi sem að framan greinir að hafa fé t.d. úr brunatryggingu fasteignar til að réttur samkvæmt t.d. innbústryggingu falli einnig niður, þ.e. vegna þess innbús sem skemmdist í sama vátryggingaratburði. Meginreglan miðast við að hann glati öllum rétti samkvæmt þeim vátryggingarsamningum sem hann hefur í tilgreindu félagi. Frá þessu verður að gagnálykta á þann veg að meginreglan taki ekki til vátrygginga í öðrum félögum.
    Frá meginreglunni er gerð undantekning í 2. málsl. þessarar málsgreinar, sem er ný regla í lögum. Sú undantekningarregla heimilar að vátryggður fái tjón sitt bætt að hluta, en skilyrði þess er að háttsemi hans sé annaðhvort ekki alvarleg eða varði einungis lítinn hluta kröfunnar eða sérstakar ástæður mæli með því að hann fái bætur að hluta. Undantekningarreglan miðast einungis við bætur að hluta en gerir aldrei ráð fyrir fullum bótum. Vert er að minna á þá skipan undantekningarreglunnar að aðeins einn þeirra þriggja þátta sem í henni eru nefndir þurfa að vera fyrir hendi svo henni megi beita.
    Í 3. mgr. er regla um víðtæka uppsagnarheimild félagsins á vátryggingarsamningum sem það hefur haft við hinn vátryggða, er verður ber að þeirri háttsemi sem lýst er í 2. mgr. Eðlilegt verður að telja að félagið eigi þess kost að losna úr samningssamböndum við vátryggðan er brýtur trúnað við það með þeim hætti sem lýst er í 2. mgr. Þess ber sérstaklega að geta hér að orðalag 3. mgr. er svo rúmt og afdráttarlaust að það tekur einnig til tilvika þar sem vátryggður hefur sviksamlega tilkynnt um vátryggingaratburð þótt hann hafi aldrei orðið. Er því óþarft að lögfesta sérstaka uppsagnarreglu í þeim tilvikum. Þess ber einnig sérstaklega að geta að orðalag 3. mgr. er þannig að það girðir ekki fyrir að félagið noti rétt sinn til uppsagnar ef vátryggður verður ber að þeirri háttsemi sem greinir í 2. mgr., jafnvel þó svo að hann fái bætur að hluta vegna þess að eitthvert þeirra atvika sem í undantekningarreglunni greinir hafi verið til staðar. Reglan í 2. málsl. 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 48. gr.

    Í þessari grein eru reglur um gjalddaga vátryggingabóta og innborganir félagsins á kröfu hins vátryggða.
    Í 1. málsl. er sama regla og nú er í 1. mgr. 24. gr. VSL. Markmið reglunnar er að stuðla að uppgjöri vátryggingabóta svo fljótt sem kostur er. Það kann að vera matskennt hve langan tíma félagið þarf til þess að meta vátryggingaratburð og ákvarða fjárhæð bótanna en oftast mundi liggja ljóst fyrir hvort nægileg gögn væru tiltæk um þetta eða ekki. Ekki þykir ástæða til að leggja til breytingar á þeim fresti sem gilt hefur.
    Í 2. málsl. er mælt fyrir um að félaginu sé skylt að greiða hluta af bótum þegar greiðsluskylda þess er ótvíræð, án þess að endanlegt uppgjör geti þó farið fram. Sambærileg regla er nú í 2. mgr. 24. gr. VSL, en þó er orðalag þessarar málsgreinar frumvarpsins þannig að félagið á að inna af hendi hlutagreiðslu þótt vátryggður fari ekki sérstaklega fram á það. Regluna verður að framkvæma af skynsemi, enda ekki ætlunin með henni að félögin inni alltaf greiðslur af hendi þegar ljóst er að borð er fyrir báru í greiðslustöðu vátryggðs. Eðlilegt er að félögin inni af hendi hlutagreiðslur einungis í þeim mæli að alveg sé ljóst að ekki þurfi að koma til þess að þau neyðist til að endurkrefja um þegar greiddar bætur. Regluna verður einnig að skýra svo að félagið geti ekki borið fyrir sig að ágreiningur sé um uppgjör að hluta og því sé þess vegna heimilt að bíða með uppgjör. Félaginu er skylt að inna af hendi greiðslu bóta að því marki sem ekki er um þær ágreiningur, þótt vátryggður geri fyrirvara um frekari kröfur á hendur því, eða fyrirvara sem miða að því að viðhalda rétti hans til kröfugerðar.

Um 49. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um heimildir félagsins til þess að skuldajafna hugsanlegum kröfum sínum við bótagreiðslur sem því ber að inna af hendi. Ekki er sambærilegt ákvæði í VSL. Brýn nauðsyn er á skýrum reglum um rétt félagsins til skuldajafnaðar, enda er uppgjör bóta oft flókið, einkum þegar fleiri en einn eiga rétt til bóta og eiga e.t.v. fyrir einhver óuppgerð mál við félagið. Leitast er við að setja fram einfaldar reglur. Þær taka að líkindum ekki til allra tilvika sem upp geta komið. Yrði þá að beita almennum reglum um skuldajöfnuð ef reglur þessarar greinar tækju ekki til tilviks.
    Í 1. mgr. er kveðið á um takmarkanir á skuldajafnaðarrétti félagsins gegn kröfu vátryggðs. Félagið getur aðeins beitt skuldajöfnuði að því leyti sem það á kröfur á hendur vátryggðum um vangoldin iðgjöld af þeirri tryggingu sem um ræðir svo og vegna annarra vátrygginga sem hann hefur hjá því. Félagið getur ekki notað aðrar hugsanlegar kröfur sínar á hann til skuldajafnaðar. Félag er veitt hefur manni lán til bifreiðakaupa sem komið er í vanskil getur þannig ekki notað kröfur sem af því spretta til skuldajafnaðar gegn kröfu mannsins um vátryggingarbætur, heldur einungis hugsanlegar iðgjaldaskuldir hans. Orðalag ákvæðisins felur einnig í sér að það eru einungis vangoldin iðgjöld við þetta tiltekna félag sem nota má til skuldajafnaðar. Frá þessu yrði gagnályktað á þann veg að vangoldin iðgjöld við félag í sömu samstæðu gætu ekki orðið andlag skuldajafnaðar. Ef krafa um greiðslu iðgjalds væri fyrnd en félagið mundi samt hafa hana uppi til skuldajafnaðar yrði að leysa úr því máli á grundvelli reglna fyrningarlaga.
    Í 2. mgr. eru reglur um skuldajafnaðarrétt félagsins gegn öðrum en vátryggingartaka. Í þeim tilvikum er skuldajafnaðarrétturinn enn þrengri en að framan greinir. Þá hefur félagið einungis heimild til að skuldajafna iðgjaldi vegna sama vátryggingarsamnings. Áður en til þess kemur verður þó félagið að beita þeim skuldajafnaðarrétti sem það kann að eiga skv. 1. mgr. og tæma hann. Í 3. málsl. er að finna reglu um hlutfallslega skiptingu skuldajafnaðar miðað við fjárhæðir sem greiða skal þegar um fleiri meðvátryggða eða tjónþola er að ræða.
    Í 3. mgr. er sérregla um lögboðnar ábyrgðartryggingar en þær hafa um margt nokkra sérstöðu að því er varðar réttarstöðu tjónþola. Reglan felur það í sér að tjónþoli sem á kröfu á grundvelli lögboðinnar ábyrgðartryggingar nýtur verndar gegn sérhverjum skuldajöfnuði á iðgjaldi, að því gefnu að félagið viti eða megi vita að um lögboðna ábyrgðartryggingu sé að ræða. Eins og fyrr er sagt mundi félagið að jafnaði hafa slíka vitneskju.

Um 50. gr.

    Í þessari grein eru reglur um vexti, þ.e. bæði almenna vexti og dráttarvexti, á kröfur um vátryggingarbætur. Greininni er ætlað að koma í stað 3. mgr. 24. gr. VSL en í því ákvæði segir eingöngu að félagið skuli greiða vexti af fjárhæðinni frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti. Miklu skiptir að ákvarða upphafstíma almennra vaxta og dráttarvaxta. Þegar vátryggingafélag fær tilkynningu um tjón sem vátrygging tekur til færir það venjulega fé á vátryggingaskuld sína (áður kallað bótasjóður). Vátryggingaskuld félaganna er ávöxtuð með sem hagkvæmustum hætti, en ávöxtun fer þó eftir þeim kostum sem bjóðast hverju sinni. Ekki er fært að miða reglur um vexti af kröfum um vátryggingarbætur við afkomu ávöxtunar vátryggingaskuldar viðkomandi félags. Er því, svo sem eðlilegt er, reglum skipað þannig að vátryggður eigi rétt á almennum vöxtum og dráttarvöxtum af kröfu sinni. Það skiptir félögin miklu hvernig upphafstími vaxta er ákvarðaður, einkum eftir að almennir vextir, sem svo eru nefndir í II. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, voru hækkaðir verulega. Fyrir félögin, sem varðveita eðli málsins samkvæmt miklar fjárhæðir í vátryggingaskuld sinni, hefur upphafstími vaxta og vaxtahæð verulega þýðingu. Þótt e.t.v. hefði verið eðlilegt með tilliti til hagsmuna hins vátryggða að almennir vextir reiknuðust á kröfu strax og félagi er send tilkynning um vátryggingaratburð er frá sjónarhóli félagsins nauðsynlegt að því gefist ráðrúm til þess að leggja mat á hvort greiðsluskylda muni vera fyrir hendi hjá því og hvaða fjárhæðir á að leggja til hliðar sem vátryggingaskuld. Þykir sá tími sem mælt er fyrir um í greininni hæfilegur í þessu skyni.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að vátryggður eigi rétt á almennum vöxtum af inneign sinni að liðnum tveimur mánuðum frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send félaginu. Er það hæfilegur tími sem félaginu er ætlaður til þess að taka afstöðu til þeirra atriða sem greinir að framan. Frávik frá þessu er að finna í 5. mgr. og vísast um skýringar þangað.
    Í 2. og 3. mgr. eru reglur um almenna vexti af útlögðum kostnaði hins vátryggða þegar félaginu ber að bæta tjón vegna rekstrarstöðvunar eða afnotamissis. Þessar málsgreinar þarfnast ekki skýringa.
    Í 4. mgr. er að finna reglur sem eru samkynja ákvæði 7. gr. laga nr. 38/2001. Regla þessarar málsgreinar tekur þó ekki aðeins til dráttarvaxta eins og hin tilvitnaða lagagrein, heldur einnig til almennra vaxta. Reglan er í samræmi við almennar reglur kröfuréttar um að skylda til að greiða vexti falli niður þegar greiðsla fer ekki fram eða dregst af ástæðum sem varða kröfuhafann. Er það almenn regla að réttaráhrif hvers konar vanefnda verða ekki virk ef þær verða af ástæðum sem kröfuhafa verður einum kennt um. Í 3. málsl. þessarar málsgreinar eru ákvæði sem eiga sér einnig skírskotun til almenna hluta kröfuréttarins, þ.e. þegar skuldari geymslugreiðir skuld sína, sbr. lög nr. 9/1978, um geymslufé, vegna atvika sem kröfuhafi ber ábyrgð á. Þar með fullnægir hann greiðsluskyldu sinni, þ.e. þegar skilyrði þess að geymslugreiða eru fyrir hendi. Sömu rök búa að baki reglu þeirri sem hér er til umfjöllunar.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem er sama efnis og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur. Það er afar algengt við uppgjör munatjóna hjá vátryggingafélögum að vátryggingarbætur séu miðaðar við verðlag á greiðslutíma, eða þeim tíma þegar niðurstaða mats um verðmæti vátryggðra muna lá fyrir. Skiptir þá ekki máli hvenær vátryggingaratburður varð eða hvenær félagið fékk tilkynningu um að vátryggður mundi hafa uppi kröfur á grundvelli vátryggingarsamnings. Í slíkum tilvikum yrði beinlínis rangt að miða upphafstíma vaxta við reglu 1. mgr. þessarar greinar. Er því lagt til að sett verði regla sem er sama efnis og tilvitnað ákvæði laga um vexti og verðtryggingu og tryggir í raun svipaða niðurstöðu og 1. mgr.
    Í 6. mgr. eru reglur sem taka af skarið um það hvers konar vexti er átt við. Þarfnast regla 1. málsl. ekki skýringa. Í 2. málsl. er regla um dráttarvexti. Er þar mælt fyrir um að reglur III. kafla laga nr. 38/2001 gildi um það efni. Í því felst að greiða ber dráttarvexti frá gjalddaga sé hann fyrir fram ákveðinn. Sé hann ekki fyrir fram ákveðinn er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi sem liðinn er einn mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Í 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins er regla um gjalddaga vátryggingabóta. Segir þar að krefjast megi greiðslu 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að meta vátryggingaratburð og ákvarða fjárhæð bótanna. Skýra verður þessa reglu um gjalddaga samhliða reglum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, sem áður er lýst, svo og 9. gr. þeirra laga sem tekur til dráttarvaxta á skaðabætur þegar um ábyrgðartryggingar er að ræða. Verður því að telja, þegar þessi ákvæði eru skýrð saman, að félaginu beri að greiða dráttarvexti á kröfur um vátryggingarbætur þegar liðinn er mánuður frá því að krafa vátryggðs kom fram, enda hafi hún komið fram eftir 14 daga frest þann sem tiltekinn er í 1. mgr. 48. gr. Er það sanngjarn tími. Félagið getur metið ábyrgð sína og reiknað út bætur þegar það hefur aflað eða fyrir það hafa verið lögð gögn og upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. orðalag 9. gr. laga nr. 38/2001.
    Vekja ber athygli á 2. málsl. 48. gr. um skyldu félagsins til að inna af hendi greiðslu að hluta. Ber því að hafa sjálft frumkvæði að hlutagreiðslu svo sem áður segir. Þegar skilyrði til hlutagreiðslu eru fyrir hendi samkvæmt greininni ber félaginu að greiða dráttarvexti á kröfuna að liðnum mánuði frá því að skylt var að greiða að hluta. Ef þessi regla gilti ekki mundi skyldan til hlutagreiðslu ekki öðlast nægilegt vægi.
    Í 1. málsl. 7. mgr. er regla sem ekki á sér hliðstæðu í VSL en er talin nauðsynleg til þess að taka af skarið um að vextir og dráttarvextir leggjast á kröfur um vátryggingarbætur óháð því hvort heildarkrafan verður hærri en vátryggingarfjárhæðin eða ekki. Eðlilegt er að undirstrikað sé að reglur um skyldu til greiðslu vaxta og dráttarvaxta séu óháðar reglum um vátryggingarfjárhæð. Verður að skoða reglu þessa í því ljósi að félagið á þess kost að ávaxta féð og hafa þannig af því vaxtatekjur. Það er því að skila vátryggðum þeirri ávöxtun, eða hluta hennar, sem það hefur getað fengið á fjárhæðina á meðan hún var í þess vörslum. Í 2. málsl. er mælt fyrir um skyldu félagsins til þess að vekja athygli vátryggðs á rétti hans til vaxta. Er það í samræmi við þá auknu upplýsingaskyldu er lögð er á félögin með reglum frumvarps þessa og jafnframt þá ábyrgð sem ætlast er til að þau sýni.

Um 51. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um tómlæti vátryggðs og réttaráhrif þess. Um þetta eru nú ákvæði í 30. gr. VSL. Þær reglur sem gerð er tillaga um í frumvarpsgreininni eru nokkuð rýmri í garð vátryggðs, a.m.k. veita þær honum meiri lágmarksvernd en gildandi reglur.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að vátryggður glati rétti til bóta ef krafa hans er ekki tilkynnt innan árs frá því að hann vissi um atvik sem eru tilefni kröfu hans. Geri hann það ekki fellur réttur hans brott vegna tómlætis. Reglan kann að virðast ströng en er þó mun rýmri en heimild stendur til eftir ákvæðum VSL. Félögin hafa af því mikla hagsmuni að kröfur komi fram sem fyrst og það hefur samfélagslega þýðingu að ljúka slíkum málum án óþarfa dráttar. Upphaf frestsins miðast við þann tíma er vátryggður fékk upplýsingar um þau atvik sem eru tilefni kröfu hans um vátryggingarbætur. Ákvæðið gerir kröfur til vátryggðs af því að það er á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir að atvikin sem hann hefur fengið upplýsingar um veita honum rétt til vátryggingabóta. Er óhjákvæmilegt að skipa reglum með þessum hætti, enda verður að ætlast til að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa.
    Í 2. mgr. er einnig regla um réttaráhrif tómlætis. Leggur hún þá skyldu á vátryggðan að höfða mál eða krefjast meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd innan árs frá því að hann fékk tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað. Gerð er krafa um að tilkynning félagsins um þetta sé í tilteknu formi, þ.e. skrifleg og hún sé tiltekins efnis, eins og lýst er í málsgreininni. Hvílir skylda á félaginu að kynna upplýsingarnar fyrir vátryggðum.

Um 52. gr.

    Í þessari grein eru reglur um fyrningu krafna á hendur vátryggingafélagi. Reglur um það eru nú í 29. gr. VSL en þær eru þó víðtækari þar sem þær taka til allra krafna sem rísa af vátryggingarsamningi, þ.m.t. iðgjaldakrafna. Frumvarpsgreinin tekur á hinn bóginn einungis til krafna um bætur, enda kemur það skýrlega fram í upphafsorðum hennar. Miðað er við að reglur fyrningarlaga, nr. 14/1905, taki að öðru leyti til fyrningar krafna sem rísa af vátryggingarsamningi.
    Samkvæmt 1. mgr. fyrnist krafa um vátryggingarbætur á fjórum árum. Upphafstími fyrningarfrestsins er við lok þess almanaksárs sem vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Reglan er svipuð og regla 29. gr. VSL og mundi í flestum tilvikum leiða til sömu niðurstöðu. Hún leggur þó væntanlega stundum meiri skyldur á vátryggðan þar sem orðalagið gæti í einstaka tilvikum leitt til þess að fresturinn byrjaði að líða fyrr samkvæmt frumvarpsgreininni en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði gildandi laga. Regla sú sem hér er gerð tillaga um er skýrari þar sem hún miðast einungis við eitt tímamark en gerir ekki jafnframt áskilnað um að vátryggður þurfi að eiga þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Reglan um tíu ára fyrningarfrest er einnig svipuð og regla gildandi laga en gæti þó í sumum tilvikum leitt til rýmri framkvæmdar þar sem miðað er við næstu áramót á eftir vátryggingaratburði en ekki við atburðinn sjálfan eins og í VSL. Skv. 3. málsl. getur vátryggður þó alltaf byggt á fresti sem settur er skv. 2. mgr. 51. gr.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um IX. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru sérstakar reglur um það sem nefnt er hópvátryggingar. Um þær eru ekki ákvæði í VSL, enda voru slíkar vátryggingar óþekktar eða því sem næst þegar norræn lög um vátryggingarsamninga voru lögfest. Hópvátryggingar hafa náð nokkurri útbreiðslu og hafa getað það í skjóli hinna frávíkjanlegu ákvæða VSL. Félögin hafa því getað, innan þess ramma sem VSL hafa sett þeim, samið um skilmála slíkra vátrygginga. Hópvátryggingar hafa um margt sérstöðu. Í venjulegu réttarsambandi á sviði vátryggingaréttar eru oftast tveir samningsaðilar, þ.e. félagið og vátryggingartaki. Í hópvátryggingum eru þeir þrír, þ.e. félagið, vátryggingartaki og þátttakandi í hóp sem vátryggður er. Milli vátryggingartaka og þátttakandans er oftast einnig réttarsamband annars eðlis, oft vinnuréttarsamband eða samband sem stofnað hefur verið til með félagssamningi. Það er venjulega vátryggingartaki sem gerir hópvátryggingarsamning við félagið fyrir hönd eða í þágu þátttakendanna í hópnum, oftast starfsmanna sinna eða félagsmanna í félagi. Hinn vátryggði í hópvátryggingum gerir því almennt ekki samninginn sjálfur. Sé hópvátryggingarsamningur í gildi er það ýmist svo að menn verða sjálfkrafa þátttakendur í honum ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði, t.d. ráða sig til starfa hjá ákveðnum aðila eða ganga í tiltekið félag, eða þeir þurfa að sækja sérstaklega um að fá að vera í hópnum.
    Í þessum kafla eru settar fram tillögur um reglur er varða hópvátryggingar og taka einkum til eftirtalinna þátta: hvert á að vera efni hópvátryggingarsamnings, um upplýsingagjöf um vátrygginguna, þ.m.t. staðfestingu á vátryggingu, um upphaf og lok þátttöku í hópi og um upplýsingar til þátttakenda í hópi og frá þeim.
    Í d-lið 2. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hópvátryggingu. Þar segir að hún sé vátrygging þar sem réttindi og skyldur fyrir þá sem vátrygging tekur til, hópinn, séu ákvörðuð með samningi sem vátryggingartaki geri vegna eða til hagsbóta fyrir þá sem teljast til hópsins. Í skýringum við þessa skilgreiningu í athugasemdum við 2. gr. er sérstaklega tekið fram að fjölskyldu- eða heimilistrygging sé ekki hópvátrygging, þótt í skilmálum hennar sé tekið fram að hún gildi til hagsbóta fyrir tiltekna eða ótiltekna fjölskyldumeðlimi. Vátryggingarsamningurinn verður að bera með sér að um hópvátryggingu sé að ræða, enda ráðast iðgjöld af því hverjir og hve margir eru í hópnum og iðgjöld eru greidd fyrir hvern þátttakanda sérstaklega, hvort sem hver einstaklingur greiðir fyrir sig eða vátryggingartakinn fyrir allan hópinn. Hópvátryggingarsamningar eru fátíðir í skaðatryggingum þótt fátt mæli gegn notkun þeirra á því sviði. Þeir eru mun algengari í persónutryggingum og hafa þar meiri þýðingu.

Um 53. gr.

    Í þessari grein er því einungis slegið föstu að sérreglur þessa kafla um hópvátryggingar eiga að ganga framar öðrum reglum laganna en þær gildi þó einnig um hópvátryggingarsamninga eftir því sem við getur átt. Eðlilegt er að hafa um þetta sérstaka yfirlýsingu í upphafi kaflans. Það er einnig heppilegast að sömu efnisreglur gildi um vátryggingarsamninga, hvort heldur þeir taka til einstaks manns eða hóps. Það er því einungis ástæða til þess að lögfesta sérreglur um hópvátryggingarsamninga að því leyti sem það er talið óhjákvæmilegt vegna hins sérstaka eðlis þeirra, ekki síst þeirrar ,,fjarlægðar“ sem hinn vátryggði er í frá réttarsambandi vátryggingartaka og félagsins. Orðalagið í greininni ,,að því leyti sem við getur átt“ á að veita dómstólum tækifæri til þess að skýra ákvæði laganna að teknu tilliti til sérstöðu hópvátrygginga, þótt ekki hafi verið talin ástæða til að setja sérreglu sem nær til þessarar sérstöðu.

Um 54. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um hvert vera skuli efni samnings um hópvátryggingu. Í greininni eru lágmarkskröfur til efnis slíkra samninga en ekkert mælir gegn því að þeir séu ítarlegri ef þörf er talin á. Markmið greinarinnar er að leggja þá kvöð á félagið og vátryggingartaka að taka afstöðu til þeirra atriða sem að lágmarki þurfa að vera í samningnum. Um er að ræða mikilsverð atriði sem nauðsynlegt er að semja um áður en samningur stofnast.
    Í 1. mgr. er almennt ákvæði um að samningurinn skuli hafa að geyma skilmála hópvátryggingarinnar eða reglur um hvernig þá skuli ákvarða. Nægir samkvæmt því að lýsa því hvaða reglur gildi um ákvörðun skilmálanna. Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir því að allir skilmálar hóptrygginga þurfi ekki að vera ákveðnir í eitt skipti fyrir öll. Slíkt yrði í raun ekki hægt. Ástæðan er sú að hópvátryggingarsamningur um skaðatryggingar getur tekið til margra einstaklinga sem hafa mjög mismunandi hagsmuni og búa við ólíkar aðstæður. Nauðsynlegt getur verið að ákvarða skilmála fyrir hvern og einn í hópnum eða a.m.k. að möguleiki sé fyrir hendi til að gera það. Þess vegna verður að gera ráð fyrir að skilmálar þurfi ekki að vera endanlega ákveðnir. Ef svo er ekki er þó áskilið að reglum sé lýst um það hvernig skilmálarnir séu ákveðnir. Taki félag t.d. fjölskyldu- eða heimilistryggingu fyrir félagsmenn sína gæti regla um það hvernig skilmálar skulu ákveðnir verið efnislega á þann veg að um skilmála í hverju tilviki gildi almennir skilmálar félagsins sem svo yrðu lagaðir að aðstæðum hvers og eins.
    Í 2. mgr. er því svo lýst hvaða efnisatriði þurfa að lágmarki að vera í hópvátryggingarsamningi.
    Í a-lið er ákvæði sem mælir fyrir um að í samningi um hópvátryggingu skuli mælt fyrir um hverjir séu og geti orðið þátttakendur í þeim hópi sem vátryggingin tekur til. Þegar um sjálfvirka aðild eða þátttöku í hópnum er að ræða markar ráðningarsamningur eða félagsaðild venjulega þau skilyrði sem uppfylla þarf til aðildar. Stundum gæti verið um að ræða biðtíma þar til aðild hefst, t.d. þegar gerð er krafa um að starfsmaður þurfi að starfa þrjá mánuði í fyrirtæki áður en hann öðlast rétt til aðildar að hópnum. Þegar þörf er á umsókn eða tilkynningu til þess að fá aðild, þ.e. hún er ekki sjálfvirk, þarf að taka afstöðu til þess í samningnum hverjir geti átt rétt til aðildar. Í slíkum tilvikum gæti þurft að tilgreina hvers efnis umsókn eigi að vera og í hvaða formi, hvert eigi að beina henni o.fl.
    Í b-lið er kveðið á um að tilgreina verði í samningi hvort megi gera fyrirvara um þátttöku. Þarfnast þessi liður ekki skýringa.
    Í c-lið er mælt fyrir um að í hópvátryggingarsamningi komi fram hvernig menn viðhaldi þátttöku sinni í hópi og hvernig menn geri fyrirvara við að verða hluti af hópnum og hvernig menn hætti í honum. Um er að ræða fyrirmæli um aðferðir við og efni tilkynninga eða yfirlýsinga um þau efni er síðast greinir. Þegar um sjálfvirka þátttöku er að ræða þarf ekki að gera neinar ráðstafanir til þess að verða hluti af hópnum. Í þeim tilvikum þarf þó að liggja fyrir hvernig, ef það er unnt, menn geri fyrirvara um aðild sína og hætti þátttöku í hópnum. Þýðingarmikið atriði í þessu sambandi er hvert eigi að beina slíkum tilkynningum og með hvaða hætti eigi að senda þær eða koma þeim til skila. Eðlilegt er að um þetta séu einföld fyrirmæli í samningnum sjálfum. Það er afar mikilvægt fyrir hinn vátryggða, þ.e. þátttakanda í hópnum, að honum sé ljóst hvert hann eigi að beina tilkynningum sínum. Ef svo er um samið milli félagsins og vátryggingartaka að hinn síðarnefndi eigi að fá tilkynningar sem um ræðir í þessum staflið er ljóst að félagið ber eftir sem áður ábyrgð á mistökum af hans hálfu. Ef vátryggður fullnægir skyldum sínum að því er varðar tilkynningar, en vátryggingartaki kemur þeim ekki áfram til félagsins, er það á ábyrgð félagsins, enda verður að líta á vátryggingartaka sem umboðsmann félagsins að þessu leyti.
    Í d-lið er kveðið á um að í hópvátryggingarsamningi skuli vera mælt fyrir um hvort halda skuli skrá yfir þátttakendur í hópi og hver skuli halda hana. Eins og í síðasta staflið er það félagið sem ber ábyrgð á réttri færslu slíkrar skrár og skiptir í því efni ekki máli þótt það hafi samið um það við vátryggingartaka að hann haldi skrána. Geri hann það er það í umboði félagsins. Gera má ráð fyrir að almennt sé þörf á að halda slíkar skrár yfir þá sem hópvátrygging í skaðatryggingum tekur til.
    Í e-lið er mælt fyrir um að í hópvátryggingarsamningi skuli tilgreint hver skuli greiða iðgjaldið til félagsins. Það er aðferðin við greiðslu iðgjaldsins sem mæla á fyrir um. Slík fyrirmæli eru nauðsynleg, enda skiptir það miklu um réttaráhrif vanskila hver á að annast greiðsluna. Ef hver þátttakandi í hópnum á að annast greiðslu sjálfur er ljóst að vanskil af hans hálfu leiða til þess að ábyrgð félagsins fellur niður. Ef vátryggingartaki á að annast greiðslu iðgjaldsins leiða vanskil af hans hálfu ekki til þess að ábyrgð félagsins falli strax niður, því hagsmunir vátryggðu mæla eindregið gegn svo strangri reglu. Verður að gera kröfu til þess að félagið sendi áður aðvörun til einstakra þátttakenda í hópnum til þess að ábyrgð þess geti fallið niður.
    Í f-lið eru einnig reglur sem lúta að skipulagi réttarsambandsins, þ.e. hver eigi að senda og taka við tilkynningum til og frá þátttakendum. Ítrekað skal það, sem áður sagði, að ef félagið og vátryggingartaki semja svo um sín á milli að vátryggingartaki skuli taka við tilkynningum til og frá einstökum þátttakendum í hópnum leysir það félagið ekki undan ábyrgð. Það ber hallann af því gagnvart þátttakendunum að vátryggingartakinn stendur sig ekki við að koma tilkynningum, sem honum berast, til skila.
    Loks er í g-lið ákvæði um hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess að vátrygging verði virk eða hægt sé að halda henni við. Greiðsla iðgjalds mundi venjulega skipta miklu hér en einnig gætu komið til önnur atriði.

Um 55. gr.

    Í II. kafla frumvarps þessa eru ýmis ákvæði um upplýsingaskyldu félagsins gagnvart einstökum vátryggingartökum. Þessi grein frumvarpsins mælir á hinn bóginn fyrir um upplýsingaskyldu til vátryggðs í hópvátryggingum. Í reglum II. kafla er lögð höfuðáhersla á upplýsingaskylduna gagnvart vátryggingartaka, en í þessari grein er áhersla lögð á miðlun upplýsinga til vátryggðs, þ.e. þátttakandans í þeim hópi sem vátrygging tekur til. Vakin er athygli á að orðalag greinarinnar leiðir til þess að bæði félagið og vátryggingartakinn hafa sjálfstæðar skyldur til þess að upplýsingaskyldu sé fullnægt. Í ákvæðinu eru tvær matskenndar reglur, þ.e. um hve oft upplýsingum skuli komið á framfæri og hvernig það skuli gert. Ekki er ástæða til að hafa um þessi atriði ítarlegar reglur, enda ræðst það mjög af atvikum hve oft er þörf á að dreifa upplýsingum og með hvaða hætti þarf að gera það. Í 2. málsl. er tekið af skarið um að upplýsingum skuli komið á framfæri þegar eftir að hópvátryggingarsamningur er kominn á og síðan þegar tilefni gefst til. Skylda til að upplýsa um viðbótartryggingar getur vart orðið víðtæk og verður aðeins skilin svo að það séu ákjósanlegar viðbætur við hina tilteknu hópvátryggingu en ekki að verið sé að skylda félagið til að upplýsa einatt um allar þær tryggingar sem heppilegt gæti verið fyrir fólk að hafa.

Um 56. gr.

    Í 10. gr. eru reglur um skyldu til að senda vátryggingarskírteini sem staðfestingu á vátryggingu í einstaklingsbundnum vátryggingum. Sú skylda hvílir undantekningarlaust á félaginu. Í þessari grein er mælt fyrir um skyldu til að senda hverjum þátttakanda í hópi sem vátrygging tekur til sambærilegt vátryggingarskírteini. Í greininni er ekki aðeins miðað við að félaginu sé skylt að senda slík skírteini, heldur getur skylda til þess hvílt á vátryggingartaka, allt eftir efni samnings hans við félagið. Ef samið er um þeirra í milli að vátryggingartaki skuli senda vátryggingarskírteini, og eftir atvikum það sem þeim fylgir, er ljóst að félagið þarf að sjá honum fyrir upplýsingaefni og skírteini sem hann (vátryggingartaki) dreifir svo.
    Samkvæmt reglu 1. málsl. 2. mgr. getur sá sem fengið hefur vátryggingarskírteini litið svo á að vátrygging sé í gildi. Þessi meginregla á þó ekki við, sbr. 2. málsl., ef það leiðir skýrlega af skírteininu að hann uppfylli ekki skilyrði þau sem gerð eru eða eigi ekki rétt á þeim greiðslum sem hann gerir kröfu um. Orðalag 2. málsl. leiðir til þess að gera verður miklar kröfur til þess sem semur vátryggingarskírteinið, þ.e. almennt félagsins, um að það sé skýrt og að ekki eigi að leika vafi á því að viðtakandi þess uppfylli ekki skilyrði þau sem hann þarf til að vera vátryggður eða eigi ekki rétt á greiðslum. Í 3. málsl. er önnur undantekningarregla en samkvæmt henni getur félagið haft uppi mótbárur vegna þess að vátryggður uppfyllir ekki upplýsingaskyldu sína eða félagið hefur með réttum hætti gefið aðvörun um slit vátryggingarinnar eða breytingu á henni skv. 58. gr.

Um 57. gr.

    Í þessari grein eru reglur um upphaf ábyrgðar félagsins.
    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um upphaf ábyrgðar félagsins gagnvart þeim þátttakendum í hópi, sem vátrygging tekur til, sem síðar koma til en 1. mgr. gerir ráð fyrir. Tveir kostir eru um upphaf ábyrgðar félagsins gagnvart þeim. Annar miðast við tilkynningu um greiðslu iðgjalds fyrir hann en ef hennar er ekki krafist, þá er miðað við það tímamark sem hann uppfyllir skilyrði til þess að vera þátttakandi. Það er á valdi félagsins og vátryggingartaka að semja um hvaða skilyrðum þurfi að vera fullnægt.
    Í 3. mgr. er regla um það hvenær sólarhringsins nákvæmlega ábyrgð félagsins hefst þegar ekki er um það samið en þó miðað við að ábyrgð hefjist á tilteknum degi í framtíðinni. Þá gerir fyllingarregla 4. mgr. 13. gr. ráð fyrir því að ábyrgðin hefjist í upphafi þess dags.

Um 58. gr.

    Í þessari frumvarpsgrein er að finna reglur um lok hópvátryggingar. Efni hennar er tvíþætt, þ.e. annars vegar tilvik þegar þátttakandi í hópi sem nýtur hópvátryggingar hættir í hópnum og hins vegar tilvik þegar samningi félagsins og vátryggingartaka, þ.e. hópvátryggingarsamningnum sjálfum, er slitið.
    Í 1. mgr. er ákvæði um fyrrnefndu tilvikin, þ.e. þegar þátttakandi í vátryggðum hópi hættir í honum og hópvátryggingarsamningurinn gerir honum ekki kleift að njóta áfram þessarar vátryggingarverndar. Við þessar aðstæður fær þátttakandinn, þ.e. vátryggður, 14 daga frest frá því að honum er send skrifleg tilkynning um að vátryggingin falli niður. Þetta er stuttur frestur en nægilega langur fyrir hann til þess að taka ákvörðun um hvort hann vilji leita eftir sambærilegri einstaklingsvátryggingu eða hætta með þessa vátryggingarvernd. Almennt mundi vera um fremur einfaldar vátryggingar að ræða, þannig að ákvörðunin er ekki flókin. Tekið skal fram að ákvæðið felur í sér lágmarksvernd og það er ekkert því til fyrirstöðu að vátryggingartaki semji um rýmri frest og þar með meiri vernd fyrir þátttakendurna. Í 2. málsl. 1. mgr. er ákvæði um þau tilvik þegar ekki er send tilkynning svo sem mælt er fyrir í 1. mgr. Þá lengist fresturinn í tvo mánuði. Hið sama á við þegar ekki er haldin skrá um hópinn og enga tilkynningu hægt að senda.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er undantekning frá reglum greinarinnar sem á við þegar þátttakandinn hefur tekið aðra vátryggingu eða gengið inn í sambærilega hópvátryggingu, t.d. vegna þess að hann hefur störf hjá öðrum vinnuveitanda sem tekið hefur slíka vátryggingu fyrir starfsmenn sína. Orðalag ákvæðisins stendur því ekki í vegi að það verði einnig látið ná til tilvika þegar þátttakandinn hefur verið tvítryggður þegar hópvátryggingunni er slitið. Gæti hann þá sótt rétt á hendur því félagi sem hann er með hina vátrygginguna hjá en hópvátryggingin ætti samkvæmt þessari grein að falla niður.
    Í 2. mgr. eru reglur um tilvik er hópvátryggingarsamningurinn fellur niður, t.d. vegna uppsagnar eða vegna þess að iðgjald er ekki greitt. Þá hefur hver einstakur þátttakandi nokkru rýmri rétt en að framan greinir, þ.e. einn mánuð eftir að hann fær tilkynningu samkvæmt málsgreininni. Fái hann enga tilkynningu heldur vátryggingin gildi sínu gagnvart honum. Það er því brýnt fyrir félagið að tryggja að hann fái tilkynninguna eða vitneskju um slitin með einhverjum öðrum (sannanlegum) hætti.
    Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að rétt er að hnykkja á að ekki er um tímabundna vátryggingu að ræða í skilningi þess ef hún á að framlengjast sjálfkrafa.

Um 59. gr.

    Ákvæði þessarar greinar frumvarpsins er ætlað að tryggja stöðu þátttakanda í hópi sem nýtur vátryggingar þegar skilmálum hennar er breytt þannig að það rýri rétt hans. Gilda þá ákvæði 2. mgr. 58. gr.

Um 60. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um ábyrgð félagsins þegar tilkynningar til eða frá þátttakendum í hópi sem nýtur vátryggingar misfarast.
    Í 1. mgr. eru reglur um tilkynningar til félagsins. Meginreglan er sú að einstakur þátttakandi í hópnum á ekki að bera hallann af því að tilkynning, t.d. um að hann tilheyri hópnum eða um tjón, skili sér ekki til félagsins. Ef vátryggingartaki bregst í slíkum tilvikum ber félagið hallann af því. Það er einungis þegar þátttakandinn hefur ástæðu til að ætla að tilkynningin hafi ekki borist félaginu og hann átt þess kost að tilkynna því um það sem um ræðir sem félagið ber ekki hallann af því að tilkynningin misferst. Er ákvæði um það í 2. málsl. Ástæðulaust er að láta hann njóta réttar skv. 1. málsl. er hann veit eða má vita, þ.e. hefur ástæðu til að ætla, að tilkynning hafi farið úrskeiðis. Þetta getur t.d. átt sér stað þegar félag leysist upp, bú vinnuveitanda er tekið til gjaldþrotaskipta o.fl.
    Í 2. mgr. er meginreglan sú að félagið ber ábyrgð ef tilkynningar sem vátryggingartaki átti að senda þátttakendum misfarast. Kemur hann í því efni fram fyrir hönd þess. Frá þessu er undantekning í lok málsgreinarinnar.

Um II. hluta.

    Í þessum hluta laganna eru reglur um persónutryggingar. Með persónutryggingum er, eins og áður greinir, átt við líftryggingar hvers konar, svo og slysa- og sjúkratryggingar. Eins og heiti þeirra bendir til lúta þessar vátryggingar með beinum hætti að lífi manna eða heilsu. Það sem skilur þessar vátryggingar frá skaðatryggingum er einkum að skaðatryggingum er ætlað að bæta fjárhagslegt tjón og í þeim vátryggingum gildir sú meginregla að enginn skuli hagnast á því að hagsmunir hans voru vátryggðir. Þessi meginregla gildir ekki í persónutryggingum, enda ekki hægt með sama hætti og í skaðatryggingum að meta þau verðmæti sem vátryggð eru eftir almennum fjárhagslegum mælikvarða. Menn geta því tekið líftryggingar þar sem bætur við andlát geta verið mun hærri en þær launatekjur sem hinn vátryggði gæti hafa haft það sem eftir væri ævinnar. Hið sama á við um slysa- og sjúkratryggingar. Ekki hefur verið talin ástæða til að óttast um það traust sem vátryggingar verða að hafa í hugum borgaranna þótt slíkt samningsfrelsi hafi ríkt í persónutryggingum og því er ekki talið tilefni til að breyta því.
    Um efni einstakra kafla vísast til þess sem segir í 6. tölul. í almennum athugasemdum og um efni einstakra greina vísast til sérstakra skýringa um þær.
    Ítrekað er að uppbygging frumvarpsins er með þeim hætti að leitast er við, svo sem unnt er, að hafa samræmi í kaflaskipan í I. og II. hluta, svo og í innbyrðis efnisskipan greina í einstökum köflum.

Um X. kafla.

    Í þessum kafla eru þrjár greinar og er yfirskrift þeirra sem hér segir:
     a.      61. gr. Gildissvið II. hluta laganna.
     b.      62. gr. Skilgreiningar.
     c.      63. gr. Ófrávíkjanlegar reglur.
    Efnisskipan greina í þessum kafla er með sama hætti og í I. kafla.

Um 61. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um gildissvið II. hluta laganna og er það takmarkað við persónutryggingar. Persónutryggingar eru yfirleitt tilgreindar með jákvæðum hætti en skaðatryggingar neikvæðum eða óbeinum, þ.e. sem vátryggingar gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum, vátrygging gegn skaðabótaábyrgð eða önnur vátrygging sem ekki telst til persónutrygginga. Þótt þannig kunni að vera auðveldara að afmarka svið persónutrygginga en skaðatrygginga rísa ýmis álitamál þegar það er reynt. Þegar lagt er mat á það hvort samningur telst fela í sér persónutryggingu í skilningi vátryggingaréttar, eða annars konar samning, ræðst niðurstaðan af efni samningsins en ekki af heiti hans. Niðurstaðan ræðst heldur ekki af því hvort sá sem veitir vátryggingu hefur leyfi til rekstrar vátryggingastarfsemi samkvæmt lögum nr. 60/1994 eða ekki.
    Þótt persónutryggingar veiti lífi og heilsu vátryggðs vátryggingarvernd þurfa þær ekki að vera einu vátryggingarnar sem það gera. Ábyrgðartryggingar, sem ætlað er að veita vátryggðum vernd gegn skaðabótaskyldu sem hann kann að baka sér eftir almennum reglum, bæta líkamstjón í þeirri víðtæku merkingu sem það hugtak er notað í skaðabótalögum, þ.e. bæði líftjón og líkamsmeiðsl, svo og heilsutjón sem stafa kann af sjúkdómum, allt að því gefnu að skilyrði til skaðabóta séu fyrir hendi og hin sérstöku skilyrði laganna uppfyllt. Þær teljast eftir sem áður til skaðatrygginga. Sjúklingatryggingar samkvæmt lögum um það efni, nr. 111/2000, veita þeim rétt til bóta sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni, eða missi framfæranda, einkum í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð, annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá sjálfstætt starfandi löggiltum heilbrigðisstarfsmanni. Sjúklingatryggingar teljast samt ekki persónutryggingar, heldur flokkast þær sem ábyrgðartryggingar og heyra þar með til skaðatryggingum, jafnvel þótt þær skilji sig frá ábyrgðartryggingum að því leyti að innan ramma þeirra er ekki áskilnaður um skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum, heldur einungis að tjóni sé valdið við þær aðstæður sem undir lögin heyra.
    Ítreka verður því að í vafatilvikum ræðst það af nánari skoðun á efni vátryggingarsamnings hvers konar vátryggingu verið sé að veita. Mikilvægt er að slík úrlausn sé reist á vandaðri athugun, enda getur það skipt miklu máli í ýmsu sambandi hvort fara beri eftir reglum I. eða II. hluta laganna. Það hefur líka oft þýðingu að skera úr um það hvort vátrygging er líftrygging eða annars konar persónutrygging, t.d. er mælt fyrir um skráningu líftrygginga og ýmissa réttinda í þeim í XVII. kafla, en sambærileg skráningarskylda gildir ekki um aðrar persónutryggingar.
    Í 2. mgr. er nánari tilgreining á því hvað teljist til persónutrygginga en þar er þó ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu. Í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi er að finna útlistanir á þeim vátryggingum sem nefndar eru hér persónutryggingar. Sú tilgreining er þó ekki tæmandi, enda kann að fara svo að til verði fleiri afbrigði þessara vátrygginga í framtíðinni en nú eru þekkt. Eitt af einkennum persónutrygginga hefur verið talið að þær hafa verið nefndar summutryggingar, þ.e. vátryggingarsamningur hefur kveðið á um að tiltekin fjárhæð komi til greiðslu ef vátryggingaratburður verður, óháð raunverulegu fjárhagslegu tjóni.
    Nauðsynlegt er að gera nokkra frekari grein fyrir efni þeirra vátrygginga, sem í frumvarpi þessu teljast til persónutrygginga.
    Það sem fyrst og fremst einkennir líftryggingar er að þær vátryggja dánaráhættu þann tíma sem vátryggingarsamningur er við lýði. Auk dánaráhættu er einnig oft um að ræða vátryggingu gegn örorku, t.d. þannig að greiddar eru bætur ef líkamstjón veldur örorku samkvæmt skilgreiningu vátryggingarsamnings. Í líftryggingu er greint á milli þess sem nefna má hreinar líftryggingar, þ.e. áhættulíftrygginga og samsettra líftrygginga, en í þeim er einnig söfnunarþáttur. Í hinum síðarnefndu skuldbindur félagið sig til, auk þess að veita vernd gegn dánaráhættu, að greiða tiltekna fjárhæð á umsömdu tímamarki, svo sem þegar vátryggður hefur náð ákveðnum aldri, t.d. 70 árum. Vátryggingarfjárhæðin kemur því alltaf til útborgunar annaðhvort við andlát vátryggðs eða við lok samningstímans, þ.e. þegar tilteknum aldri er náð. Í líftryggingum er einnig greint á milli höfuðstólstrygginga og lífeyristrygginga, svo sem gert er í VSL. Það einkennir höfuðstólstryggingar að vátryggingarfjárhæðin greiðist í einu lagi við andlát vátryggðs eða á öðru umsömdu tímamarki, t.d. við tiltekinn aldur, en í lífeyristryggingum stendur skylda félagsins til þess að inna af hendi greiðslur með ákveðnum fresti, t.d. mánaðarlega eða á sex mánaða fresti á meðan vátryggður lifir eða þar til hann nær tilgreindum aldri.
    Einkenni slysatrygginga er að vátryggt er gegn líftjóni (andláti) eða líkamstjóni sem hefur í för með sér örorku vegna slysa. Orðið örorka er hér notað í rúmri merkingu, enda þekkist bæði að nota orðið um svonefnda læknisfræðilega örorku og fjárhagslega örorku, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, auk þess sem örorkumat framkvæmt skv. 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, sbr. rgl. nr. 379/1999, er sérstakt mat ætlað til tiltekinna afnota. Við bætist svo að í reglum um einstaka lífeyrissjóði kunna að vera reglur um mat á örorku sem víkja að einhverju marki frá öllum þeim reglum sem að framan greinir. Slysatryggingar eiga það sameiginlegt með líftryggingum að vátryggt er gegn dánaráhættu, en það skilur þó á milli að líftryggingar taka til dánaráhættu óháð dánarorsök, nema sérstakur fyrirvari sé réttilega gerður, en slysatryggingar vátryggja aðeins gegn dánaráhættu að andlátið orsakist af slysum. Slysatrygging er einnig frábrugðin líftryggingum að því leyti að slysatrygging er alltaf áhættuvátrygging en aldrei samsett með söfnunarvátryggingu.
    Sjúkratryggingar eru um margt sambærilegar slysatryggingum. Það sem fyrst og fremst skilur á milli er að sjúkratryggingar vátryggja gegn heilsu- eða líftjóni af völdum sjúkdóma en ekki slysa eins og slysatryggingar. Venjulega veitir sjúkratrygging rétt til dagpeninga meðan á sjúkdómsforföllum stendur og til endurgreiðslu lækniskostnaðar og annars sjúkrakostnaðar vegna veikinda.
    Í 2. málsl. er sérstaklega tekið fram að vátryggja megi hvort sem er líf eða heilsu vátryggingartakans eða annarra, en þetta er sama regla og nú er í 97. og 119. gr. VSL.
    Í 3. mgr. er sérstaklega mælt fyrir um að þegar rætt sé um líftryggingu í þessum hluta laganna sé einnig átt við heilsutryggingu, nema annað sé tekið fram. Undir heilsutryggingar fellur sjúkdómatrygging án uppsagnarréttar. Fer því um slíkar heilsutryggingar samkvæmt þeim reglum sem gilda um líftryggingar. Af því leiðir að um heilsutryggingar í þessum skilningi gilda reglur um skráningu í XVII. kafla o.fl. Þetta er, svo sem áður greinir, sama afmörkun og notuð er í 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Það er sammerkt þessum vátryggingum og líftryggingum og það ræður fyrst og fremst þessari flokkun að heilsutryggingar eru óuppsegjanlegar af hálfu félagsins og almennt ætlaðar til langs tíma.
    Í 4. mgr. eru ákvæði um frekari afmörkun á gildissviði þessa hluta laganna.
    Í fyrsta lagi kemur þar fram að ákvæði hlutans gildi ekki um endurtryggingar. Er þetta sama regla og gildir um skaðatryggingar, sbr. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Sama regla er í a- lið 2. mgr. 1. gr. VSL. Um rök fyrir því að undanskilja endurtryggingar gildissviði laganna vísast til skýringa við síðastnefnt ákvæði frumvarpsins.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um að þessi hluti laganna gildi ekki um tryggingar lífeyrissjóða. Í ýmsum tilvikum geta risið álitaefni um þessa afmörkun. Í skýringum við norsk lög um vátryggingarsamninga er gert ráð fyrir að þau geti átt við um tryggingar lífeyrissjóða. Hér á landi er löng hefð fyrir skylduaðild að lífeyrissjóði og eru lagaákvæði og annað regluverk um lífeyrissjóði ítarlegt og um flest endurskoðað fyrir skömmu. Lífeyrissjóðir hafa lögbundið hlutverk og er ætlað að veita sjóðfélögum tiltekna vernd, fyrst og fremst lífeyri þegar tilteknum aldri er náð, en einnig vernd ef þeir verða fyrir alvarlegri starfsorkuskerðingu og tilteknum aðstandendum vernd ef sjóðfélagi andast. Iðgjald í lífeyrissjóði er ekki ákveðið eftir sömu reglum og iðgjald vegna vátrygginga, heldur ræðst það einkum af því sem um semst í kjarasamningum. Reglum þessa hluta laganna er ekki ætlað að hreyfa við reglum um þá vernd sem lífeyrissjóðir veita. Það á bæði við um það sem nefna má tryggingar sameignarlífeyrissjóða og séreignarlífeyrissjóða og um skyldubundinn lífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað. Ekki skiptir máli hver fengið hefur heimild til að annast rekstur lífeyrissjóðs eða taka við og varðveita viðbótarlífeyrissparnað. Einstök vátryggingafélög, ásamt mörgum öðrum, gera nú samninga um viðbótarlífeyrissparnað. Það veldur því ekki að þeir samningar verði vátryggingarsamningar. Þess ber þó að geta að það er ekki útilokað að í tengslum við slíkan sparnað geti verið gerðir vátryggingarsamningar og gilda þá ákvæði þessa hluta um þá. Verður það, eins og fyrr segir, að ráðast af efni samninganna. Þess skal einnig getið að í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er lífeyrissjóðum heimilað að tryggja áhættudreifingu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna, í heild eða að hluta, hjá vátryggingafélagi. Slíkir samningar væru að öðru jöfnu vátryggingarsamningar, þó ekki um persónutryggingu. Lífeyrissjóðum er einnig samkvæmt nefndum lögum heimilað að kaupa vátryggingarvernd fyrir einstaka sjóðfélaga sína hjá vátryggingafélagi. Slíkir samningar yrðu án efa taldir vera samningar um persónutryggingu.
    Í þriðja lagi er kveðið á um að ákvæði þessa hluta laganna gildi ekki um tryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Um þær tryggingar gilda sérstök lög og þær lúta sérstökum sjónarmiðum sem einkum miðast við almenna lágmarksvernd hinna tryggðu, en ekki sömu reglum og gilda um vátryggingar. Oft er einmitt skilið á milli almannatrygginga og þær nefndar opinberar tryggingar til aðgreiningar frá einkavátryggingum sem reglur frumvarps þessa taka einkum til.
    Geta má þess hér, þótt ekki hafi verið talin ástæða til að gera það í frumvarpstextanum, að þótt finna megi í lögum eða stjórnvaldsreglum orðið tryggingar, slysatryggingar, vátryggður og þess háttar þarf það ekki að þýða að um sé að ræða vátryggingar sem falla undir þennan hluta eða I. hluta laga þessara. Eins og áður greinir verður að meta það hverju sinni. Sem dæmi má nefna að í 1. mgr. 9. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, er mælt fyrir um að í kjarasamningi skuli m.a. kveðið á um tryggingar, þ.e. þeirra starfsmanna sem kjarasamningur tekur til. Með stoð í þessu ákvæði hafa verið settar reglur nr. 30/1990 og 31/1990, sem nefndar eru reglur um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi (eða utan starfs). Þótt þetta séu nefndar slysatryggingar og í reglunum talað um vátryggðan og þann sem tryggður er falla þessar tryggingar utan gildissviðs þessa hluta laganna, enda byggjast þær ekki á forsendum vátrygginga.
    Þrátt fyrir framanritað er það vitaskuld ekki útilokað að dómstólar teldu sér heimilt að beita einhverjum ákvæðum þessa hluta laganna um annars konar ,,tryggingar“ með lögjöfnun ef þeir teldu skilyrði vera fyrir hendi.

Um 62. gr.

    Í þessari grein eru skilgreiningar ýmissa hugtaka sem mikið eru notuð í II. hluta laganna. Er greinin um margt spegilmynd 2. gr. frumvarpsins og sum hugtakanna skilgreind með sama hætti. Í einstaka tilvikum er þó nauðsynlegt að gera afbrigði þar sem skilur á milli skaðatrygginga og persónutrygginga.
    Skilgreiningar í a-, g- og h-lið eru hinar sömu og í 2. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.
    Í b-lið er hugtakið vátryggingartaki skilgreint. Fyrri hluti skilgreiningarinnar er eins og í b-lið 2. gr. og þarfnast hann ekki frekari skýringa en fram koma í athugasemdum við þá grein. Vátryggingartaki í persónutryggingum tekur á hinn bóginn einnig til þess sem öðlast eignarrétt á vátryggingunni vegna framsals. Í 106. gr. er lagt til að heimilt verði að framselja vátryggingu svo sem heimilt er skv. 111. gr. VSL. Skilgreiningin leiðir til þess að framsalshafi öðlast þá stöðu vátryggingartaka samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Í c-lið er hugtakið vátryggður skilgreint. Það er gert með nokkuð öðrum hætti en í 2. gr. sem helgast bæði af því að hagsmunir þeir sem vátryggingin tekur til eru ólíkir og af sérstöðu ábyrgðartrygginga, sem teljast til skaðatrygginga. Orðið vátryggður er ekki notað í III. kafla VSL sem fjallar um líftryggingar, og einungis í einni grein í IV. kafla um slysa- og sjúkratryggingar, þ.e. í 123. gr. Notuð eru önnur orð, svo sem „sá sem tryggður er“ og ,,sá maður er líf eða heilbrigði hefur verið tryggt“, sbr. 100. og 124. gr. VSL. Ekki er þó að sjá að þessi orðnotkun hafi verið skýrt afmörkuð í lögunum, því í athugasemdum með greinum þessara kafla er orðið vátryggður notað fullum fetum í sömu merkingu og framangreind orð (sjá Alþingistíðindi 1953, A-deild, bls. 242–246). Þótt ekki fari alltaf vel á því að tala um vátryggðan, þegar um persónutryggingar er að ræða, er hér lagt til að það orð verði notað, enda rík hefð fyrir því. Merking orðsins er skýr, þ.e. það á við um þann mann, hvers lífs eða heilsu vátrygging tekur til.
    Í d-lið er orðið höfuðstólstrygging skilgreint. Eins og kemur fram í skilgreiningunni einkennir það höfuðstólstryggingar að félaginu ber að greiða tiltekna fjárhæð. Engu skiptir hvort greiðslur eigi að fara fram á einum gjalddaga eða fleirum, þótt hið fyrrnefnda sé venjulegast. Fer þá greiðsla ýmist fram við andlát hins vátryggða eða þegar hann nær tilteknum aldri. Í öðrum tilvikum greiðist hin tiltekna fjárhæð á ákveðnu tímabili. Þær tryggingar eru vissulega um margt líkar lífeyristryggingum, en sé fjárhæð sú sem félagið á að greiða í heild sinni fyrir fram ákveðin verður að telja að um höfuðstólstryggingu sé að ræða.
    Í e-lið er orðið lífeyristrygging skilgreint. Það sem einkennir þær vátryggingar er að félaginu ber samkvæmt samningnum að inna af hendi greiðslur með tilteknu millibili sem nefna má lífeyri. Lífeyristryggingar eru aðgreindar frá höfuðstólstryggingum, eins og fyrr greinir, að því leyti að fjárhæð greiðslu félagsins er ekki fastákveðin fyrir fram. Greiðsluskyldan stofnast á tilteknu tímamarki, t.d. þegar vátryggður nær tilteknum aldri og varir þar til hann deyr, eða hún stofnast við andlát hans og varir svo lengi sem rétthafinn lifir eða t.d. þar til börn vátryggðs hafa náð tilteknum aldri.
    Orðið hópvátrygging er skilgreint í f-lið. Í persónutryggingum er það almennt einkenni hópvátrygginga að þær taka til manna í tilteknum hópi og er ætlað til hagsbóta fyrir þá eða nánustu ættingja þeirra. Ekki er gerð krafa í skilgreiningunni um neinn lágmarksfjölda þátttakenda í hóp, enda geta aðstæður verið þannig að þeim fækki t.d. í einn, en hann getur haft ríka hagsmuni af því að tryggingin sé í gildi. Slíkt yrði þó að líkindum einsdæmi.
    Í i-lið er orðið rétthafi skilgreint en það orð er ekki í 2. gr. Orðið er mikið notað í II. hluta laganna, sbr. t.d. XV. kafla. Ekki þykir ástæða til að skýra merkingu orðsins frekar en skilgreiningin gerir.

Um 63. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um að ákvæði II. hluta laganna séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram. Sama regla gildir um ákvæði I. hluta, með undantekningu að því er lýtur að stærri rekstraraðilum, sbr. 3. gr. Vísast til skýringa um þá grein framar í athugasemdum þessum. Því skal einungis bætt við að enn ríkari þörf er fyrir ófrávíkjanlegar reglur í persónutryggingum þar sem þær eru yfirleitt neytendatryggingar. Er því engin nauðsyn hér á þeirri undantekningu sem er í 3. gr. Í einstökum tilvikum er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að semja á annan veg en mælt er fyrir um í tilteknum greinum frumvarpsins. Má sem dæmi um það nefna 86.–89. gr. Eðlilegt er að í ýmsum tilvikum sé félaginu veittur réttur til þess að takmarka áhættu sína eða binda hana skilyrðum. Verður ekki séð að gengið sé með ósanngjörnum hætti á hagsmuni vátryggingartaka, vátryggðs eða rétthafa þótt slíkar heimildir séu í sumum ákvæðum frumvarpsins.

Um XI. kafla.

    Í þessum kafla eru reglur um upplýsingaskyldu félagsins vegna persónutrygginga. Efni reglnanna svarar að verulegu leyti til efnis reglna II. kafla um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga vegna skaðatrygginga, en ýmis afbrigði verður þó að gera vegna ólíks eðlis þessara tveggja meginflokka vátrygginga. Má að miklu leyti vísa til þess sem segir í athugasemdum við II. kafla frumvarpsins. Eins og þar greinir eru engin ákvæði í VSL sem kveða á um upplýsingaskyldu félagsins í öðrum tilvikum en þegar því er það nauðsynlegt til þess að gæta hagsmuna sinna. Ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingafélaga í þessu frumvarpi eru hluti af því markmiði að styrkja réttarstöðu neytenda. Upplýsingagjöf í viðskiptum er hluti af neytendavernd. Ákvæði í lögum um vátryggingastarfsemi sem lúta að upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og eru einkaréttarlegs eðlis, þ.e. 60. gr. þeirra laga, eiga betur heima í lögum um vátryggingarsamninga. Er því, til samræmis við skipan reglna II. kafla, gerð tillaga um að efni 60. gr. laga um vátryggingastarfsemi verði flutt í lög um vátryggingarsamninga.
    Vátryggingartaki hefur fyrst og fremst þörf fyrir upplýsingar fyrir og við gerð vátryggingarsamnings. Hann hefur einnig þörf fyrir upplýsingar við endurnýjun samningsins, þótt sú þörf sé ekki eins rík og við stofnun hans. Í líftryggingum, sem ætlað er að standa í lengri tíma, hefur vátryggingartaki einnig þörf fyrir upplýsingar, t.d. til að vera minntur á hvaða ráðstafanir hann hefur gert varðandi vátrygginguna og hverjar hinar sérstöku skyldur hans séu. Hann hefur einnig þörf fyrir upplýsingar þegar kemur að uppgjöri bóta, t.d. um forsendur þess o.fl. Leitast er við með reglum frumvarpsins að tryggja upplýsingagjöf til vátryggingartaka á öllum framangreindum stigum.

Um 64. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingafélags við töku vátryggingar. Svo sem fyrr greinir er þörf vátryggingartaka fyrir upplýsingar mest þá. Efnislega er reglan sambærileg 4. gr. frumvarpsins og má því að hluta styðjast við skýringar á þeirri grein. Andlag þeirrar vátryggingarverndar sem persónutryggingum er ætlað að veita er afmarkaðra og ekki eins fjölbreytilegt og í skaðatryggingum. Aðferðirnar við að veita vátryggingarvernd í persónutryggingu eru þó margbreytilegar, t.d. eru til fjölmörg afbrigði líftryggingar. Hagsmunir vátryggingartaka í upphafi felast því fremur í upplýsingum um aðferðir en gildissvið, þótt það skipti einnig máli. Þess ber einnig að geta að persónutryggingar eru stundum hluti af annars konar fjármálaþjónustu sem vátryggingafélög veita. Í slíkum tilvikum tekur upplýsingaskyldan einnig til fjármálaþjónustunnar og þess hvernig hún kann að hafa áhrif á efni vátryggingarsamningsins, einkum vátryggingarverndina. Orðalag greinarinnar tekur nokkurt mið af þessum aðstæðum.
    Ekki er mælt fyrir um hvernig félaginu ber að koma upplýsingum sem því ber að veita samkvæmt þessari grein til vátryggingartaka. Er miðað við að það geti verið munnlega eða skriflega. Ekki er heldur kveðið á um það hvenær félagið á að hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni, enda er augljóst að svo upplýsingar nýtist vátryggingartaka þarf hann að hafa fengið þær áður en hann tekur ákvörðun um hvort hann gerir vátryggingarsamning við félagið.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að upplýsingaskyldan hvíli á félaginu og að hún taki einnig til þess sem kemur fram fyrir hönd félagsins, þ.e. í umboði þess. Skyldan stendur til þess að veita nauðsynlega ráðgjöf. Í því felst að það er háð þekkingu vátryggingartaka og aðstæðum hverju sinni hve langt félaginu ber að ganga í upplýsingagjöf sinni. Í skýringum við 4. gr. er þess getið að félagið eigi ekki að þurfa að kanna sjálft hverjar séu þarfir vátryggingartaka í skaðatryggingum. Þessu er á annan veg farið í persónutryggingum. Félaginu ber að sjá til þess að viðkomandi fái nauðsynlega ráðgjöf um hvernig þörfum hans um vátryggingarvernd verði mætt með vátryggingu. Skyldur félagsins til að meta þörf vátryggingartaka eru því ríkari í persónutryggingum en skaðatryggingum. Félagið verður því að afla þeirra upplýsinga hjá honum sem nauðsyn ber til svo það geti metið þarfir hans. Vátryggingartakinn verður að veita allar þær upplýsingar sem hann er beðinn um svo félagið geti sinnt skyldu sinni um að meta þarfir hans. Frá upplýsingaskyldunni eru frávik að því er varðar tilteknar upplýsingar, einkum um erfðafræðileg atriði sem sérstakt ákvæði er um í 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er tillaga að reglum um nánari útfærslu á upplýsingaskyldu félagsins og lúta þessar upplýsingar að þeim vátryggingum sem til álita koma fyrir vátryggingartaka. Þau atriði sem tilgreind eru í málsgreininni eru þau sem almennt má ætla að séu mikilvæg fyrir vátryggingartaka, en þau eru ekki tæmandi talin eins og orðalagið ber með sér. Meðal þess sem félaginu ber að upplýsa um er ávöxtun á höfuðstól vátryggingarinnar, þegar við á. Sé hún breytileg ber félaginu eðlilega að vekja athygli á því. Að öðru leyti er ekki þörf á skýringum á þessari málsgrein.
    Í 3. mgr. er ákvæði um upplýsingar um efni löggjafar. Samkvæmt orðanna hljóðan á reglan við þegar aðilarnir geta ekki valið um löggjöf. Þá hefur félagið skyldu til þess að upplýsa vátryggingartakann um það og ef þörf krefur efni þeirrar löggjafar. Þörf vátryggingartaka fyrir upplýsingar er einnig afstæð að því er lýtur að efni löggjafar. Hin almenna regla 1. mgr. um inntak upplýsingaskyldu gildir einnig um löggjöf, enda er efni hennar hluti af mati vátryggingartaka á kostum hans við að taka ákvörðun um hvernig hann hagar vátryggingarvernd þeirri sem hann tekur. Ef aðilar geta valið um löggjöf á ákvæði þessarar málsgreinar ekki við, en minnt skal á að þá gildir hin almenna regla 1. mgr.
    Í 4. mgr. er ákvæði sem er sambærilegt 2. mgr. 4. gr. að efni til. Þar er lögð sú skylda á félagið að upplýsa um, í vátryggingarskírteini eða vátryggingarskilmálum, hvaða aðilar hafi með höndum þjónustu vegna kvörtunar og ágreiningsmála sem varða vátryggingarsamninga og um rétt til þess að bera deilumál undir dómstóla.

Um 65. gr.

    Efni þessarar greinar er nú í 60. gr. laga um vátryggingastarfsemi að því frátöldu að ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar eru óþörf þar sem sömu reglur er að finna í 67. gr. frumvarpsins. Verður um skýringar að vísa til skýringa með 60. gr. í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðar varð að lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994 (sjá Alþingistíðindi 1993–94, A-deild, bls. 3094).

Um 66. gr.

    Efni þessarar greinar er hið sama og efni 5. gr. frumvarpsins að því frátöldu að orðalagsmunur er á tilgreiningu á vátryggingarandlagi. Hefur það ekki efnislega þýðingu. Má um skýringar vísa til skýringa með 5. gr.

Um 67. gr.

    Efni þessarar greinar er að mestu hið sama og efni 7. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. er þó áskilið að tilgreint sé félagsform þess félags sem býður persónutryggingu. Þessi viðbótarkrafa kemur til vegna þess að slík regla er nú í 60. gr. laga um vátryggingastarfsemi og ekki ástæða til að breyta því. Sama ástæða er fyrir því að skylt er að tilgreina útibú samkvæmt því sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar, en ekki í 1. mgr. 7. gr. Hvorugt þessara atriða þarfnast skýringa.
    Ákvæði 2. mgr. er líka efnislega eins og 2. mgr. 7. gr. en í síðarnefndu greininni er þó sérákvæði um ábyrgðartryggingar ökutækja sem ekki á við í þessari grein. Efnislega þarfnast reglan ekki frekari skýringa en fram koma í athugasemdum með 7. gr.

Um 68. gr.

    Þessi grein er samhljóða 8. gr. frumvarpsins og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 69. gr.

    Þessi grein er samhljóða 9. gr. frumvarpsins og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 70. gr.

    Í þessari grein er tillaga að reglum um vátryggingarskírteini í persónutryggingum. Í tillögum frumvarpsins um lagalega þýðingu vátryggingarskírteina í líftryggingum felast breytingar sem eðlilegt er að geta á þessu stigi. Vátryggingarskírteini í líftryggingum, líftryggingarskírteini, hafa til þessa talist til viðskiptabréfa í íslenskum rétti og um þau hafa almennt gilt reglur um viðskiptabréf. Þessi staða líftryggingarskírteina hefur m.a. byggst á 111.–115. gr. VSL, en samkvæmt þeim greinum öðlast sá sem fengið hefur framsal líftryggingarskírteinis öll þau réttindi gegn félaginu sem samningurinn veitir. Framsalshafi stendur að baki þeim sem á veðrétt í kröfu samkvæmt líftryggingarskírteini. Ákvæði 113. og 114. gr. VSL tryggja þó helst stöðu líftryggingarskírteinis sem viðskiptabréfs enda tryggja þau réttarstöðu þess sem í grandleysi eignast réttindi samkvæmt líftryggingarskírteini. Þótt ekki hafi farið fram á því athugun má að líkindum fullyrða að almenn þýðing líftryggingarskírteinis sem viðskiptabréfs hefur verið takmörkuð í viðskiptum hér á landi.
    Í frumvarpinu er lagt til að hverju vátryggingafélagi sem veitir líftryggingar verði gert að færa líftryggingarskrá, þar sem m.a. eru skráðar allar kvaðir sem lagðar eru á réttindi samkvæmt samningi um líftryggingu. Ekki er gert ráð fyrir því að slíkar kvaðir séu jafnharðan færðar á líftryggingarskírteinið. Verður það því ekki lengur til þess fallið að þjóna sem viðskiptabréf, enda mun það ekki alltaf bera með sér þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið yfir réttindum samkvæmt líftryggingarsamningi. Eftir sem áður geta réttindi samkvæmt líftryggingarsamningi verið andlag viðskipta, hvort sem um veðsetningu, framsal eða aðra ráðstöfun er að ræða. Öryggið er ekki hið sama og áður, nema ef lagt er fram vottorð úr líftryggingarskrá. Það er hluti af eðlilegri þróun að mæla fyrir um að upplýsingum skuli safnað í líftryggingarskrá, sem að líkindum verður rafræn skráning. Vart er hægt að gera ráð fyrir því í framtíðinni að líftryggingarskírteini í skriflegu formi samkvæmt hefðbundinni merkingu verði notað í viðskiptum.
    Efni 1. mgr. er hið sama og efni 1. mgr. 10. gr. og má um skýringar vísa þangað.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um hvað fram skuli koma í vátryggingarskírteini í persónutryggingum. Markmið reglnanna er hið sama og sambærilegra reglna í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Eiga því einnig við hér, að breyttu breytanda, þær skýringar sem eru í athugasemdum með þeirri grein.
    Ákvæði a–d-liðar eru efnislega samhljóða a–d-lið 2. mgr. 10. gr. og má um skýringar vísa til athugasemda við þau ákvæði.
    Í e-lið er mælt fyrir um að tilgreina skuli í vátryggingarskírteini hvaða fyrirvara félagið hafi gert um takmörkun á ábyrgð vegna heilsu hins vátryggða eða í tengslum við breytingar á áhættu. Slíkar takmarkanir á ábyrgðinni geta verið með ýmsu móti, t.d. þannig að dvelji vátryggður erlendis meira en hálft ár í senn geti félagið sagt upp vátryggingunni. Þá geta verið takmarkanir tengdar athöfnum vátryggðs, t.d. ef hann tekur þátt í hnefaleikum, svifflugi, teygjustökki o.fl. Eins geta verið fyrirvarar um ábyrgð félagsins ef vátryggður skiptir um starf og þarf það þá að koma fram í vátryggingarskírteini. Eins má vera að félagið undanþiggi sig ábyrgð vegna tilgreindra sjúkdóma og ber að tilgreina það í vátryggingarskírteini.
    Í f-lið er mælt fyrir um að tilgreina skuli hvaða varúðarreglur gilda, en þær eru eðli máls samkvæmt öðruvísi í persónutryggingum en í skaðatryggingum. Í þessum staflið er vísað m.a. til 90. gr., en þar er mælt fyrir um að félagið geti losnað úr ábyrgð ef vátryggður olli því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Varúðarreglur þekkjast vart í líftryggingum, en vera má að slíkar reglur séu settar í öðrum persónutryggingum. Þær geta t.d. lotið að skyldum vátryggðs til þess að leita læknis við tilteknar aðstæður eða sæta tiltekinni læknisrannsókn við sérgreindar aðstæður. Slíkar varúðarreglur þurfa að vera skýrar til þess að vera skuldbindandi fyrir hinn vátryggða og lagt er til í þessum staflið að þær beri að tilgreina í vátryggingarskírteini, enda fela þær í sér sérstakar kvaðir fyrir hinn vátryggða.
    Ákvæði g-liðar er efnislega samhljóða g-lið 2. mgr. 10. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þann lið.
    Samkvæmt 3. mgr. ber að tilgreina rétthafa sé hann tilnefndur við töku vátryggingarinnar. Tilnefning rétthafa er einhliða ákvörðun vátryggingartaka og er því ekki niðurstaða gagnkvæmra samninga eða eiginlegra skilmála vátryggingarinnar. Er því ekki sjálfgefið að það leiði af ákvæði 1. mgr. að tilnefning rétthafa yrði tilgreind í vátryggingarskírteini. Er því til öryggis mælt sérstaklega fyrir um það í þessari málsgrein. Mikilvægt er að slíkrar tilnefningar sé skilmerkilega getið í vátryggingarskírteini til þess að vátryggingartaka sé alltaf ljós sú ráðstöfun réttinda sem hann hefur þannig gert. Fleiri ákvæði frumvarpsins hafa þann tilgang að vátryggingartaki sé minntur á slíka ráðstöfun.
    Ákvæði 4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 10. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við síðarnefnda ákvæðið.

Um 71. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um skyldu félagsins til þess að veita upplýsingar á vátryggingartíma. Greinin á sér ekki nákvæma hliðstæðu í I. hluta, en 11. gr. frumvarpsins hefur þó sama markmið. Munur á efni greinanna helgast af því tvennu að persónutryggingar eru oft til lengri tíma og þær eru nánast alltaf neytendatryggingar og þörf fyrir upplýsingar þess vegna meiri en í skaðatryggingum.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um tilvik þar sem iðgjald er ekki greitt árlega, heldur greitt að fullu eða fyrir lengri tíma. Í þeim tilvikum ber félaginu að sjá til þess að þörfum vátryggingartaka fyrir upplýsingar sé fullnægt. Er nokkurra atriða getið sérstaklega þar sem hann getur haft þörf fyrir upplýsingar. Vátryggingartaki hefur ríka hagsmuni af því að geta fylgst með ágóðahlutdeild þeirri sem honum hefur áskotnast af vátryggingunni. Hið sama má segja um upplýsingar um endurkaupsverð, enda geta þær haft skattalega þýðingu fyrir hann auk annars konar þýðingar. Eðlilegt er að minna vátryggingartaka á þær ráðstafanir sem hann hefur gert með réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi og hann getur einnig haft þörf fyrir áminningu um hvaða ráðstafanir honum séu heimilar, en þó öllu fremur óheimilar. Þetta á einkum við ef hann hefur framselt réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi með óafturkallanlegum hætti. Mælt er einnig fyrir um skyldu félagsins til þess að upplýsa um aðra kosti við vátryggingar sem til greina koma eða nýja viðbótarvernd sem það hefur boðið fram eftir að vátrygging var tekin eða endurnýjuð. Ástæða er til að árétta að ekki er lögð sú skylda á félagið í persónutryggingum, fremur en skaðatryggingum, að viðhafa svo víðtæka upplýsingaskyldu um aðra kosti við vátryggingar eða viðbótarvernd að það þurfi að gera vátryggingartaka grein fyrir vátryggingum sem önnur félög bjóða, eða viðbótarvernd, sem hann getur fengið þar.
    Ef iðgjald er greitt árlega er eðlilegt að upplýsingagjöf sé almennt miðuð við það tímamark en ekki er þó hægt að útiloka að félaginu beri einnig að upplýsa vátryggingartaka ef sérstakt tilefni er til utan þess. Til að hnykkja á þessu er lögð sú skylda á félagið í 2. mgr. að veita upplýsingar skv. 1. mgr. við endurnýjun.

Um 72. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með því að upplýsingaskyldu samkvæmt lögunum sé fullnægt. Það fellur undir almennt eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins skv. V. kafla laga um vátryggingastarfsemi en eðlilegt þykir að hnykkja sérstaklega á því hér. Þarfnast greinin ekki efnislegra skýringa.

Um XII. kafla.

    Í þessum kafla eru mikilvægar reglur um gerð vátryggingarsamnings, um upphaf ábyrgðar félagsins, um vátryggingartímann og lok hans, um slit vátryggingarsamnings af ýmsum ástæðum og um uppgjör af því tilefni. Svipaðar reglur um skaðatryggingar eru í III. kafla frumvarpsins. Ákvæði VSL um þessi efni eru ekki eins heildstæð og þau sem hér er gerð tillaga um.
    Það er nokkrum vandkvæðum bundið að setja fram sameiginlegar reglur um sjúkra- og slysatryggingar annars vegar og líftryggingar hins vegar. Þær fyrrnefndu hafa í framkvæmd farið í mörgum efnum eftir reglum um skaðatryggingar, t.d. um gildistíma o.fl., en líftryggingar hafa notið sérstöðu. Vegna sérstöðu líftrygginga hefur verið nauðsynlegt að gera tillögu um nokkrar sérreglur í kaflanum um þær, en að öðru leyti eiga sömu reglur við.
    Andlag persónutrygginga er líf og heilsa vátryggðs. Upplýsingaöflun félaganna um vátryggðan lýtur þess vegna að öllu því sem skiptir máli um áhættu tengda lífi og heilsu hans. Aldur hans, almennt heilsufar, sérstakir sjúkdómar og atvinna hans eru allt atriði sem skipta félagið máli við mat á áhættu þess. Í 4.–10. gr. VSL eru reglur um skyldu vátryggingartaka/vátryggðs til að veita upplýsingar, en skipan þessara reglna miðast fyrst og fremst við greiningu á því hvaða afleiðingar röng upplýsingagjöf hefur. Upplýsingagjöf vátryggingartaka/vátryggðs skiptir líka miklu máli fyrir mat á því hvenær vátryggingarsamningur kemst á. Eitt af því sem miklu varðar er hve lengi vátryggingartaki hefur upplýsingaskyldu. Lýkur henni þegar hann hefur afhent útfyllt eyðublað með beiðni um vátryggingu, eða lýkur henni ekki fyrr en félagið hefur samþykkt vátryggingarbeiðni hans? Hefur hann e.t.v. upplýsingaskyldu á vátryggingartímanum? Leitast er við að ráða fram úr þessum álitaefnum með ákvæðum frumvarpsins.
    Þótt skipan reglna frumvarpsins sé þannig með öðrum hætti en í VSL eru ekki gerðar tillögur til stórfelldra breytinga á þeim reglum sem gilt hafa samkvæmt VSL eða mótast í framkvæmdinni. Í ýmsu tilliti er þó staða vátryggingartaka styrkt og verður m.a. vikið að því við skýringu á einstökum greinum.

Um 73. gr.

    Efni þessarar greinar tengist ákvæðum frumvarpsins um hvenær ábyrgð félagsins hefst og um upplýsingaskyldu vátryggingartaka. Greinin á sér ekki hliðstæðu í I. hluta laganna, enda efni hennar beinlínis tengt sérstöðu persónutrygginga.
    Í greininni er þeirri reglu slegið fastri að vátryggingartakinn hafi, þegar heilsa hans versnar áður en vátryggingarsamningur er endanlega kominn á, fullnægt skyldu sinni til upplýsingagjafar þegar hann hefur í góðri trú fyllt út og afhent (sent) félaginu umsóknareyðublað sem félagið hefur gefið út. Vátryggingartakanum er samkvæmt greininni ekki skylt að leiðrétta upplýsingar þær sem hann hefur gefið þótt hann verði síðar veikur, verði fyrir slysi eða honum verði síðar ljóst að upplýsingar þær sem hann veitti félaginu voru ekki réttar. Kjarni málsins er sá að hann hafi í upphafi veitt þær upplýsingar um heilsufar sitt sem hann vissi réttastar, þ.e. hann verður að vera grandlaus um þær breytingar sem síðar kunna að verða á heilsufari hans.
    Í 1. málsl. er kveðið á um að félagið eigi að reisa mat sitt á því hvort það veitir vátryggingu eða ekki á umsókninni og viðbótarupplýsingum sem það kann að afla þegar hún er til meðferðar. Félaginu er óheimilt að nota nýjar upplýsingar um versnandi heilsu vátryggðs sem koma fram eftir afhendingu umsóknar. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að skv. 82. gr. er hvorki vátryggingartaka né vátryggðum skylt að gefa upplýsingar eftir að félagið hefur samþykkt að veita vátryggingu.
    Það er forsenda þess að framangreind meginregla eigi við að vátryggingartaki hafi afhent fullbúna umsókn um tiltekna vátryggingu. Rökin fyrir þessari reglu eru einkum þau að aðstæður verða að vera þannig að vátryggingartaki hafi tekið skuldbindandi ákvörðun af sinni hálfu, hann hafi metið þá vernd sem vátrygging veitir og hvað hann muni þurfa að greiða mikið iðgjald. Með samþykki félagsins er kominn á vátryggingarsamningur. Fram að þeim tíma er vátryggingartaki afhendir fullbúna umsókn um tiltekna vátryggingu verður hann að upplýsa félagið um allar breytingar sem honum er kunnugt um á heilsufari sínu eða slys sem hann verður fyrir. Félagið hefur líka heimildir til að biðja hann um viðbótarupplýsingar um þróun heilsufars hans. Með fullbúinni umsókn er átt við umsókn með þeim upplýsingum og í því horfi sem óskað er eftir. Í sumum tilvikum kann að vera óskað eftir upplýsingum frá lækni, að undangenginni skoðun hans. Það teldist ekki fullbúin umsókn ef vátryggingartaki veitti upplýsingarnar sjálfur án læknisskoðunar.
    Í 2. málsl. er ákvæði sem takmarkar nokkuð þá meginreglu sem er í 1. málsl. Forsenda þess að félagið beri ábyrgð á versnandi heilsu vátryggðs er að sú að umsóknin sé fullbúin og rétt út fyllt, þannig að það hefði veitt vátrygginguna á grundvelli umsóknarinnar. Þótt félagið afli viðbótarupplýsinga og framkvæmi eigin athuganir útilokar það ekki að það beri ábyrgð þótt heilsufar vátryggingartaka versni, hvað þá ef hann verður fyrir slysi. Ef athuganir félagsins leiða hins vegar í ljós þá veikleika í heilsufari vátryggðs sem leiða til þess að heilsa hans versnar mundi félaginu heimilt að taka tillit til slíkra breytinga þegar það metur áhættu sína og ákveður iðgjaldið. Ef versnandi heilsufar vátryggðs á rætur að rekja til skyndilegs sjúkdóms, án sambands við ástand hans er hann afhenti umsóknina, eða til slyss eiga ekki að rísa nein álitaefni. Félagið ber í þeim tilvikum ábyrgð á slíkri áhættu.
    Til skýringar framangreindu má nefna tilvik er miðaldra reykingamaður í yfirþyngd óskar eftir sjúkratryggingu. Hann fyllir út umsókn þar sem hann m.a. svarar því að hann hafi hvorki of háan blóðþrýsting né hjartasjúkdóma. Ef félagið, eftir móttöku umsóknar, óskar staðfestingar læknis á þessum upplýsingum sem leiðir í ljós að vátryggingartaki er bæði með háþrýsting og/eða hjartasjúkdóm, getur það tekið tillit til þess þegar það svarar beiðni hans um vátrygginguna. Félagið gæti á hinn bóginn ekki borið fyrir sig að heilsufar hans hefði versnað ef það hefði verið vegna slyss eða nýrnasjúkdóms sem það hafði ekki tekið til athugunar.

Um 74. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um hvenær ábyrgð félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi hefst. Efni greinarinnar er um flest samhljóða efni 13. gr. frumvarpsins og vísast um skýringar að öðru leyti en hér greinir til þess sem segir í athugasemdum með þeirri grein.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. er samhljóða þremur fyrstu málsgreinunum í 13. gr.
    Í 2. og 3. málsl. eru undantekningar frá reglunni í 1. málsl. Í fyrsta lagi á reglan ekki við ef ljóst er að félagið hefði hafnað beiðni um vátryggingu. Heilsu vátryggingartaka, eða þess sem á að vera vátryggður, kann að vera svo farið að félagið hefði örugglega hafnað beiðni um vátryggingu samkvæmt þeim reglum sem það beitir í framkvæmd. Önnur regla mundi gera vátryggingartaka/vátryggðan betur settan af því að félagið hefði ekki haft ráðrúm til að rannsaka umsóknina. Í öðru lagi ber félagið ekki ábyrgð á afleiðingum atvika sem voru til staðar á því tímamarki er umsókn var send ef þau hefðu komið í ljós við athugun félagsins og leitt til þess að umsókn hefði verið hafnað. Þessa reglu verður að skýra í samhengi við reglu 2. málsl. 73. gr. sem skýrð er að framan. Samkvæmt þessu verður félagið að hefja athugun í beinu framhaldi af því að umsókn er móttekin. Regla þessa málsliðar, sem hér er til athugunar, mælir aðeins fyrir um að félagið sé laust undan ábyrgð á afleiðingum slíkra atvika, sem verða áður en félagið getur tekið afstöðu til beiðni um vátryggingu. Hafi félagið samþykkt beiðnina ber það ábyrgð. Hafi félagið ekki framkvæmt athugun skv. 2. málsl. 73. gr. losnar það ekki undan ábyrgð. Hið sjálfstæða gildi reglunnar í þessum málslið felst í því að félagið ber ekki ábyrgð ef það hefur ekki haft ráðrúm til að framkvæma athugun sem það hefði gert og hefði haft þær afleiðingar að félagið hefði hafnað beiðninni. Gagnálykta verður frá þessum reglum á þann veg að ef félagið hefði samþykkt vátrygginguna, en með hærra iðgjaldi, þá er það bundið, þ.e. félagið ber ábyrgð en á rétt á hærra iðgjaldi. Önnur niðurstaða er vart tæk, enda útilokað að sanna með hlutlægum hætti, eftir að vátryggingaratburður hefur orðið, hvort vátryggingartaki hefði samþykkt hærra iðgjald. Hann kann að vera látinn úr slysi eða sjúkdómi eða skilyrði til að krefja um vátryggingarfjárhæðina uppfyllt með öðrum hætti. Ekki gagnar að spyrja hann, sé hann látinn, og verði hann spurður ella er eðlilegt að miða við að hann mundi svara játandi, enda hefur hann af því brýna hagsmuni. Er því eðlilegast að miða við að hann hefði samþykkt hærra iðgjald.
    Ákvæði 4. mgr. er hið sama og sömu málsgreinar í 13. gr.

Um 75. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um heimildir vátryggingartaka til þess að segja upp vátryggingarsamningi. Ákvæði um sama efni í skaðatryggingum eru í 14. gr. frumvarpsins og eru þau um flest efnislega samhljóða. Sérregla gildir þó um líftryggingar.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að ef um líftryggingu sé að ræða geti vátryggingartaki slitið henni hvenær sem er. Ekki þykir rétt að nota hér orðið uppsögn, því slitin geta verið fyrirvaralaus og styðjast ekki við heimild í samningnum sjálfum. Þetta er svipuð regla og nú er í 98. gr. VSL. Líftryggingar eru þess eðlis að ekki er unnt að skipa reglum svo að vátryggingartaki sé bundinn lengur en hann sjálfur kýs. Um hið fjárhagslega uppgjör vegna slíkra slita gilda reglur sem kveðið er á um í 77. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2.–4. mgr. eru samhljóða 1.–3. mgr. 14. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þær.

Um 76. gr.

    Í þessari grein eru reglur um heimildir vátryggingafélags til þess að slíta vátryggingarsamningi um persónutryggingar. Greint er á milli líftrygginga annars vegar og slysa- og sjúkratrygginga hins vegar.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um heimildir félagsins til þess að slíta vátryggingarsamningi um líftryggingu. Þær heimildir eru afar takmarkaðar og eru eingöngu fyrir hendi þegar upplýsingaskylda hefur verið vanrækt, en um þau tilvik gilda ákvæði 84. gr. sem vísað er til í þessari málsgrein. Ef vátryggingartaki greiðir ekki iðgjald líftryggingar getur hún fallið niður, en í því tilviki er ekki um uppsögn eða eiginleg slit af félagsins hálfu að ræða. Ákveði félagið að slíta líftryggingu af því að það telur sér slíkt heimilt eftir reglum 84. gr. gilda reglur 3. mgr. þessarar greinar um hvernig félagið á að bera sig að við þau slit og um hugsanlegar tómlætisverkanir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir félagsins til að slíta samningum um slysa- og sjúkratryggingu. Í þeim tilvikum eru heimildir félagsins til uppsagnar einnig háðar takmörkunum, en segja má að þær takmarkanir séu tvíþættar. Annars vegar er félaginu heimilt að slíta vátryggingarsamningi um þessar tvær tegundir persónutrygginga samkvæmt reglum 84. gr. og 3. mgr. 120. gr., þ.e. við ranga upplýsingagjöf við stofnun eða á vátryggingartíma eða við bótauppgjör. Hins vegar er félaginu heimilt að slíta slíkum vátryggingarsamningum með uppsögn ef fyrir hendi eru sérstök atvik sem skýrlega þurfa að vera tilgreind í vátryggingarskilmálum. Til viðbótar þessu er svo áskilnaður um að uppsögnin sé sanngjörn. Þetta er sama skilyrði og í 1. mgr. 15. gr. um skaðatryggingar og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein. Til viðbótar skal þess getið að sérstaða slysa- og sjúkratrygginga veldur því að félagið getur gert áskilnað um rétt sinn til að segja upp vátryggingarsamningi um slíkar vátryggingar ef t.d. vátryggður skiptir um starf og byrjar í starfi sem er þannig að félagið hefði synjað um að veita vátryggingu ef hann hefði verið í því er hann óskaði hennar. Ef starfið er á hinn bóginn þannig að félagið hefði samþykkt vátrygginguna, en þó gegn hærra iðgjaldi, mundi það ekki hafa rétt til uppsagnar, heldur yrði að bíða til loka vátryggingartímabils. Ljóst er að vátryggingafélög kunna í öryggisskyni að freistast til að hafa slíkar uppsagnir víðtækari en samræmist ákvæði þessarar málsgreinar. Fjármálaeftirlitinu ber vegna eftirlitshlutverks síns að koma í veg fyrir að slíkar heimildir séu misnotaðar. Í öllum tilvikum verður því skilyrði að vera fullnægt að telja megi uppsögn vátryggingarsamnings sanngjarna. Í lokamálslið þessarar málsgreinar er undantekning frá heimildum félagsins til uppsagnar. Því er ekki heimilt að segja samningi um slysa- og sjúkratryggingar upp þótt heilsu hins vátryggða hafi hrakað eftir að vátrygging var tekin. Er þessi undantekning í samræmi við þær reglur sem fram koma í 73. og 74. gr. og skýrðar hafa verið.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um hvenær og hvernig félagið á að bera sig að við slit vátryggingarsamnings samkvæmt greininni. Málsgreinin er samhljóða 2. mgr. 15. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þá málsgrein. Ítrekað skal að þar sem skilyrði uppsagnar er að fyrir hendi séu tilgreindar ástæður ætti það ekki að vefjast fyrir félaginu að tilgreina þær í tilkynningu sinni. Þannig gæti vátryggður eða vátryggingartaki séð með vissu á hverju félagið reisti afstöðu sína og skotið hugsanlegum ágreiningi um réttmæti uppsagnarinnar til úrskurðarnefndar eða dómstóla. Sé uppsögn félagsins ólögmæt ber það ábyrgð á vátryggingaratburðum sem kunna að verða eftir að hún fer fram.
    Ákvæði 4. og 5. mgr. eru sama efnis og 3. og 4. mgr. 15. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þær.

Um 77. gr.

    Í þessari grein eru reglur um uppgjör þegar vátryggingarsamningi er slitið á vátryggingartíma. Sambærilegt ákvæði um skaðatryggingar er í 17. gr. og má að hluta vísa þangað um skýringar. Nokkur efnislegur munur er á greinunum sem fyrst og fremst helgast af sérstöðu líftrygginga, einkum söfnunarlíftrygginga.
    Það er grundvallarregla í líftryggingum að uppsafnaður sparnaður, ágóðahlutdeild, sé um hana er að ræða, og iðgjald sem búið er að greiða fyrir vátryggingartímabil, sem ekki er komið eða ekki er liðið, telst eign vátryggingartaka. Ef vátryggingarsamningi um líftryggingu er slitið á hann rétt á því að fá endurgreiðslu vegna þessa og gildir einu hver orsök slitanna er. Þessi grundvallarregla felst í greininni. Í henni eru á hinn bóginn ekki reglur um aðferðir við útreikning á endurgreiðslu til vátryggingartaka en í lokamálslið greinarinnar er þó mælt fyrir um að slíkar reglur skuli vera í skilmálum eða vísað til þeirra þar. Réttur vátryggingartaka til endurgreiðslu við slit er ekki aðeins fyrir hendi í söfnunarlíftryggingum. Svo getur einnig verið í áhættulíftryggingu þegar vátryggingartaki hefur greitt iðgjaldið langt fram í tímann. Eru ýmsir kostir hugsanlegir í því efni.

Um 78. gr.

    Í greininni eru sérstakar reglur um skyldu félagsins til þess að aðvara vátryggingartaka um lok líftryggingar. Fresturinn sem félaginu ber að gefa vátryggingartaka er þrír mánuðir. Um er að ræða langan frest, en það er nauðsynlegt, því vátryggingartaki getur þurft að endurmeta stöðu sína og gera ráðstafanir í framhaldi af því. Aðvörunarskyldan á bæði við um áhættulíftryggingar og söfnunarlíftryggingar, enda getur vátryggingartaki einnig þurft að gera ýmsar ráðstafanir vegna útborgunar úr söfnunarlíftryggingu eða hann gæti talið rétt að framlengja hana ef þess væri kostur. Í öðrum tilvikum getur hann einnig átt þess kost, með eða án nýrra heilsufarsupplýsinga, að framlengja vátrygginguna. Hér getur verið um að ræða mikla hagsmuni fyrir hann og flókið val.
    Í 2. málsl. er ákvæði um nánari ákvörðun frestsins. Samkvæmt því skal samfelldur gildistími vátryggingarinnar hjá sama félagi reiknast sem ein heild. Í þessu felst að um sömu vátryggingu verður að vera að ræða þótt fjárhæðir hennar kunni að hafa verið mismunandi og hún hafi aðeins verið til eins árs í senn. Ekki mundi heldur skipta máli af hvaða ástæðum hún hefði verið framlengd. Skilyrðið um sömu líftryggingu felur það í sér að ólíkar vátryggingar, t.d. lífeyristrygging og höfuðstólstrygging, gætu ekki talist sama vátryggingin í þessum skilningi.

Um 79. gr.

    Í greininni eru reglur sem lúta að endurnýjun slysa- eða sjúkratryggingar og breytingum á skilmálum. Er 18. gr. frumvarpsins um sama efni.
    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 18. gr. Þannig hafa slysa- og sjúkratryggingar verið í framkvæmdinni, en þetta er í samræmi við þá fyrirmynd sem er í 84. gr. VSL og gildir um brunatryggingar. Í þessu felst að þótt vátrygging sé einungis tekin til eins árs í senn, þá gildir hún áfram svo fremi sem félagið hafi ekki tilkynnt það innan þess frests sem settur er í greininni. Ákvæði 84. gr. VSL eru frávíkjanleg samkvæmt meginreglu þeirra laga. Sú breyting verður á, ef frumvarp þetta verður að lögum, að reglur um sjálfkrafa framlengingu, ef vátryggingunni er ekki sagt upp, verða ófrávíkjanlegar og mun það styrkja stöðu vátryggingartaka, a.m.k. að formi til. Tilkynning félags um að vátrygging verði ekki framlengd er ákvöð. Ekki er gerð krafa um skriflegt form, en félagið hefur sönnunarbyrði fyrir því að það hafi fullnægt tilkynningarskyldu sinni ef það ber fyrir sig að ábyrgð þess sé ekki lengur fyrir hendi.
    Í 2. mgr. eru ákvæði sem takmarka heimildir félagsins til þess að neita að endurnýja vátryggingu. Samkvæmt reglum 1. málsl. getur félagið aðeins neitað um endurnýjun þegar fyrir hendi eru sérstakar ástæður. Í sambærilegri reglu í skaðatryggingum er einnig áskilnaður um að slík synjun félagsins þurfi að vera sanngjörn, en ekki þykir heppilegt að hafa slíka reglu í þessari grein þar sem sanngirnismat er hér mjög afstætt. Nýjar heilsufarsupplýsingar, sem félagið kallar eftir skv. 3. mgr., geta leitt til þess að það neitar að framlengja vátrygginguna, sem kann að vera ósanngjarnt gagnvart vátryggðum, en óhjákvæmilegt er þó að viðurkenna rétt félagsins til að synja um endurnýjun. Tilvísun í 2. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 76. gr. tryggir að tilkynning félagsins um synjun á endurnýjun á að vera skrifleg og rökstudd, auk þess sem fram á að koma hvaða kosti vátryggingartaki/vátryggður hefur til að skjóta hugsanlegum ágreiningi til úrskurðarnefndar. Í 3. málsl. þessarar málsgreinar er ákvæði sem er samhljóða 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. og þarfnast það ekki sérstakra skýringa hér.
    Af 3. mgr. leiðir sú regla að vátryggingartaki eða vátryggður eru ekki skyldir til þess að eigin frumkvæði að koma nýjum heilsufarsupplýsingum til félagsins eða öðrum nýjum upplýsingum sem máli skipta. Óski félagið á hinn bóginn nýrra upplýsinga er skylt að veita þær. Gerð er krafa um skriflegt form slíkra fyrirspurna frá félaginu. Ef engin fyrirspurn berst og vátryggingin er endurnýjuð telst hið nýja tímabil og fyrri tímabil vera eitt samfellt vátryggingartímabil. Gilda þá sömu skilmálar og sömu kjör og áður nema félagið hafi fengið þeim breytt með réttum hætti.
    Efni 4. mgr. er hið sama og hluta 3. mgr. 18. gr. en ekki er þörf fyrir svo ítarlegar reglur um ábendingarskyldu um varúðarreglur hér eins og í 18. gr. Vakin er athygli á því að í þessari málsgrein er ekki gerð krafa um að félagið sendi nýja skilmála og geri grein fyrir breytingum með tveggja mánaða fyrirvara eins og í 1. mgr., heldur er gert ráð fyrir að þetta sé heimilt um leið og t.d. er krafið um iðgjöld fyrir næsta tímabil.
    Í 5. mgr. er áréttað að ekki sé heimilt að breyta skilmálum slysa- og sjúkratryggingar á vátryggingartímabilinu. Er það sama regla og gildir um skaðatryggingar, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Áskilnaður um slíkar breytingar er ógildur.

Um 80. gr.

    Í þessari grein er sérregla um einstaklingsbundnar líftryggingar. Mælt er fyrir um rétt vátryggingartaka, eftir að endurkaupsverð vátryggingarinnar hefur verið greitt honum eða kröfuhafa, til þess að halda vátryggingunni áfram sem áhættutryggingu. Vátryggingin yrði ekki með sömu fjárhæðum og áður, því draga yrði frá endurkaupsverðið. Hér er um mikilsverðan rétt fyrir vátryggingartaka að ræða sem þó stofnast ekki honum til handa nema hann óski sérstaklega eftir því. Þess vegna er í 2. mgr. lögð sú skylda á félagið að það tilkynni honum í síðasta lagi við greiðslu endurkaupsverðsins um rétt hans til að halda vátryggingunni áfram. Hagsmunir vátryggingartaka felast ekki síst í því að hann getur haldið vátryggingunni áfram í breyttu formi án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar. Heilsu hans kann að hafa hrakað svo að hann fengi alls ekki aðra líftryggingu eða aðeins á allt öðrum kjörum. Vátryggingartaki verður að setja fram slíka kröfu minnst sex mánuðum eftir að tilkynning félagsins skv. 2. mgr. var send. Ef vátryggingartaki ákveður að nota rétt sinn og framlengja vátrygginguna er ljóst að versnandi heilsa hans er á áhættu félagsins. Ef vátryggingaratburður hefur á hinn bóginn orðið eftir að endurkaupsverðið er greitt út, en áður en vátryggingartaki tilkynnir félaginu að hann hyggist nýta rétt sinn til að halda vátryggingunni áfram sem áhættutryggingu, yrði að líta svo á að hann ætti ekki rétt til vátryggingarfjárins. Önnur staða mundi setja félagið í óþolandi stöðu og e.t.v. umbuna vátryggingartakanum fyrir að hafa ekki tekið ákvörðun.

Um 81. gr.

    Efni greinarinnar varðar bráðabirgðavernd í líftryggingum. Slíka bráðabirgðavernd ber félaginu að bjóða þegar það hefur gert þann fyrirvara að ábyrgð þess hefjist ekki fyrr en fyrsta iðgjald er greitt.
    Samkvæmt 1. mgr. ber vátryggingafélagi sem hefur áskilið sér að ábyrgð þess hefjist ekki fyrr en fyrsta iðgjald er greitt að bjóða vátryggingartakanum bráðabirgðavernd. Sú vernd tæki að lágmarki til andláts vegna slysa eða skyndilegra sjúkdóma sem ekki tengjast heilsufari hans þegar bráðabirgðaverndin öðlast gildi. Það er vátryggingartakans að segja til um hvort hann samþykkir boð félagsins um bráðabirgðavernd.
    Í 2. mgr. eru nánari reglur um það hvenær bráðabirgðaverndin stofnast og hvenær henni lýkur. Meginreglan er að slík vernd hefjist þegar iðgjald vegna hennar er greitt. Bráðabirgðaverndin getur eðli máls samkvæmt ekki staðið um langa tíð. Gildistíma hennar eru sett ýmis mörk í málsgreininni. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að hún falli niður ef fullnægjandi umsókn um tiltekna vátryggingu er ekki send félaginu í síðasta lagi einum mánuði eftir að hún öðlast gildi. Þessi frestur verður að teljast nægur fyrir vátryggingartaka til þess að afla þeirra upplýsinga sem þarf til þess að skila fullbúinni umsókn um ákveðna vátryggingu. Ef hann sendir fullnægjandi umsókn innan frestsins gildir bráðabirgðaverndin áfram á meðan umsóknin er til meðferðar hjá félaginu. Í öðru lagi er kveðið á um að ef fullnægjandi umsókn sé send falli bráðabirgðaverndin niður þegar slík umsókn er endanlega afgreidd af félaginu, samþykkt eða henni hafnað, þó í síðasta lagi einum mánuði eftir að vátryggingartaki hefur fengið tilkynningu um greiðslu iðgjalds fyrir þá vátryggingu sem sótt er um. Eins og fyrr hefur verið getið er slík tilkynning ákvöð og hún bindur vátryggingartakann þegar hún er komin til hans. Við skýringu á því hvenær telja má hana komna til hans verður að styðjast við almennar reglur. Í þriðja lagi fellur bráðabirgðaverndin niður ef félagið hefur sent tilboð um vátryggingu með öðrum skilmálum og frestur sem það hefur veitt vátryggingartaka til þess að taka afstöðu til þess tilboðs er liðinn. Ekki er tilgreindur ákveðinn samþykkisfrestur, en hann verður að vera hæfilegur miðað við aðstæður. Mundi unnt að styðjast við skýringu á 3. gr. laga nr. 7/1936, með síðari breytingum.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að bráðabirgðaverndin skuli vera hin sama og vernd þeirrar vátryggingar sem sótt er um. Þótt eðlilegt sé að miða við þetta sem meginreglu er nauðsynlegt að hafa þann fyrirvara að félagið geti gert áskilnað um lægri fjárhæðir en í skilmálum þeirrar líftryggingar sem sótt er um. Félagið mundi að líkindum alltaf gera slíkan áskilnað þegar sótt hefur verið um líftryggingar með verulega háum fjárhæðum, eða sem eru óvenjulegar að einhverju leyti. Hafa ber í huga að ef félögin ganga lengra en eðlilegt má teljast í slíkum áskilnaði getur Fjármálaeftirlitið gripið í taumana í krafti eftirlitshlutverks síns.
    Í 4. mgr. er ákvæði sem ætlað er að vernda vátryggingartaka þegar félagið af einhverjum ástæðum býður honum ekki bráðabirgðavernd í síðasta lagi þegar það móttekur umsókn hans um ákveðna vátryggingu. Slíkt mundi einkum koma til vegna gleymsku eða annarra mistaka af hálfu félagsins. Vátryggingartakinn nýtur þá bráðabirgðaverndar eins og hún hefði verið réttilega boðin af félaginu og samþykkt af honum.

Um XIII. kafla.

Almenn atriði.
    Í þessum kafla eru ákvæði um almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins í persónutryggingum en sambærileg ákvæði um skaðatryggingar eru í IV. kafla frumvarpsins. Í kaflanum er leitast við að halda með almennum hætti sömu stefnu og fjallað er um í almennum athugasemdum sem fylgja IV. kafla. Margt er þó ólíkt með ákvæðum þessa kafla og IV. kafla og helgast það einkum af þeim eðlismun sem er á persónutryggingum og skaðatryggingum. Er því nauðsynlegt að gera í stuttu máli grein fyrir efni XIII. kafla í almennum inngangi sem hér fer á eftir.
    Það gildir um persónutryggingar eins og skaðatryggingar að til grundvallar vátryggingastarfsemi í þessum vátryggingagreinum liggja mörg meginsjónarmið vátryggingaréttar. Þessi meginsjónarmið ráða mati félagsins á því hvort það eigi að veita vátryggingarvernd gegn áhættunni og hvaða iðgjald það á að áskilja sér og hvaða skilmálar eiga að gilda um vátrygginguna. Frá þessum sjónarmiðum verður ekki vikið í starfsemi vátryggingafélaga. Eitt af einkennum vátryggingarsamninga, miðað við aðrar samningstegundir, er að grundvöllur mats félagsins á því hvort það eigi að veita vátryggingu, þ.e. gera samning, eru aðstæður og atvik sem vátryggingartaki eða hinn vátryggði þekkja oftast mun betur til en félagið og geta haft áhrif á með háttsemi sinni. Þetta á við í enn ríkara mæli í persónutryggingum en skaðatryggingum, því andlag samningsins í fyrrnefndum vátryggingum er líf og heilsa hins vátryggða sjálfs. Upplýsingar vátryggingartaka um sig eða hinn vátryggða hljóta því að hafa mikla þýðingu í persónutryggingum og tilhneiging vátryggingafélaga til að hafa áhrif á háttsemi vátryggðs, t.d. með því að setja vátryggingarverndinni mörk er lúta að athöfnum hans og hvar hann heldur sig, er skiljanleg. Iðgjöld í persónutryggingum taka mið af einsleitum hópi einstaklinga. Þannig eru iðgjöld í líftryggingum ákvörðuð með hliðsjón af dánarlíkum Íslendinga almennt. Kyn og aldur hafa líka áhrif á iðgjaldsákvörðun. Meðalævi kvenna hér á landi er lengri en karla. Dánarlíkur þeirra eru því aðrar og þær greiða að sama skapi lægri iðgöld en karlar, svo dæmi sé tekið. Liður í áhættumati vátryggingafélags við gerð samnings um persónutryggingar er að afla upplýsinga um heilsufar þess sem vátryggja á og kanna hvort vátrygging skuli veitt samkvæmt almennum skilmálum og venjulegu iðgjaldi. Leiði athugun í ljós að slíkt er ekki unnt kallar það á sérstaka afgreiðslu hjá félaginu, en tiltölulega sjaldgæft mun vera að beiðni um vátryggingu sé skýlaust hafnað. Við töku persónutrygginga þarf því iðulega að ganga frá formlegri vátryggingarbeiðni þar sem lagt er fyrir vátryggðan að veita upplýsingar er snúa að persónulegum högum hans, m.a. að heilsufari. Ef sérstakar ástæður þykja til er ráðgjafarlæknum vátryggingafélagsins falið að kanna málið frekar, t.d. skoða einstaklinginn eða afla frekari gagna. Afgreiðsla félagsins getur svo orðið með ýmsum hætti, eftir eðli máls og ráðgjöf lækna. Þannig getur beiðnin eftir nánari skoðun verið samþykkt athugasemdalaust. Beiðni getur einnig verið samþykkt með skilyrðum, t.d. að ákveðinn sjúkdómur sé undanskilinn tímabundið eða varanlega, en ekki aðrir sjúkdómar, biðtími bóta vegna tiltekins sjúkdóms kann að verða lengdur eða bótatími á annan hátt styttur, og iðgjald hækkað tímabundið eða til frambúðar. Þá getur beiðni verið hafnað á grundvelli framkominna upplýsinga eða hafnað með skilyrðum, t.d. enn frekari læknisskoðunar krafist. Öryrkjar eftir slys, sem óska slysatryggingar, eru einnig skoðaðir og metnir sérstaklega. Ef unnt er, t.d. ef ætla má að afleiðingar slyss séu að fullu komnar fram, ástand sé orðið stöðugt og veruleg starfsorka sé fyrir hendi, er beiðni almennt samþykkt, ýmist að fullu eða með takmörkunum. Þannig mun almennt leitast við að koma til móts við þarfir einstaklinga, einnig þeirra sem átt hafa við afleiðingar slysa og sjúkdóma að stríða, og afgreiðslur eru byggðar á efnislegum forsendum, fyrst og fremst læknisfræðilegum.
    Í þessum kafla frumvarpsins eru tillögur að reglum um upplýsingaskyldu vátryggingartaka og mörk hennar og hvort og þá í hvaða mæli félagið getur losnað undan ábyrgð vegna þess að forsendur vátryggingarsamningsins bresta. Um þetta eru ekki heildstæðar reglur í VSL, en eins og rakið er í athugasemdum með IV. kafla eru ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingartaka og hverju það varði ef hann sinnir ekki skyldum sínum í því efni. Þau ákvæði gilda einnig um persónutryggingar. Ákvæði 18.–20. gr. VSL um ásetnings- eða vangártilvik er valda því að vátryggingaratburður verður gilda einnig um báðar megintegundir vátrygginga. Ýmis ákvæði sem eiga eingöngu við um skaðatryggingar eru rakin í athugasemdum með IV. kafla. Hér er rétt að minna á nokkur sérákvæði í VSL um forsendur samninga um persónutryggingar, sbr. 99. gr. VSL um áhættuaukningu og skyldu til að skilgreina hana í vátryggingarskírteini, 100. gr. VSL um sjálfsvíg, 121. gr. VSL um áhættuaukningu í slysatryggingum og 124. gr. VSL um varúðarráðstafanir.
    Eitt af því sem skilur á milli skaðatrygginga og persónutrygginga er að í þeim fyrrnefndu er það meginregla að hver sá sem á vátryggða hagsmuni samkvæmt vátryggingarsamningi (og þeir geta verið margir, t.d. eigandi vátryggðs hlutar, veðhafar í honum o.fl.) á aðeins að bera sjálfur halla af því að hann veldur vátryggingaratburði. Það hefur alla jafna ekki áhrif á rétt annarra vátryggðra til bóta samkvæmt vátryggingarsamningi. Samsömun leiðir sjaldan til réttindamissis í skaðatryggingum. Vanræksla á upplýsingaskyldu er undantekning frá þessari meginreglu í skaðatryggingum. Í persónutryggingum horfir þetta öðruvísi við. Þar er meginreglan sú að vátryggður og aðrir sem t.d. hafa fengið veð í réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi eða fengið þau framseld glati rétti sínum í slíkum tilvikum. Á þetta bæði við þegar upplýsingaskylda er vanrækt og í tilvikum þegar vátryggður veldur vátryggingaratburði eða fer út fyrir hlutlægar ábyrgðartakmarkanir, virðir ekki varúðarreglur o.fl. Þessi meginregla byggist á því að í persónutryggingum eru það ekki fjárhagslegir hagsmunir þriðja manns sem eru vátryggðir, heldur líf og heilsa vátryggðs. Ef hann öðlast ekki rétt samkvæmt vátryggingarsamningi gildir hið sama um þá sem leiða meintan rétt sinn frá honum. Þessi munur á skaðatryggingum og persónutryggingum, sem glögglega kemur fram í VSL, veldur því að reglur um almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins eru frábrugðnar eftir þessum megintegundum vátrygginga. Þessari réttarstöðu er breytt nokkuð í þeim reglum sem gerð er tillaga um í IV. kafla frumvarpsins, en enn meira í þeim reglum sem gerð er tillaga um í þessum kafla. Það er stefna frumvarpsins að draga einnig úr hlutlægum ábyrgðartakmörkunum í persónutryggingum og gera réttaráhrif þess að vátryggður veldur eða á þátt í að valda vátryggingaratburði sveigjanlegri þannig að þau verði ekki alltaf á þá leið að allur réttur til bóta glatist.
    Taka ber þó fram að í persónutryggingum hafa álitamál tengd því sem nefnt er hlutlægar ábyrgðartakmarkanir ekki verið eins áberandi og í skaðatryggingum, en þó hafa komið til dómstóla tilvik þar sem reynt hefur á gildi hlutlægra ábyrgðartakmarkana í persónutryggingum, sbr. Hrd. frá 1. mars 2001 í máli nr. 397/2000.
    Það er einkum á þremur sviðum í persónutryggingum sem forsendubrestur félagsins eða rangar forsendur þess skapa lögfræðileg álitamál, en þau eru: Í fyrsta lagi þegar vátryggingartaki vanrækir upplýsingaskyldu. Í öðru lagi valda sjálfsvíg í líftryggingum ýmsum vafa. Í þriðja lagi rísa álitamál um ábyrgðartakmarkanir sem tengjast háttsemi vátryggðs í slysatryggingum. Í greinum kaflans er leitast við að setja fram tillögur að reglum sem ætlað er að fækka svo sem kostur er þeim álitaefnum sem verið hafa í réttarframkvæmd á þessu sviði. Hafa verður þó hugfast það sem áður greinir að tillögur eru gerðar um sveigjanlegri réttaráhrif þess þegar vátryggður veldur því að forsendur félagsins bresta eða reynast rangar. Er stundum lagt til að það verði háð sanngirnismati í hvaða mæli slíkt eigi að leiða til þess að ábyrgð félagsins falli niður, en ekki hlutlægum reglum. Stundum kunna slíkar matskenndar reglur að valda vafa, a.m.k. þar til dómstólar eða aðrir úrlausnaraðilar hafa fjallað um þær. Verður að una við slíka óvissu til að ná framangreindum markmiðum sem eiga að koma vátryggðum til góða.

Meginefni reglna XIII. kafla.
Upplýsingaskylda.
    
Í 82.–85. gr. eru reglur um upplýsingaskyldu vátryggingartaka, um takmarkanir á upplýsingagjöf hans og um takmarkanir á heimildum félagsins til að afla og hagnýta sér upplýsingar sem það kann að eiga aðgang að eða búa yfir. Einnig er fjallað um vanrækslu á upplýsingaskyldu og heimildir félagsins til viðbragða af því tilefni.
    Eins og áður greinir hlýtur upplýsingagjöf vátryggingartaka að hafa mikla þýðingu í persónutryggingum. Það er vátryggingartakinn, eða hinn vátryggði, sem að jafnaði býr yfir þeim upplýsingum sem félagið þarf á að halda. Oft er það þó svo að félagið gerir kröfu um upplýsingar beint frá læknum áður en tekin er afstaða til þess hvort veita á vátryggingu eða ekki. Í VSL er reglum um upplýsingaskyldu skipað svo að vátryggingartaki á að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf um atriði sem hann veit að skipta máli fyrir félagið, sbr. t.d. 7. gr. laganna. Í framkvæmdinni hefur þetta þó verið á þann veg að félögin hafa lagt fyrir vátryggingartaka eyðublöð með spurningum um þau atriði sem máli skipta fyrir þau. Vátryggingartakinn hefur mátt líta svo á að þar sé spurt um þau atriði sem þýðingu hafi og skylda hans standi til þess að gera réttilega grein fyrir þeim. Í frumvarpinu er lagt til að sú meginregla gildi að vátryggingartaki þurfi ekki að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, heldur þurfi aðeins að svara því sem hann er spurður um. Er það eins og fyrr greinir í samræmi við framkvæmdina og ætti ekki að leiða til mikilla breytinga. Frá þessu er gerð tillaga um undantekningu þegar tilteknum skilyrðum er fullnægt, en þeim verður lýst síðar.
    Annað atriði sem lagt er til að verði breytt er matið á því hvenær félagið getur brugðist við rangri upplýsingagjöf. Í sumum tilvikum nægir almennt gáleysi vátryggingartaka samkvæmt VSL, sbr. 1. mgr. 6. gr., til þess að félagið geti losnað úr ábyrgð í heild eða að hluta. Í 2. mgr. 83. gr. er lagt til að ábyrgð félagsins geti aðeins fallið niður í heild eða að hluta ef vátryggingartaki eða vátryggður hefur vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki teljist óverulegt.
    Þriðja atriðið sem taka þarf til athugunar er hvaða úrræði félagið hefur þegar upplýsingaskylda er vanrækt. Í 6. og 7. gr. VSL eru gildandi reglur um þetta. Í frumvarpinu er lagt til að reglur um þetta verði sveigjanlegri en nú er, þ.e. það verði metið í hverju tilviki fyrir sig hvort og í hvaða mæli ábyrgð félagsins eigi að falla niður þegar upplýsingaskylda er vanrækt. Er því lýst í 3. mgr. 83. gr. til hvaða þátta beri einkum að líta við það mat.
    Fjórða atriðið sem taka þarf til athugunar og mjög hefur borið á í skilmálum íslenskra vátryggingafélaga, einkum í slysatryggingum, er takmarkanir á ábyrgð þeirra vegna áhættuaukningar sem fylgir athöfnum vátryggðs eða því að hann viðhefur ekki varúðarráðstafanir. Um þetta eru ákvæði í 99. og 124. gr. VSL. Hinar hlutlægu ábyrgðartakmarkanir í slysatryggingum hafa gjarna lotið að því að ábyrgð félagsins falli alveg niður ef vátryggður viðhefur tiltekna háttsemi, t.d. ef hann slasast á meðan hann er í íþróttakeppni, stundar svifdrekaflug, glímu, hnefaleika, svifflug eða fallhlífarstökk, tekur þátt í fjallaklifri, bjargsigi eða froskköfun. Tillögur frumvarpsins lúta að því að ábyrgð félagsins í slíkum tilvikum ráðist ekki ef hlutlægum takmörkunum, heldur verði að vera orsakasamband milli áhættuaukningarinnar og vátryggingaratburðar. Í þessu felst að þótt vátryggður þreyti glímu og slasist við það mundi ábyrgðartakmörkun félagsins ekki ná fram að ganga nema orsakasamband væri milli þeirrar áhættuaukningar sem ætla má að leiði af því að þreyta glímu og slyss á vátryggingartaka. Sem dæmi má taka að ábyrgðartakmörkun ætti við ef vátryggður lærbrotnaði er mótherji hans felldi hann harkalega með sniðglímu á lofti, en ekki ef hann lærbrotnaði við að detta um stól á leið frá búningsklefa til keppni.

Vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður. Sjálfsvíg.
    
Svo sem fyrr greinir er sú stefna tekin með frumvarpi þessu að afleiðingar þess að vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður verði sveigjanlegri en er samkvæmt núgildandi lögum og réttarframkvæmd.
    Annað atriði þessu skylt eru tilvik þar sem vátryggður veldur vátryggingaratburði þegar hann er undir áhrifum áfengis. Í 20. gr. VSL er félaginu heimilt að áskilja sér að vera laust undan ábyrgð ef vátryggður veldur vátryggingaratburði í ölæði sem hann á sjálfur sök á. Skilyrðið um ölæði hefur verið skýrt svo að vátryggingartaki þurfi að vera talsvert ölvaður, sbr. síðastgreindan dóm Hæstaréttar Íslands og skýringar við 27. gr. frumvarps þessa. Sé skilyrðinu fullnægt leysist félagið úr ábyrgð. Í frumvarpi þessu er gerð tillaga um að það verði metið sérstaklega hvort vátryggingaratburði er valdið af stórfelldu gáleysi eða ekki, einnig þegar vátryggður er ölvaður, sbr. 90. gr. Er þetta gert vegna þess að hugsanlegt er að ekki sé mikið við vátryggðan að sakast þótt hann sé ölvaður og valdi vátryggingaratburði. Það eigi a.m.k. að meta það með hliðsjón af atvikum hvort það eigi að leiða til þess að réttur hans til vátryggingabóta falli niður með öllu.
    Þá er lagt til að frestur sá sem er í 100. gr. VSL um sjálfsvíg, þ.e. að réttur til líftryggingarbóta falli niður ef vátryggður fremur sjálfsvíg innan tveggja ára, verði styttur í eitt ár. Ástæðan er sú að það er almennt talið útilokað að maður hafi slíkan fyrirvara á sjálfsvígi sem nú er gert ráð fyrir og sýni jafnframt þá varfærni að kaupa líftryggingu. Sjálfsvíg er nánast alltaf skyndiákvörðun sem tekin er í andlegu sjúkdómsástandi, hugarvíli eða þegar fólk er miður sín vegna undanfarandi áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Ársfrestur er í raun mjög langur frestur í þessu sambandi. Er því einnig lagt til að haldið verði þeirri viðbótarreglu sem er í VSL að félagið geti ekki borið fyrir sig að sjálfsvíg eigi að leiða til brottfalls greiðsluskyldu þess ef sannað er að vátryggingin var tekin án þess að sjálfsvíg hafi verið haft í huga, sbr. 2. mgr. 89. gr.
    Þá eru í þessum kafla reglur um varúðarráðstafanir og tilkynningarskyldu um tjón og um það ef félagið ætlar að bera fyrir sig takmarkanir á ábyrgð. Verður gerð grein fyrir þessum reglum í skýringum með hverri grein.

Um 82. gr.

    Í greininni eru reglur um skyldu vátryggingartaka og vátryggðs til þess að veita upplýsingar um áhættu og um takmarkanir á heimildum félagsins til upplýsingaöflunar og til að hagnýta sér upplýsingar sem það getur fengið eða hefur fengið aðgang að. Þá er ákvæði um skyldu vátryggingafélaga í persónutryggingum til þess að rökstyðja synjun um vátryggingarbeiðni.
    Í 1. mgr. eru sem fyrr segir reglur um upplýsingaskyldu vátryggingartaka og vátryggðs. Er ekki gerður greinarmunur á skyldum þeirra. Í 5. gr. VSL eru ákvæði sem svipar til þeirra sem hér er gerð tillaga um.
    Í 1. mgr. er tillaga að reglu sem afmarkar þann tíma sem segja má að upplýsingaskylda vátryggingartaka/vátryggðs standi. Er miðað við að félagið geti óskað eftir upplýsingum frá viðkomandi þar til það hefur samþykkt að veita vátryggingu. Í 5. gr. VSL er miðað við svipað tímamark. Félagið getur þannig eftir móttöku beiðni um vátryggingu óskað eftir frekari upplýsingum og skýringum. Eini áskilnaðurinn er að þær hafi þýðingu fyrir mat þess á áhættu. Í framkvæmdinni er þetta á þann veg að vátryggingartaki/vátryggður fyllir út eyðublöð þar sem spurt er um atriði sem þýðingu hafa. Sé öllum spurningum svarað gæti félagið þó talið ástæðu til að óska viðbótarupplýsinga um heilsufar þeirra, óska eftir læknisrannsókn eða fela eigin lækni á grundvelli umboðs að afla nánari upplýsinga frá lækni sem vátryggingartaki/vátryggður kann að vísa til. Ákvæðið gerir ráð fyrir að fyrir liggi samþykki vátryggingartaka/vátryggðs sé upplýsinga aflað hjá öðrum en honum beint. Af reglunni leiðir að þegar beiðni hefur verið samþykkt geti félagið ekki krafist frekari upplýsinga.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir þeirri meginreglu að vátryggingartaki/vátryggður þurfi ekki að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, heldur standi skylda hans til að svara réttilega og tæmandi þeim spurningum félagsins sem til hans er beint. Það verður að vera undirskilið að spurningar félagsins séu skýrar og lúti að tilteknum atriðum sem þýðingu hafa fyrir vátrygginguna. Séu þær óljósar og auðvelt að misskilja þær verður vátryggingartaka/vátryggðum ekki kennt um að þeim hafi ekki verið svarað réttilega.
    Í lokamálslið 1. mgr. er undantekning frá framangreindri meginreglu. Samkvæmt henni er vátryggingartaka/vátryggðum skylt að hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar við viss skilyrði. Til þess að frumkvæðisskylda hans komi til þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. að upplýsingarnar lúti að sérstökum atriðum, að þær hafi verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættunni og að honum hafi verið ljós þessi sérstöku atriði og vitað um þýðingu upplýsinganna fyrir félagið. Félagið hefur sönnunarbyrði fyrir því að þessum skilyrðum sé fullnægt.
    Í 2. mgr. er nýmæli sem ekki á sér fyrirmynd í gildandi lögum. Tilefni þess að gerð er tillaga um slíka reglu eru miklar framfarir í læknavísindum, þ.e. einkum í þekkingu á áhrifum arfgengra þátta í orsökum sjúkdóma. Tilefnið er ekki misnotkun slíkra upplýsinga, heldur sú staða að hægt sé að spá fyrir um það með erfðafræðilegum rannsóknum, að ekki sé talað um rannsóknir á lífsýnum úr fólki, hvernig því muni farnast heilsufarslega í framtíðinni. Um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar sem gæta verður fyllstu varfærni um. Minna má einnig á tilmæli Norðurlandaráðs nr. 9/1991 til ríkisstjórna Norðurlandanna um samráð eða að efla samráð um samræmda löggjöf, m.a. í því skyni að vernda einstaklinga og friðhelgi þeirra vegna erfðafræðilegra rannsókna sem gerðar kunna að hafa verið.
    Telja verður að játa beri einstaklingum nokkurn rétt til vátryggingarverndar í persónutryggingum og að leggja verði að sama skapi skyldur á vátryggingafélög um að ekki sé aflað upplýsinga eða hagnýttar fyrirliggjandi upplýsingar um erfðafræðilega þætti þess sem óskar eftir vátryggingu og með því spáð fyrir um hvernig heilsufar hans þróist í framtíðinni. Ef ekki eru settar þær takmarkanir sem hér er gert ráð fyrir kann sú hætta að vera fyrir hendi að hópur einstaklinga, sem ekki hafa sjúkdómseinkenni svo vitað sé eða sem þeim er kunnugt um, en hafa arfgenga þætti sem valda því að líklegt er, eða jafnvel víst, að þeir fái tiltekna sjúkdóma í framtíðinni, fái ekki vátryggingarvernd.
    Slíkar takmarkanir á heimildum félaga til upplýsingaöflunar hafa verið settar í ýmsum löndum Vestur-Evrópu, en þær eru mismunandi bæði að því leyti hvernig þær hafa verið ákveðnar og einnig að efni til. Í Bretlandi og í Svíþjóð byggjast þær ekki á skráðum lagaákvæðum heldur á samþykktum samtaka vátryggjenda í Bretlandi en á samningi samtaka vátryggjenda við stjórnvöld í Svíþjóð. Algert bann er við því í Svíþjóð að vátryggðum verði gert skylt að undirgangast erfðafræðilega rannsókn. Í Noregi er samkvæmt gr. 6–7 í lögum nr. 56/1994, um læknisfræðileg afnot af líftækni, almennt bann við því að einstaklingar eða lögaðilar hagnýti sér erfðafræðilegar upplýsingar. Þetta bann gildir, samkvæmt skýringum í lögskýringargögnum, einnig við töku vátrygginga. Í Noregi er ekki bannað að spyrjast fyrir um heilsufarssögu fjölskyldumeðlima, en eins og kunnugt er má af henni draga ályktanir um arfgenga sjúkdóma. Í Danmörku var lögum um vátryggingarsamninga breytt á árinu 1997, þ.e. með lögum nr. 413/1997, og bætt við gr. 3a, sem felur í sér ákveðnar takmarkanir á því að félögin geti aflað upplýsinga um erfðafræðileg atriði.
    Við mat á því hvernig draga beri þau mörk sem takmarka heimildir vátryggingafélaga til upplýsingaöflunar um erfðafræðileg atriði varð niðurstaðan sú að byggja á gr. 3a í dönsku lögunum um vátryggingarsamninga sem bætt var inn í lögin árið 1997. Ástæðan er ekki síst að sú lagagrein er beinlínis samin til þess að vera hluti af löggjöf um vátryggingarsamninga, andstætt því sem er í Noregi þar sem beitt er almennu lagaákvæði um bann við hagnýtingu erfðafræðilegra upplýsinga. Lagaákvæðið er einnig sett fyrir örfáum árum og hefur því við samningu þess verið tekið mið af nýjum viðhorfum á þessu sviði. Ákvæðið er að efni til einfalt, en þó hefur orðalag þess verið gagnrýnt fyrir að geta leitt til túlkunarvafa. Hefur verið leitast við að ráða bót á því í útfærslu frumvarps þessa. Segja má að efni 2. mgr. byggist á tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar að bannað sé að afla eða hagnýta sér með nokkrum hætti erfðafræðilegar upplýsingar eða óska eftir rannsóknum sem leitt geta slíkar upplýsingar í ljós, til þess að finna út hvort vátryggður sé líklegur til þess að fá eða þróa með sér sjúkdóma í framtíðinni. Hins vegar að því séu ekki sett sérstök takmörk hvaða upplýsinga má afla um fyrra heilsufar hans eða heilsufar hans þegar hann óskar eftir persónutryggingu.
    Í fyrra efnisatriðinu felst að bannað er að afla eða hagnýta sér með einhverjum hætti upplýsingar um arfgenga þætti skyldmenna þess sem óskar vátryggingar til þess að leggja mat á hvort hann sé líklegur til þess að þróa með sér eða fá sjúkdóma í framtíðinni. Slík túlkun er mikilvæg, enda er hægt að fara nærri um að draga ályktanir um heilsufar þess sem óskar vátryggingar með því að rannsaka arfgenga þætti skyldmenna hans nægilega vel. Af síðara efnisatriðinu leiðir á hinn bóginn að afla má upplýsinga um heilsufar skyldmenna til þess að meta tilefni til þess að rannsaka fyrra eða núverandi heilsufar þess sem óskar vátryggingar.
    Ljóst er að munur á þessu tvennu er ekki glöggur. Við rannsókn á núverandi heilsufari og heilsufarsupplýsingum um náin skyldmenni, t.d. kynforeldri, er ekki ólíklegt að í ljós komi að sá sem óskar vátryggingar hafi slíka arfgerð að verulegar líkur séu til þess að hann muni þróa með sér banvænan sjúkdóm í náinni framtíð, þótt hann hafi engin einkenni hans þegar hann óskar eftir vátryggingu. Við slíkar aðstæður mætti félagið ekki neita vátryggingu.
    Eini kosturinn til þess að knýja fram hvaða ástæður eru fyrir hugsanlegri synjun félagsins er að gefa þeim sem vátryggingar óskar kost á því að krefjast rökstuðnings fyrir synjuninni. Það er gert með þeirri reglu sem tillaga er gerð um í 3. mgr. Ef maður unir ekki rökstuðningi félagsins eða telur hann ekki réttan getur hann skotið máli sínu til úrskurðarnefndar og/eða dómstóla.
    Regla þessi gerir í raun ráð fyrir að vátryggingafélögum sem bjóða persónutryggingar sé að öðru jöfnu skylt að veita vátryggingar nema málefnalegar ástæður mæli því í mót. Kveðið er á um það að vátryggingafélagi sem synjar um persónutryggingu sé skylt, verði eftir því leitað, að rökstyðja synjunina. Fullnægi sá sem óskar vátryggingar almennum skilyrðum félagsins og reglna frumvarpsins um heilsufarsástand á hann að öðru jöfnu rétt á því að fá að njóta vátryggingarverndar sem hann óskar eftir. Hér er höfð hliðsjón af sömu reglu og gildir í íslenskum stjórnsýslurétti, sbr. V. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þ.e. að skylda félögin ekki fyrir fram til að rökstyðja synjun, heldur einungis ef fram kemur krafa um það. Er þá eðlilegt að gengið sé út frá því að félögin veki athygli á rétti til rökstuðnings þegar beiðni er synjað. Ekki eru undantekningar frá skyldunni til rökstuðnings. Ekki er getið hvers efnis rökstuðningur á að vera en gengið er út frá sömu sjónarmiðum og lýst er í 22. gr. stjórnsýslulaga. Það er þýðingarmikið fyrir þann sem óskar eftir vátryggingu að eiga kost á rökstuðningi, því þá getur hann metið hvort rétt sé fyrir hann að leita eftir úrlausn úrskurðarnefndar eða eftir atvikum dómstóla um réttmæti synjunarinnar.

Um 83. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um áhrif þess á ábyrgð félagsins þegar upplýsingaskylda vátryggingartaka/vátryggðs er vanrækt. Sambærilegt ákvæði um skaðatryggingar er í 20. gr.
    Reglur greinarinnar eru tvíþættar, þ.e. annars vegar tilvik þar sem vátryggingartaki eða vátryggður hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi og hins vegar tilvik þar sem upplýsingaskyldan er vanrækt með öðrum hætti.
    Ákvæði 1. mgr. um réttaráhrif þess að upplýsingaskylda er sviksamlega vanrækt er sama efnis og 1. mgr. 20. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þá málsgrein. Rétt er þó að taka fram að skylda félagsins fellur alveg niður í persónutryggingum, en ekki aðeins gagnvart vátryggðum eins og orðalag 1. mgr. 20. gr. kveður á um. Er þetta vegna þess að skaðatryggingar og persónutryggingar eru eðlisólíkar svo sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum með þessum kafla.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru samhljóða 2. og 3. mgr. 20. gr., að frátöldum óhjákvæmilegum blæbrigðum, en efnislega er um sömu reglur að ræða sem ekki þarf að skýra hér.

Um 84. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um heimildir félagsins til þess að segja upp vátryggingarsamningi og til þess að krefjast breytinga á honum þegar upplýsingaskylda er vanrækt.
    Samkvæmt 1. mgr. er það skilyrði þess að félagið geti brugðist við með uppsögn að vanræksla vátryggingartaka eða vátryggðs sé ekki óveruleg. Af þessu leiðir að vægari afbrigði almenns gáleysis mundu ekki koma honum í koll. Ef vanræksla hans telst ekki óveruleg getur félagið sagt upp vátryggingunni á vátryggingartímanum með 14 daga fyrirvara. Vísað er til 3. mgr. 76. gr. en þar er félaginu gert að grípa til aðgerða án ástæðulauss dráttar og skylt að hafa uppsögn í tilteknu formi og tiltekins efnis, sbr. og 3. mgr. þessarar greinar. Skv. 3. málsl. hennar getur félagið slitið vátryggingarsamningnum (rift) og einnig öðrum samningum fyrirvaralaust ef vátryggingartaki hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Er þetta sama regla og í niðurlagi 21. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringa hér.
    Í 2. mgr. eru reglur sem ætlað er að vernda vátryggingartaka/vátryggðan í þeim tilvikum þegar félagið getur brugðist við vanrækslu hans á upplýsingaskyldu. Hann á þess kost að viðhalda vátryggingunni en með öðrum kjörum, en þennan rétt á hann þó ekki ef svikum hefur verið beitt. Félaginu ber að tilkynna þeim um þennan rétt skv. 3. mgr. Þetta er svipuð regla og er í 2. mgr. 6. gr. VSL sem þó mælir fyrst og fremst fyrir um réttarstöðu vátryggingartaka/vátryggðs eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Ákvæði 2. málsl. miðast við að vátryggingartaki/vátryggður hafi tilkynnt félaginu að hann krefjist þess að vátryggingunni verði viðhaldið á breyttum kjörum. Ekki er settur ákveðinn frestur um það hvenær aðilum ber að ljúka nýrri samningsgerð. Það getur dregist af ýmsum ástæðum, ekki aðeins vegna öflunar nýrra upplýsinga. Til þess að mál séu ekki í uppnámi um ófyrirséðan tíma er kveðið á um það að upphafleg vátrygging með þeim takmörkunum sem leiðir af 2. og 3. mgr. 83. gr. gildi í þrjá mánuði frá uppsögn. Ef þá hefur ekki verið lokið við að semja um nýja skilmála nýtur vátryggingartaki ekki verndar lengur. Hann verður þá að gera aðrar ráðstafanir eða bera hugsanlegan ágreining undir úrskurðarnefnd.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldur félagsins til að tilkynna vátryggingartaka/vátryggðum um rétt hans skv. 2. mgr. og um rétt þess til að afla nýrra upplýsinga sem því er þörf á. Þess skal getið að þótt verið sé að afla nýrra upplýsinga þýðir það ekki að um nýja vátryggingu sé að ræða heldur framhald hinnar fyrri með breyttum skilmálum. Vátryggingartaki/vátryggður hefur við ýmsar aðstæður hagsmuni af því að litið sé á réttarsambandið sem eina vátryggingu. Hún er líka í gildi, eftir atvikum með takmörkunum, á meðan upplýsinganna er aflað.

Um 85. gr.

    Í þessari grein eru reglur um þær takmarkanir sem eru á heimildum félagsins til þess að bera fyrir sig upplýsingaskort. Koma þær til fyllingar reglum 84. gr.
    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 22. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.
    Í 2. mgr. er sérregla um líftryggingar sem kveður á um að félagið geti aðeins borið fyrir sig vanrækslu á upplýsingaskyldu innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Ástæður þessarar sérreglu um líftryggingar eru þær að þeim er venjulega ætlað að gilda um langan tíma og eðlilegt að ekki sé við þeim hróflað svo löngu eftir að þær eru komnar á. Mestu varðar þó að það mundi veikja viðskiptagildi réttinda samkvæmt líftryggingarsamningi ef kröfuhafar, t.d. veðhafar eða þeir sem fengið hefðu slík réttindi framseld, gætu átt á hættu að vátryggingarsamningi yrði slitið löngu eftir að hann komst á, vegna ástæðna sem voru fyrir hendi við gerð hans. Áréttað skal að þessi regla á þó ekki við ef vanræksla á upplýsingaskyldu var sviksamleg á sínum tíma.

Um 86. gr.

    Í þessari grein eru reglur um heimildir félagsins til þess að takmarka ábyrgð sína vegna heilsufarsástæðna vátryggðs sem voru fyrir hendi þegar vátryggingarsamningur var gerður.
    Í 1. mgr. er félaginu í tveimur tilgreindum tilvikum, sem lýst er í a- og b-lið, heimilað að gera fyrirvara um ábyrgð sína, ef sjúkdómurinn eða meinið var fyrir hendi þegar samningur var gerður. Í a-lið er ákvæði sem heimilar félaginu að gera slíkan fyrirvara, ef hann byggist á upplýsingum, sem það hefur fengið með lögmætum hætti um hinn vátryggða. Í b-lið er ákvæði sem heimilar félaginu að gera slíkan fyrirvara ef það, af öðrum ástæðum en greinir í 3. mgr. 82. gr., er útilokað frá að afla upplýsinga frá vátryggðum. Ýmis atvik kunna að valda því að félaginu er útilokað að afla upplýsinga um heilsufar hins vátryggða. Frumvarpið, eins og VSL, gerir ráð fyrir því að hægt sé að vátryggja líf og heilsu þriðja manns. Ekki er víst að hann fallist á að veita upplýsingar um heilsufar sitt, eða a.m.k. ekki allar upplýsingar sem félagið telur þörf á að afla. Ef félagið gæti ekki gert slíkan fyrirvara mundi það bera áhættuna af því að sjúkdómur eða mein leiddi til þess að vátryggingaratburður yrði. Slík regla leiddi til þess að félögin höfnuðu að veita slíkar vátryggingar. Gerð er undantekning frá þessari reglu um sjúkdóma eða mein sem hinn vátryggði vissi ekki um þegar ábyrgð félagsins hófst. Þessi regla er í samræmi við ýmsar aðrar reglur í frumvarpinu sem eru reistar á því að félagið beri áhættu af sjúkdómi eða meini sem vátryggður gekk með er vátryggingarsamningur var gerður, en honum var ekki kunnugt um.
    Í 2. mgr. er heimild fyrir félagið til þess að gera í skilmálum sínum um sjúkratryggingar fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómum sem koma fram eftir tiltekið tímamark. Sömu heimild hefur félagið í skilmálum líftrygginga þar sem einnig er örorkutrygging. Vátryggingafélögum er nauðsynlegt að hafa þennan möguleika til að sporna gegn hugsanlegri misnotkun í þessum tveimur flokkum vátrygginga. Þess ber þó að geta hér að ákvæði þetta raskar ekki því banni sem félagið er bundið af skv. 2. mgr. 82. gr., um að hagnýta sér ekki með nokkrum hætti erfðafræðilegar upplýsingar til ályktana um þróun heilsufars. Ákvörðun félagsins, sem þessi málsgrein heimilar því að taka, getur því ekki byggst á erfðafræðilegum upplýsingum og ályktunum dregnum af þeim um líkur til þess að vátryggður þrói með sér eða fái sjúkdóm sem hann hefur ekki einkenni um þegar vátrygging er samþykkt.
    Í 3. mgr. eru ákvæði sem takmarka gildi þeirra fyrirvara sem hér um ræðir af hálfu félagsins í tímabundnum vátryggingum, eins og slysa- og sjúkratryggingar eru almennt. Þegar slíkar vátryggingar eru endurnýjaðar eiga slíkir fyrirvarar því aðeins við að sjúkdómurinn eða meinið hafi verið fyrir hendi þegar samningurinn var gerður upphaflega. Félagið getur þannig ekki endurtekið fyrirvarann við endurnýjun vátryggingarinnar.

Um 87. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um rétt félagsins til þess að takmarka eða undanþiggja sig með öllu ábyrgð þegar vátryggður setur sig í tilgreinda hættu. Greinin kemur að miklu leyti í stað 99. gr. og 121. gr. VSL en felur í sér tillögu að verulega breyttri réttarstöðu. Með greininni yrði ákvæðum um hlutlægar ábyrgðartakmarkanir í persónutryggingum sett ákveðin mörk. Greinin hefur fyrst og fremst þýðingu í slysatryggingum. Eins og greinir í almennum athugasemdum með þessum kafla er oft í skilmálum slysatrygginga ákvæði um að félagið sé laust úr ábyrgð ef vátryggður tekur þátt í tilteknum athöfnum, svo sem glímu, fjallaklifri eða svifdrekaflugi. Ekki er gerð tillaga um að vátryggingafélögum verði bannað að undanþiggja sig ábyrgð ef vátryggingaratburður verður við slíkar ástæður en þó er það gert að skilyrði að orsakasamband sé milli háttseminnar (athafnanna eða athafnaleysisins ef því er að skipta) og þess að vátryggingaratburður verður. Undanþága frá ábyrgð, sem eingöngu væri reist á hlutlægum takmörkunum, yrði því ekki lengur gild, ef frumvarpið verður að lögum. Það mundi væntanlega ráðast af orðalagi skilmálanna hvort vátryggður eða félagið hefði sönnunarbyrði fyrir því að um orsakasamband væri að ræða.
    Vakin skal athygli á því að greinin tekur til tilvika þar sem félag gerir fyrirvara um ábyrgð sína vegna tiltekinnar starfsemi eða athafna vátryggðs eða að hann setji sig í tilgreinda hættu. Ábyrgðartakmarkanir sem væru reistar á almennum lýsingum, t.d. að vátryggður setji sig ekki í bráða hættu eða því um líkt féllu ekki hér undir. Gildi slíkra fyrirvara kæmi til athugunar eftir reglum 89. og 90. gr.

Um 88. gr.

    Í þessari grein eru reglur sem einnig varða efni sem að hluta er skipað í 99. og 121. gr. VSL. Þær lúta að áhrifum þess að aðstæður vátryggðs breytast en fyrst og fremst er átt við breytingar á atvinnu hans.
    Í 1. málsl. er mælt fyrir um heimild félagsins til þess að leggja þá kvöð á vátryggðan að hann tilkynni breytingar á aðstæðum sínum, svo sem starfi sínu. Þessa heimild hefur félagið eingöngu þegar það hefur áskilið að iðgjaldið eigi að vera háð aðstæðum vátryggðs. Skýra verður orðið ,,aðstæður“ rúmt, enda getur það tekið til búsetu, notkunar á áfengi eða fíkniefnum o.fl. Í 2. málsl. eru svo reglur um hverju það varði vátryggðan ef hann sinnir ekki tilkynningarskyldu skv. 1. málsl. Ef vátryggingaratburður verður getur félagið krafist þess að ábyrgð þess lækki hlutfallslega. Samkvæmt þessu á að leggja hlutfallslegt mat á ábyrgð félagsins, þannig að ábyrgð þess verði aðlöguð að því iðgjaldi sem það hefur fengið greitt miðað við hinar nýju aðstæður. Af þessu leiðir að ef iðgjald hefði tvöfaldast vegna hinna nýju áhættu, þá ætti ábyrgð félagsins að verða helminguð. Ef áhættan hefur aukist svo mjög að félagið hefði alls ekki veitt vátrygginguna ætti ábyrgð þess að falla niður með öllu. Í 3. málsl. eru leiðbeiningarreglur um hvernig framkvæma á mat á ábyrgðinni skv. 2. málsl. og í 4. málsl. er lögð sú skylda á félagið að því beri að minna vátryggingartaka á það í innheimtutilkynningum vegna iðgjalds hvaða kvöð hvíli á honum að þessu leyti.

Um 89. gr.

    Í þessari grein eru reglur um þau tilvik er vátryggður veldur vátryggingaratburði af ásetningi. Þessi grein og 90. gr. koma í stað þeirra almennu reglna sem nú eru í 18.–20. gr. VSL um sama efni. Að auki tekur svo þessi grein til tilvika sem nú eru reglur um í 100. gr. VSL, þ.e. um sjálfsvíg. Þegar sá sem tilnefndur hefur verið sem rétthafi samkvæmt vátryggingu veldur vátryggingaratburði gilda reglur í 108. gr.
    Í almennum athugasemdum með þessum kafla er vikið nokkuð að þeim reglum sem þessi grein og 90. gr. hafa að geyma. Vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er meginregla um persónutryggingar þegar vátryggður veldur vátryggingaratburði af ásetningi. Hún er sú að þá beri félagið ekki ábyrgð. Sérreglur gilda svo um líftryggingar skv. 2. mgr., þannig að þessi meginregla hefur fyrst og fremst þýðingu í slysa- og sjúkratryggingum. Meginregla 1. málsl. er hin sama og gildir skv. 18. gr. VSL. Reglan er eðlileg, nema í líftryggingum, þar sem vátryggingin gengur beinlínis út á að veita lífi vátryggðs vernd. Í slysatryggingum felst verndin í því að vátryggður fær bætur ef vátryggingaratburður verður vegna ,,skyndilegs utanaðkomandi atviks, sem gerist án vilja hans“, en þannig er verndin yfirleitt skilgreind í skilmálum slysatrygginga. Í sjúkdómatryggingum felst verndin í því að vátrygging tekur til óvinnufærni af völdum sjúkdóms sem kemur til með öðrum hætti en fyrir slys. Í 2. málsl. er kveðið á um að félagið beri samt sem áður ábyrgð ef vátryggður vegna aldurs eða andlegs ástands gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Ákvæðið er orðað á annan veg en í 1. mgr. 19. gr. VSL og veitir svigrúm til þess að meta hvenær aldur eða andlegt ástand vátryggðs á að leiða til ábyrgðar fyrir félagið. Ekki er því um tiltekið aldursmark að ræða, heldur beitt svipuðum sjónarmiðum og gilda í skaðabótarétti um mat á skaðabótaskyldu barna og ungmenna. Ef vátryggingaratburði er valdið af vátryggðum í ölvunarástandi getur vátryggður ekki borið þetta ákvæði fyrir sig, enda gilda ákvæði 90. gr. um þau tilvik. Í 3. málsl. er félaginu heimilað, svo sem algengt er í skilmálum sem notaðir eru, að gera fyrirvara í skilmálum slysatrygginga um að það beri ekki ábyrgð á sjálfsvígi, eða tilraun til þess, sem rakin er til geðveiki. Þessa heimild ber að skýra þrengjandi ef kostur er fleiri en eins skýringarmöguleika. Hún er undantekningarregla og heimilar aðeins slíkan fyrirvara þegar í hlut á ,,geðveiki“, þ.e. geðsjúkdómur í læknisfræðilegum skilningi, en ekki skyndilegt ójafnvægi eða andlegt áfall sem leiðir til sjálfsvígs eða sjálfsvígstilraunar. Þá gildir heimildin einvörðungu í slysatryggingum. Heimildin er einnig takmörkuð við sjálfsvíg eða sjálfsvígstilraun. Þegar vátryggður vinnur sér mein í öðrum tilgangi, eða af því að hann skynjar ekki afleiðingar gerða sinna, gildir þessi undantekningarregla ekki.
    Í 2. mgr. er ákvæði um sjálfsvíg sem ætlað er að koma í stað ákvæðis 100. gr. VSL. Nokkuð er fjallað um tillögur frumvarpsins í almennum athugasemdum. Tillagan er að tveggja ára fresturinn í 100. gr. VSL verði styttur í eitt ár en samt viðhaldið þeim möguleika að unnt sé að sanna að líftrygging hafi verið tekin af öðrum hvötum en þeim að tryggja fjárhag tilgreindra eftirlifenda við andlát. Lagt er til að einungis verði miðað við þær hvatir sem lágu að baki töku vátryggingarinnar á því tímamarki sem hún var tekin. Þetta er nokkuð einfölduð regla frá því sem er í téðri grein VSL, því þar er bæði miðað við hvatir er vátrygging var tekin og einnig að sjálfsvíg hefði farið fram, án tillits til þess hvort vátryggingin hefði verið við lýði. Í 2. málsl. þessarar málsgreinar er regla sem ætlað er að árétta að miða á við upphaflega töku líftryggingar (með dánaráhættu), sem framlengd hefur verið, þegar ársfresturinn er notaður. Falli vátrygging á hinn bóginn niður og verði síðar tekin ný mundi fresturinn reiknast frá því að sú nýrri var tekin.
    Vakin skal athygli á því orðalagi 2. mgr. að hún tekur bæði til sjálfsvígs og tilraunar til þess. Nú leiðir tilraun til sjálfsvígs sem ekki endar með andláti ekki til þess að vátryggingaratburður verði samkvæmt líftryggingu. Reglan um að einnig beri að telja með tilraun til sjálfsvígs hefur þó mikla þýðingu. Í líftryggingunni getur verið örorkutrygging sem gæti átt við um þá örorku sem vátryggður kann að búa við vegna sjálfsvígstilraunar. Auk þess kann örorka hans að leiða til þess að hann leysist undan iðgjaldagreiðslum líftryggingar, a.m.k. að hluta. Ákvæðið á einungis við þegar um sjálfsvíg eða tilraun til þess er að ræða, en ekki um tilvik þar sem vátryggður vinnur sér mein í öðrum tilgangi en þeim að stytta sér aldur.

Um 90. gr.

    Í þessari grein eru reglur um réttarstöðu vátryggðs í slysa- og sjúkratryggingum þegar hann veldur því af gáleysi að vátryggingaratburður verður. Með þessari grein frumvarpsins yrði komið í veg fyrir það að vátryggingafélög gætu fyrirvaralaust undanþegið sig ábyrgð þegar vátryggingaratburði er valdið af stórkostlegu gáleysi. Að þessu er vikið nokkuð í almennum athugasemdum að framan.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er kveðið svo á um að þótt vátryggingaratburði sé valdið af stórkostlegu gáleysi falli ábyrgð félagsins ekki fyrirvaralaust niður, heldur sé heimilt að lækka hana, eða eftir atvikum fella hana niður. Hið sama á við ef stórkostlegt gáleysi vátryggðs veldur því að afleiðingar vátryggingaratburðar verða meiri en ella hefðu orðið. Í 3. málsl. eru svo ákvæði um hvaða atriði það eru sem ráða eiga því hvort og í hve miklum mæli eigi að lækka ábyrgð félagsins. Nefnd er sök, atvik að vátryggingaratburði, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hefur sjálfviljugur neytt, en til þessara atriða er einnig vísað í 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. sem gildir um þetta í skaðatryggingum. Er ekki þörf á að skýra þessi atriði frekar hér.
    Í 2. málsl. er mælt fyrir um að beita eigi framangreindum reglum líka um þau tilvik er vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð, eða afleiðingar hans meiri en ella, með því að hlíta ekki varúðarreglum.
    Í 2. mgr. er því slegið föstu að það hafi ekki þau réttaráhrif að ábyrgð félagsins verði takmörkuð þótt vátryggingaratburði sé valdið með almennu gáleysi.
    Loks segir í 3. mgr. að 1. mgr. verði ekki beitt til lækkunar eða niðurfellingar á ábyrgð félagsins ef hinn vátryggði gat vegna aldurs eða andlegs ástands síns ekki gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Um þetta vísast til skýringa við 2. málsl. 1. mgr. 89. gr.

Um 91. gr.

    Greinin er samhljóða 30. gr. frumvarpsins og má vísa um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 92. gr.

    Greinin er að efni til sambærileg 3. og 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins og má um skýringar líta til athugasemda við þær.

Um 93. gr.

    Í þessari grein eru reglur um ráðstafanir til þess að takmarka tjón. Mælt er fyrir um heimildir félagsins til þess að skylda vátryggðan til þess að takmarka tjón og mörk þeirra heimilda. Ákvæði 2. mgr. er ítrekun á þeirri reglu sem kemur fram í 1. málsl. 1. mgr. 90. gr. Er ekki þörf á að skýra efni greinarinnar sérstaklega.

Um 94. gr.

    Efni greinarinnar er sambærilegt efni 31. gr. frumvarpsins og má vísa til skýringa í athugasemdum við þá grein. Áréttað skal að orðalagið miðast einungis við að félagið tilkynni að það hyggist bera fyrir sig ábyrgðartakmörkun, en því er ekki skylt að tilgreina nákvæmlega í fyrstu tilkynningu hve mikil lækkunin verður, enda getur það ráðist af mati á upplýsingum sem fást með síðari gagnaöflun.
    Í 3. mgr. er tekið fram að skylt sé að tilkynna líftryggingarskrá ef félagið ætlar að bera fyrir sig þann rétt til takmörkunar á ábyrgð sem það telur sig eiga. Slík tilkynning er nauðsynleg því í líftryggingarskrá eiga að vera skráðar m.a. allar takmarkanir á réttindum samkvæmt líftryggingum.

Um XIV. kafla.

    Í þessum kafla eru reglur um iðgjaldið og innheimtu þess. Reglur um þetta efni í skaðatryggingum eru í V. kafla. Eins og gerð er grein fyrir í almennum inngangi að þeim kafla eru reglur VSL um iðgjaldið og innheimtu þess flóknar og í raun ekki eftir þeim farið í framkvæmdinni. Þar er þess einnig getið að mikilvægt sé að reglur um þessi efni í skaðatryggingum og persónutryggingum séu eins þannig að auðveldara verði fyrir neytendur að átta sig á efni þeirra. Viðurkenna verður þó að um iðgjaldið og innheimtu þess í líftryggingum þurfa að gilda sérstakar reglur að vissu marki. Reglur XIV. kafla eru því að verulegu leyti sama efnis og reglur 5. kafla en þó eru sérákvæði um líftryggingar. Lúta þau sérákvæði í fyrsta lagi að því hvernig háttað sé rétti vátryggðs til að endurvekja líftryggingu, sem fallin er niður vegna vangreiðslu á iðgjaldi, án nýrra heilsufarsupplýsinga og í öðru lagi að sérstakri tilkynningarskyldu félagsins við innheimtu iðgjaldsins. Hafi vátryggingartaki veðsett réttindi samkvæmt líftryggingarsamningi er ljóst að veðhafinn hefur mikla hagsmuni af því að fá tilkynningu um vanskil á iðgjaldi. Veðhafinn getur þá greitt iðgjaldið sjálfur til þess að verja réttindi sín. Hið sama má segja um þann sem tilnefndur hefur verið sem rétthafi samkvæmt líftryggingu, svo og maka vátryggðs. Er reglum skipað svo að þessir aðilar, beri þeir sig eftir því, geti átt kost á að fá viðvörun ef vanskil verða á iðgjaldi.

Um 95. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um fyrstu innheimtutilkynningu iðgjalds. Greinin er samhljóða 32. gr. um sama efni í skaðatryggingum og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 96. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um síðari tilkynningu félagsins um innheimtu iðgjalds og kosti þess til að losna undan vátryggingarsamningi vegna vangreiðslu á iðgjaldi. Greinin er samhljóða 33. gr. frumvarpsins um sama efni í skaðatryggingum, en þó er sérstaklega tekið fram að 3. mgr. gildi aðeins um slysa- og sjúkratryggingar. Um það efni gilda sérreglur í líftryggingum. Vísa má um skýringar til athugasemda við 33. gr. frumvarpsins.

Um 97. gr.

    Í greininni, sem ekki á sér hliðstæðu í skaðatryggingahlutanum, eru ákvæði um rétt vátryggingartaka til þess að endurvekja líftryggingu, sem fallið hefur úr gildi vegna vangreiðslu á iðgjaldi, án þess að hann þurfi að veita nýjar heilsufarsupplýsingar.
    Í 1. málsl. koma fram tvö skilyrði fyrir því að hægt sé að endurvekja líftryggingu, án þess að veita nýjar heilsufarsupplýsingar, samkvæmt greininni. Fyrra skilyrðið er að iðgjald hafi áður verið greitt fyrir eitt ár hið skemmsta. Það kemur því ekki til beitingar þessa úrræðis vegna vangreiðslu á fyrsta iðgjaldi. Síðara skilyrðið er að hið vangoldna iðgjald (og eftir atvikum endurkaupsverð vátryggingarinnar og dráttarvextir, hafi félagið uppi kröfu um þá) sé greitt innan þriggja mánaða frá því að 14 daga frestur sá sem tilgreindur er í 1. mgr. 96. gr. rann út. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt verður líftrygging ekki endurvakin samkvæmt þessari grein.
    Upp kunna að rísa álitaefni ef vátryggður eða aðrir, sbr. úrræði 98. gr., greiða einungis hluta af skuld sinni við félagið, greiða t.d. hluta iðgjaldsins, eða einungis iðgjaldið en ekki dráttarvexti þótt þeirra hafi verið krafist, eða ekki endurkaupsverðið, án þess að krefjast þess að líftryggingin verði aðeins áhættutrygging. Ekki eru gerðar tillögur að reglum til að mæta slíkri aðstöðu, enda geta verið á henni mörg blæbrigði. Verður að leysa úr þessu eftir almennum reglum kröfuréttar, en þær miða við að greiðslutilboð eða tilraun til greiðslu, sem aðeins felur í sér hlutagreiðslu, sé ekki löglegt greiðslutilboð eða fullnægjandi greiðsla. Hlutagreiðsla mundi því ekki endurvekja líftryggingu nema því aðeins að félagið samþykkti það. Er ekki ráðlegt fyrir vátryggingartaka, vátryggðan, veðhafa eða aðra að taka áhættu í þessu efni.
    Í 2. málsl. er mælt fyrir um að greiða verði til baka endurkaupsverð líftryggingar, hafi það verið greitt út. Tilvísun til 1. mgr. 80. gr. felur þó í sér að vátryggingartaki getur krafist þess að líftryggingin haldi áfram sem hrein áhættutrygging. Komi hann þeirri kröfu á framfæri getur hann endurvakið líftrygginguna sem áhættutryggingu með því að greiða iðgjaldið og eftir atvikum dráttarvexti en án þess að greiða endurkaupsverðið til baka.
    Í 3. málsl. er áréttað að félagið eigi rétt til dráttarvaxta en þann rétt ætti félagið þótt slíkt væri ekki tekið fram. Það er aðeins gert til að taka af tvímæli um rétt félagsins og samsvarandi skyldu vátryggingartaka.
    Í 4. málsl. er mælt fyrir um að ef ábyrgð félagsins er endurvakin með réttri greiðslu hefjist ábyrgð þess daginn eftir að greiðslan er innt af hendi. Óhjákvæmilegt er að fresta því til næsta dags að ábyrgðin hefjist. Önnur regla gæti leitt til þess að félagið yrði ábyrgt fyrir vátryggingaratburði sem orðið hefur áður en greiðslan fór fram. Réttaráhrif greiðslunnar eru þau að vátrygging er endurvakin. Þótt hún hafi þannig ekki verið í gildi í allt að þrjá mánuði raknar hún við að nýju og vátryggingartaki nýtur sama réttar eftir það og vátrygging hefði aldrei fallið úr gildi. Af sjálfu leiðir að félagið á því rétt til iðgjalds allan tímann, enda hefur það allan tímann búið við þann möguleika að vátryggingartaki mundi endurvekja líftrygginguna með sömu heilsufarsupplýsingum, þannig að það ber því áhættu af versnandi heilsu hans á þeim tíma sem líftryggingin var ekki í gildi. Verður slík skipan mála að teljast eðlileg, enda hafi vátryggingartaki verið grandlaus um versnandi heilsufar sitt.

Um 98. gr.

    Í þessari grein eru reglur sem ætlað er að tryggja hagsmuni veðhafa í réttindum samkvæmt líftryggingu og eftir atvikum annarra sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta, en þeir verða þá að tilkynna félaginu um að þeir vilji fá tilkynninguna.
    Í 1. málsl. er mælt fyrir um óskoraða skyldu félagsins til þess að senda veðhafa í réttindum samkvæmt líftryggingu tilkynningu skv. 1. mgr. 96. gr., þ.e. síðari tilkynningu félagsins. Vátryggingafélagi er alltaf kunnugt um veðhafa í réttindum samkvæmt líftryggingu, enda ber að skrá slíka takmörkun í líftryggingarskrá skv. XVII. kafla. Einnig getur félaginu verið skylt að senda vátryggðum, maka vátryggingartaka og þeim sem tilnefndur hefur verið sem rétthafi samkvæmt líftryggingu slíka tilkynningu, en því aðeins að þeir hafi gert kröfu til félagsins um að fá slíka tilkynningu senda. Um er að ræða tilkynningu skv. 1. mgr. 96. gr.
    Það er mikið í húfi fyrir félagið að það sinni tilkynningarskyldu samkvæmt þessari grein. Verði það látið undir höfuð leggjast getur félagið, gagnvart þeim sem rétt eiga á tilkynningu, ekki borið fyrir sig vanefnd á greiðslu iðgjaldsins. Réttur þeirra verður með öðrum orðum óskertur.

Um 99. gr.

    Greinin er samhljóða 34. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.

Um XV. kafla.

Almennt.
    Í þessum kafla eru reglur um ráðstafanir tengdar vátryggingum, þ.e. persónutryggingum, eins og tilnefningu rétthafa, veðsetningu réttinda samkvæmt vátryggingu og framsal slíkra réttinda. Auk þess eru í kaflanum reglur um hver eigi rétt til greiðslna samkvæmt vátryggingunni þegar vátryggingartaki hefur ekki ráðstafað henni með neinum hætti. Reglum kaflans er ætlað að koma í stað 102.–112. gr. VSL, svo og 118. og 122. gr. þeirra laga. Þær reglur sem gerð er tillaga um í þessum kafla víkja verulega frá framangreindum ákvæðum VSL.

Stutt yfirlit um efni gildandi reglna.
    
Reglur um það hver eigi rétt til greiðslna úr hendi vátryggingafélags og um ráðstafanir yfir réttindum samkvæmt vátryggingunni eru í III. og IV. kafla VSL. Ýmsar reglur þessara kafla koma ekki til athugunar hér, heldur þegar fjallað verður um efni annarra kafla frumvarpsins.
    Almennt gilda sömu reglur að þessu leyti um höfuðstólstryggingar og lífeyristryggingar, sbr. 118. gr. VSL, en í þeirri grein eru þó einnig sérreglur um síðarnefndu vátryggingarnar. Skv. 102. gr. VSL getur vátryggingartaki hvenær sem er við eða eftir töku vátryggingar tilnefnt annan mann í sinn stað sem rétthafa. Hann getur almennt afturkallað þessa ákvörðun nema hann hafi afsalað sér rétti til afturköllunar. Ráðstafanir þessar eru formbundnar skv. 103. gr. VSL. Þegar vátryggingartaki hefur ekki ráðstafað réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi rennur vátryggingarfjárhæðin til dánarbús hans. Í því felst að hún mun skiptast milli erfingja hans eftir reglum erfðaréttar. Hafi hann tilnefnt annan mann, sem ekki er skylduerfingi hans, rétthafa í sinn stað, og sú ráðstöfun er ekki óafturkræf, gengur réttur eftirlifandi maka, lífserfingja, arfgengra kjörbarna eða lífserfingja þeirra framar rétti þess er tilnefndur hefur verið. Hafi tilnefning verið óafturkallanleg stendur hún. Um þetta eru reglur í 104. gr. VSL. Orðið lífserfingi er notað í 104. gr. VSL, sem og 105. gr. VSL, en það er ekki skýrt í athugasemdum með greininni í frumvarpi því sem síðar varð að VSL. Orðið lífserfingi er ekki þekkt í íslenskum erfðarétti, t.d. hvorki notað í erfðalögum, nr. 8/1962, né heldur skilgreint í íslenskum fræðiritum um erfðarétt. Það er á hinn bóginn notað bæði í dönskum og norskum erfðarétti um ,,en arvelaters etterkommere i rett nedstigende linje“, þ.e. niðja arfláta í beinan legg. Í 105.–107. gr. VSL og 110. gr. sömu laga eru ákvæði sem fela í sér túlkunarreglur er rétthafi er tilnefndur. Er óþarfi að gera grein fyrir efni þeirra hér. Í 108. gr. VSL er mælt fyrir um að tilnefning rétthafa leiði hvorki til skerðinga á rétti vátryggingartaka til þess að krefjast endurkaupsverðs vátryggingarinnar né til að framselja, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti þeim réttindum sem vátryggingarsamningur veitir honum. Það á þó ekki við ef hann hefur skuldbundið sig gagnvart rétthafa til þess að afturkalla ekki tilnefningu hans, því þá getur hann ekki ráðstafað réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi þannig að það fari í bága við hagsmuni rétthafans. Skv. 109. gr. VSL getur rétthafi, hvort sem réttur hans byggist á afturkallanlegri eða óafturkallanlegri tilnefningu, ekki framselt, veðsett eða ráðstafað með öðrum hætti þessum réttindum sínum fyrr en vátryggingaratburð hefur borið að höndum.
    Um ráðstafanir yfir réttindum samkvæmt samningi um persónutryggingu aðrar en tilnefningu er það að segja að heimilt er að framselja líftryggingu, sbr. 111. gr. VSL. Þar er mælt svo fyrir um að við framsal líftryggingarskírteinis öðlist framsalshafi öll réttindi gegn félaginu sem samningurinn um framsalið veiti. Í öðrum ákvæðum laganna, sbr. einkum 113. og 114. gr. VSL, eru reglur sem tryggja viðskiptabréfseiginleika líftryggingarskírteinis. Í 111. gr. VSL er kveðið svo á að við framsal falli niður réttur þess sem tilnefndur hefur verið sem rétthafi, þ.e. þegar vátryggingartaki hefur ekki afsalað sér rétti til þess að afturkalla þá ráðstöfun. Í 112. gr. VSL eru ákvæði um veðsetningu vátryggingartaka á réttindum samkvæmt líftryggingarsamningi. Slík veðsetning byggir ekki út þeim rétti sem sá hefur öðlast er tilnefndur hefur verið sem rétthafi, en hann stendur þó að baki rétti veðhafans, þ.e. þegar vátryggingartaki hefur ekki afsalað sér rétti til að afturkalla tilnefninguna. Hafi hann gert það ganga heimildir rétthafa framar rétti veðhafans. Í 2. og 3. mgr. 112. gr. VSL eru svo frekari reglur um réttarstöðu veðhafans og umfang veðréttarins.
    Eins og fyrr greinir taka framangreindar reglur almennt einnig til lífeyristrygginga, sbr. 1. mgr. 118. gr. VSL. Í þeirri grein er þó einnig sérregla um þessa tegund líftryggingar sem mælir fyrir um að félagið losni undan skyldu sinni ef það greiðir lífeyrisgreiðslu, sem í gjalddaga er komin, þeim sem talinn er vera lífeyrisþegi, meðan það hefur ekki fengið vitneskju um að rétturinn til vátryggingarinnar hafi verið framseldur öðrum. Þetta gildir enda þótt eigi hafi verið ritað á skírteinið að greiðsla hafi farið fram. Er með þessu átt við einstakar lífeyrisgreiðslur. Loks er mælt fyrir um að ef greiða eigi lífeyri í lífstíð annars manns en vátryggingartaka skuli litið svo á að vátryggingartaki hafi tilnefnt hann sem rétthafa í sinn stað.

Yfirlit um tillögur að nýjum reglum, einkum efnislegar breytingar.
    
Eitt þýðingarmesta atriði sem reglur þessa kafla taka til er hvernig skipa eigi reglum um rétt til líftryggingarfjárhæðar við andlát vátryggðs. Margir kostir eru í því efni. Eins og gerð er grein fyrir að framan er það skipan gildandi laga að það skuli fara að reglum erfðaréttar hvernig líftryggingarfjárhæð er ráðstafað, en þó er vátryggingartaka skv. 102. gr. VSL veittur réttur til þess að ráðstafa réttindum samkvæmt vátryggingu. Þeirri ráðstöfun má þó hnekkja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem þó eru engan veginn ströng. Tillögur þær sem gerðar eru um skipan efnisreglna í kaflanum lúta að því að styrkja rétt vátryggingartaka til þess að ráðstafa réttindum yfir vátryggingunni. Þegar réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi hefur ekki verið ráðstafað er það afstaða nefndarinnar að reglur erfðaréttar eigi ekki einar að ráða því hvernig vátryggingarfjárhæð dreifist til eftirlifenda. Rökin eru fyrst og fremst þau að það sé ekki víst að það leiði til þess að fjárhæðin renni til þess eða þeirra sem mesta hafa þörf fyrir hana. Lagt er til að staða maka í þessu efni verði styrkt verulega. Við andlát vátryggðs, sem ekki hefur ráðstafað réttindum samkvæmt líftryggingu, er líklegast að á maka hans brenni að gera fjárhagsráðstafanir til þess að halda í horfinu fyrst í stað með stöðu fjölskyldunnar.
    Eins og gildandi lög heimila er gert ráð fyrir því í reglum frumvarpsins að vátryggingartaki geti ráðstafað réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi um persónutryggingar með sams konar löggerningum. Lagt er til að heimildir þær sem nú eru í 2. mgr. 104. gr. VSL til að hnekkja ráðstöfun hans á slíkum réttindum verði þrengdar, þ.e. bundnar við þrengri hóp en nú er. Réttur kröfuhafa til þess að leita fullnustu í vátryggingarfjárhæð í persónutryggingum verður þrengdur ef frumvarpið verður að lögum. Leiðir það bæði af 100. gr. og 110. gr. Má því ætla að síður verði þörf á því að ráðstafa réttindum samkvæmt vátryggingum í persónutryggingum en nú er, því lagt er til að slík ráðstöfun sé ekki forsenda þess að vernd fáist gegn kröfuhöfum.
    Staða maka vátryggingartaka, sem ráðstafar réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi, raskast mjög við ráðstöfunina. Það réttlætir þó ekki takmörkun á ráðstöfunarrétti vátryggingartaka. Eðlilegt er þó að makinn fái tilkynningu um slíka ráðstöfun, enda kann það að kalla á sambærilegar ráðstafanir af hans hálfu yfir réttindum samkvæmt vátryggingu sem hann hefur tekið eða aðrar ráðstafanir til að tryggja framtíð sína.
    Þær formkröfur sem gerðar eru til ráðstafana yfir réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi samkvæmt VSL yrðu að mestu einnig gildandi ef þetta frumvarp yrði að lögum. Til viðbótar er lagt til að heimilað verði að gera slíkar ráðstafanir með erfðaskrá, en þess er ekki kostur samkvæmt gildandi lögum.
    Um nánari skýringar vísast til athugasemda við einstakar greinar.

Um 100. gr.

    Í þessari grein eru almenn ákvæði um réttinn til þess að fá greidda vátryggingarfjárhæðina, þ.e. um hver eigi rétt til hennar þegar vátryggingartaki hefur ekki ráðstafað henni. Eins og fyrr greinir miða VSL við að reglur erfðaréttar ráði skiptingu á vátryggingarfjárhæðinni milli eftirlifenda hins vátryggða. Tillögur frumvarpsins gera ráð fyrir því að horfið verði frá þeim reglum og réttur eftirlifandi maka styrktur, enda hefur hann við andlát oftast mesta þörf fyrir fjármuni til þess að halda málefnum fjölskyldunnar í horfinu og gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna andlátsins og þeirra breytinga sem því fylgja, ekki síst á tekjum fjölskyldunnar. Á hinn bóginn eru um ýmis atriði sóttar fyrirmyndir til erfðalaga, svo sem síðar verður vikið að.
    Í 1. mgr. er almenn yfirlýsing sem kveður á um að þegar vátryggingartaki hefur ekki ráðstafað vátryggingunni í samræmi við reglur kaflans gildi ákvæði 2.–6. mgr. Hin tilvitnuðu ákvæði gilda því aðeins ef réttindum hefur ekki verið ráðstafað samkvæmt vátryggingarsamningi, þ.e. með tilnefningu rétthafa, framsali eða veðsetningu. Ákvæði þetta hefur í raun ekki sjálfstætt gildi, en þó þykir rétt að taka af tvímæli um skipan efnis þessarar greinar.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er meginreglan sem vikið hefur verið að framar, þ.e. að vátryggingarfjárhæð sem fellur til við andlát vátryggingartaka renni til maka hans. Skv. 1. mgr. 104. gr. VSL skal vátryggingarfjárhæðin samkvæmt gildandi reglum renna til dánarbús hans. Í því felst að fjárhæðin kemur til skipta eins og aðrar eigur dánarbúsins. Hafa má efasemdir um réttmæti þessarar reglu. Líklegt er að vátryggingartaki sem ekki gerir sérstakar ráðstafanir yfir réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi kjósi helst að láta maka sinn njóta vátryggingarfjárhæðarinnar, einkum til þess að geta varðveitt stöðu fjölskyldunnar. Ef hann kýs að hafa annan hátt á stendur honum til boða sá kostur að ráðstafa fjárhæðinni. Frá þessari meginreglu er gerð undantekning í 2. málsl., en þar segir að ef fyrir andlát vátryggðs hafi verið veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng, veittur lögskilnaður eða kveðinn upp dómur um hann eða hjúskapur ógiltur eigi meginreglan í 1. málsl. ekki við. Þetta samrýmist 1. mgr. 26. gr. erfðalaga sem mælir fyrir um brottfall erfðaréttar milli hjóna ,,við skilnað að borði og sæng, við algeran hjónaskilnað [lögskilnað] og við ógildingu hjúskapar með dómi“, svo sem þar segir. Rétt er að taka af tvímæli um það að samvistarslit hjóna skipta hér engu máli. Auk þess ber að taka fram að veiting leyfis til skilnaðar að borði og sæng eða til lögskilnaðar nægir, svo og að dómur um ógildingu hafi verið kveðinn upp. Þá þarf einnig að geta þess, vegna tilvísunar að framan til 26. gr. erfðalaga að þótt skilyrði 2. mgr. þeirrar greinar væru fyrir hendi hefðu þau enga þýðingu við beitingu þessa ákvæðis. Maki, sem grandsamur er í hjúskap, sem er ógildanlegur, ætti því rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar samkvæmt meginreglu 1. málsl.
    Orðið maki í 1. málsl. tekur ekki til sambúðarmaka og heldur ekki til eftirlifandi samvistarmanns þótt til samvistar hafi verið stofnað samkvæmt lögum um það efni, nr. 87/1996. Rökin eru þau að oft er ekki sú festa komin á sambúð að rétt sé að láta sambúðarmaka sjálfkrafa ganga framar t.d. öðrum erfingjum hins vátryggða, hvort sem það eru börn hans með öðrum eða með sambúðarmakanum sem eftir lifir. Telji vátryggingartaki/vátryggður að rétt sé að fjárhæðin gangi til sambúðarmaka hans mundi hann tilnefna hann sem rétthafa. Að því er varðar staðfesta samvist gilda nokkuð önnur rök en um hjúskap. Framfærslubyrði er eðli máls samkvæmt sjaldan veruleg meðal þeirra sem eru í staðfestri samvist, þótt slíkt verði vissulega ekki útilokað. Það eru þess vegna ekki sömu rök til að láta samvistarmann hafa þau sérstöku réttindi sem lagt er til að maki njóti, enda eru þau fyrst og fremst reist á þörf fyrir að viðhalda fjölskyldu, þ.m.t. börnum, er makinn andast. Verður að hafa í huga að reglan um þá sérstöðu sem lagt er til að maki njóti er frávik frá almennum reglum, t.d. erfðaréttar, um skiptingu eigna hins látna og þess vegna verða að vera fyrir henni sérstök rök.
    Í 3. málsl. 2. mgr. er mælt fyrir um að vátryggingarfjárhæðin, sem renna skal til maka samkvæmt meginreglunni í 1. málsl. málsgreinarinnar, teljist ekki til þeirra eigna sem falla undir helmingaskiptaregluna, sem er í hinum tilgreindu ákvæðum. Þessi regla er nauðsynleg til þess að tryggja að fjármunir þeir sem renna eiga til makans geri það í raun. Ef ekki væri tekið af skarið um þetta mundi meginreglan um rétt maka til vátryggingarfjárhæðarinnar ekki ganga eftir með réttum hætti. Ef eftirlifandi maki yfirtekur búið óskipt, sbr. II. kafla erfðalaga, og situr í því þannig, þá rennur vátryggingarfjárhæðin inn í búið óskipt ásamt öðrum eignum hins látna. Þegar hið óskipta bú kemur að lokum til skipta, hvort sem það er á meðan hinn langlífari maki lifir eða eftir andlát hans, skiptist vátryggingarfjárhæðin með sama hætti og aðrar eignir dánarbúsins eða búanna eftir reglum erfðaréttar. Ástæður þessarar tillögu eru fyrst og fremst þær að ef maki kýs að sitja í óskiptu búi nýtur hann eigna þess til venjulegrar framfærslu sinnar og barna. Eðlilegt er, enda regla 1. málsl. á því reist, að hann noti vátryggingarfjárhæðina einnig í því skyni. Það eru því ekki rök til að láta nein sérsjónarmið gilda um skipti á vátryggingarfjárhæðinni þegar hið ,,óskipta bú“ kemur loks til skipta, sem getur verið eftir mörg ár eða jafnvel áratugi. Eins og fyrr greinir verða að vera fyrir hendi sérstök rök til að skipa reglum eins og gert er í 1. málsl. og þau eru ekki fyrir hendi ef maki kýs að sitja í óskiptu búi.
    Í 3. mgr. eru reglur um tilvik þegar vátryggður lætur ekki eftir sig maka sem fær vátryggingarfjárhæðina skv. 1. málsl. 2. mgr. Þegar svo háttar til fellur vátryggingarfjárhæðin til erfingja samkvæmt lögum eða erfðaskrá. Í þessu felst að engin rök eru til að beita sérstökum sjónarmiðum um vernd maka, enda hann ekki til, og þá er eðlilegast að fara með vátryggingarfjárhæðina eins og önnur verðmæti sem hinn látni lét eftir sig. Þess ber þó að geta að staða erfingja er styrkt frá því sem er eftir gildandi reglum VSL, því af greininni og 110. gr. frumvarpsins leiðir að þeir njóta ríkari verndar gagnvart kröfuhöfum ef frumvarpið verður að lögum. Verður vikið nánar að þessu í skýringum við 110. gr. Í 2. málsl. 3. mgr. er kveðið á um að ef vátryggingartaki sat í óskiptu búi eftir látinn maka sinn teljist vátryggingarfjárhæðin til þeirra eigna sem skipta á jafnt milli erfingja hans og hins skammlífari maka. Þessi regla er eðlileg, enda eru ekki fyrir hendi sérstök rök fyrir annarri reglu.
    Ekki er ástæða til að skýra efnislega ákvæði 4. mgr. en þess skal þó getið að oftast mundu slíkar aðstæður koma upp í hóplíftryggingum þar sem ákvæði skilmála mæltu fyrir um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, t.d. fyrir hvert barn sem hinn vátryggði lét eftir sig.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem einkum gæti tekið til tilvika þar sem fleiri en einn samstarfsaðilar, t.d. sameigendur að firma, tækju líftryggingu sameiginlega til þess að vera betur í stakk búnir til að mæta því tjóni sem yrði ef einn þeirra félli frá. Þetta gæti t.d. átt við um sameiginlegt firma, eða sameiginlegan rekstur, sérfræðinga, svo sem hönnuða, verkfræðinga, endurskoðenda, lögmanna o.fl. Þegar um sameiginlegan rekstur fárra manna er að ræða verður oft veruleg röskun ef einn þeirra fellur frá. Gæti því verið skynsamlegt fyrir þá að fyrirbyggja mikið fjártjón með slíkum líftryggingum. Ákvæðið gæti einnig átt við um annars konar samstarf eða samninga. Einnig gæti þetta átt við um sameiginlega töku hjóna á líftryggingu.
    Í 6. mgr. er ákvæði sem tekur í fyrsta lagi til tilvika er vátryggingarfjárhæð skal greidd út þegar hinn vátryggði hefur náð tilteknum aldri, í öðru lagi tilvika þar sem greiða ber bætur við örorku hins vátryggða og í þriðja lagi þegar vátrygging er tekin á lífi annars manns, hvort sem vátryggingarfjárhæðin fellur til við andlát hans eða þegar hann nær tilteknum aldri. Vátrygging gæti verið tekin á lífi þriðja manns, en einnig gæti verið um það að ræða að hún hefði verið framseld. Í þessum tilvikum fellur vátryggingarfjárhæðin til vátryggingartaka, en framsalshafi réttinda samkvæmt vátryggingu telst vátryggingartaki í þessum skilningi.

Um 101. gr.

    Í þessari grein eru reglur um tilnefningu rétthafa og er efni hennar að verulegu leyti hið sama og 102. gr. VSL. Í upphafi er meginreglan um að vátryggingartaki geti tilnefnt einn eða fleiri menn sem rétthafa að vátryggingarfjárhæð. Viðbótargreiðsla, svo sem ágóðahlutdeild, væri að jafnaði greidd með vátryggingarfjárhæðinni, en vátryggingartakinn getur þó ráðstafað henni sérstaklega, kjósi hann það. Vátryggingartakinn hefur fullt frelsi til þess að gera fleiri en eina ráðstöfun, t.d. þannig að hann skipti fjárhæðinni eða þannig að ráðstöfun taki aðeins til hluta hennar, hinn hlutinn rynni þá til maka skv. 1. málsl. 2. mgr. 100. gr.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er mælt fyrir um það að ef vátryggingartaki, sem tilnefnir rétthafa samkvæmt vátryggingarsamningi, er í hjúskap beri að tilkynna það maka hans. Er um þetta vísað til 105. gr. Ekki segir neitt í þessari grein hverju það varði ef maka er ekki tilkynnt um tilnefninguna. Tilvísun til 105. gr. veldur því að vanræksla á tilkynningu og þýðing þess fyrir maka er eitt af þeim atriðum sem koma til athugunar þegar metið er hvort sanngjarnt sé að heimila að hnekkja tilnefningu á rétthafa. Það er maki vátryggingartaka sem á að fá tilkynningu um tilnefningu rétthafa. Í þessu felst að reglan á aðeins við þegar vátryggingartaki hefur tekið vátryggingu á eigin lífi.
    Hvað varðar tilkynningu til maka skv. 1. mgr. vegast á tvenns konar sjónarmið, annars vegar sjónarmið um sjálfsákvörðunarrétt vátryggingartaka og hins vegar um rétt maka með tilliti til fjárhagslegra sjónarmiða og jafnréttis á milli hjóna. Ef til vill má halda fram að óeðlilegt sé að löggjafinn skyldi þá sem taka líftryggingu að upplýsa aðra um hvert dánarbætur skuli renna, enda geti verið góð og gegn rök fyrir því að vátryggingartaki tilnefni annan aðila en maka sinn. Eðlilegra gæti verið að eingöngu væri tilkynnt um breytingar á skráningu rétthafa ef maki sem áður var skráður rétthafi væri felldur brott. Hins vegar verður að telja að réttur maka sé það ríkur að eðlilegt sé að honum sé tilkynnt um tilnefningu rétthafa, enda má ætla að sameiginlegar tekjur hjóna renni til greiðslu vátryggingarinnar. Tilkynningu þessa verður jafnframt að skoða með hliðsjón af ákvæði 105. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að heimilt sé að hnekkja tilnefningu rétthafa teljist hún bersýnilega ósanngjörn gagnvart maka eða öðrum skylduerfingjum. Til þess að maki geti notið réttar skv. 105. gr. er ljóst að hann verður að hafa upplýsingar um töku líftryggingar og hver sé tilnefndur rétthafi. Þannig tengjast ákvæði 101. og 105. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er regla sem er sama efnis og 1. málsl. 2. mgr. 102. gr. VSL. Reglan um frelsi vátryggingartaka til þess að afturkalla tilnefningu rétthafa er reist á því að rétthafinn eigi engan lögvarinn rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar þrátt fyrir tilnefninguna. Hann getur aðeins gert sér vonir um að fá fjárhæðina þegar hún kemur til greiðslu, þ.e. við vátryggingaratburð. Eftir að vátryggingaratburður verður er ekki heimilt að afturkalla tilnefningu og gildir einu hver ætti í hlut. Í 2. mgr. kemur fram að hægt er að lýsa því yfir að tilnefning sé óafturkallanleg. Það getur vátryggingartaki gert með því að lýsa því yfir við rétthafann sjálfan. Slík viljayfirlýsing vátryggingartaka er loforð af hans hálfu sem beint er til rétthafans og skuldbindandi þegar það kemur til vitundar móttakanda, þ.e. rétthafans. Vátryggingartakinn getur ekki afturkallað slíkt loforð, frekar en önnur loforð samkvæmt reglum samningaréttar. Í því efni skiptir ekki máli hvort loforðið hefur á sér blæ gjafagernings eða er liður í gagnkvæmu íþyngjandi samkomulagi þeirra. Viljayfirlýsing vátryggingartaka sem hann beinir til félagsins um að hann muni ekki afturkalla tilnefningu hefur ekki slík réttaráhrif, hún er í raun marklaus, því í henni einni og sér felst ekki þriðjamannsloforð. Skiptir í þessu efni ekki máli þótt félagið mundi skýra rétthafanum frá þessu.
    Um skuldbindingargildi tilnefninga og loforða um að afturkalla þau ekki gagnvart börnum og öðrum ólögráða einstaklingum, svo og um slíkar yfirlýsingar af hálfu þess sem er ólögráða eða ekki fær um að gera sér grein fyrir þýðingu slíkra ráðstafana verður að vísa til samningaréttar og persónuréttar.

Um 102. gr.

    Í greininni eru reglur um aðferðir við tilnefningu rétthafa en greinin kemur í stað 103. gr. VSL og er að mestu eins, þó með einu veigamiklu fráviki sem gerð verður grein fyrir síðar, sbr. umfjöllun um 2. mgr.
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. verður vátryggingartaki að tilkynna félaginu skriflega ef hann ráðstafar réttindum samkvæmt vátryggingu með því að tilnefna rétthafa eða afturkalla tilnefningu. Frá þessari meginreglu er gerð sú undantekning í 2. málsl. 1. mgr. að ef rétthafi er tilnefndur við töku vátryggingarinnar geti tilnefningin farið fram með öðrum hætti, t.d. munnlega. Jafnvel í slíkum tilvikum er eðlilegt af vátryggingartaka að taka ekki áhættu og tilkynna það skriflega til félagsins. Þannig tryggir hann sér sönnun sem hann eða líklega fremur aðrir geta þurft á að halda síðar. Um afturköllun gilda sömu formreglur og um tilnefninguna sjálfa.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli. Þar er vátryggingartaka heimilað að gera ráðstafanir tengdar vátryggingu, þ.e. tilnefningu eða afturköllun hennar, í erfðaskrá. Það er vissulega rökrétt að heimila vátryggingartaka slíkar ráðstafanir í erfðaskrá, en með þeim hætti gæti hann í einu skjali ráðstafað eignum og öðrum réttindum sínum. Þó verður að hafa hugfast að um vátryggingarfjárhæðina og aðrar eignir og réttindi vátryggingartaka gilda ekki sömu reglur við andlát hans. Tilnefning rétthafa eða afturköllun hennar, sem gerð er í erfðaskrá, hefur sömu réttaráhrif og sú sem gerð er skv. 1. mgr. Það verður að gera þá kröfu að vátryggingartakinn ráðstafi réttindum samkvæmt vátryggingu sérstaklega, þ.e. kveði skýrlega á um það að hann sé að ráðstafa réttindum samkvæmt vátryggingunni. Almenn ráðstöfun allra eigna, án þess að vátryggingin sé nefnd, mundi ekki teljast tilnefning rétthafa eða afturköllun hennar. Slíkar ráðstafanir í erfðaskrá verða að uppfylla formkröfur erfðaréttar eins og aðrar ráðstafanir sem þannig eru gerðar. Á hinn bóginn er ljóst að túlkunarreglur 103. gr. frumvarpsins mundu, ef það verður að lögum, ganga framar túlkunarreglum erfðalaga að því er tekur til skýringa á tilnefningu eða afturköllun. Vilji vátryggingartaki skuldbinda sig gagnvart rétthafa til þess að afturkalla ekki tilnefningu sem hann hefur gert með erfðaskrá yrði hann að fara að í samræmi við fyrirmæli 49. gr. erfðalaga.
    Í 3. mgr. greinarinnar segir að þau fyrirmæli sem er að finna í 1. og 2. mgr. um form tilnefningar og afturköllunar séu gildisskilyrði þeirra. Er slíkt óvenjulegt í fjármunarétti, en eðlilegt engu að síður þegar litið er til mikilvægis þeirra ráðstafana sem um ræðir.

Um 103. gr.

    Í þessari grein eru fyllingarreglur sem beitt verður ef annað er ekki ákveðið eða leiðir af atvikum. Slíkar reglur er algengar í löggjöf á sviði fjármunaréttar og eru frávíkjanlegar réttarreglur eitt dæmi um slíkar reglur. Reglunum er ætlað að koma í stað 105.–107. gr. og 110. gr. VSL og tillögur frumvarpsins fela ekki í sér róttækar breytingar á efni gildandi reglna.
    Í a-lið er sú fyllingarregla að tilnefning rétthafa skuli, sé ekki annað ákveðið, aðeins taka til þeirrar vátryggingarfjárhæðar er fellur til við andlát. Ekkert stendur þó í vegi fyrir því að þeirri vátryggingarfjárhæð sem fellur til á meðan vátryggður er á lífi sé einnig ráðstafað til rétthafans. Slíka tilnefningu verður að gera sérstaklega.
    Af b-lið leiðir að þegar vátryggingartaki hefur tilnefnt fleiri en einn rétthafa skuli, í samræmi við 53. gr. erfðalaga, líta svo á að þeim sé öllum ætlaður jafnstór hlutur. Þetta á við þegar hann hefur ekki tiltekið hvaða hlutur á að falla til hvers rétthafa. Við aðstæður sem þessi stafliður tekur til geta oft risið álitamál. Það getur t.d. gerst þegar vátryggingartaki tilnefnir einn mann fyrst, en síðar annan. Oft mundi litið svo á að síðari tilnefningin fæli í sér afturköllun á hinni fyrri, en það réðist þó af atvikum.
    Í c-lið er ákvæði sem ætlað er að koma í stað núgildandi 106. gr. VSL og er gerð tillaga um breytingu. Samkvæmt gildandi reglum fellur tilnefning niður ef rétthafinn deyr á undan vátryggingartaka. Tillaga frumvarpsins miðast við að í þeim tilvikum falli hlutur rétthafa til lögerfingja hans, en það er sú regla sem gildir í erfðarétti þegar bréferfingi deyr á undan arfláta.
    Í d-lið er tekið af skarið um það að ef maki vátryggðs er tilnefndur sem rétthafi gildi ákvæði 2. mgr. 100. gr., sem á við í tilvikum er vátryggingarfjárhæðin fellur til maka vátryggingartaka við andlát hans, þ.e. þegar hann hefur ekki ráðstafað henni. Um skýringar á þessu vísast til athugasemda við 100. gr. Rétt er þó að taka fram að ákvæði þessa stafliðar tekur bæði til tilvika er vátryggingartaki hefur vátryggt eigið líf og tilnefnt maka sinn og líka þegar hann hefur vátryggt líf annars manns og tilnefnt maka hans sem rétthafa.
    Í e-lið er regla sem mælir fyrir um að skýra skuli tilvísun til erfingja í tilnefningu svo að hún taki einnig til bréferfingja. Í þessu felst að reglur erfðaréttar eiga að ráða skiptingu vátryggingarfjárhæðarinnar, sem felur í sér að ef um skylduerfingja er að ræða gengur einungis sá hluti sem heimilt er að ráðstafa með erfðaskrá til bréferfingja. Við mat á því hvernig ætti að ráða til lykta álitamálum um þetta yrði að byggja á sjónarmiðum erfðaréttar.
    Í f-lið eru ákvæði um það þegar vátrygging er veðsett við andlát vátryggingartaka sem ráðstafað hefur réttindum samkvæmt henni með tilnefningu rétthafa. Í þeim tilvikum á rétthafinn að víkja fyrir hagsmunum veðhafans.

Um 104. gr.

    Í greininni eru reglur um hvernig fer með réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi þegar rétthafi er tilnefndur. Greinin kemur í stað reglna sem nú eru í 108.–110. gr. og 112. gr. VSL. Ekki eru gerðar tillögur um róttækar breytingar.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er ákvæði sem er efnislega eins og 1. mgr. 108. gr. VSL. Í ákvæðinu felst að sá sem tilnefndur er sem rétthafi öðlast ekki lögvarinn rétt til greiðslna samkvæmt vátryggingarsamningi, heldur getur aðeins gert sér vonir um greiðslur. Að þessu er áður vikið. Af þessu leiðir að vátryggingartakinn hefur áfram fullan ráðstöfunarrétt yfir vátryggingunni þótt það kunni að skerða hagsmuni rétthafans. Vátryggingartakinn hefur ekki aðeins heimildir til að gera ráðstafanir, heldur einnig rétt til þess að taka út endurkaupsverð vátryggingarinnar og skerða þar með hlut rétthafans, stytta eða lengja vátryggingartímann o.fl. Í 2. málsl. er ákvæði um betri rétt veðhafa en þess sem tilnefndur hefur verið sem rétthafi. Um er að ræða sömu reglu og í f-lið 103. gr.
    Í 2. mgr. segir að þegar tilnefning hefur verið gerð óafturkallanleg með réttum hætti megi vátryggingartaki ekki með ráðstöfunum yfir vátryggingunni baka rétthafanum tjón. Reglan er efnislega eins og 2. mgr. 108. gr. VSL. Eins og áður greinir er það fyrst þegar rétthafinn hefur fengið loforð frá vátryggingartaka um að tilnefning sé óafturkallanleg sem hann öðlast lögvarinn rétt til þeirra greiðslna sem honum hafa verið ánafnaðar. Eftir það er vátryggingartakanum óheimilt að skerða hagsmuni hans með ósamþýðanlegum ráðstöfunum. Vátryggingartaki getur samt hætt að greiða iðgjaldið þótt hann kunni að baka sér við það bótaábyrgð gagnvart rétthafanum, allt eftir efni samninga þeirra.
    Í 1. málsl. 3. mgr. er ákvæði sem efnislega svarar til 109. gr. VSL. Skv. 1. málsl. er rétthafanum óheimilt að ráðstafa réttindum sínum fram til þess tímamarks er vátryggingaratburður verður. Þetta gildir hvort sem tilnefning er óafturkallanleg eða ekki. Í 2. málsl. er ákvæði sem svarar til 110. gr. VSL en hún er fyrst og fremst miðuð við tilvik þegar vátryggingartaki hefur vátryggt líf þriðja manns, en tekur einnig til tilvika þegar vátryggingarfjárhæðin á að greiðast síðar en við andlát vátryggingartakans/vátryggðs. Við slíkar aðstæður yfirtekur rétthafinn allar heimildir vátryggingartaka, þ.m.t. rétt hans til ráðstöfunar yfir vátryggingunni. Vakin skal athygli á því að atvik geta leitt til annarrar niðurstöðu eins og sérstaklega er tekið fram í niðurlagi málsgreinarinnar.

Um 105. gr.

    Reglur þessarar greinar frumvarpsins eiga að koma í stað reglna sem nú eru í 2. mgr. 104. gr. VSL. Þær reglur miða við að tilnefning falli niður við tilgreindar aðstæður og eru engir valkostir í því efni. Þær reglur sem hér er gerð tillaga um eru á aðra lund. Þær fela í sér kost á því að hnekkja tilnefningu rétthafa ef hún er bersýnilega ósanngjörn. Möguleikarnir til að hnekkja tilnefningu eru þrengri samkvæmt þeirri reglu sem hér er gerð tillaga um. Á hinn bóginn er í henni ekki gerður greinarmunur á afturkallanlegum og óafturkallanlegum tilnefningum eins og gert er í 2. mgr. 104. gr. VSL.
    Samkvæmt 1. mgr. er mögulegt að hnekkja tilnefningu ef það er til hagsbóta fyrir maka eða skylduerfingja vátryggingartaka. Í 2. mgr. 104. gr. VSL er einnig notað orðið lífserfingi sem ekki er notað hér. Það er skilyrði fyrir því að heimildin verði notuð að vátryggingartaki hafi framfært eða honum verið skylt að framfæra skylduerfingja. Það er einnig skilyrði að ef tilnefning rétthafa hefði ekki verið gerð hefði makinn eða aðrir skylduerfingjar átt kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr. Það felst í framangreindu að ef vátryggingartaki lætur eftir sig maka, þá kemur ekki til álita að aðrir skylduerfingjar geti hnekkt tilnefningu, því skv. 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. fellur öll vátryggingarfjárhæðin til maka hafi tilnefning ekki farið fram. Það er fyrst ef hjúskap er slitið á þann veg sem greinir í 2. mgr. 100. gr. sem aðrir skylduerfingjar gætu sett fram kröfur um að tilnefningu væri hnekkt. Þeir gætu það einnig ef vátryggingartaki léti ekki eftir sig maka.
    Aðeins er unnt að hnekkja tilnefningu samkvæmt þessari grein ef hún er bersýnilega ósanngjörn gagnvart makanum eða öðrum skylduerfingjum. Af framangreindu er alveg ljóst að ekki kemur til þess að tilnefningu verði hnekkt nema í algerum undantekningartilvikum, svo þröngar eru heimildirnar til þess. Við sanngirnismatið ber að líta til þeirra atriða sem tilgreind eru í 2. málsl. Upptalningin þar er ekki tæmandi, eins og orðalagið ber með sér.
    Ákvæðið miðast við að tilnefningu geti verið hnekkt í heild eða að hluta, allt eftir því hver verður niðurstaða sanngirnismatsins.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem ekki heimilar í sjálfu sér að hnekkja ráðstöfun, heldur felur í sér undantekningarheimild frá þeirri reglu sem er í 2. mgr. 100. gr. um að vátryggingarfjárhæðin falli til maka þegar vátryggingartaki hefur ekki ráðstafað henni. Einnig þá er gerð krafa um að það teljist bersýnilega ósanngjarnt að makinn hljóti alla vátryggingarfjárhæðina og líka er gerð krafa um að skylduerfinginn hafi verið á framfæri vátryggingartaka eða honum hafi verið skylt að framfæra hann.
    Í 3. mgr. er regla um árs málshöfðunarfrest til þess að láta reyna á heimildir skv. 1. og 2. mgr. Frestinum telst slitið er mál er höfðað.
    Ákvæði 4. mgr. tekur til þess þegar vátryggingarfjárhæðin hefur verið greidd. Þá er einungis unnt að hnekkja greiðslu til rétthafa eða maka að því leyti sem fjárhæðin er ennþá til hjá þeim þegar þeir fengu upplýsingar um kröfuna. Önnur regla gæti leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu.

Um 106. gr.

    Greinin lýtur að heimildum til að framselja réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi.
    Af 1. málsl. leiðir að heimilt er að framselja réttindi samkvæmt vátryggingarsamningi. Í raun er hagnýt þýðing þessarar reglu almennt einungis bundin við einstaklingsbundnar líftryggingar sem eru höfuðstólstryggingar. Regla 1. málsl. svarar til 1. málsl. 111. gr. VSL. Rétt er einnig að minna á skilgreiningu á orðinu vátryggingartaki í b-lið 62. gr. frumvarpsins, en eins og þar greinir tekur orðið einnig til þess sem fengið hefur eignarrétt að vátryggingunni. Í 2. málsl., sem er sama efnis og 2. málsl. 111. gr. VSL, segir að allar fyrri tilnefningar á rétthöfum falli brott nema um annað sé samið eða leiði af aðstæðum. Hafi rétthafa verið lofað því að tilnefning hans sé óafturkallanleg verða hagsmunir hans ekki skertir með framsali. Ráðstafanir sem eru ósamþýðanlegar réttindum hans yrðu leystar eftir reglum 114. gr. frumvarpsins. Sem dæmi um tilvik þar sem það getur leitt af aðstæðum að framsal eigi ekki að leiða til niðurfellingar á tilnefningu rétthafa er þegar vátryggingartaki, sem tilnefnt hefur barn sitt og maka síns sem rétthafa, framselur vátrygginguna til makans. Í slíku tilvik mundi tilnefning barnsins ekki endilega falla niður.

Um 107. gr.

    Greinin hefur að geyma reglur um veðsetningu vátryggingarinnar. Í 112. gr. VSL eru reglur um sama efni og eru ekki gerðar tillögur um róttækar breytingar á þeim.
    Í 1. málsl. er yfirlýsing um að höfuðstólstryggingu megi veðsetja. Í 2. og 3. málsl. eru á hinn bóginn ákvæði sem marka réttarstöðu veðhafans. Skv. 2. málsl. heimilar veðrétturinn veðhafanum að fá vátryggingarfjárhæðina greidda þegar hún fellur til og einnig rétt til þess að fá endurkaupsverð vátryggingarinnar. Til að öðlast þann rétt þarf vátryggingaratburður ekki að hafa orðið, sbr. síðar. Í 3. málsl. er kveðið svo á að veðrétturinn taki ekki til ágóðahlutdeildar sem við vátryggingarfjárhæðina kann að bætast. Hér er ekki um að ræða fyrir fram umsamda vexti eða ávöxtun á vátryggingarfjárhæðina heldur ófyrirséða ágóðahlutdeild sem kann að koma til af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þess að tjónatíðni er lág í tilteknum hópi sem vátryggingartaki tilheyrir, eða af öðrum sérstökum ástæðum. Rökin fyrir því að slík ágóðahlutdeild falli utan veðréttarins eru fyrst og fremst þau að þetta séu fjármunir sem veðhafinn hafi ekki mátt reikna með að fá og það yrði því ávinningur fyrir hann sem hann ætti ekki rétt á. Eðlilegt er að vátryggingartakinn eða rétthafinn, sé um hann að ræða, njóti þess hagræðis að fá slíka óvænta ágóðahlutdeild.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það, með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, að félagið geti ekki án samþykkis veðhafans innt af hendi gjaldfallnar greiðslur samkvæmt vátryggingunni til annarra en veðhafans. Í téðri grein laganna um samningsveð eru ítarlegar reglur um réttarstöðu veðhafa í viðskiptabréfum, innlausnarbréfum og almennum fjárkröfum. Tilvísun til greinarinnar felur í sér að þær reglur gildi um réttarstöðu veðhafa í réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi.
    Í 3. mgr. eru reglur um þær aðstæður að veðkrafan fellur í gjalddaga áður en vátryggingarfjárhæðin fellur til. Þá á veðhafinn að liðnum þeim tveggja mánaða fresti sem tiltekinn er rétt á því að fá endurkaupsverð vátryggingarinnar greitt að því marki sem þarf til fullnustu veðkröfunnar. Veðhafinn á ekki aðra kosti tiltæka til að fá fullnustu á veðkröfunni við þessar aðstæður.
    Ákvæði 4. mgr. á aðeins við í tilvikum þegar dánarbú vátryggðs greiðir veðkröfuna. Sérstaklega skal áréttað að þótt vátryggður hafi fyrir andlát sitt greitt veðkröfuna í heild að eða hluta getur dánarbúið ekki krafist endurgreiðslu af vátryggingarfjárhæðinni. Það á aðeins slíka kröfu hafi það sjálft innt af hendi slíka greiðslu eftir andlát vátryggðs.

Um 108. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um brottfall réttar til að krefjast vátryggingarfjárhæðarinnar. Greinin á sér ekki samsvörun í VSL. Reglur greinarinnar byggjast á þeirri forsendu að háttsemi sú sem um ræðir af hálfu þess er rétt á til vátryggingarfjárhæðarinnar leiði til þess að hann sé ekki verðugur hennar.
    Í 1. málsl. er lagt til að ákvæði 23. gr. erfðalaga um brottfall erfðaréttar gildi um þann sem rétt á til vátryggingarfjárhæðarinnar samkvæmt þessum kafla. Í 1. mgr. 23. gr. erfðalaga segir að hafi maður af ásetningi framið brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, sem haft hefur í för með sér dauða annars manns, megi ákveða með dómi að hann hafi fyrirgert sjálfum sér til handa rétti til þess arfs sem háður var dauða hins. Í 2. mgr. 23. gr. erfðalaga er heimilað að ákveða með dómi að maður skuli sviptur erfðarétti eftir foreldri sitt eða annan ættingja í beinan legg upp á við ef hann hefur haft í frammi vísvitandi ofbeldi, heitingar um það eða aðrar stórfelldar misgerðir svo refsivert sé. Svipting erfðaréttar í síðargreinda tilvikinu færi fram að kröfu þess sem misgert er við. Það verður að telja eðlilegt að sömu sjónarmið eigi við um rétt til vátryggingarfjár og rétt til arfs við slíkar aðstæður.
    Tilvitnað ákvæði 1. mgr. 23. gr. erfðalaga á einungis við er arfláti deyr vegna háttsemi þess sem erfðarétt átti eftir hann. Í þeim fáu tilvikum sem annar en vátryggður gæti átt rétt til greiðslu á vátryggingabótum vegna örorku vátryggðs eru sömu rök fyrir fyrirgerð réttar til vátryggingarfjárins. Er því bætt við ákvæði í 2. málsl. greinarinnar þar sem segir að regla 1. málsl. eigi einnig við þegar örorka er afleiðing þeirrar háttsemi sem erfðalagaákvæðið tekur til.
    Í 3. málsl. er ákvæði sem er nauðsynlegt í ljósi þess að réttaráhrif fyrirgerðar erfðaréttar eru þau að arfshluti sá er manni hefði borið gengur til þess sem taka mundi arf eftir hann samkvæmt lögerfðareglum. Hafi A þannig fyrirgert erfðarétti sínum eftir afa sinn tekur sonur A arfinn eins og A væri látinn. Ákvæði 3. málsl. tryggir að ef vátryggingarfjárhæðin rennur ekki til vátryggingartakans renni hún til vátryggðs, en sé hann látinn þá til erfingja hans samkvæmt tilvitnuðum reglum 100. gr.

Um 109. gr.

    Reglur þessa kafla eru fyrst og fremst sniðnar að höfuðstólstryggingum. Margar þeirra eiga ekki eða illa við um lífeyristryggingar. Eðlilegt þykir þó að leggja til að reglur kaflans eigi einnig við um lífeyristryggingar nema annað sé ákveðið í lögum eða vátryggingarskilmálum. Er þetta ekki síst vegna þess að útilokað er að spá fyrir um þróun á þessu sviði og ekki útilokað að fjölbreytni í persónutryggingum muni aukast í framtíðinni.

Um XVI. kafla.

    Í þessum kafla eru reglur um réttarsambandið við skuldheimtumenn. Um það eru nú ákvæði einkum í 116. og 117. gr. VSL. Nánar tiltekið eru í kaflanum reglur um möguleika kröfuhafa til þess að leita fullnustu í þeim verðmætum sem felast í persónutryggingum. Reglur eru um heimildir kröfuhafa til þess að leita fullnustu í vátryggingarfjárhæðum sem fallið hafa til og þeim sem ekki hafa fallið til, reglur um riftun iðgjaldagreiðslna við gjaldþrotaskipti o.fl. Í tillögum þeim sem gerðar eru með reglum þessa kafla felst aukin vernd gegn kröfuhöfum í þeim tilvikum er vátryggingarfjárhæð hefur fallið til. Auk þess eru möguleikar á riftun rýmkaðir því miðað er við að riftunarheimildir gildi einnig þegar nauðasamningur hefur verið staðfestur, svo og við opinber skipti á dánarbúum, en það samrýmist einnig reglum síðastgreindra laga og laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.
    Rökin fyrir aukinni vernd gegn skuldheimtumönnum eru fyrst og fremst þau að persónutryggingar eru almennt teknar til þess að fólk geti haldið í horfinu fjárhagslega þrátt fyrir andlát, sjúkdóma og slys. Síðari tíma viðhorf hafa játað mönnum rýmri rétt til þess að halda sjálfir nauðsynlegustu heimilismunum og ýmsum lágmarksgreiðslum þótt þeir lendi í fjárhagslegum ógöngum. Þannig eru mestar líkur til þess að þeir geti náð sér fyrr á strik aftur í daglegu lífi. Þessi sjónarmið eiga einnig við um greiðslur samkvæmt persónutryggingum og því eru takmarkanir á því við hvaða aðstæður kröfuhafar geta leitað fullnustu krafna sinna.
    Ekki eru gerðar tillögur um verulegar breytingar á réttarstöðu skuldheimtumanna fram að því tímamarki er vátryggingarfjárhæðin fellur til. Af því leiðir að ógjaldfallnar greiðslur samkvæmt persónutryggingum munu áfram njóta víðtækrar verndar gegn skuldheimtumönnum. Frá þessu eru undantekningar, ekki síst vegna riftunarheimilda við gjaldþrot, eftir staðfestingu nauðasamnings og við opinber skipti á dánarbúum, en það á þó fyrst og fremst við um riftun iðgjaldagreiðslna sem aftur leiðir til lækkaðrar vátryggingarfjárhæðar eða jafnvel til þess að hún fellur niður, allt eftir atvikum.
    Á hinn bóginn eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á gildandi reglum þegar um er að ræða vernd gegn skuldheimtumönnum eftir að krafa samkvæmt vátryggingarsamningi er gjaldfallin, þ.e. hefur fallið til. Lagt er til að meginreglan verði sú að vátryggingarfjárhæð sem fellur til við andlát vátryggðs njóti (tímabundinnar) verndar gegn skuldheimtumönnum hins látna, óháð því hvort rétthafi hefur verið tilnefndur eða ekki, en það hefur samkvæmt VSL verið skilyrði slíkrar verndar. Um þetta má vísa til 1. mgr. 104. gr. VSL, en þó einkum til 1. mgr. 116. gr. VSL. Auk framangreinds eru einnig gerðar tillögur um nokkra vernd gegn skuldheimtumönnum vátryggðs þegar vátryggingarfjárhæðin fellur til á meðan hann er á lífi. Þetta eru fyrst og fremst tilvik þegar líftrygging kemur til greiðslu við það að tilteknum aldri er náð. Er gerð sú tillaga að eitt ár þurfi að líða frá því að slík greiðsla fellur til og þar til skuldheimtumenn geta leitað fullnustu í henni. Reglan hefur rýmra gildissvið, svo sem síðar verður gerð grein fyrir.

Um 110. gr.

    Í þessari grein eru almennar reglur um rétt skuldheimtumanna sem fremur mætti þó lýsa sem reglum um takmarkanir á rétti þeirra. Í 1. mgr. er fjallað um aðstæður fram að því tímamarki er vátryggingaratburður verður en í 2. og 3. mgr. eru reglur um aðstæður eftir það tímamark. Loks eru í 4. mgr. sérstakar reglur um lífeyristryggingar.
    Í 1. mgr. eru ekki gerðar tillögur að miklum breytingum á gildandi rétti, svo sem fyrr greinir. Meginreglan skv. 1. málsl. er að réttur samkvæmt vátryggingarsamningi getur ekki orðið andlag fullnustu skuldheimtumanna nema réttindin hafi verið framseld öðrum en maka vátryggingartaka eða hinum vátryggða. Það er í samræmi við gildandi rétt að maki njóti slíkrar verndar en lagt er til að reglan verði rýmkuð og látin ná einnig til vátryggðs. Það hefur einkum þýðingu þegar vátrygging er tekin á lífi þriðja manns. Í reglunni felst að þegar þriðji maður, þ.e. sá hvers líf er vátryggt, fær réttindin framseld eigi hann að fá sömu stöðu og vátryggingartaki og njóta sömu verndar. Vernd gegn skuldheimtumönnum er þess vegna því aðeins aflétt að vátrygging sé framseld í venjulegri merkingu þess orðs, þ.e. á sömu forsendum og kröfur almennt eru framseldar sem liður í viðskiptum til annarra en maka og vátryggðs. Sá sem hefur verið tilnefndur rétthafi samkvæmt vátryggingu nýtur þannig verndar gegn skuldheimtumönnum. Verndin gildir einnig þótt tilnefning hans sé óafturkallanleg og það þótt hann hafi innt af hendi greiðslu fyrir. Meginreglan er því sú að kröfuhafaverndinni er einungis aflétt við framsal í venjulegri merkingu.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er mælt fyrir um að ef skuldheimtumenn framsalshafa leita fullnustu í andvirði vátryggingarinnar verði þeir að fara að eins og mælt er fyrir um í 3. mgr. 107. gr. frumvarpsins.
    Reglur 1. mgr. eiga fyrst og fremst við um almennar samsettar líftryggingar, þ.e. líftryggingar þar sem endurkaupsverðið hefur sérstaka þýðingu fyrir kröfuhafa. Gildissvið reglnanna er þó ekki takmarkað við slíkar tryggingar, heldur er það persónutryggingar almennt, að frátöldum lífeyristryggingum, en um þær gilda sérstakar reglur, sbr. 4. mgr.
    Í 2. og 3. mgr. eru ákvæði um réttarstöðu gagnvart skuldheimtumönnum eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Á þessu sviði eru tillögur um nokkrar róttækar breytingar. Skv. 2. mgr. verður vátryggingarfjárhæð sem fellur til greiðslu við andlát ekki andlag fullnustu skuldheimtumanna hins látna nema annað hafi verið ákveðið við tilnefningu rétthafa. Vátryggingarfjárhæðin greiðist beint til þess eða þeirra sem eiga rétt til hennar samkvæmt reglum XV. kafla, án þess að skuldheimtumenn hins látna geti gert aðför í þeim. Það ber að leggja áherslu á það að verndin er aðeins gagnvart skuldheimtumönnum hins látna. Það er engin slík vernd til staðar gagnvart skuldheimtumönnum þess sem á rétt til greiðslunnar. Frávik frá þessu er þó að því er varðar skuldheimtumenn maka hins látna. Það er einnig gerð annars konar undantekning frá þessu, þ.e. ef annað hefur verið ákveðið við tilnefningu rétthafa. Það getur verið að vátryggingartaki hafi einmitt viljað að vátrygging sú sem hann tók á eigin lífi yrði notuð til þess að greiða skuldir hans eftir andlátið. Hann getur komið því við með þeim hætti að tilnefna dánarbú sitt sem rétthafa. Með því verður vátryggingarfjárhæðin andlag fullnustu skuldheimtumanna hans eins og aðrar eignir dánarbúsins.
    Í 1. málsl. 3. mgr. eru reglur um að skuldheimtumenn verði að bíða í eitt ár með að leita fullnustu í kröfu vátryggðs til vátryggingarfjárhæðar sem fellur til á meðan hann er enn á lífi, en það á einkum við um líftryggingar sem koma til greiðslu við tiltekinn aldur eða vegna örorku hans. Að þessu ári liðnu fellur verndin niður. Verndin á aðeins við um kröfu á hendur félaginu á meðan fjárhæðin er varðveitt á reikningi þess. Ef vátryggður hefur fengið vátryggingarfjárhæðina greidda fellur verndin niður.
    Í 2. málsl. 3. mgr. er mælt fyrir um að maki vátryggðs njóti sömu verndar gagnvart sínum skuldheimtumönnum og vátryggður nýtur skv. 1. málsl. Makinn nýtur þessarar verndar við allar tegundir persónutrygginga og hún er óháð því hvernig krafa makans á hendur félaginu stofnast.
    Við lífeyristryggingar er um rétt skuldheimtumanna til þess að leita fullnustu í lífeyrisgreiðslum vísað til ákvæða aðfararlaga, nr. 90/1989. Í tilvitnuðu ákvæði aðfararlaga eru bæði almenn og sérstök ákvæði um vernd gerðarþola gegn skuldheimtumönnum sínum. Sú sérstaka regla sem hér á einkum við er 5. tölul. 47. gr. aðfararlaga, en samkvæmt því ákvæði verður fjárnám ekki gert í kröfu um greiðslu samkvæmt frjálsri lífeyristryggingu ef sérstök lagaheimild leiðir til undanþágu hennar frá fjárnámi eða samið hefur verið um hana með gildum hætti í upphafi. Önnur ákvæði aðfararlaga um vernd gegn skuldheimtumönnum, sem einkum er að finna í 45.–50. gr. laganna, gilda einnig um vernd þess er lífeyris nýtur, eins og annarra. Er ekki ástæða til sérstakrar greinargerðar um stöðu hans almennt.

Um 111. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um riftun iðgjaldagreiðslu við gjaldþrotaskipti o.fl. Í greininni er einkum lýst skilyrðum riftunar, en um það verður líka að hafa til hliðsjónar ýmsar reglur XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum þær reglur sem lúta að endurgreiðslunni, að hverjum krafan getur beinst og fjárhæð hennar.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er mælt fyrir um að þrotabúi, skuldara ef nauðasamningur kemst á og dánarbúi, sem tekið er til opinberra skipta sem skuldafrágöngubú og ákveðið er skv. 3. mgr. 62. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, að fara með eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti, sé heimilt að rifta iðgjaldsgreiðslum að uppfylltum síðar greindum skilyrðum. Í fyrirsögn greinarinnar og í athugasemdum þessum er notað orðið riftun um þetta réttarúrræði. Það er í samræmi við hugtakanotkun í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Árétta ber þó að þetta er ekki riftun í skilningi fjármunaréttar, enda felst ráðstöfunin í kröfu um endurgjald sem ákveðið er með tilteknum hætti. Vátryggingarsamningnum er ekki rift, hann stendur eftir sem áður, en þó með breyttum skyldum félagsins til samræmis við það endurgjald sem það innir af hendi. Regla greinarinnar er sérregla um riftun. Í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er safnað á einn stað reglum sem heimila riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Í 32. gr. laganna er mælt fyrir um að riftunarreglum XX. kafla verði almennt einnig beitt ef nauðasamningur kemst á og í 3. mgr. 62. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. kemur fram að við tilteknar aðstæður beri að fara með skipti skuldafrágöngubúa eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sú tilvísun á við um riftunarreglur þeirra laga. Sérregla sú um riftun sem hér er gerð tillaga um hefur sama gildissvið, en taka verður það sérstaklega fram til þess að taka af öll tvímæli, enda er það ekki gert annars staðar í lögum.
    Forsendur mats á því hvort riftun sé tæk er hvort iðgjald það sem greitt var á síðustu þremur árum fyrir frestdag var bersýnilega ósanngjarnt miðað við fjárhagsstöðu vátryggingartaka og atvik að öðru leyti. Viðmiðunin ,,bersýnilega ósanngjörn“ er ströng og víst að mikið þarf til að koma svo riftun verði heimiluð. Mál þurfa nánast að fela í sér undanskot fjármuna, a.m.k. hlutlægt séð, enda er hér ekki gerð krafa um grandsemi vátryggingartaka um fjárhagsstöðu hans. Á hinn bóginn kann það að skipta máli við sanngirnismatið hvort greiðsla iðgjaldsins hefur staðið lengi, t.d. hafist löngu áður en fjárhagur hans tók að versna. Slíkar aðstæður mundu almennt mæla gegn riftun.
    Fjárhæð endurgjalds miðast við aukningu í verðmæti vátryggingarinnar sem á rætur að rekja til hinnar bersýnilega ósanngjörnu iðgjaldagreiðslu. Í þessu felst hlutfallslegt mat. Sem dæmi má taka vátryggingartaka sem greiddi 300.000 kr. í iðgjald á ári sem teldist innan marka, en allt umfram þá fjárhæð væri talið bersýnilega ósanngjarnt. Ef vátryggingartaki hefði greitt 600.000 kr. í iðgjald á ári, sem hefði leitt til þess að verðmæti vátryggingarinnar tvöfaldaðist, mundi helmingur hennar greiddur til baka við riftun samkvæmt greininni. Í lokamálslið 1. mgr. er þó regla sem getur breytt aðstæðum nokkuð. Hún á við í lífeyristryggingum og er reist á því að ef greiðsla iðgjalds hefur áhrif til lækkunar á tekjuskattsstofn vátryggingartaka hlýtur það að skipta máli við sanngirnismatið, því þá hefur vátryggingartakinn þegar notið ávinnings af iðgjaldagreiðslum sínum sem ætti einnig að koma skuldheimtumönnum til góða í meiri eignum hans. Ekki er líklegt að þessi möguleiki hafi mikil áhrif samkvæmt gildandi löggjöf, a.m.k. ekki að því er varðar tekjur utan atvinnurekstrar, enda skattfrelsi iðgjaldagreiðslna þar háð því að um sé að ræða lífeyrisiðgjöld samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
    Kröfu um riftun og endurgreiðslu ber að hafa uppi á hendur félaginu. Það yrði gagnaðili í dómsmáli um riftun og endurgreiðslukröfu í samræmi við það sem gert er ráð fyrir í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hagsmunir félagsins af því að halda uppi vörnum eru þó takmarkaðir. Það eru fyrst og fremst hagsmunir vátryggingartaka eða þess sem taka á við vátryggingarfjárhæðinni sem yrðu varðir í slíku máli. Til þess að þeim gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna er í 2. mgr. lagt á þann sem höfðar málið að tilkynna þeim um málsóknina. Sá er höfðar málið hefur a.m.k. tvo kosti um tilkynningar til þess að fullnægja lagaskyldu sinni um það efni. Hann getur sent venjulega tilkynningu með sannanlegum hætti sem gæti þá gefið vátryggingartaka eða þeim sem getur átt rétt á greiðslu tilefni til þess að höfða meðalgöngusök í máli eftir reglum 20. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Hann gæti einnig stefnt þeim, svo sem gert er ráð fyrir í 21. gr. laganna, en einnig þá er það á valdi þeirra hvort þeir gerast aðilar að máli með meðalgöngu, eða hvort þeir nýta eingöngu þær heimildir sem eru í 21. gr. til að freista þess að hafa áhrif á málsúrslit. Fari þeir þannig að eru þeir ekki málsaðilar og hafa t.d. ekki heimild til þess að áfrýja máli. Það geta þeir einungis ef þeir gerast meðalgönguaðilar í málinu.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að riftunarkröfu og kröfu um endurgjald megi hafa uppi gegn þeim sem fengið hefur vátryggingarfjárhæð greidda. Það verður þó að gerast með sömu skilyrðum og lýst er í 4. mgr. 105. gr. ef fjárhæðin hefur verið notuð í heild eða að hluta frá því að greiðslan átti sér stað og þar til tilkynning um riftun og endurgjaldskröfu er send.
    Í 4. mgr. eru reglur sem fela í sér undantekningar frá riftunarheimildinni og endurgjaldskröfunni að því leyti sem réttindi samkvæmt vátryggingu eru veðsett og einnig hafi þau verið framseld eða rétthafi tilnefndur með óafturkallanlegum hætti. Í tveimur síðari tilvikunum gildir þó undantekningin aðeins að því leyti sem framsalshafi eða rétthafinn hafa greitt fyrir það sem þeir hafa fengið eða verið lofað. Gengið er út frá því að veðhafinn hafi greitt kröfuna sem hann fær veðið til tryggingar á og er því ekki ástæða til að taka það fram sérstaklega. Sérstaklega skal getið að riftunarregla 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um riftun á veðsetningu á eldri skuld getur átt við um slíkar veðsetningar ef önnur riftunarskilyrði eru fyrir hendi.
    Loks segir í 5. mgr. að reglur 1.–4. mgr. gildi einnig um tilvik er rétthafi eða annar sem vísað er til í málsgreininni hafa greitt iðgjald. Verður að telja að sömu rök eigi við um þá, enda njóta þeir ríkrar verndar gegn skuldheimtumönnum um rétt sinn eða væntingar til vátryggingarfjárhæðarinnar.

Um XVII. kafla.

    Í þessum kafla eru ákvæði um skráningu líftrygginga, sem gerð er tillaga um í frumvarpinu. Tillögurnar munu leiða til þess að líftryggingarskírteini verða ekki lengur viðskiptabréf í lögfræðilegum skilningi.
    Viðskiptabréf eru öll þau bréf sem ganga manna á milli í viðskiptum með sama hætti og skuldabréf, þannig að þörf sé á að sams konar reglur gildi um þau og gilda um skuldabréf, þ.e. svonefndar viðskiptabréfsreglur. Viðskiptabréf í íslenskri réttarframkvæmd hafa fyrst og fremst verið skuldabréf, nafnbréf eða handhafabréf, víxlar, tékkar, farmskírteini, hlutabréf og líftryggingarskírteini. Kjarni viðskiptabréfsreglnanna, og það sem er grundvöllur þýðingar þeirra í viðskiptum, er að viðskiptabréfið stofnar rétt samkvæmt hljóðan sinni. Þessar reglur gera viðskipti með viðskiptabréf jafnörugg og raun ber vitni. Sá sem fær viðskiptabréf framselt á að geta verið viss um það að hann fær þau réttindi sem skráð eru á bréfið og tekur á sig þær skyldur eða takmarkanir á réttindum sem þar kunna að vera. Hann þarf þess vegna aðeins að kynna sér efni viðskiptabréfsins en ekki rannsaka þau viðskipti sem að baki því búa. Hann getur því öðlast meiri rétt en eigandi bréfsins átti í raun, þ.e. ef bréfið ber það með sér. Ýmsar mótbárur kunna að glatast við framsal. Viðskiptabréfsreglurnar gilda aðeins við framsal en sjaldnast við aðilaskipti sem fram fara með öðrum hætti. Mörg viðskiptabréf hafa haft verulega þýðingu í viðskiptalífi. Nægir einkum að nefna skuldabréf, tékka, víxla og hlutabréf. Þótt viðskiptabréfsreglur hafi ekki breyst efnislega hafa ýmsar aðstæður í þjóðfélaginu breyst svo við það að tölvutækni hefur fleygt fram, að fjarað hefur undan viðskiptabréfum í viðteknum skilningi. Reyndar má fullyrða að þýðing líftryggingarskírteinis sem viðskiptabréfs í íslensku viðskiptalífi hafi alltaf verið takmörkuð, þótt eitthvað kunni það að vera breytilegt eftir tímum. Þær breytingar sem hafa orðið eru að í auknum mæli hefur verið hætt að gefa út á pappír skilríki fyrir þeim réttindum sem felast í viðskiptabréfum. Flokkar ýmissa skuldabréfa eru nú aðeins gefnir út rafrænt, hlutabréf eru í auknum mæli gefin eingöngu út rafrænt, þýðing víxla hefur minnkað verulega í viðskiptum og tékkar hafa að stórum hluta verið leystir af með greiðslukortum hvers konar, þar sem skuld- og tekjufærslur eru allar rafrænar.
    Með lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, má segja að stigið hafi verið stórt skref í þá átt að hverfa frá beitingu viðskiptabréfsreglna í viðskiptum með þau bréf. Með lögunum er mælt fyrir um rafræna útgáfu verðbréfa (rafbréf), skráningu eignarréttinda yfir þeim með þeim réttaráhrifum sem kveðið er á um í lögunum. Rafbréf eru nefnd í lögunum framseljanleg rafrænt skráð verðbréf. Í lögunum er mælt fyrir um heimildir til að setja á stofn verðbréfamiðstöð og samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna skal skrá réttindi að rafbréfum í verðbréfamiðstöð, ,,ef þau eiga að njóta réttarverndar gegn fullnustugerðum og ráðstöfunum með samningi“, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna. Í 2. málsl. sömu greinar segir efnislega að óheimilt sé að gefa út viðskiptabréf fyrir skráðum réttindum samkvæmt rafbréfi eða framselja þau og að slík viðskipti séu ógild. Eru einnig ákvæði um skráninguna, aðferðir við hana, forgangsrétt og fleira. Í 19. gr. laganna segir að eftir að lokafærsla á sér stað í verðbréfamiðstöð verði réttindi grandlauss framsalshafa ekki vefengd. Það sé aðeins við meiri háttar nauðung og fölsun sem mótbárur glatist ekki. Með reglunum um rafræna eignarskráningu verðbréfa er í raun verið að hverfa frá kerfi sem byggist á því að viðskiptabréf (verðbréf) sé skjal sem beri með tæmandi hætti með sér öll þau réttindi og þær skyldur sem krafan lýtur að til kerfis þar sem öll réttindin og skyldurnar, sem tengdar eru skjalinu, séu skráð með tæmandi hætti í rafrænni miðstöð. Það kerfi er líkara kerfi því sem þinglýsingar byggja á, þótt það hafi til skamms tíma ekki verið rafrænt. Hin rafræna skráning mun að líkindum smám saman byggja út hinum hefðbundnu viðskiptabréfum og viðskiptabréfsreglurnar verða þá hafðar til hliðsjónar um réttarstöðu þeirra sem eiga eða eiga ekki rafrænt skráð réttindi.
    Markmiðið með reglum þessa kafla er hvorki að breyta efnislega viðskiptabréfsreglum né hindra viðskipti með líftryggingarskírteini eða þau réttindi sem felast í líftryggingarskírteinum. Það er á hinn bóginn ekki hægt að gera ráð fyrir að nýjar reglur um vátryggingarsamninga, hér líftryggingarsamninga, geri ráð fyrir að líftryggingarskírteinið, þ.e. skjalið sjálft, beri með sér réttindi og takmarkanir á þeim með tæmandi hætti, svo sem verið hefur. Tillögur um líftryggingarskrár miða að því að koma á svipuðu kerfi um skráningu réttinda og takmarkana á þeim samkvæmt líftryggingarsamningi, og komið hefur verið á með lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Sá kostur að hafa skráninguna á líftryggingarskírteinum í verðbréfamiðstöð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa er ekki heppilegur. Í fyrsta lagi hafa líftryggingarskírteini enga þá samstöðu með öðrum viðskiptabréfum sem þar eru skráð að nauðsyn sé á slíkri miðlægri skráningu. Í öðru lagi eru þau réttindi og takmarkanir á þeim svo sérstök að heppilegt er að hafa þau skráð sérstaklega. Í þriðja lagi verður umfang þeirra ekki svo mikið að ástæða sé til að haga skráningunni öðruvísi en svo að það sé ein skrá hjá hverju félagi sem veitir líftryggingarvernd. Í fjórða lagi er í mörgum tilvikum um að ræða málefni sem teljast viðkvæmar persónuupplýsingar eða geta tengst þeim, þannig að hugsanlegt er að Persónuvernd, á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, geri aðrar kröfur til varðveislu þeirra en upplýsinga sem skráðar eru á grundvelli laganna um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Ekki þykir heldur varhugavert að mæla fyrir um að hvert félag sem veitir líftryggingar haldi sína skrá, enda eru þau fá og mun það ekki torvelda eftirlit.
    Fyrir vátryggingafélög sem veita líftryggingar mun slík skráning ekki valda neinum sérstökum vandamálum, en miklu varðar þó að þau haldi kerfisbundið, og eftir þeim reglum sem í frumvarpinu eru, utan um alla skráningu.
    Ákvæði kaflans eiga eingöngu við um líftryggingar en ekki um aðrar persónutryggingar. Ekki er ástæða til að reglurnar hafi víðtækara gildissvið en hér er lagt til.

Um 112. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um líftryggingarskrá sem hvert einstakt líftryggingafélag á að halda. Skráin skal færð þannig að hver samningur verði færður sérstaklega og þau réttindi og takmarkanir á þeim sem honum tengjast. Þau eiga sér ekki, fremur en aðrar reglur þessa kafla, hliðstæðu í VSL.
    Í 1. málsl. er mælt fyrir um skyldu líftryggingafélags til þess að halda líftryggingarskrá. Í framhaldinu er svo kveðið á um hvað eigi að færa í skrána. Ákvörðun þess hvaða upplýsingar ber að færa í skrána miðast við að fullnægt sé þörfum viðskiptaöryggis. Þegar viðskipti, framsal, veðsetning o.fl. með réttindi samkvæmt líftryggingarsamningi, eiga sér stað á að vera hægt að afla upplýsinga úr skránni um hver staða réttinda sé og hvaða skilmálar gildi um samninginn. Ákvæði greinarinnar og annarra ákvæða kaflans um það hvað skuli skrá eru ekki tæmandi í þeim skilningi að félagi sé óheimilt að skrá önnur atriði líka, einkum ef þau samrýmast því markmiði að tryggja viðskipti með réttindin.
    Upptalningin í a–d-lið þarfnast ekki skýringa, en þó er rétt að vekja athygli á því, vegna tilgreiningar á vátryggðum í d-lið, að samkvæmt skilgreiningu í b-lið 62. gr. telst vátryggingartaki einnig sá sem öðlast hefur eignarrétt að vátryggingunni. Framsalshafi félli því undir þetta orð og bæri því að skrá hann.
    Í 2. mgr. eru nánari ákvæði um skráningu á rétti sem einhver kann að öðlast til vátryggingarinnar. Slíkan rétt ber að skrá skv. 1. málsl. Ákvæðið er orðað svo að það skuli skráð ef einhver ,,öðlast rétt“ til vátryggingarinnar. Hér er átt við yfirfærslu réttinda samkvæmt vátryggingarsamningnum. Það gerist t.d. við framsal, við yfirfærslu réttinda vegna erfða eða við að þau færast inn í óskipt bú, eða skv. 3. mgr. 104. gr. þegar vátryggingarfjárhæðin á að greiðast síðar en við andlát vátryggingartaka (vátrygging á lífi þriðja manns og tilvik þar sem vátrygging hefur verið framseld). Þá felst í hinum tilvitnuðu orðum að færa ber í skrána stofnun takmarkaðra eignarréttinda í vátryggingunni en með því er einkum átt við veðsetningu og tilnefningu á rétthafa með óafturkallanlegum hætti. Sérstaklega skal tekið fram að í hinu tilvitnuðu orðum felst ekki að skrá eigi samkvæmt þessari grein tilnefningar sem eru afturkallanlegar, enda hefur ítrekað komið fram í athugasemdum þessum að ,,rétthafinn“ öðlast engan rétt í þeim tilvikum, heldur einungis væntingar um rétt. Í 2. málsl. er mælt fyrir um að það sé skilyrði, ef réttur byggist á frjálsri ráðstöfun, að ráðstöfun sé gerð af þeim sem samkvæmt skránni er vátryggingartaki (þ.m.t. sá er öðlast hefur eignarrétt að skránni). Þessi regla er hin sama og í þinglýsingalögum, nr. 39/1978, sbr. 24.–26. gr. þeirra, en einnig má leiða þessa reglu af 2. mgr. 16. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, þótt það segi ekki beinlínis. Ekki eru reglur um það hvaða kröfur félagið eigi að gera þegar metið er hvort skrá eigi yfirfærslu réttinda fyrir erfð til óskipts bús eða skv. 3. mgr. 104. gr. Af því leiðir að félögin verða að meta sjálf hvað sé fullnægjandi sönnun fyrir því að slík yfirfærsla réttinda hafi átt sér stað. Er eðlilegast að miða við opinber gögn í því efni eftir því sem kostur er.
    Spurningunni um það hver geti krafist færslu í skrána er ekki svarað í frumvarpinu, enda nærtækt að sá gangist fyrir skráningu sem hagsmuni hefur af því. Sú skylda sem lögð er á félagið skv. 3. málsl. að það tilkynni vátryggingartaka og eiganda réttinda um skráninguna ætti að koma í veg fyrir rangar skráningar andstætt réttmætum hagsmunum hans.
    Þótt ekki sé lögð sú kvöð á félagið að rannsaka nákvæmlega hvort ráðstöfun er gild áður en skráning fer fram hvílir rík almenn aðgæsluskylda á því og þess vegna á það að hafna skráningu ef það telur ljóst að krafa um hana byggist á ógildri ráðstöfun. Verður þá sá sem skráningar krefst að leita úrlausnar um meintan rétt sinn.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem efnislega samsvarar 27. gr. þinglýsingalaga og heimilar að afmá ranga skráningu eða skráningu sem síðar er leitt í ljós að er röng, svo og skráningu sem eigandi réttinda samþykkir að verði afmáð.
    Í 4. mgr. er undantekning frá þeirri reglu 2. mgr. að einungis rétt til vátryggingar skuli skrá. Heimilað er í málsgreininni að skrá afturkallanlega tilnefningu rétthafa, en einungis að það sé gert að beiðni vátryggingartaka. Félagið á því ekki að sinna beiðni rétthafans sjálfs um skráningu á þeim rétti, sem hann telur sig eiga í vændum. Vísan 2. málsl. þessarar málsgreinar til 1. mgr. 102. gr. felur það í sér að skráning mundi yfirleitt eiga sér stað samhliða tilnefningu, nema þegar tilnefning er gerð í erfðaskrá skv. 2. mgr. 102. gr., enda er þá ekki um að ræða tilkynningu til félagsins. Ekki þykir rétt að heimila rétthafanum sjálfum að krefjast skráningar. Slíkt gæti leitt til óvissu, því tilnefningin er hvenær sem er afturkallanleg og um það hefur rétthafinn ekkert að segja. Réttur sá sem hann á í vændum er því háður slíkri óvissu að hann hefur ekki ríka hagsmuni af skráningu hans miðað við það óhagræði sem það gæti haft í för með sér ef hann hefði heimild til að krefjast skráningar.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að færa skuli í líftryggingarskrá, sé þess krafist, tilgreindar breytingar á högum vátryggingartaka, þ.e. ef bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta, heimild veitt til að leita nauðsamnings við skuldheimtumenn, eða búið tekið til opinberra skipta samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o.fl. Ákvæði síðast greindra laga gilda um opinber skipti, önnur en gjaldþrotaskipti, ekki aðeins á dánarbúum, heldur einnig öðrum búum. Hið sama á við ef vátryggingartaki er sviptur lögræði. Það eru skiptastjórar sem mundu setja fram slíka kröfu í viðleitni sinni til að tryggja hagsmuni búsins eða kröfuhafa þess. Tilsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum mundi fyrir hönd skuldarans setja fram slíka kröfu en lögráðamaður f.h. hins lögræðissvipta. Ástæða þess að rétt þykir að heimila skráningu á svo breyttum högum vátryggingartaka er fyrst og fremst sú að hann gæti sjálfur misnotað stöðu sína og ráðstafað réttindum ef skráningin færi ekki fram. Það er ævinlega hætta á slíkri misnotkun, einkum þegar menn hafa misst fótanna í fjármálum sínum. Í þessu sambandi ber að árétta að vátryggingartakar, sem hér er átt við, fara samkvæmt lögum ekki með forræði þeirra hagsmuna sem um ræðir, heldur skiptastjórar, tilsjónarmaður eða lögráðamaður. Vátryggingartaki í skilningi þessarar málsgreinar er, sem fyrr segir, bæði upphaflegur vátryggingartaki og sá, sem öðlast hefur eignarrétt að vátryggingunni.
    Í 6. mgr. eru fyrirmæli um frumskráningu í dagbók, en endanlega skráningu eins fljótt og kostur er. Ekki er ólíklegt að unnt sé að ljúka færslu strax, þ.e. endanlegri færslu, og ber þá að gera það. Það kerfi sem hér er sett upp, þ.e. bráðabirgðafærsla í dagbók og endanleg skráning réttinda á sér fyrirmynd í þinglýsingalögum, sbr. II. kafla þeirra.

Um 113. gr.

    Í þessari grein eru reglur um rétt til að krefjast endurrits úr líftryggingarskránni, um efni endurrita og um þagnarskyldu þeirra sem starfa við slíkar skrár. Meginreglan er sú að félagið og starfsmenn þess eigi að gæta þagnarskyldu um efni líftryggingarskrár og að þeir sem heimild hafa til að krefjast endurrits úr skránni eigi að vera tæmandi taldir. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að í skránni eru persónuupplýsingar í skilningi 1. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og ekki óhugsandi að af þeim mætti draga ályktanir um viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. tölul. sömu greinar laganna, einkum gætu verið upplýsingar um heilsuhagi í skilmálum vátryggingarinnar sem álykta mætti frá, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr.
    Í 1. mgr. er vátryggingartaka, maka hans, vátryggðum, rétthafa samkvæmt óafturkallanlegri tilnefningu, veðhafa í réttindum samkvæmt vátryggingarsamningi eða framveðhafa, skiptastjóra í búi sem er til gjaldþrotaskipta, eða opinberra skipta, og tilsjónarmanni með nauðasamningum heimilað að krefjast endurrits úr skránni. Svo sem fyrr greinir er þetta tæmandi upptalning. Álitaefni kann að vera hvort maki vátryggingartaka ætti að vera í þessum hópi, en þar sem hagsmunir hans eru svo samofnir hagsmunum vátryggingartaka þykir það ekki varhugavert. Ekki er á hinn bóginn ástæða til að heimila rétthafa, samkvæmt afturkallanlegri tilnefningu, að krefjast endurrits úr líftryggingarskrá. Ástæðan er hin sama og oft hefur verið tilgreind, þ.e. að hann eigi engan rétt, aðeins væntingar um rétt. Hagsmunir hans eru ekki slíkir að rétt sé að heimila honum þann aðgang að skránni að hann geti krafist upplýsinga úr henni. Veðhafi, framveðhafi og rétthafi samkvæmt óafturkallanlegri tilnefningu hafa ólíka stöðu, sem rétt er að veita þá vernd að heimila aðgang að upplýsingum. Það verður þó að vera skilyrði að þessi réttindi séu skráð þegar þeir biðja um upplýsingar. Fram að skráningu þeirra verða þeir að fá upplýsingar frá vátryggingartaka eða í gegnum hann. Í síðari hluta 1. mgr. er regla sem mælir fyrir um að það séu upplýsingar sem skráðar eru í líftryggingarskrá, með þeim takmörkunum sem síðar greinir, sem veita ber. Í þessari reglu felst að það eru upplýsingar sem eru í skránni á því tímamarki sem endurritið er gefið sem veita á. Félagið hefur því aðeins skyldu til að láta í té skráðar upplýsingar, þ.m.t. þær sem komnar eru í dagbók.
    Með sama hætti og hendir við þinglýsingar og gerð þinglýsingarvottorða og útgáfu veðbókarvottorða geta orðið mistök af hálfu vátryggingafélags við færslu líftryggingarskrár og gerð endurrita. Ekki er þó ástæða til að mæla fyrir um sérstakar skaðabótareglur og gilda því almennar reglur skaðabótaréttar um bótarétt vegna hugsanlegs tjóns sem af slíkum mistökum leiðir.
    Í 2. mgr. er leitast við að takmarka þær upplýsingar sem fram eiga að koma í endurriti úr líftryggingarskrá. Leitast er við að setja fram reglu sem tryggir að aðeins eru veittar þær upplýsingar sem sá er krefst endurrits þarf á að halda. Ljóst er að þessi regla leiðir til matskenndrar ákvörðunar félagsins hverju sinni. Ágreiningur getur risið um það mat og verður sá er endurrits krefst að leita úrlausnar á þeim ágreiningi ef hann unir ekki niðurstöðu félagsins. Af tveimur kostum, þ.e. matskenndri reglu sem leiða kann til ágreinings eða víðtækri upplýsingagjöf um þær viðkvæmu upplýsingar sem kunna að vera í skránni, er talið rétt að velja hinn fyrri. Til að freista þess að takmarka óvissu er í 3. mgr. lagt til að viðskiptaráðherra setji reglur um efni endurrits samkvæmt greininni. Í þeim reglum mætti útfæra nánar hvaða upplýsingar má veita hverjum.

Um 114. gr.

    Í greininni eru reglur sem ætlað er að leysa af hólmi reglur 113. gr. VSL en eru með allt öðrum hætti þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að skráning réttinda ráði réttarstöðunni, en ekki hvaða réttindi skjalið sjálft, líftryggingarskírteinið, ber með sér. Með reglum greinarinnar er leitast við að ráða fram úr hugsanlegum árekstrum ósamþýðanlegra réttinda yfir vátryggingunni. Sambærilegar reglur eru í þinglýsingalögum og í 16. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, en þær eru ekki nákvæmlega eins að efni til.
    Meginreglan, sem sett er fram í 1. mgr., miðast við að það sé skráning réttinda í dagbók sem ræður rétthæð þeirra. Tímabilið, sem miðað er við, er dagurinn, þannig að réttindi sem skráð eru í dagbók sama dag eru jafnrétthá. Það eru fyrst og fremst ráðstafanir sem byggjast á löggerningum sem greinin tekur til en þó er orðalagið ekki bundið við það. Fjárnám í réttindum samkvæmt líftryggingarsamningi féllu því einnig undir regluna. Fjárnámshafi, sem ekki lætur skrá réttindi sín, stendur þannig að baki þeim sem skráir sín réttindi, þótt þau hafi komið til síðar. Skýra verður 1. og 2. mgr. saman, því það er skilyrði fyrir því að sá sem fyrr fær skráð réttindi öðlist betri rétt að hann hafi verið grandlaus um hinn eldri rétt þegar réttur hans var skráður í dagbók. Það á við hvort sem hinn eldri réttur heldur áfram að vera óskráður eða hann verður skráður á eftir þeim yngri. Tekið skal fram í þessu sambandi að þýðing grandleysis á aðeins við um réttindi sem stofnuð eru með samningi. Það er í samræmi við almennar reglur, sbr. Hrd. 1969, bls. 1095, Hrd. 1969, bls. 1414, og Hrd. 1989, bls. 171, að aðfararhafi öðlast rétt frá því að hann skráir (þinglýsir) réttindi þau er hann öðlast við aðförina hvort sem hann er grandlaus eða grandsamur um eldri réttindi sem ekki eru skráð (þinglýst).
    Þær frjálsu ráðstafanir sem um ræðir í 2. mgr. eru þær sem lýst hefur verið í reglum frumvarps þessa að frátalinni tilnefningu sem er afturkallanleg, enda öðlast sá er tilnefndur er engan rétt, svo sem fram er komið.

Um 115. gr.

    Í þessari grein eru reglur sem eiga við um stöðu grandlauss eiganda réttinda gagnvart félaginu. Í VSL eru ekki heildstæðar reglur um sama efni en þó eru ýmis ákvæði 114. gr. þeirra laga sem eiga við um efnið.
    Meginregla greinarinnar kveður á um að sá sem í góðri trú hefur fengið skráð réttindi sem reist eru á samningi þurfi ekki að sæta því að félagið hafi uppi mótbárur gegn réttindum hans sem ekki hafa komið fram í tilkynningum sem félaginu er skylt að senda skv. 3. málsl. 2. mgr. 112. gr. Félagið glatar því mótbárum við þessar aðstæður nema við eigi undantekningarreglur þær sem fram koma í a–c-lið 2. mgr.
    Sett eru ýmis skilyrði fyrir því að félagið glati mótbárum sínum. Þannig þarf eigandi að skrá réttindi, hann þarf að hafa verið í góðri trú og réttindin þurfa að vera reist á samningi en ekki aðfarargerð, fengin fyrir erfðir, runnið til óskipts bús, eða orðið til skv. 3. mgr. 104. gr.
    Þær mótbárur sem félagið getur haft uppi eru tilgreindar í áðurnefndum stafliðum. Af a- lið leiðir að félagið getur haft uppi mótbárur sem reistar eru á því að upplýsingaskylda hafi verið vanrækt, að um áhættuaukningu sé að ræða o.s.frv., allt að því gefnu að félagið hafi ekki þekkt til atvika fyrr en eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send. Af b-lið leiðir að félagið getur haft uppi þá mótbáru að iðgjaldagreiðsla hafi verið vanefnd eftir að tilkynning skv. 2. mgr. 112. gr. var send, en það verður þá að hafa sent innheimtutilkynningu skv. 98. gr. frumvarpsins, þ.e. sinnt sérstakri tilkynningarskyldu í líftryggingum. Af c-lið leiðir svo að félagið getur borið fyrir sig að það hafi greitt gjaldfallnar lífeyrisgreiðslur, enda má almennt ganga út frá skilvísi vátryggingafélaga í því efni og ekki er ástæða til að gera kröfu um að það sé sérstaklega tiltekið í þeirri tilkynningu sem senda ber skv. 2. mgr. 112. gr.

Um 116. gr.

    Í greininni eru reglur um stöðu félagsins sem greitt hefur vátryggingarfjárhæðina gagnvart þeim sem skráður er rétthafi eða á skv. 100. gr. rétt til greiðslu hennar. Í greininni felst að fyrir fram ber að ganga út frá því að upplýsingar í líftryggingarskrá séu réttar. Miðað er við efni skrárinnar á því tímamarki sem greiðsla fer fram. Ekki ber að skýra regluna þannig að gagnálykta eigi frá henni á þann veg að félag sem greiðir vátryggingarfjárhæðina geti ekki losnað undan ábyrgð þótt greiðslan hafi ekki verið í samræmi við efni skrárinnar. Ýmsar ástæður kunna að valda því að félaginu verður engan veginn um kennt en víst er að mikið þarf til að svo verði talið.

Um 117. gr.

    Í þessari grein eru reglur um sambandið milli þess sem hefur skráð réttindi í góðri trú og þess sem á betri rétt í raun. Þegar réttindi hafa yfirfærst með samningi við skráðan vátryggingartaka og hafa verið skráð í líftryggingarskrá ber samkvæmt greininni að miða við að sú skráning sé rétt. Löglíkur eru þannig fyrir því að réttindi sem skráð eru í líftryggingarskrá séu réttilega skráð. Í 2. málsl. eru undantekningar frá meginreglu 1. málsl. Skv. reglu 2. málsl. er það aðeins við svonefndar sterkar ógildingarástæður sem grandlaus eigandi réttinda sem hefur fengið þau skráð í líftryggingarskrá þarf að þola að betri réttur annars manns gangi framar. Ógildingarástæðurnar eru taldar upp í málsliðnum og er sú upptalning tæmandi.

118. gr.

    Reglur þessarar greinar um merkingu hugtaksins vátryggingartaki í kaflanum þarfnast ekki skýringa en rétt er þó að geta þess að þær tengjast sérstaklega reglum 112. og 117. gr. frumvarpsins.

Um 119. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um XVIII. kafla.

    Í þessum kafla eru ákvæði um bótauppgjör, þ.m.t. upplýsingaskyldu félagsins við það tækifæri, skuldajafnaðarrétt félagsins, vexti, fyrningu og fleiri atriði. Ákvæðin eiga því við eftir að vátryggingaratburður hefur orðið. Í kaflanum er leitast við að safna saman þeim ákvæðum sem lúta að uppgjöri kröfu samkvæmt vátryggingarsamningi á hendur félagi og líka hvernig þeirri kröfu getur lokið með öðrum hætti en greiðslu svo sem fyrningu. Um þessi efni eru dreifð ákvæði í VSL, sbr. 21.–24. gr., 29.–30. gr. og 124. gr., sbr. 52. gr. Tillögur frumvarpsins fela ekki í sér róttækar breytingar á efni gildandi reglna nema að tvennu leyti. Annars vegar er lagt til að reglur um lækkun eða niðurfellingu ábyrgðar félagsins vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu o.fl. verði sveigjanlegri en gildandi reglur, þannig að það verði háð mati á atvikum að hve miklu leyti ábyrgð félagsins verður takmörkuð. Hins vegar er lagt til að heimild til að víkja frá fyrningarreglum laganna, þ.e. með því að stytta fresti, sem nú er veitt í 30. gr. VSL, verði felld úr gildi.
    Efni kaflans er hið sama og efni VIII. kafla frumvarpsins um sömu atriði í skaðatryggingum og eru ákvæðin að verulegu leyti efnislega eins.

Um 120. gr.

    Í greininni eru reglur um upplýsingaskyldu við uppgjör bóta. Reglurnar eru efnislega hinar sömu og í 47. gr. frumvarpsins og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein. Sá orðalagsmunur sem er á þessari grein og 47. gr. felst einkum í því að hér er orðalag við það miðað að fleiri en vátryggður geti sett fram kröfur á hendur félaginu og hafi við það sömu skyldu, eftir því sem unnt er, og vátryggður. Þessi munur hefur engin efnisleg áhrif.

Um 121. gr.

    Í þessari grein eru reglur um greiðslu bóta eða vátryggingarfjárhæðar. Efni hennar svarar að verulegu leyti til efnis 48. gr. frumvarpsins, en að hluta til er nokkur munur á sem gera verður grein fyrir. Reglan á sér hliðstæðu í 24. gr. VSL en orðalag er nokkuð annað og efnislegt frávik.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er ákvæði sem svarar til 1. málsl. 49. gr. og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein frumvarpsins.
    Í 2. málsl. er sérregla sem á við í persónutryggingum, einkum slysa- og sjúkratryggingum. Ákvæðið heimilar félögunum að kveða nánar á um hvernig meta skuli örorku. Að íslenskum rétti eru ýmsar aðferðir til við mat á varanlegri örorku og er grundvallarmunur á sumum aðferðanna. Til skamms tíma hefur almennt verið miðað við læknisfræðilega örorku, svo sem tíðkað var í skaðabótarétti utan samninga allt fram til gildistöku skaðabótalaga, nr. 50/1993, en með þeim var tekið upp nýtt örorkumat, reist á fjárhagslegum áhrifum líkamstjóns. Einnig eru til aðrar aðferðir. Það er eðlilegt að vátryggingafélög eigi þess kost að bjóða upp á vátryggingar með mismunandi aðferðum við örorkumat. Hluti af þessu er að ákveða í skilmálum hvenær örorka skuli metin, t.d. í fyrsta lagi eða í síðasta lagi. Slíkt hefur áhrif á gjalddaga þar sem félaginu er ekki unnt að reikna út endanlega fjárhæð bóta fyrr en matið liggur fyrir. Ef félagið hefur áskilið sér of langan frest í þessu efni gæti það leitt til viðbragða Fjármálaeftirlitsins. Ekki verður heldur litið fram hjá því að sá sem á rétt til bótanna getur krafist hlutagreiðslu skv. 2. mgr. Verður því að telja að hagsmunir hans, séu þeir réttmætir, njóti nægilegrar verndar.
    Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og efni 2. málsl. 48. gr. og þarf ekki að skýra það frekar hér.

Um 122. gr.

    Í þessari grein eru reglur um heimild félagsins til þess að beita skuldajöfnuði. Um þetta eru ekki skýrar reglur í VSL. Ákvæðið er að mestu sama efnis og 49. gr. frumvarpsins, en nokkur orðalagsmunur er, sem einkum ræðst af mismunandi aðstæðum í skaðatryggingum og persónutryggingum. Veigamestu þættirnir eru þó leystir með sama hætti og má því um skýringar vísa til athugasemda við 49. gr.
    Í 1. mgr. er miðað við að félagið hafi eingöngu rétt til skuldajafnaðar vegna vangoldinna iðgjalda vátryggingartaka hjá félaginu, þ.e. vegna þess vátryggingarsamnings sem greiðsla tekur til og annarra. Þegar annar en vátryggingartaki krefur með réttu um greiðslu er skuldajafnaðarheimild félagsins þrengri en að framan greinir, því skv. 2. mgr. nær skuldajafnaðarrétturinn þá aðeins til þess vátryggingarsamnings sem greiðsla tekur til.

Um 123. gr.

    Í þessari grein eru reglur um vexti á bótakröfur og kröfur um vátryggingarfjárhæð sem gerðar eru á hendur félagi. Í 50. gr. frumvarpsins eru reglur um sama efni en nokkur munur er þó á greinunum. Um þetta eru nú ákvæði í 3. mgr. 24. gr. VSL en þau ákvæði eru fátækleg og hafa því bæði ákvæði skilmála og fyllingarreglur laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, haft verulega þýðingu. Í frumvarpsgreininni er leitast við að setja ítarlegri reglur um vexti en gilt hafa.
    Ákvæði 1. mgr. er sama efnis og 1. mgr. 50. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við hana. Er einungis ástæða til að árétta að tveggja mánaða fresturinn reiknast frá því tímamarki að tilkynning var send félaginu en ekki frá því að hún kom til þess, svo sem almennar reglur samningaréttar hefðu leitt til, enda er tilkynningin ákvöð. Sendingin verður að vera með sannanlegum hætti. Þykir eðlilegt að sá sem rétt á til greiðslna frá félaginu teljist hafa sinnt skyldum sínum þegar hann hefur sent tilkynninguna. Verður að hafa hugfast í þessu sambandi að um er að ræða fremur langan frest, þ.e. tvo mánuði.
    Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. er sama efnis og 1. málsl. 2. mgr. 50. gr. Í síðarnefnda ákvæðinu eru í framhaldi af því reglur um brunatryggingar sem ekki eiga við í þessari grein. Þess í stað er ákvæði um skyldu til að greiða vexti á dagpeninga, svo og um tilvik er félagið á að greiða tilteknar fjárhæðir á fyrir fram umsömdum gjalddögum. Þetta er algengt í slysa- og sjúkratryggingum þar sem samið eru fyrir fram um greiðslur vegna tímabundinna afleiðinga, t.d. vikulegar eða mánaðarlegar greiðslur. Báðum aðilum er þá kunnugt um réttindi sín og skyldur og þess vegna ástæðulaust að láta rétt til vaxta vera háðan tilkynningum.
    3. mgr. svarar að efni til 4. mgr. 50. gr. Hún er í samræmi við almennar reglur kröfuréttar um að viðtökudráttur af hálfu kröfuhafa leiði til brottfalls réttar til að krefja um vexti. Um meginregluna má vísa til 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu en hún er víðtækari en svo að hún eigi einungis við er viðtökudráttur er. Hún er í samræmi við reglu þessarar málsgreinar. Allt hið sama á við er eigandi réttar gagnvart félaginu hafnar lögmætu greiðslutilboði þess, enda er það viðtökudráttur í skilningi kröfuréttar. Nauðsyn ber til að nota orðalagið ,,eigandi réttar gagnvart félaginu“ þar sem villandi gæti verið að nota orðið rétthafi, einkum í ljósi takmarkana á réttarstöðu hans sem gerð er grein fyrir að framan.
    Í 4.–6. mgr. eru efnislega sömu reglur og í 5.–7. mgr. 50. gr. og þarf ekki að skýra þær frekar en gert er í athugasemdum við síðarnefndu málsgreinarnar.

Um 124. gr.

    Reglur þessarar greinar um frest til að tilkynna um vátryggingaratburð í slysa- eða sjúkratryggingum og til lögfræðilegra aðgerða eru efnislega hinar sömu og reglur 51. gr. frumvarpsins. Vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 125. gr.

    Í þessari grein eru reglur um fyrningu. Um fyrningu í skaðatryggingum eru ákvæði í 52. gr. en nokkur munur er á frestum og ýmsum öðrum atriðum. Reglur VSL um fyrningu eru í 29.–30. gr. og svipar ákvæðum fyrrnefndu greinarinnar til efnis þessarar. Ekki er á hinn bóginn ákvæði í þessu frumvarpi sem svarar til 30. gr. VSL, enda lagt til að þeim möguleika verði sleppt, eins og greinir að framan.
    Þess skal getið að fyrningarreglur þær sem eru í greininni varða aðeins fyrningu á kröfu um bætur eða vátryggingarfjárhæð úr hendi félagsins. Aðrar kröfur sem tengst geta vátryggingarsamningi, t.d. krafa um iðgjaldið, fyrnast eftir hinum almennu reglum laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905.
    Í 1. mgr. er fyrst meginreglan um að krafa um vátryggingarfjárhæð í höfuðstólstryggingum fyrnist á tíu árum frá lokum þess almanaksárs sem sá er á kröfuna fékk nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem krafan er reist á. Aðrar kröfur fyrnast á fjórum árum en það er sá fyrningarfrestur sem flestar algengustu tegundir krafna fyrnast á samkvæmt lögum um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Upphaf fjögurra ára frestsins ræðst af sömu reglum og tíu ára frestsins. Í 3. málsl. eru fyllingarreglur sem eiga við ef sá er kröfuna á fær ekki nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem krafa hans er reist á. Þá falla kröfur um vátryggingarfjárhæð í höfuðstólstryggingum niður á 20 árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggingaratburður varð, en í öðrum tryggingum á tíu árum. Í 4. málsl. er enn fyllingarregla sem kveður á um að hafi tilkynning, sem félaginu ber að senda ef það hafnar kröfu um bætur eða vátryggingarfjárhæð, verið send ljúki fyrningarfresti ekki fyrr en árs frestur sá er tilgreina á í tilkynningunni er liðinn. Þetta getur leitt til framlengingar fyrningarfrestsins í einstökum málum.
    Í 2. mgr. er sérregla um fyrningu á kröfum samkvæmt lífeyristryggingum. Samkvæmt henni fellur krafa eftir þeim vátryggingum niður að liðnum tíu árum frá því að síðustu greiðslu er krafist. Þetta er helmingi skemmri frestur en er í 2. mgr. 2. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stytting frestsins þykir ekki varhugaverð. Verður að hafa í huga að síðasttilvitnuð lög eru nálægt því aldargömul. Upplýsingaskylda félagsins til þess sem rétt á til greiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er svo rík að óhugsandi er að sá sem kröfuna á gleymi henni. Má fremur ætla að greiðslur til hans gangi sjálfkrafa fyrir sig. Fyrningarfrestur í 20 ár er í engu samræmi við þarfir viðskiptalífs og vart nauðsynlegur fyrir þann sem kröfuna á. Fyrningarfrestur á hverri einstakri gjaldfallinni greiðslu er fjögur ár og er það í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
    Að öðru leyti en sérstaklega er tekið fram gilda ákvæði laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. ákvæði 3. mgr., þó með þeim fyrirvörum er þar greinir.

Um XIX. kafla.

    Í þessum kafla eru ákvæði um hópvátryggingar í persónutryggingum. Um sama efni í skaðatryggingum eru ákvæði í IX. kafla frumvarpsins en engar sérreglur eru í VSL um þessar tegundir vátrygginga sem munu lítt eða ekki hafa verið þekktar við gildistöku þeirra á Íslandi. Þýðing hópvátrygginga er mun meiri í persónutryggingum en í skaðatryggingum. Það virðist mun algengara að teknar séu líftryggingar, slysatryggingar eða sjúkratryggingar fyrir skilgreinda hópa en annars konar vátryggingar. Hópvátryggingar í persónutryggingum eru oft hugsaðar sem eins konar viðbót við þá félagslegu vernd sem fólk nýtur með almannatryggingakerfinu.
    Eins og greinir í almennum inngangi að IX. kafla frumvarpsins er eitt einkenna hópvátrygginga að það eru þrír aðilar sem eru í réttarsambandinu, þ.e. vátryggingartaki, oftast vinnuveitandi eða félag, félagið sem gerir hópvátryggingarsamning við vátryggingartaka og hinir vátryggðu, þ.e. þeir sem eru í hópnum á hverjum tíma. Það einkennir líka hópvátryggingar að iðgjaldið, vátryggingarfjárhæðir og skilmálar að öðru leyti eru ákveðnir með heildstæðum hætti eftir mati á hópnum sjálfum en ráðast ekki af upplýsingum um hvern einstakan í hópnum. Ýmis afbrigði eru möguleg í hópvátryggingum. Í sumum tilvikum getur hver þátttakandi í hópnum þurft að hafa frumkvæði að því að njóta verndar vátryggingarinnar en í öðrum tilvikum getur verið að maður öðlist sjálfkrafa vernd, t.d. við það að taka við starfi eða ganga í tiltekið félag. Það er ekki sjálfgefið að nákvæmlega sömu reglur eigi að gilda um þessi tvö afbrigði.
    Telja verður nauðsyn bera til að setja reglur um ýmis atriði í hópvátryggingum á sviði persónutrygginga, eins og á sviði skaðatrygginga. Réttur til ráðstöfunar yfir vátryggingu er t.d. sérstakt álitaefni í hópvátryggingum á sviði persónutrygginga. Eðlilegt er að líta svo á að það sé vátryggður sem í meginatriðum fari með þann rétt en vátryggingartaka séu óheimilar ráðstafanir yfir réttindum samkvæmt vátryggingunni, andstætt því sem gildir um einstaklingsbundnar vátryggingar. Annað atriði, sem sjálfgefið er að geti valdið óvissu, er hvernig haga eigi réttarsambandinu milli félagsins og hinna vátryggðu, einkum hvaða hlutverk og ábyrgð vátryggingartakinn eigi að hafa í því efni. Þriðja atriðið, sem getur valdið óvissu, er hvenær ábyrgð félagsins hefst varðandi hvern og einn. Er það við tilkynningu til félagsins, er það þegar hann verður þátttakandi í hópnum, eða við eitthvert annað tímamark? Fjórða atriðið er hvort og þá að hvaða marki eigi að játa félaginu rétt til þess að gera hlutlæga fyrirvara í hópvátryggingum. Í einstaklingsbundnum vátryggingum á vátryggingartaki að veita réttar upplýsingar um heilsufar sitt o.fl. Geri hann það er það á ábyrgð félagsins þegar heilsu hans hrakar, jafnvel þótt einkennin hafi verið fyrir hendi er vátryggingin var tekin. Staðan getur verið sú í hópvátryggingum að félagið óski ekki eftir heilsufarsupplýsingum hjá hverjum og einum þátttakanda í hópnum, heldur láti nægja einfalda yfirlýsingu, t.d. vinnuveitanda, um að sá sem verður þátttakandi sé að fullu vinnufær. Frávik geta vissulega verið frá þessu en yfirleitt mundu atvik vera þannig að maður verði þátttakandi í hópnum og öðlast því vátryggingarvernd með takmörkuðum heilsufarsupplýsingum. Við þessar aðstæður er eðlilegt að játa félaginu rétt til þess að takmarka ábyrgð sína með hlutlægum hætti, þannig að það beri ekki ábyrgð ef einkenni, sem þátttakandinn var grandsamur um, voru til staðar við upphaf ábyrgðar þess, fyrr en eftir að það hefur kallað eftir ítarlegri heilsufarsupplýsingum. Fimmta atriðið, sem ráða þarf fram úr, er hver eigi að vera staða þátttakanda í hópi, sem nýtur vátryggingar, til þess að halda vátryggingu áfram og um rétt hans til tilkynninga ef vátryggingartaki og félagið hyggjast slíta vátryggingarsamningnum. Er leitast við að setja reglur um þessi atriði í kaflanum, svo og um ýmis önnur atriði. Reglur hans eru mjög svipaðar reglum IX. kafla, en þó eru ýmis frávik sem eru nauðsynleg vegna eðlis persónutrygginga.

Um 126. gr.

    Greinin er samhljóða 53. gr. og þarf ekki að skýra hana hér, enda eðlilegt að aðrar reglur um persónutryggingar gildi um hópvátryggingar á því sviði.

Um 127. gr.

    Í þessari grein eru reglur um hvert skuli að lágmarki vera efni hópvátryggingarsamnings. Ekkert er því til fyrirstöðu að efni vátryggingarsamnings sé ítarlegra en hér er gert ráð fyrir. Efni greinarinnar er um flest hið sama og efni 54. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa þangað. Ýmis ákvæði eru þó sérstök fyrir persónutryggingar og þarfnast sérstakra skýringa.
    Í a-lið er mælt fyrir um að greiðslur félagsins samkvæmt samningnum skuli koma fram í honum. Reglan er sjálfgefin og mundi sjaldnast leiða til álitaefna og þarf ekki að skýra hana.
    Í b-lið er mælt fyrir um að tiltaka skuli í hópvátryggingarsamningi hvort heimilt sé að áskilja sér að vera ekki þátttakandi í hópi sem nýtur vátryggingar. Ákvæðið er efnislega hið sama og regla b-liðar 54. gr. en með nokkru öðru orðalagi sem þó á ekki að leiða til mismunandi skýringar.
    Í c-lið er sama regla og í a-lið 54. gr. og vísast um skýringar til þess sem segir í athugasemdum við þann staflið.
    Í d-lið er ákvæði sem er sama efnis og c-liður 54. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þann lið. Þar er m.a. greint frá tilvikum þar sem menn verða sjálfkrafa þátttakendur í hópi. Því er við að bæta að í tilvikum þar sem svo er ekki, þ.e. maður þarf að gera tilteknar ráðstafanir til þess að verða þátttakandi, verður að koma fram í samningnum hvort beina á tilkynningum til vátryggingartaka eða til félagsins og hvaða upplýsingar á að veita.
    Í e-, f-, g- og i-lið eru ákvæði sem eru eins og ákvæði d-, e-, f- og g-liðar 54. gr. og má vísa um skýringar til athugasemda við þá stafliði.
    Í h-lið er mælt fyrir um að tilgreina skuli í hópvátryggingarsamningi ef vikið er frá ákvæðum 100. gr. frumvarpsins og vátryggingarfjárhæðinni ráðstafað. Ákvæðið á einungis við um höfuðstólstryggingar, enda lúta lífeyristryggingar öðrum reglum að þessu leyti.
    Í j-lið er ákveðið að það skuli tilgreina í hópvátryggingarsamningi hvernig sé háttað heimildum þátttakenda til að tilnefna rétthafa, til framsals og veðsetningar á réttindum samkvæmt samningnum. Það er ekki sjálfgefið að slíkar heimildir eigi yfirleitt að vera fyrir hendi í hópvátryggingarsamningum, einkum í ljósi þess að oft eru þær hugsaðar sem viðbót við þá félagslegu vernd sem menn njóta af almannatryggingum. Hagnýting slíkra réttinda í persónulegum viðskiptum er því umhugsunarefni. Ekki þykir þó fært að leggja til takmarkanir á ráðstöfunarrétti hins vátryggða í þessum tilvikum, enda um að ræða réttindi sem hann á. Þyrftu að vera alveg sérstök rök til að setja ráðstöfunarrétti hans þröng mörk.
    Eins og fram hefur komið getur orðið sérstakur ágóði í sumum tegundum líftrygginga. Hann getur ráðist af lágri tjónatíðni eða öðrum atvikum. Ákveða þarf skv. 2. mgr. þessarar greinar hvernig slíkum ágóða skal ráðstafað í hópvátryggingum, því ekki er sjálfgefið að hann renni til vátryggingartaka eins og vera mundi í einstaklingsbundnum vátryggingum. Má ætla að oft yrði ákveðið að hann rynni með einhverjum hætti til vátryggðra, þ.e. þátttakendanna í hópnum.

Um 128. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um upplýsingagjöf um vátrygginguna. Greinin er samhljóða fyrstu þremur málsliðum 55. gr. frumvarpsins og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 129. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um skyldu til að gefa út vátryggingarskírteini og hvert vera skuli efni þess. Greinin er efnislega eins og 56. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.

Um 130. gr.

    Í greininni eru reglur um upphaf ábyrgðar félagsins. Greinin er efnislega eins og 57. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.

Um 131. gr.

    Í greininni eru reglur um lok ábyrgðar félagsins. Greinin er efnislega eins og 58. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.

Um 132. gr.

    Í greininni eru reglur um rétt þátttakanda í hópi sem nýtur hóplíftryggingar til þess að viðhalda vátryggingunni sjálfur ef henni lýkur. Greinin á, eins og fram er komið, eingöngu við um hóplíftryggingar.
    Í 1. málsl. er mælt fyrir um rétt hvers og eins af þátttakendunum til að halda líftryggingu áfram án þess að gefa nýjar heilsufarsupplýsingar, ef hópvátryggingu sem þeir hafa notið lýkur. Rökin fyrir reglunni eru fyrst og fremst þau að líftrygging getur verið mikilvæg fyrir fjárhagslegt öryggi fjölskyldna og iðgjöld og skilmálar geta ráðist mjög af aldri og heilsufari. Sá sem verið hefur starfsmaður vátryggingartaka í t.d. 30 ár og notið hóplíftryggingar á grundvelli heilsufarsupplýsinga sem hann veitti réttilega 25 ára gamall getur verið í mun lakari stöðu til að afla sér sambærilegrar verndar ef hópvátryggingin fellur niður og hann hyggst reyna að fá nýja líftryggingu með sambærilegri vernd. Hann hefur því mikla hagsmuni af því að eiga þess kost að halda líftryggingunni áfram án nýrra heilsufarsupplýsinga en með sömu vernd. Á hinn bóginn getur hann ekki gert kröfu um að iðgjaldið verði ákveðið með sama hætti og þegar hópurinn var allur undir, heldur að það verði ákveðið með sama hætti og í einstaklingsbundnum líftryggingum. Í 2. málsl. er mælt fyrir um sama rétt þess sem af öðrum ástæðum en vegna aldurs hættir í hópi sem vátrygging tekur til, t.d. vegna þess að hann hættir að starfa hjá vátryggingartaka eða hættir aðild að félagi sem tekið hefur hópvátryggingu.
    Félagið ber ábyrgð á því að honum sé tilkynnt um þennan möguleika hans og ef félagið hefur falið vátryggingartaka að annast tilkynningar til þátttakenda í hópnum ber hann einnig ábyrgð á því að tilkynning sé send. Félagið losnar þó ekki undan ábyrgð sinni við það. Í tilkynningu þarf að koma fram hver réttur þátttakandans sé og hve langan frest hann hefur. Samkvæmt lokamálslið greinarinnar hefur þátttakandinn þrjá mánuði til þess að hagnýta sér rétt sinn. Miðað er við þrjá mánuði frá því að ábyrgð félagsins féll niður. Ef heilsa hans versnar á þessu tímabili er það á áhættu félagsins, en ekki hans, því honum er ekki skylt að veita nýjar upplýsingar og í rétti hans felst heimild til að framlengja áður gildandi líftryggingu.
    Ef tilkynningarskylda félagsins (eða vátryggingartaka) er vanrækt mundi það eftir sem áður bera ábyrgð samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar, en sú ábyrgð teldist skaðabótaábyrgð þótt inntak hennar yrði hið sama og ábyrgðar félagsins samkvæmt vátryggingarsamningi.

Um 133. gr.

    Í þessari grein eru reglur um heimildir félagsins til þess að breyta skilmálum vátryggingarinnar. Tilvísun til 2. mgr. 131. gr. tryggir að þátttakendum er tilkynnt skriflega um slíkar breytingar. Félagið verður að hafa gert fyrirvara um rétt sinn til þess að geta breytt skilmálunum og iðgjaldi. Tekið skal fram að ákvæði þessarar greinar geta vart átt við um hópvátryggingar sem einungis hafa tímabundið gildi og er ekki ætlað að framlengjast. Má sem dæmi nefna hópslysatryggingu félagsskapar á meðan á tilteknu ferðalagi hans stendur, hópslysatryggingu þátttakenda á sýningu eða öðrum viðburði o.fl. Það hlyti að teljast afar fátítt að réttur til breytinga á skilmálum eða iðgjaldi teldist vera fyrir hendi í slíkum tilvikum.

Um 134. gr.

    Í greininni eru reglur um tilkynningar til eða frá einstökum þátttakendum í hópi sem nýtur hópvátryggingar. Greinin er efnislega eins og 60. gr. frumvarpsins og má um skýringar vísa til athugasemda við þá grein.

Um 135. gr.

    Í þessari grein eru reglur um heimildir félagsins til þess að takmarka ábyrgð sína í hópvátryggingum. Heimildirnar eru þröngar, svo sem fram kemur af orðalagi greinarinnar.
    Í 1. málsl. er félaginu í hóplíftryggingum, sem einnig felur í sér vátryggingu gegn örorku, heimilt að semja svo um að það beri ekki ábyrgð á óvinnufærni sem kemur til innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Það er forsenda ábyrgðartakmörkunar að óvinnufærnin verði rakin til sjúkdóms eða meins sem þátttakandinn hafði á því tímamarki sem ábyrgð félagsins hófst og ætla má að hann hafi vitað um. Það er félagið sem hefur sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum þessum sé fullnægt en létt er á sönnunarbyrðinni með orðalaginu ,,sem ætla má að hann hafi vitað um“. Ábyrgðarundanþága félagsins samkvæmt þessari grein getur því aldrei orðið hlutlæg og fyrirvaralaus. Takmörkunin gildir einnig aðeins um óvinnufærni (örorku) en ekki dauða. Félagið má einnig gera takmörkun um ábyrgð sína vegna maka, barna og annarra sem teljast meðvátryggðir ásamt þeim sem er þátttakandi í hópi, ef þeir njóta vátryggingar samkvæmt skilmálum hennar. Vakin skal athygli á því að orðalag 2. málsl. er á þann veg að félagið megi gera fyrirvara um ,,ábyrgð“ sem tengist meðvátryggðum, en af því leiðir að félagið getur takmarkað ábyrgð sína í hverju sem hún felst. Það getur því takmarkað ábyrgðina, ekki aðeins á óvinnufærni (örorku), heldur einnig dauða, slysi eða öðru.
    Í 3. málsl. er ákvæði sem heimilar félaginu að takmarka ábyrgð sína vegna annarra greiðslna en vátryggingarfjárhæðarinnar sjálfrar sem eiga að ganga til eftirlifandi vegna andláts maka. Hér kann að vera um ýmsar greiðslur að ræða, t.d. greiðslu útfararkostnaðar. Félagið getur þó ekki takmarkað ábyrgð sína vegna þessara greiðslna lengur en eitt ár frá því að hún hófst.

Um 136. gr.

    Í þessari grein eru reglur um rétt til vátryggingarfjárhæðar í hópvátryggingum sem fellur til við andlát þátttakanda, þ.e. hins vátryggða.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um hópvátryggingar sem ekki hafa framfærslu að markmiði. Í þeim tilvikum heimilar ákvæðið að samið sé svo um að vátryggingartaki öðlist rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar. Þetta er nauðsynlegur valkostur, ekki síst fyrir einstaklinga. Slíkar vátryggingar má t.d. hugsa sér að banki, sparisjóður eða lánastofnun taki fyrir þá sem þeir veita lán í tilteknum lánaflokki og hafa ekki tryggingar fyrir lánunum. Lánastofnunin gæti þá tekið líftryggingu fyrir hópinn, miðað fjárhæð hennar við fjárhæð lánsins á hverjum tíma og áskilið sér í vátryggingarsamningi rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar við andlát vátryggðs, þ.e. þátttakandans. Slíkar vátryggingar má einnig hugsa sér að vinnuveitandi taki fyrir lykilstarfsmenn sína og miði fjárhæðir við það tjón sem hann telur líklegt að hann verði fyrir vegna hugsanlegs fráfalls þeirra, t.d. vegna ráðningar, menntunar og þjálfunar eftirmanna. Einnig má hugsa sér að slíkar vátryggingar yrðu teknar af hópi manna sem starfar saman til að forðast tjón sem hópurinn yrði fyrir vegna andláts hvers og eins.
    Í 2. mgr. er heimilað í þeim tilvikum sem þar greinir að semja um að ákvæði um rétt til vátryggingarfjárhæðar séu tekin inn í vátryggingarsamning. Þetta á við þegar hópvátrygging er tekin til þess að vátryggja líf starfsmanna og einnig þegar hún er tekin af félögum eða samtökum til þess að vátryggja líf félagsmanna eða þeirra sem eru í samtökunum. Í þessum tilvikum geta atvik verið sérstök og eðlilegt að heimildir séu til þess að ákveða um rétt til vátryggingarfjárhæðarinnar.
    Í 3. mgr. eru reglur um þau tilvik þegar ekki eru gerðar ráðstafanir sem heimilaðar eru í 1. og 2. mgr. Í þeim tilvikum skal beita hinum almennu reglum um persónutryggingar. Þetta er í samræmi við ákvæði 126. gr. um að ákvæði laganna um einstaklingsbundnar persónutryggingar skuli gilda um hópvátryggingar á því sviði eftir því sem við getur átt.

Um 137. gr.

    Í þessari grein eru reglur um tilnefningu rétthafa í hópvátryggingum. Greint er á milli hópvátrygginga þar sem þátttakendur þurfa að tilkynna sig sérstaklega til þess að öðlast vátryggingarvernd og annarra hópvátrygginga þar sem menn öðlast verndina sjálfkrafa við það eitt að verða þátttakendur.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um fyrrnefndu tilvikin. Við þær aðstæður hafa þátttakendur sömu heimildir og vátryggingartakar í einstaklingsbundnum persónutryggingum. Hefur verið um það fjallað.
    Í 2. mgr. er fjallað um síðarnefndu tilvikin. Þótt ekki sé sjálfgefið að þátttakendur hafi við þær aðstæður jafnrúmar heimildir til þess að tilnefna rétthafa og í hinum fyrrnefndu er þó talið rétt að leggja það til, þ.e. ef ekki er á annan veg mælt fyrir um í vátryggingarsamningi. Þau tilvik sem hér um ræðir eru t.d. þegar hópvátryggingar eru teknar af vinnuveitanda eða af stéttarfélögum vegna félagsmanna sinna. Vátryggingartakar í þeim tilvikum hafa oft réttmæta hagsmuni af því að hafa nokkuð um það að segja hvernig slíkum vátryggingarfjárhæðum sé ráðstafað. Vera kann að vinnuveitandi kaupi hóplíftryggingu fyrir starfsmenn sína eftir samninga við stéttarfélag eða starfsmannafélag og rökin fyrir samningnum séu þau að tryggja fjárhag nánustu ættingja starfsmanna ef þeir skyldu falla frá. Einnig mætti hugsa sér að stéttarfélag vildi tryggja félagsmönnum sínum slíka líftryggingu. Í þessum tilvikum væri óeðlilegt ef starfsmaðurinn, eða félagsmaðurinn ef því er að skipta, tæki ákvörðun um að fjárhæðin rynni eitthvað annað, t.d. til golfklúbbs hans, hundaræktarfélags eða þess háttar. Ýmis rök eru fyrir því að sporna við slíku þegar til hóplíftryggingarsamnings er stofnað á þeim forsendum sem hér er lýst, svo og í ýmsum öðrum tilvikum.
    Í 3. mgr. er hnykkt á þeirri sjálfsögðu reglu að við beitingu reglna 101.–105. gr. skuli ákvæði sem miðast við vátryggingartaka eiga með sama hætti við um þátttakendur í hópvátryggingu. Þarf ekki að skýra þessa reglu.

Um 138. gr.

    Í greininni eru ákvæði um heimildir þátttakenda til að framselja og veðsetja réttindi samkvæmt hópvátryggingu og takmarkanir á þeim. Réttur til framsals er mun takmarkaðri en samkvæmt einstaklingsbundnum vátryggingum á sviði persónutrygginga. Það helgast ekki síst af hinu félagslega eðli sem oft einkennir hópvátryggingar á þessu sviði. Á hinn bóginn eru ekki talin rök fyrir því að hindra veðsetningu þátttakenda á þeim rétti sem þeir eiga samkvæmt hópvátryggingarsamningi, enda geta þeir oft haft hagsmuni af því að fá að nota réttindin sem veðandlag, oft eiga þeir ekki völ á neinu öðru veðandlagi. Heimilt er þó í hópvátryggingarsamningi að semja um takmarkanir á heimildum til veðsetninga. Slíkt gæti verið rökrétt, t.d. að takmarka veðsetningarheimild við lán til húsnæðiskaupa í tilvikum þar sem markmið hópvátryggingarinnar er að vernda nánustu ættingja þátttakandans.

Um 139. gr.

    Í þessari grein eru reglur um riftun iðgjaldagreiðslu í hópvátryggingum. Reglurnar eru svipaðar að efni til og inntakið í 111. gr. frumvarpsins, en nauðsyn ber til að taka af skarið um að ef iðgjaldagreiðsla hefur áhrif á tekjuskattsstofn vátryggingartaka til lækkunar (þ.e. ekki þátttakandans sem nýtur vátryggingar og kemur oftast í stað vátryggingartaka) þá teljist hún ekki (bersýnilega) ósanngjörn að því leyti. Það á með öðrum orðum að taka tillit til þess við sanngirnismatið.

Um 140. gr.

    Í þessari grein eru fáein sérákvæði um skráningu líftrygginga í hópvátryggingum. Í grundvallaratriðum eiga ákvæði XVII. kafla um líftryggingarskrá við um hópvátryggingar, en nauðsyn ber þó til að setja nokkrar sérreglur. Sérreglurnar eru einfaldar og er ekki þörf á efnislegum skýringum á þeim.

Um III. hluta.

    Í þessum hluta laganna eru ýmis almenn ákvæði sem eiga við um allar tegundir vátrygginga. Ákvæðum hlutans má skipta í þrennt eftir efni þeirra. Í fyrsta lagi eru í 141. gr. reglur um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, í öðru lagi eru í 142. gr. fyllingarreglur um útreikning fresta og í þriðja lagi eru í 143.–145. gr. reglur um val á löggjöf sem gilda á um vátryggingarsamninga. Þau ákvæði eru nú í 61.–63. gr. laga um vátryggingastarfsemi, en rétt þykir að leggja til að þau verði flutt í lög um vátryggingarsamninga.

Um XX. kafla.


    Í þessum kafla eru tvær greinar, þ.e. 141. og 142. gr.

Um 141. gr.

    Í þessari grein er gerð tillaga um setningu lagaákvæða um úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Víða í frumvarpinu er ráð fyrir því gert að skjóta megi ágreiningi til úrskurðarnefndar. Um nokkurra ára skeið hefur verið starfandi úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem starfað hefur á grundvelli samnings milli viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga. Úrskurðarnefndinni hafa einnig verið settar sérstakar samþykktir sem birtar hafa verið sem fylgiskjal með auglýsingu viðskiptaráðherra í B-deild Stjórnartíðinda. Við samningu frumvarpsins var sérstaklega kannaður hugur Neytendasamtakanna til þess hvort og hvernig skipa ætti reglum um nefnd þessa í frumvarpinu. Neytendasamtökin og aðrir aðilar sem að úrskurðarnefndinni standa eru sammála um að rétt sé að viðhalda óbreyttri skipan en þó gera þær breytingar að lögfesta starfsemi nefndarinnar og færa mjög út starfssvið hennar. Byggist frumvarpið á þessum viðhorfum. Ef samningi um nefndina yrði slitið af einhverjum ástæðum þyrfti löggjafinn að bregðast við því með breytingu á þessari grein. Nefndin hefur á síðustu árum afgreitt um 300 ágreiningsmál á ári og verður að telja að reynsla af störfum hennar sé góð. Nefndin hefur gefið út valda úrskurði árlega.
    Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum er ekki stjórnsýslunefnd, hún fer ekki með stjórnsýsluvald og mælir ekki fyrir um réttindi og skyldur þeirra sem fara með mál fyrir nefndina. Úrskurðir hennar eru ekki bindandi og þeim verður ekki skotið til stjórnvalda. Nefndarmenn eru ekki opinberir starfsmenn. Nefndinni má helst líkja við samningsbundinn gerðardóm.
    Í 1. mgr. er því slegið föstu að þar sem í frumvarpinu segi að skjóta megi ágreiningi til úrskurðarnefndar sé átt við nefnd þá sem starfað hefur og mun starfa áfram á grundvelli téðs samnings. Ástæða þykir til þess að mæla fyrir um almennar hæfiskröfur formanns nefndarinnar en að öðru leyti gilda almennar reglur um hæfi nefndarmanna, svo og reglur um sérstakt hæfi. Ekki þykir rétt að hafa reglur um hæfisskilyrði annarra nefndarmanna, en þeir hafa verið þrír.
    Úrskurðarnefndinni ber samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. að kveða upp rökstudda úrskurði, svo sem hún hefur gert. Vilji annar málsaðila eða hvorugur una niðurstöðum nefndarinnar verða þeir að fara með mál sitt til dómstóla.
    Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa umfram það sem segir í almennum skýringum við grein þessa.
    Nauðsynlegt þykir að taka af skarið um það hvar nefndin skuli vistuð. Er eðlilegt að það verði hjá Fjármálaeftirlitinu, þar sem nefndin hefur til þessa verið. Skapar það vissa festu um starfsemi hennar að vista hana hjá þeirri opinberu stofnun sem hefur eftirlit með starfsemi vátryggingafélaga. Til upplýsingar skal þess getið að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sem fjallar um ágreining sem upp kann að koma á milli viðskiptamanns og fjármálafyrirtækis, er einnig vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.

Um 142. gr.

    Í þessari grein eru fyllingarreglur um útreikning fresta samkvæmt lögunum. Rétt þykir til alls öryggis að gera tillögu að slíkri reglu en ekki þykir þörf á skýringum við hana, enda ekki um sjálfstæðar efnisreglur að ræða.

Um XXI. kafla.

    Í þessum kafla eru ákvæði um val á löggjöf sem gilda á um réttarsamband það sem stofnað er með vátryggingarsamningum. Ákvæði sama efnis eru í 61.–63. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994. Um skýringar vísast til skýringa með þeim í frumvarpi því sem síðar varð að téðum lögum. Eru ekki gerðar tillögur til breytinga á reglum þessara greina og því ekki ástæða til nýrra skýringa.

Um IV. hluta.

    Í þessum hluta eru tvær greinar, 146. og 147. gr., og lúta þær að gildistöku og brottföllnum lögum. Ákvæðin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að geta verður þess að ýmsir kostir eru um hvernig og hvenær lögin ættu að öðlast gildi, ef samþykkt verða af Alþingi. Ljóst er að vátryggingafélög verða að þjálfa nánast allt sitt starfsfólk með námskeiðshaldi o.fl. áður en þau öðlast gildi. Þá er einnig ljóst að nánast öllum vátryggingarskilmálum sem í gildi eru þarf að breyta, sumum verulega. Félögin munu þurfa að gera breytingar á hugbúnaði í tölvukerfum sínum og smíða ný forrit. Á hinn bóginn er æskilegt ef frumvarpið verður að lögum að lögin öðlist gildi svo fljótt sem kostur er. Þegar vegin eru saman þessi sjónarmið og tekið tillit til þess að óheppilegt væri að skipta gildistökunni og hafa þannig tvö kerfi af reglum í gildi er lagt til að gildistakan verði 1. janúar 2005 og hún taki þá til allra vátryggingarsamninga, bæði þeirra sem þá eru í gildi og gerðir verða, endurnýjaðir eða framlengdir eftir hana.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um vátryggingarsamninga.


    Með frumvarpi þessu er lögð til heildarendurskoðun laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954. Jafnframt eru felld inn í frumvarpið nokkur ákvæði laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, sem einkum lúta að réttarsambandi vátryggingartaka og vátryggingafélags.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.