Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 245  —  225. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á tryggingamálum verknámsnemenda.

Flm.: Hjálmar Árnason, Sigurður Kári Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að beina því til fjármálaráðherra að hann láti gera úttekt á stöðu tryggingamála nemenda í verknámi framhaldsskólastigs. Kannað verði hver staða þessara mála sé, hvort slys á nemendum í verknámi séu skráningarskyld, hver kostnaður við tryggingu sé, hver sé fjöldi nemenda í verknámi og annað er nýtast kann við slíka úttekt.

Greinargerð.


    Á nýliðnu ársþingi Iðnnemasambands Íslands kom m.a. fram að staða verknámsnemenda í starfsþjálfun væri nokkuð óviss hvað varðar tryggingar, skráningu slysa og stöðu nemenda ef til slysa kæmi. Tillaga þessi miðar að því að fjármálaráðherra láti gera úttekt á stöðu þessara mála. Kannað verði hversu margir nemendur séu í verklegri starfsþjálfun, hver tryggingastaða þeirra sé í verkþjálfun innan skólanna og eins úti á vinnustöðum. Því hefur verið haldið fram að vinnuslys nemenda í starfsþjálfun séu ekki skráningarskyld. Gengið verði úr skugga um það hvort sú fullyrðing sé rétt. Þá verði kannað hver kostnaður væri af tryggingu nemenda í starfsþjálfun og hvernig koma mætti henni við.